144. löggjafarþing — 30. fundur
 11. nóvember 2014.
um fundarstjórn.

svar við fyrirspurn.

[13:36]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir viku kvaddi ég mér hljóðs undir þessum lið til að kvarta undan því að ekki hefur borist svar við spurningu minni til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um virðisaukaskatt sem einstaklingar greiða sem er greint eftir tekjubilum og virðisaukaskattsþrepum. Forseti sagði þá að hæstv. ráðherra hefði fengið frest til 6. nóvember, sem var á fimmtudaginn, til að skila svari við þessari spurningu — sem var lögð fram 18. september.

Samkvæmt upplýsingum forseta er núna rétt rúmur hálfur mánuður í að við ræðum fjárlögin við 2. umr. Þessar upplýsingar eru afar mikilvægar undir eitt stærsta mál þess frumvarps í skattamálum hæstv. ráðherra. Ég fer þess á leit við virðulegan forseta að hann beiti sér fyrir því og standi með hv. þingmönnum hvað það varðar að svörin fari að berast.

Reyndar stendur einnig á svari um barnabætur sem hefði verið gott að hafa (Forseti hringir.) hér undir umræðum í dag um fjáraukalögin. Þeim spurningum var dreift 23. september.



[13:37]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður vekur athygli á, það skiptir máli að Stjórnarráðið bregðist skjótt við spurningum frá þinginu. Í þessu tiltekna tilviki er verið að vinna að svari. Það er miður að það skuli hafa dregist en meginástæðan fyrir því að ekki hefur verið hægt að svara innan tímafrests er hinn gríðarlegi fjöldi af fyrirspurnum sem stjórnarandstaðan, og þingið reyndar í heild, hefur borið upp við ráðuneytin. Þar hefur orðið alveg ótrúlega mikil fjölgun á fyrirspurnum og reyndar ekki dæmi þess að ráðuneytin hafi svarað jafn mörgum fyrirspurnum og komið hefur verið til þingsins fram til þessa þegar jafn stutt er liðið á þingveturinn og raun ber vitni.

Síðan er um þingmál sem eru til meðferðar í þinginu það að segja, eins og á við í þessari tilteknu fyrirspurn, að þingnefndin er líka fullbær til að taka einstök atriði til skoðunar.