144. löggjafarþing — 35. fundur
 19. nóvember 2014.
störf þingsins.

[15:03]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í dag lesum við í fréttum að fulltrúi Eflingar hafi verið rekinn af fundi sem pólskir ræstingastarfsmenn héldu með yfirmönnum ræstingafyrirtækis sem sér um þrif á Landspítalanum. Pólsku starfsmennirnir höfðu óskað eftir nærveru þessa fulltrúa Eflingar á fundinum, auk þess sem þeir voru með túlk með sér.

En það var sem sagt þannig að fulltrúar ræstingafyrirtækisins meinuðu stéttarfélagsfulltrúanum að taka þátt í fundinum. Það hefur verið mikil ólga meðal starfsmanna vegna álags og bágra kjara og þess vegna var boðað til fundarins. Um er að ræða 12 starfsmenn sem sjá um þrif á 26 þús. fermetra svæði á Landspítalanum. Enginn trúnaðarmaður er á staðnum og þetta er því í raun óskiljanlegt og mikil vanvirða við starfsfólkið sem þarna vinnur, sem þekkir rétt sinn kannski síður en margir sem eiga íslenska tungu að móðurmáli, og hafði óskað eftir því að fá fulltrúa stéttarfélagsins. Að neita þeim um fulltrúa er ekkert annað en brot á mannréttindum þeirra, enda gengu þeir af fundi ásamt fulltrúa Eflingar.

Það er líka rétt í þessu samhengi að vekja athygli á því að í kringum 73% þeirra sem starfa við ræstingar eru með dagvinnulaun sem eru undir 250 þús. kr. fyrir fullt starf og þetta er líka sá hópur sem hefur hækkað hvað minnst í launum á milli ára.

Nú heyrum við og sjáum að búið er að kaupa lúxusbíla fyrir ráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem hér situr að völdum fyrir á annan tug milljóna. Þá er ekki annað en vert að spyrja í framhaldinu um þá sparnaðarákvörðun sem tekin var í Stjórnarráðinu ekki alls fyrir löngu, þar sem konur starfa við ræstingar, hvort ríkisstjórnin ætlar að draga hana til baka — eða ætlar ríkisstjórnin að bjóða starfsfólki sínu (Forseti hringir.) upp á sambærilegar vinnuaðstæður og þessar pólsku ræstingakonur búa við?



[15:06]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í vikunni fengum við nefndarmenn í velferðarnefnd kynningu á drögum að frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sem svo er kallað. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram í byrjun næsta árs.

Staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er villandi hugtak. Það hljómar eins og ofboðslega göfugt mál en siðferðilegu álitaefnin sem liggja að baki, og praktíkin sjálf sem nú er komin fram, sýna svo að ekki verður um villst að velgjörðin er ansi brothætt.

Við erum komin á þann stað með væntanlegu frumvarpi að líkt og maður gefur af góðmennsku úr sér nýra eða eitthvert annað líffæri megi að sama skapi gera ráð fyrir að konur gefi afnot af legi sínu og líkama öllum fyrir aðra, bara út af því að svo heppilega vill til að tæknin leyfir það.

Að þessu er sem sagt verið að vinna og það er eins og ekkert þurfi að ræða það að líffæri er ekki það sama og barn. Eða finnst fólki það? Á maður sama rétt á hvoru tveggja, er enginn stigsmunur á?

Það kom fram á fundi velferðarnefndar að við frumvarpsvinnuna hefði einfaldlega verið sneitt fram hjá siðferðilegum vanköntum og ég hef mikið velt því fyrir mér hvernig hægt sé að fjalla um þetta mál án þess að taka tillit til siðferðislegra álitaefna.

Grunnforsendan, sem gengið er út frá hér, er að fólk sem vill verða foreldrar vanti börn, ekki þeirri forsendu að börn séu umkomulaus og vanti foreldra til að annast sig en sú forsenda hefur verið ástæðan fyrir ættleiðingum.

Við þurfum að hafa það alveg á hreinu, í allri umræðu um staðgöngumæðrun, að við erum að ræða um rétt fullorðinna, við erum að ræða þetta út frá kröfum þeirra en ekki út frá kröfum eða þörfum barna.



