144. löggjafarþing — 45. fundur
 10. desember 2014.
almannavarnir o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 412. mál (valdheimildir stjórnvalda o.fl.). — Þskj. 609.

[22:49]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008, raforkulögum, nr. 65/2003, lögum um fjarskipti, nr. 81/2003 og lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992.

Unnið hefur verið að gerð frumvarpsins í samvinnu við forsætisráðuneyti, innanríkisráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, ríkislögreglustjóra og ríkislögmann.

Markmið frumvarpsins er annars vegar að treysta lagaumgerð almannavarna með því að mæla skýrar fyrir um skyldur ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja sem sjá um rekstur mikilvægra samfélagslegra innviða, gerð viðbragðsáætlana og fyrirbyggjandi öryggisráðstafana. Hins vegar er markmið frumvarpsins að styrkja valdheimildir æðstu stjórnar almannavarna gagnvart framangreindum aðilum við sérstakar neyðaraðstæður.

Núgildandi lög um almannavarnir voru sett árið 2008. Grunnatriði laganna er að við allar neyðaraðstæður sé byggt á sama viðbragðskerfi og þar gegni samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna við Skógarhlíð lykilhlutverki.

Í lögum um almannavarnir endurspeglast sú áhersla löggjafans að viðbragðskerfið geti brugðist við áföllum sem ein heild. Forsenda fyrir því er skilvirkt samstarf stjórnsýslustiga, stofnana og samtaka sem vinna að öryggis- og almannavarnamálum. Reynslan hefur sýnt að þetta fyrirkomulag og uppbygging á viðbragðskerfi almannavarna hefur gefist vel og nýtur mikils traust í samfélaginu.

Nú liggur fyrir mat samráðshóps almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Viðlagatryggingar Íslands um eldsumbrotin í Holuhrauni og jarðhræringar í Bárðarbungu sem hófust síðsumars 2014 og gefa til kynna að hugsanlega geti orðið hamfaraflóð í kjölfar eldgoss undir jökli sem geti haft áhrif á byggðir og helstu grunnstoðir samfélagsins, svo sem framleiðslu og flutning á raforku, fjarskipti og samgöngur. Er mögulegt að slíkar náttúruhamfarir gætu haft langvarandi efnahagsleg og samfélagsleg áhrif um land allt.

Með frumvarpi þessu er brugðist við ábendingum almannavarnadeildar og Viðlagatryggingar Íslands um að kveða þurfi nánar á um skyldur lykilaðila, ekki síst rekstraraðila mikilvægra samfélagslegra innviða til að viðhafa öryggisráðstafanir til að draga megi úr áhrifum og eyðileggingu vegna meiri háttar náttúruhamfara. Þessir aðilar hafa einnig bent á að styrkja þurfi valdheimildir stjórnvalda á neyðarstundu, einkum vegna starfsemi mikilvægra samfélagslegra innviða. Til þeirra teljast kerfi og kerfishlutar sem eru mikilvægir nauðsynlegri virkni samfélagsins, t.d. á sviði raforku og samskipta. Mun ég nú víkja að einstökum efnisatriðum frumvarpsins.

Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að tilvísun til ráðherra í almannavarnalögum verði breytt þannig að vísað verði til ráðherra sem fari með málefni almannavarna í stað þess að vísa til ráðherra sem fari með málefni almannaöryggis. Breytingin þykir í betra samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og hún hefur ekki efnisbreytingu í för með sér.

Í öðru lagi er lagt til að kveðið verði á um flokkun og skilgreiningu á almannavarnastigum í almannavarnalögum með hliðsjón af því hversu alvarlegt atvik er verið að fást við hverju sinni. Þessi flokkun hefur þýðingu hvað varðar heimildir sem eru stjórnvöldum tiltækar, t.d. hvort talin sé þörf á því að grípa til neyðarráðstafana, samanber 10. gr. frumvarpsins um sérstakar valdheimildir á neyðarstigi almannavarna. Ákvæði þessa efnis er í samræmi við ákvæði reglugerðar um flokkun almannavarnastiga.

Í þriðja lagi er lögð til breyting á 2. mgr. 5. gr. laganna þar sem fjallað er um stöðu og hlutverk ríkislögreglustjóra í málefnum almannavarna og orðalag fært til samræmis við það sem hefðbundið er í lagatexta þar sem fjallað er um stjórnsýslusamband æðra og lægra stjórnvalds, samanber IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, þar sem fjallað er um stjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra. Breytingin er fyrst og fremst til skýringar.

