144. löggjafarþing — 38. fundur
 28. nóvember 2014.
sérstök umræða.

þróunarsamvinna.

[14:29]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið að fá að ræða hér málefni þróunarsamvinnu við hæstv. utanríkisráðherra. Mig langar sérstaklega að ræða næstu skref hvað varðar þróunarsamvinnuáætlun Íslands, en hér á Alþingi var samþykkt þingsályktunartillaga um þróunarsamvinnu vorið 2013 sem gerði ráð fyrir að Ísland mundi auka framlög sín til þróunarsamvinnu jafnt og þétt. Markmiðið var skilgreint í greinargerð með tillögunni en þar sagði, með leyfi forseta:

„Markmið Íslands með alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að leggja lóð sitt á vogarskálar baráttunnar gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heims. Með virkri þátttöku á þessu sviði leitast Ísland við að uppfylla pólitískar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna.“

Eftir atburðarás undanfarinna ára þar sem ekki hefur gengið að uppfylla þau markmið að auka framlög okkar og heldur hefur verið skorið niður. En hitt er áhugavert, að skoða stöðu okkar hér á Íslandi því að þrátt fyrir erfiða kreppu sem reynt hefur á allan almenning skipum við enn 11. sæti á lista OECD sem mælir lífsgæði OECD-þjóða. Þar erum við einu sæti fyrir ofan Bretland sem skipar 12. sæti í hópi OECD-ríkja, en á síðasta ári komst Bretland einmitt í hóp þeirra ríkja sem uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um að veita 0,7% eða meira af vergum þjóðartekjum til þróunaraðstoðar. Það er markmiðið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sem raunhæft í þessum málefnum.

Aðrar þjóðir sem uppfyllt hafa þetta markmið eru meðal annarra Svíþjóð, Noregur, Lúxemborg, Danmörk og Holland. Raunar datt Holland nýlega niður fyrir þetta mark, fór niður í 0,67%. En Ísland, hvar stöndum við? Jú, framlögin liggja nú í 0,22% og ekki stendur til að hækka það hlutfall í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár sem er langt undir 0,7% markinu og er líka mun minna en ætlað var í hinni samþykktu þingsályktun um aðgerðaáætlun um þróunarsamvinnu. Samkvæmt henni áttu framlög Íslands að nema 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2015. Því vantar um 2,5 milljarða upp á að þessari samþykktu áætlun sé fylgt og 9 milljarða upp á að hún nái því sem við getum kallað sett markmið eða markmiðið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett. Ég spyr okkur sem hér stöndum og störfum að þessum málum: Finnst okkur það ásættanlegt? Finnst okkur við vera að ná því markmiði að uppfylla pólitískar og siðferðislegar skyldur í samfélagi þjóðanna? Þó að hér hafi gengið á ýmsu efnahagslega skulum við ekki gleyma því hvaða þjóðir við styðjum með þessu; Malaví, Mósambík og Úganda eru þau ríki sem Þróunarsamvinnustofnun hefur stutt sérstaklega við í gegnum starf sitt. Þessar þjóðir skipa sæti á bilinu 160–180 þegar ríkidæmi þjóða er skoðað. Ég hef áður farið yfir það að í gegnum Þróunarsamvinnustofnun höfum við til að mynda hjálpað til við að byggja upp heilbrigðisþjónustu og fæðingarþjónustu í Malaví þar sem 16 konur hafa dáið daglega vegna erfiðleika við fæðingar. Þar hefur íslensk þróunaraðstoð komið að gagni við að draga úr því. Með þeim hætti, að styðja fólk til sjálfshjálpar, styrkja innviðina, auðvelda aðgang að hreinu vatni, byggja upp heilbrigðisþjónustu og mæla árangurinn — því að það er það sem gert hefur verið hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, að mæla árangurinn — og kanna hvort við sjáum minnkandi hlutfall sjúkdóma í þessum heimshluta eftir þær aðgerðir og þá fjármuni sem settir hafa verið í þetta. Ef aðgerðirnar skila árangri er haldið áfram, ef ekki þá er breytt um kúrs og farin önnur leið.

