144. löggjafarþing — 35. fundur
 19. nóvember 2014.
almenn hegningarlög, 1. umræða.
frv. HHG o.fl., 395. mál (afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana). — Þskj. 544.

[18:49]
Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Það fjallar um að afnema fangelsisrefsingar fyrir tjáningu skoðana.

Ef áhorfendur eru í nokkrum vafa tek ég fram að, já, það er árið 2014.

Frumvarp þetta var lagt fram á 143. löggjafarþingi en var ekki rætt. Er það nú lagt fram að nýju óbreytt. Með frumvarpinu er lagt til að ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður verði breytt á þann veg að ekki verði heimilt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir að tjá skoðanir sínar. Flutningsmenn frumvarpsins telja slíkar heimildir ekki standast nýrri viðhorf til mannréttinda, sérstaklega með hliðsjón af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ekki lýst því yfir með skýrum hætti að refsiákvæði sem takmarka tjáningarfrelsi séu andstæð sáttmálanum hefur dómstóllinn í auknum mæli gagnrýnt beitingu refsinga á þessu sviði, ekki síst fangelsisrefsinga. Þá hefur Evrópuráðið einnig ályktað um að rétt sé að ríki endurskoði refsiákvæði vegna ærumeiðinga. Í nóvember 2013 lýsti erindreki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, miklum áhyggjum af takmörkunum á tjáningarfrelsi á Íslandi vegna frumvarps til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, en það frumvarp varðaði mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot, sem var samþykkt 29. janúar 2014. Það var 109. mál á 143. löggjafarþingi.

Í fréttatilkynningu frá stofnuninni kemur fram að fangelsisdómur sé of hörð refsing fyrir ákvæði sem takmarki tjáningarfrelsi og séu veikt orðuð með miklu svigrúmi til lagatúlkunar. Er því með þessu frumvarpi lagt til að heimild til að dæma fangelsisrefsingu verði felld brott úr þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður, hversu lögmætar svo sem þær skorður séu í eðli sínu.

Vert er að vekja athygli á því að þau réttindi sem geta skarast við tjáningarfrelsið, til að mynda æra manna, njóta einnig verndar að einkarétti og geta menn sem telja að sér vegið höfðað einkamál og krafist bóta eftir atvikum. Það er ekki ætlun flutningsmanna að hrófla við þeim réttindum, enda er með frumvarpinu einungis lagt til að ekki verði lengur unnt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir tjáningu skoðana.

Flutningsmenn telja of langt gengið á tjáningarfrelsið í XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Frumvarpið sem hér er lagt fram breytir því ekki í grundvallaratriðum og gengur ekki nægilega langt til að koma tjáningarfrelsisverndinni í ásættanlegt horf hér á landi. Hins vegar telja flutningsmenn raunhæft að ná samstöðu um þær breytingar sem hér eru lagðar til enda eru þær skref í rétta átt.

Í þessu frumvarpi er fjallað um ýmsar greinar almennra hegningarlaga, sumar þeirra lögmætar að mati þess sem hér stendur og aðrar ólögmætar. Það eru til lögmætar takmarkanir á tjáningarfrelsi en þær takmarkanir þurfa að vera til þess að vernda önnur réttindi manna, t.d. friðhelgi einkalífsins eða rétt til öryggis. Hins vegar eru í almennum hegningarlögum á Íslandi í dag greinar á borð við 125. gr. almennra hegningarlaga sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“

Ég er enginn stuðningsmaður þess að draga dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegra trúarbragðafélaga. Ég hef mælt gegn því að fólk geri það, sérstaklega þegar kemur að miklu gríni um islam. Ástæðan er sú að ég tel það ganga gegn þeirri þróun sem við þurfum að fara í sem er meira samtal milli trúarhópa. Ég tel það oftast ógagnlegt fyrir lýðræðislega umræðu að gera grín að trúarbrögðum. Að því sögðu hlýtur það að vera réttur fólks að gantast með trúarskoðanir, það hlýtur að vera innan ramma tjáningarfrelsisins. Síðast þegar ég athugaði mannréttindasáttmálann og stjórnarskrá hafði fólk ekki rétt til þess að verða aldrei móðgað. Fólk getur bara lifað með því að vera móðgað, það er ekki til of mikils ætlast í frjálsu samfélagi. Það er nokkuð sem við greiðum fyrir það að mega tjá skoðanir okkar.

125. gr. almennra hegningarlaga er sú grein sem ég hef hvað mest á móti. Að því sögðu legg ég áherslu á að hér er ekki stungið upp á því að sú grein verði fjarlægð vegna þess að það er hluti af stærri umræðu sem þarf helst að eiga sér stað í samhengi við þingsályktunartillögu sem var samþykkt á hinu háa Alþingi árið 2010. Hér er þess í stað lagt upp með að fella burt fangelsisrefsingar. Ástæðan fyrir því að við göngum ekki lengra í átt að sjálfsögðu tjáningarfrelsi að þessu sinni er sú að við teljum raunhæfan möguleika að fólk geti sameinast um þetta, að jafnvel þótt það sé hlynnt þvælu eins og 125. gr. almennra hegningarlaga hljóti það í það minnsta að vera sammála því að ekki sé við hæfi að hóta fangelsisrefsingu við slíkum brotum.

