144. löggjafarþing — 36. fundur
 20. nóvember 2014.
dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna, fyrri umræða.
þáltill. PVB o.fl., 397. mál. — Þskj. 551.

[14:47]
Flm. (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna. Flutningsmenn ásamt mér eru þau hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir, Karl Garðarsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Elín Hirst og Birgitta Jónsdóttir. Þingsályktunartillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að 20. nóvember, dagurinn sem barnasáttmálinn var samþykktur, verði ár hvert helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, barnasáttmálinn eins og hann er oftast kallaður, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989. Hann var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990 og fullgiltur árið 1992. Sáttmálinn boðar nýja sýn á stöðu barna í samfélaginu. Sáttmálinn skilgreinir börn sem viðkvæman hóp sem hefur sérstaka þörf fyrir vernd og umönnun. Samhliða því gengur sáttmálinn út frá því að börn séu fullgildir og hæfir einstaklingar sem búi yfir viðhorfum og reynslu sem feli í sér verðmæti fyrir samfélagið. Það var mikið fagnaðarefni þegar Alþingi ákvað einróma að lögfesta barnasáttmálann í febrúar 2013, samanber lög nr. 19/2013, um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Ísland hefur þannig viðurkennt sáttmálann með afdráttarlausum hætti en lögfesting hans felur í sér skýra stefnuyfirlýsingu um forgangsröðun með tilliti til réttinda barna.

Samkvæmt barnasáttmálanum ber aðildarríkjum að kynna efni hans með virkum hætti fyrir börnum sem og fullorðnum. Grundvallarforsenda fyrir innleiðingu sáttmálans er að fólk, börn jafnt sem fullorðnir, þekki réttindi barna og geti sett þau í samhengi við daglegt líf og starf. Einhver helsta áskorun sem við stöndum frammi fyrir á Íslandi er að auka þekkingu á innihaldi barnasáttmálans. Kannanir meðal barna sýna að íslensk börn hafa takmarkaða þekkingu á réttindum sínum og vissa tilhneigingu til að rugla saman grundvallarhugtökum á borð við „forréttindi“ og „réttindi“. Til að fullorðnir og börn geti átt innihaldsrík samtöl um mannréttindi á jafningjagrundvelli er þörf fyrir markvissari fræðslu. Eitt mikilvægasta skrefið í þá átt er að skapa umræðu um réttindi og fræða einstaklinga um birtingarmynd réttinda í daglegu lífi. Þannig gerum við börn meðvituð um eigin réttindi og komum þeim í skilning um að aðrir eigi sömu réttindi.

Hinn 20. nóvember næstkomandi, sem er dagurinn í dag, verður 25 ára afmæli barnasáttmálans fagnað. Á þeim tímamótum er mikilvægt að veita réttindum barna aukið vægi. Því vilja flutningsmenn þessarar tillögu að Alþingi ákveði að fela innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að dagurinn sem barnasáttmálinn var samþykktur, 20. nóvember, verði ár hvert helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Sérstakur fræðsludagur um mannréttindi barna er mikilvægt skref í þá átt að auka þekkingu barna á réttindum sínum. Má í því sambandi benda á að árið 2005 samþykktu öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, að efla kennslu um mannréttindi í skólum. Árið 2008 voru ný lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla samþykkt á Alþingi og nýjar aðalnámskrár fyrir öll skólastigin voru samþykktar árið 2011. Aðalnámskrá á að vera rammi utan um skólastarfið, birta heildarsýn um menntun og útfæra nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Sú menntastefna sem birtist í aðalnámskrá grunnskóla er reist á sex grunnþáttum menntunar. Þessir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Auk þess að vera byggð á lögum um grunnskóla byggist aðalnámskrá á ýmsum öðrum lögum og alþjóðlegum samningum, þar á meðal barnasáttmálanum. Það fellur vel að markmiðum skólalöggjafar og aðalnámskráa að veita mannréttindum barna aukið vægi og halda fræðsludag um mannréttindi barna ár hvert, hinn 20. nóvember, á deginum sem barnasáttmálinn er samþykktur.