Ég vil taka umræðuna upp úr því að við ræðum þessi mál út frá hinum hefðbundnu pólitísku hliðum sem við stöndum venjulega fyrir í þessum sal, því að í gegnum þróunarsamvinnu hjálpum við sem erum í hópi ríkari þjóða heims, fátækustu þjóðum heims, okkar fátækustu meðborgurum að hjálpa sér sjálfir. Við berum þar ákveðna ábyrgð þar sem við tilheyrum þeim heimshluta sem segja má að hafi hagnast mjög á því að tilheyra Vesturlöndum sem hafa haft yfirburðastöðu gagnvart þessum heimshluta allt frá nýlendutímanum og hafa auðvitað grætt óspart á þessum heimshluta.

Við eigum ekki endilega að skiptast hér eftir pólitískum línum því að hér er í raun um siðferðilegt mál að ræða. Við ræðum það ekki á hverjum degi í þessum sal. Við sjáum til að mynda þegar við lítum til ríkisstjórna í nágrannalöndum okkar sem ýmist eru á vinstri vængnum eða hægri vængnum að við getum séð að aukning framlaga til þróunarsamvinnu í Bretlandi gerist þar undir forustu breska íhaldsflokksins þó að allir hafi fylkt sér á bak við þá aukningu.

Nú hefur hæstv. ráðherra boðað nýja áætlun (Forseti hringir.) og ég held að við verðum að ræða það hér hvernig við eigum að ná saman, hverjar okkar siðferðilegu skuldbindingar í þróunarsamvinnu eiga að vera. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða áherslur mun hann leggja hvað varðar fjárveitingar og hvaða aðferðafræði verður lögð til grundvallar nýrri þróunarsamvinnuáætlun?



[14:35]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Þróunarmál eru viðfangsefni sem við Íslendingar eigum að sinna af rausnarskap. Ég tel að við höfum reynt að gera það í gegnum árin. Það er rétt sem hér hefur komið fram, og oft áður, að við sáum okkur tilneydd að bregða út af þeirri braut sem hér hafði verið mörkuð varðandi fjárframlög til þróunarmála, ekki síst vegna efnahagshrunsins sem hér varð. Við töldum einfaldlega fullbratta þá tillögu sem er í gangi. Þó að sú prósentutala sem hér er miðað við, 0,22%, sé ef til vill í hugum margra of lítil — ég get tekið undir það, maður vildi sjá hana hærri — setjum við samt krónutölulega mun meira fé í þróunarmál en lengi hefur verið gert. Samkvæmt fjárlögum fara núna ríflega 4 milljarðar til þróunarmála, og það minnir mig að sé örlítil hækkun frá því sem var 2013 sem þá var met í krónum talið. En það eru prósenturnar sem við eigum að sjálfsögðu að miða við því að það gera aðrar þjóðir.

Til að svara spurningunni um þróun framlaga til þróunarmála sé ég fyrir mér að við stefnum áfram að því að ná þessu markmiði. Ég mun leggja til að það verði gert hægar, það verði gert á lengri tíma, en að þetta verði okkar markmið samt sem áður.

Það er rétt sem hefur komið fram, mjög margar þjóðir setja meiri fjármuni í þetta en við Íslendingar, en margar aðrar þjóðir hafa hafa hins vegar líka brugðist við versnandi ástandi í sínum efnahagsmálum með því að minnka hlutfallið til þróunarmála. Það má nefna Írland, á undanförnum sex árum hefur framlag Íra minnkað um 35%, og Hollendingar hafa nú boðað að þeir muni skera niður sín framlög um 21%. Þá hefur finnska ríkisstjórnin einnig boðað að hún muni draga úr. Á sama tíma horfi ég á það þannig að við munum reyna að bæta í, við munum reyna að snúa vagninum við eftir því sem hagur okkar Íslendinga batnar þegar kemur að efnahagsmálum. Alþjóðleg þróunarsamvinna er einn af hornsteinum þeirrar utanríkisstefnu sem við höfum rekið mjög lengi og þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að sinna henni af fullri alvöru.

