144. löggjafarþing — 31. fundur
 12. nóvember 2014.
skuldaleiðrétting, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:42]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Oft er bæði ánægjulegt og áhugavert að taka þátt í umræðu hér á Alþingi þar sem skipst er á skoðunum um landsins gagn og nauðsynjar. Af mörgum skemmtilegum stundum hér á þingi með stjórnarandstöðunni þykir mér líklegt að þessi muni standa upp úr. Aldrei hefur verið jafn gaman að ræða um skuldamál heimilanna og einmitt nú þegar leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána hefur verið birt landsmönnum. Ég hlakka til fleiri slíkra stunda á næstu missirum þegar önnur stór mál sem varða heimilin í landinu miklu verða til lykta leidd.

Byrjum á byrjuninni, virðulegur forseti. Árið 2009: Á Íslandi voru einstakar aðstæður á þeim tíma til að takast á við bankahrunið og fjármálakreppuna. Hefðu þáverandi stjórnvöld borið gæfu til að nýta sér þær aðstæður hefði losnað um það kreppuástand sem ríkti hér allt of lengi miklu fyrr.

Í kreppum geta falist tækifæri og þá þarf að hugsa í lausnum. Lausnin í þessu tilviki lá í því að landið hafði að miklu leyti verið afskrifað efnahagslega. Það er kannski tækifæri til að nýta þá staðreynd til að leiðrétta stöðu landsins og heimilanna. Bent var á að íslenska ríkið ætti að kaupa kröfur á hina föllnu banka og færa ætti niður skuldir heimilanna í ljósi þess að verðmæti þeirra hefði þegar verið afskrifað að verulegu leyti. Hvorugt var gert. Um tíma leit út fyrir að tækifæri til að koma til móts við heimili með verðtryggð fasteignalán hefði farið forgörðum. Með útsjónarsemi og mikilli vinnu fjölda fólks hefur nú tekist að snúa við stöðu sem virtist um tíma töpuð og ná bestu mögulegu niðurstöðu. Verkefnið hefði að sönnu verið einfaldara árið 2009 en það er í dag og hefði jafnvel haft enn meiri áhrif, en við skulum láta það liggja milli hluta. Ný ríkisstjórn tók við vorið 2013.

Fyrsta fyrirsögnin í stefnuyfirlýsingunni segir allt sem segja þarf um áherslur ríkisstjórnarinnar, það er kaflinn um heimilin. Þar segir:

„Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins.

Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða.

Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.“

Þetta var kaflinn úr stjórnarsáttmálanum um stöðu heimilanna og mikilvægi þess að ráðast í þær aðgerðir sem nú eru komnar í framkvæmd.

Það var í lok júní árið 2013, aðeins mánuði eftir að ríkisstjórnin tók við, að Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu í tíu liðum um umfangsmiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Í lok maí á þessu ári, tæpu ári eftir að Alþingi samþykkti tillöguna, sendi forsætisráðuneytið út fréttatilkynningu um að búið væri að samþykkja lög eða koma málum í farveg í tengslum við öll verkefni þingsályktunarinnar. Alþingi hefur sett sex lög í tengslum við umrædda þingsályktun:

1. Um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána.

2. Um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

3. Um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.

4. Um flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldavanda heimilanna.

5. Um stimpilgjöld.

6. Um upplýsingar til Hagstofunnar frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila.

Afnám verðtryggingar og framtíðarskipan húsnæðismála eru tvö umfangsmikil verkefni sem tengjast sterkum böndum. Stefnumótun liggur fyrir og verður áfram unnið að því að koma þeirri stefnumótun í framkvæmd. Þannig hefur ríkisstjórnin samþykkt áætlun um vinnu við afnám verðtryggingar á nýjum neytendalánum. Þá hefur félags- og húsnæðismálaráðherra kynnt ítarlegar tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála.

Afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum er mér afar hugleikið efni sem skiptir heimilin í landinu miklu. Samkvæmt samþykktri áætlun ríkisstjórnarinnar eru næstu skref í vinnu við afnám verðtryggingar eftirfarandi:

Í fyrsta lagi mun fjármála- og efnahagsráðuneytið hafa umsjón með vinnu við að óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að tíu ár og að takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána. Þetta mál verður flutt á vorþingi.

Í öðru lagi mun velferðarráðuneytið hafa umsjón, í framhaldi af skýrslu verkefnisstjórnarinnar um framtíðarskipan húsnæðismála, með aðgerðum til að auka hvata til töku og veitingar óverðtryggðra lána.

Í þriðja lagi hefur forsætisráðuneytið skipað starfshóp um leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir á vöru og þjónustu og tenging ýmissa skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu.

Í fjórða lagi hefur ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna skipað verðtryggingarvakt til að tryggja samfellu í framgangi áætlunar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum.

Stór verkefni eins og afnám verðtryggingar og framtíðarskipan húsnæðismála eru verkefni sem taka tíma og krefjast þolinmæði, enda verða aðstæður að vera hagfelldar svo að ekki verði lögð veruleg fjárhagsleg áhætta á heimilin. Flest bendir til að hagstæðar aðstæður séu að skapast til þessara verka þó að vissulega séu blikur á lofti, t.d. vegna óvissu um kjarasamninga.

En víkjum þá að leiðréttingunni. Leiðréttingin færir verðtryggð lán heimilanna í þá stöðu sem þau hefðu verið í ef óvænt og mikil verðbólga hefði ekki sett skuldastöðu heimilanna í uppnám á árunum 2008 og 2009, en þetta mikla verðbólguskot einskorðaðist við þau ár. Á þessum tíma var mikið ójafnvægi í íslenskum þjóðarbúskap. Gengi íslensku krónunnar hrapaði. Verðbólga fór úr böndunum, eignaverð hrundi og samdráttur varð í landsframleiðslu. Verðbólga hefur áður farið úr böndunum á Íslandi og gengið fallið, en það sem skilur forsendubrestinn frá öðrum verðbólgutímabilum eru þættir sem tengjast fylgifiskum fjármálakreppa, svo sem þróun launa, kaupmáttar og eignaverðs.

Leiðréttingin er að sönnu óhefðbundin aðgerð til að bæta hag heimila, en stjórnvöld og seðlabankar fjölmargra ríkja beittu sér fyrir óhefðbundnum og fordæmalausum aðgerðum í fjármálakreppunni til að draga úr hættu á langvarandi stöðnun. Gríðarleg inngrip Seðlabanka leiddu til mikilla vaxtalækkana, víða á Vesturlöndum hagnaðist yngra og skuldsettara fólk vegna lægri vaxta á húsnæðislánum en eldra fólk og fjármagnseigendur töpuðu vöxtum sem þeir ella hefðu fengið. Leiðréttingin er réttlætismál. Ólík lánsform með ófyrirsjáanlegri áhættu eiga ekki að ákvarða örlög heimila. Sá stóri hópur sem var með hefðbundin verðtryggð lán en gat ekki nýtt sér 110%-leiðina hefur legið óbættur hjá garði þar til nú.

Helstu stærðir í leiðréttingunni eru orðnar vel þekktar í fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga. Meðaltal leiðréttinga á umsækjanda er 1.350 þús. kr. Samtals hafa þegar um 91 þús. manns fengið staðfestingu á því að þeir eigi rétt á leiðréttingu. Ég hvet þingmenn og aðra landsmenn til að skoða vel ítarleg kynningargögn um leiðréttinguna sem er að finna á heimasíðum forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Ég er sérstaklega ánægður með tekjudreifingu leiðréttingarinnar. Hún sýnir að leiðréttingin er fyrst og fremst aðgerð sem nýtist fólki með lágar tekjur og millitekjur. Einstaklingur með 330 þús. kr. í mánaðartekjur er tíðasta gildi í leiðréttingu, en meðalheildarlaun á íslenskum vinnumarkaði voru 526 þús. árið 2013.

