144. löggjafarþing — 32. fundur
 13. nóvember 2014.
lögreglulög, 1. umræða.
frv. EyE o.fl., 372. mál (verkfallsréttur lögreglumanna). — Þskj. 500.

[12:18]
Flm. (Eyrún Eyþórsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996. Með frumvarpi þessu er lagt til að verkfallsréttur lögreglumanna verði endurreistur með því að fella úr gildi 31. gr. lögreglulaga. Ég flyt frumvarpið ásamt hv. þingmönnum Svandísi Svavarsdóttur og Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur.

Landssamband lögreglumanna hefur um langt skeið reynt að ná fram kjarabótum fyrir lögreglumenn með litlum árangri. Landssambandið hefur ekki aðeins lagt áherslu á hærri laun heldur einnig önnur kjaramál. Landssambandið hefur til að mynda lagt ríka áherslu á að lögreglumenntun færist upp á háskólastigið og lagt fram kröfur um betri öryggisbúnað lögreglumanna en slíkum kjaralegum kröfum hefur ekki verið svarað.

Því er ekki ofsögum sagt að lögreglumenn hafi fá sem engin tæki í höndum sér til baráttu fyrir betri kjörum og mundi verkfallsrétturinn því skipta gríðarlega miklu máli, hvort sem hann yrði einhvern tíma nýttur eða ekki. Verkfallsheimild er stéttarfélögum mikilvæg til að skapa sterkari samningsstöðu gagnvart vinnuveitendum og mundi gera stöðu lögreglumanna jafnari öðrum stéttum sem réttinn hafa.

Til að glöggva okkur betur á kjörum lögreglumanna má nefna að grunnlaun nýútskrifaðs lögreglumanns sem vinnur í almennri deild lögreglu eru 278 þús. kr. Eftir 15 ár í starfi hafa laun hans hækkað í rúmlega 320 þús. kr. og eftir það eru engar frekari launahækkanir sem almennur lögreglumaður fær. Fari viðkomandi í starf rannsóknarlögreglumanns á hann möguleika á vaktaálagi og þá eru laun hans í byrjun 307 þús. kr. Útborguð laun skríða þó varla yfir 200 þús. kr. og það segir sig sjálft að erfiðlega gengur að framfleyta fjölskyldu á þeim launum, enda eru þau langt undir neysluviðmiðum.

Dæmi eru til um löreglumenn sem eftir 42 ár í starfi eru með 350 þús. kr. í grunnlaun og jafnvel eru til fjöldamörg dæmi um afburðalögreglumenn sem hætt hafa störfum sökum þess að launin duga ekki til fyrir grunnframfærslu fjölskyldunnar. Þannig hefur tapast mikilvæg þekking auk þess sem þeir fjármunir sem fóru í menntun lögreglumannsins fóru forgörðum. Reynslan sýnir jafnframt að þegar vel árar efnahagslega segja margir lögreglumenn upp störfum og leita á ný mið þar sem hærri laun eru í boði. Ég held að það þurfi varla að taka fram hversu mikilvægt það er að innan lögreglunnar haldist það góða fólk sem þar starfar og sú mikla þekking sem það fólk býr yfir. Á sama hátt má ítreka það að vegna lélegra kjara hefur lögreglan misst mikið af framúrskarandi fólki og það er miður, ekki bara fyrir lögregluna heldur samfélagið í heild sinni.

Nú getur verið að einhverjir velti fyrir sér heildarlaunum lögreglumanna í stað grunnlauna og það verður að viðurkennast að lögreglumenn geta undir vissum kringumstæðum hækkað laun sín verulega með því að vinna vaktir og taka aukavaktir. Það er því mikilvægt að benda á að það er ekki kostur fyrir alla að vinna vaktavinnu eða mikla aukavinnu. Til dæmis eiga einstæðir foreldrar erfitt með það, jafnvel foreldrar ungra barna, hjón þar sem báðir aðilar eru lögreglumenn eða í annarri vaktavinnu o.s.frv. Lágmarkskrafan ætti að vera sú að lögreglumenn gætu framfleytt sér á grunnlaunum einum saman. Sú er ekki reyndin í dag.