Í dag er einmitt þessi dagur, 20. nóvember, og í morgun var haldin afmælisveisla í Laugalækjarskóla á vegum Barnaheilla, umboðsmanns barna og UNICEF á Íslandi. Við erum sex þingmenn sem erum nú orðnir talsmenn barna á Alþingi og undirrituðum við yfirlýsingu þess efnis í morgun sem var virkilega gleðileg stund og ánægjulegt. Ég verð að segja fyrir mína parta að þetta er sennilega einn mesti heiður sem mér hefur hlotnast, þ.e. að fá að vera sérstakur talsmaður barna á Alþingi ásamt þessum fimm félögum mínum, hv. þingmönnum.

Auðvitað búum við Íslendingar við margvísleg réttindi og þægindi og það er í raun ótrúlegt hvað við höfum það gott miðað við marga aðra. Þess vegna þurfum við líka að kenna börnum þetta enn þá meira. Sem kennari upplifði ég, í mínum skóla, að börn voru engan veginn algerlega viss um réttindi sín og um hvað þau fjölluðu. Þau þekktu kannski ekki grundvallarhugtök eins og sáttfýsi, ábyrgð, umburðarlyndi o.fl. Það kom mér verulega mikið á óvart en kannski er ekki nógu mikið talað um þetta.

Einn þingmaður kom til mín og benti mér á að nú væri til orðinn dagur læsis og það væri dagur ljóðsins og íslenskrar tungu í skólum og sennilega endaði þetta með því að einn dagur yrði tileinkaður hefðbundinni kennslu. En hvað er hefðbundin kennsla? Mér finnst einmitt það að vera með svona sérstaka daga — það er hægt að gera hvað sem er með það. Það er hægt að samþætta þetta svo daglegri kennslu. Þó að dagurinn heiti fræðsludagur um réttindi barna er svo auðvelt að samþætta þau mál inn í aðra kennslu, nánast alveg sama hvað þú ert að kenna. Það er svo auðvelt að samþætta öll þessi sjónarmið inn í daglega kennslu. Og það er eitt af því sem mér finnst að við ættum að leggja miklu meiri áherslu á á Íslandi, það er samfélagskennsla. Hún hefur ekki nógu mikið vægi í skólum. Það mætti leggja miklu ríkari áherslu á að kenna börnum hvað samfélagið gengur út á, hver eru réttindi þeirra og réttindi fólks yfir höfuð.

Við búum samt sem áður í góðu samfélagi og það getur orðið enn betra. Við eigum fullt af góðum auðlindum. Við eigum sjávarútvegsauðlindina, við eigum orku og hvað eina en dýrmætasta auðlind hverrar þjóðar og okkar þjóðar eru börnin. Það eru þau sem koma til með að takast á við framtíðina og taka við af okkur. Og ef þeim eru kennd þessi grundvallarmannréttindi og út á hvað samfélagið gengur þá erum við í góðum málum.

Umræðan í samfélaginu núna í sambandi við stjórnmál og annað er mjög hörð og óvægin og börn nema þetta. Þau nema þetta um leið og þau tileinka sér það. Við megum aldrei gleyma því að við sem erum fullorðin erum fyrirmyndir. Auðvitað verður manni stundum á þannig að maður segir jafnvel einhverja hluti í návist barna sem maður á alls ekki að segja en það er bara eins og það er. Við erum fyrirmyndir og ég er mjög stoltur af því að fá að taka þátt í þessu verkefni. Til dæmis í morgun gekk yfirlýsing okkar út á að við ættum alltaf að setja upp barnagleraugun þegar við værum að innleiða lög og reglur. Við fengum þau gleraugu og ég ætla að leyfa mér að setja þau upp til að leyfa ykkur að sjá hvað þau eru falleg, virðulegi forseti. Þetta eru barnagleraugu sem gera að verkum að þegar við setjum þau upp horfum við á samfélagið með augum barnsins. Ég er ekki frá því að maður sé eins og lítið barn þegar maður er kominn með þetta á nefið.