Ég hef tekið eftir því að stjórnarandstaðan hefur sett fram í umræðunni síðustu daga fullyrðingar um að einstaklingar með laun um eða yfir meðaltekjum hljóti að teljast hátekjufólk. Það er vissulega athyglisvert sjónarmið að telja að allir sem eru með meira en meðaltekjur séu hátekjufólk. Hins vegar ber á það að líta að fólk með yfir 1 milljón á mánuði fær minna en 4% leiðréttingarinnar. Ég endurtek: Minna en 4%. Það er allsendis ólíkt því sem var í 110%-leiðinni.

Hæstv. forseti. Leiðréttingin tengist uppgjöri slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Verja skal hluta af fyrirsjáanlegu svigrúmi sem myndast við uppgjörið til að koma til móts við heimilin. Þar sem meira liggur á leiðréttingunni en uppgjöri slitabúa er bilið brúað með aðkomu ríkissjóðs. Svigrúmið er hins vegar þegar byrjað að myndast fyrir milligöngu ríkisins, en slitabúin greiða nú tugi milljarða í skatta árlega. Ekki má gleyma því að þessi ríkisstjórn er að skapa þetta svigrúm með markvissum aðgerðum.

Leiðréttingin er einungis fyrsta stóra aðgerðin af mörgum sem ríkisstjórnin hyggst innleiða á kjörtímabilinu í því skyni að skapa heilbrigðara umhverfi, bæði heimila og fjármálamarkaðar. Losun fjármagnshafta, afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum, uppbygging húsnæðiskerfisins og endurskipulagning Íbúðalánasjóðs eru mikilvægar vörður á þeirri leið. Þannig munu öll heimili, óháð fjölskyldugerð og láns- eða leiguformi, njóta góðs af breytingunum.

Heimilin í landinu eru hornsteinn samfélagsins. Með því að skila fjármagni til heimilanna sem urðu fyrir ófyrirséðu tjóni mun þessi umfangsmikla leiðrétting ekki aðeins bæta stöðu tugþúsunda heimila með beinum hætti heldur einnig samfélagsins alls.



[15:54]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessum skuldaaðgerðum eins og öðrum er margt gott að finna en því miður líka margt mjög ósanngjarnt og sannarlega er þetta ljósárum frá því sem Framsóknarflokkurinn lofaði fólkinu í landinu. Rúmlega helmingur heimila í landinu fær ekki neitt og innan við helmingurinn fær að meðaltali rúmlega 8 þús. kr. lækkun á afborgun á mánuði. Hver maður sér að það er ekki leiðrétting á forsendubrestinum sem varð í hruninu. Það er ekki upprisa millistéttarinnar, það eru engir 300 milljarðar, það eru ekki 20%, það gaman er hvergi að finna.

Við skulum byrja á því sem gott er í aðgerðum. Við í Samfylkingunni sögðum í kosningabaráttunni að enn væri óbættur verðtryggði hópurinn sem keypti á árunum 2004–2009. Við vildum verja allt að 60 milljörðum kr. til að leiðrétta stöðu þess fólks.

Umtalsverður hluti niðurfærslunnar sem nú er ráðist í gerir einmitt það og ég fagna þeim hluta aðgerðarinnar. Við sáum hins vegar ekki forsendubrest hjá þeim sem keyptu eignir fyrir þann tíma því að þar hefur fasteignaverð almennt hækkað meira en lánin hafa hækkað og við töldum aldeilis fráleitt að fólk sem á miklar eignir fengi framlög úr ríkissjóði á þessum erfiðu tímum. Við gerðum breytingartillögu við frumvarp ríkisstjórnarinnar þar að lútandi sem komið hefði í veg fyrir að hjón með yfir 30 millj. kr. í hreinni eign hefðu fengið nokkra leiðréttingu. Þá fjármuni sem hefði mátt spara með því að takmarka aðgerðina með eðlilegum aðgerðum, þ.e. að þeir sem ekki hafa orðið fyrir forsendubresti og þeir sem eiga miklar hreinar eignir og þurfa ekki framlög úr ríkissjóði fengju ekkert. Þá hefðum við getað notað tugi milljarða í aðgerðir í húsnæðismálum fyrir leigjendur, fyrir Landspítalann og velferðarkerfið yfir höfuð. Það er einmitt það sem er ósanngjarnast í útfærslu ríkisstjórnarinnar á nauðsynlegum skuldaaðgerðum, að 30 þús. heimili á leigumarkaði sem sannarlega urðu fyrir forsendubresti þar sem húsaleigan hækkaði verulega með verðbólgunni sem fylgdi hér í hruninu fá ekki neitt og þó eru það þau heimili sem eiga erfiðast í landinu. En á sama tíma er pínlegt að hlusta á opinbera umræðu þar sem auðmenn taka við framlögum úr ríkissjóði og gefa peningana áfram og stjórnarliðar, sem felldu sjálfir þá tillögu að það væru eignamörk í þessari aðgerð, að sett væru takmörk fyrir því hversu háar tekjur fólk gæti haft, hversu miklar eignir það gæti átt til að fá þessi framlög, telja sér sæmandi að gagnrýna þessa auðmenn. Á erfiðum tímum í íslenskum þjóðarbúskap þegar ríkissjóður er gríðarlega skuldsettur og velferðarkerfið hefur átt við mikinn vanda að stríða er algerlega óábyrgt að gefa gríðarlegar fjárhæðir stórum hópum sem ekki þurfa á því að halda.

Ég vek athygli á því í þessu sambandi að samkvæmt glærusýningu ríkisstjórnarinnar sjálfrar fara 30% af aðgerðinni til hjóna sem eiga yfir 25 millj. kr. í hreinni eign í íbúðarhúsnæði sínu og til einstaklinga í sambærilegri stöðu.

En aðeins um vanefndir Framsóknarflokksins. Hvert var meginloforð flokksins í skuldamálum heimilanna? Það var það sem forsætisráðherra nefndi áðan, afnám verðtryggingarinnar. Hvar er það statt? Hvergi. Fjármálaráðherra lýsti því yfir á Stöð 2 í fyrrakvöld að hann talaði ekki fyrir afnámi verðtryggingar á neytendalánum. Málið var sett í nefnd. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að afnema ekki verðtrygginguna. Hver er hættan af þessari skuldaaðgerð? Hún er sú að hún auki á þenslu í samfélaginu, valdi verðbólgu og vegna þess að skuldsett heimili eru enn þá föst í viðjum verðtryggingarinnar muni fólk þurfa að greiða sjálft drjúgan hluta af 8 þús. kr. lækkun á afborgunum með hækkun á lánunum sínum.

