144. löggjafarþing — 44. fundur
 9. desember 2014.
hagvöxtur og efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar.

[13:41]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær birtust tölur um hagvöxt það sem af er þessu ári. Þær hljóta að vera okkur öllum mikið umhugsunarefni því að hann reynist varla vera fyrir hendi. Maður hlýtur í því samhengi að spyrja sig um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og þá ábyrgð sem ríkisstjórnin ber á þessari stöðu.

Fyrir réttu ári síðan gekkst hæstv. fjármálaráðherra fyrir breytingum í skattamálum. Við gagnrýndum það harkalega að létt var sköttum svo milljörðum skipti og gjöldum af best stæðu fyrirtækjunum og af best stæðu einstaklingunum í landinu, en í öllum þessum breytingum var ekki krónu að fá í breytingar á sköttum fyrir fólk með tekjur undir 250.000 kr. Það er nú orðið sannað mál í hagfræði Vesturlanda að brauðmolakenning sú sem þessi ríkisstjórn aðhyllist, að gera vel við þá ríku en ekki við fjöldann, gengur ekki upp og skilar ekki efnahagslegum ávinningi. Besta leiðin til að tryggja aukningu einkaneyslu og tryggja almenna velsæld er að gera vel við fjöldann, þá sem eru á meðallaunum og lágum launum.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Eru þessar tölur um dapran hagvöxt ekki fullkomin staðfesting á því að skattstefna ríkisstjórnarinnar er mjög misráðin? Hún hefur ekki aukið velsæld í landinu og almennan kaupmátt heimila heldur þvert móti greitt götu fárra. Síðan boðar hæstv. fjármálaráðherra frekari álögur á þá sem minnst hafa milli handanna með hækkun á matarskatti.



[13:43]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja og hvar ég á enda í þessu svari. Það væri gott að byrja á því að fá einhvern botn í skoðun Samfylkingarinnar á því hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna séu þá eftir allt ekki þensluhvetjandi. Það hefur verið málflutningur Samfylkingarinnar fram til þessa á þessu kjörtímabili að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar væru mikið glapræði vegna þess að þær mundu valda mikilli verðbólgu og einkaneysla færi úr böndunum. Síðan kemur formaður Samfylkingarinnar og segir: Það er engin einkaneysla, enginn vöxtur hennar í landinu og það er mikið áhyggjuefni.

Þá er farið yfir í skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Samfylkingin hefur ekki mælt fyrir skattalækkunum. Því er haldið fram að ríkisstjórnin hafi ekki lækkað skatta á tekjum undir 250.000 kr. og því sé vöxtur einkaneyslu enginn. Staðreynd málsins er sú að ríkisstjórnin tekur enga skatta af þeim sem eru með tekjur undir 250.000 kr. Þeir eru einungis greiddir til sveitarfélaganna. Það verður þá að túlka orð formanns Samfylkingarinnar sem áskorun á sveitarfélögin í landinu að fara nú að lækka útsvarið vegna þess að það muni koma þeim sem eru undir þessum tekjuviðmiðum beint til góða. En um hina sem ríkið tekur tekjuskatta af er það að segja að þeir hafa allir fengið skattalækkun. Allir hafa notið góðs af þeim breytingum sem við gerðum á tekjuskattskerfinu í fyrra með því að létta 5 milljörðum af tekjuskattsgreiðendum í landinu og sættum fyrir það mikilli gagnrýni vegna þess að það var ekki nóg, vegna þess að það voru of fáar krónur. Nú hefur umræðan um matarskatt snúist um færri krónur á heimili en sá tekjuskattur. Þessu er öllu snúið öfugt.

Upp úr stendur að í fjárlagafrumvarpi þessa þings, sem er fyrir næsta ár, og tengdum málum er kaupmáttur að vaxa. Hann er að ekki að dragast saman eins og formaður Samfylkingarinnar heldur, (Forseti hringir.) heldur er hann að aukast.



[13:46]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það var býsna öfugsnúinn ráðherra sem birtist hér í ræðustól og reyndi að dreifa athyglinni frá hinum bitru staðreyndum. Það er ekki Samfylkingin sem segir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum séu þensluhvetjandi, það er Seðlabankinn sem segir það. Samfylkingin hefur talað fyrir skattalækkunum. Hæstv. fjármálaráðherra kýs bara frekar að trúa forritinu sem er búið að stimpla inn í hann ofan úr Valhöll um að Samfylkingin tali aldrei fyrir skattalækkunum. Það er betra fyrir hann að opna eyrun en að halda áfram að segja vitleysuna sem er búið er að þylja ofan í hann.

Eftir stendur að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða að því að létta byrðar þeirra sem mest hafa en ekki hjá þeim sem minnst hafa. Tökum barnabætur sem dæmi. Hæstv. fjármálaráðherra horfir algjörlega fram hjá því að þær byrja að skerðast við 200.000 kr. mark. Fólk á lágmarkslaunum fær ekki einu sinni fullar barnabætur. Hæstv. fjármálaráðherra er í lófa lagið að breyta því. Þær skerðast til fulls við 500.000 kr. Þetta eru ekki barnabætur, þetta eru láglaunabætur.

Hæstv. fjármálaráðherra verður að horfast í augu við það (Forseti hringir.) að hann hefur gefið mjög skakkt og afleiðingin sést (Forseti hringir.) í litlum og lélegum hagvexti.



[13:47]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það er nú þannig með barnabæturnar að við erum að bæta við; fyrir utan verðlagsbætur þá erum við að bæta milljarði við barnabæturnar á næsta ári. Við erum einmitt að auka skerðingar hjá þeim sem eru með hærri tekjur og færa til þeirra sem eru með lægri tekjur. Þetta er kerfið eins og við tókum við því af vinstri stjórninni, hafi menn einhverjar athugasemdir við barnabæturnar sem voru reyndar skertar alveg sérstaklega á síðasta kjörtímabili.

Aðalatriði málsins er þetta: Við gerum breytingar á sköttum á okkar fyrsta ári hér í ríkisstjórn sem lækka tekjuskatt fyrir alla sem greiða tekjuskatt. Miðþrepið lækkar mest, þar sem allt venjulegt fólk er. Langflestir launamenn eru í miðþrepinu. Reyndar kemur viðbótarhækkun til þeirra sem voru undir 290.000 kr. á mánuði, 3% lækkun. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessari gagnrýni.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að við eigum að hafa áhyggjur af því ef svo fer að nýjustu mælingar (Forseti hringir.) á vexti landsframleiðslunnar reynast réttar.