Þá má jafnframt nefna að rannsóknir hafa margoft sýnt fram á heilsufarslega áhættu vaktavinnufólks. Sýnt hefur verið fram á að einstaklingar sem vinna vaktavinnu verða skammlífari en þeir sem ekki vinna slíka vinnu og eru í aukinni hættu á að fá lífshættulega sjúkdóma og þjást af þunglyndi. Af þeim sökum er mikilvægt að stytta vinnutíma vaktavinnufólks og geta lögreglumenn lagt áherslu á það með skírskotun til verkfallsréttar að vaktavinnufólk vinni skemur en dagvinnufólk og þurfi þar fyrir utan ekki að skila inn aukalegu vaktaálagi. En þessu líkt og öðrum kjaralegum þáttum hefur lögreglumönnum gengið illa að ná fram. Það er bersýnileg þörf á verkfallsrétti til að styðja við réttmætar kröfur.

Kjaramál lögreglumanna snúa ekki aðeins að krónum og aurum heldur einnig að öðrum þáttum eins og aukinni menntun, betra starfsumhverfi og betri öryggisbúnaði svo að nokkur dæmi séu tekin. En allt eru þetta mál sem erfiðlega hefur gengið að ná fram í kjaraviðræðum. Hefur það orðið til þess að lögreglumenn eru samstiga í þeim vilja að fá verkfallsrétt sinn að nýju.

Vel má færa rök fyrir því að verkfallsréttur sé mannréttindi. Félagafrelsi er verndað í 74. gr. stjórnarskrárinnar og í fjölmörgum alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Til dæmis má nefna 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var með lögum 1994, og félagasáttmála Evrópu, sem fullgiltur var hér á landi 1976. Félagafrelsi lýtur ekki aðeins að rétti til að stofna félög og eiga aðild að þeim heldur einnig til að standa utan félaga. Jafnframt er frelsi talið ná að einhverju marki til athafnafrelsis félaga til að tryggja og standa vörð um hag félagsmanna sinna. Þrátt fyrir að félagafrelsið feli ekki í sér skilyrðislausan rétt til verkfalls þá er það engu síður talinn mikilvægur hluti samningafrelsis félaga sem nýtur verndar samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum. Hér legg ég áherslu á mikilvægi verkfallsréttarins. Því er ljóst að takmörkun slíks réttar skal byggð á lögmætum sjónarmiðum og nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi.

Ekki fer á milli mála að ávallt er nauðsynlegt að tryggja lágmarksöryggisgæslu í samfélaginu en fjöldi lögreglustarfa fellur utan við það og vandséð að ástæða sé til að afnema verkfallsrétt allra sem þeim gegna.

Lögreglumenn hafa haft hátt um þá kröfu sína að verkfallsrétturinn verði endurreistur en hann var afnuminn með lögum nr. 82/1986, sem fólu í sér breytingar á þágildandi lögreglulögum. Fram til þess tíma höfðu lögreglumenn rétt til verkfalls líkt og aðrar stéttar innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja með þeim fyrirvara að skylt væri að halda uppi nauðsynlegri öryggisgæslu á meðan verkfall stæði, samanber 56. gr. þágildandi laga um samningsrétt BSRB, nr. 29/1976.

Afnám verkfallsréttar var hluti af samkomulagi milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra í júlí 1986. Kveðið var á um afnám verkfallsréttar í bókun við samkomulagið en í stað þess skyldu lögreglumenn fá svokallaða kauptryggingu ef ekki næðust samningar um kjör þeirra. Kauptryggingin átti að fela í sér sömu meðalhækkun launa og bandalög opinberra starfsmanna fengju á hverjum tíma. Þau félög sem miða átti við voru BSRB, Bandalag háskólamanna, Samband íslenskra bankamanna og Bandalag kennarafélaga. Skyldi útreikningurinn vera í höndum Hagstofu Íslands. Allt frá því að samkomulagið tók gildi voru uppi ólík sjónarmið um framkvæmd þess milli lögreglumanna annars vegar og ríkisins hins vegar.