Þá er lagt til að sett verði skýr lagaheimild fyrir stjórnvöld til að fara fram á aðstoð erlends hjálparliðs vegna almannavarnaástands í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að og að ríkislögreglustjóri taki þátt í alþjóðlegu samstarfi stjórnvalda um almannavarnir.

Í frumvarpinu er lagt til að skýra umboð og ábyrgð ríkislögreglustjóra til að fylgja því eftir að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, einkaaðilar og eigendur eða umráðamenn mikilvægra samfélagslegra innviða geri viðeigandi öryggisráðstafanir til að draga úr tjóni vegna hættuástands, samanber 4. og 6. gr. frumvarpsins. Jafnframt er lagt til að sett verði skýrt lagaákvæði um aðgerðaskyldu opinberra aðila, einkaaðila og rekstraraðila mikilvægra samfélagslegra innviða og að sérhver ráðherra hafi, að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra, heimild til að gefa þessum aðilum fyrirmæli um þessi atriði ef á þarf að halda, samanber 9. gr. frumvarpsins.

Í fimmta lagi er það nýmæli í frumvarpinu að ákvörðunarvald um beitingu sérstakra valdheimilda eftir að lýst hefur verið yfir neyðarstigi almannavarna verði af hendi þess ráðherra sem fer með málefni almannavarna að fengnu samþykki ríkisstjórnar. Meginreglan í gildandi lögum um almannavarnir er hins vegar sú að ríkislögreglustjóri fer með úrskurðarvald um efni fyrirmæla um viðbrögð og aðgerðir vegna almannavarnaástands í tilvikum þar sem ágreiningur kemur upp meðal þeirra sem eiga sæti í stjórn stöðvarinnar.

Þá verður lagt til að hvert ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands eigi auk annarra viðbragðsaðila fulltrúa í viðbragðsstjórn samhæfingar- og stjórnstöðvar almannavarna. Almannavarnir eru í eðli sínu þannig að þær geta snert öll svið samfélagsins, þar með málaflokka allra ráðuneyta. Þykir mikilvægt til að tryggja sem vandaðasta miðlun sérfræðiþekkingar og samhæfingu ákvarðana að ráðuneytin eigi fulltrúa í stjórninni sem geti miðlað upplýsingum til ráðuneyta sinna og lagt til málanna við ákvarðanatöku um aðgerðir.

Í núgildandi lögum um almannavarnir er gert ráð fyrir samvinnu ráðuneyta og undirstofnana þeirra og ríkislögreglustjóra varðandi ýmiss konar fyrirbyggjandi öryggisráðstafanir. Byggt er á því að það stjórnvald sem almennt vinnur á tilteknu sviði skuli framkvæma hættumat og skipuleggja almannavarnaviðbrögð. Með 6. gr. frumvarpsins er skýrt kveðið á um að ráðuneyti og undirstofnanir þeirra, sveitarfélög og rekstraraðilar mikilvægra samfélagslegra innviða beri sambærilegar skyldur til þess að viðhafa fyrirbyggjandi öryggisráðstafanir. Til viðbótar við upptalningu samkvæmt núgildandi lögum um hvert skuli vera efni viðbragðsáætlana er kveðið skýrt á um að í viðbragðsáætlunum skuli fjalla um stigskiptingu viðbragðsáætlunar í óvissu-, hættu- og neyðarstig, hverjir teljist til viðbragðsaðila og hvert hlutverk þeirra sé, hvernig staðið skuli að boði viðbragðsaðila vegna hættuástands og hver taki ákvörðun um virkjun viðbragðsáætlunar.

Í 8. gr. frumvarpsins er lögð til sú breyting að rekstraraðilar mikilvægra samfélagslegra innviða skuli jafnframt staðfesta viðbragðsáætlanir sínar og senda ríkislögreglustjóra.

Í 9. gr. frumvarpsins er lagt til að við ákvæðið bætist ný málsgrein þar sem ráðherrum, hverjum á sínu málefnasviði, verði veitt heimild, að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra, til að gefa eiganda eða umráðamanni mikilvægra samfélagslegra innviða fyrirmæli um að grípa til fyrirbyggjandi öryggisráðstafana í þeim tilgangi að efla öryggisviðbúnað að lögum. Heimildin er nauðsynleg því að á undanförnum árum hefur ýmis starfsemi sem áður var á hendi ríkisvaldsins færst til einkaaðila. Um er að ræða starfsemi sem tengist almannavörnum á ýmsa vegu, t.d. fjármálaþjónustu og þjónustu á sviði fjarskipta.

