144. löggjafarþing — 33. fundur
 17. nóvember 2014.
hækkun virðisaukaskatts á matvæli.

[15:24]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með að stjórnarflokkarnir eru ekki alveg samstiga þegar kemur að útfærslu á sköttum eða breytingum á sköttum og þá sér í lagi þegar við fjöllum um meinta hækkun á matarskatti. Formaður fjárlaganefndar og ýmsir þingmenn úr Framsóknarflokknum hafa lýst sig andsnúna hækkun matarskatts og hefur jafnframt komið fram að hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur lýst sig andsnúinn þessum tillögum.

Hv. þingmaður hefur lýst því yfir að hann væri hugsanlega hlynntur því ef við mundum auka flækjustigið enn frekar með því að reyna að koma til móts við þá sem ekki fengu neinar leiðréttingar á sínum málum í aðgerð ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við sum heimili. En ég hef töluvert miklar áhyggjur af því hvað ríkisstjórnarflokkarnir eru með mismunandi áherslur í stórum málefnum. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann telji ekki heppilegt að hann gefi þinginu og landsmönnum mjög skýr svör um það hvort hann er fylgjandi hækkun matarskatts eða ekki.



[15:26]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst er nú rétt að leiðrétta það að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar lýsti því ekki yfir að hann væri andvígur hækkun neðra þreps virðisaukaskatts nema kerfið yrði flækt enn þá meira, eða eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir orðaði það, nema flækjustigið yrði aukið enn frekar. Það sem hv. þingmaður sagði, eins og fjölmargir aðrir þingmenn hafa raunar bent á á síðustu missirum, var að það þyrfti að vera ljóst að þær breytingar sem ráðist yrði í, breytingar sem eru til þess ætlaðar að einfalda kerfið, mundu á endanum leiða til þess að kjör allra hópa bötnuðu. Þar horfa menn auðvitað sérstaklega til fólks með milli- og lægri tekjur. Menn vildu hafa sannfæringu fyrir því að heildaráhrifin af þessum breytingum, breytingum til einföldunar, yrðu til að bæta kjör, þ.e. að lækka verðlag í landinu — lækka verðlag, ekki hækka, lækka — og auk þess að auka ráðstöfunartekjur ekki hvað síst fólks með milli- og lægri tekjur.

Það er afstaða hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar og það er líka afstaða mín.



[15:27]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vísa í facebook-færslu og opinbera yfirlýsingu frá hv. þm. Frosta Sigurjónssyni.

Frosti setti pistilinn á facebook-síðu sína þar sem hann gerir frekari grein fyrir afstöðu sinni. Þar segist hann frá upphafi hafa sett þann fyrirvara við hækkun matarskatts að mótvægisaðgerðir yrðu að duga til að heimilin verði í betri stöðu á eftir. Hann segir að þótt mótvægisaðgerðirnar skili heimilunum meiri heildartekjum en sem nemur hækkun matarskatts þá séu einhverjir hópar sem lendi í hækkun á mat en njóti ekki þeirra liða sem lækka. Bregðast þurfi við því, segir hann. Hann nefnir sem dæmi hugmynd um að færa lyfseðilsskyld lyf úr efra þrepi í það neðra en það mundi að hans sögn gagnast öldruðum, öryrkjum og sjúklingum. Fjármagna megi það með því að færa sælgæti og gos í efra þrep, sem enginn þurfi nauðsynlega á að halda.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvernig á þá að koma til móts við til dæmis leigjendur og námsmenn?



[15:29]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mundi halda að þetta hafi verið haft rétt eftir enda er það í samræmi við svar mitt hér áðan varðandi áherslur hv. þingmanns.

Spurt er sérstaklega hvað eigi að gera til að koma til móts við ákveðna hópa. Leigjendur og námsmenn eru nefndir. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur einmitt nefnt að verið sé að skoða stöðu þessara hópa ekki hvað síst, og það hafa fleiri þingmenn gert. Þar hafa ólíkar leiðir verið nefndar (BirgJ: … matarskattinn?) og nú stendur yfir vinna við að meta hverjar þeirra leiða skili sér best í bættum kjörum þessara hópa. (BirgJ: … með matarskattinn?)