Útreikningar kauptryggingar fóru ekki fram fyrstu árin eins og til stóð og gerðu lögreglumenn ítrekaðar athugasemdir við það. Eftir mikinn þrýsting af þeirra hálfu framkvæmdi Hagstofa Íslands umrædda útreikninga árið 1988 að beiðni fjármálaráðherra. Samkomulagið hafði kveðið á um möguleika til endurskoðunar á útreikningum af hálfu Landssamband lögreglumanna en ekki var um slíkt að ræða í reynd. Fyrirkomulagið reyndist aldrei vel.

Það er mikilvægt að hér komi fram að landssambandið taldi, þegar hér var komið sögu, að samningsréttarákvæði kjarasamningsins frá 1986 væri brostið og óskaði meðal annars eftir því að lögreglumenn fengju aftur verkfallsrétt en án árangurs. Landssamband lögreglumanna hefur ítrekað síðan þá óskað eftir því að lögreglumenn fái verkfallsrétt sinn að nýju en þeim kröfum hefur í engu verið sinnt af hálfu ríkisvaldsins.

Samkomulagið var endurskoðað sex árum síðar og viðmiðunarákvæði tekið út og áttu viðsemjendur í kjölfarið, næðu þeir ekki samkomulagi, að vísa máli sínu í þriggja manna gerðardóm.

Kjarasamningar lögreglumanna hafa þrisvar farið þá leið, síðast haustið 2011. Að mínu mati sýnir þetta hversu erfiðlega hefur gengið fyrir lögreglumenn að ná fram kjarabótum. Þess má geta að árið 2011, þegar gerðardómur ákvarðaði um laun lögreglumanna, var almenn óánægja með þá litlu launahækkun sem þeir fengu á þeim tíma. Þess má geta að síðasti kjarasamningur við lögreglumenn var gerður árið 2005 fyrir níu árum.

Það eru mörg góð og gild rök fyrir því að lögreglumenn ættu að vera launahærri stétt en þeir eru. Fyrir það fyrsta sinna lögreglumenn gríðarlega mikilvægri samfélagslegri þjónustu. Lögreglumenn eru tilbúnir til að vinna í alls kyns kringumstæðum á öllum tímum sólarhringsins og veigra sér ekki við neinu verkefni, hversu stórt eða lítið sem það er, hvort sem þeir eru að huga að slösuðum, tilkynna foreldrum um sjálfsvíg barns, aðstoða brotaþola í kynferðisbroti eða stilla til friðar í heimilisofbeldi svo að dæmi séu tekin.

Hér nefni ég aðeins fá rök með hærri launum og betri kjörum og ítreka að í gegnum tíðina hefur það reynst lögreglumönnum, án verkfallsréttar, erfitt að ná fram kjaralegum markmiðum. Að mati lögreglumanna hafa þeir dregist aftur úr þeim viðmiðunarstéttum sem miðað var við í fyrrgreindu samkomulagi sem fól í sér afnám verkfallsréttarins. Ein ástæða þess er án efa sú staðreynd að lögreglumenn geta ekki gripið til þess neyðarúrræðis sem verkfallsrétturinn er til jafns við aðrar stéttir samfélagsins náist ekki viðunandi niðurstaða í viðræðum um kjaramál.

Eins og fram hefur komið sinnir lögreglan afar mikilvægum störfum tengdum öryggi lands og þjóðar. Sú sérstaða virðist með núverandi fyrirkomulagi vinna gegn stétt lögreglumanna hvað kjaramálin varðar frekar en stuðla að auknum réttindum vegna mikilvægis þeirra í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er því lagt til að verkfallsréttur lögreglumanna verði endurreistur með breytingum á lögreglulögum nr. 90/1996, á þá leið að 31. gr. þeirra verði felld úr gildi. Legg ég til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar að umræðu lokinni.



[12:29]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég kem fyrst og fremst hingað til að taka undir þetta mál og þakka hv. þm. Eyrúnu Eyþórsdóttur fyrir að flytja það. Ég held að það sé mun eðlilegri skipan að lögreglumenn endurheimti verkfallsrétt sinn frekar en að byggja á óbreyttu fyrirkomulagi áfram sem ég held að báðir aðilar, bæði lögreglumenn og viðsemjandi þeirra, geti í sjálfu sér sagt að hafi ekkert gefist óskaplega vel, samanber það sem kom fram í máli flutningsmanns að ekki hefur tekist að ná samningum saman og ágreiningi hefur verið vísað ítrekað til gerðardóms að ósk lögreglumanna sjálfra stundum, en engu að síður hefur gætt óánægju með niðurstöðuna.