Þegar rætt er um aðferðafræði í þróunarsamvinnu, eins og ég skildi hv. þingmann, eru í sjálfu sér ekki mikil áform uppi um að breyta þeirri aðferðafræði sem við notum á vettvangi í þróunarsamvinnu. Við verðum áfram með fjölþjóðlega samvinnu sem við setjum töluvert mikla fjármuni í að sjálfsögðu og svo verðum við á vettvangi, á staðnum, að sinna verkefnum á þeim nótum sem við höfum gert fram að þessu. Það verður eflaust eitthvað rætt hér á eftir, að þó að við stefnum að því að sameina Þróunarsamvinnustofnun og ráðuneytið á einn stað erum við ekki að tala um að það eigi að breyta þeirri aðferðafræði og því eftirliti sem verið hefur í gangi heldur yfirfæra það á allan pakkann, eins og maður segir. Ég lít svo á að við séum að fara inn á þá braut að styrkja þá þróunarsamvinnu sem við reiðum fram.

Það er rétt að við vinnum að nýrri áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu og ég geri ráð fyrir að leggja hana fram á vorþingi. Ég geng út frá því, eins og ég sagði áðan, að það verði litlar breytingar á áherslum frá fyrri áætlunum. Við munum áfram halda uppi öflugu samstarfi við uppbyggingu félagslegra innviða og horfa til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda, og þá horfum við til þess að geta stuðlað að auknum hagvexti í þessum löndum þar sem við erum að vinna og reynt að útrýma fátækt í þróunarríkjunum.

Eins og ég nefndi áðan munum við leggja til að fara varlegar í hækkanir. Ég held að það sé betra að hafa hægari hækkun á fjárframlögum og reyna að standa við hana í staðinn fyrir að fara mjög bratt. Því er ekkert að leyna að þetta eru mjög metnaðarfull markmið í núgildandi áætlun, við skulum ekki draga fjöður yfir það. Á sínum tíma hafði ég í utanríkismálanefnd fyrirvara við þetta, þegar það var samþykkt hér, og held að við höfum einfaldlega sett markið aðeins of hátt. Það þýðir ekki að við ætlum að draga úr mikilvæginu eða breyta því að við stefnum að því að ná þessu 0,7% framlagi.



[14:40]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Er það ásættanlegt að Alþingi skuli hafa horfið frá einróma samþykkt sinni um að auka fjárveitingar til þróunarsamvinnu? Það var spurning hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Svarið er alfarið nei. Ísland er meðal auðugustu þjóða í heimi og okkur ber siðferðileg skylda til þess að láta af hendi rakna umfram að sem við höfum gert. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þess vegna var það þyngra en tárum taki að það skuli hafa orðið fyrsta ákvörðun núverandi ríkisstjórnar að svíkja fátækustu þjóðir heims um það sem Alþingi hafði einróma lofað. Það var miskunnarlaus og harðneskjuleg ákvörðun og hún var óhæfuverk af hálfu þessarar ríkisstjórnar.

Hæstv. ráðherra talar um að við höfum farið of bratt af stað. Þá er rétt að rifja það upp að ekki einasta var þetta einróma samþykkt heldur breytti Alþingi þeirri áætlun sem ég lagði fyrir það á sínum tíma og það framhlóð hana. Með öðrum orðum, með atkvæði núverandi hæstv. ráðherra, formanns Framsóknarflokksins og formanns Sjálfstæðisflokksins töldu menn árið 2011 að ástandið og horfur væru þannig að hægt væri að gefa í umfram það sem við í þáverandi ríkisstjórn vildum.

Hæstv. ráðherra gerir líka Íra að umræðuefni. Það er eðlilegt að við berum saman Ísland og Írland. Bæði þessi ríki fóru tiltölulega illa út úr bankahruninu 2008. Það er rétt að Írar drógu til baka alveg eins og við, en þeir hafa verið að gefa í núna og hvernig er staðan hjá þeim núna? Þeim hefur ekki gengið jafn vel og okkur að rífa sig upp á síðustu árum. Eigi að síður er staðreyndin sú að þeir greiða 0,49% af landsframleiðslu í þróunarsamvinnu meðan við erum ekki einu sinni hálfdrættingar.

Það langmikilvægasta sem við getum gert varðandi áherslubreytingu í þróunarsamvinnu er að breyta ákvörðun ríkisstjórnarinnar og hverfa frá þessari nískustefnu og þessum nánasarhætti í áherslum okkar sem einkenna núverandi ríkisstjórn varðandi þróunarsamvinnu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:42]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu og einnig orð frummælanda um að taka eigi umræðuna upp úr hinu hefðbundna pólitíska þvargi.

