144. löggjafarþing — 36. fundur
 20. nóvember 2014.
staða upplýsingafrelsis á Íslandi.

[10:42]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í gær birtist úttekt á vef samtakanna Fréttamenn án landamæra þar sem lýst er áhyggjum af stöðu upplýsingafrelsis á Íslandi. Nefnd eru dæmi þar sem stjórnmálamenn, þar á meðal hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, hafa meðal annars gagnrýnt Ríkisútvarpið fyrir að vera of hallt undir Evrópusambandið og vinstri stefnu, neitað að veita viðtöl nema með skilyrðum og jafnvel sett þetta í samhengi við fjárveitingar til stofnunarinnar.

Þótt það komi ekki fram í úttektinni réðst núverandi stjórnarmeirihluti beinlínis í lagabreytingar til að koma í veg fyrir að útvarpsgjaldið færi aftur að renna óskipt til Ríkisútvarpsins en sú mörkun hafði verið afnumin í hruninu haustið 2008 en átti að komast aftur á nú um síðustu áramót.

Þá er rætt um málsókn aðstoðarmanns hæstv. innanríkisráðherra sem krafðist fangelsisdóms yfir tveimur blaðamönnum DV, þeir höfðu birt ranga frétt sem var þó leiðrétt með afsökunarbeiðni samdægurs. Nú hafa borist fréttir um að leitað sé sátta í því máli sem betur fer og þó það nú væri þegar um er að ræða aðstoðarmann ráðherra mannréttindamála.

Nefnd eru fleiri dæmi sem vert er að hafa áhyggjur af og tekið er sérstaklega fram að dregið hafi umtalsvert úr upplýsingafrelsi á síðustu tveimur árum, þ.e. nokkurn veginn síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum.

Ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra, ráðherra fjölmiðlamála, um viðbrögð hans við þessari frétt, hvort hann telji í fyrsta lagi ástæðu til að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins sem enn og aftur fær ekki útvarpsgjaldið að fullu til sín. Nýr útvarpsstjóri hefur lýst því yfir í metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir stofnunina að það muni þurfa eigi hún að geta sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Í öðru lagi spyr ég hvort hæstv. ráðherra telji ekki að styrkja þurfi stöðu fjölmiðlanefndar sem núverandi stjórnarmeirihluti skar svo rækilega niður í síðustu fjárlögum að hún hefur engan veginn bolmagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem skilgreint er í fjölmiðlalögum.

Í þriðja lagi spyr ég hvernig hæstv. ráðherra lítur á þessi mál í ljósi þess að Alþingi Íslendinga samþykkti þingsályktunartillögu um að Ísland skyldi móta sér afgerandi sérstöðu varðandi upplýsinga- og tjáningarfrelsi sem 50 þingmenn samþykktu og einn sat hjá. Hvar stendur (Forseti hringir.) sú ályktun? Þarf ekki að flýta áframhaldandi vinnu hennar til þess að koma í veg fyrir að þessi öfugþróun haldi áfram?



[10:44]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina.

Vissulega á að taka allar ábendingar alvarlega um stöðu fjölmiðla hér, hvaðan svo sem þær berast. Það er sjálfsagt fyrir okkur að hugleiða hvort það sé í raun og veru svo að upplýsingaflæði sé minna núna en var fyrir til dæmis tveimur árum eða að möguleikar fréttamanna til að sinna störfum sínum séu minni en áður. Ég verð þó að segja eins og er að ég hef ekki heyrt neinn sérstakan rökstuðning fyrir því annan en þann sem við þekkjum, að fjölmiðlar á Íslandi, bæði sá sem er rekinn af ríkinu og einkareknir fjölmiðlar, hafa auðvitað fengist við erfiða rekstrarstöðu undanfarin ár. Á einkareknu fjölmiðlunum hefur þurft að grípa til uppsagna á undanförnum árum og hagræða mjög þar í rekstri. Við vonum öll að þeir fjölmiðlar séu komnir fyrir vind og geti sinnt hlutverki sínu og í ljósi aukins efnahagsbata muni staða þeirra styrkjast. Ég minni síðan á hvað varðar Ríkisútvarpið, af því að um það var sérstaklega spurt, að tekið er fram í textanum fyrir fjárlagafrumvarpinu að verið sé að skoða fjármál þeirrar stofnunar og væntanlega mun það þá birtast hér í meðförum þingsins á fjárlagafrumvarpinu.