Nú liggur það í hlutarins eðli og kom hér vel fram að verkfallsréttur lögreglumanna mundi sæta takmörkunum og nokkuð ljóst að undanþágur yrðu alltaf veittar vegna nauðsynlegustu öryggisgæslu. Það breytir ekki hinu að það þarf sterk rök, ef það er vilji lögreglumanna að endurheimta sinn verkfallsrétt, til að standa gegn því og ég fæ ekki séð þau.

Við getum tekið hliðstæðuna við verkfall sem nú er í gangi, þ.e. verkfall lækna, sem er sömuleiðis stétt sem veit og gengur út frá því að hennar verkfallsréttur sæti talsverðum takmörkunum. Það þarf að halda uppi lágmarksöryggi í heilbrigðisþjónustu og læknar með sinn læknaeið þar ofan í kaupið verða auðvitað sinna því sem snýr að því að bjarga mannslífum og veita nauðsynlegustu bráðaþjónustu.

Mjög hliðstætt er það með lögreglumenn að þeirra verkfallsréttur mundi sæta tilteknum takmörkunum. Sé það engu að síður vilji stéttarinnar að hafa hann þá sé ég ekki með hvaða rökum löggjafinn ætlar að standa gegn óskum um slíkt.

Þannig að mér finnst að afdrif þessa máls hljóti fyrst og fremst að vera í höndum lögreglumanna sjálfra. Ef í ljós kemur við þinglega meðferð málsins að það er almennur vilji meðal lögreglumanna að endurheimta verkfallsréttinn þá beri Alþingi skylda til að afgreiða þetta mál. Einfaldlega vegna þess að það er réttur hverrar stéttar að beita samtakamætti sínum til að knýja á um kjarabætur. Stjórnarskráin og bæði innlend og erlend löggjöf, sem við erum aðilar að, vernda þennan rétt. Ég fæ því ekki séð að Alþingi væri stætt á því að leggjast gegn eindregnum óskum lögreglumanna um að endurheimta verkfallsréttinn.

Það kom margt gott fram hér í framsöguræðunni sem dregur athyglina að því að lögreglumenn eru, eins og því miður allt of margar aðrar stéttir á Íslandi, í þeirri stöðu að grunnlaun, umsamin grunnlaun fyrir fasta reglubundna vinnuviku, eru mjög lág og kjörunum er haldið uppi með mikilli yfirvinnu, miklum vöktum og aukavöktum. Í raun og veru mjög hliðstætt og er með marga lækna svo að ég taki nú aftur þann samanburð. Það hefur orðið umræða um það að læknar hafa birt launaseðla sína fyrir fasta vinnu. Þá hafa menn bent á að læknar eigin þann kost að auka tekjur sínar umtalsvert með því að taka vaktir og vera í tvöfaldri vinnu sem vissulega er rétt og margir grípa til þess ráðs, en það er ekki endilega vegna þess að menn vilji hafa fyrirkomulagið þannig, nema síður sé.

Ég held að markmiðið hér eins og svo víða annars staðar hljóti að vera það að sækja fram með kjarabætur fyrir föst umsamin grunnlaun í hóflegri vinnuviku. Það er mikil meinsemd á íslenskum vinnumarkaði, Ísland sker sig verulega úr hvað það varðar, hve stór hluti af lífskjörunum er byggður upp með langri vinnuviku. Má taka þar margar stéttir sem dæmi. Ef við berum okkur saman við hin Norðurlöndin verður sá munur mjög sláandi. Það eru bara ekki rök sem duga. Það er ekki hægt að sætta sig við að umræðan sé árum og áratugum saman alltaf rekin á þeim forsendum: Jú, jú, grunnlaunin eru mjög lág, en vegna þess að menn geta unnið yfirvinnu eða verið í tvöfaldri vinnu ná menn upp í sæmileg lífskjör með þeim þrældómi. Eða ætlum við að sætta okkur við það að íslenskur vinnumarkaður verði til frambúðar frábrugðinn okkar helstu samanburðar löndum að þessu leyti? En það er hann.