Í 10. gr. frumvarpsins er fjallað um sérstakar valdheimildir stjórnvalda eftir að lýst hefur verið yfir neyðarástandi almannavarna til að tryggja megi óhefta starfsemi mikilvægra kerfa og innviða í samfélaginu. Grunninnviðir nútímasamfélags byggja á margvíslegum kerfum sem mynda samtengt net innviða sem oft eru háðir hver öðrum. Þannig getur kerfisbrestur á einu sviði haft alvarleg áhrif á starfsemi annarra kerfa. Þessi veikleiki gerir það að verkum að nauðsynlegt er talið að stjórnvöld hafi heimildir til að gefa fyrirskipanir um fyrirbyggjandi öryggisráðstafanir ef neyðarástand skapast.

Enda þótt almennt verði talið að stjórnvöld hafi víðtækar heimildir á grundvelli neyðarréttar til að grípa til neyðarráðstafana á neyðarstundu til að tryggja mikilvæga samfélagslega starfsemi, almannaheill og til að lágmarka samfélagslegan skaða þykir rétt að lagaheimildir stjórnvalda í þessu efnum séu skýrar og óumdeildar, einkum vegna náttúruhamfara hérlendis.

Neyðarráðstafanir ráðherra samkvæmt ákvæðinu geta m.a. falist í því að gefa stofnunum, fyrirtækjum og eigendum mannvirkja fyrirmæli um ráðstafanir til að lágmarka skaða og til að tryggja órofinn rekstur. Séu aðstæður knýjandi og stjórnendur hlíta ekki fyrirmælum samkvæmt framansögðu geta neyðarráðstafanir ráðherra falist í því að taka tímabundið yfir stjórn fyrirtækis eða stofnunar í þeim tilgangi að hrinda neyðarráðstöfunum í framkvæmd. Ráðherra almannavarna þarf samþykki ríkisstjórnar við töku ákvarðana samkvæmt þessari grein. Þykir slíkt nauðsynlegt, enda um veigamiklar og hugsanlega afdrifaríkar ákvarðanir að ræða sem geta varðað málefnasvið margra ráðherra. Þá hefur samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna ráðgjafarhlutverk í öllum aðgerðum, samanber c-lið 5. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að hvert ráðuneyti fái fulltrúa í stjórn stöðvarinnar, enda getur tími til undirbúnings ráðstafana og samráðs verið afar skammur.

Þá þykir nauðsynlegt að kveða á um í ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gildi ekki um málsmeðferð og ákvarðanatöku neyðarráðstafana. Þetta undirstrikar einnig mikilvægi þess að til grundvallar ákvörðunum liggi vel ígrundaðar og samhæfðar viðbragðsáætlanir.

Með þeirri breytingu sem lögð er til á ákvæðum 18. gr. er kveðið á um heimild ráðherra að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra til að gefa fyrirskipun um að viðeigandi öryggisráðstafanir nái einnig til eigenda og umráðamanna mikilvægra samfélagslegra innviða, hvort sem um er að ræða opinberra aðila eða einkaaðila. Ef fyrirmælum ráðherra um ráðstafanir er ekki hlýtt má framkvæma þær á kostnað eiganda eða umráðamanns, að teknu tilliti til þeirrar kostnaðarreglu sem kveðið er á um í frumvarpinu og nánar er vikið að hér á eftir. Þá er lagt til að kröfu um endurheimt fylgi lögtaksréttur.

Ákvæði í lokamálsgrein 18. gr. núgildandi laga þykir óskýrt hvað þetta snertir og ekki í rökrænu samhengi við markmið greinarinnar og þær ráðstafanir sem þar er mælt fyrir um að takmarka tjón við neyðaraðstæður. Þykir eðlilegra að kveðið sé á um í lokamálsgrein í 18. gr. að ef gerð er krafa um fyrirbyggjandi öryggisráðstafanir sem teljast verulega umfram það sem leiðir af lögum og reglum settum samkvæmt þeim skuli ríkið bera kostnað af þeim leiðir.