[15:08]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Bernskan er ævintýri og það er ævintýri að ala upp barn. Bernskan er dýrmæt og viðkvæm og þarfnast gætni og virðingar. Barnið þarf föruneyti og í því eru ekki aðeins vinir og vandamenn heldur samstarfsmenn og stofnanir. Stjórnvöld sem búa fjölskyldunni markvisst betra umhverfi eru í föruneyti barnsins. Stefna stjórnvalda sem er hliðholl fjölskyldunni styrkir barnið.

Á morgun, þann 20. nóvember, á barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna 25 ára afmæli. Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn séu hópur sem þarfnast sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu og að réttinda þeirra hafi ekki verið nægilega gætt í fyrri mannréttindasamningum. Jafnframt felst í honum viðurkenning á því að börn séu fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi, þau eigi sín réttindi óháð réttindum fullorðinna. Allar 54 greinar barnasáttmálans eru mikilvægar og jafn mikilvægar. Fjórar greinar eru þó taldar grundvallaratriði.

Það er 2. gr. sem fjallar um jafnræði og bann við mismunun en þar stendur, með leyfi forseta:

„Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.“

Svo er það 3. gr., það sem barninu er fyrir bestu:

„Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.“

6. gr., það er réttur til lífs og þroska:

„Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast.“

Síðan er það 12. gr., réttur barna til þess að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif:

„Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.“

Hæstv. forseti. Sem einn af talsmönnum barna á Alþingi mun ég halda sjónarmiðum barna (Forseti hringir.) hátt á lofti og hvetja aðra þingmenn til hins sama.



[15:10]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í Kastljósi gærkvöldsins var áframhaldandi umfjöllun um stöðu fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og túlkaþjónustu þess. Þar kom fram að hæstv. menntamálaráðherra hafði ekki séð umfjöllun Kastljóss í fyrradag en hann sagði að það væri pólitísk ákvörðun að tryggja fjármagn í túlkasjóði og hana þyrfti að taka með fagaðilum.

Þótt fagaðilar séu frábærir og iðulega mjög færir í starfi sínu eru þeir ekki einu sérfræðingarnir í málefnum fatlaðs fólks. Fatlað fólk sjálft er nefnilega mjög oft mestu sérfræðingarnir í eigin málum og hafa bestu og víðtækustu þekkinguna. Við stjórnmálamenn verðum að hlusta á hvað fatlað fólk hefur að segja um sína eigin stöðu og að því sögðu vil ég vitna í skrif Snædísar Ránar Hjartardóttur sem hún setti inn á facebook-síðu sína í kjölfar Kastljóssþáttarins í gær, en hún er einmitt stjórnarkona í Fjólu, félagi fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Með leyfi forseta:

„Það er ekki neins að ákveða hverjir eiga rétt á túlkun umfram aðra, það má aðeins skipuleggja þjónustuna þannig að allir sem þurfa fái sinn sanngjarna skerf. Hvað fjármunina varðar þá er spurningin frekar hvernig við skiptum samfélagslegum gæðum milli okkar, hvort vegur meira þjónusta sem stuðlar að eðlilegri og sjálfsagðri þátttöku í samfélaginu eða munaði sem hugsanlega á rétt á sér en er kannski ekki nauðsynlegur. Ég segi bara fyrir mig að ég er ekki tilbúin að lifa í búri þar sem allar pantanir til Samskiptamiðstöðvar lenda í einhverja forgangsröð sem á víst eftir að valda því að ég eigi bara rétt á sumum útgáfum af samskiptum við annað fólk!“

Ef þetta er ekki sjónarhorn sem við hér inni eigum að taka tillit til (Forseti hringir.) og góð þekking á eigin stöðu og hvernig maður getur lifað innihaldsríku lífi í samfélaginu (Forseti hringir.) þá veit ég ekki hvað ætti að vera það.



[15:13]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Snemmtæk íhlutun er það kallað þegar reynt er á markvissan hátt að hafa áhrif á þroskaframvindu barna með frávik í þroska eins snemma og unnt er á lífsleiðinni. Tímabilið frá fæðingu til sex ára aldurs er það tímabil í líf barna sem snemmtæk íhlutun er yfirleitt miðuð við. Aðaláhersla er lögð á að íhlutunin hefjist sem fyrst eftir að frávik í þroska greinist.