Ég vil meina að þetta Alþingishús sé á jörðinni og að Ísland sé á jörðinni og að Ísland sé hluti af jörðinni allri og það hvernig okkur vegnar hér á þessari eyju sé mjög samhangandi við það hvernig jörðinni allri vegnar og hvernig íbúum annars staðar á jörðinni vegnar. Ég tel hreinlega úr frá sjálfmiðuðum sjónarmiðum sem okkur eru töm hér í þessu húsi að það sé, svo ég sletti, góður „bisness“ að veröldinni og íbúum annarra landa vegni vel.

Það er siðferðileg skylda okkar sem erum eitt af ríkustu svæðum heimsins. Hvað sem okkur kann að finnast og hversu sárt sem okkur er um þá peninga sem við söknum eftir bankahrunið þá erum við samt samkvæmt öllum tölum eitt ríkasta samfélag á jörðinni. Við njótum hnattstöðu okkar og efnahagslífs okkar þrátt fyrir allt í ríkara mæli en flestir aðrir þannig að ég segi að það er siðferðileg skylda okkar að sýna stórhug í þróunarsamvinnu.

Okkur í stjórnmálunum er tamt að líta á núverandi ástand sem endanlegt ástand, að erfitt sé að hnika til varðandi fjármuni, en ef eldfjall gýs á Íslandi og brú rofnar þá finnum við peninga til þess að endurbyggja þá brú. (Forseti hringir.) Ég skil okkur eftir með þá hugsun.



[14:44]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir þakka ég frummælanda fyrir að taka þetta mál upp hér. Á vettvangi utanríkismálanefndar Alþingis höfum við átt nokkrar umræður um þróunarmál þegar á þessu hausti. Við höfum átt fundi með þeim sem að þeim málum starfa, bæði á vegum utanríkisráðuneytis og eins Þróunarsamvinnustofnunar og ég held að fyrir okkur hafi þau fundahöld og upplýsingar sem við höfum fengið í því samhengi orðið til að dýpka umræðuna á vettvangi okkar. Þess vegna er vel til fallið hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að taka þetta mál upp hér.

Þó verð ég að vekja athygli á því að við munum eiga þess kost síðar í vetur að eiga mun dýpri umræður um þessi efni, bæði í tengslum við fyrirhugað frumvarp utanríkisráðherra um þróunarsamvinnumál og eins varðandi umræður sem boðaðar eru um endurskoðaða þróunarsamvinnuáætlun. Við þau tækifæri eigum við þess kost að fara dýpra í þessa þætti, bæði hvað varðar almenna stefnumörkun í þróunarmálum og hins vegar varðandi skipulag þeirra. Ég ætla að láta nægja að segja á þessu stigi um þetta mál að mér heyrist að það sé allgóður samhljómur um áherslurnar í þróunarsamvinnumálum. Ég held að ekki sé grundvallarágreiningur um það í meginatriðum að við viljum viðhalda fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu og tvíhliða þróunarsamvinnu og ekki er ágreiningur um það, hygg ég, að við viljum standa vel að þessum málum. Það sem greinir á milli held ég fyrst og fremst í augnablikinu er hvort við teljum, eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt upp með, að við verðum að seinka fjárhagslegri styrkingu þessa málaflokks miðað (Forseti hringir.) við fyrri áætlanir eða ekki. Þar liggur grundvallarágreiningurinn og þar kann okkur einfaldlega að greina á og ekki verða samstaða um. En það dregur ekki úr mikilvægi samstöðunnar um þau meginmarkmið sem við vinnum eftir í þessum efnum.



[14:47]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Við erum álitin eitt þróaðasta ríki heims en það samræmist ekki því að við skulum ekki sýna betra fordæmi í þessum málaflokki en raunin er. Ég verð að segja að það vekur mér mikla furðu af því að ég sat í utanríkismálanefnd á síðasta kjörtímabili þegar við samþykktum þessa áætlun og þá var það einróma álit utanríkismálanefndar að við ættum að gefa í. Ég skil ekki af hverju þeir stjórnmálamenn og þeir sem eru í stjórnarmeirihluta núna ætla ekki að halda í heiðri það sem þeir voru sjálfir hlynntir. Hvað hefur gerst í samfélaginu til að réttlæta að við getum ekki haldið okkur við alla vega brotabrot af því sem við vorum svo áköf í að gefa í gagnvart. Mér finnst það skringilegt og mér finnast þetta furðulegar áherslur. Ég er svo hjartanlega sammála hv. þm. Óttari Proppé og því sem fram kom í ræðu hans. Við búum saman á þessari jörðu og við höfum líka fengið, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, að njóta góðs af þeim löndum og þeim halla sem þau lönd hafa í raun gagnvart Vesturveldunum og við njótum enn góðs af. Sum vestræn fyrirtæki stunda miklar fiskveiðar hjá vanþróuðum ríkjum sem ekki fá mikið af arðinum. Ég skora á utanríkisráðherra að breyta um kúrs og standa við það (Forseti hringir.) sem hann boðaði áður þegar hann var óbreyttur þingmaður.