Ísland hefur upp á síðkastið, með því á ég við seinustu örfá ár, síðan 2010, unnið sér inn orðstír erlendis sem einhvers konar mekka tjáningarfrelsisins. Það er með þeim sjálfsögðu fyrirvörum sem ávallt varða tjáningarfrelsið, það eru til lögmætar skorður á tjáningarfrelsinu. Þær mega ekki vera bara einhvern veginn, þær mega ekki vera bara eftir geðþótta, þær mega ekki vera eftir því hvað móðgar fólk. Það gengur ekki í lýðræðissamfélagi, reyndar hvergi ef út í það er farið.

Þessi orðstír hefur upp á síðkastið, undanfarin tvö ár eða svo, orðið fyrir mjög alvarlegum hnekki. Fyrr í dag rakst ég á frétt þar sem „Reporters Without Borders“, Fréttamenn án landamæra, fjölluðu um að tjáningarfrelsið hefði orðið fyrir skaða hérlendis seinastliðin tvö ár. Það eru ekki bara meiðyrðamálin sem valda því heldur einnig ýmsar athugasemdir stjórnmálamanna. Sömuleiðis eru að missa trúna á okkur þeir aðilar sem höfðu, og hafa vonandi enn, áhuga á að fjárfesta hér í upplýsingatækniiðnaði á þeim forsendum að hér sér góð löggjöf um tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi. Þetta er mjög alvarleg þróun. Við erum að missa af lestinni og þótt við hefðum viljað leyfa þeirri vinnu sem á sér stað núna í hæstv. mennta- og menningarmálaráðuneyti að ljúka því ferli að gera Ísland að leiðandi ríki í málefnum upplýsinga- og tjáningarfrelsis er þetta nokkuð sem liggur á. Það liggur á að fjarlægja heimildir til fangelsisrefsingar við tjáningarbrotum á Íslandi.

Ég hef enn ekki heyrt nein góð rök fyrir því að hafa hótanir um fangelsisrefsingar í lögum þegar kemur að tjáningarbrotum og ég býst ekki við að ég muni heyra nokkur góð rök um þau enda veit ég ekki til þess að þau séu til eða hafi nokkurn tíma verið til.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál að svo stöddu en legg til að það gangi til 2. umr. og umfjöllunar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.



[18:58]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er á margan hátt áhugaverð tillaga hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni. Ég tel í sjálfu sér ekki að fangelsisrefsing sé það sem við getum best gert til þess að koma í veg fyrir eitthvað sem okkur þykir óæskilegt.

Hins vegar ætla ég að segja að orðið „tjáningarfrelsi“ hefur ef til vill allt aðra merkingu í dag en það hafði fyrir 20 eða 30 árum, ég tala nú ekki um fyrir 50 árum síðan. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að skilgreina hvað felst í orðinu tjáningarfrelsi.

Mig langar líka til þess að spyrja hv. þingmann um hvernig við eigum að bregðast við ónafngreindri tjáningu, þá vísa ég í „kommentakerfi“ á netinu, af því að netið er orðið mjög ráðandi í samskiptum og skoðanaskiptum manna. Ég velti fyrir mér: Á hvaða leið erum við með það? Erum við eitthvað betur sett með því að menn þurfi ekki að koma fram undir nafni þegar þeir tjá skoðanir sínar? Er það til dæmis tjáningarfrelsi að koma ekki fram undir nafni?



[19:00]
Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna fer hv. 6. þm. Norðaust. inn á umræðu sem er mikilvæg en heldur tímafrek. Við þyrftum kannski meira en andsvaratíma til þess að fara yfir það allt saman.

Það er sem betur fer rétt að tjáningarfrelsi í dag þýðir ekki alveg það sama og það þýddi fyrir 20, 30 árum vegna þess að fyrir 20, 30 árum á Íslandi var það næstum því þýðingarlaust. Hæstaréttardómur nr. 16/1983 staðfesti á sínum tíma 125. gr. almennra hegningarlaga, sem ég kvartaði svo mikið undan hérna áðan, þannig að það gleður mig mjög mikið að almenn viðhorf til tjáningarfrelsis hafi styrkst, enda hafa þau verið í mikilli óreiðu á Íslandi frá upphafi, eftir því sem ég fæ best séð. Hér á Íslandi virðast menn af einhverjum ástæðum alltaf hafa haft meiri áhyggjur af æru sinni en tjáningarfrelsi. Ég veit ekki hvað býr að baki því.