Um forsendubrestinn er þetta að segja: Ég hygg að margir kannist við töluna 20%. Sú leiðrétting sem hér er á ferðinni er 80 eða 100 milljarðar, eftir því hvort menn vilja telja séreignarskattinn með. Það eru 4–5% af heildarskuldum heimilanna. Ef við tökum aðeins fasteignaskuldir heimilanna eru það 7% af fasteignaskuldum heimilanna. Er það óðaverðbólgan sem varð eftir hrun? Nei, sannarlega ekki. Ætli það muni það ekki flestir að hún var miklu nær því að vera tæp 20% en þessi 7%? Þess vegna er þessi millitala miklu lægri en sú sem lofað var. Við það bætist síðan að það er allt saman dregið af því fólki sem fór í gegnum þessar aðgerðir. Framsóknarflokkurinn talaði fjálglega fyrir kosningar um fólkið sem er í yfirskuldsettum eignum og hafði farið í gegnum 110%-leiðina. Framsóknarflokknum fannst ekki nóg að gert fyrir það fólk en í þessari aðgerð gerir hann ekkert fyrir það. Þetta er einmitt verst setta fólkið, fólkið sem skuldar allar eignir sínar. En á sama tíma er fjármunum ráðstafað til fólks sem borgar til að mynda auðlegðarskatt — eða borgaði auðlegðarskatt vegna þess að réttlæti þessarar ríkisstjórnar er þannig að hún léttir ekki bara auðlegðarskattinum af þeim sem greiddu hann í ríkissjóð heldur ætlar hún líka að greiða þeim fé í gegnum skuldaleiðréttingu.

Meðallækkunin á þær fjölskyldur sem þessa njóta er 1.300 þúsund. Kannski eigum við ekki að vera að karpa um það hvort þetta séu efndir á loforðunum. Samkvæmt upplýsingum Íbúðalánasjóðs er meðalafborgun af 1.300 þúsund kr. í lánasafni Íbúðalánasjóðs 8 þúsund og eitthvað kr. á mánuði. Þeirrar lækkunar mun fólk njóta núna í rúmlega tvö ár af kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar. Það eru þá að meðaltali liðlega 200 þús. kr. sem hver fjölskylda sem þessa nýtur er með í lægri greiðslubyrði á þessu kjörtímabili, rúmlega 200 þús. kr. í lægri greiðslubyrði á þessu kjörtímabili í tíð þessarar ríkisstjórnar. Bara sérstöku vaxtabæturnar árið 2011 voru 300 þús. kr. á hjón og 200 þús. kr. á einstakling. Bara sú eina aðgerð hafði a.m.k. jafn mikil áhrif á greiðslubyrði skuldugra heimila og þessi aðgerð mun hafa á þessu kjörtímabili. Metið? Ja, sannarlega eru þetta svipaðar fjárhæðir og varið var í beinar aðgerðir á síðasta kjörtímabili en við það bættust gengislánadómarnir og lögin sem stundum voru kölluð Árna Páls-lögin. Þá voru aðgerðirnar líklega komnar á þriðja hundrað milljarða fyrir utan allar frjálsar afskriftir sem urðu í bankakerfinu sjálfu.

Það sem er þó kannski mesta áhyggjuefnið núna er að það sé ætlun ríkisstjórnarinnar að láta heimilin í landinu sjálf borga þessa skuldaniðurfærslu með því að lækka lán heimilanna um 5% en hækka á sama tíma matarverð í landinu um 5% með hækkun á matarskatti og með því að minnka vaxtabætur um 14 milljarða kr. frá því sem var árið 2011, fyrir utan þann aukna kostnað sem verða mun af bankaskattinum í bankakerfinu, því að öll vitum við nú af reynslu að skattgreiðslur sínar reyna fjármagnseigendur að ná í með aukinni gjaldtöku í því ágæta kerfi.

En um leið og við förum í gegnum þessi atriði vil ég undirstrika mikilvægi þess að menn átti sig á þeirri erfiðu stöðu sem þau heimili eru í sem skilin eru eftir í þessum aðgerðum, þau 30 þús. heimili á leigumarkaði sem sannarlega urðu fyrir forsendubresti og líka þau heimili sem fóru í gegnum 110%-leiðina og fá hér ekki neitt. Þegar farið er yfir hversu skammt er farið inn í loforðin sem fólki voru gefin þá segir stjórnarmeirihlutinn iðulega: Hvað með séreignarsparnaðinn? Jú, fólki gefst kostur á því að spara í séreignarsparnaði og þannig getur það bætt sér upp áfallið sem það varð fyrir í hruninu.

Virðulegi forseti. Þessar yfirlýsingar lýsa miklu skilningsleysi á stöðu skuldugra heimila og þeim sem eru í erfiðleikum. Það er í raun og veru eins og að segja: Já, en af hverju borðar fólkið ekki kökur? Til þess að spara í séreignarsparnaði, virðulegir þingmenn stjórnarmeirihlutans, þarf maður að eiga peninga, maður þarf að eiga eitthvað afgangs. Maður þarf að hafa ráð á því að leggja inn á úrræðin og því miður eru það bara 30 þús. heimili eða innan við það, innan við fjórðungur heimila í landinu, sem sótt hafa um það úrræði, síðast þegar ég vissi. Og það er hætt við því að verulegur hluti af þeim sé einmitt þau heimili eða fjölskyldur sem ekki eru í greiðsluvanda, sem ekki eiga í verulegum erfiðleikum með að ná endum saman í hverjum mánuði, heldur hafa þvert á móti efni á því að nýta sér séreignarsparnaðarleiðina. Það er enn eitt sárgrætilega atriðið við óréttlætið í tillögunum að þar ræðst það líka af því hversu háar tekjur maður hefur, hvort maður getur nýtt sér skattaeftirgjöfina úr ríkissjóði. Þeir sem hafa mestar tekjur fá mestu eftirgjöfina úr ríkissjóði en þeir sem hafa litlar tekjur, hvað þá þeir sem hafa lífeyristekjur eða eru námsmenn eða aðrir slíkir, geta lítið eða ekkert nýtt sér þessi framlög úr ríkissjóði.

Virðulegur forseti. Það er réttlæti á hvolfi. Um leið og maður fagnar þeim fjölda heimila sem sannarlega fær framlög úr þessum aðgerðum sem þörf er á, þá er allt of ómarkvisst hér að verki staðið og allt of miklum fjármunum sóað til fólks sem ekki þarf á framlögum úr ríkissjóði að halda.



[16:06]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill taka fram að ræður hv. þingmanna eru tímamældar í samræmi við þær áætlanir sem þingflokkar hafa gefið forseta. Forseti stöðvar þó ekki ræður hv. þingmanna þó að þeir fari fram yfir umsaminn tíma en þá dregst sá tími sem rætt er umfram það sem umsamið var frá öðrum þingmönnum í sama þingflokki.



[16:07]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vona að þessar gagnmerku upplýsingar hafi ekki verið fluttar sérstaklega í tilefni þess að ég væri að koma í ræðustólinn.

Síðan vildi ég gjarnan að hæstv. forsætisráðherra og málshefjandi væri hérna í salnum. Hann bar sig vel og víst má hann reyna að njóta dagsins en ekki gat hann samt stillt sig um að hnýta í þá sem á undan honum fóru með völdin í landinu og eins og venjulega höfðu þeir gert flest vitlaust sem hægt var að gera vitlaust.

Ég hef áður heyrt forsætisráðherra halda þessa ræðu við einstaka tækifæri, kjöraðstæðurnar sem voru til staðar 2009 til að virkilega laga stöðu heimilanna á Íslandi. Þá var sko aldeilis leikurinn léttur, að alveg svoleiðis moka fé úr ríkissjóði í almenning í landinu. Var það ekki? Jú.

