144. löggjafarþing — 30. fundur
 11. nóvember 2014.
leiðrétting á forsendubresti heimilanna.

[13:53]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Á meðan eldarnir loga í velferðarkerfinu þá leikur forsætisráðherra sér í Hörpunni. Það fer vel á því að sýnt sé í Hörpunni því að með skuldaniðurfærslunni færir ríkisstjórnin tekjuhæsta fólkinu í landinu heila Hörpu að gjöf, yfir 20 milljarða kr. Það er óréttlátt og lýsir miklu skilningsleysi á stöðu þeirra heimila sem eiga í erfiðleikum og á stöðu ríkissjóðs.

Hjón með yfir 16 milljónir í árstekjur og einstaklingar í sambærilegri stöðu fá yfir 20 milljarða kr. af skattfé. En meðalniðurfærslan er 1.300 þús. kr. og það lækkar greiðslubyrði á mánuði um 7–9 þús kr. hjá innan við helmingi heimila í landinu. Ég spyr forsætisráðherra: Heldur hann því virkilega fram að 7–9 þús. kr. lækkun á greiðslubyrði á mánuði sé leiðrétting á forsendubrestinum sem heimilin urðu fyrir í skuldamálum sínum? Hefur hæstv. forsætisráðherra ekki áhyggjur af því að heimilin muni sjálf þurfa að borga þessar 7–9 þús. kr. af því að þau eru enn þá bundin við verðtrygginguna, af því að kostnaður í bankakerfinu muni hækka, vegna þess að matarskatturinn muni hækka og vaxtabæturnar minnka? Hæstv. forsætisráðherra. Er ekki eðlilegt að spurt sé á þessum degi: Hvar eru 300 milljarðarnir? Hvar er heimsmetið? Hvar eru 20%? Hvar er afnám verðtryggingarinnar? Hvar eru aðgerðirnar fyrir 110%-fólkið? Hvar eru aðgerðirnar fyrir 31 þúsund leigjendur í landinu?



[13:55]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég skal byrja á því að viðurkenna að það kom mér á óvart að sjá hv. þm. Helga Hjörvar mæta hér í dag eins og sá þingmaður hefur talað síðustu vikur, mánuði og raunar ár, eftir að niðurstöður skuldaleiðréttingarinnar voru kynntar í gær og í ljós kom að meira og minna allt sem hv. þingmaður hefur haldið fram var rangt, kolrangt. Samt mætir hv. þingmaður hér og lætur eins og hann hafi ekkert heyrt, heldur áfram með sama sönginn, sömu vitleysisupptalninguna, 300 milljarðana meira að segja. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera einn af örfáum sem trúir því að enn þá sé hægt að spinna þann blekkingarvef.

Hv. þingmaður heldur því líka fram að verið sé að færa fjármagn til þeirra tekjuhæstu og lítur þá greinilega svo á að einstaklingar sem eru með meira en 7 millj. kr. í árstekjur séu tekjuhæsta fólk landsins, en einstaklingar með minna en 7 millj. kr. í árstekjur fá 75% leiðréttingarinnar. (Gripið fram í.) En af því að hv. þingmaður fer inn á þessa braut er ekki hægt að láta hjá líða að rifja upp áhrifin af 110%-leið hv. þingmanns og félaga hans og hvernig það skiptist, fyrst við tölum um 20 milljarða. Meira en 20 milljarðar, (Gripið fram í: Bankarnir greiddu …) helmingurinn af því fjármagni sem nýttist í 110%-leiðinni fór til 1% heimila. 1% heimila fékk helming aðgerðarinnar, yfir 20 milljarða kr. Hvaða réttlæti var í því, hv. þingmaður? Hversu jöfn var skiptingin þá? Þá voru ekki áhyggjurnar af því að einhverjir sem ættu mikið eða væru tekjuháir fengju eitthvað. Að hv. þingmaður skuli mæta hér í dag og leyfa sér að halda áfram með vitleysisupptalningu sem hann hefur verið með hér undanfarna mánuði og hefur nú komið í ljós að er alröng að öllu leyti, er því með hreinum ólíkindum.



[13:57]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Mér fer líkt og sumum fjölmiðlamönnum að ég geri þau mistök að ætlast til þess að hæstv. forsætisráðherra svari spurningum. Hann var spurður að þessu: Meðalskuld lækkar um 1.300 millj. kr. Það þýðir hjá innan við helmingi heimila í landinu að afborgun á mánuði lækkar um 7–9 þús. kr. Heldur hæstv. ráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson því fram í fúlustu alvöru að 7–9 þús. kr. á mánuði fyrir innan við helming heimila í landinu sé leiðrétting á forsendubrestinum sem þau urðu fyrir í hruninu? Og hefur forsætisráðherra ekki áhyggjur af því að verðbólgan með verðtryggingunni muni aftur hækka lánin hjá fólkinu? Að matarskatturinn muni hækka útgjöld þess? Að minni vaxtabætur muni éta upp af þessum 7–9 þús. kr.?

Virðulegi forseti. Skemmst frá sagt, er ekki hættast við því að það séu skattgreiðendur sem muni sjálfir bera þetta? Og er ekki munurinn á 110%-leiðinni og Hörpugjöfinni (Forseti hringir.) sú að 20 milljarðarnir koma (Forseti hringir.) núna úr ríkissjóði? (Gripið fram í.) (SSv: Úr ríkissjóði.)



[13:59]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður heldur bara áfram að grafa. Hann getur ekki sætt sig við að það sem hann hefur haldið fram hér undanfarna mánuði hafi allt reynst rangt og telur að með því að endurtaka það eina ferðina enn geti hann látið eins og hann hafi ekki heyrt leiðréttingu á öllum sínum fullyrðingum.

Hvað varðar hins vegar spurningu hv. þingmanns um hvort ekki sé hætta á því að verðbólgan éti upp leiðréttinguna bendi ég hv. þingmanni á að kynna sér þá kynningu sem hann vísaði í og var sýnd í gær þar sem kemur einmitt fram að ef svo óheppilega vill til að verðbólga fari einhvern tímann aftur á skrið á Íslandi er þeim mun mikilvægara að búið sé að ráðast í þessa leiðréttingu, vegna þess að þá mun hún skipta enn þá meira máli við að gera fólki kleift að takast á við þann vanda sem steðjar að.

Af því hv. þingmaður heldur áfram að telja upp hin ýmsu atriði sem hann telur að rýri kjör heimilanna minni ég á það aftur, hæstv. forseti, að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, ekki bara þessi aðgerð (Forseti hringir.) heldur fjölmargar aðgerðir, (Forseti hringir.) hafa aukið kaupmátt íslenskra heimila meira en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu, (Forseti hringir.) kaupmátturinn mun halda áfram að aukast og aðgerðir, (Forseti hringir.) bæði í skattamálum og annars staðar, munu enn bæta kjörin.