Virðulegi forseti. Það er meginregla í skaðabótarétti að við sérstakar aðstæður, t.d. náttúruhamfarir, er almennt ekki um bótaábyrgð að ræða og við slíkar aðstæður getur einnig komið upp sú staða að fórna verði minni hagsmunum fyrir meiri til að lágmarka samfélagslegan skaða. Styðst slíkt við neyðarréttarsjónarmið. Margar ákvarðanir í slíku ástandi kunna að orka tvímælis en eftir sem áður er nauðsynlegt að ákvarðanir séu teknar. Þrátt fyrir að bótaábyrgð sé almennt ekki fyrir hendi í þessum tilvikum þykir rétt að lögfesta sérstaklega að ríkið, stofnanir þess eða starfsmenn beri ekki skaðabótaskyldu vegna slíkra ákvarðana. Ljóst er að til slíkra ráðstafana verður aðeins gripið ef neyðarástand skapast. Samfélagslegt tjón af meiri háttar náttúruhamförum getur orðið mikið og að sama skapi er ekki réttlætanlegt að ríkið bæti slíkan skaða af almannafé. Verður einnig að ganga út frá eins og ákvæðið gerir ráð fyrir að stjórnendur og starfsmenn stofnana og fyrirtækja veiti fullt liðsinni til að takmarka tjón eins og kostur er. Sanngirnisrök standa þó til að komið sé til móts við hagsmuni að því leyti sem þeir kynnu að njóta verndar ef kæmi til lögmætra ráðstafana sem yfirvöld þyrftu að grípa til vegna náttúruhamfara. Er í þessu tilliti lagt til að líkamstjón verði bætt eftir almennum reglum, beinn kostnaður vegna nauðsynlegra ráðstafana verði greiddur eftir mati og að hagsmunir sem ella nytu verndar viðlagatryggingar yrðu ekki fyrir borð bornir vegna neyðarráðstafana. Er nánari gerð grein fyrir þeim þætti málsins í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins.

Með 11. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á raforkulögum í þá veru að bætt er við lögin tilvísun í 27. gr. a laga um almannavarnir varðandi valdheimildir sem lýst hefur verið yfir neyðarástandi almannavarna. Með greininni er jafnframt kveðið á um að áður en gripið er til neyðarráðstafana beri eftir því sem unnt er að hafa samráð við neyðarsamstarf raforkukerfisins.

Þá er lagt til í frumvarpinu að ákvæðum 72. gr. fjarskiptalaga verði breytt á þann veg að ekki fari á milli mála að það falli undir þann ráðherra sem fer með almannavarnir, að mæla fyrir takmörkun fjarskipta sem truflað geta neyðar- og öryggisfjarskipti, að tiltekin fjarskiptavirki skuli notuð í þágu björgunaraðgerða og að sett skuli upp ný fjarskiptavirki, sé uppi sú staða sem greinin tekur til.

Að síðustu eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Líta má á lögboðna vátryggingu gegn náttúruvá með því fyrirkomulagi sem hér er á landi sem sambland hefðbundinnar skaðatryggingar og almannatryggingar. Markmiðið er að standa vörð um grunnþætti þjóðfélagsins.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins að mestu leyti. Frumvarpið varðar mjög ríka almannahagsmuni þar sem stjórnvöldum eru veittar sérstakar valdheimildir. Frumvarpið varðar einnig ríka fjárhagslega hagsmuni þeirra sem reka samfélagslega innviði. Það er því mjög mikilvægt að skoða ákvæði frumvarpsins um valdheimildir stjórnvalda á neyðarstundu og leita umsagna sem víðast til að tryggja að sem breiðust samstaða nái um efni þess. Ég legg verulega áherslu á þann þátt málsins.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar til meðferðar og 2. umr.



[23:05]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir og sérstaklega fyrir orð hennar um það að málið þurfi í meðförum að verða þannig úr garði gert að um það geti skapast breið samstaða. Ég tek undir það og legg áherslu á að gerðar verði veigamiklar breytingar á málinu í nefnd. Þótt hér séu ýmsir ágætir hlutir á ferðinni, m.a. um viðbragðsáætlanir o.s.frv., þykir mér við fyrstu sýn eins og mörgum öðrum — enda hefur frumvarpið manna á meðal verið kallað herlögin — vera býsna opnar heimildir til framkvæmdarvaldsins um að taka yfir stjórn á hlutum. Það finnst mér, hæstv. ráðherra, ekki vera skýr löggjöf. Það hefur ekki staðið á Alþingi að koma saman og setja löggjöf á neyðarstundu, hvort sem það hefur verið vegna náttúruhamfara, efnahagsvár eða annarra hluta. Ríkisstjórn hefur á hverjum tíma fullar heimildir til að setja bráðabirgðalög ef þing getur ekki komið saman, sem síðan eru borin undir hina lýðræðislegu samkundu.