Ég man eftir því, það er ekki svo ýkja langt síðan, að ég var að skoða tölur meðal iðnaðarmanna og bera saman kjör og iðnaðarmanna á Íslandi í tilteknum iðngreinum og í Danmörku. Þá kom í ljós að íslenskir smiðir eða rafvirkjar eða hvað það nú var unnu sléttan mánuð í viðbót á hverju ári borið saman við kollega sína á hinum Norðurlöndunum. Þeir unnu sem sagt aukamánuð, fullan aukamánuð, og voru samt nokkru neðar en þeir í heildarlaunum. Út úr þessu verðum við að komast. Þær stéttir sem vinna vaktavinnu eða vinna fullan vinnudag og taka svo aukavaktir eru auðvitað í sérstaklega erfiðri stöðu í þessum efnum því að þá verður vinnuálagið mjög mikið og hætta á að alls konar fylgikvillar þess, bæði heilsufarslegir og félagslegir, láti á sér kræla.

Það er til dæmis mjög algengt með lækna að þeir vinni fasta vinnu á sínum aðalvinnustað og byggi síðan aukatekjur sínar upp með vöktum sem ekki gefa frí á móti, öfugt við það sem algengt er á hinum Norðurlöndunum, að þeir sem taka vaktir taka vaktirnar út í frídögum. Það er almennt ekki fyrirkomulagið hér heldur er þetta yfirleitt alltaf viðbótarvinna.

Ef lögreglumenn sjálfir líta á það sem betri kost að hverfa frá núverandi fyrirkomulagi og endurheimta verkfallsrétt sinn tel ég mjög mikilvægt að þeir eigi skýlausan rétt á því.

Ég þekki það aðeins af eigin raun sem fjármálaráðherra þess tíma að hafa borið ábyrgð á viðræðum við lögreglumenn. Ég fór ekki varhluta af því að verða var við óánægju þeirra með sín kjör á þeim tíma. Lögreglan hafði að vísu þá staðið í ströngu og erfið ár voru að baki, og kannski ekki alveg að baki þó, en alla vega erfið ár voru um garð gengin. Ágreiningur fór í gerðardóm og niðurstaðan úr þeim dómi, sem þó dæmdi lögreglumönnum allnokkrar kjarabætur, var engu að síður megn óánægja lögreglumanna með ástandið og grípa þurfti til þess að bæta við gerðardóminn til að lægja þær öldur. Ég ætla ekki nánar út í það, en það er til marks um að núverandi fyrirkomulag hefur ekki reynst gallalaust, í raun og veru fyrir hvorugan aðilann, hvorki fyrir lögreglumenn né viðsemjanda.

Auðvitað hlýtur það að vera eðlilegast að sem flestar stéttir hér í landinu og allar þær sem það kjósa búi við sama fyrirkomulag í þessum efnum. Það er jú einu sinni réttur manna að bindast samtökum og nota samtakamátt sinn til þess að knýja á um sín kjör. Það þarf einhver mjög sterk rök til þess að standa gegn því.

Ég mæli með því að hv. þingnefnd taki þetta mál til vandaðrar skoðunar — þetta er mál þess eðlis að Alþingi hlýtur að taka það alvarlega þegar það ber á þess borð — og þingið taki svo afstöðu til þess og afgreiði það og samþykki það ef sú forsenda er uppfyllt að á bak við það sé almennur stuðningur lögreglumanna.