Ég vonast til að þessi tillaga fái gott brautargengi og að henni verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og ég hlakka til að takast á við þetta. Ég veit að við sem erum á ályktuninni, þeir hv. þingmenn sem eru með mér í þeim hópi, erum öll áfram um að sinna þessu mjög vel.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[14:56]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þetta með heitið á þessum lið, andsvar, ég er ekki komin hingað upp til þess að mótmæla hv. þingmanni í einu eða neinu heldur tek ég undir og lýsi mig sammála því og fylgjandi því að við felum hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að 20. nóvember verði dagur sem verði sérstaklega helgaður fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Það liggur við, ef ég ætti að vera leiðinleg, að ég kæmi með viðaukatillögu sem segði: og mundi líka fræða foreldra á sama tíma.

Spurningunni sem ég ætlaði að leggja fyrir hv. þingmann svaraði hann eiginlega í lokin. Ég ætlaði einmitt að ítreka hvort hv. þingmaður teldi ekki að við þyrftum ekki bara að hugsa um hag barna á þessum eina degi heldur að væri hlutverk okkar á Alþingi að hafa hag barna í huga í öllu sem við ákveðum. Hann svaraði því, en það væri gaman að fá aðeins nánari útlistanir á því frá hv. þingmanni sem hefur fengið þann flotta titil að vera talsmaður barna á Alþingi — til hamingju með hann, ég skil vel að þú berir hann með stolti. Verðum við ekki alltaf, eins og núna þegar við erum að skuldsetja ríkissjóð langt fram í framtíðina, að huga að þessu? Hvað verður um hag þeirra sem eru á leikskólaaldri núna? Þau munu líklega þurfa að bera ábyrgð á ýmsu klúðri okkar núna 20. nóvember, á þessum degi þegar við ætlum vonandi að byrja fræðslu um réttindi barna.



[14:58]
Flm. (Páll Valur Björnsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið eða spurninguna og þakka henni fyrir góðar óskir til okkar. Ég lít á það sem óskir til okkar allra sem erum talsmenn barna á Alþingi.

Ég er alveg sammála því að ástandið er umhugsunarvert og það sem er að gerast á Alþingi þessa dagana eða í stjórnmálum yfir höfuð, þær ákvarðanir sem eru teknar sem virðist liggja ljóst fyrir að muni auka byrðar komandi kynslóða. Það er mjög óábyrgt.

Eitt af því sem var talað um þegar við fórum einn dag til umboðsmanns barna var að við ættum alltaf að leitast við — reyndar lít ég þannig á það sem stjórnmálamaður — að hafa viðmið við öllum ákvörðunum sem við tökum að þær þjóni hagsmunum allra borgaranna, ekki síst barna. Stjórnmál snúast allt of lítið um þau. Þau eru eiginlega alltaf utanveltu í allri umræðu í samfélaginu. Þau eru einhvern veginn aukahópur. Þess vegna kom sú uppástunga frá umboðsmanni barna og þeim sem hafa með þessi mál að gera á Íslandi að búa til þverpólitískan hóp sem gætti sérstaklega að því. Það er einmitt það sem maður verður að gera. Núna er maður búinn að skrifa undir yfirlýsingu um það að við skoðum öll mál út frá því, sérstaklega sem varðar börnin. Ég mun leitast við að gera það.

Þú sagðir fræðsludagur — mér finnst að það eigi alltaf, á hverjum einasta degi í skóla, að tala um mannréttindi og réttindi barna og ekki bara réttindi barna heldur allra, kenna börnum um mannréttindasáttmálann. Við verum með sáttmála fyrir fatlað fólk líka sem við þurfum enn frekar að bæta í. Við eigum alltaf að skoða það.

Það sem er verið að gera núna mun auka byrðar í framtíðinni og það er ámælisvert.



[15:01]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég gleymdi gleraugunum. Ég var búin að lofa hv. þm. Páli Val Björnssyni að bera gleraugun, svo gleymdi ég þeim niðri þannig að … (Gripið fram í.) — Já, ég segi það, ég verð bara að bíta úr því. Það var eiginlega áskorun að við skyldum alltaf bera þessi gleraugu þegar við mundum tala um málefni barna.

