144. löggjafarþing — 33. fundur
 17. nóvember 2014.
brotthvarf Vísis frá Húsavík.
fsp. KLM, 229. mál. — Þskj. 258.

[16:49]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sjávarútvegsfyrirtækið Vísir hf. í Grindavík tilkynnti um lokun starfsstöðvar sinnar á Húsavík 1. maí síðastliðinn. Áður hafði þetta fyrirtæki sent inn ósk um byggingarleyfi til stækkunar í október fyrir rúmu ári en við starfsstöðina á Húsavík störfuðu 66 einstaklingar. Þeim hefur öllum verið sagt upp og fjöldi manns hefur flutt á brott. Þess má geta að skip á vegum fyrirtækisins hefur fengið töluverðan byggðakvóta á undanförnum árum til að veiða vegna staðsetningar á Húsavík. Þá þegar hófst undirbúningur að lokun verksmiðjunnar. Tól og tæki voru rifin niður og ýmist flutt til Grindavíkur eða á Djúpavog, svo skrýtið sem það nú er.

En hvaða áhrif hefur þetta brotthvarf Vísis á samfélagið? Jú, ljóst er að sveitarfélagið verður af talsverðum útsvarstekjum sem eru áætlaðar um 42–50 millj. kr. á ári og um 6% vinnufærra manna missa vinnuna og um 35 til 40 manns hafa ákveðið að flytja og þegar flutt. Þetta jafngildir því að um 3.200 manns væri sagt upp í Reykjavík. Það allra versta er að með þessu hverfa um 60% af aflaheimildum á Húsavík, eða um 3.000 tonn. Þetta hefur áhrif á ýmsa aðra starfsemi. Þannig hefur til dæmis starfsemi Eimskips dregist saman og þetta hefur auðvitað stór áhrif á verslun, iðnað, þjónustu o.s.frv. Meira að segja ísklefi sem var í eigu Vísis og er staðsettur í gömlu rækjuverksmiðjunni fellur úr notkun, sem er mjög alvarlegt fyrir ýmsa aðra starfsemi á svæðinu.

Eins og ég hef hér rakið, virðulegi forseti, eru þetta mjög alvarlegar afleiðingar sem koma fram við þetta brotthvarf. Bæjaryfirvöld á Húsavík hafa rætt á tveimur ef ekki þremur fundum við okkur þingmenn Norðausturkjördæmis þá alvarlegu stöðu sem komin er upp. Mér er kunnugt um það, virðulegi forseti, að á einum fundinum voru fulltrúar þáverandi meiri hluta bæjarstjórnar, þ.e. framsóknarmenn, sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn, og fóru framsóknarmenn og hittu forsætisráðherra sem jafnframt er 1. þm. kjördæmisins um þetta alvarlega mál. En engu að síður eins og þetta er búið að standa yfir í langan tíma, eða frá maí þessa árs, hefur nánast ekkert gerst. Beiðni bæjaryfirvalda í Norðurþingi um mótvægisaðgerðir hefur ekki borið árangur.

Þess vegna hef ég sett fram, virðulegi forseti, eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

Til hvaða mótvægisaðgerða hyggst ráðherra grípa vegna brotthvarfs sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis frá Húsavík?

Mér er kunnugt um það, virðulegi forseti, til að stytta svarið, að 300 tonna byggðakvóti sem skiptist niður á Húsavík, Kópasker og Raufarhöfn, eða um 300 tonn, er mestmegnis vegna rækjuveiða. En vegna þess alvarlega ástands sem þarna (Forseti hringir.) er uppi hefur ekkert komið í staðinn þrátt fyrir fundi og þrátt fyrir að menn hafi minnst á nokkrar leiðir til að skapa mótvægisaðgerð gagnvart því alvarlega ástandi sem brotthvarf fyrirtækisins er.



[16:53]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Núgildandi lög um fiskveiðistjórn gera ráð fyrir ýmsum mótvægisaðgerðum sem draga eiga úr neikvæðum samfélagslegum áhrifum af breyttum útgerðarháttum og flutningi aflaheimilda á milli byggðarlaga, sem þingheimi ætti svo sem að vera ljóst alveg frá því framsal var leyft árið 1990.