[12:38]
Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem fyrrverandi stjórnarmanni í Landssambandi lögreglumanna árið 2011, þegar hv. þingmaður var þá hæstv. fjármálaráðherra, kemur mér ekki á óvart stuðningur hans við að lögreglumenn fái verkfallsrétt sinn aftur til baka þar sem hv. þingmaður lýsti því eindregið yfir í þeim viðræðum sem hann kom réttilega inn á og voru eftir gerðardóminn. Óánægja lögreglumanna með gerðardóminn fólst í því að þau tæki sem lögreglumenn fengu fyrir verkfallsréttinn á sínum tíma voru ekki nýtt við gerðardóminn. Því urðu þessir samningar. Í þeim samningum var gert samkomulag, sem var undirritað af þáverandi fjármálaráðherra og fyrir hönd innanríkisráðuneytisins var það líka undirritað, þar sem verkfallsréttarins var getið. Hans var getið þar eftir samtöl í þeim viðræðum. Þar gátu lögreglumenn ekki skilið það öðruvísi en svo að það ætti að vera lítið mál að ganga frá verkfallsréttinum, og eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni ætti það ekki að vera nema sjálfsagður hlutur og réttindi hverra starfsstétta, en hefur ekki virkað sem skyldi. Var það liður í því samkomulagi sem náðist við lögreglumenn í nóvember 2011 ef ég man rétt.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað varð til þess að hann sem fjármálaráðherra á þeim tíma gat ekki uppfyllt þetta samkomulag og af hverju er það ekki fyrr en núna sem hann telur að það sé mögulegt?



[12:40]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég man rétt var þetta í októbermánuði en það skiptir ekki öllu máli, ég minnist þessa af tilteknum ástæðum að það var í miklu nágrenni við þingsetningu það ár.

Það var fleira þarna á borðum í umræðunum. Nú man ég ekki nákvæmlega efnislega hvað gekk inn í samkomulagið en ég man að við ræddum um menntunarmál, eftirlaunaréttindi og starfslokakjör og fjárveitingar í sérstakan sjóð til að greiða fyrir því að eldri lögreglumenn gætu farið á eftirlaun án þess að missa eitthvað í eftirlaunaréttindum og annað í þeim dúr. Það er örugglega rétt munað hjá hv. þingmanni að verkfallsrétturinn var nefndur, enda bar hann á góma á fundum sem við áttum einmitt af þessu tilefni. Ég hef ekki skipt um skoðun frá þeim tíma. Sjálfsagt hef ég reifað það sjónarmið mitt þarna, eða mér þykir það líklegt, að ég teldi reynsluna af öllum þeim samskiptum sem hv. flutningsmaður, Eyrún Eyþórsdóttir, rakti mjög vel væri eiginlega að færa okkur heim sanninn um að það væri eðlilegast að fara í hið hefðbundna fyrirkomulag að lögreglumenn, ef þeir svo vildu, fengju sinn verkfallsrétt.

Hvers vegna var ekki meira aðhafst í þeim efnum af minni hálfu? Skemmst er frá því að segja að þarna lifir skammt ársins 2011 og 1. janúar 2012 tók ég við öðrum ráðuneytum og var ekki fjármálaráðherra eftir það. Ég þekki ekki framhald málsins frá þeim sjónarhóli, þ.e. ég hef ekkert fylgst með eða sett mig inn í hvernig samskipti fjármálaráðuneytisins eða samninganefndar ríkisins og lögreglumanna hafa gengið síðan þá fyrr en þær upplýsingar sem hafa verið að birtast í tengslum við þetta mál. Það er skýringin sem ég hef eða svarið sem ég hef að þetta mál var ekki í mínum höndum þá nema í eina tvo mánuði í viðbót sem ráðherra.



[12:42]
Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Vissulega hefði hann, ef hann hefði viljað, getað fylgt málinu eftir sem formaður annars stjórnarflokksins á sínum tíma, sitjandi í ríkisstjórn og upplýst nýjan fjármálaráðherra á þeim tíma um stöðu málsins.

Einnig langar mig að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon út í þá staðreynd sem hann nefndi um eftirlaunin. Þetta hefur verið mikið kappsmál hjá lögreglumönnum. Veit hann af hverju þetta náði ekki fram að ganga? Hefði þetta ekki getað liðkað fyrir til þess að efla lögregluna?

Bara til þess að hafa nefnt það hér þá var eitt mikilvægasta atriðið í þessum samningum að auka öryggismál lögreglumanna sem þarf að gera enn. Það er mjög mikilvægt að við förum að vinna að því. Ég hef talað um það áður á þinginu.

Ég ítreka hvort hann hafi fylgt þessu eftir í ríkisstjórninni og upplýst nýja ráðherra um það samkomulag sem var gert og ástæður þess.