Þetta var gleðistund í morgun og ofsalega gaman að sitja í Laugalækjarskóla þar sem var fullur salur börnum og ungmennum sem voru ánægð með daginn og byrjuðu hann á hafragraut og köku í tilefni dagsins. Þau sýndu okkur síðan vídeómynd sem nokkur þeirra tóku sem eru í mannréttindahópi skólans. Þau höfðu átt samtal við samnemendur sína um hvort þau vissu hvað barnasáttmálinn gengur út á og hvað mannréttindi eru. Það kom í ljós að þeim fannst vanta frekari fræðslu.

Ég held að það sé ljómandi vel til fundið að vera með dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna. Burt séð frá því, eins og hv. framsögumaður nefndi hér áðan, að komnir eru dagar um alla skapaða hluti, þá eru mannréttindi líklega eitt af því mikilvægasta sem við þurfum að fjalla um, ekki síst mannréttindi barna.

Samhliða sáttmálanum um réttindi barna er líka mikilvægt að við sem foreldrar, fullorðnir leiðbeinendur ungs fólks, kennarar eða hverjir það nú eru fræðum þau um skyldur sínar. Það er mikilvægt í því samhengi að allir sem hafa réttindi hafa líka skyldum að gegna. Það er mjög gott að taka það saman og ræða það þegar talað er um mannréttindi. Ég held að það sé alveg rétt sem kom fram í meðsvari hérna áðan að líklega þarf að fræða foreldra svolítið um mikilvægi þessa til að innihaldsrík samræða geti verið svolítið á þeirra forsendum. Oft og tíðum gerum við ráð fyrir því að ungmenni hafi minni skilning en þau hafa á hinum ýmsu málum. Það kom ágætlega fram á fundinum sem var haldinn í Hörpu í gær um framhaldsskólann þar sem unga fólkið talaði út frá eigin brjósti um það hvernig því hugnast þær breytingar sem verið er að gera á framhaldsskólakerfinu.

Við efnum allt of lítið til samræðu við ungt fólk þegar við tökum svona risastórar ákvarðanir. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að sinna þessari fræðslu. Það er jafnvel hluti af því að eiga einhvern tiltekinn dag að ýta undir og efla svona fræðslu. Við sem stjórnmálamenn og talsmenn í þessum málaflokki fjöllum um það fjármagn sem við ætlum að leggja fram til að barnasáttmálinn nái þeirri stöðu sem honum ber miðað við þá samþykkt sem var gerð og á að endurspegla þann vilja sem þar er og þau réttindi. Það er á okkar ábyrgð að sjá til þess að hægt sé að innleiða hann af því að ríkið hefur áhrif á sveitarfélögin með tiltekinni lagasetningu, fjármunum, styrkjum eða einhverju slíku sem hægt er að setja í málaflokkinn til þess að styðja við framkvæmdina. Ég held að við þurfum að gæta þess í öllum okkar ákvörðunum og velta því fyrir okkur oftar en ekki hvernig við horfum á unga fólkið sem meðborgara okkar, hvaða tækifæri það fær til að upplifa réttindi sín þannig að það sé eitt af því sem við skoðum svolítið betur hvert fyrir sig.

Við þurfum líka að íhuga ákvarðanirnar og praktískar nálganir í þessari vinnu. Getum við breytt einhverju? Getum við haft ákvarðanaferlið öðruvísi? Eigum við að kalla unga fólkið og fulltrúa þess oftar inn til okkar í nefndarvinnu? Öll mál hafi jú auðvitað áhrif á ungt fólk eins og eldra á einhverjum tímapunkti lífs þess en ég held að við getum gert svo miklu betur bara með því að kalla fulltrúa inn í alls konar vinnu þegar nefndir fjalla um tiltekin mál. Ungmenni eiga sér málsvara mjög víða, eins og í grunnskólum, framhaldsskólum og í gegnum ýmis æskulýðssamtök sem þau standa að.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að hafa þetta langt, ég ætlaði bara rétt að taka þátt í umræðunni og lýsa ánægju minni. Þessi morgunn var afskaplega ánægjulegur, eins og ég sagði áðan, gleðistund og gott að byrja daginn með þessum hætti.