[14:49]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni eru framlög Íslands til þróunarsamvinnu lág í samanburði við aðrar þjóðir og þá kannski sérstaklega ef við miðum okkur við aðrar norrænar þjóðir. Í máli hæstv. utanríkisráðherra kom fram að nú ætlum við að fara okkur enn hægar í að uppfylla þau markmið sem við þó höfum sett okkur í þessum málum sem er alls ekki í samræmi við samþykkta þingsályktunartillögu um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016.

Í þessu felast mjög dapurleg pólitísk skilaboð. Það er eitt að ætla að hunsa það sem samþykkt hefur verið á Alþingi, annað er skeytingarleysið við það að Ísland leggi sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum fólks í fátækustu löndum heims. Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri siðferðileg skylda til að leggja okkar af mörkum í þessum málum og á sama tíma tel ég þetta líka bestu leiðina til þess að tryggja friðvænlegan heim til framtíðar. Það verður nefnilega ekki gert nema með bættum lífskjörum fólks í fátækum löndum og ekki með til dæmis vopnavaldi eða kúgun. Þvert á móti eigum við að leggja okkar af mörkum til að efla innviði, t.d. í menntun og heilbrigðisþjónustu, því að það er þannig sem lítið ríki eins og Ísland getur lagt sitt af mörkum. Þess vegna eigum við auðvitað (Forseti hringir.) að hækka framlög okkar til þróunarsamvinnu.



[14:51]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram áhugaverð umræða um þróunarsamvinnu og margt gott komið fram. Ég vil draga fram nokkra mikilvæga punkta í þessari örstuttu umræðu. Þrátt fyrir breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 121/2008 skortir enn upp á að unnið sé að þróunarsamvinnu með heildrænum hætti. Þetta hefur komið fram í tveimur nýlegum skýrslum sem þegar hefur verið vitnað í.

Talsvert hefur verið rætt um framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu. Svo sannarlega megum við gera betur í þeim efnum. Í þessu samhengi vil ég benda á að í stjórnarsáttmálanum kemur fram að stefnt verði að því að veita sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. En ég vil einnig draga hér fram að mikilvægt er að við sníðum okkur stakk eftir vexti í þessum efnum.

Samkvæmt tillögum fjárlaganefndar munu framlög Íslands til þróunarsamvinnu 2015 nema 0,22% af vergri þjóðarframleiðslu, þ.e. 4,3 milljörðum kr. sem er hæsta framlag málaflokksins í krónum talið til þessa. Framlög til þróunarsamvinnu voru lækkuð um 30% í tíð fyrri ríkisstjórnar sem er samt vel skiljanlegt í ljósi aðstæðna á þeim tíma. En svo það sé sagt hér hefur Þróunarsamvinnustofnun Íslands unnið frábært starf í gegnum tíðina og sameining stofnunarinnar við ráðuneytið mun ekki breyta því hvernig Ísland starfar á þeim vettvangi í framtíðinni. Við viljum gera enn betur og halda áfram að tryggja sérfræðiþekkingu á sviði um þróunarsamvinnu, til að mynda á sviði jarðhitavæðingar í Austur-Afríku svo eitthvað sé nefnt.

Ég tek undir með hv. þm. Óttari Proppé og er sammála því að við eigum að sjálfsögðu að sýna stórhug í þessum efnum. Við verðum samt einnig að gæta þess að gæði verkefna haldist í hendur við fjármagnið og að aukning fjármagns í málaflokkinn sé jöfn og stöðug.