Hér virðist mér vera til allrar framtíðar verið að opna valdheimildir(Forseti hringir.) við ýmsar aðstæður fyrir framkvæmdarvaldið til að grípa til mjög alvarlegra aðgerða gagnvart stofnunum og fyrirtækjum og ég tel að það sé varhugavert.



[23:06]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að hér er um verulegar valdheimildir að ræða enda miðað við að um neyðarástand sé að ræða í landinu. Ég legg gríðarlega mikla áherslu á það að í þessu frumvarpi erum við að tala um meiri háttar náttúruhamfarir og þá getur þurft að bregðast mjög hratt við. Það er álit manna að það sé skynsamlegt að löggjöf sé fyrir hendi komi slík tilvik upp.

Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. þingmanni að Alþingi Íslendinga hefur brugðist hratt við þegar alvarlegir atburðir hafa orðið og ég á von á því að svo verði áfram. En engu að síður er það mat almannavarna og þeirra sem gerst þekkja að skynsamlegt sé að slík löggjöf sé fyrir hendi.

Að því sögðu vil ég segja það, hæstv. forseti, að þetta er að sjálfsögðu mál af því taginu að það þarf töluvert mikla umræðu og vandaða umfjöllun. Ég veit að sú umfjöllun er fram undan hjá hv. allsherjar- og menntamálanefnd og ég er að sjálfsögðu reiðubúin til þess á síðari stigum að koma þar að liði eins og ég mögulega get.



[23:08]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að leiða ýmislegt af því sem hér er að finna í lög en það er veruleg ástæða fyrir nefndina að fara gagnrýnið í gegnum það að opna víðtækar valdheimildir til inngripa og yfirtöku stofnana og fyrirtækja til framkvæmdarvaldsins um alla framtíð, jú, vissulega við neyðarástand, nema að því leyti sem þess er þörf. Maður hlýtur að spyrja um tilefnin, hvort almannavörnum hafi verið neitað af stofnunum eða fyrirtækjum á mikilvægum stundum um það sem þær hafa til þurft. Höfum við ekki með gildandi valdheimildum fengist við Vestmannaeyjagos, við gos í Eyjafjallajökli og allt það sem kom fyrir flugumferðina þá, við efnahagshrun á Íslandi og margvíslega aðra stórkostlega vá og tekist það ótrúlega giftusamlega miðað við þá miklu hættu sem aðsteðjandi var á grundvelli gildandi valdheimilda?



[23:09]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það að þegar við stóðum frammi fyrir efnahagslegum hamförum þá brást Alþingi að sjálfsögðu sameiginlega við á þeim örlagaríku dögum haustið 2008. Hér er um að ræða frumvarp sem hefur tilvísun í þá miklu náttúruvá sem við sjáum fram á og er í raun í gangi í Holuhrauni og í Bárðarbungu. Við vitum ekkert um hvernig þeir atburðir munu þróast. Við vitum ekkert um hvaða atburðir geta orðið í íslenskri náttúru og það er í raun það sem frumvarpið snýst um. Verði um gríðarlegar náttúruhamfarir að ræða, og þá erum við auðvitað að sjálfsögðu að tala um fordæmalausar náttúruhamfarir, verði fyrir hendi ferlar og aðgerðaáætlanir og hvernig hlutirnir eigi að fara fram í lögum. Það er ekki þannig að innanríkisráðherra geti bara einn og sjálfur gripið um taumana við stjórn landsins heldur þarf það að fara í gegnum ríkisstjórn og að sjálfsögðu þarf að fara eftir ákveðnum ferlum komi til þess, sem við að sjálfsögðu vonum að verði aldrei.



