144. löggjafarþing — 36. fundur
 20. nóvember 2014.
fjáraukalög 2014, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 367. mál. — Þskj. 484, nál. 554 og 570, brtt. 555 og 556.

[13:31]Útbýting:

[13:31]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga. Það kom heldur seint fram, ég geri mér alveg grein fyrir því að það er að mörgu að hyggja áður en slíkt frumvarp er lagt fram. En öllu verra er að það var varla komið úr prentun þegar farið var að boða á því breytingar og jafnvel viðamiklar breytingar. Því velti ég fyrir mér hvort ekki væri betra að bíða aðeins og koma með svo að segja tilbúið frumvarp. Ég hef reyndar heyrt þau rök að frumvörp séu lifandi gögn en ég verð að segja að mér finnst það réttmæt krafa að frumvörp séu eins vönduð og mögulegt er og sérstaklega fjárlagafrumvarp og fjáraukalagafrumvarp þannig að ekki þurfi að fara í viðamiklar breytingar og eyða tíma og orku í það.

Í sjálfu sér ætti ekkert að vera í fjáraukalagafrumvarpi nema óvænt útgjöld og ófyrirséð og útgjöld vegna kjarasamninga og kannski einstaka „leiðréttingar“ en þær ættu að vera sem fæstar og vel rökstuddar. Mér finnst mikill munur á þessu frumvarpi til fjáraukalaga og því sem var lagt fram í fyrra þar sem voru alveg ógrynni af fjárlagaliðum sem að mínu viti áttu ekkert erindi í fjáraukalög. Mér finnst ég aðeins skynja það að stjórnvöldum er mikið í mun að þetta ár, 2014, sem þau bera algerlega ábyrgð á, verði innan ramma fjárlaga á meðan menn voru eitthvað aðeins afslappaðri í fyrra fyrir árið 2013 en þá var líka hægt að kenna öðrum um.

Það eru nokkrir liðir sem vekja athygli sem ég ætla að fara aðeins yfir, sem ég get ekki séð að séu ófyrirséðir eða óvæntir og geri athugasemdir við. Það eru rannsóknarnefndir Alþingis. Mér finnst það í rauninni bara sorgarsaga hvernig það allt hefur farið. Hér er verið að sækja um fjármagn aftur, það var líka í fjáraukalögum í fyrra. Hér segir í frumvarpinu:

„Vegna mikillar óvissu um það hvort og þá hve mikil fjárþörf yrði á árinu 2014 var ákveðið að bíða átekta og fara ekki fram á fjárveitingu í fjárlögum.“

Mér finnst þessi setning mjög merkileg vegna þess að það á ekki að vera mikil óvissa um það hvort og hve mikil fjárþörf er í svona verkefni. Við gerum þá kröfu til stofnana og annarra sem fá fé frá ríkinu að því sé vel varið og menn haldi sig innan fjárheimilda. Þá er ekki nógu gott að Alþingi sjálft skuli ekki hafa stjórn á sínum verkefnum, og ekki er við neinn annan að sakast en okkur hér á Alþingi. Ég mun því ekki geta samþykkt þessa tillögu, það er bara þannig.

Við getum ekki gert kröfur á stofnanir sem lenda í alls konar vandræðum. Sumt af því er alls ekki viljandi, það geta verið breytingar, kostnaður vegna starfsmannamála, uppsagnir, biðlaun og alls konar dótarí sem stofnanir bera enga ábyrgð á, en við gerum samt þá kröfu að þær finni þetta af rekstrarfé sínu. Við eigum að vera yfir það hafin að sækja um á fjáraukalögum, sérstaklega fyrir svona verkefni. Þetta finnst mér merkilegt.

Sótt er um framlag til að mæta kostnaði við störf ráðgjafa um afnám fjármagnshafta. Það er mjög gott að verið sé að vinna í því máli. Það hefur legið fyrir nokkuð lengi að við ætlum okkur að afnema fjármagnshöftin þannig að það er þá bara eðlilegt að gera ráð fyrir kostnaði á fjárlögum í það verkefni.

Það er nýtt verkefni hér sem er eflaust hið besta verkefni sem kallast byggðaáætlun, 50 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár til uppbyggingar á iðnaðarsvæði við hafnarsvæðið í Bíldudal, og mun einnig fá framlag í fjárlögum 2015 ef það gengur eftir. Ég geri ekki lítið úr þessu en að það komi nýtt inn á fjárauka er sérstakt. Þar eiga almennt ekki að vera ný verkefni og færi betur á því að þeim peningum væri ráðstafað þess vegna í gegnum Byggðastofnun.

Svo er annar liður sem við höfum ítrekað rætt í þingsal og það er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Verulega athyglisvert var að í síðustu fjárlögum var ekki beðið um mikið fjármagn í þann framkvæmdasjóð þótt það lægi í rauninni ljóst fyrir að miklu meiri peninga þyrfti til að byggja upp innviði ferðaþjónustunnar. Þá erum við að tala einungis um viðkvæm svæði, göngustíga og annað slíkt. Við bentum á það í nefndarálitum okkar, og stundum veltir maður fyrir sér hvort ekki væri ágætt að lesa nefndarálitin, þá gætum við komið í veg fyrir svona rugl. Þetta hefur nefnilega ekki gengið alveg eftir, það voru alls ekki nógu miklir peningar settir í þennan málaflokk. Því er farið í það núna á árinu að setja 380 milljónir til viðbótar og svo er beðið um það hér í fjáraukanum. Þetta eru vinnubrögð sem eru ekki í lagi. Rökin sem við höfum fengið eru þau að menn töldu að einhverjar aðgerðir, eins og náttúrupassi eða önnur skattlagning, yrðu komnar til framkvæmda. Hins vegar hefur hæstv. ráðherra ferðamála ítrekað svarað því í þingsal að hún vilji vanda til verka og ekki flýta sér. Það lá því alveg ljóst fyrir að það átti ekkert að fara að æða í þetta verkefni og ekki hægt að ábyrgjast það að tekjur yrðu af náttúrupassa á árinu 2014. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár er líka gert ráð fyrir mjög litlu framlagi í sjóðinn, þannig að væntanlega munum við aftur á fjáraukalögum á næsta ári fá leiðréttinguna inn aftur.

Hérna er liður sem heitir málskostnaður í opinberum málum, sem virðist ítrekað vera vanáætlaður, en lagt er til 250 millj. kr. hækkun á framlagi. Þetta er reyndar liður þar sem vissulega getur verið erfitt að áætla en er í skoðun núna hjá ráðuneytinu. Og svo vakti aðeins athygli minni hlutans setningin um að Ríkisendurskoðun sé með málaflokkinn til skoðunar. Ríkisendurskoðun gerir bara úttekt á stofnunum og getur ef hún er beðin gert ýmsar stofnsýsluúttektir en ég vænti þess nú að Ríkisendurskoðun muni meta það sjálf hvort það sé verkefni sem fellur undir hana eða hvort þetta sé eitthvað sem ráðuneytið eigi í rauninni að vinna, þ.e. með að fara í einhverja vinnu sem eigi að varpa ljósi á útgjaldaþróunina og til hvaða aðgerða megi grípa til að ná tökum á útgjöldunum. Þegar ég les þetta finnst mér þetta vera frekar hlutverk ráðuneytisins en ekki Ríkisendurskoðunar.