Snemmtæk íhlutun er markviss aðgerð sem kemur í veg fyrir eða dregur úr frávikum í þroska og/eða hegðun hjá börnum. Snemmtæk íhlutun er jafnframt aðstoð við fjölskyldur til að takast á við frávik í þroska og/eða hegðun hjá börnum. Snemmtæk íhlutun er ávinningur fyrir samfélagið.

Eftir ákveðna reynslu af þessum málum og eftir að hafa horft upp á einstaklinga sem farið hafa í gegnum það ferli sem snemmtæk íhlutun er, einstaklinga sem verið hafa inni í sér og ekki getað tekið þátt í mannlegum samskiptum, einstaklinga sem sýnt hafa mjög erfiða hegðun og einstaklinga sem ekki hafa getað átt almenn samskipti við annað fólk, breytast í fólk sem elskar að koma fram, hefur þokkalega samskiptahæfileika, getur sýnt ágætishegðun og tekið nokkuð virkan þátt í samfélaginu, þá sér maður hversu mikilvægt þetta ferli, snemmtæk íhlutun, er. Þá er reynt að hafa örvun við hæfi þar sem unnið er með veikleika viðkomandi og það sem bregðast þarf við. Það þarf að hafa áætlun um hvernig bregðast eigi við og styrkja viðkomandi. Það þarf að hafa eftirfylgni með því hvernig til hefur tekist og vera hægt að bregðast við ef á þarf að halda. Það getur haft mjög jákvæð áhrif á þá einstaklinga sem unnið er með og samfélagið. Ég hvet ríki og sveitarfélög til að huga að þessum þáttum því að það er sannarlega heillaskref fyrir einstaklinginn sjálfan og samfélagið allt.



[15:15]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Lífið er fullt af breytingum. Samt er í mannfólkið innbyggð tregða gegn þeim. Þær neyða út fyrir þægindaramma og til að horft sé á hlutina frá öðru sjónarhorni. Einar íhaldssömustu stofnanir samfélags er varða vinnulag eru skólastofnanir. Frá upphafi hefur ákveðið vinnulag tíðkast sem fylgir alþjóðasamfélaginu enn í dag í stórum dráttum.

Auðvitað hafa orðið breytingar með breyttu samfélagi en þó minni en við mætti búast. Skoskur fræðimaður lýsti því eitt sinn svo í mín eyru: Skólarnir eru eins og seglskip en samfélagið er eins og vélskip.

Framhaldsskólar á Íslandi mennta ungt fólk til stúdentsprófs en þeir mennta líka til annarra prófgráða sem eru í flestum tilfellum í verk- og tækninámi. Áherslan hefur löngum verið mest á bóknámið eða stúdentsprófið sem hefur verið skilgreint sem fjögurra ára nám. Oft hefur komið til tals að stytta stúdentsnám í þrjú ár og frá árinu 2008 hefur markvisst verið unnið að því. Sumir framhaldsskólar eru þegar komnir vel á veg og hafa gert breytingar á náms- og kennsluháttum sem nauðsynlegt er að gera.

Við þessa styttingu mun nemendum í framhaldsskólum væntanlega fækka um einn árgang. Núverandi menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson hefur mikinn metnað fyrir hönd framhaldsskólastigsins. Hann sér fyrir sér að það fjármagn sem út af stendur við þessa breytingu haldist inni í skólunum, gefi okkur tækifæri til að auka gæði menntunar og að skólarnir geti komið betur til móts við þarfir einstaklingsins.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að meðan þessi umbreyting er að ganga yfir sé gætt vel að minnstu skólunum og fjármagn til þeirra ekki skorið niður, (Forseti hringir.) að gólfið verði ekki brotið fyrir framan þá áður en þeir ganga inn í nýja rýmið.



[15:17]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Forsætisráðherra segir ekki hægt að horfa til kjaradeilna lækna án tillits til væntanlegra samninga á almenna vinnumarkaðnum og vill skoða sátt á vinnumarkaði um launahækkun lækna. Nú eru rúmar þrjár vikur liðnar frá því læknar hófu verkfallsaðgerðir sínar og verkfall tónlistarkennara í kjaradeilu við sveitarfélögin hefur staðið yfir í fimm vikur. Þetta er grafalvarleg staða og kostar samfélagið mikið, tjón sem er ekki eingöngu hægt að meta til fjár, því að biðlistar hrannast upp í heilbrigðiskerfinu með afleiðingum fyrir það fólk sem bíður, með áhrifum á heilsu þess og álagi á heilbrigðiskerfið.

