144. löggjafarþing — 33. fundur
 17. nóvember 2014.
hækkun taxta sérgreinalækna.

[15:37]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 7. júlí sl. hækkuðu gjöld fyrir sérgreinalæknishjálp, rannsóknir og myndgreiningu og gert er ráð fyrir að sú hækkun skili 70 millj. kr. til lækkunar ríkisútgjalda á árinu. Hækkunin er liður í fjármögnun nýs samnings við sérgreinalækna sem tók gildi 1. janúar. Samningur við sérgreinalækna var laus í langan tíma en engu að síður var áfram greitt í samræmi við útrunninn samning en sérgreinalæknar komust á móti upp með að hækka gjaldskrá sína og velta í raun og veru án eftirlits þeim hækkunum beint á sjúklingana. Með gerð nýs samnings var það ferli stöðvað og þessu komið aftur í ákveðna reglu, svo notað sé orðalag hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í umræðu um málið í síðustu viku. Ríkið er því að taka á sig með tillögum í fjáraukalögum það sem sjúklingar greiddu áður og kostnaðarþátttaka sjúklinga lækkar í ár með samningunum við sérgreinalækna eins og eðlilegt mætti teljast.

Í fjáraukalagafrumvarpinu kemur hins vegar skýrt fram að við gerð samningsins var gengið út frá því að sjúklingar greiddu kostnaðinn en samningurinn leiddi ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. Sjúklingar áttu að greiða hærri komugjöld samkvæmt reglugerð en reglugerðinni hafði hins vegar ekki verið breytt líkt og gert var ráð fyrir. Ég vil taka fram að ég er ánægð með það að sjúklingar hafi fengið að njóta þess að samningur hafi náðst við sérgreinalækna og tel það raunar sjálfsagt.

En ég vil samt spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvers vegna reglugerðin hafi ekki verið samin og breytt líkt og gert var ráð fyrir. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra hvaða áhrif það hefði haft á verðbólguna ef gjaldskránni hefði verið breytt og rúmur milljarður hefði lent á sjúklingum á árinu en ekki á ríkissjóði eins og reyndar var gert ráð fyrir þegar samningurinn var gerður.



[15:39]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið inn á mál — og ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því — sem búið er að reyna að koma á framfæri hvernig sé vaxið í allnokkurn tíma. Gríðarlega flókið regluverk gildir um endurgreiðslugjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands um þátttöku í kostnaði hjá sjúklingum hjá sérgreinalæknum. Í samningsleysinu frá 2011 til ársloka 2013, af því að ekki var samið af ríkinu við sérgreinalækna, þá veltu þeir kostnaði, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, yfir á sjúklinga. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga fór í samningsleysinu úr því að vera 29% af kostnaði upp í 42%.

Þannig háttaði til á þessum tíma að Hagstofa Íslands mat ekki þær hækkanir á hlutdeild sjúklinga til verðlags. Ef ný gjaldskrá hefði verið gefin út í rituðu formi af ríkinu hefði Hagstofan farið að byrja að mæla. Við erum að reyna að koma þessum samskiptum í eðlilegan farveg á milli Sjúkratrygginga og Hagstofunnar og ráðuneytisins þar sem þetta er mælitækni innan gæsalappa sem getur ekki gengið.

Ég get ekki svarað því nákvæmlega hve verðlagshækkunin sem af þessu leiddi hefði orðið mikil en grundvallaratriðið í þessu var að sjúklingarnir sem áttu viðskipti við sérgreinalæknana áttu að vera jafnsettir hvað varðar kostnaðarhlutdeild. Það gekk ekki eftir, meðal annars út af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar um verðlagshækkanir. Ég vil leyfa mér að fullyrða að það hafi verið vegna þess að ekki var fullur skilningur á því hvað þarna var á ferðinni og get (Forseti hringir.) að mínu leyti tekið á mig nokkra ábyrgð á því að sá skilningur var ekki til staðar hjá aðilum beggja vegna borðsins.



[15:41]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í ár hækkaði greiðsluþátttaka einstaklinga í heilbrigðiskerfinu um samtals 611 millj. kr. vegna komugjalda í heilsugæslu, hækkunar gjalda fyrir sérgreinalæknishjálp, rannsókna og myndgreiningar á stofum lækna og göngudeilda sjúkrahúsa, vegna lækkunar á greiðsluþátttöku ríkisins í hjálpartækjum og vegna lækkunar á greiðsluþátttöku ríkisins í þjálfun.

Varðandi kostnað vegna samninga sérgreinalækna og breytingar á reglugerð um greiðsluþátttöku einstaklinga kemur það algjörlega skýrt fram í fjáraukalagafrumvarpinu að sjúklingar eigi að bera þennan kostnað á árinu 2015. Ég skil hæstv. heilbrigðisráðherra þannig að hann sé sammála því að þann rúma milljarð sem samningurinn kostar eigi sjúklingar að bera, sjúklingar eigi sem sagt ekki að hafa neinn hag af því að ríkið geri samninga við sérgreinalækna. (Forseti hringir.)

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist þessi þróun jákvæð, að greiðsluþátttaka aukist svo mikið eins og hún hefur nú þegar gert (Forseti hringir.) á árinu 2014 og verði þá enn meiri á árinu 2015.



[15:43]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé enginn sáttur við það að greiðsluþátttaka sjúklinga aukist ár frá ári. Eins og gerðist þegar við sömdum ekki við sérgreinalækna hér á árum áður þá jókst greiðsluþátttaka sjúklinga í þessum hluta heilbrigðisþjónustunnar úr 29% upp í 42%. Ég ímynda mér ekki að menn hafi verið sáttir við það. Veruleikinn er engu að síður þessi. En ég fullyrði að þrátt fyrir hækkanir sem hv. þingmaður nefndi hefur greiðsluþátttakan lækkað í heildina á þessu ári, en það er rétt að það stefnir í það að við þurfum að breyta gjaldskrá til að hafa upp á þeim kostnaði sem leiðir af störfum sérgreinalæknanna.

Engu að síður vil ég leggja áherslu á það að tryggingin sem sjúklingar fá sem þurfa úrræði sem þarna eru veitt í 450 þúsund komum á ári, (Forseti hringir.) tryggingin fyrir því að það sé ekki sjálfkrafa hægt að velta yfir á þá kostnaði, hún er komin með samningnum, og það er töluvert mikils virði.