[14:54]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þeir sem voru á þingi á síðasta kjörtímabili og ég held allir aðrir sem fylgdust eitthvað með störfum þingsins á því kjörtímabili vita að hér ríkti ekki mikil góðvild eða samhugur. Reyndar var andrúmsloftið rafmagnað og erfitt oft og tíðum. Þess vegna minnist ég kannski sérstaklega fundar sem við áttum í utanríkismálanefnd, ég held að það hafi verið vorið 2011, þegar fram kom tillaga um framlög til þróunarsamvinnu. Nefndin komst einhuga að samkomulagi um að hækka tillögurnar frá því sem ríkisstjórnin hafði lagt fram. Þetta var samþykkt og allir voru mjög glaðir.

Vorið 2013 var síðan samþykkt í þinginu að gefa betur í en þá lá fyrir. Og það var samþykkt einróma nema einn þingmaður greiddi atkvæði gegn tillögunni, núverandi formaður fjárlaganefndar. Síðan tók hún sæti í hagræðingarhópnum og komst að því að það væri hægt að lækka þetta niður í 0,22% af þjóðarframleiðslu. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst til skammar að hæstv. utanríkisráðherra segi að aldrei hafi verið greitt meira í krónum talið. Það er til skammar. Hann skal þá bara muna, ég held að það hafi verið árið 2010, þegar framlag okkar fór upp í 0,35% af þjóðarframleiðslu. (Forseti hringir.) Af hverju var það? Það var vegna þess að þjóðarframleiðslan hafði hrunið. Og nú er hér ríkisstjórn sem segir að það leki peningar út úr hverju horni og vill bæta í þetta og bæta í hitt, (Forseti hringir.) en tímir ekki að styðja við fátækustu lönd í heimi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:56]
Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið það fram í umræðunum að það sé sátt um að þróunaraðstoð Íslendinga sé vel skipulögð, að starfið skili góðum árangri og að störf Þróunarsamvinnustofnunar og annarra sem hafa unnið að þróunaraðstoð á vegum okkar Íslendinga sé í toppklassa ef svo má segja. Ég hef enga trú á öðru en að Þróunarsamvinnustofnun og önnur apparöt okkar Íslendinga muni algjörlega ráða við það að fá meira fjármagn.

Af því að hér hefur verið rætt um að við viljum auka hlutfall af þjóðarframleiðslu og að Íslendingar geri betur í krónum talið en einhvern tímann áður vil ég bara minna okkur á að þó að ástandið hafi einhvern tímann verið einhvern veginn og það sé ekki orðið verra þýðir það ekki að það sé orðið gott. Í þessu samhengi langar mig aðeins til að skoða tölur frá 2011 sem byggja á tölum frá Eurostat þar sem kemur fram að Íslendingar eru hlutfallslega í neðsta sæti af þjóðum OECD. Árið 2011 veittum við þróunaraðstoð fyrir um það bil 0,22% af þjóðarframleiðslu en Norðmenn trónuðu efstir með 0,93%.

Það sem er kannski ógnvænlegra við þessar tölur er að þegar þær eru skoðaðar ofan á mannfjölda viðkomandi ríkja veita Norðmenn 959 dollara á mann á meðan Íslendingar veita 80 dollara á mann og þeir sem eru næstlægstir, Þjóðverjar, 172 dollara á mann. Það þykja mér ekki mjög sæmandi tölur og það er ekki gaman að þurfa að vitna í þær. (Forseti hringir.) Við Íslendingar setjum oft heimsmet í því hvað við erum dugleg að styrkja málefni (Forseti hringir.) innan lands miðað við aðrar þjóðir og ég held að við mættum (Forseti hringir.) aðeins horfa út fyrir landhelgina.