Síðan er liður sem við höfum aðeins verið að velta fyrir okkur, þ.e. samningur við sérgreinalækna sem tók gildi 1. janúar á þessu ári en ekki var gert ráð fyrir auknum fjárheimildum fyrir þeim útgjöldum í fjárlagafrumvarpi ársins í ár. Þar af leiðandi er 1,1 milljarður sem hefur fallið til, væntanlega ekki búið að fjármagna hann. Ég geri athugasemdir við þegar farið er í að hækka gjaldskrá og það á að fjármagna liðinn. En hins vegar verður að segjast eins og er að sjúklingar greiddu þá minni kostnað á móti. Það er svolítið sérstakt að þetta komi inn í fjáraukalögin og í rauninni er engin beiðni fyrir þessum útgjöldum en tekið fram að í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2015 sé gengið út frá því að þessi reglugerð verði að fullu komin til framkvæmda. Það er þá mikilvægt að svo verði, en ef ekki menn setji þá meiri peninga í þennan útgjaldalið.

Það komu inn liðir í breytingartillögum meiri hlutans. Þar var margt sem var jákvætt og góðar tillögur. Háskólinn á Akureyri fær 30 millj. kr. til að standa undir ákveðnu hlutverki varðandi rannsóknarprófessora og fleira. En koma þyrfti því þannig fyrir að gert yrði ráð fyrir því í fjárlögunum sjálfum. Túlkasjóðurinn hefur verið nefndur, en síðan eru liðir sem við gerum athugasemdir við eins og 5 millj. kr. vegna kals í túnum. Ég efast ekki um að þarna hafi orðið eitthvert tjón en við höfum ekki séð neitt um það mál og engin gögn sem gefa til kynna hver raunverulegur skaði varð. Eins vegna rektorsskipta og bágrar fjárhagsstöðu Landbúnaðarháskólans. Ég geri ekki lítið úr því að skólanum veitir ekki af peningum en mér finnst þessar tillögur koma inn svolítið bakdyramegin og mér finnst eðlilegt að öll fjárlaganefnd hefði fengið tækifæri til að ræða þetta og sjá þá þær beiðnir ef þær liggja fyrir sem eru fyrir þessum fjárlagaliðum. Ég var bara að heyra um þetta í fyrsta skipti þegar 1. minni hluti gerði grein fyrir breytingartillögum sínum.

Að öðru leyti finnst mér mjög til bóta hvað fjáraukalagafrumvarpið er að minnka og það hlýtur að vera það sem við viljum stefna að. Við höfum kannski einn punkt hérna sem er Íbúðalánasjóður. Lögð er til 1,5 milljarða kr. lækkun á 4,5 milljarða kr. varúðarrekstrarframlagi til sjóðsins og metið sem svo að það þurfi ekki að vera svona hátt. Það er í rauninni mjög gott ef svo er. En það er setning neðst í frumvarpinu á bls. 100 undir þessum lið: „Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki fengið haldbærar áætlanir sem sýna fram á frekari fjárþörf á yfirstandandi ári en birtist í árshlutauppgjöri sjóðsins.“ Hún stingur aðeins í augu vegna þess að fjármála- og efnahagsráðuneytið verður auðvitað að fá haldbærar áætlanir frá Íbúðalánasjóði ef verið er að taka svona ákvarðanir. Út frá þessu mætti skilja að upplýsingarnar frá Íbúðalánasjóði séu ekki nógu góðar, ég ætla ekki að gefa mér að svo sé en orðalagið er svolítið skrýtið.

Annars held ég að ég hafi svo sem ekki meira um frumvarpið að segja fyrir utan það sem kemur fram í nefndarálitinu okkar, sem er ítarlegt og gerð hefur verið grein fyrir hér.



[13:44]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til fjáraukalaga og framsögumenn minni og meiri hluta hafa farið yfir ákveðna hluti sem ég tel ekki þörf á að fara yfir aftur.

Það er hins vegar ljóst að þær breytingar sem eiga sér stað í þessu fjáraukalagafrumvarpi eru í sjálfu sér mun minni en tíðkast hefur. Það stafar af því að kannski er verið að reyna að koma böndum yfir þau atriði sem koma inn í fjáraukann. Fjáraukinn gegnir auðvitað ákveðnu hlutverki, að bregðast við óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum.

Stærsti einstaki liðurinn er 16 milljarða kr. fjárauki vegna niðurfærslna á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimila, sem bætist þá við 20 milljarða kr. sem gert er ráð fyrir að fari inn með fjárlagafrumvarpi fyrir 2015. Þetta er viðamikil aðgerð og skiptir gríðarlega marga miklu máli. Eins og ég hef sagt hér áður í ræðustóli hef ég heyrt í fjölmörgu fólki sem hefur fengið tilkynningu um að það fái niðurfærslu á skuldum vegna þess forsendubrests sem varð á ákveðnum tíma. Það er alveg á tæru að þetta léttir lífið hjá því fólki, það lítur bjartari augum til framtíðar og það er afskaplega ánægt með að horft skuli til heimilanna að þessu leyti.

Stærri liður er framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Lagt er til að fjárheimildin hækki um 442 millj. kr. og það er í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðin framlög miðað við hlutföll af skatttekjum ríkisins og útsvarsstofni fyrir árið 2014. Þetta segir okkur líka, sem við vitum nú þegar, að skatttekjur ríkisins eru til muna hærri en gert var ráð fyrir. Það er mikið fagnaðarefni að sú staða skuli vera komin upp. Það segir okkur að atvinnuástand fer batnandi þannig að við erum afskaplega ánægð með að þetta framlag í jöfnunarsjóðinn skuli hækka.

Ekki er hægt að horfa fram hjá því að hér varð eldgos og það stendur enn yfir. Það hefur í för með sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð. Við eigum hins vegar góða að og höfum fengið stuðning utan frá frá öðrum löndum. Við erum líka svo afskaplega heppin að eiga frábæra vísindamenn sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Við eigum frábært starfslið í stjórnsýslunni sem hefur staðið vaktina frá því að eldgosið hófst. Það er vakt uppi á hálendinu og á almannavarnastöðvum um landið þar sem mest þörf er á og þörf er talin. Það verður að segjast eins og er að það fólk hefur staðið sig með eindæmum vel og við getum þakkað fyrir að búa við þá tækni í dag að hægt er að vara þá sem eru á hættusvæði við með einhverra klukkustunda fyrirvara ef til meiri háttar náttúruhamfara kæmi. Það á að koma í veg fyrir að við þurfum að verða fyrir mannfalli, og hver maður er okkur dýrmætur. Við erum bara 328 þúsund á þessu landi, þó að okkur finnist stundum að við séum milljónaþjóð þegar við erum að setja fram óskir okkar og vonir um það hvernig samfélagið geti starfað.

Það er líka ánægjulegt að geta farið yfir það hér að verið er að reyna að aðstoða landbúnaðarháskólana okkar, sem hafa verið að glíma við stórkostlegan vanda. Hér er ekki um háar upphæðir að ræða, það eru 5 millj. kr. til Háskólans á Hólum, sem hefur orðið fyrir því tvö ár í röð að tún hafa kalið hjá þeim með tilheyrandi jarðspjöllum og kostnaði fyrir skólann og fyrir nemendur líka. Þetta var svo sannarlega ófyrirséð og það er mikið gleðiefni að geta lagt eitthvað til þar.

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur lengi glímt við fjárhagsvanda og sér ekki fyrir endann á því. Þarna er verið að koma til móts við skólann með 15 millj. kr. framlag sem er ekki er há upphæð miðað við það sem til þyrfti en gerir samt eitthvert gagn.