[12:43]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi var með þessu samkomulagi bætt verulegum fjármunum inn í ákveðna þætti. Það var liður í því að ná þessu saman. Þetta var svolítið óvenjulegt vegna þess að þarna féll gerðardómur sem lögreglumenn sjálfir höfðu óskað eftir. Þeir vísuðu málinu í gerðardóm í júní 2011, ef ég man rétt, og svo féll gerðardómurinn og kom talsvert til móts við óskir lögreglumanna. Engu að síður voru þeir mjög óánægðir með niðurstöðuna. Þá er brugðið á það óhefðbundna ráð að fara í viðræður þrátt fyrir fallinn gerðardóm sem er samkvæmt kjararéttinum í raun niðurstaðan.

Ég held að hv. þingmaður hljóti að viðurkenna að stjórnvöld sýndu mikinn sveigjanleika og vilja við þessar óvenjulegu aðstæður vegna þess að gerðardómurinn var fallinn. Stjórnvöld gátu í sjálfu sér sagt: Það er komin niðurstaða í málið, fallinn gerðardómur sem lögreglumenn sjálfir óskuðu eftir. Vegna þessarar óánægju, sem var og er skiljanleg því að kjör lögreglumanna eru ekki nægjanlega góð, var engu að síður farið í þessar viðræður og niðurstaðan var að leggja talsverða fjármuni í viðbót í tiltekna þætti til að liðka fyrir samkomulaginu. Eitthvað af þeim fór í eftirlaunatengd viðfangsefni.

Nú heyra lögreglumál ekki undir fjármálaráðuneyti heldur innanríkisráðuneyti. Fjármálaráðherra kemur eingöngu að lögreglunni vegna samningagerðar við hana. Á sama tíma var verið að vinna heilmikið starf í tíð þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem leiddi af sér skýrslur og tillögur um ýmsar úrbætur og fjölgun í almennri löggæslu og fjárveitingar sem síðan hafa viðhaldist. Talsvert meira fé hefur verið sett í almennu löggæsluna, ekki síst til að fjölga einfaldlega í almennri löggæslu.

Það er sjálfsagt rétt að þarna voru líka þættir sem tengdust öryggismálum og menntunarmálum. Ég verð að játa að ég þekki ekki nákvæmlega hvernig því hefur síðan verið fylgt eftir (Forseti hringir.) enda væntanlega að minnstu leyti á hendi fjármálaráðuneytisins heldur meira á hendi (Forseti hringir.) fagráðherrans sem fer með málefni lögreglunnar.



[12:46]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 1. flutningsmanni þessa máls fyrir að leggja það fram. Ég tel að þetta sé mikilvægt mál og eigi rétt á góðri umræðu og góðri meðferð hér í þinginu.

Til þess að gæta sannmælis er það rétt sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það var óvanalegt að stjórnvöld skyldu sýna þennan sveigjanleika en nauðsynlegt og ber að þakka fyrir það, margt jákvætt náðist þar fram.

Með fyrirspurn minni til hv. þingmanns var ég að leita eftir því hvort eitthvað hefði staðið í veginum sem við þyrftum að búa okkur undir núna að hefði breyst, sem við þyrftum þá að hafa í huga til að ná fram þessum óskum lögreglumanna sem við höfum sammælst um að séu þarfar, réttlátar og nauðsynlegar.

Ég hef frá því áður en ég kom inn á þing stutt það að lögreglumenn fái verkfallsrétt sinn aftur. Það er óeðlilegt að þeir séu ein fárra stétta sem ekki hafa verkfallsrétt, þó að hann yrði háður takmörkunum eins og hér kom fram. Það er líka út af sögu kjaramála lögreglumanna eftir að samið var um að fella verkfallsréttinn brott. Það er rétt að samið var um að fella hann brott gegn vissum launahækkunum og vissum úrbótum eða breytingum sem áttu að verða á fyrirkomulaginu.