Stjórnvöld bera mikla ábyrgð á stöðunni í kjaradeilu lækna. Ekki er hægt að skilja í sundur fjárhagsvanda Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana þegar horft er til launakrafna lækna. Nýr Landspítali mundi virkilega hafa áhrif þar á og bæta kjör og aðbúnað lækna til framtíðar.

Forsætisráðherra ætti að líta í eigin barm þegar hann gefur tóninn um að þeir á almenna markaðnum eigi að horfa til þess að ná einhverri sátt. Hvað hefur verið gert af hálfu stjórnvalda til að liðka til fyrir komandi kjarasamningum? Þvert á móti er ráðist að kjörum almenns launafólks í landinu með auknum gjöldum í heilbrigðiskerfinu, hækkun á virðisaukaskatti á matvæli og hita og rafmagn, niðurskurði til vinnumarkaðsaðgerða, styttingu atvinnuleysisbótatímabilsins og fólki á vinnumarkaði, sem hefur hrökklast burt úr námi af einhverjum ástæðum, er meinaður aðgangur að framhaldsskólunum. Sköttum er létt af hátekjufólki á kostnað lágtekjufólks.

Er þetta það innlegg sem við sjáum í kjarasamningum sem eru fram undan á almenna vinnumarkaðnum og á forsætisráðherra (Forseti hringir.) að tala svona til almenna vinnumarkaðarins? Nei, ég held að hann ætti að líta sér nær. Það er til skammar hvernig komið er fram gagnvart ræstingafólki í Stjórnarráðinu (Forseti hringir.) og það ber vitni um að forsætisráðherra hefur ekki mikinn skilning á kjörum almennings í þessu landi.



[15:19]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt að hafa áhyggjur af ört fjölgandi merkjum um aukin skattsvik á Íslandi. Hægt er að nefna að 1% bætt innheimtuhlutfall tollstjórans þýðir 5 milljarða kr. í ríkissjóð. Það er sérstaklega ein stétt eða atvinnugrein sem legið hefur undir ámæli um að þar séu skattsvik ráðandi, það er ferðaþjónustan. Í fyrra var gefin út skýrsla af Rannsóknarstofnun atvinnulífsins á Bifröst. Þar kemur fram að forsvarsmenn 65% fyrirtækja innan ferðaþjónustunnar telja að skattsvik skekki samkeppni í þeim greinum ferðaþjónustu sem fyrirtæki þeirra starfa í. Talið er samkvæmt sömu skýrslu að 13% gistingar hafi farið fram hjá skatti árið 2013 og að það hlutfall hafi aukist úr 8% árið 2011.

Þess má líka geta að talið er að óskráð herbergi og fasteignir sem boðnar eru til leigu í Reykjavík séu jafn margar og öll hótelherbergi í Reykjavík. Þessar eignir eru leigðar út án leyfa og er næsta víst að þeir sem þær leigja út skila ekki skatti.

Svo aftur sé vísað til skýrslunnar sem Rannsóknarstofnun atvinnulífsins gaf út þá kemur þar fram að þeir sem hafa leyfi og starfa samkvæmt leyfum eru mun líklegri til þess að standa skil á sköttum og öfugt. Það er því ljóst að auka þarf mannafla skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra og tollstjóra, því að það er næsta víst að ef það verður gert munu þær mannaráðningar borga sig margfalt fyrir ríkissjóð.



[15:22]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég hef áhyggjur af viðhorfum þeirra sem hér ráða ríkjum til rannsóknarnefnda Alþingis. Kostnaður við þær er sagður óheyrilegur og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ákvað að skjóta sendiboðann, eins og sagt er, þegar rannsóknarnefnd skilaði áliti sínu um Íbúðalánasjóð. Skýrslan sýnir að óábyrg lagasetning, vond stjórnsýsla og ófullnægjandi eftirlit kostaði skattgreiðendur landsins á annað hundrað milljarða og jafnvel allt að 270 milljörðum. Kostnaðurinn við skýrsluna nam 250 millj. kr. sem er innan við 0,25% af fjárhagsskaðanum af Íbúðalánasjóði sem borinn er af skattgreiðendum, hvernig sem skaðinn er reiknaður.