Með breytingum á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, 25. júní 2013, fékk Byggðastofnun til ráðstöfunar aflaheimildir til stuðnings smærri sjávarbyggðum í bráðum vanda. Samkvæmt reglugerð um ráðstöfun þessa aflamarks skal miða við að íbúar séu færri en 400 og hafi fækkað undanfarin tíu ár, byggðakjarninn tilheyri vinnusóknarsvæði með færri en 10 þús. íbúa og sé í a.m.k. 20 kílómetra akstursfjarlægð frá byggðakjarna sem telur meira en þúsund íbúa. Jafnframt er áskilið að hlutfall starfa við veiðar og vinnslu sé a.m.k. 20% allra starfa og að aflamark Byggðastofnunar skipti verulegu máli fyrir framtíð byggðarlagsins.

Á grundvelli þessarar heimildar hefur Byggðastofnun stofnað til samstarfsverkefna um eflingu sjávarútvegs í tíu af þeim tólf litlu þorpum sem uppfylla skilyrði reglugerðarinnar. Ofangreindar mótvægisaðgerðir beinast einkum að því að tryggja byggðafestu í fámennum byggðarlögum sem eru utan vinnusóknarsvæðis stærri þéttbýlisstaða og vandséð er hvaða starfsemi gæti komið í stað sjávarútvegs sem meginundirstöðu atvinnulífsins.

Sjávarútvegur er aðeins ein af mörgum stoðum atvinnulífs á vinnusóknarsvæðum margra stærri þéttbýlisstaða. Innan núverandi fiskveiðistjórnarkerfis eru takmarkaðir möguleikar á því að koma í veg fyrir tilflutning aflaheimilda innan eða milli slíkra svæða. Hagræðing á þessu sviði er raunar snar þáttur í uppbyggingu sjávarútvegs á Íslandi á undanförnum árum, en henni fylgir oft flutningur aflaheimilda á milli byggðarlaga.

Breytingar í sjávarútvegi geta valdið byggðarlögum margvíslegu óhagræði, ég tek undir með þingmanninum hvað það varðar, og nauðsynlegt er að bregðast við þeim með uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi, jafnframt því sem aðgerðir á borð við umtalsverðar samgöngubætur geta skapað margvíslega nýja möguleika í atvinnulífi stærri byggðarlaga.

Hins vegar er mikilvægt að takmarkaðar aflaheimildir til mótvægisaðgerða verði nýttar á þeim stöðum þar sem atvinnulíf er fábreytt, samfélögin fámenn og fjarlægðir miklar. Slík samfélög eiga í mörgum tilvikum fáa eða enga aðra möguleika til að byggja á en sjávarútveg. Húsavík er ekki einn slíkra staða og því ekki hægt að grípa til ofangreindra mótvægisaðgerða til að mæta brotthvarfi Vísis.

Rétt er að benda á að Alþingi hefur samþykkt viðamiklar aðgerðir á sviði uppbyggingar innviða við Húsavík í tengslum við áform þýska fyrirtækisins PCC um byggingu kísilvers.

Þá er rétt að benda á að það er á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, meðal annars með dreifingu opinberra starfa. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur og mun leggja sitt af mörkum í þeim efnum eftir því sem tilefni gefst til.



[16:56]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér var spurt: Til hvaða mótvægisaðgerða ætlar ráðherra að grípa vegna þess ástands sem skapast hefur á Húsavík í framhaldi af brotthvarfi Vísis? Svarið er býsna skýrt og einfalt: Ekki neinna.

Stærri þéttbýlisstaður — það er skilgreiningaratriði hvað er stórt og hvað er lítið í því samhengi. En þeir ágallar sem eru á kvótakerfinu, og þeim ákvörðunum sem útgerðarmenn geta tekið með því að flytja aflaheimildir sem byggðarlög hafa skapað rétt til með störfum sínum að útgerð og fiskvinnslu um áratugaskeið, æpa auðvitað á mann í málefnum Vísis.