Það er eins og oft í samstarfi stjórnvalda og annarra aðila að þá gangast stjórnvöld ekki alltaf við því sem þau hafa samið um og allan tímann hefur gengið mjög erfiðlega að fara eftir því samkomulagi sem gert var. Oftast hefur það verið vegna þess að fjármálaráðuneytið á hverjum tíma hefur verið tregt til að gefa upplýsingar og afla þeirra upplýsinga sem þarf til að reikna út rétta kjaralega stöðu lögreglumanna. Því hafa þessir viðmiðunarsamningar, sem áttu að koma í staðinn fyrir verkfallsréttinn, ekki virkað.

Bókun á kjarasamningi var því breytt 2001 og sett inn ákvæði um gerðardóm sem við höfum verið að ræða hér. Þar áttu lögreglumenn að geta farið fram á að óháður aðili tæki út kjaralega þróun og leggja átti það fram sem gagn fyrir gerðardóm. Þá kom aftur að klækjum fjármálaráðuneytisins eða samninganefndarinnar og það úrræði var skemmt. Þar af leiðandi hefur þetta aldrei virkað vegna þess að annar samningsaðilinn hefur ekki staðið við sitt. Sú túlkun olli þessari miklu óánægju hjá lögreglumönnum með niðurstöðu gerðardómsins, þar sem þau gögn sem niðurstaða hans byggðist á voru ekki samkvæmt samkomulaginu eins og lögreglumenn höfðu skilið það. Gögnin voru lögð fram eins og fjármálaráðuneytið skildi samkomulagið, þ.e. að bera ætti saman kjaralega þróun lögreglumanna frá því að síðasti kjarasamningur var gerður en ekki yfir lengra tímabil eins og lögreglumenn höfðu farið fram á í kjarasamningunum þar á undan.

Hið óháða mat fór því ekki fram þar sem fjármálaráðuneytið sagði að beiðnin væri of seint fram komin. Það eru náttúrlega vinnubrögð sem ekki er hægt að bjóða heilli stétt upp á í samningaviðræðum og þetta þarf að laga. Þetta er ástæða þess að ég get stutt það, og er algjör forsenda þess, að lögreglan fái þennan rétt aftur ásamt því að þetta eru sjálfsögð atvinnuréttindi, það eru réttindi hvers manns að geta barist fyrir launum sínum, svo að jafnræðis sé nú gætt milli allra fagstétta og aðila á vinnumarkaði.

Það er mjög mikilvægt að sagan sé höfð að leiðarljósi þegar þessi krafa er höfð uppi. Ég tel mikilvægt að lögreglumenn fái verkfallsrétt aftur. Vonandi gerist það núna í kjarasamningunum að samið verði á þann veg að þeir fái þennan rétt aftur. Þar á þetta að vera hægt.

Annars vil ég fagna þessu aftur og þakka fyrir það að málið sé komið fram.



[12:51]
Flm. (Eyrún Eyþórsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fylgja þessu máli aðeins eftir. Ég tek undir margt af því sem hér hefur verið sagt og komið hefur fram. Ég vona að málið fái framgang í þinginu.

Ég vil bæta því við að kjaramál lögreglumanna ganga, eins og áður hefur komið fram, ekki bara út á hærri laun, krónur og aura, heldur líka út á áherslur þeirra um að fá að hækka menntunarstig lögreglumanna, að Lögregluskólinn fari upp á háskólastig. Þau ganga líka út á öryggismál, búnað og vinnuumhverfi og jafnframt út á eftirlaunamálið. Þess má geta að víða erlendis vinna lögreglumenn mun skemur en hér á landi. Í Bretlandi er ekki óalgengt að lögreglumenn hætti störfum um fimmtugt og fari á eftirlaun. Það er í hæsta máta óeðlilegt að lögreglumenn þurfi að starfa eins lengi og þeir gera hér á landi.

Ég vil líka aðeins koma inn á það að fái lögreglumenn aftur verkfallsrétt sinn er ekki ólíklegt að hann yrði takmarkaður að einhverju leyti, en þá vil ég leggja áherslu á að hann getur samt sem áður nýst í kjarabaráttunni.

Það eru mörg störf innan lögreglunnar sem hægt er að leggja niður tímabundið, en samt sem áður sinnir lögreglan neyðar- og öryggisþjónustu.

Þó að verkfallsrétturinn sé til staðar þarf ekki að vera að hann sé nýttur en hann er hins vegar gríðarlega mikilvægt tæki í baráttunni.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.