Það mun hafa verið í ágúst 2013, virðulegi forseti, sem forsætisnefnd ákvað að ekki yrði ráðist í frekari rannsóknir fyrr en farið hefði verið yfir starf nefndanna og sú yfirferð gæti leitt til tillagna að lagabreytingum. Það eru meira en 15 mánuðir síðan og ekkert hefur heyrst í þeim efnum. Á meðan er ekki sett á laggirnar rannsókn til að skoða einkavæðingu bankanna eins og samþykkt var í þingsal í nóvember 2012, fyrir tveimur árum, forseti.

Það meira en læðist að mér sá grunur að áhugi þeirra sem hér ráða ríkjum sé lítill á því að koma þessum málum í það horf að þeir þykist geta farið að vilja Alþingis og skipað rannsóknarnefnd til að skoða einkavæðingu bankanna. Það meira en læðist að mér sá grunur, virðulegi forseti, að þeim þyki ekki verra að þetta tæki, sem átti að vera áhrifamikið sem forvörn gegn vondum stjórnarháttum og vondri stjórnsýslu, sé í lamasessi.



[15:24]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Um áramótin 2013/2014 ákvað Alþingi að taka úr fjárlögum heimild til sölu á landi ríkisins undir Reykjavíkurflugvöll. Þrátt fyrir að heimildina sé ekki að finna í fjárlögum þá fullyrðir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að náðst hafi samkomulag við þáverandi fjármálaráðherra Katrínu Júlíusdóttur og það samkomulag gildi.

Ástæðan fyrir því að heimildin var sett inn er sú að heimildin verður að vera til staðar þar til samkomulagið er fullnustað og þar til yfirfærslan hefur öll gengið eftir.

Ég hef verulegar áhyggjur af því að þrátt fyrir samkomulag ríkis og borgar og Icelandair Group, sem fól meðal annars í sér að stofna hina svokölluðu Rögnu-nefnd og bíða þar með með allar aðgerðir, þá heldur Reykjavíkurborg í sífellu áfram að gera grunninn að Reykjavíkurflugvelli minni og verri, þ.e. að gera hann að verri valkosti sem nauðsynlegan innanlandsflugvöll en ella.

Ég hef líka af því áhyggjur að borgarstjóri og borgarfulltrúar vísa í samkomulög og eru jafnvel að staðfesta þau mörgum árum seinna í borgarráði, eins og samkomulagið sem gert var á milli þáverandi borgarstjóra og Ögmundar Jónassonar sem þá var innanríkisráðherra, þrátt fyrir að hann stígi fram í blaðagrein og vísi til þess að það samkomulag hafi verið margbrotið, þar á meðal með stofnun umræddrar Rögnu-nefndar. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég verð að koma upp og segja frá þessu vegna þess að ég tel einsýnt að borgin ætlar með einhverjum (Forseti hringir.) ráðum að koma flugvellinum í burtu og það verður að stöðva. (VigH: Sama hvað það kostar?)



[15:26]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýlega barst hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd minnisblað frá hv. stærðfræðingi Þorkeli Helgasyni og varðar það birtar niðurstöður úr þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem haldin var 20. október 2012. Mig langar að lesa aðeins úr því, með leyfi forseta:

„Það er álit undirritaðs að hlutfallstölur um úrslit þessarar atkvæðagreiðslu eins og þær hafa verið birtar í annarri af tveimur tilkynningum landskjörstjórnar, hjá innanríkisráðuneytinu svo og sem aðalniðurstaða í riti Hagstofunnar, séu villandi.

Rangfærslan byggist á því að atkvæði þar sem tiltekinni spurningu er ekki svarað eru engu að síður talin til gildra en ekki auðra atkvæða varðandi viðkomandi spurningu og hlutfallstölur reiknaðar í samræmi við það. Samtala hlutfalla já-svara og nei-svara er því ekki 100%. Þannig getur það gerst, samkvæmt þessari túlkun, að tillaga sem borin væri undir þjóðaratkvæðagreiðslu teljist hvorki hafa verið samþykkt né að henni hafi verið hafnað. Hlutfallstölurnar sem hafa verið birtar gefa því ekki þá mynd sem löggjafinn hlýtur að hafa verið að leita eftir, þar sem fram eigi að koma vilji þeirra sem tóku afstöðu til hverrar spurningar fyrir sig, og þeirra einna.“

Ef maður lítur á tölurnar fyrir og eftir að þær hafa verið leiðréttar getur munurinn verið talsverður, t.d. varðandi 6. spurningu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?“

Í minnisblaðinu má sjá að hlutfallstala já-svara við þessari spurningu í birtum niðurstöðum er 63,4%, en rétta talan er 73,3%. Það er munur upp á 9,9%.