Hvernig var staðan? Hallinn á ríkissjóði var 217 milljarðar á þágildandi verðlagi árið 2008. Stefndi í 170–200 milljarða halla á árinu 2009. Ísland rambaði á barmi gjaldþrots. Við vorum inni í svartholi gríðarlegra efnahagsáfalla sem mjög lítið lá þá fyrir um hvernig landinu gengi að krafla sig út úr. Hvað átti að gera þá? segir forsætisráðherra Íslands í dag. Það átti að breyta ríkissjóði í vogunarsjóð og hefja uppkaup á kröfum í fallin þrotabú, já. Alveg rakið mál. Breyta ríkissjóði Íslands sem var fallinn niður í ruslflokk í lánshæfismati og umheimurinn reiknaði með að væri að fara á hausinn þannig að algengasta spurning erlendra blaðamanna var: Verður gjaldþrot á Íslandi, verður þjóðargjaldþrot á Íslandi? Nei, þá áttum við að breyta ríkissjóði í vogunarsjóð, kaupa upp kröfur og moka hundruðum milljarða út í einkaskuldir. Þvílíkur málflutningur. Það fer hrollur um mann ef þetta er virkilega í alvöru sem svona er talað, ábyrgðarleysisóráðshjal af þessu tagi.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég nefna það að við höfum heyrt af því, fengið af því fréttir að það eigi að flýta framkvæmd þessarar aðgerðar í þeim skilningi að það eigi að borga hraðar úr ríkissjóði fé inn á biðlánin eða leiðréttingarhluta lánanna sem færður verður á sérstaka reikninga, jafnvel 40 milljarða strax á þessu ári. Fyrir því er ekki fjárheimild. Það var lögð á það rík áhersla hér í fyrra af aðstandendum aðgerðarinnar að þetta væri alltaf háð fjárheimildum frá Alþingi á hverju ári og aðgerðin byggð á því.

Þá vil ég spyrja, og ef hæstv. forsætisráðherra hefðist hér í salinn væri mín spurning til hans eða hæstv. fjármálaráðherra eða stjórnarliða, formanns og varaformanns fjárlaganefndar, sem vantar nú ekki heilagleikann í þegar talað er um góðar reglur í ríkisfjármálum: Fóru útreikningar lánanna fram á öðrum grundvelli en þeim er fjárheimildir standa til í lögum? Er búið að taka það inn í útreikningana að ríkið borgi 40 milljarða inn á þessu ári en ekki 20? Á grundvelli hvaða fjárheimildar?

Síðan er okkur sagt að batnandi afkoma ríkisins í ár eigi að réttlæta þetta, því að það verði svo mikill afgangur á ríkissjóði. Hvernig á að mynda þann afgang að stærstum hluta? Með því að lækka eigið fé Seðlabanka Íslands og færa það sem arðgreiðslu í ríkissjóð. Það á að skila 26 milljörðum. En þessi ráðstöfun er ekki heimil samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands, þannig að það vantar líka lagastoð fyrir því að gera ríkið upp á þennan hátt á þessu ári. Ég fæ því ekki betur séð en að það vanti lögheimildir í tveimur tilvikum til þess að réttlætanlegt sé að reikna aðgerðirnar út á þeim grunni að minna af 80 milljörðunum fari í vaxtakostnað og meira í niðurfærslu höfuðstóls.

Hvert er þá fjárveitinga- og fjárstjórnarvald Alþingis farið og lagasetningarvald? Mér finnst þetta vera mikið umhugsunarefni ef menn umgangast það sem þeir þykjast ætla að virða með léttúðugum hætti. Og hvað segja þeir stjórnarþingmenn sem meðal annars skutu sér á bak við þetta, að þetta væri í því örugga skjóli að Alþingi þyrfti alltaf á hverju ári að samþykkja fjárheimildirnar og það væri hægt að vinda ofan af aðgerðinni inni í framtíðinni ef þær fjárheimildir yrðu ekki veittar, ef tekjustofninn brygðist eða eitthvað færi úrskeiðis? Nú er ríkisstjórnin, ekki inni á Alþingi, ekki í gegnum ákvarðanir hér heldur úti í bæ, búin að ákveða að gera þetta allt öðruvísi en hún kynnti og lagði fyrir Alþingi í fyrra og fékk samþykkt. Er mönnum alveg sama um það? Hvernig var þetta kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna? Var valdaður þingmeirihluti fyrir þessu hvoru tveggja áður en reikniverkið var sett í gang? Hvað segir hv. þm. Pétur H. Blöndal? Samþykkti hann það í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að aðgerðin yrði allt önnur en lögin heimila í dag, og vantar á tveimur stöðum heimildir í lögum til að útfæra aðgerðina með þeim hætti sem manni skilst að hafi samt verið gert?

Af hverju hlýtur það að hafa verið gert þannig? Jú, vegna þess að það er búið að birta útreikningana, það er búið að ræsa reikniverkið og þá hljóta menn að hafa gefið sér forsendur fyrir því hversu mikið af 80 milljörðunum færi í vaxtakostnað á árunum 2015 og 2016, mun minna en ef aðgerðin hefði dreifst á fjögur ár, og fært þær fjárhæðir yfir í það sem kemur í frádráttarliðina og lækkun höfuðstóls, því að annars gengi reikniverkið ekki upp.

Herra forseti. Ég vil í öðru lagi gagnrýna það að haldið hefur verið fram mjög villandi upplýsingum um kostnað hins opinbera vegna þessara aðgerða. Áróðursmeistarinn hefur örugglega verið á þokkalegum launum í Hörpunni við að matreiða þar alveg ótrúlega ósvífna framsetningu þar sem tölur um það hvað höfuðstóll lækkaði mikið yfir líftíma lána voru ýktar með því að sleppa frádráttarliðunum. Svo stóð það neðanmáls nánast á ólæsilega smáu letri að þessi dæmi væru án frádráttarliða. En þetta var selt þjóðinni. Ég held að hún hafi ekki verið með stækkunargler á skjánum til að sjá: Heyrðu, bíddu, þetta er aðeins fegruð mynd. En þannig var það. Þetta er ósvífið. Þetta var eins fjarri hlutlægri og vandaðri faglegri kynningu og nokkuð gat verið og þeir fengu mikinn snilling í þetta.

Kostnaður vegna þessara aðgerða, eins og lesa má um til að mynda í nefndaráliti bæði 3. og 4. minni hluta þegar málin voru hér til umfjöllunar á síðasta ári, er alltaf stórlega vanmetinn þegar talað er um þetta. Það var talað um 80 milljarða plús 20 vegna séreignarsparnaðarins. Ekki minnst á kostnað Íbúðalánasjóðs. Hvað tókst að særa út um það á grundvelli upplýsinga frá Íbúðalánasjóði sjálfum? Jú, að það gætu orðið allt að 24 milljarðar sem skellurinn yrði á Íbúðalánasjóð. Ekki minnst á það. Það vantar að reikna með ávöxtun á inngreiddu fé í séreignarsparnaðarkerfið ef það væri skattað með venjulegum hætti. Það má ætla að umtalsverður kostnaður lendi á ríkinu í gegnum almannatryggingarnar á komandi áratugum vegna þess að lífeyrisgreiðslur verða minni sem koma til frádráttar vegna tekjutengingarákvæðanna þar. Það eru nokkrir milljarðar, það er fljótreiknað. Það munar um það að svona fjárhæðir fari út úr séreignarsparnaðinum núna í staðinn fyrir að koma til útgreiðslu ávaxtaðar eftir 10 ár, 20 ár, 30 ár, og gefa þá bæði ríki og sveitarfélögum tekjur og draga úr útgjöldum í almannatryggingakerfinu. Og aftur vitnað í hv. þm. Pétur H. Blöndal, hann þekkir þetta samspil mjög vel. Þannig gæti ég lengi haldið áfram.

Ríkisstjórnin hefur meðal annars gripið til þess ráðs í málflutningi sínum, auðvitað eins og venjulega, að níða niður allar aðgerðir og ráðstafanir á síðasta kjörtímabili og talar mikið um hvað 110%-leiðin hafi verið félagslega fáránlega útfærð. Þar hafi verið afskrifaðar gríðarlega háar fjárhæðir, fámennir hópar hafi fengið þar háar tölur. Við skulum aðeins fara yfir það.