[23:10]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv. s. fór reyndar að miklu leyti yfir það sem mig langaði að nefna við hæstv. innanríkisráðherra, en mig langaði líka að bjóða hæstv. ráðherra velkomna til starfa og þakka sérstaklega fyrir það viðhorf að frumvarpið þurfi mikla og breiða samstöðu því það er dagsatt. Hér er um að ræða ansi miklar valdheimildir. Þegar ég skoða sérstaklega 10. gr. frumvarpsins velti ég svolítið fyrir mér hvaða valdheimildir sé ekki verið að veita frekar en hverjar sé verið að veita. Þetta er ansi víðtækt.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skortur á þessu valdi hingað til. Eins og hv. þingmaður fór yfir hérna áðan þá hefur Ísland gengið í gegnum ýmislegt á ansi löngum tíma og maður hefði haldið að við værum þegar komin á þann stað að geta ráðið við náttúruhamfarir án þess að þurfa það sem virðist vera frekar gerræðislegar valdheimildir enda hannaðar fyrir slíkar uppákomur að það þurfi eiginlegt gerræði. (Forseti hringir.) Ég velti fyrir mér hvort það sé alveg kýrskýrt að raunveruleg þörf sé á þessu, ekki að það sé bara æskilegt heldur að það sé þörf á því.



[23:12]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil ósköp vel að þingmenn þurfi að spyrja sig allra þessara spurninga. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, að þingið hafi svigrúm til að fara mjög rækilega yfir málið og leita umsagnar út um þjóðfélagið og átta sig á því hvað sé á ferðinni.

Sem dæmi um hugsanleg viðbrögð við stórfelldum náttúruhamförum — ég ítreka að við erum að tala um stórfelldar náttúruhamfarir — er ef til þess kemur að skammta þarf rafmagn í landinu til að gæta og verja almannahagsmuni, ef hlutirnir eru orðnir það alvarlegir að ekki er öruggt að við getum, ef við höldum áfram með sömu líkingu, framleitt rafmagn, eða ef við förum yfir í fjarskiptin og fjarskiptasamband er með þeim hætti að ekki er hægt að halda því uppi eftir hefðbundnum leiðum heldur þurfi að grípa sérstaklega inn í. Þetta felur í sér ýktar, ef við getum notað það ómögulega orð í þessu tilviki, aðstæður til að bregðast við.



[23:13]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auknar valdheimildir af þessu tagi í hinum vestræna heimi eru alltaf réttlættar með neyðarástandi, alltaf. Það hefur verið þannig í Bandaríkjunum, það var þannig í Þýskalandi á sínum tíma, það er þannig í Bretlandi, það er þannig í Ástralíu, það er þannig alls staðar. Það er alltaf neyðarástand án undantekninga, að mér vitandi, og það er alltaf þessi togstreita milli réttinda borgaranna og nauðsynlegs yfirvalds sem yfirvöld hafa. Þegar ég ímynda mér þær náttúruhamfarir sem eru hugsanlegar og við vonum auðvitað öll að verði ekki og mestar líkur eru á að verði ekki, eftir því sem ég best veit, þá lítur þetta allt öðruvísi út. Þegar ég hugsa til dæmis um hryðjuverkaógnina sem er umtöluð hérna í vestrinu þá velti ég því fyrir mér hvernig hæstv. innanríkisráðherra mundi taka í það að þetta frumvarp yrði takmarkað við mögulegar afleiðingar af tilteknum mögulegum náttúruhamförum sem vísað væri í. Má takmarka frumvarpið þannig að það eigi ekki við ógn á borð við (Forseti hringir.) hryðjuverkaógn eða ógn af manna völdum vegna þess að þá erum við í raun og veru að tala um allt aðrar aðstæður?



[23:14]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er hugsað sérstaklega gagnvart náttúruhamförum. Ég verð að leyfa mér að segja það við hv. þingheim að ég hef heldur ekki sjálf haft óskaplega langan tíma til að fara yfir allt það sem snertir þetta mál og ég er ekki reiðubúin til að ganga mjög langt í því að lýsa því sem ég mundi gjarnan vilja skoða betur, ég verð bara að segja það, af því að skammt er liðið á mína ráðherratíð. Málið er mjög mikilvægt og það er mjög stórt, ég geri mér grein fyrir því, en ég vil þó að það komi fram að ég er auðvitað afar upptekin af réttindum borgaranna. Og það er alveg augljóst að þegar verið er að grípa til aðgerða sem skerða þau þarf alltaf að fara gætilega og það er líka alveg rétt að neyðarréttur gildir í landinu. Þegar neyðarástand skapast er ákveðið neyðarréttarsjónarmið fyrir hendi sem ég fór yfir í ræðu minni. Þetta er vandmeðfarið, ég geri ekki lítið úr því að þetta er vandmeðfarið.