Ég verð síðan að lýsa yfir sérstakri ánægju með tvo liði, annars vegar framlag upp á 30 millj. kr. til Háskólans á Akureyri. Háskólinn á Akureyri skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur í Norðausturkjördæmi sem háskólastofnun á því svæði og á Akureyri. En auðvitað er þetta skóli sem þjónar öllum landsmönnum og nemendur í Háskólanum á Akureyri koma alls staðar að af landinu. Skólinn stóð sig mjög myndarlega í samdrætti þegar hart var í ári og meðal annars voru skornar niður fjárveitingar til rannsókna í Háskólanum á Akureyri og verið er að bæta það núna um 30 millj. kr. og er það vel. Við eigum þar afskaplega frambærilega og mikilvæga starfsmenn og kennara og prófessora sem eru að vinna mjög góða hluti. Má til dæmis nefna norðurslóðaverkefnið, sem þar er innan borðs.

Síðan lýsi ég ánægju minni með að hins vegar eru settar 400 millj. kr. plús 35 millj. kr. í framhaldsskóla landsins. Þeir hafa árum saman verið undir skurðarhnífnum og það er svo sannarlega ekki vanþörf á að eitthvað verði rétt við þar. Breytingar eru fram undan og þess vegna skiptir svo miklu máli að tekin hefur verið ákvörðun um að minnstu skólarnir, sem hafa verið á gólfi og hafa glímt við rekstrarörðugleika að einhverju leyti, fái þarna stuðning til að vinna á sínum vanda og til að gera betur.

Ég vil líka koma inn á lið sem er sárgrætilegur, það er blóðugt að þurfa að horfa á allt það fjármagn sem þangað rennur á hverju ári, en það eru vaxtagjöld ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að vaxtagjöld nemi á rekstrargrunni fyrir árið 2014 78.776 millj. kr., en á greiðslugrunni nemi þau 78.034 millj. kr. og lækki um 778 millj. kr. frá frumvarpinu sem er ánægjulegt. En þetta er eins og ég sagði liður sem við gætum svo sannarlega nýtt í eitthvað annað. En við stöndum frammi fyrir þessum raunveruleika og það er alveg ljóst að það tekur okkur einhvern tíma að komast út úr þessu. Og við erum þrautseig, Íslendingar.

Farið hefur verið yfir ýmis atriði áður en ég tók til máls og ég held að ég láti þetta duga núna.



[13:55]
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Sem varaþingmaður sem tekur sæti á Alþingi getur maður ekki staðist það að taka til máls og þá sérstaklega um fjáraukalagafrumvarpið. Þegar ég var frambjóðandi í Norðvesturkjördæmi til alþingiskosninganna 2013 lagði ég einmitt gríðarlega mikla áherslu á ríkisfjármálin, þann aga sem þarf að beita þar og hvað hann skiptir miklu máli fyrir samfélagið. Það verður að segjast eins og er að á sumum framboðsfundum þótti þetta ekkert ofsalega spennandi umtalsefni og margt annað sem brann á fólki, en það hefur alltaf brunnið mjög á mér hvað þetta skiptir miklu máli því að á þessum grunni, aga í ríkisfjármálum, byggjum við velferð okkar í landinu.

Því fagna ég því sérstaklega að heyra þingmenn koma hér upp, bæði úr minni hluta og meiri hluta, og tala um að það séu breytingar á fjáraukalagafrumvarpinu þannig að fjáraukinn sé í raun og veru minni í sniðum, færri atriði séu tekin þar inn nú en áður. Það er svo sannarlega rétt að í fjáraukalögum á einungis að vera það sem er óvænt og ófyrirséð og þau ættu því ekki að vera mjög þykkur bæklingur.

Þingmönnum hefur líka verið tíðrætt um tímasetningar, málið sé seint fram komið. Miðað við það sem ég hef fylgst með af þinghaldi í gegnum árin þá held ég að það sé nokkuð á svipuðum tíma og verið hefur. En ég tek sannarlega undir það að auðvitað má vinna hlutina fyrr og frumvarpið mætti kannski koma fram fyrr.

Það er eitt sem vekur athygli mína þegar við skoðum tekjuhliðina. Það hefur ekki verið farið mörgum orðum um það nema af framsögumanni, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að tekjur ríkissjóðs eru að aukast, tekjur einstaklinga og staðgreiðsla lögaðila. Það tel ég sérstakt fagnaðarefni vegna þess að það hlýtur að segja okkur að landsframleiðslan sé að aukast og við erum að ýta okkur fram á við þar. Það er líka eitt af því sem mér hefur verið mjög hugleikið varðandi þá stöðu sem við höfum verið í eftir hrun, eina rétta leiðin út úr þeim vanda er að framleiða og skapa verðmæti í samfélaginu.

Það voru sérstaklega ánægjulegar fréttir í vikunni þar sem heimsótt var sprotafyrirtæki úti á Seltjarnarnesi og það er svo margt í gangi í íslensku samfélagi. Ég nefni umfjöllun Morgunblaðsins þar sem farið var vítt og breitt um landið og mátti sjá að það er mikil gerjun í gangi, það er margt að gerast. Mér finnst því ekki haldið nægilega vel á lofti. Það þarf að blása landsmönnum öllum von í brjóst um að við séum að snúa á rétta braut og að það sé bjartari tíð fram undan. Þess vegna þótti mér mjög leiðinlegt að heyra að hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir gat ekki séð að slíkt væri að gerast, en ég held að öll merki og teikn séu á lofti um að við séum á réttri leið.

Í því samhengi vil ég nefna að ég hef búið á svæði þar sem hefur verið stanslaus samdráttur í yfir 20 ár. Ég þekki því vel hugarfarið sem smitast inn þegar blæs á móti, störf hafa tapast, fyrirtæki hafa farið af vettvangi og íbúum fækkað gríðarlega. Nú er þar uppgangur og mikið að gerast og þá finnur maður hvað það skiptir ofboðslega miklu máli að blása íbúum von í brjóst. Það finnst mér kannski vera samlíking við það sem er að gerast hjá okkur þegar maður sér að tölurnar eru að breytast á þennan hátt. Við þurfum að blása hvert öðru von í brjóst og vera á jákvæðari nótunum. Uppbyggileg gagnrýni á málefnalegum grunni er alltaf góð. Það er nú einu sinni svo að þeir stjórnmálaflokkar sem skipa Alþingi verða aldrei fullkomlega sammála um forgangsröðun, það liggur í hlutarins eðli. Við munum örugglega seint hætta að takast á um það að eitt sé merkilegra en annað.

Hér var gagnrýnt, bæði af hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttur og hv. þm. Brynhildur Pétursdóttur, að í frumvarpinu væri ákveðin fjárveiting inn á sunnanverða Vestfirði til Bíldudals, sem tengist þeirri gríðarlegu atvinnuuppbyggingu sem þar á sér stað og ég kom inn á áðan. Jú, það er gilt sjónarmið að þetta eigi ekki heima í fjáraukanum, en það er kannski ekki hægt að segja að sú gríðarlega uppbygging, sérstaklega á þessu ári, hafi verið svo fyrirséð. Mér þykir sérstaklega vænt um að sjá að það er stuðningur við þetta verkefni. Í fjárlögum var ráðstafað peningum til uppbyggingar á Bakka og ég lít þetta sömu augum, en það gleður mig jafnframt að það skuli vera eyrnamerkt fjárframlag fyrir árið 2015.

Í prinsippinu eins og ég sagði í upphafi er ég náttúrlega algjörlega sammála því að fjáraukalög eiga fyrst og síðast að taka á óvæntum og ófyrirséðum verkefnum.

Þá langar mig að vitna í álit 1. minni hluta og þar kemur fram, eins og ég var að segja rétt í þessu, mikilvægi þess að sporna við agaleysi og beita agaðri vinnubrögðum við gerð og framkvæmd fjárlaga. Það kemur jafnframt fram að betur má ef duga skal af því að í frumvarpinu sé að finna fjárveitingar sem ekki eru til fyrirmyndar að því leyti. Hv. þingmenn hafa reyndar bent á að fjáraukinn nú sé mun þynnri pappír en hann var fyrir ári síðan. Það er jákvætt og á þeirri braut eigum við að halda áfram.