[15:07]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég segi eins og félagar mínir, hv. þingmenn hér á undan, að það var bæði heiður og ánægja að sitja afmælishófið, ef ég má kalla það svo, í morgun þegar 25 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna var fagnað í Laugalækjaskóla.

Við sex sem erum þingmenn og höfum þann virðulega titil að vera talsmenn barna þurftum — ég orða það svo því að við vorum tekin á námskeið um barnasáttmálann sem fór þannig fram að okkur var kynnt efnið eins og fullorðnu fólki og farið yfir helstu atriði sáttmálans — að fara í leik sem við höfðum misgaman af. Hann var þannig að fyrst áttum við að draga spjöld og segja hvað, ef við þyrftum að taka eitthvað út úr barnasáttmálanum, við mundum við taka. Mundum við taka þetta atriði eða hitt? Við áttum að draga spjöld til þess. Það kom fljótt í ljós að barnasáttmálinn hangir allur þannig saman að það er ekki hægt að taka neitt eitt út úr honum. Ég held að við höfum ekki verið búin með nema fimm eða sex spjöld þegar við komumst að því að þetta væri vitlaus leikur vegna þess að það væri alveg ljóst að barnasáttmálinn væri þannig að hann yrði ekki hlutaður niður.

Annar leikurinn var þannig að við fengum spjöld sem voru með fullyrðingu á og við áttum spyrja okkur: Uppfyllum við þetta atriði barnasáttmálans? Ég man til dæmis eftir hvort börn væru alltaf í forgrunni, hvort alltaf væri gert það sem er barninu fyrir bestu. Mér finnst við vera mjög góð í því í orði, en ég er ekki viss um að við séum jafn góð á borði. Við þurfum að láta athafnir fylgja orðum. Síðan var annað spjald dregið sem var um það hvort barnasáttmálinn væri nógu vel kynntur, hvort við þekktum hann nógu vel. Það var alveg ljóst að það spjald fór í neðsta skala. Væntanlega var það í framhaldi af því sem sú hugmynd kom upp að einmitt þessi dagur, 20. nóvember, yrði helgaður því að skólar einsettu sér, a.m.k. þennan dag ef ekki alla daga ársins, að kynna barnasáttmálann í skólunum. Ég held að þetta sé góð hugmynd og er þess vegna stolt af því að vera flutningsmaður hennar með félögum mínum hér.

Ég er ekki með gleraugun, virðulegi forseti, en ég gleymdi þeim ekki. Ég held að við þyrftum að vera með þau alltaf og þau fara mér ekkert voðalega vel. [Hlátur í þingsal.] Við hljótum alltaf að þurfa í störfum okkar að hugsa um hvaða áhrif ákvarðanir okkar hafa á framtíðina og svoleiðis. Um leið og við hugsum um framtíðina hljótum við að hugsa um börnin því að þau eiga náttúrlega aðallega framtíðina fyrir sér.

Ég vil alls ekki láta fólk halda að fólk geti ekki haft misjafnar skoðanir á því hvernig eigi að framkvæma ýmsa hluti þó að það hafi framtíðina og börn í huga. Það mun ekki breytast. Hins vegar finnst mér þetta hafa kennt mér á þeim hálfa mánuði sem ég hef verið með þennan titil að taka meiri vinkil, ef ég má orða það svo, á einmitt það sem við þurfum að hafa í huga, að það sem við gerum hér henti framtíðinni best. Ég held að það sé það sama, börn og framtíðin. Í mínum huga er það það sama.