Það er sannarlega full ástæða fyrir ráðherrann, þó að hann telji sig hafa úr takmörkuðum potti að spila gagnvart þeim byggðarlögum sem höllum fæti standa vegna slíkra aðgerða og hann hafi ekki nóg í þeim potti fyrir Húsavík — þá spyr maður hæstv. ráðherra: Er þá ekki rétt að sækja á ríkisstjórnina (Forseti hringir.) um frekari úrræði ráðherranum til handa til að styðja byggðarlög eins og Húsavík með mótvægisaðgerðum eins og önnur?



[16:57]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Brotthvarf Vísis frá Húsavík í vor og frá Djúpavogi nú um áramótin þegar skellt verður í lás þar er auðvitað stórt högg og sársaukafull birtingarmynd á því öryggisleysi sem sjávarbyggðirnar búa við. Í báðum tilvikum, á Húsavík og á Djúpavogi, er stærstur hluti bolfiskkvóta viðkomandi byggðarlaga, sem þar hefur þó enn haldist frá fyrri umsvifum, að hverfa á brott og reynslan sýnir að það gerist iðulega í eitt skipti fyrir öll.

Víglínan er að færast innar og það fækkar sífellt stöðunum þar sem kvótinn er að safnast saman í auknum mæli, en að sama skapi fjölgar í hinum hópnum þar sem aðgangur byggðanna að auðlindinni er orðinn takmarkaður eða nánast enginn. Á næsta ári er svo röðin komin að Þingeyri í framhaldi af þessari ákvörðun Vísis að loka á þremur stöðum.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt, við stöndum frammi fyrir því, að það verður að auka svigrúm stjórnvalda til að tryggja á nýjan leik einhverja viðunandi byggðafestu í sjávarbyggðunum sem eiga allt sitt eða mest allt undir umsvifum í sjávarútvegi.



[16:59]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Mér þótti hæstv. sjávarútvegsráðherra senda Húsvíkingum heldur kaldar kveðjur. Hér kom hann og skilaði gersamlega auðu. Það eina sem hann hafði að segja var það að ríkisstjórnin hefði á stefnuskrá sinni að efla ýmiss konar atvinnutækifæri víðs vegar um landsbyggðina. Hitt sem hann hafði fram að færa var — jú, það voru verk fyrri ríkisstjórnar að ná til Húsavíkur fyrirtækinu PCC sem vonandi á eftir að vera gild stoð undir byggðarlaginu.

Eigi að síður blasir það við, og er bara einfalt reikningsdæmi, að það sem hverfur með ákvörðun Vísis eru 66 störf og þau ásamt ýmiss konar afleiddri þjónustu eru nánast helmingurinn af þeim ávinningi sem felst í PCC.

Frú forseti. Kvótakerfið hefur leitt margt gott af sér og meðal annars verndað stofnana, en á því eru skuggahliðar. Flateyri og Húsavík sýna þessar skuggahliðar kvótakerfisins. Það verður að bregðast með einhverjum hætti við þeim.



[17:00]
Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér þykir leitt að segja að svar hæstv. ráðherra skilaði engu. Það var útlisting á því hvernig farið er með byggðakvóta og hvernig honum er úthlutað, til byggðarlaga þar sem búa færri en 400 manns o.s.frv. Allt þetta vissi ég. Vandinn er hins vegar sá í hnotskurn að á Húsavík, sem ég hef hér gert að umtalsefni, voru 66 störf lögð niður á einu bretti þegar fyrirtæki ákvað að fara og það er mjög alvarlegt mál.

Menn tala um fábreytt atvinnulíf hjá þeim sem eiga kost á því að fá byggðakvóta til sín vegna svona áfalla — sem mótvægisaðgerð, jú, það er rétt og menn hafa talað um ýmislegt sem þeir ætla að gera í því sambandi. En þarna er staðan svo alvarleg að helmingurinn af ávinningnum af hinni miklu uppbyggingu, sem fer vonandi að hefjast á Bakka við Húsavík, gæti orðið að engu. Ég gæti nefnt, ef ég hefði meiri tíma, ýmislegt annað sem hefur farið í burtu.