En engu að síður er það mat manna að ástæða sé til að fastmótaðir ferlar séu fyrir hendi þannig að ef til slíkra náttúruhamfara kemur, sem ég vona að verði aldrei, sé að minnsta kosti eitthvert skipulag á hlutunum.



[23:16]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra framsöguna og bjóða hana velkomna til starfa.

Mig langar líkt og aðra þingmenn að viðra áhyggjur mínar af þeim þætti sem varða valdheimildir á neyðarstundu. Ég held að ekki sé ofmælt að það er sá þáttur sem er mest ástæða til að hafa áhyggjur af vegna þess að hinir þættir frumvarpsins sem snúast kannski fyrst og fremst um að mæla skýrar fyrir um skyldur stofnana, fyrirtækja o.s.frv. og ekki síður sá þáttur sem varðar ákvæði um skaðabótaskyldu vegna ákveðinna fyrirmæla og því um líkt er kannski skýrari. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra og ætlast kannski ekki til að hún svari því beint af augum en velti vöngum yfir því með okkur hér hvort raunveruleg ástæða sé til að ganga fram í þessari umferð þegar frumvarpið gengur í gegnum nefnd að breyta lögum um almannavarnir með svo afgerandi hætti að því er varðar þessar valdheimildir á neyðarstundu eða hvort það sé ekki rétt tilfinning hjá mér að það séu frekar hinir þættirnir sem ríður mest á að ljúka.



[23:17]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlusta á þau sjónarmið sem hér hafa komið fram af hálfu þingmanna og ætla að ígrunda þau líka. Ég tel þó að ég geti sagt á þessu stigi að vissulega felst það í hugsun frumvarpsins að valdheimildirnar séu fyrir hendi þó að því gefnu að þær séu leiddar fram á réttan hátt og skynsamlega. Það er náttúrlega það sem við getum og munum ræða hér í þinginu vonandi í rólegheitum þegar umræðurnar komast lengra, þ.e. hvernig yfirmaður eða ráðherra almannavarna grípur inn í ef sú staða kemur upp að grípa þarf til slíkra valdheimilda, ef við tökum til dæmis mikilvæga samfélagslega innviði eins og getið var um í ræðu minni, að allt slíkt skipulag sé geirneglt í lagasetningu af þessu tagi.



[23:19]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mig langar að spyrja í fyrsta lagi bara alveg konkret. Við erum í fyrsta lagi að tala um að almannavarnastigin eru þrjú, þ.e. óvissustig, hættustig og neyðarstig, og hér er verið að tala um neyðarstigið. Hversu skýrt er kveðið á um mörk þessara stiga? Hversu skýrar eru þær skilgreiningar? Það skiptir auðvitað afar miklu máli vegna þess að það er forsenda fyrir því að réttlætanlegt sé að fara inn með svo miklar valdheimildir. Svo langar mig að biðja hæstv. ráðherra að reyna að svara því eins skýrt og hægt er á þessu stigi máls, því svo fer málið væntanlega til þingnefndar til áframhaldandi úrvinnslu: Við hvaða tækifæri, möguleg eða ómöguleg, er mikilvægt að ábyrgð á fyrirmælum sé frekar hjá ráðherra en hjá ríkislögreglustjóra eða með þeim hætti sem nú er í gildandi lögum?



[23:20]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hættustig sem við erum að tala um er neyðarstig. Það er algerlega kýrskýrt að verið er að tala um neyðarstig, ekkert annað. Það er einnig þannig að skiptingin er í reglugerð og nákvæmlega er kveðið á um í reglugerð hvernig hún er og ég vísa til hennar um það.

Varðandi það hvort rétt sé að ráðherra eða almannavarnir, ef ég tók rétt eftir — (SSv: Ríkislögreglustjóri.) ríkislögreglustjóri já, þá tel ég reyndar að þegar um svona er að ræða sé eðlilegt að æðsti yfirmaður þessara málaflokka hafi úrslitavald um það hvernig eigi með málið að fara og að sjálfsögðu í nánu samráði við þessa aðila og einnig ríkisstjórnina í heild og þá æðstu stjórn ríkisins.