Ekki hafa komið neinar sérstakar tillögur um aukið fjármagn til fjölmiðlanefndar. Aftur á móti hefur verið uppi umræða um hvort hægt sé að endurskipuleggja starfsemi þeirrar nefndar eða einstök verkefni þar eins og hv. þingmaður þekkir sem gætu til dæmis snúið að samkeppnisstöðu fjölmiðla, hvort hægt væri að vinna það í meiri samvinnu, t.d. við Samkeppniseftirlitið o.s.frv. Það er sjálfsagt að ræða þau mál áfram.

Nýverið svaraði ég (Forseti hringir.) fyrirspurn um stefnuna í upplýsingamálunum.



[10:46]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans almennu orð um stöðuna. Hér voru nokkrar mjög konkret spurningar lagðar fram og málin eru í skoðun samkvæmt hæstv. ráðherra.

Það er hægt að gera betur. Ríkisútvarpið gegnir lykilhlutverki í íslensku fjölmiðlaumhverfi. Það þarf að styrkja. Samtök almannaútvarpa sem fjalla um málefni almannaútvarps í Evrópu hafa nú lýst yfir verulegum áhyggjum af þeirri stöðu að útvarpsgjaldið renni ekki óskert til stofnunarinnar. Það má rökstyðja á miklum niðurskurðartímum í miðri krísu en ekki lengur.

Fjölmiðlanefnd var beinlínis stofnuð með nýjum fjölmiðlalögum og ástæða þess að verkefni hennar voru ekki sett undir Samkeppniseftirlitið er einmitt sérstaða fjölmiðla sem fjórða valdsins, undirstöðuvalds í lýðræðissamfélagi. Það er athyglisvert að rifja upp að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Erlu Hlynsdóttur miðaðist einmitt við gömlu prentlögin. Hæstiréttur dæmdi í þeim málum áður en nýju fjölmiðlalögin voru sett. (Forseti hringir.) Fjölmiðlanefnd var ætlað að hafa eftirlit með því að þessum lögum væri framfylgt. Ég spyr því hæstv. ráðherra sem fer með þessi mál, þó að þau séu almennt til skoðunar: Telur hann ekki miðað við stöðuna, ekki bara út frá þessari skýrslu, að ástæða sé til að fara mjög vel yfir þau og skoða hvernig hægt er að styrkja alla þessa þætti?



[10:48]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Áðan í síðustu fyrirspurn var rætt um vanda heilbrigðiskerfisins. Þar telja menn í milljörðum sem menn telja að vanti til að geta staðið undir þjónustu þar. Við hv. þingmaður, fyrirspyrjandi, þekkjum bæði mætavel þann vanda sem við er að etja í menntakerfinu, þar þarf að bæta við milljörðum. Við þurfum að bæta við útgjöld til velferðarmála o.s.frv.

Þetta þekkjum við öll. Því miður eru bara takmarkaðir fjármunir til ráðstöfunar. Þess vegna er verið að reyna eftir fremsta megni að auka starfsemina í efnahagskerfinu svo að við höfum þá úr meiru að spila til að geta mætt öllum þeim kröfum sem eru uppi. Ég ítreka það og bendi á að fram kemur í fjárlagafrumvarpinu hvað varðar Ríkisútvarpið að fjárhagsleg málefni þeirrar stofnunar eru til skoðunar. Hafa menn meðal annars bent á efnahagsreikning þeirrar stofnunar og skuldsetningu Ríkisútvarpsins sem hlýtur að kalla á endurskoðun hvað það varðar.