Staðreyndin er sú að umfang aðgerða á síðasta kjörtímabili af mismunandi tagi var af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir eða meira, að frátöldum niðurfærslum gjaldeyrislána vegna ólögmætis þeirra. Það er staðreynd, og skiptist í fjölmarga hluti eins og greiðslujöfnun einstaklinga, sem um 22–23 þús. heimili nutu góðs af og voru með lægri greiðslur á þessum tíma fram að árslokum 2012, sem nam einum 12–14 milljörðum. Það voru hundruð í tímabundinni greiðsluaðlögun, tímabundnum úrræðum fyrir einstaklinga með tvær fasteignir, frystingar og greiðslufrestanir tóku til nokkur þúsund manns, fjögur, fimm þúsund manns á þessum tíma, og það var frestað með slíkum hætti afborgunum upp á 35–40 milljarða kr. Sértæk skuldaaðlögun, þúsund manns plús/mínus, 110%-leiðin, um 12 þús. manns sem fengu þar niðurfærslu veðskulda upp á 45–50 milljarða kr., yfirveðsettu heimilin, og í þeim hópi skáru sig auðvitað úr fjölskyldurnar sem keypt höfðu á óhagstæðasta tíma, voru með ný lán upp á 90–100% af verðmæti fasteignar. Eðlilega voru þau færð mikið niður. En gleymum því ekki að sú leið var innan þeirra takmarka að niðurfærslan gat ekki farið yfir 4 milljónir hjá einstaklingi og 7 milljónir hjá hjónum nema menn færu þá í framhaldinu í mjög rækilega síu og allar aðrar eignir væru teknar og metnar og dregnar frá niðurfærslunni. Hún var ekki opin, hún var með tilliti til eignastöðu, þannig að þegar menn gagnrýna þá aðgerð og ætla að finna sér skjól í því fyrir núverandi útfærslu gleyma þeir því, horfa fram hjá því. En auðvitað voru afskrifaðar háar fjárhæðir þar sem yfirveðsetningin var orðin 150–200%.

Það var á kostnað banka, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða að uppistöðu til, um 4/5 hlutar kostnaðarins lentu annars staðar en hjá ríkinu í þeirri aðgerð. Og auðvitað varð það að einhverju leyti að gerast þá á þeim viðskiptalegu forsendum sem þessir aðilar gátu sæst á. Þannig var nú það.

Að lokum varðandi þessa aðgerð. Auðvitað er það þannig að fjöldi fólks fær hér lækkun skulda sinna sem er vel að því kominn og finnst það kærkomið. En því miður er það þannig að á báðum endum málsins skortir verulega á að þessi aðgerð standist félagslegar kröfur. Þeir sem eru í mestum erfiðleikum áfram fá lítið, allt of lítið eða ekki neitt vegna þess að fyrri ráðstafanir eru allar dregnar frá. Á hinum endanum fær fullt af fólki mikla fjármuni og eykur auð sinn sem er ekki í neinum vandræðum og á enga kröfu á að það sé millifært opinbert fé til þess að gera það ríkara í núinu á kostnað barna okkar og barnabarna. Það er ekki verjandi, það er afsiðandi að standa þannig að málum. Almennt er það þannig að þegar við millifærum fé í kerfi okkar er horft til þess að aðstoða þá sem eru í erfiðastri stöðu. Þess vegna er almannatryggingakerfið tekjutengt, þess vegna eru vaxtabætur tekjutengdar, barnabætur tekjutengdar eða bæði eigna- og tekjutengdar í sumum tilvikum.

Hér er það ekki gert og það mun leiða til þess að til dæmis 227 heimili sem áttu meira en 120 millj. kr. hreina eign eiga rétt á niðurfærslu í þessu kerfi samkvæmt gögnum sem við náðum út í fyrra. Leigjendur, 25% þjóðarinnar, fá ekki neitt, þeir sem eru búnir að greiða upp skuldir sínar fá ekki neitt o.s.frv. Ég reyni, herra forseti, almennt að vera bjartsýnn á framtíðina en ég játa það að stundum leita á mig þungar hugsanir: Hvað er það sem börnin okkar koma til með að taka við? Mér finnst að ábyrgð okkar stjórnmálamanna og hverrar kynslóðar eigi ekki síst að liggja í því að reyna að skila landinu sómasamlega af sér til barnanna sinna. Hvað erum við meðal annars að gera með þessu?

Við erum að skutla gríðarlega stórum reikningi inn í framtíðina, svo nemur 200 milljörðum a.m.k. Það mun koma niður á lífskjörum og skilyrðum í þessu landi á komandi áratugum, og við erum að hluta til að gera það. Að hluta til, vissulega ekki gagnvart öllum en að hluta til erum við að gera það þannig að það eykur auð fólks í dag sem hefur nóg handa á milli, enda stendur ekki á því úti í þjóðfélaginu að væntingarnar vakna núna á mestu jólaverslun nokkru sinni síðan 2007. Menn panta inn græjur og dót, dýrara og fínna en undanfarin sex til átta ár, því að nú búast menn við neysluveislu, og lesi menn bara fjölmiðlana þar um.

Hvað erum við að búa í hendurnar á börnunum okkar að mörgu leyti? Við erum meðal annars að senda þeim þennan reikning, það er þannig. Við hefðum getað notað þessa fjármuni í að greiða niður skuldir, við hefðum getað sleppt því að afsala ríkinu þessum tekjum, ríki og sveitarfélögum, inni í framtíðinni. Þær verða ekki þarna, hæstv. fjármálaráðherra, sem þær hefðu annars orðið, það er alveg á hreinu. Við erum að horfa á innviði samfélagsins að mörgu leyti fúna niður og einhvern veginn verður að taka á því, einhverjir þurfa að laga vegina, byggja Landspítalann og lappa upp á það sem er að fúna niður í höndunum á okkur. Við erum ekki að gera það. Við erum að hlífa okkur við óþægindunum sem kynslóð í allt of ríkum mæli og senda reikninginn inn í framtíðina. Það finnst mér ekki siðferðilega verjandi. Ef íslensk stjórnmál eiga að fara að þróast þannig að menn komist upp með nánast hvað sem er í þágu atkvæðakaupa í núinu þá býð ég ekki í það. Hverju verður lofað næst? Hverju verður lofað næst þegar flokkar í þrengingum þurfa að hysja upp hjá sér fylgið, ef þetta gengur svona eftir? Ég hef af þessu dauðans áhyggjur, herra forseti, að þetta sé ekki til þess að auka ábyrgðarkennd og vandaða stjórnmála- og stjórnsýsluhætti hér í þessu landi.



[16:22]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið til að þakka fyrir þá umræðu sem hér á sér stað og hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa framsögu um sitt hjartans mál. Við þingflokksformenn fórum yfir það á fundi með forseta að forsætisráðherra þyrfti að vera fjarri síðari hluta umræðunnar um tiltekinn tíma og ekki í fyrsta sinn. Hann flytur hér framsögu sína og gengur svo úr þingsal og tekur ekki þátt í skoðanaskiptum. Ég geri mér vel grein fyrir því að þetta er búið mál og þetta liggur fyrir. Hér hafa allar ákvarðanir verið teknar. En þessi dónaskapur í samskiptum forsætisráðherra við þingið er orðinn nokkuð þreytandi, að láta ekki einu sinni svo lítið að hlusta hér á forustumenn stjórnarandstöðunnar ræða um 80 milljarða austur úr ríkissjóði. Getum við ekki rætt hér saman í anda skynsemi og rökhyggju, eða hvað þetta heitir allt saman á tyllidögum? Hvar er hæstv. forsætisráðherra? Hér er aðstoðarmaður ráðherrans sem er þingmaður að auki. Getur hann kannski upplýst okkur (Forseti hringir.) um það hvar forsætisráðherrann er?

