144. löggjafarþing — 33. fundur
 17. nóvember 2014.
verkfall lækna.

[15:10]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Verkfall lækna á opinberum heilbrigðisstofnunum hefur nú staðið vikum saman og er þegar farið að valda verulegum erfiðleikum. Það blasir við að biðlistar hafa lengst á Landspítalanum og nýir orðið til þar sem engir biðlistar voru áður. Jafnvel þótt samið yrði við lækna í dag liggur fyrir að það mundi taka langan tíma, marga mánuði, að vinna upp tjónið sem orðið er. Áfram heldur verkfall og aldrað fólk, sjúkir, á í vaxandi vandræðum með að fá úrlausn sinna mála. Kostnaðurinn hleðst upp á Landspítalanum, því að aðrir starfsmenn eru auðvitað ekkert í verkfalli, en mikill hluti þeirra starfs hangir á því að læknar séu við störf á spítalanum.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hversu lengi getur þetta gengið svona áfram? Hversu lengi er hægt að halda áfram án þess að samið sé í þessari deilu ef það á ekki að valda varanlegu tjóni fyrir samfélagið?

Nú líður brátt að áramótum. Hættan er auðvitað sú að læknar gefist einfaldlega upp, hverfi til starfa í öðrum löndum. Hversu lengi ætlar hæstv. forsætisráðherra að láta þessa deilu halda áfram með þessum hætti? Hvenær hyggst hann ganga til alvörusamninga við lækna? Samningafundir eru mjög strjálir í deilunni. Það er ekki hægt að segja að það séu alvörusamningaviðræður í gangi. Hvenær hyggst forsætisráðherra ljúka þessum málum með samningum?



[15:12]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki setið á samningafundum með læknum og ég held að hv. þingmaður þekki hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig. Ég held að hv. þingmaður hljóti líka að gera sér grein fyrir því að ráðherrar eins og aðrir hafa áhyggjur af þessu verkfalli. Verkföll almennt geta auðvitað verið mjög skaðleg og verkfall lækna ekki hvað síst. Svoleiðis að vonandi tekst nú að leysa úr þessu eins fljótt og kostur er.

Þetta er hins vegar mál sem er ekki hægt að líta á í einangrun, ekki hægt að líta á þetta óháð stöðu mála almennt á vinnumarkaði. Við hljótum að spyrja hvort hægt sé að mynda einhvers konar almenna sátt og þá má meðal annars spyrja stjórnarandstöðuna en ekki hvað síst aðila vinnumarkaðarins hvort menn líti þannig á að staðan réttlæti breytingar á kjörum lækna, bætur umfram það sem hægt væri að semja um í fyrsta áfanga annars staðar.

Ef niðurstaðan í þessu máli yrði sú að allt færi í uppnám á vinnumarkaði almennt og annaðhvort yrði ekki hægt að semja við aðrar stéttir eða þeir samningar mundu ógna stöðugleikanum og setja verðbólguna aftur á fullan skrið þá mundu allir tapa á því, læknar sem og aðrir. Svoleiðis að við þurfum að finna á þessu lausn og vonandi lausn sem sem víðtækust sátt getur orðið um.



[15:14]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu getur hæstv. forsætisráðherra ekki komið hér upp og talað eins og hann sé áhorfandi að þessari alvarlegu deilu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki fundað með formanni samninganefndar ríkisins í þessari deilu. Það eru þá alvarleg afglöp ef svo er og ber vitni miklu alvöruleysi af hálfu hæstv. forsætisráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra getur svo reynt að flytja þá þulu eins oft og hann vill að það sé á ábyrgð allra annarra á vinnumarkaði að búa til umgjörð um lausn á þessari deilu. Það er það ekki.

Hæstv. forsætisráðherra hafði í hendi sér að tryggja frið á vinnumarkaði út þetta kjörtímabil með kjarasamningum í lok síðasta árs. Hann er síðan búinn að gera allt sem hann mögulega getur til að sprengja upp samstarf við aðila vinnumarkaðarins og hann verður ósköp einfaldlega að búa sjálfur við þær aðstæður sem hann hefur þannig skapað.

Það er ekki verkefni stjórnarandstöðunnar eða aðila vinnumarkaðarins að skera hæstv. forsætisráðherra niður úr (Forseti hringir.) getuleysi hans til að eiga heilbrigð samskipti á vinnumarkaði.



[15:15]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég get fullvissað hv. þingmanns um að við fylgjumst að sjálfsögðu vel með þessu máli, hverju skrefi. Það er alrangt sem hv. þingmaður segir, að ég eða einhverjir aðrir ráðherrar höfum gert allt sem við mögulega getum til að sprengja samstarf við aðila vinnumarkaðarins, eins og hv. þingmaður orðaði það. Virðulegur forseti. Það er einfaldlega alrangt. En ef menn vilja eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðarins hljóta þeir að líta á heildarmyndina. Það hefur nú yfirleitt verið stefnan að líta til heildaráhrifa þegar menn reyna að ná einhvers konar sátt, ég tala nú ekki um þjóðarsátt. Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvort hækkanir hjá læknum umfram það sem samið hefði verið um annars staðar sé til þess fallið að sprengja upp sátt við aðila vinnumarkaðarins, eins og hv. þingmaður orðaði það.