144. löggjafarþing — 37. fundur
 27. nóvember 2014.
skilgreining grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins.

[11:41]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort til sé skilgreining í lögum eða hjá hinu opinbera á því hvað sé grunnþjónusta heilbrigðiskerfisins. Ef svo er, hver er hún? Ef ekki, stendur til að útbúa hana formlega og þá á hvaða sviði ákvarðanatöku, í lögum eða reglugerð eða hjá heilbrigðisyfirvöldum eða hvar?

Það er klárlega Alþingis að setja fjárlög og ákveða hverju skuli úthluta til heilbrigðiskerfisins. Ég held að það sé nokkuð ljóst að stór meiri hluti landsmanna vill forgangsraða þangað. Nú hefur forstjóri Landspítalans gefið upp áætlun um það hvað þurfi til að hægt sé að sinna því sem hann skilgreinir sem ákveðna grunnþjónustu. Það virðast ekki vera til peningar eða vilji til þess að tryggja það. Þá er spurningin: Á að reka hann? Ef hann segir að þetta sé nauðsynlegt, Alþingi segir að svo sé ekki, er þá þetta þá maður sem á að sinna þessu starfi?

Grunnspurningin er: Er til skilgreining á grunnþjónustu?

Staðan sem er svo bagaleg fyrir lækna er sú að þegar þetta er ekki skýrt, eins og það er skýrt í neyðarmóttöku hvernig eigi að forgangsraða sjúklinginn inn — ef það er ekki skýrt varðandi heilbrigðisþjónustu þá er erfitt fyrir lækninn að sinna eið sínum eins og segir í 5. gr. siðareglna Læknafélags Íslands, með leyfi forseta:

„Lækni sæmir ekki að láta hagsmuni óviðkomandi sjúklings hafa áhrif á ákvarðanir sínar þegar hann veitir eða vísar á heilbrigðisþjónustu.“

Læknar þurfa að vita þetta. Landsmenn þurfa líka að vita hver grunnþjónustan er. Á hverju eigum við rétt fyrir alla þá skattpeninga sem eru lagðir í þennan málaflokk?



[11:43]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svo að því sé svarað skýrt og einbeitt þá er engin nákvæm skilgreining í lögum á því hvað grunnþjónusta er. Það er hins vegar hugtak sem ég held að hafi bara tekið á sig mynd í gegnum tíðina, almenningur hefur þokkalega góðan skilning og samstöðu um hvað telja má til grunnþjónustu í samfélaginu.

Alþingi er ekki í fjárlagagerð sinni að úthluta fjármunum til reksturs heilbrigðiskerfisins á grundvelli nákvæmra skilgreininga á því hvaða tilteknu þáttum í heilbrigðisþjónustu, t.d. Landspítalinn, á að sinna. Ég hef óskað eftir því við Sjúkratryggingar Íslands og Landspítalann að hefja viðræður um skilgreiningu á þeim verkefnum sem Landspítalanum eru falin með lögum, á grundvelli laga um heilbrigðisþjónustu, að við gerum innihaldslýsingu á þeim fjárveitingum sem fara til þeirra verkefna sem Landspítalanum er ætlað að sinna. Þetta er svokallað DRG-kerfi og er nýtt víða um heim. Sérstaklega hefur verið horft til þess í samanburði við Norðurlöndin.

Landspítalinn er búinn að keyra og á ágætan grunn undir þetta í ljósi hátt í 10 ára reynslu. Ég tel tímabært að við förum að færa fjárveitingarnar yfir í heilbrigðisþjónustuna á grundvelli mælinga og óska þingsins um hvaða þjónusta verði veitt. Það færir okkur nær betri skilningi á því hvað við teljum til grunnþjónustunnar sjálfrar.

Varðandi fjárveitingar til Landspítalans, eins og komið hefur fram og kom fram í ágætu viðtali við forstjóra Landspítalans í morgun, telur hann þetta mjög mikil tímamót í fjármögnun Landspítalans samkvæmt þeim tillögum sem legið hafa fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár (Forseti hringir.) og eru að bætast inn núna. En að sjálfsögðu eru verkefnin þannig, (Forseti hringir.) eins og ég hef áður sagt úr þessum ræðustól, að við getum (Forseti hringir.) alltaf nýtt meiri fjármuni í heilbrigðisþjónustu en okkur er skammtað (Forseti hringir.) á fjárlögum hvers árs.



[11:46]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt ef farið er af stað til að skilgreina grunnþjónustuna. Þetta er víða gert í nágrannalöndunum og þetta er líka gert mjög vel í Þýskalandi þar sem borgararnir, skattgreiðendur, vita hvað er í boði. Þá gerist líka annað. Fólk veit hver grunnþjónustan er og getur spurt: Fyrir hverju vil ég tryggja mig umfram það? Vil ég tryggja mig að því leytinu til að ég geti verið einn í herbergi? Það er kannski ekki grunnþjónusta eins og hún er skilgreind í Þýskalandi, en maður vill kannski fá einhverja aukna þjónustu. Það á að vera þannig að við fáum öll grunnþjónustu og að við vitum hver hún er. Það er bagaleg staða að við borgum himinháa skatta en vitum ekki hvað við fáum fyrir þá, sem er mikilvægasta atriðið. Margir sem hafa fengið krabbamein hafa áttað sig á því að þeir eru lentir í stórkostlegum fjárhagslegum vandamálum. Ég hef reynt að átta mig á þessu og hef nú gengið á milli tryggingafélaga og athugað með tryggingar. Tryggingafélög á Íslandi sinna þessu ekki vel vegna þess að þetta er allt svo óskýrt. Það er staðan.

Ég vil spyrja ráðherra aftur um það hvernig þessu starfi miði (Forseti hringir.) og hvort einhver tímalína sé komin (Forseti hringir.) um það hvenær við Íslendingar (Forseti hringir.) fáum að sjá hver raunveruleg grunnþjónusta er (Forseti hringir.) og hvort ekki sé líka tímabært að leiða það í lög eins og gert er í öðrum löndum.



[11:47]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Grunnatriði íslenskrar heilbrigðisþjónustu er að allir eigi að hafa sem jafnastan aðgang að heilbrigðisþjónustu, burt séð frá búsetu eða tekjum eða öðru því um líku.

Ég vil svara því til þegar hér er sagt að við vitum ekki hvað við fáum fyrir skattana að það liggur alveg fyrir að heilbrigðisþjónusta á Íslandi í dag og í gegnum tíðina hefur skilað okkur þeim árangri að heilbrigði þjóðarinnar í samanburði við aðrar þjóðir er mjög gott. Við fáum því eitthvað fyrir þá skatta sem við höfum lagt inn í þennan málaflokk. Við megum ekki gleyma því í þessum samanburði að okkar ágæta starfsfólk í heilbrigðisþjónustunni vinnur þar frábæra vinnu. (JÞÓ: … tímalínu?) Tímalínan er sú að ég get svarað þessu betur eftir því hvernig samningar Sjúkratrygginga og Landspítalans ganga á komandi ári. Þar erum við að þreifa okkur áfram með stóra samhengið. Svo eru önnur verkefni, t.d. í heilsugæslunni þar sem verkefni hófst á þessu ári og ég vænti þess að við verðum búin að skilgreina fjármögnun á heilsugæslunni í upphafi næsta árs. Við munum sjá á komandi ári betri útlínur á því hvað háttvirtur skattgreiðandi fær fyrir þá fjármuni sem í (Forseti hringir.) málaflokkinn eru lagðir.