Virðulegur forseti. Þetta gengur ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[16:23]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti gerði ráðstafanir í upphafi ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að gera hæstv. forsætisráðherra viðvart. Hæstv. forsætisráðherra þurfti að fara á áríðandi fund sem ekki var fyrirséð þegar þessi umræða var hafin og getur því ekki setið umræðuna um stundarsakir að minnsta kosti.



[16:23]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu vegna þess að það er lágmark, finnst mér, að forsætisráðherra sé hér viðstaddur. En kannski er það óskapleg kröfuharka í tíðaranda nútímans á Alþingi að maður fari fram á það að forsætisráðherra sé hér a.m.k. að hlýða á talsmenn hinna flokkanna í málinu sem hann sjálfur flytur? Er það óraunhæf krafa? Er það ósanngjörn krafa? Nei, það tel ég ekki. Ég held það sé fullkomlega eðlilegt að hann geri það þegar um er að ræða svona stórt mál.

Ég vil því leggja til, og það er mér að meinalausu, ég er á mælendaskrá hér á eftir, og spyrja hæstv. forseta hvort við getum ekki frestað umræðunni þangað til hæstv. forsætisráðherra hefur tíma til að vera með okkur í henni. Það er ekki boðlegt að hann flytji sína skýrslu og fái svo bara að skottast út eins og einhver sem er málinu óviðkomandi, sem hann er ekki.



[16:25]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill eingöngu árétta það sem hann sagði hér í upphafi, það komu upp aðstæður sem hæstv. forsætisráðherra réð ekki við og þurfti hann að fara á áríðandi fund sem hann komst ekki undan og sem lá ekki fyrir við upphaf umræðunnar.



[16:25]
Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég skil það vel að hæstv. forsætisráðherra treysti sér ekki til að sitja hér í salnum undir ræðum mínum og játa það að mér þykir oft ekkert verra þó að hann sé ekki í salnum. En þegar þingmaður og talsmaður stjórnmálaflokks, eins og Steingrímur J. Sigfússon hér áðan, óskar eftir nærveru forsætisráðherra í umræðu um stærsta mál á kjörtímabilinu þá er nú eiginlega algert lágmark að forsætisráðherra verði við slíkri ósk strax og að hann sé hér á staðnum.

Virðulegur forseti. Að þingflokksformanninum hafi ekki verið gert viðvart um að forsætisráðherra gæti ekki verið við sína eigin umræðu, það eru ekki nógu góð vinnubrögð. Það er ástæða til að fresta fundi ef forsætisráðherra getur ekki sjálfur verið við sína eigin umræðu. Og býsna má það nú vera merkilegur fundur ef hann gengur framar fundi í þjóðþinginu um stærsta mál hæstv. forsætisráðherra.

Ég ætla auðvitað (Forseti hringir.) ekki að rengja virðulegan forseta, en ég undirstrika það bara að þetta hlýtur að vera gríðarlega mikilvægur fundur (Forseti hringir.) sem hæstv. forsætisráðherra er á og væri gott að fá upplýst hvers eðlis hann er.



[16:26]
Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er til siðs í breska þinginu undir liðnum fyrirspurnir til ráðherra að spyrja út í dagskrá ráðherra. Ég verð að gera það undir þessum lið. Hvað er það á dagskrá hæstv. forsætisráðherra sem er brýnna en að taka þátt í þessari umræðu í þingsal?

Á fundi þingflokksformanna með forseta í gær var greint frá tilhögun þessarar umræðu og hún var þannig að það mundi verða eitthvert tímabil á þingfundinum þar sem forsætisráðherra þyrfti að sinna fundi sem var löngu ákveðinn. Það var almennt góður skilningur á því. (Gripið fram í.) Forseti ætlaði að raða dagskránni þannig upp að flestir stjórnarandstæðingar gætu talað á þeim hluta sem forsætisráðherra væri hérna. Mér sýnist að einhverjar aðstæður eins og hæstv. forseti orðaði það sem forsætisráðherra réð ekki við hafi komið upp. Það væri gott að fá að vita hvaða ástæður það eru vegna þess að ég geri ráð fyrir því að hann hafi ekki haft tóma dagskrá þegar ákveðið var að setja þessa umræðu á dagskrá þingsins.

Mér finnst mjög miður að ekki sé mark takandi á þeim orðum og upplýsingum sem (Forseti hringir.) þingflokksformenn fá á fundum með forseta.



[16:28]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti getur því miður ekki upplýst frekar um þennan fund. Forseta er eingöngu kunnugt um að þessar aðstæður komu upp og hæstv. forsætisráðherra þurfti þess vegna að fara af fundi.



[16:29]
Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil taka undir það með félögum mínum hér á þinginu að mér finnst ólíðandi að hæstv. forsætisráðherra geti ekki tekið þátt í umræðum og hlustað á bæði gagnrýni og lof á þessar aðgerðir. Ekki síst finnst mér mjög slæmt að ég er með ákveðnar spurningar sem ég hefði viljað beina til forsætisráðherra og finnst í sjálfu sér furðuleg tilhögun að hér séu umræður um stærsta kosningamál forsætisráðherra án viðveru hans allan tímann.

Ég tek undir orð hv. þm. Róberts Marshalls um að ég mundi gjarnan vilja fá upplýsingar um það hvað var svo brýnt, hvaða fundur var svo brýnn, að hæstv. forsætisráðherra varð að fara hér úr húsi. Kannski getur hv. þingmaður og þingflokksformaður Framsóknarflokksins upplýst þingið um það. En ég legg til að við frestum umræðum (Forseti hringir.) þangað til við getum fengið hæstv. forsætisráðherra hingað í salinn.



[16:30]
Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í bókum margra stjórnarliða og kannski einhverra fleiri heitir þetta að enn á ný hafi stjórnarandstaðan farið í umræður um fundarstjórn forseta og reynt að tefja og eitthvað svoleiðis. En þetta er ekki þannig. Stundum þarf bara að tala um fundarstjórn forseta og stundum þarf að láta í ljós óánægju sína. Ég ætla að gera það hér. Ég skil ekki að það sé ekki alveg augljóst að auðvitað er ekki hægt að ræða mál ef framsögumaður málsins, sá sem mælir fyrir skýrslunni, er bara farinn. Ég meina, það er bara heimskulegt að það sé ekki alveg augljóst.

Svo vil ég líka segja að það er nú bara tillitssemi við hæstv. forsætisráðherra að fresta umræðunni svo að hann geti verið viðstaddur hana. Fyrst hann hefur svona mikið að gera í dag þá ættum við bara að taka þessa umræðu seinna. Hann hóf ræðu sína á því að lýsa yfir mikilli tilhlökkun, að hann hlakkaði rosalega [Hlátur í þingsal.] mikið til að eiga orðastað við stjórnarandstöðuna á þessum mikla gleðidegi. Svo fer hann bara. [Hlátur í þingsal.]



[16:31]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er tillaga forseta, til þess að reyna að leysa úr þessu máli sem upp er komið, að fram fari hér á eftir ræða hæstv. fjármálaráðherra sem er næstur á mælendaskrá og að því búnu verði fundinum frestað til klukkan sex. Þá má þess vænta að hæstv. forsætisráðherra geti verið kominn að nýju.