Mig langar líka að nefna það sem ég hef oft nefnt en eftir hrun tóku sveitarfélög landsins sig til og settu sér fjármálareglur sem eru til mikillar fyrirmyndar og tóku á sínum málum. Eftir því hefur verið tekið hversu mikill viðsnúningur hefur orðið eftir að sveitarfélög landsins fóru að vinna eftir fjármálareglum sínum og beita mjög svo öguðum vinnubrögðum. Þetta finnst mér og hef alltaf sagt að ríkið ætti að taka sér til fyrirmyndar. Ég held að frumvarp um opinber fjármál sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram sé mjög gott skref í þá átt að taka á þessu. Ég held að við munum sjá innan fárra ára mikinn viðsnúning.

Því langar mig enn og aftur að fagna því að heyra að þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað í dag hafa allir tekið undir það að við þurfum að beita okkur slíkum aga til framtíðar. Þess vegna hef ég líka velt því upp hvort stefnumótun í þessum efnum sé til nógu langs tíma, hvort kjörtímabilin séu í raun of stutt og það þurfi að sameinast um stefnumótin til mun lengri tíma í þessum málaflokki.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að ríkið eigi að sjá um grunngerð samfélagsins og þá munu einstaklingar og fyrirtæki sem byggja á þeim grunni þrífast vel. Það er mjög mikilvægt að ríkið komi að þessari grunngerð. Við getum náttúrlega deilt endalaust um forgangsröðunina, en í mínum huga er hún heilbrigðismálin, menntakerfið, innviðir samgöngukerfisins, svo eitthvað sé nefnt.

Þegar öllu er á botninn hvolft er það aginn sem við þurfum að hafa í ríkisfjármálunum sem við byggjum allt samfélagið á. Á þeim grunni byggjum við framtíðina. Ég hef þá trú að við sem tilheyrum þessari 300 þúsund manna þjóð getum lifað vel í þessu samfélagi og því finnst mér mjög mikilvægt að við höldum á þeirri braut sem hefur verið mörkuð og þá verður bjart fram undan í íslensku samfélagi.



[14:05]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég kem hér upp bara til að árétta að þegar við gagnrýnum þann lið sem snýr að hafnaruppbyggingu á Bíldudal erum við fyrst og fremst að benda á að ný verkefni eiga almennt ekki að vera inni á fjáraukalögum, þannig að því sé haldið til haga. Við verðum að gera þá kröfu að það sé einhver stefnumótun og plan í gangi sem tekur meira en nokkra mánuði þegar farið er í svona verkefni. Maður getur líka velt fyrir sér hvernig ástandið hefur verið víða, til dæmis á Djúpavogi, og víða þarf að bregðast við. Ég er viss um að við séum sammála um að það þyrfti að vera öflugur sjóður fyrir atvinnuuppbyggingarmál fyrir landsbyggðina.

Mér fannst líka gott að heyra það sem hv. þingmaður sagði um vinnubrögð sveitarfélaga og tek undir það, mörg hver alla vega eru til fyrirmyndar hvað það varðar. Við gerum okkur vonir um að ný lög um opinber fjármál muni auka aga og bæta vinnubrögðin og krafan um að hafa framtíðarsýn og stefnu er af hinu góða.

Þá vil ég beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hún telji ríkið muni geta viðhaft þann sama aga og sveitarfélögin hafa nú sýnt.



[14:06]
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina.

Já, ég hef fulla trú á því. Það var nú meðal annars ástæða þess að ég ákvað að gefa kost á mér til setu á Alþingi, ég náði því miður ekki alveg inn, munaði mjóu. En þetta var mitt áhugamál, hafandi horft á sveitarfélögin taka á sínum málum af slíkri festu og taldi að það væri einmitt það sem ríkið ætti að gera. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að við séum farin að marka þá leið með frumvarpi til nýrra laga um opinber fjármál. Það er líka svo ánægjulegt, svo ég endurtaki mig nú, að heyra að þingmenn í fjárlaganefnd sem hér hafa tekið til máls eru einmitt á sömu braut.

Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að í fjáraukalögum eigi ekki að vera ný verkefni. Það sem ég dró líka fram var að ég vildi þakka nefndinni fyrir að setja þetta framlag inn vegna þeirrar stöðu sem er uppi í því samfélagi einmitt núna. Jú, það er gott mál að stofna sjóð til að vinna að slíkum verkefnum, en þarna er verkefni sem er komið mjög langt í samfélagi sem hefur átt mjög undir högg að sækja. Það var ekki beðið fram á árið 2015 að hefja framkvæmdir. Mér finnst því mjög eðlilegt að þetta skuli koma inn, en ég tek algjörlega undir með þingmanni hvað það varðar að ný verkefni eigi að öllu jöfnu ekki að vera í fjáraukalögum og þau vinnubrögð eigum við að hafa í hávegum.



[14:08]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu, ekki til þess að lengja hana mikið, en ég tók þátt í 1. umr. Það hefur komið fram í umræðunni að flestir eru sammála um að fjáraukalög eigi fyrst og fremst að vera til þess að leiðrétta ákveðna hluti sem hafa komið óvænt upp á hverju ári. Ég vil þó halda því fram að við séum einfaldlega ekki komin svo langt, enda ber frumvarpið með sér að þessi regla heldur ekki, hvorki með þeim tillögum sem hafa verið fluttar, fyrst í sjálfu frumvarpinu, né í þessum litlu viðbótum sem koma við 2. umr. Maður veltir því mikið fyrir sér hvaða skilaboð eru gefin með svona fjáraukalögum, vegna þess að mér finnst skipta miklu máli hvað er í fjáraukalögum, en líka hvað er þar ekki og af hverju það er þar ekki.

Það ber að fagna því að ríkissjóður er að styrkja sig og hefur auknar tekjur. Við getum svo deilt um hvernig þeim tekjum er ráðstafað, í hvaða forgangsröð þeim er eytt og hvaða hópar verða út undan. Ég nefni þetta vegna þess að það var töluverð umræða um þetta þegar stjórnarskipti urðu árið 2013. Þá eru í gildi fjárlög og út úr því ári, 2013, koma stofnanir með mismunandi afkomu, sumar hverjar með halla. Síðan koma ný fjárlög 2014. Það er engan veginn skýrt í fjárlögum hvaða framlög eru til þess að borga hallann frá árinu á undan og hvaða framlög eiga að styrkja rekstrargrunn.

Ég hvet hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar, að hafa þau skil gríðarlega afmörkuð og skýr núna í 2. umr. Það sem gerðist strax á milli áranna 2013 og 2014 sveið mjög gagnvart þeim sem hér stendur. Þá var fjárveiting sett á Landspítalann og samþykkt fyrrverandi í ríkisstjórn. Þetta var búið að fara í alveg sérstaka skoðun hjá velferðarráðuneytinu á þeim tíma, fjárveiting upp á 128 milljónir sem átti að mæta miklu álagi sem varð á Landspítalanum í janúar og febrúar á árinu 2013, svo ég fari það langt aftur í tímann. Við höfðum lofað að þetta kæmi til leiðréttingar í fjáraukanum. Ný ríkisstjórn hendir henni út. Síðan hælir hún sér af því að setja 1,7 milljarða á stofnun sem fjárveitingin dróst frá og hallinn frá árinu 2013. Bætt var við 1,7 milljörðum. Á viðkomandi stofnun að borga eldri halla? Á hún ekki að borga þetta? Þetta gildir um fleiri stofnanir. Þetta þarf að vera skýrt. Þetta þarf að vera á hreinu. Er verið að borga upp halla? Er verið að bæta inn í rekstrargrunn þegar menn eru að ganga frá fjárlögum?