[14:59]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þróunarmál eru málaflokkur sem taka ef til ekki nokkurn enda, a.m.k. eins og ástandið er á sumum stöðum í heiminum. Það eru stór verkefni sem þarf að vinna og þegar aðeins hefur þokast í einu verkefni verður til nýtt, það spretta upp ný heilbrigðisvandamál sem ekki voru séð fyrir þannig að það að þessi 0,22% sem við veitum til þróunarmála kunni að vera meðal þeirra lægstu er náttúrlega ekki nógu gott. Ég held að allir séu sammála um það en hvernig þeirri þróun verður snúið til þeirrar áttar að auka framlagið skal ósagt látið að sinni. Það virðist ekki vera í núverandi fjárlagafrumvarpi eins og það liggur fyrir. Ég held hins vegar að vert sé horfa í að það er hægt að gera ýmislegt með tiltölulega litlum kostnaði í þróunarmálum. Það er það sem hér hefur gerst, hef ég grun um, að þessi þróunaraðstoð Íslendinga hefur verið sæmilega markviss og skilað árangri til þess að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, ekki með matvælagjöfum heldur til þess að sumar þessara þjóða hafi komist nær því að verða sjálfbjarga í matvælaframleiðslu. Það eru sömuleiðis verkefni til að setja upp brunna sem er grundvallaratriði í heilbrigðismálum sumra þessara landa. Það skilar mun meiri árangri en matargjafir sem taka enda.

Síðast en ekki síst vildi ég nefna að flest fríverslunarviðskipti í heiminum enda í því að það er ekki samið um fríverslun í viðskiptum með landbúnaðarafurðir en það eru oft og tíðum þær afurðir sem þær þjóðir sem við erum hér að fjalla um framleiða mest. Hugsanlega kæmi sér best að auka fríverslun með vörur þessara þjóða inn á markaði í vestrænum löndum, til hinna tekjuhærri. Það er hægt að gera hluti beinlínis með framlögum, sömuleiðis með óbeinum aðgerðum eins og aukinni fríverslun og frjálslyndi í viðskiptum milli þjóða.

Hvað um það, við getum ekki horft á þróunaraðstoð út frá viðskiptatækifærum, við verðum að horfa á þróunaraðstoð út frá mannúð, að hjálpa þeim þjóðum, því fólki sem er okkar minnstu bræður, hjálpa þeim þjóðum til sjálfshjálpar og sjálfsbjargar.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.



[15:02]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu en sömuleiðis lýsa yfir vonbrigðum með að hennar sé þörf. Svo vil ég vitna í hv. heimspeking Jesú Jósefsson, kenndan við Krist. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“

Þótt ég sé jafnan ekki mikill Biblíunnar maður þegar ég stíg hérna í pontu, eins og menn vita, hefur mér alltaf þótt vænt um þess speki. Tilfellið er, virðulegi forseti, að við erum rík þjóð, moldrík þjóð við hliðina á ógnarstórum hluta heimsins. Ég tel okkur algjörlega hafa efni á því að standa við okkar skuldbindingar í þessum efnum og ég vek athygli á því að menn ættu að keppast um að vera ofarlega á lista yfir þjóðir sem gefa af allsnægtum sínum þeim sem minna mega sín.

Sérstaklega langar mig að nefna þetta vers sem ég vitnaði í vegna þess að það er einhvern veginn þannig með hjálparstarf, eins og svo margt annað, að menn eru alveg reiðubúnir að hjálpa svo lengi sem þeir finna ekki fyrir því, alveg til í að borga svo lengi sem það kostar ekki neitt, alveg til í framför svo lengi sem hún kostar engar fórnir. Ef við ætlum að fara út í þetta með þeim hugsunarhætti munum við aldrei ná þeim markmiðum sem hér er sagt að við ætlum að reyna að ná.

Þá vil ég nefna að þótt fjárframlögin hafi aldrei verið hærri í krónum talið er bara heldur fátt sem hefur aldrei verið hærra í krónum talið á Íslandi. Neysluverðsvísitalan hefur aldrei verið hærri en hún er núna. Það væri mjög skrýtið ef þetta væru ekki hæstu framlögin. Og þegar við segjum að við sníðum okkur stakk eftir vexti, já, gerum það, (Forseti hringir.) sníðum okkur stakk eftir vexti og stórhækkum þessi framlög. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:04]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið um þróunarsamvinnu. Það sem ég les út úr henni er að mörgu leyti samhljómur um aðferðafræðina. Ég held að við sem hér höfum tekið þátt séum öll stolt af þeim árangri sem náðst hefur með þeim framlögum sem þó eru til þróunarsamvinnu, að við séum stolt af þeim árangri sem við sjáum. Ég nefndi dæmi í ræðu minni af samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar, Malaví, sem ég þekki best og hef kynnt mér best, en líka Úganda og Mósambík. Við erum stolt af þeirri aðferðafræði sem nýtt hefur verið við að meta árangur, ekki bara að senda starfsmenn og sjá hversu mikið fé hefur verið veitt, heldur líka að skoða raunverulegan árangur. Ég held því að við getum verið sammála um þetta. En eins og fram kom í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar þá erum við ekki alveg sammála um hversu háar fjárhæðir við eigum að láta af hendi rakna.