Hv. þingmaður spyr mig út í ónafngreind „komment“ eða skilaboð á netinu. Ja, ég get sagt alla vega í stuttu máli sagt hvernig við bregðumst ekki við því. Við bregðumst ekki við því með fangelsisrefsingum. Við bregðumst ekki við því með almennum hegningarlögum nema upp að því marki sem lögmætar skorður á tjáningarfrelsi segja til um, og þá auðvitað bara með lögreglurannsókn ef málið er þannig vaxið. Nafnleysi er vissulega einn af óhjákvæmilegum fylgifiskum internetsins sem betur fer og ég lít bara á það sem réttindi, kannski ekki endilega sem hluta af tjáningarfrelsi en vissulega sem hluta af réttindum, já, að koma ekki fram undir nafni. Ég skil vel að fólki líki það illa, það verður bara að hafa það, en það er mikilvægt fyrir fólk að geta tjáð sig án þess að þurfa endilega að líða fyrir það. Ef tjáningin er þess eðlis að hún brjóti beinlínis í bága við stjórnarskrárvarin réttindi annars, svo sem friðhelgi einkalífsins eða réttinn til öryggis ef um morðhótanir eða álíka er að ræða, (Forseti hringir.) á að eiga sér stað lögreglurannsókn þar sem farið er í saumana á því hvort og hvernig hægt sé að rekja þá tjáningu og draga þann til ábyrgðar sem ábyrgur er fyrir því.



[19:02]
Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þá er það önnur orðskýring sem ég mundi vilja beina til hv. þingmanns. Það er „gant“, þegar menn eru að gantast með eitthvað. Ég þekki það sem skólamanneskja til fjölda ára að oft og tíðum geta einstaklingar verið mjög óvægnir hver við annan og jafnvel það er lagt í einelti með orðum. Þegar er farið að reyna að vinna að því að þá er svarið: Þetta var nú bara, með leyfi forseta, „djók“, eða það sem við mundum segja „gant“ á íslensku þegar við tölum um að menn verði að hafa leyfi til að gantast. Það er alveg sjálfsagður hluti. Við þurfum hins vegar líka að umgangast hvert annað af virðingu og við þurfum líka að vita hvar mörkin eru, hvað við getum gengið langt, hvar mörkin eru milli þessa að móðga og hreinlega bara að leggja í einelti.

Ég mundi vilja biðja hv. þingmann að útskýra aðeins fyrir mér hvaða merkingu hann leggur í orðið „gant“.



[19:04]
Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þyrfti að leita mér einhverra heimilda ef ég ætlaði að fara að skilgreina það orð mjög nákvæmlega. Það sem ég get sagt um tjáningarfrelsið og mörk þess er að ég horfi ekki á takmarkanir tjáningarfrelsis nema þær skarist beinlínis við önnur réttindi einstaklinga. Þau réttindi eru tiltölulega skýrt afmörkuð. Maður hefur til dæmis rétt til öryggis. Maður hefur rétt á því að sitja ekki undir morðhótunum eða hótunum um ofbeldi eða eitthvað álíka, maður hefur rétt til friðhelgi einkalífsins, sem þýðir að það er ekki lögmæt tjáning að opinbera dagbók einhvers eða, eins og er því miður allt of algengt núna, að sýna nektarmyndir af einhverjum öðrum. Maður hefur ýmis réttindi til eigna og því um líkt. Spurningin sem við eigum að spyrja okkur þegar við veltum fyrir okkur takmörkunum á tjáningarfrelsi er: Brýtur tjáningin í bága við mannréttindi einhvers annars? Það er rétta spurningin. Rétta spurningin er ekki hvar einhver mörk eru. Ég veit ekki hvar einhver mörk eru. Fólk er alltaf að tala um einhverja línu, að maður gangi yfir einhverja línu eða eitthvert strik. Enginn hefur getað útskýrt fyrir mér hvað það er að tala um. Ég lít ekki á það sem spurningu um hversu mikið fólk móðgar aðra eða hversu mikið er gantast, heldur hvort verknaðurinn sé farinn að brjóta í bága við réttindi annarra.

Krakkar leggja aðra krakka í einelti í skólum og fullorðið fólk leggur annað fólk í einelti, en það lítur alltaf á aðgerð sína sem einhvers konar grín. Ég þekki það af eigin reynslu. Ég var lagður í mjög alvarlegt einelti mjög lengi í grunnskóla. Það held ég ekki að eigi heima í almennum hegningarlögum, ef ég á að segja alveg eins og er. Skólar, stofnanir og vinnustaðir eiga að bregðast við því. Ég held að það séu engin skýr mörk í sjálfu sér þegar kemur að einelti en þegar kemur að réttindabrotum gagnvart öðrum sé ég skýr mörk.

Mér finnst mjög skýrt að þegar einhver dreifir nektarmyndum af öðrum í leyfisleysi þá er það brot á friðhelgi einkalífsins. Í dag er ekki tæknilega bannað að gera það, eftir því sem ég fæ best séð. Mér skilst að fólk þurfi að eltast á forsendum höfundaréttar við þann sem dreifir nektarmyndum (Forseti hringir.) ef það ætlar að bregðast við því, ekki vegna friðhelgi einkalífsins. Það sýnir kannski að við höfum ekki gefið þessu málefni nægan gaum í gegnum tíðina og þurfum að fara að íhuga betur hvernig (Forseti hringir.) við ætlum að hafa þessi mál til frambúðar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.