144. löggjafarþing — 30. fundur
 11. nóvember 2014.
aðgengi að upplýsingum.

[14:00]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í aðgengi að upplýsingum. Það eru þrjú atriði sem mig langar að nefna, þar á meðal aðgengi almennings að ópersónugreinanlegum upplýsingum og gögnum sem liggja til grundvallar þessari skuldaleiðréttingu. Mun almenningur fá aðgengi að þeim, þ.e. öllum gögnum sem liggja til grundvallar, þannig að þeir sem áhuga hafi geti farið að rekja sig í gegnum það á hvaða grunni hún er byggð.

Í öðru lagi er aðgengi almennings að skilmálum Landsbankabréfsins sem er stærsta skuldabréf banka sem er nánast alfarið í eigu ríkisins. Það segir í upplýsingalögum að við eigum að hafa aðgengi að upplýsingum frá fyrirtækjum sem eru yfir 50% í eigu ríkisins nema það séu einhverjar undanþágur. Þetta er skuldabréf sem er stærsta einstaka skuldabréfið þarna og sambærileg skuldabréf í öðrum bönkum á Íslandi eru aðgengileg á vefsíðu þeirra banka. Þetta er mjög óeðlilegt fyrirkomulag. Nú á að fara að endursemja um þetta skuldabréf þannig að það væri eðlilegt að við fengjum að vita hvað stendur í því og hverjir skilmálarnir eru.

Í þriðja lagi er aðgengi þingmanna að upplýsingum til að geta unnið breytingartillögu við tekju- og útgjaldafrumvörpin sem ráðherra hefur lagt fram. Í þingsköpum eru þau sérstaklega nefnd, að þau skuli lögð fram fyrst, og þingmönnum er í 46. gr. þingskapa gefin heimild til að leggja fram breytingartillögur við öll frumvörp.

Það er erfitt að fá aðgengi að upplýsingum frá ráðuneytunum til að geta unnið nokkra breytingartillögu. Ég hef lagt mig fram, ég byrjaði í september og byrjaði raunar að reyna það í gegnum upplýsingasvið Alþingis. Það vísaði mér á ráðuneytið, það tafðist og tafðist. Ég fékk á endanum eitthvað frá skattanefndinni en þá var mér vísað annað: Þú verður að tala við aðra deild innan fjármálaráðuneytisins. Það ætla ég að gera á morgun, að tala við ráðuneytisstjórann. En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra hvort hann vilji ekki greiða götu mína og tryggja að þingmenn fái aðgang að góðum upplýsingum til að geta unnið þessa breytingartillögu við frumvarp hans.



[14:02]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég hef ekki önnur svör fyrir hv. þingmann en þau hvað varðar aðgengi almennings að gögnum, hvort sem er gögnum sem unnin voru í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna eða hvað varðar skilmála Landsbankabréfsins, að um það mun bara fara að lögum.

Við gerum okkur væntanlega öll grein fyrir því að í skuldaaðgerðunum eru undir gríðarlega stórir gagnagrunnar og eftir því sem spurningar verða nákvæmari þarf frekar að huga að persónuvernd. Ég vonast þó til þess að hægt verði að svara beiðnum um upplýsingar og reyndar höfum við búið þannig um hnútana að við viljum gefa sem allra gleggsta mynd af heildaráhrifunum. Ég vonast til þess að kynningin sem birt var í gær sé til vitnis um það að menn vilja virkilega veita sem bestar upplýsingar. Taka verður á því sem upp á vantar eftir því hvernig fyrirspurnin liggur. Hið sama gildir með skilmála Landsbankabréfsins, mér er ekki kunnugt um það, svo ég segi það alveg eins og er, hvort það er raunhæft að skilmálar þess bréfs eða það bréf í heild sinni sé gert aðgengilegt fyrir almenning.

Varðandi útreikninga til grundvallar breytingum á tekju- og útgjaldafrumvörpum þeim sem liggja fyrir þinginu, mun ráðuneyti mitt gera sitt allra besta til að aðstoða þingið eða þingmenn. En það verður að segjast eins og er að starfsmenn ráðuneytisins hafa nóg á sinni könnu nú þegar við að vinna þau mál sem eru unnin innan ráðuneytisins og eflaust dálítið erfitt að bæta því við sem þingið kallar eftir. (Forseti hringir.) Menn munu þó gera sitt besta og það ætti kannski að vera til umhugsunar fyrir þingið hvort hér þurfi líka að byggja upp getuna á nefndasviðinu til að vinna enn frekar að málum á borð við það sem hv. þingmaður vekur máls á.



[14:05]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Í sambandi við þessi fyrstu tvö atriði, Landsbankabréfið og aðgang að upplýsingum varðandi skuldaleiðréttinguna, spyr ég hvort hæstv. ráðherra sé ekki sammála því að þetta sé eitthvað sem vinna þurfi að, að gera hlutina og setja gögnin þannig að auðvelt sé að gera þau aðgengileg; annars þarf að fara í alls konar vinnu. Önnur ríki hafa gert þetta.

Lagt hefur verið fram þingmál af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þess efnis að fjármál hins opinbera verði gerð aðgengileg. Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að það sé sú vegferð sem við eigum að fara í og setja svolítinn fókus á? Það mun þá aftur spara mörg mannsverk í alls konar upplýsingaöflun.

Varðandi aðgengi þingmanna að upplýsingum til að vinna breytingartillögu: Staðan er sú, bara svo að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því, að nefndarritari í fjárlaganefnd þarf að handpikka inn í excel-skjal allar tölurnar úr frumvörpum hæstv. ráðherra og þarf að sannreyna þær og athuga hvort þær séu réttar í staðinn fyrir að (Forseti hringir.) upplýsingar af þessu tagi komi bara beint frá ráðuneytinu. Það mundi þýða að þingmenn gætu unnið vinnuna sína betur og þyrftu minna að leita til ráðuneytisins með alls konar fyrirspurnir.



[14:06]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Til að svara fyrri fyrirspurninni þá er ég sammála hv. þingmanni um að við eigum að vera með opna og gegnsæja stjórnsýslu og leggja okkur fram um að gera almenningi auðvelt að glöggva sig á gögnum eða öðrum upplýsingum sem er að finna í stjórnsýslunni.

Á móti síðan vega persónuverndarsjónarmið og í ákveðnum tilvikum þarf af sérstökum ástæðum að gæta trúnaðar og ekki er unnt að upplýsa um allt.

Varðandi aðstöðuna í þinginu — já, þetta er til umhugsunar fyrir okkur öll og spurningin hér undirliggjandi: Hvernig getum við styrkt þingið til að það geti betur rækt sitt hlutverk? Þetta er þó að minnsta kosti talsverð framför frá þeim tíma þegar nefndarmenn þurftu sjálfir að rita allar fundargerðir og nefndarálit voru meira eða minna handskrifuð og vélrituð í framhaldinu. Við höfum að minnsta kosti stórlega styrkt nefndasviðið en þau mál sem hv. þingmaður vísar hér í eru býsna (Forseti hringir.) flókin í meðferð og ekki auðvelt að láta reyna á allar hugmyndir um breytingar á tekju- og útgjaldahlið fjárlaganna þannig að hægt sé að framkalla svarið samdægurs.