144. löggjafarþing — 33. fundur
 17. nóvember 2014.
innflutningur á hrefnukjöti.

[15:30]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrr í mánuðinum bárust fréttir af því að áætlað væri að flytja inn allt að 10 tonn af hrefnukjöti frá Noregi vegna þess að hrefnuveiðar við Íslandsstrendur hafi gengið illa það sem af er þessu ári en aðeins hefur tekist að veiða 23 dýr af 236 dýra kvóta. Samkvæmt frétt í Morgunblaðinu frá 4. nóvember kemur það einmitt fram að Gunnar Bergmann Jónsson, sem er framkvæmdastjóri IP Útgerðar og formaður Félags hrefnuveiðimanna, stendur fyrir þessum áformum.

Í mínum huga vekur þetta upp fjölmargar spurningar ef rétt er. Ég vil þess vegna beina nokkrum spurningum til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og jafnvel umhverfisráðherra einnig, Sigurðar Inga Jóhannssonar, og heyra hans afstöðu í þessu máli.

1. Verðum við ekki að endurskoða hvalveiðikvóta sem við höfum gefið út ef staðan er sú að við þurfum að flytja hvalkjöt inn? Erum við ekki komin á algjörar villigötur með þessa hvalveiðikvóta?

2. Er það yfir höfuð eðlilegt að við séum að flytja inn hvalkjöt?

Ég vil gjarnan heyra afstöðuna til þess og jafnvel að við ræðum þetta svolítið. Finnst okkur það? Eigum við að flytja inn hvalkjöt?

Svo ætla ég að koma hingað upp í seinni hlutanum og aðeins að ræða upprunamerkingar og fleira varðandi þetta kjöt.



[15:32]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugaverða fyrirspurn.

Það er rétt að verr hefur gengið á þessu ári að veiða hrefnu en oft á liðnum árum. Þingmaðurinn spyr hvort við eigum að endurskoða hvalveiðikvótann í ljósi þess að við þurfum að flytja inn hvalkjöt. Ég held að staðan sé einfaldlega sú að hrefnukjöt er mjög eftirsótt á markaði og satt best að segja hefur innanlandsframleiðslan hvergi nærri annað eftirspurn. Þeir sem hafa stundað þessar veiðar hafa getað selt allt sitt kjöt á sumarmarkaði um leið og vinnslan á sér stað. Þegar sá brestur verður að ekki tekst að veiða tiltekinn fjölda dýra til þess að fullnægja eftirspurn á markaði grípa menn til þess að flytja inn hrefnukjöt frá Noregi sem mér finnst þar af leiðandi ekkert athugavert við, ekki frekar en í öðrum tilvikum, satt best að segja.

Hv. þingmaður spyr: Eigum við að flytja inn hvalkjöt? Ég get spurt á móti: Af hverju ekki? Íslendingar eru vanir að neyta hrefnukjöts og Norðmenn og Íslendingar veiða hrefnu og reyndar fleiri, Grænlendingar. Þetta er mjög eðlilegt lífsmunstur og neyslumunstur á norðlægum slóðum. Ég tel ekkert athugavert við það, satt best að segja.



[15:34]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið.

Af hverju við ættum ekki að flytja inn hvalkjöt? Hvalir eru, alla vega sumar tegundir, í útrýmingarhættu og hvalveiðar eru nú kannski ekki þær veiðar sem eru beinlínis hæst skrifaðar meðal margra þjóða þannig að mér finnst að við þurfum að hugsa okkur verulega um hvort þetta séu viðskipti sem við teljum rétt að standa í.

Mig langar aðeins að fara aftur í hvalkjöt inni á íslenskum markaði. Er ekki gríðarlega nauðsynlegt, til þess að neytandinn viti hvaða vörur það er sem hann er að fá, að allar upprunamerkingar séu alveg pottþéttar þannig að neytandinn viti það úti í búð að þetta er ekki íslenskt hvalkjöt heldur norskt sem hann er að kaupa. Það sama gildir kannski ekki síður á veitingahúsum þar sem útlendingar eru jafnvel komnir til að kaupa íslenskt hvalkjöt, (Forseti hringir.) hvort þetta þurfi ekki allt saman að vera á hreinu og hvort ráðherrann muni ekki örugglega sjá til þess að þar verði öllum (Forseti hringir.) lögum framfylgt?



[15:35]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér er sagt að við ættum hvorki að stunda veiðar né flytja inn kjöt frá Noregi úr stofnum sem eru mjög stórir og eru nýttir með sjálfbærum og ábyrgum hætti vegna þess að einhverjar aðrar tegundir hvala séu í útrýmingarhættu einhvers staðar annars staðar í heiminum. Ég get ekki fallist á þau rök. Það mundi hreint út sagt kollvarpa öllu því sem þjóðir við norðanvert Atlantshaf standa fyrir. Við, sérstaklega Íslendingar, nýtum þá stofna með sjálfbærum hætti. Kvótinn er upp á 154 dýr. Af hverju vorum við með 236 eins og hv. þingmaður nefndi? Það er vegna þess að kvótinn hefur flust til á milli ára, hefur ekki verið nýttur á árinu á undan. Það er heimilt að flytja hluta kvótans á milli.

Að sjálfsögðu eiga upprunamerkingar þessarar vöru að vera í lagi eins og á öllum öðrum. Það er ákaflega mikilvægt að neytendur, eins og t.d. þeir sem fara á veitingahús viti hvaðan matvaran kemur. Ég hef borðað humar á veitingahúsum (Forseti hringir.) og spurt hvort hann sé íslenskur. Það hefur þurft að fara fram í eldhús og athuga hvort svo sé. Að sjálfsögðu á að gilda um allar tegundir að menn geti fengið skilmerkileg svör þannig að þeir geti valið hvers þeir vilja neyta.