Ég geri ekki athugasemd við þá meginhugmynd að menn leiðrétti ekki allt í fjáraukanum og séu ekki að bjarga stofnunum þar; það verði tekið á því í fjárlögum. Og það er hægt að gera með tvennum hætti. Það má segja: Þið fóruð fram úr, þið verðið að mæta þeim halla sjálf af ykkar rekstri á næstu árum. Eða það er hægt að bæta við fjárveitingu og segja: Við ætlum að borga niður hallann fyrir ykkur og bæta við rekstrargrunninn svo að afkoman verði betri á nýju ári.

Þetta verður að vera skýrt. Hvað ætla menn að gera með Landspítalann? Ég sakna þess að hann sé hvergi hér inni. Sjúkratryggingar Íslands eru með töluvert háar upphæðir í frumvarpinu, þótt það dugi ekki miðað við kröfur til sjúkratrygginga. Hvað ætla menn að gera með Landspítalann sem er þegar kominn í 1 milljarð í halla á þessu ári? Ég geri mér grein fyrir að ríkisstjórnin muni ekki undir neinum kringumstæðum komast hjá því að bæta verulega í heilbrigðismálin. Ég treysti á að hún geri það og við munum veita henni liðsinni til þess. En verður það til þess að borga niður hallann eða verður það til þess að bæta við grunninn og inn í framtíðina?

Þegar menn þvarga um það hver hafi bætt hverju við eru það að miklu leyti orðaleikir. Heyrst hefur ítrekað úr ræðustóli að menn hafi lagt 10 milljarða í heilbrigðiskerfið. Þá eru menn komnir inn með allar verðlagsbætur, þeir taka með launa- og kjarasamninga, jafnlaunaátakið og tannlæknasamninginn. Menn leggja þetta allt saman og tala um í sama orðinu og við ræðum verkfall lækna eða stöðuna á Landspítalanum eða á öðrum heilbrigðisstofnunum í landinu. Þá er eins og menn ætli sér að reyna að sannfæra fólk um að svo miklu hafi verið bætt við að þessum stofnunum sé engin vorkunn að standast fjárlög. En það var bara ekki þannig. Það var alls ekki þannig. Bætt var við 400 milljónum í tæki og 1,7 milljörðum til þess að borga halla og fjármagna reksturinn á þessu ári. Það dugir engan veginn.

Ég hef áður sagt í þessum ræðustól að eftir að hafa farið í gegnum svona mikið áfall eins og þjóðin gerði á sínum tíma og nú þegar landsframleiðslan að aukast þá eigum við að setja okkur markmið. Hvað teljum við eðlilegt að fari í heilbrigðismál? Svo getum við rætt um það hvernig því á að skipta.

Við vorum með 9,4 til 9,5% af landsframleiðslu sem fóru til heilbrigðismála. Þegar lægst var duttum við niður í 8,8%. Ég hef ekki séð töluna fyrir árið 2014, vonandi höfum við stigið eitthvað upp á við, en ef við færum upp í 9,5% væri það 14 milljarða kr. viðbót í heilbrigðiskerfið. Það er verkefni okkar. Þess vegna sárnar manni að þegar menn fá aukið svigrúm skuli þeir ekki reyna að nýta það til að koma til móts við þennan málaflokk, fyrir utan skólamálin eða menntamálin. Þar er í sjálfu sér ekki verið að bæta miklu við. Bætt er við örlitlu til framhaldsskólanna en í raun er meiri hlutinn af þeirri viðbót tekinn til baka með fækkun nemenda og þar með færslu á nemendum út úr kerfinu yfir í greidda þjónustu hjá fullorðinsfræðslunni — sem þó fær enga viðbótarpening til að sinna þeirri fræðslu. En við eigum eftir að sjá hvernig fjárlögin æxlast.

Við vitum hverjir eru í vandræðum í samfélaginu, við höfum séð alls kyns greiningar á því. Menn tala um að skuldamillifærslan hjá núverandi ríkisstjórn komi mörgum að gagni, það er rétt, margir munu njóta góðs af henni, en ekki nærri því allir. Við vitum að barnafjölskyldur eiga undir högg að sækja. Þess vegna er sárt að sjá að menn skuli ekki nýta svigrúmið í fjárlögum í barnabætur. Sama er með vaxtabæturnar. Það er ekki hægt bæði að gefa og taka. Það eru vonbrigði að menn láti viðmiðunartölurnar síga niður þannig að út detti hópar sem annars hefðu fengið bætur, ekki bara vegna þess að laun þeirra hafa hækkað heldur hafa þeir hreinlega bara fengið kjarasamningsbundnar hækkanir. Þegar menn láta viðmið um skerðingar ekki fylgja með verður útkoman sú að fleiri fá ekki bætur. Við höldum fólki sem sagt í fátæktargildru. Þetta á við um öryrkjana líka. Við gerum okkur alveg grein fyrir að það var hart gengið að þeim á sínum tíma, en það var líka alveg ljóst að það varð að gefa til baka. Það eru vonbrigði að í raun hefur ekkert verið gefið til baka annað en það sem búið var að ákveða fyrir fram að mundi verða gefið til baka. Ekkert. Það veldur vonbrigðum.

Það eru jákvæðir punktar í fjárlögum þessa árs og í fjáraukalögunum. Ég hef til dæmis hælt hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa bætt inn 200 milljónum til öldrunarstofnana. Það er sett inn varanlega í fjárlögum, en það er halli á þessum stofnunum og þar eru vandræði. Hvað duga 35 milljónir langt til að leiðrétta stöðu heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila? Ég sé ekki að það muni breyta gríðarlega miklu.

Það er sláandi að sjá svör hæstv. ráðherra, t.d. heilbrigðisráðherra, við spurningum frá hv. varaþingmanni, Birni Val Gíslasyni, sem kom inn á þingið á tímabili. Þar spyr hann hvernig starfsmannahald hjá stofnunum sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti muni breytast á þessu ári og næsta ári. Það að Landspítalinn segi að það þurfi að skera aftur niður um 70–100 störf eða meira er auðvitað ekki til þess fallið að blása von eða eldmóði í brjóst þjóðar eins og hv. þm. Eyrún Ingibjörg Sigurþórsdóttir talaði um áðan. Það er ekki gefin von þegar menn löðrunga endalaust sama hópinn. Þessu þurfum við að breyta.

Ég ætla að fara yfir nokkur atriði. Í sjálfu sér geri ég ekki miklar athugasemdir við breytingartillögur frá meiri hlutanum við fjáraukalagafrumvarpið. Það vekur þó undrun mína að þar skuli vera inni ákveðnar fjárveitingar af því menn eru að reyna að búa til ný prinsipp. Ég nefndi að það væri jákvætt fyrir þingmann úr Norðvesturkjördæmi að sjá að bæði Hólaskóli og Landbúnaðarháskóli fá fjárveitingar, en það er engin stefna á bak við. Það er ekki búið að segja okkur hvað eigi að gera. Þessir skólar eru að lognast út af vegna gamals halla sem aldrei hefur verið tekið á, aldrei náðst sátt um að leysa, aldrei verið tekinn í ríkisreikningi og hreinsaður út. Þau rök fylgja Hólaskóla að hann fái 5 milljónir vegna kals í túnum. Ef það er rétt þá á það auðvitað að fara af ófyrirséðum útgjöldum, það er sérstakur liður hjá ríkisstjórninni sem er til að mæta t.d. fjárskaða eða ofsaveðri. Menn nota þann lið til þess, ekki að þessar 5 milljónir skipti miklu máli hvað það varðar.

Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra setti Landbúnaðarháskólanum alger skilyrði, bauð upp á það að fara mætti í sameiningu. Hann hefur aldrei staðfest að hann hafi boðið allt upp í 100 til 200 millj. kr. viðbótarrekstrarframlag á ári ef af sameiningu yrði og felldur yrði niður allt að 750 millj. kr. halli til margra ára. Það væri gaman að vita hvort hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, geti staðfest þessar tölur eða þessa umræðu. Hér kemur framlag upp á 15 millj. kr. til skólans. Ég fagna því, en það er engan veginn nóg. Það er engin stefna á bak við þetta um hvað eigi að gera, hvernig eigi að bjarga stöðunni, hvernig eigi að vinna áfram.

Það sama er með framhaldsskólana. Hvernig ætla menn að bregðast við með 35 millj. kr. framlagi til að bjarga þeim á þessu ári? Nema að menn séu búnir að taka ákvörðun og sjá hversu fáránleg hugmyndin í fjárlagafrumvarpinu er um að skera niður 916 nemendaígildi, sem bitnar ekki hvað síst á minnstu skólunum. Þetta getur skipt sköpum um það hvort menn geti rekið þessa skóla. Það er algjörlega úr takt við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið og fyrirheit um að reyna að standa vel á bak við landsbyggðina. Við styðjum auðvitað, eða sá sem hér stendur, ríkisstjórnina heils hugar í að reyna að standa vörð um landsbyggðina.

Ég fagna því að í breytingartillögum fær Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra 4,5 millj. kr. til að bjarga málum fram til áramóta. Eftir að maður hefur kynnt sér málið og skoðað þetta fyrirkomulag er augljóst hvað við gerum í raun skelfilega lítið til að tryggja jafnrétti og mannréttindi hjá þessum hópi og raunar mörgum fleirum. Fyrirkomulagið er þannig og hefur komið ítrekað fram hér í ræðustól að túlkaþjónusta er greidd af hinu opinbera, bæði túlkun í heilbrigðiskerfinu og í menntakerfinu að hluta o.s.frv. Fyrrverandi þingmaður og ráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stofnaði sjóð til að reyna að mæta þörf fyrir félagslega túlkun, þ.e. túlkun í félagslegu umhverfi, t.d. þegar fólk þarf að fara í viðtöl eða stunda að einhverju leyti félagsstörf. Það eru u.þ.b. 200 aðilar sem nýta sér þann sjóð. Þegar maður fer að reikna þetta út þá eru það níu klukkustundir á ári. Einstaklingur sem býr við þessa skerðingu og þarf á slíkri túlkaþjónustu að halda getur fengið eina klukkustund á 40 daga fresti.

Nú er það auðvitað ekki þannig að fénu sé alveg jafnt skipt á milli þessara 200 einstaklinga, en það breytir ekki því að framlagið er allt, allt of lítið. Menn kveinka sér undan því að þetta sé vegna þess að gjaldskrá vegna túlkaþjónustu hafi hækkað svo mikið og það kann að vera, en gjaldið er á milli 9 og 10 þús. kr. Þetta er verktakagreiðsla, útseld vinna með öllum gjöldum sem viðkomandi ber ábyrgð á, þar með veikindarétti og öðru slíku. Ég hef ekki heyrt sömu ræðumenn eða hæstv. ráðherra kveinka sér undan lögfræðikostnaði sem er 20 til 25 þús. kr. á klukkustund. Og ef við erum með erlendu lögfræðingana sem vinna nú mikið fyrir ríkisstjórnina, þá er það 100–150 þús. kr. á klukkustund. Menn verða að setja hlutina í samhengi.

Það sem við verðum að vinna að núna er að hugsa þetta algjörlega upp á nýtt, hætta þessum ölmusuhugsunarhætti og fara að nálgast málið út frá réttindasjónarmiðum, mannréttindum. Það kostar að lifa í þessu samfélagi. Það er misjafnt hvað það kostar mikið, en það er okkar stjórnvalda að rétta við þannig að sá kostnaður jafnist á milli fólks. Þess vegna tekur ríkið skatta og deilir þeim út aftur, til að jafna þennan kostnað.

Ég skora á hæstv. fjárlaganefnd og ríkisstjórnina að fara vel yfir þetta og nálgast málið með nýju hugarfari. Einmitt í dag er verið að ræða málefni öryrkja og stöðu þeirra út frá mannréttindasáttmálanum, Við höfum fengið alvarlegar áminningar um stöðu mála síðustu daga. Þetta svíður alltaf jafn mikið. Þótt maður hafi tekið þátt í að taka ákvarðanir sem hafa falið í sér niðurskurð gagnvart þessum hópum, þá lít ég á það sem algjöra skyldu að um leið og svigrúm skapast þá eigi þeir að vera í forgangi.

Allsherjar- og menntamálanefnd fór til ríkislögreglustjóra í morgun til að ræða áhættumat og hvað það væri sem ógnaði samfélögum. Það var mjög forvitnilegt. Á einni glæru var því lýst í meginatriðum hverjir væru helstu áhættuþættir varðandi ýmsar uppákomur, t.d. ofbeldisverk og annað slíkt. Það vakti athygli mína hversu skýrt það er hver rótin er, hver megináhættuþátturinn er að baki því að einhver fremji voðaverk eða bregðist þannig við að það skaðar fjölda manns eða eitthvað slíkt. Það er fátækt. Það er misskipting. Það er óréttlæti. Það er þegar fólk er lagt í einelti, þegar það verður fyrir misbeitingu. Það er þetta sem ógnar samfélaginu. Eigum við þá ekki að taka á því og að reyna að laga það? Mér finnst það vera eitt af þeim verðugu verkefnum sem við þurfum að glíma við.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt, en ég harmaði það við 1. umr. að hversu stuttur tími væri fyrir þessa umfjöllun. Ég gagnrýndi það þegar það kom fram að 1. minni hluti, eða raunar meiri hluti fjárlaganefndar sem leggur fram málið, hefði afgreitt frumvarpið út úr nefnd á þriðjudegi, en Seðlabankinn, sem er aðaltekjugjafinn í fjáraukanum á þessu ári, átti síðan að koma til nefndarinnar daginn eftir. Frumvarpið um Seðlabankann var þá rétt nýkomið inn í þingið og ekki búið að afgreiða það. Þar er um að ræða bókhaldsfærslur á milli ríkissjóðs og Seðlabankans. Við skulum ekki gagnrýna það að fundið sé út hvað eigi að vera eigið fé í Seðlabankanum og hvernig því sé komið fyrir. En það er útilokað að afgreiða þessi mál fyrr en sá tekjustofn, með endanlegum tölum, er a.m.k. kominn í höfn og samþykktur af þinginu.

Ég treysti líka á að samhliða 3. umr. komi fram breytingar og stefnumótun þar sem við getum gefið skilaboð inn í framtíðina um hvað standi til. Er það virkilega þannig að frekari niðurskurður sé fram undan? Ég nefndi Landspítalann. Það er nákvæmlega sama staða uppi á Norðurlandi og á Vesturlandi, þar á að fækka um þrjú, fjögur stöðugildi á næsta ári. Ekki að þær stofnanir séu reknar með halla í dag, en hvað bíður þeirra? Þau svör hafa ekki borist. Ég treysti á að þau komi við 3. umr. og við förum að taka í alvöru á málum, sem hér er verið að leysa með smáyfirklóri eins og varðandi landbúnaðarháskólana, bæði á Hólum og Hvanneyri.



