144. löggjafarþing — 36. fundur
 20. nóvember 2014.
fjarvinnsluverkefni fyrir skjalasöfn.

[11:03]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það sem mig langaði að ræða hér í dag eru verkefni sem hafa verið á höndum héraðsskjalasafna, Þjóðskjalasafns, og einnig á vegum Þjóðminjasafns Íslands, sem er reyndar búið að færa undir forsætisráðuneytið. Ég geri ráð fyrir að mennta- og menningarmálaráðherra þekki til þessara verkefna, en þau snúa að fjarvinnslu. Þarna erum við gjarnan að tala um litla peninga í sjálfu sér í stór verkefni. Þetta eru svolítið ósýnileg verkefni, það er ekki mikið um þau talað og þau eru ekki áberandi eða kröfuhörð í umræðunni en skipta gríðarlega miklu máli. Það er afar mikið óunnið verk í þessum geira, að skanna inn myndir og skjöl og ýmislegt fleira.

Mig langar að ræða það við hæstv. ráðherra hvort við megum eiga von á því að þessum verkefnum verði haldið áfram. Það hefur til dæmis verið verkefni í gangi í menningarmiðstöðinni á Húsavík, það er reyndar undir Þjóðminjasafninu, sem tekur rúmlega eitt og hálft stöðugildi. Það eru skönnunarverkefni á vegum Alþingis í mínum heimabæ, Ólafsfirði, og fleiri verkefni víða um land þar sem þessi stöðugildi skipta miklu máli.

Nú erum við að renna inn í það að fá tillögur við 2. umr. fjárlaga og mig langar því að spyrja ráðherra um stöðu þessara mála. Eru þau störf sem nú þegar er verið að vinna á vegum þessara safna víða um land tryggð? Eða telur hann að þeim verði fækkað núna með (Forseti hringir.) komandi fjárlögum?



[11:05]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er á mörkum þess að ég geti gefið efnislegt svar við nákvæmlega þessari spurningu, hún er það almennt orðuð, en snýr þó um leið að mjög ákveðnum atriðum á hverjum stað fyrir sig. Ég mundi því kannski beina því til hv. þingmanns ef má, virðulegi forseti, að koma með skriflega fyrirspurn um málið. Þá væri hægt að fara yfir það eftir einstaka landsvæðum eða stöðum. Það er sjálfsagt mál.

En það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir og ég get tekið undir að þarna er oft og tíðum um að ræða mjög mikilvæga starfsemi sem sjálfsagt er að hlúa að en þó um leið gæta þess að við náum fram allri hagkvæmni í ríkisrekstri eins og þörf er á. Nýverið er búið að samþykkja ný lög um Þjóðskjalasafn. Þar er einmitt kveðið á um samstarf þess höfuðsafns við einstaka héraðsskjalasöfn. Ég vil halda því fram að með því að það frumvarp varð að lögum sé búið að búa til nokkuð góðan ramma utan um þessa starfsemi hér á landi. Því verkefni er þó auðvitað hvergi nærri lokið og verður áfram í þróun.

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki til að fara ofan í einstaka þætti sem hv. þingmaður nefnir í fyrirspurn sinni, en bendi á þá leið að það má vel senda til okkar skriflega fyrirspurn og þá er hægt að fara nánar ofan í þetta.



[11:07]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hans. Nú tilkynnir forseti reglulega að ráðuneytin séu að drukkna í skriflegum fyrirspurnum og þess vegna reynir maður að nýta sér þennan kost hér og líka vegna þess að tillögur fyrir 2. umr. fjárlaga eru að detta í hús.

Þetta eru oft ódýr verkefni eins og ég sagði og það eru gjarnan konur sem vinna þau. Við tölum um kynjaða hagstjórn en ég veit ekki hvort búið er að lesa fjárlagafrumvarpið með kynjagleraugum og hvernig þessi verkefni koma niður. Ég vil nefna að meðal verkefna er skráning í Sarp sem hefur reyndar verið á vegum Þjóðminjasafnsins, en skjalasöfnin hafa líka verið með svona skráningarverkefni eins og hæstv. ráðherra þekkir. Það er bagalegt ef það þarf að treysta á gjafafé (Forseti hringir.) og það er líka bagalegt ef þessi störf eru bara til einhverra mánaða í senn eða eins árs og fólk hefur ekki atvinnutryggingu.



[11:08]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það mun koma fram ef einhverjar breytingar eru fyrirhugaðar við 2. eða 3. umr. Við hv. þingmaður getum þá átt orðastað um það ef einhverjar slíkar breytingar verða í meðförum þingsins.

Hvað varðar fjölda skriflegra fyrirspurna til ráðuneytanna er alveg rétt að hann hefur aukist til mikilla muna, svo ekki sé meira sagt. Í sjálfu sér er það réttur þingmanna að senda slíkar fyrirspurnir inn þó að auðvitað verði að gæta meðalhófs í því. Það breytir ekki því að ef hv. þingmaður vill fá sérstök eða nánari svör um þetta mál en hér er hægt að veita, þá ítreka ég að það er auðvitað réttur hv. þingmanns að senda fyrirspurn til ráðuneytisins og að sjálfsögðu munum við svara henni. En ég bendi á að fram undan er 2. umr. um fjárlög og 3. umr. og komi fram einhverjar breytingar er hægt að ræða þetta mál þá.