Mér þótti rétt að taka fram hér á hinu háa Alþingi að þær niðurstöður sem hafa verið birtar eru villandi eða sumar þeirra í það minnsta og það er mikilvægt að hafa það í huga. Í öllum tilfellum sé ég hærri hlutfallstölur já-svara eftir þessa endurútreikninga þar sem tölurnar eru réttar (Forseti hringir.) samkvæmt þeim forsendum sem nefndar hafa verið.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.



[15:28]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í tvo áratugi hef ég barist fyrir því að menn taki upp starfsgetumat í staðinn fyrir örorkumat, líti frekar á getu fólks til að starfa en vangetu. Ég hef starfað í þremur nefndum sem hafa barist fyrir þessu og er formaður þeirrar síðustu sem nú starfar. Öll sú nefnd er sammála um að nauðsyn sé að taka upp starfsgetumat.

Á dögunum birtist einstæð auglýsing félagasamtaka, Öryrkjabandalagsins, sem hafði það markmið að sverta ákveðna stjórnmálamenn, þ.e. mig og hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Þau nota til þess tugi milljóna. Auglýsingin um mig var í engu málefnaleg heldur snerist gegn persónu minni. Það sæmir ekki Öryrkjabandalaginu að nota sér erfiðleika fólks í veikindum, klippa í sundur setningar og nota myndskeið án leyfis til að klekkja á fólki, hafa af því æruna og vega að trúverðugleika þess.

Mér er vissulega misboðið vegna þessarar auglýsingar, þessa nýmælis í íslensku stjórnmálalífi. Ég get ekki skilið hvaða hvatir liggja að baki því að Öryrkjabandalagið eyði tugum milljóna í auglýsingu sem fjallar ómálefnalega og á einstæðan hátt og neikvæðan um mína persónu.

Ég kvarta ekki undan málefnalegri gagnrýni en ekkert er málefnalegt við þessa auglýsingu. Ég spyr hv. þingmenn: Eru þetta vinnubrögð sem við viljum sjá, að félagasamtök noti milljónir til að sverta þingmenn?

Nú er ég formaður í þessari nefnd sem starfað hefur ötullega í eitt ár að málefnum sem varða öryrkja og aldraða mikið. Öryrkjabandalagið á tvo fulltrúa í þeirri nefnd. Ég mun reyna að láta þetta atvik ekki hafa áhrif á störf mín og leita áfram að lausnum sem gagnast munu öryrkjum og öldruðum en óneitanlega verður það eitthvað erfiðara.



[15:31]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að fara yfir nokkrar staðreyndir varðandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar.

Framlög til almannatrygginga hafa verið aukin með fjárlögum 2014. Skerðingar á greiðslum til öryrkja og eldri borgara sem teknar voru upp árið 2009 voru afnumdar og framlög til almannatrygginga aukin um 9 milljarða, eða 11%. Við höfum því aldrei sett jafn mikið fjármagn til almannatrygginga og á árinu 2014.

Í fjárlagafrumvarpinu 2015 er eftirfarandi lagt til vegna öryrkja:

Gert er ráð fyrir að greiðslur vegna almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar hækki um 3,5% um næstu áramót. Frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar verður framlengt og verður áfram 109.600 kr. á mánuði. Framlag til að hækka tekjuviðmið uppbótar á lífeyri verður aukið um 72 millj. kr. Reikna þarf út hve mikið er hægt að hækka viðmiðið fyrir þessa fjárhæð, en vænta má aukins fjölda einstaklinga sem eiga rétt á uppbótinni og ekki fá greiðslur í dag.

Um 500 millj. kr. útgjaldaaukning verður vegna endurhæfingarlífeyris á næsta ári vegna mikillar fjölgunar þeirra sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri.

Aukin áhersla verður lögð á vinnusamninga við öryrkja og lagt út frá starfsgetumati, en gert er ráð fyrir að það færist undir lög um vinnumarkaðsaðgerðir um áramótin og þar með til Vinnumálastofnunar.