[14:25]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjáraukalög fyrir árið 2014. Ég ætla að fara yfir frumvarpið frá nokkrum hliðum.

Hlutverk fjáraukalaga er vissulega skýrt. Það kemur fram í lögum um fjárreiður ríkisins. Gert er ráð fyrir því að allar fyrirsjáanlegar ráðstafanir komi fram í fjárlögunum sjálfum en í fjáraukalögunum felist fyrst og fremst tillögur um ófyrirséð og óhjákvæmileg útgjöld. Ég tek vissulega undir það að að því eigum við að vinna og halda okkur innan fjárlagarammans hverju sinni. Vissulega er það ánægjuefni að samkvæmt frumvarpinu batnar heildarafkoma ríkisins um rúma 43 milljarða kr., en í því sambandi tel ég rétt að vekja sérstaklega athygli á því að afkomubatann má einkum rekja til tveggja óreglulegra tekjufærslna, þ.e. vegna arðgreiðslna Landsbankans og þeirra banka sem ríkið á hlut í og þeirrar ákvörðunar að lækka eigið fé Seðlabankans um 21 milljarð kr. Áður var talað um 26 milljarða í því sambandi en sú upphæð er komin niður í 21 milljarð í arðgreiðslur í ríkissjóð og verja á andvirðinu til að greiða inn á skuldabréf ríkissjóðs sem gefið var út til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabankans í kjölfar hrunsins.

Það verður að segjast að beitt er ýmsum hundakúnstum, þó að það sé kannski ekki smekklegt orðalag í þessu samhengi en þannig virkar það nú á okkur sem erum ekki innmúruð í Seðlabankann, í þær kreðsur allar. Þessum brögðum er beitt til að ná þeim markmiðum ríkisstjórnarinnar að ná verulegum afkomubata fyrir ríkissjóð. En það virkar því miður frekar öfugsnúið þegar ríkið skuldar enn þá um 120–130 milljarða einmitt vegna endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands frá hruninu og að núna ætli ríkið að lækka eigið fé Seðlabankans sem það lánaði sjálft fyrir og skuldar enn og lækka síðan skuldina hjá sér í ríkisbókhaldinu í framhaldinu sem sýnir þá betri afkomu sem því nemur fyrir ríkissjóð. Einhver mundi kalla þetta barbabrellu í bókhaldi. En ef möguleiki er á því að þetta sé innan þess lagaramma sem við vinnum eftir varðandi Seðlabankann og fjárreiður ríkisins, þá ætla ég ekki að hafa frekari stór orð um það, en þetta finnst mér þurfa að skoðast vel.

Þess ber líka að geta að sú heimild til að færa niður fé Seðlabankans verður að koma með lögfestingu frumvarps um Seðlabanka Íslands, sem er nýkomið inn á þingið og hefur ekki fengið mikla umræðu eða skoðun í nefnd, einungis var mælt fyrir því í gær. Vegna þess afkomubati ríkissjóðs í fjáraukalögunum byggir á að sú heimild fáist með samþykkt þess frumvarps um Seðlabanka Íslands og sú samþykkt verður að liggja fyrir áramót eða áður en fjáraukalögin verða samþykkt, eins og ég hef skilið það.

Tekið er á ýmsum þáttum í breytingartillögum 1. minni hluta, þ.e. meiri hluta fjárlaganefndar. Þar ber fyrst að nefna, sem ég hef áhyggjur af, stöðu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Þar eru settar inn í fjáraukalög 15 milljónir sem eiga að mæta rektorsskiptum við Landbúnaðarháskólann á þessu ári. Ég get alveg tekið undir það að sú þörf er fyrir hendi og var ófyrirséð þar sem það lá ekki fyrir í upphafi árs að rektorsskipti yrðu þar. En það er eins og allir vita gífurlegur vandi áfram til staðar við Landbúnaðarháskóla Íslands. Mér finnst að liggja þurfi fyrir sem fyrst hvernig ríkisvaldið ætlar að taka á þeim mikla vanda sem skólinn stendur frammi fyrir. Maður hefur því miður haft þá tilfinningu að þar sem Landbúnaðarháskólinn sameinaðist ekki Háskóla Íslands — ekki lá vilji fyrir því hjá mörgum aðilum sem bera hag skólans fyrir brjósti, heimamönnum sem og þingmönnum kjördæmisins, sveitarstjórnarmönnum á því svæði og fleirum, að vilja sameinast Háskóla Íslands — hafi Landbúnaðarháskólinn verið settur svolítið á kaldan klaka og sagt við hann: Þá bjargið þið ykkur bara sjálf og við ætlum ekki að hjálpa ykkur að glíma við þann gamla skuldahala sem hefur fylgt skólanum lengi. En ég tel að brýnt sé að menn nái lendingu í því máli og komist að niðurstöðu hvernig farið verður með þann skuldahala svo hægt verði að horfa til framtíðar hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og halda áfram því öfluga starfi sem þar hefur verið um árabil.

Einnig má nefna að lagt er til að lagðar verði 5 milljónir aukalega til Háskólans á Hólum til að mæta kali í túnum. Ég tel að sá rökstuðningur haldi ágætlega.

Mikið hefur verið rætt um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og inn í þann málaflokk er bætt 4,5 milljónum. En ég held að við sem samfélag ættum að sýna sóma okkar í að gera miklu betur við þann málaflokk. Því miður hefur þetta svolítið verið eins og með óhreinu börnin hennar Evu, við höfum ekki tekið á þeim málaflokki með þeim myndugleika sem við ættum að gera. Það er auðvitað okkur öllum til skammar að svo hafi ekki verið og þeim sem hafa verið hér við völd í gegnum tíðina. Mér finnst að þess þurfi að sjá stað í fjárlögum næsta árs að öryggi sé tryggt varðandi túlkaþjónustu fyrir þá sem hennar þurfa að njóta og litið sé á það sem eðlilegan hlut þess hóps í samskiptum við samfélagið og aðra sem við hin, sem höfum ekki fötlun, teljum vera sjálfsagðan hlut í okkar lífi, að eiga eðlileg samskipti við stjórnsýsluna og þjónustuna í heilbrigðiskerfinu og alla sem í kringum okkur eru dagsdaglega, en ekki að eftir nokkra mánuði hvers árs sé sá hópur einangraður í sínum heimi og geti ekki átt þau eðlilegu samskipti.

Svo er Vegagerðin. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að fært sé á milli liða þar og 850 milljónir séu teknar úr nýframkvæmdum og settar í viðhald. Við vitum vel að í gegnum árin hefur viðhaldi verið ábótavant. Við þekkjum afleiðingar hrunsins og að ekki var úr miklum peningum að spila. Fyrir hrun hafði viðhaldi ekki verið sinnt nægjanlega, svo þetta er orðinn langvinnur og uppsafnaður vandi í vegakerfi landsins varðandi viðhald vega. Og svo bætist snjómokstur við þar líka, kostnaður við hann sem ekki er hægt fyrir fram að gefa sér hver verður á ársgrundvelli. En mér finnst það vera mjög hættuleg þróun að taka fé úr nýframkvæmdum í viðhald, að Vegagerðinni sé í rauninni stillt upp við vegg í þeim efnum. Sá málaflokkur er auðvitað með ólíkindum og er bara til háborinnar skammar fyrir þessa ríkisstjórn, að standa ekki einu sinni við núverandi samgönguáætlun og að svelta málaflokkinn eins og fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár lítur út. Það vantar 2–3 milljarða inn í samgönguþáttinn í því fjárlagafrumvarpi svo hægt sé að standa við samgönguáætlun.