[23:21]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég hef áhyggjur af varðandi þetta mál eru valdheimildir sem finna má í 10. gr. þessa frumvarps, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Séu aðstæður knýjandi og stjórnendur hlíta ekki fyrirmælum skv. 2. mgr. geta neyðarráðstafanir ráðherra falist í því að taka tímabundið, eða eins lengi og nauðsyn krefur, yfir stjórn fyrirtækis eða stofnunar í þeim tilgangi að hrinda neyðarráðstöfunum í framkvæmd.“

Sé þessi heimild sett þarna inn þarf það að vera alveg kýrskýrt hvaða skilgreiningar eru á þessu neyðarstigi. Hver lýsir því yfir og hvernig er komist að þeirri niðurstöðu að það ríki? Þetta verður að vera alveg skýrt líka: Hefur ráðherra, og er þá verið að tala um dómsmálaráðherra í þessu tilfelli eða innanríkisráðherra, heimild til þess til dæmis að leysa stjórn Ríkisútvarpsins frá störfum og taka yfir stjórnun þeirrar stofnunar ef hann metur ástandið þannig?



[23:22]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sammála því að þetta ákvæði 3. mgr. 10. gr. er mjög umfangsmikið. Það er það. Það er alveg ljóst að þetta er nokkuð sem er algjörlega í ýtrustu neyð og það verður að vera skýrt. Það verður að vera skýrt í löggjöf af þessum toga að þetta sé ýtrasta neyð og ég legg mjög mikla áherslu á það.

Mér finnst koma til álita, þó að ég vilji ekki ganga lengra en það í dag, að sumt af því sem er í þeirri reglugerð sem vísað er til sé sett í lög. Þá á ég sérstaklega við skilgreininguna á neyðarstigi að það sé samfara máli af þessu tagi, sé þá bara geirneglt í lög, hvaða aðstæður við erum að tala um þegar við fjöllum um þetta. Það finnst mér koma mjög vel til álita og ég geri ráð fyrir að það sé eitt af því sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd mun taka fyrir nú þegar málið fer til hennar.



[23:23]
Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þúsund ár höfum við búið hér við nyrstu voga og gengið á móti okkar þrautum djörf og sterk og náð að ráða nokkuð vel fram úr þeim náttúruhamförum sem við glímum við með reglulegu millibili. Maður þarf því að skilja vel hvaða þörf er á þessari löggjöf umfram það sem við höfum haft vegna þess að getan til að bregðast við og rjúfa vegi, sé þess þörf, hefur verið til staðar og menn hafa ekki hikað við það.

Íslendingar hafa ekki legið á liði sínu, það þekki ég nú sem Vestmannaeyingur, þegar á þarf að halda, að grípa til þeirra ráðstafana sem grípa þarf til og eru þá kannski ekki mikið að horfa í lagabókstafinn meðan á því stendur. Mér finnst að menn þurfi að hafa það á bak við eyrað meðan þeir fjalla um þetta.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að þetta þarf mikla umræðu og reglugerðarheimildin — ég er sammála því líka. Það þarf að skoða það vandlega hvort það sé ekki hluti af löggjöfinni þannig að menn geti rætt það hér með opnum hætti og komist að sameiginlegri niðurstöðu.



[23:25]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir það, og það held ég að við getum öll gert, að samtakamáttur Íslendinga á ögurstundu hefur ávallt verið mikill og hann þurfum við að varðveita.

En hér erum við að tala um ýtrustu neyð og við erum kannski líka að tala um dálítið annað samfélag — hugsum okkur að margar þær hrikalegustu náttúruvár sem við höfum horfst í augu við gegnum sögu Íslands yrðu að veruleika í dag í því breytta þjóðfélagi, því tækniþjóðfélagi, sem við erum hér að tala um.

Ég gat aðeins um það í ræðu minni að það er kannski það sem líka skiptir máli. Þetta er ekki bara spurning um að rjúfa vegi, þetta getur líka verið mjög mikilvægt fjarskiptatengt mál í allt öðru samfélagi þar sem fyrirtæki eru ekki lengur í eigu ríkisins heldur komin til einkaaðila. Þá geta þær aðstæður komið upp að grípa þurfi inn í til að ákveðnir hlutir komist í kring.

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, ítreka það sem ég sagði í upphafi að þetta er mál af því tagi sem þarf mikla og góða umræðu í þinginu og ég veit að það mun fá það.