Í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar er lagt til að farin verði sú leið sem starfshópur um víxlverkanir lagði til. Hún felur í sér samanburð á þeim fjárhæðum sem hver og einn neytir, annars vegar miðað við frítekjumörk og skerðingarhlutföll ársins 2013, þ.e. samkvæmt þeim sérreglum sem leiða af framkvæmd lagaákvæðisins ásamt 3,6% hækkun á fjárhæðum lífeyrisgreiðslna sem urðu um síðustu áramót og hins vegar miðað við almennar reglur ársins 2014.

Þessar leiðir í bland við aðrar munu því hlífa tekjulágum lífeyrisþegum (Forseti hringir.) við afleiðingum þess að gildistími samkomulagsins og laganna er útrunninn.



[15:33]
Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Glæsilegar myndir blöstu við á síðum Morgunblaðsins í morgun af uppbyggingu inni í Sundum í Reykjavík, hugmyndir um breytingu á gömlu iðnaðarsvæði í íbúðahverfi.

Ég hrökk þó aðeins við. Er verið að loka fyrir möguleika á hófsömustu og ódýrustu lausninni varðandi lagningu Sundabrautar? Í aðalskipulagi sem ég hafði undir höndum frá 1996–2016 er lögð þung áhersla á að Sundabraut yfir Kleppsvík komi sem fyrst til þess að greiða fyrir samgöngum við Grafarvogshverfin og til þess að sporna við að umferð á Miklubraut aukist.

Þar er einnig hátíðlega sett fram að höfuðborgin sé öflug miðstöð atvinnulífs, þjónustu og samgangna í landinu, já, samgangna í landinu. Er verið að greiða fyrir samgöngum til höfuðborgarinnar og innan hennar með því að girða fyrir alla framtíðarmöguleika á hagkvæmum, nauðsynlegum samgöngubótum? Þetta fer að minna á borgríki miðalda þegar múrar voru settir umhverfis borgir svo að valdhafarnir gætu valið hverjir mundu heimsækja borgríkið og hvenær. Almúganum fyrir utan var ekki hleypt inn nema þegar þeir voru til dæmis að skila af sér skattinum eða matarbirgðum til valdhafanna.

Það sama má segja um flugvöllinn. Stöðugt er þrengt að honum til þess að flæma þá samgönguæð í burtu. Þetta er þröngur sjóndeildarhringur fólks sem einskorðast við lífið innan Elliðaánna og hefur ekki skilning á lífi fólks þar fyrir utan og þar með helmingi borgarbúa.

Mig langar einnig að vitna í aðra grein í Morgunblaðinu í morgun þar sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrar bendir á að sænska þingið hafi þurft að grípa inn í þegar sveitarfélög í Stokkhólmi ætluðu að leggja niður Brommaflugvöllinn sem er þar miðsvæðis í borginni. (Forseti hringir.) Það endaði þannig að hann er tryggður þar til 2038. Höfuðborgir hafa skyldur.



[15:35]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég hef verið að rýna léttilega í upplýsingar um hið nýja kvótakerfi. Út frá því litla sem ég hef fengið upplýsingar um og má deila þá verð ég að segja að mér líst afar illa á nýja kvótakerfið og vil því minna þingheim á að það er ekkert vit í því að samþykkja nýtt kvótakerfi eða nýtt fiskveiðistjórnarkerfi fyrr en við erum búin að fá ákvæðið um náttúruauðlindirnar í stjórnarskrá. Því legg ég til og mæli með að fiskveiðistjórnarfrumvarpið verði ekki afgreitt hér á Alþingi fyrr en sú stjórnarskrárbreyting hefur átt sér stað. Ég mun í það minnsta gera allt sem ég get til þess að tryggja að þær breytingar muni ekki eiga sér stað að auðlindin verði rótfest í höndum auðmanna.

Ég ætla að lesa hér örsnöggt upp úr þessu fallega riti, Ný stjórnarskrá, sem er enn þá í kóma og ég á von á að okkur takist einhvern tíma koma úr því.

Þar stendur í 34. gr. undir yfirskriftinni Náttúruauðlindir:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Ég skora á þingmenn (Forseti hringir.) að samþykkja ekki þetta fiskveiðistjórnarfrumvarp fyrr en við höfum breytt stjórnarskrá okkar.