Ég er hrædd um að þessi millifærsla núna geti bitnað á nýframkvæmdum á næsta ári. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig útboðum verður háttað og hvaða útboð frestast inn í framtíðina, hverju verður ýtt áfram, því það liggur ekkert fyrir í þeim efnum hvernig eigi að fara í þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru. Það liggur ekkert fyrir um fjármögnun til þeirra framkvæmda. Í algjörri óvissu eru framkvæmdir við Dýrafjarðargöng og uppbygging Dynjandisheiðar, samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum, áframhald Vestfjarðavegar 60 og áfram mætti telja víðs vegar um landið. Ekkert liggur fyrir um fjármögnun á þeim nýframkvæmdum sem eru fyrirhugaðar í samgönguáætlun. Svo bætist við að viðhald vega er fjársvelt líka og menn neyðast til að kroppa í nýframkvæmdir til að sinna því viðhaldi sem ekki verður hjá komist og að greiða niður snjómokstur.

Svo kemur fram í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar að bæta eigi í niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimila 16 milljörðum frá því sem áætlað var. Ég spyr, út af hverju eru þeir fjármunir ekki alveg eins nýttir í hluti eins og Landspítalann þar sem fjárþörfin er gífurlega mikil og halli þessa árs er hátt í 2 milljarðar? Hvað á sú stofnun að gera? Þeim vanda er ekki mætt í þessum fjáraukalögum og sá vandi veltur þá fram á næsta ár. Það liggur ekkert fyrir hvernig stjórnvöld ætla að haga málum varðandi uppbyggingu nýs Landspítala á næsta ári eða framlögum til spítalans yfir höfuð. Komið hefur fram í máli stjórnenda Landspítalans að bæta þurfi við að lágmarki 4% frá þeirri fjárhæð sem kemur fram í frumvarpi til fjárlaga næsta árs til að hægt sé að ná endum saman. Ef ekki þá þurfi að spara 2 milljarða á næsta ári. Stærstur kostnaðarliður hjá Landspítalanum er mannahald. Það segir sig sjálft að það mun bitna strax á starfsfólki spítalans. 2 milljarðar í sparnað á næsta ári þýða uppsagnir 70 til 100 manna. Svo það er auðvitað gífurlegur vandi sem haldið er áfram að velta inn í næsta fjárlagaár.

Það hlýtur að vera áhyggjuefni núverandi stjórnarmeirihluta hvernig þau mál eru að þróast. Ég tel að þetta sé eitt af þeim stærstu verkefnum sem við höfum kannski ekki horfst nægilega vel í augu við, þ.e. þolmörk Landspítalans, hvernig við erum komin að algjörum þolmörkum.

Mig langar aðeins að vitna til viðtals í Fréttatímanum við forstjóra Landspítalans, Pál Matthíasson, um þessi mál. Með leyfi forseta, segir forstjóri Landspítalans:

„„Það er búið að skera hér niður alveg inn í bein. Niðurskurðurinn á árunum 2007–2011 var samkvæmt Hagfræðistofnun 24% en þá má ekki gleyma því að þá hafði þegar verið skorið mikið niður,“ segir hann.“ — Svo þetta er ekki bara afleiðingar hrunsins heldur uppsafnaður vandi fram að árinu 2008.

„Staðan er erfið. Það er aukið álag á starfsfólk og fjárveitingin sem við höfum núna dugir ekki fyrir rekstrinum. Það er mikilvægt að fá það bætt þannig að reksturinn einfaldlega gangi upp. Tækin eru síðan annar kafli. Fyrri ríkisstjórn hafði gert ráð fyrir 900 milljónum árlega í tækjakaup, þar af voru 600 milljónir í sérstaka viðbótargreiðslu sem átti að koma árlega í þrjú ár. Þeir fjármunir eru ekki í fjárlagafrumvarpi næsta árs,“ bendir hann á. „Það sem við erum að sjá hjá starfsfólki núna er einfaldlega uppsöfnuð þreyta. Við náðum ákveðnum árangri í hagræðingu, fjórðungs hagræðingu, en það reyndi á starfsfólk […]. Til viðbótar“ — þetta ættum við nú að þekkja öll eftir þessa miklu umræðu og kynningu sem allir þingmenn hafi fengið af stöðu Landspítalans — „er húsnæði og tækjakostur orðinn úreldur sem eykur enn frekar álag,“ segir hann.“

Við eigum að vera stolt af Landspítala okkar og leggjast öll á eitt með að byggja hann upp sómasamlega en komið hefur fram í könnun eða úttekt hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, þar sem Landspítalinn er borinn saman við sjúkrahús í nágrannalöndunum, að hlutfallslegur kostnaður Landspítalans er um 58% af kostnaði sambærilegrar deildar á sjúkrahúsum í kringum okkur eins og Karolinska í Svíþjóð og fleiri sjúkrahúsum. Íslendingar mega vera stoltir af því að reka spítalann mjög hagkvæmt. Til þessa held ég að við þurfum að horfa og takast á við vandann en stinga ekki höfðinu endalaust í sandinn og tala bara um, eins og formaður fjárlaganefndar hefur talað um opinberlega í fréttum, að enn þurfi að skera báknið niður og ríkisútgjöld. Hvaða bákn er verið að tala um í því sambandi? Það er heilbrigðiskerfið okkar, það er menntakerfið okkar, það eru samgöngur í landinu, allir innviðir samfélagsins sem eru komnir margir hverjir að fótum fram, því miður.

Þetta er línan hjá hv. formanni fjárlaganefndar að enn sé brýnt að skera niður báknið og ríkisútgjöldin, að þar þurfi að skera virkilega niður. Gífurlegur vandi blasi þar við, bæði hvað varðar framhaldsskólana og litlu framhaldsskólana um allt land, og þó að núna fái þeir svokallað gólf í fjáraukalögum til þess að halda dampi þetta ár þá ríkir algjör óvissa um framtíð þeirra framhaldsskóla á næsta ári.

Að auki er verið að skera niður þúsund nemendaígildi sem þýðir að fólki eldra en 25 ára er ekki hleypt inn í framhaldsskólana. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða var skorinn niður við trog í síðustu fjárlögum en er bætt úr núna og meira fjármagn sett í þann lið, en það gerir ekkert til að leysa þann mikla vanda og það verkefni sem hæstv. ráðherra ferðamála hefur talað um í missiri og ár að leysa þurfi. Engar tillögur koma fram um framtíðarskipulag (Forseti hringir.) í þeim efnum. Ég held að við séum ekki á góðum stað varðandi fjárreiður (Forseti hringir.) ríkisins ef þessu heldur áfram.



[14:46]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér og þakka þessa umræðu, 2. umr. fjáraukalaga fyrir árið 2014. Ég hef tekið ákvörðun um að málið komi aftur til fjárlaganefndar. Þarna eru nokkur atriði sem þarf að skoða á milli umferða þannig að málið kemur aftur inn í nefnd.

Ég nefndi í framsöguræðu minni í morgun að til dæmis þarf að skoða fjárútlátin varðandi túlkasjóðinn því að það bárust nýjar upplýsingar í morgun um hann, hvernig þessi hækkun hefði komið inn þann 10. maí 2013 nokkrum dögum eftir alþingiskosningar. Þá var gjaldskráin hækkuð um 45% án þess að auka í tíma og á þeim forsendum tæmdist sjóðurinn sem þessi ríkisstjórn hefur brugðist við í tvígang.

Til þess að málið fái sem faglegasta og besta meðferð verður það tekið fyrir aftur á fundi fjárlaganefndar á næstu dögum og óska ég áfram eftir góðu samstarfi við þingmenn í fjárlaganefnd.