Ég vil brýna hæstv. utanríkisráðherra í þessu efni og við höfum nú átt orðastað um þessi mál áður. Ég veit að það er hörð barátta þegar kemur að því að forgangsraða fjármunum ríkisins og forgangsraða í útgjöldum ríkisins. Þetta er kannski mál sem fæstir hagsmunaaðilar berjast fyrir en um leið fáum við þarna mest fyrir hverja krónu. Þetta er einmitt málið sem við erum ekki með í nærumhverfi okkar alla daga og vissulega er þörfin brýn í nærumhverfinu alla daga. En það getur verið auðveldara að gleyma því því að það er fjær okkur, en um leið er það svo óendanlega mikilvægt. Þó að við séum lítil þjóð þá skiptir það svo miklu máli, líka sem fordæmi fyrir aðrar þjóðir, að við gefum af útgjöldum okkar. Það ætti líka að vera okkur umhugsunarefni að ójöfnuður, ekki bara manna á milli heldur heimshorna á milli, er að mati Sameinuðu þjóðanna stærsta ógnin við frið í heiminum.

Þróunarsamvinna, sem einn af grundvallarstólpum í íslenskri utanríkisstefnu, (Forseti hringir.) er líklega besta leiðin til að stuðla að friði í heiminum með því að stuðla að auknum jöfnuði (Forseti hringir.) heimshluta á milli. Ég hvet því hæstv. utanríkisráðherra til dáða í þessum málum. Þarna eru tækifæri til að stíga stór skref (Forseti hringir.) sem gætu orðið eftirbreytniverð.



[15:07]
utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki alveg hversu miklu maður á að eyða af þessum tveimur mínútum í að leiðrétta eða svara hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem fór hér mikinn. Ef við skoðum hins vegar síðustu ár, frá 2006, er eitt ár þar sem við vorum með hærri krónutölu til þróunaraðstoðar en er í dag, í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015. Það var árið 2008. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður viðurkennir hins vegar greinilega ekki og gleymir því að hennar (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) ríkisstjórn, ríkisstjórnin sem þingmaðurinn studdi, skar hér niður þróunarhjálp meira en nokkur annar hefur gert og skammast sín greinilega ekki mikið fyrir það.

Við erum hins vegar sammála um að við þurfum að gera betur. Ég er í því liði með ykkur sem hér hafið talað, við þurfum að gera betur. (Gripið fram í.) Við þurfum að bæta við fjármunum til þróunaraðstoðar. Ætlun okkar er að leggja fram þingsályktunartillögu þegar kemur að nýrri þróunarsamvinnuáætlun og gera ráð fyrir því að það verði aukið í en það verði gert mun hægar en gert var ráð fyrir í þeirri áætlun sem nú er í gildi. Þar liggur meginmunurinn.

Ég get hugsanlega alveg verið sammála ykkur með það sem hér hafið talað, góðir þingmenn, að auðvitað væri óskastaðan sú að geta hækkað þetta bara einn, tveir og þrír upp í 0,7%. En það er ekki þannig og það verður ekki þannig. Við erum með þjóðfélag þar sem búið er að skera mjög mikið niður. Það er búið að skera niður eins og allir vita í grunnstoðum þessa samfélags. Við erum að bæta í núna, þessi ríkisstjórn er að nota hagvöxtinn sem við sjáum og betri hag ríkissjóðs til að auka þar í og við munum vonandi geta gert það líka, en hægar, þegar kemur að þróunaraðstoðinni.

Ég er sammála hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur með það að þróunarmálin eru eitthvað það mikilvægasta sem við höfum í okkar utanríkisstefnu. Við getum orðið svo mikið að liði þar. Þess vegna erum við sífellt með þetta efst á prógrammi okkar (Forseti hringir.) þegar kemur að utanríkisstefnu. En ég er sammála ykkur, við þurfum að gera betur, en ég er ósammála þeim sem segja að við eigum að gera þetta jafn hratt og er í núgildandi áætlun.