[16:31]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til þess að taka til máls undir þessum dagskrárlið, skuldaleiðrétting, skýrsla forsætisráðherra. Mér finnst mjög við hæfi að við höfum málið hér á dagskrá í kjölfar þess að meginniðurstöður eru kunngjörðar og fólk hefur fengið útreikninginn eftir því sem það hefur sóst eftir því inni á til þess gerðum vef.

Mig langar til þess að byrja mál mitt á því að ræða um aðdraganda síðustu kosninga, um viðskilnað fyrri ríkisstjórnar og þar með meginástæðu þess að ríkisstjórnin hefur sett þetta mál á dagskrá og er að hrinda því nú í framkvæmd. Það vill svo til að hægt er að ræða málið frá ýmsum sjónarhornum. Áður en ég fer í einstök dæmi um áhrif fyrir lántakendur finnst mér samt sem áður mikilvægt að horfa á málið í stóra samhenginu.

Stóra samhengið sem ég vísa þar til er að heimilin voru í upphafi kjörtímabils skuldsett langt yfir 100% af landsframleiðslu. Sú gríðarlega mikla skuldsetning ein og sér er efnahagslegt vandamál. Skuldsetningin hafði eitthvað lækkað á síðasta kjörtímabili en var eftir sem áður gríðarlega há. Allir sem fylgdust eitthvað með stjórnmálum í aðdraganda síðustu kosninga, og ég veit að það á að sjálfsögðu við alla sem eru hér kjörnir til þings, vita að þetta var mál sem brann sérstaklega á íslenskum kjósendum. Mér finnst því að umræðan í dag geti ekki farið fram á þeirri forsendu, sem stundum skín í, að hér sé um algjörlega óþarft og óskiljanlegt mál að ræða. Því fer fjarri. Þetta er eitt helsta mál ríkisstjórnarinnar og svo ég tali nú fyrir minn flokk var þetta eitt af stóru málunum sem við settum á oddinn í samtali við kjósendur fyrir síðustu kosningar.

Hvað sögðum við í mínum flokki fyrir kosningar? Við sögðum: Við ætlum að beita skattkerfinu og séreignarsparnaðinum til þess að fólk geti náð fram um 20% lækkun á höfuðstól heimilisskuldanna, húsnæðisskuldanna, um 20% á allt að fimm árum.

Í því máli sem við ræðum hér munu þau áhrif nást fram með blandaðri aðferðafræði flokkanna á skemmri tíma sem er mikið fagnaðarefni. Sem sagt, með því að nota séreignarsparnaðinn og sækjast eftir niðurfærslu húsnæðislána munu langflestir geta náð fram um 20% lækkun húsnæðisskulda á þessum tíma innan kjörtímabilsins. Nú munum við áfram ræða um hvort rétt sé skipt og hvort dreifing fjármunanna hefði átt að vera með eitthvað öðrum hætti, en bara þetta stóra verkefni, að ná niður heildarskuldastöðu heimilanna og hún mun fara nálægt 95% í lok þessa árs, er risavaxið skref, vegna þess að skuldirnar hafa verið svo háar. Það er almennt viðurkennt sem vandamál í nágrannaríkjum okkar hvað skuldir heimilanna eru almennt orðnar háar. Það er risavaxið skref og svo hitt að fólk fær nú almennt tækifæri til að lækka skuldir sínar um 20% á kjörtímabilinu. Það er sérstaklega mikið ánægjuefni.

Ég hef heyrt ýmsu haldið fram frá því að kynning málsins átti sér stað á mánudaginn. Það er sagt að hér sé mjög villandi upplýsingum haldið að fólki. Þetta tel ég reyndar að standist ekki skoðun.

Sagt er að í einstökum liðum séu frádráttarliðir ekki innifaldir. En það er ekkert óeðlilegt við að einstök dæmi séu sýnd þar sem frádráttarliðir eiga ekki við. Svo eru sýnd önnur dæmi þar sem frádráttarliðir eiga við. Í heildarkostnaði aðgerðarinnar eru frádráttarliðir að sjálfsögðu teknir með í reikninginn.

Menn segja að kostnaður vegna aðgerðanna sé stórlega vanmetinn. Þeir eiga eftir að sýna fram á hvað það nákvæmlega er, en ég hygg t.d. að á yfirstandandi ári hafi kostnaður vegna séreignarsparnaðarleiðarinnar verið eitthvað ofmetinn, vegna þess að skriðþunginn í því hversu margir sækjast eftir séreignarsparnaðarleiðinni hefur ekki verið jafn mikill og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Það er engu að síður mjög vaxandi fjöldi sem nýtir sér þá leið.

Við erum hér að tala um aðgerð sem yfir 100 þús. manns óskuðu eftir að njóta. Það gefur augaleið að með því er verið að ná snertingu við stóran hluta þjóðarinnar og einmitt við þann hluta sem er með húsnæðisskuldir og glímir við húsnæðisskuldavanda. Hvaða vandi er þetta? Jú, það er sá vandi sem skapaðist á árunum 2008 og 2009 og er tilefni allra þessara aðgerða og birtist í því að á sama tíma og húsnæðisverð fór lækkandi kom verðbólga sem hækkaði verðtryggðu lánin, atvinnuleysi jókst, kaupmáttur dróst saman og eignaverð almennt lækkaði. Þetta eru árin sem við köllum í daglegu hrunárin 2008 og 2009, það er þegar erfiðleikarnir birtust okkur sérstaklega.

Þrátt fyrir góða viðleitni oft á tíðum og ýmis úrræði sem voru leidd í lög eða samið um við fjármálastofnanir dugði það sem gert var á síðasta kjörtímabili einfaldlega ekki til þess að leysa vandann. Það er svo. Það er hins vegar athyglisvert að fylgjast með því hvernig stjórnarflokkar síðasta kjörtímabils sveiflast svolítið á milli þess að vísa annars vegar til þess að umfang aðgerðanna hafi jafnvel verið meira en þeirra sem við ræðum hér og hins vegar til þess að ríkissjóður hafi ekki nema að litlum hluta, kannski eins og 1/5, komið beint að aðgerðunum. Það þýðir að aðrir tóku bróðurpartinn á sig eins og við þekkjum, fjármálastofnanir og aðrir.

Hér er um að ræða almenna aðgerð. Já, það er rétt að hún kemur í framkvæmd ekki nákvæmlega eins út og félagslegar aðgerðir með tekjutengingum eins og við þekkjum og öðrum skerðingum. Það er alveg rétt, en það eru þó skerðingar. Þak er á aðgerðinni sem er 4 milljónir. Það er sömuleiðis ákveðin skerðing eða þak fólgið í því að draga fyrri aðgerðir frá. Með því verður heildardreifing þeirra fjármuna sem við erum með undir sú að bróðurpartur aðgerðarinnar, u.þ.b. 3/4, lendir hjá meðaltekjufólki og þeim sem hafa tekjur þar undir. Það eru u.þ.b. 3/4 aðgerðarinnar. Þegar menn fóru í almenna aðgerð á þeim forsendum sem hér voru kynntar stóð aldrei til að undanskilja einhverja sérstaka hópa. Í því birtist meðal annars efnahagslegt eðli aðgerðarinnar. Það var sjálfstætt og sérstakt markmið að ná niður heildarskuldastöðu heimilanna.