[15:13]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem í ræðustól til að fagna þessari tillögu sem fulltrúar allra flokka sameinast um að flytja, tillögu til þingsályktunar um dag helgaðan fræðslu um mannréttindi barna, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir talaði um, a.m.k. þennan dag. Við vitum að margir dagar eru það en þessi dagur ekki síst. Ég fagna því alveg sérstaklega að um þetta sé þverpólitísk sátt og er ákaflega stoltur af því að hafa sem starfandi forseti getað beitt mér fyrir því að þessi tillaga er eitt af þremur dagskrármálum þessa fundar á þessum merkilega degi. Mér fannst það mjög tilhlýðilegt. Ég veit líka að ég hef stuðning forseta Alþingis fyrir því, hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, og hygg að hann hefði gert það sama ef hann hefði verið hér. Þetta finnst mér mjög táknrænt og þess vegna fagna ég aftur að þessi tillaga skuli vera borin hér fram.

Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta og ætla ekki að lengja umræðuna, virðulegi forseti, um það sem í tillögunni stendur og hvers vegna hún er flutt. Það er allt saman gott og góðra gjalda vert og þarf ekki að bæta við. Í greinargerðinni er í byrjun talað um þennan feril frá 20. nóvember 1989 þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkir samninginn, við Íslendingar undirritum svo 1990, fullgildum hann 1992 en lögfestum ekki fyrr en 2013. Það var gert á síðasta kjörtímabili og við vorum öll ákaflega stolt af því að hafa staðið að því og gert það loksins.

Þessi hópur er til kominn vegna þess að UNICEF bað um tilnefningar frá fulltrúum allra þingflokka í nefnd. Hér hefur því verið lýst að hv. þingmenn voru í afmælishófi í morgun í Laugalækjarskóla og tóku þátt í leik og fleiru, sem gekk ekki upp og stoppaði að mér skilst. Ég fagna því líka að fulltrúar allra flokka hafi mætt á þennan fund á þessum degi og barnasáttmálanum gert svo hátt undir höfði sem raun ber vitni, líka með þessari tillögu hér.

Það er ánægjulegt að þetta mál skuli vera rætt hér og skuli ganga til nefndar, sem er væntanlega allsherjar- og menntamálanefnd. Ég segi fyrir mitt leyti að ég mun beita mér fyrir því í forsætisnefnd og hvet allsherjar- og menntamálanefnd til að vinna málið fljótt og vel, en vandað að sjálfsögðu. Markmið okkar á að vera að samþykkja þessa tillögu eigi síðar en þegar þingi lýkur hér fyrir jól. Mér finnst táknrænt að gera það í framhaldi af þessu sem sýnir að um þetta er væntanlega full samstaða. Þetta er merkileg ályktun sem hér er sett fram um að helga þennan dag fræðslu um mannréttindi barna.

Meira vildi ég ekki segja, virðulegi forseti, en ítreka ánægju mína og þakka þeim þingmönnum sem flytja þetta hér inn fyrir þeirra störf hvað þetta varðar.



[15:16]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil á sama hátt og aðrir fagna framlagningu þessarar tillögu. Það skiptir miklu máli fyrir þá kynslóð sem vex úr grasi hverju sinni að hún þekki réttindi sín, að það sé rætt við hana um þau réttindi sem hún á. Því miður eru börn oft beitt harðræði. Þau búa sum við illan kost og hafa ekki í neinn rann að leita með sín mál ef hinir fullorðnu bregðast. Þess vegna skiptir skólinn líka svo miklu máli við það að halda utan um þau, kynna þeim réttindi sín, fylgjast með þeim og hjálpa þeim til þess að ná fram réttindum sínum.

Ég verð að segja að það er alveg svakalegt að lesa og heyra fréttir utan úr heimi um það hvernig farið er með börn víða um heim, hvernig þau eru misnotuð, þeim misþyrmt og við hvað þau búa — af hálfu manna. Við erum ekki að tala um aðstæður sem þjóðir ráða ekki við. Við höfum hér allt til alls að mestu leyti en víða búa börn við hungur, vatnsleysi og ömurleg híbýli, en það hvernig maðurinn kemur fram við sín eigin afkvæmi er alveg skelfilegt. Það eitt út af fyrir sig ætti að sameina okkur í því að fylgjast með og gæta að réttindum barna.

Eins og ég segi er ég á sama máli og aðrir sem hér hafa talað. Þetta er framfaraskref og það ber að þakka.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.