Virðulegi forseti. Ég vil líka nefna, vegna þess að það var líka rætt við okkur þingmenn, þau áform sem ríkisstjórnin hefur uppi um að breyta framhaldsskólakerfinu í landinu, skera niður nemendaígildi o.fl. Það getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þann framhaldsskóla sem rekinn er á Húsavík. Það kom fram á fundinum og menn hafa miklar áhyggjur af því. Ríkið er líka, þó að það sé ekki stórt, að beita sér fyrir því að lítið hlutastarf hjá Vinnumálastofnun verður lagt niður. Hér áðan var verið að ræða um hin nýju sýslumannsembætti. Það var líka rætt við okkur að það mál er í mikilli upplausn vegna þess að menn vita ekkert hvernig á að framkvæma það; og sýslumannsembættin verða í raun fjársvelt til að gera það sem átti að gera.

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. ráðherra komi í seinna svari með meira kjöt á beininu. Ég bið hann um að kenna veiðigjaldinu ekki um þetta að þessu sinni, vegna þess að umrætt fyrirtæki, sem ég er hér að tala um, sem er að flytja starfsemi sína frá Húsavík, er það fyrirtæki sem fær mestu afslætti af veiðigjöldum á Íslandi og hefur fengið undanfarin ár.

Ég mun síðar gera að umtalsefni það sem er að gerast á Djúpavogi vegna þess að þar er líka sviðin jörð þegar fyrirtækið fer.



[17:03]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnalega umræðu um þetta erfiða mál. Það er ljóst, og kom meðal annars fram í máli einstakra þingmanna, að einn af kostum íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins er að það er mjög gott til að vernda stofnana og byggja þá upp með því að við högum okkur á ákveðinn hátt hvað varðar ákvörðun um heildarafla, að byggja hann á vísindalegum grunni o.s.frv. Við þekkjum það líka að arðsemi þessarar greinar á Íslandi er margfalt meiri en annars staðar. Menn hafa vitað það alveg frá 1990, þegar framsalið var leyft, að þessi staða mundi koma upp. Þrátt fyrir það hefur kannski ekki verið brugðist við á nógu ákveðinn hátt.

Ég fór yfir það í svari mínu hvernig við höfum ákveðið að forgangsraða þeim miðlum sem við höfum til hinna smærri byggðarlaga sem eiga engan annan möguleika á að byggja sig upp.

Það er rétt að Húsavík er stærri byggðakjarni sem er í stærra vinnusóknarsvæði. Þar eru fjölbreyttari möguleikar til atvinnusköpunar, fjölbreytts atvinnulífs, og við þurfum kannski að horfast í augu við það á Íslandi að ekki verði sjávarútvegur á öllum stöðum eins og hann var 1950 eða 1980 eða 2000. Hann er síbreytilegur. Ég held að þingmenn þurfi að horfast í augu við það.

Ég tek hins vegar undir það að við þurfum að finna byggðafestu í kerfinu. Þau sjónarmið sem ég fór fram með, smærri byggðirnar, þar erum við að reyna að leita leiða til þess. Ég held að við séum á réttri leið með því að úthluta kvóta í gegnum Byggðastofnun til lengri tíma.

Það er þannig að ríkisvaldið hefur úr að spila ákveðnum heimildum. Ég held að við séum öll sammála um að þau úrræði séu ekki endilega þau bestu eins og þau hafa verið notuð á síðustu árum, hvort sem heitir byggðakvóti, línuívilnun, strandveiðar, bætur eða annað. (Forseti hringir.) Þau hafa ekki endilega skilað sér sem best til að auka byggðafestu eða fjölga fjölbreyttum tækifærum í atvinnulífi eða bæta samfélagið. Það er verkefni sem við verðum að fara yfir og það eru þau tæki sem við höfum. En eins og staðan er í dag eru þau tæki ekki möguleg hvað varðar Húsavík.