Hefur einhver heyrt talað mikið um að eitthvað sé eftir ógert núna eftir að þessar aðgerðir voru kynntar fyrir þá sem voru með verðtryggð lán? Ég heyri það ekki. Mér finnst hafa slokknað á þeirri umræðu eftir að aðgerðirnar voru kynntar. Það er einn mælikvarði á það að við erum að ná árangri í því að binda slaufu á aðgerðir vegna þess hóps sem varð illa úti 2008 og 2009 með verðtryggð krónulán vegna kaupa á eigin fasteign. Lenda einhverjir fyrir utan úrræðin? Leigumarkaðurinn er nefndur. En þetta er ekki aðgerð sem átti að leysa vanda þeirra sem eru á leigumarkaði.

Þeir sem hafa áður notið úrræða umfram 4 milljónir eru nefndir. Já, þeir hafa þá notið leiðréttinga af ýmsum toga, þeir sem áður hafa fengið 4 milljónir eða meira sem hafa komið til frádráttar og eru þess vegna ekki með í þessari mynd. Það er dálítið holur hljómur í því að spyrja annars vegar hvers vegna þeir séu skildir eftir og hins vegar að tala um að sumir fái of mikið sem ekki þurfi á að halda, vegna þess að það voru einkum þeir sem voru tekjuhærri, búnir að taka mjög há lán, sem fengu þessar miklu niðurfærslur. Það eru einkum þeir sem lenda utan úrræðisins núna. Enda sjáum við það á því hverjar meðallækkanir lánanna eru í aðgerðinni. Hin klassísku venjulegu lán eru um 13–15 milljónir. Samkvæmt því mundi 110%-leið, ef skuld á slíku heimili væri komin yfir 15, 16, 17 milljónir, skila um 1–2 milljónum, eitthvað svoleiðis. Viðkomandi mundi þess vegna njóta til fulls þeirra aðgerða sem við ræðum hér.

Mér finnst því ákveðin þversögn í því fólgin að tala um þá sem ekki njóta þessarar aðgerðar á sama tíma og gagnrýnt er að einhverjir fái of mikið, vegna þess að það voru einkum þeir sem höfðu steypt sér í mjög háar skuldir, voru í milljónatuga skuld í stórum eignum, sem nutu mikillar leiðréttingar í aðferð eins og 110%-leiðinni.

Svo spyrja menn: Hefði ekki verið hægt að nota þá fjármuni sem við ræðum um hér til að lækka skuldir? Þeir eiga að sjálfsögðu við opinberar skuldir eða ríkisskuldir. Við því segi ég: Við erum að nota fjármunina til að lækka skuldir, við erum að lækka skuldir heimilanna. Þetta fer allt í skuldalækkun þegar upp er staðið. Það má segja að með aðgerðinni sé verið að fylgja þeirri stefnu að þessum fjármunum sé í þeim skilningi betur fyrir komið hjá almenningi en í ríkissjóði. Betur fyrir komið hjá almenningi, fólkinu í landinu. (Gripið fram í.)

Hver er frumeining þjóðfélagsins? Það er fjölskyldan. Fjölskyldan er sú eining sem þjóðfélagið stendur saman af. Við erum í grófum dráttum með fjóra hópa heimila. Við erum með þá sem skulda ekkert, það eru 25% þjóðarinnar sem skulda ekki neitt í fasteignum. Við erum með þá sem skulda. Það er helmingur þjóðarinnar. Og við erum með þá sem eru utan fasteignamarkaðarins, þ.e. ekki í eigin húsnæði. Það er um það bil 1/4.

Vilji menn ræða sérstaklega um þann hóp og hvað við getum gert til að koma betur til móts við hann getum við gert það, en það stóð aldrei til að sá hópur mundi með beinum hætti njóta góðs af þeim aðgerðum sem hér eru kynntar til sögunnar. Þær snerust um verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009, það hefur allan tímann legið ljóst fyrir.

Ég ætla ekki að fara í mikla tölulega upptalningu en ég gæti nefnt að þúsundir heimila færast úr neikvæðu eigin fé yfir í jákvætt. Þúsundir heimila. Það er nefnt að hætta sé á ákveðinni þenslu. Peningamál Seðlabankans eru nýkomin út, þetta hefur allt legið fyrir. Vextir eru engu að síður að lækka og verðbólguhorfur og verðbólguvæntingar eru jákvæðar, vil ég segja. Það eru horfur á að verðbólgan verði áfram innan vikmarka.

Með því síðan að flýta aðgerðunum, flýta framkvæmd aðgerðanna, sparast vaxtakostnaður og langtímaáætlun í ríkisfjármálum lítur enn betur út en hún hefur gert til þessa. Það losnar þá um 20 milljarða á árinu 2017. Sú bætta afkoma ríkissjóðs sem birtist okkur á árinu 2014 mun að einhverju leyti fylgja okkur inn í næsta ár. Þess vegna geta menn treyst því að við erum smám saman að komast í betri færi til að sinna öllum hinum fjölmörgu verkefnunum.

Við getum ekki talað eins og að við í ríkisstjórninni höfum gert upp á milli þess að fara í þessa aðgerð eða sinna heilbrigðismálum. Við Íslendingar höfum til dæmis aldrei sett fleiri krónur í Landspítalann en við gerum á þessu ári. Aldrei í sögunni. Það hefur aldrei farið meira fjármagn í þann spítala en núna. Aldrei. Samt láta menn í umræðunni eins og þar sé massífur niðurskurður í gangi. Það er bara rangt. Hins vegar finna menn þar enn fyrir þeim mikla niðurskurði sem átti sér stað á síðasta kjörtímabili (Gripið fram í.) þegar skornir voru niður nokkrir milljarðar nokkur ár í röð. Menn finna fyrir því. (BjG: Þið bættuð ekki í í góðærinu.) Það er skiljanlegt, en við erum komin með viðspyrnu.

Sama gildir um samgöngumál. Það er ekki hægt að tala í þessari umræðu eins og við séum ekkert að gera í samgöngumálum þegar við förum með yfir 20 milljarða í þann málaflokk. Auðvitað er verið að sinna samgöngumálum. (Gripið fram í: Hvar er samgönguáætlun?) Samgönguáætlun er til staðar, það vantar upp á fjármögnun hennar 1–2 milljarða eða svo til að við séum að fylgja henni að fullu. Er það eitthvað sögulegt? Það er bara í samræmi við það sem hefur svo oft verið.

Aðalatriðið er að við gerum þetta á sama tíma og við höfum lokað fjárlagagatinu. Horfur eru góðar í efnahagsmálum. Okkur er að vaxa fiskur um hrygg. Þessi aðgerð er (Forseti hringir.) stóraðgerð, ekki bara í okkar sögulega samhengi heldur jafnvel á alþjóðlega vísu, til þess að lækka heildarskuldastöðu heimilanna, gefa heimilunum súrefni og viðspyrnu sem mun birtast í jákvæðara efnahagslífi inn í framtíðina, m.a. í hærri landsframleiðslu sem menn geta dregið frá þegar þeir reikna kostnaðinn af þessu máli.

Þess vegna fagna ég tækifæri til að koma hingað, fagna því að þetta sé að komast allt til framkvæmda. Ég þakka fyrir þau jákvæðu viðbrögð sem málið hefur fengið úti í samfélaginu og bið menn um að horfa jákvæðum augum á næsta ár og árin þar á eftir, vegna þess að staðan er öll að snúast okkur í hag.



[16:47]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Að höfðu samráði við hæstv. forsætisráðherra og þingflokksformenn er niðurstaða forseta sú að þessari umræðu verður frestað til morguns, til kl. 14.30, og þá hefst umræðan að nýju. Þá tekur fyrstur til máls hv. 7. þm. Suðvest., Guðmundur Steingrímsson.



[16:48]Útbýting: