144. löggjafarþing — 45. fundur
 10. desember 2014.
varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, 1. umræða.
stjfrv., 423. mál (kostnaður við hættumat). — Þskj. 631.

[23:26]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, með síðari breytingum. Frumvarpi var unnið í samvinnu við Veðurstofu Íslands.

Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að ráðstafa fé úr ofanflóðasjóði til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna vatnsflóða og sjávarflóða ásamt því að gert er ráð fyrir heimild til að nota fé úr ofanflóðasjóði til að taka þátt í kostnaði við hættumat eldgosa verði framlengt um þrjú ár.

Mikilvægi hættumats hefur glögglega komið í ljós í umbrotunum sem nú standa yfir í Bárðarbungu og Holuhrauni. Íslenskt samfélag verður að geta brugðist rétt við eldgosavá sem og annarri náttúruvá. Hættumat er nauðsynleg forsenda þess að allir viðbragðsaðilar geti unnið skipulega og markvisst í náttúruatburðum eins og eldgosum og lágmarkað þannig kostnað samfélagsins.

Tillaga hefur verið lögð fram að verkefnum fyrir næsta áfanga, vinnu við gerð hættumats vegna eldgosa ásamt grófri kostnaðaráætlun. Þar er gert fyrir að ofanflóðasjóður greiði um 45% kostnaðarins og aðrir hagsmunaaðilar, svo sem Alþjóðaflugmálastofnunin, aðilar innan íslenska orkugeirans og aðrir greiði um 55% kostnaðarins. Í þeim áfanga verður lögð áhersla á skilgreiningu áhættuviðmiða en þau eru grundvöllur umfangs allrar áhættustjórnunar.

Eldgosið í Holuhrauni og umbrotin í Bárðarbungu eru vísindalegur fjársjóður sem á eftir að nýtast við gerð áframhaldandi hættumats sem og eldfjallarannsókna almennt. Atburðirnir hafa undirstrikað enn frekar en áður brýna nauðsyn þess að unnið verði samræmt eldgosahættumat fyrir helstu eldstöðvar landsins. Lagt er til að vinnu við hættumat vegna eldgosa sem nú hefur staðið yfir í tæp þrjú ár verði fram haldið næstu þrjú árin, þ.e. frá 2015–2017. Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við næsta áfanga við gerð hættumats vegna eldgosa verði 120 milljónir alls næstu þrjú árin.

Bent hefur verið á að mikilvægt er að taka á allri náttúruvá með sama hætti og gert hefur verið varðandi ofanflóðin. Er þess vegna lagt til í frumvarpinu að hættumat verði í fyrsta skipti unnið fyrir vatnsflóð og sjávarflóð samkvæmt hættumatsramma Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna. Sá rammi hefur reynst vel við vinnu hættumats vegna ofanflóða hér á landi eins og hann hefur gert víða um heim.

Árið 2006 urðu mikil vatnsflóð á Suðurlandi, í Borgarfirði, Skagafirði, Eyjafirði og við Skjálfandafljót og var vatnamælingum Orkustofnunar falið í kjölfarið að kortleggja flóðamörk, leggja mat á flóðahæð, byggja upp gagnabanka um söguleg flóð og setja upp vatnshæðarmæla. Er þessi vinna grunnur að því hættumati vatnsflóða sem nú er lagt til að gert verði. Í fyrsta áfanga verkefnisins um hættumat vegna vatnsflóða er lagt til að upplýsingar um söguleg flóð verði tekin saman, áhrifasvæði mögulegra flóða metin og áhættuviðmið skilgreind. Brýnt er að skilgreina áhættuviðmið varðandi vatnsflóð en það hefur aldrei verið gert hér á landi. Þessi upphafsvinna við hættumat er grundvöllur fyrir gerð viðbragðs- og rýmingaráætlana og áhættuminnkandi aðgerða. Mikilvægt er að fyrir liggi upplýsingar um flóð og flóðahættu, t.d. þegar sveitarfélög taka ákvarðanir um landnotkun. Eins þarf að byggja upp kerfi til að hægt sé að vara við flóðum og fylgjast með framgangi þeirra með viðvörðunarkerfi og vöktunarmælum. Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við gerð hættumats vegna vatnsflóða verði 90 milljónir næstu þrjú árin.

Eins og áður sagði er brýnt að unnið verði hættumat vegna allrar náttúruvár og eru sjávarflóð þar ekki undanskilin. Fjölmörg dæmi eru um minni eða meiri tjónaflóð víða við strendur landsins og hefur Vegagerðin gert áætlun um sjóvarnir og metið nauðsyn framkvæmda vegna þeirra í samræmi við lög nr. 28/1997, um sjóvarnir. Nauðsynlegt er að vinna úttekt á mögulegum sjávarflóðum á lágsvæðum landsins þar sem forsendur eru breyttar frá því að fyrri úttekt var gerð á fyrri hluta 10. áratugar síðustu aldar á vegum Vita- og hafnamálastofnunar, Skipulags ríkisins og Viðlagatryggingar. Einnig hefur aukin þekking á áhrifum loftslagsbreytinga, m.a. á sjávarstöðu, hopi jökla og þar af leiðandi landrisi og landsigi, gert það að verkum að nauðsynlegt er að slík úttekt fari fram.

Í fyrsta áfanga verkefnisins um hættumat vegna sjávarflóða verður farið yfir fyrirliggjandi úttektir og þær settar í samhengi við loftslagsbreytingar, spár um breytingar á sjávarstöðu, landris og landsig og mismunandi endurkomutíma sjávarflóða. Svæðum þar sem vinna þarf hættumat verður forgangsraðað og áhættuviðmið verða skilgreind. Þessi upphafsvinna við hættumat er grundvöllur fyrir gerð viðbragðs- og rýmingaráætlana og áhættuminnkandi aðgerða.

Eins og gildir um vatnsflóðin þá er mikilvægt að fyrir liggi upplýsingar um flóð og flóðahættu vegna sjávarflóða, t.d. til upplýsinga fyrir sveitarfélög til að taka ákvarðanir um landnotkun. Eins þarf að byggja upp kerfi til að hægt sé að vara við flóðum og fylgjast með framgangi þeirra með viðvörunarkerfi og vöktunarmælum. Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við gerð hættumats vegna sjávarflóða verði 45 milljónir næstu þrjú árin. Samráð var haft við innanríkisráðuneytið og Vegagerðina varðandi þann þátt frumvarpsins sem lýtur að sjávarflóðum. Jafnframt er nauðsynlegt að Veðurstofa Íslands og Vegagerðin vinni saman að verkefninu.

Auk þess sem hér hefur verið greint frá felst í frumvarpinu ótímabundin framlenging á þeim ákvæðum sem greinir í lögum nr. 22/2012, um breytingu á lögum nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sem að óbreyttu falla annars úr gildi 31. desember næstkomandi. Í lögum nr. 22/2012 var öllum þeim breytingum sem í lögunum fólust afmarkaður þriggja ára gildistími en ekki eingöngu þeirri heimild ofanflóðasjóðs að veita fé í gerð hættumats vegna eldgosa eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu sem var lagt fram á Alþingi. Vegna þessa er nauðsynlegt að leggja fram frumvarp til að ráða bót á þessu og tryggja þar með að efni ákvæða 1.–3. gr. þessa frumvarps falli ekki brott úr lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum um næstu áramót.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.



[23:33]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Í sjálfu sér fagna ég tilefni frumvarpsins og mér finnst jákvætt að halda áfram því verklagi sem var sett í gang í febrúar 2012 með breytingum á lögunum, sem tryggðu fjármögnun að hluta til þriggja ára við gerð hættumats vegna eldgosa. Við erum að framlengja það og bæta þó við öðrum þáttum, eins og ég skil frumvarpið.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra. Verkefni og viðfangsefni ofanflóðasjóðs, þegar hann var settur á stofn til að byrja með, var að gefnu og mjög hræðilegu tilefni á sínum tíma og markmiðið var að tryggja það eins ítarlega og nokkurs væri kostur að Íslendingar gætu varist þeirri miklu náttúruvá sem ofanflóð geta orðið og hafa sýnt sig að hafa geta orðið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvar við erum stödd í þessum verkefnum, vegna þess að þau eru að nokkrum hluta tæmandi, þ.e. að tryggja ofanflóðavarnir með viðunandi hætti um allt land. Sér ráðherrann fyrir sér að það gerist í náinni framtíð að verkefnum ofanflóðasjóðs ljúki miðað við þessa löggjöf frá 1995? Og sér hann fyrir sér í kjölfarið á því, og væntanlega vill hann þá líka svara því í síðara andsvari, að hlutfall og verkefni ofanflóðasjóðs verði endurskoðað í kjölfarið á þeim gleðilegu tímamótum sem vonandi verða einhvern tíma í fyllingu tímans, að við sjáum fyrir endann á þessum mikilvægu verkefnum?



[23:35]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það má segja ef við förum gróflega yfir það hvar við erum stödd að við séum úti í miðri á. Ef við ætlum að ljúka verkefninu, uppbyggingu snjóflóðavarna, á þeim tíma sem reglugerðin segir til um, sem mig minnir að sé 2020, þá þyrftum við sennilega að vera að framkvæma fyrir 2,5 milljarða á ári. Sumpart er það ekki skynsamlegt, hvorki fjárhæðarinnar vegna né heldur verkefnanna, það er skynsamlegra að þau taki lengri tíma. Það er því mjög líklegt að á einhverjum tíma á næstu árum væri skynsamlegt, eins og þingmaðurinn benti á, að setjast yfir það að verkefnið hafi gengið mjög vel hvað þennan þátt varðar, ofanflóðin, en viðurkenna um leið að það eru fleiri náttúruvár sem við erum auðvitað að nýta fjármunina hér í til að gera hættumat og þyrftum við hugsanlega að skoða hvort skynsamlegt sé að nýta þessa aðferðafræði við að bregðast við öðrum flóðahættum, eins og hér er verið að leggja til með því að setja á laggirnar hættumið, skoða viðmið og áhættugreiningu og annað í þeim dúr. Það getur einnig verið skynsamlegt í framhaldinu að við værum með einhvers konar fjármögnun til að bregðast við forvarnagörðum sem við þyrftum hugsanlega að setja upp, sérstaklega varðandi snjóflóð og reyndar önnur flóð eins og skriðuföll, sem við höfum svo sem séð á síðustu árum að geta valdið umtalsverðu tjóni og verið hættuleg í sjálfu sér.

En við erum um það bil stödd í miðri á og þurfum án efa á næstu árum að velta fyrir okkur hvernig við ætlum að klára verkefnið.



[23:37]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég hef verið að skoða aðeins kostnaðarmat fjármála- og efnahagsráðuneytisins og veldur það mér nokkrum áhyggjum, svo ekki sé fastar að orði kveðið, því að fjármála- og efnahagsráðuneytið bendir á það sem rétt er, að sjóðurinn er stofnaður í þeim tiltekna tilgangi að vinna að þessum framkvæmdum og fjármála- og efnahagsráðuneytið telur óeðlilegt að færa ákveðna fjármögnun annarra verkefna inn í sjóðinn án þess að þau framlög séu sett á viðeigandi stofnanir í fjárlögum og þá jafnvel undir öðrum ráðuneytum, eins og lítur út fyrir að sé hér á ferðinni. Með þessu fyrirkomulagi ætti þá að gera ráð fyrir sértekjum hjá þeim stofnunum o.s.frv. og það kallar á töluverða handavinnu í umbúnaði. Það hafa ekki komið tillögur frá ráðuneyti um þetta í fjárlagafrumvarpi og fjármálaráðuneytið gerir mjög alvarlegar athugasemdir við þennan þátt. Ég verð að viðurkenna það fyrir hæstv. ráðherra að mér hugkvæmdist ekki að þetta væri ekki í lagi gagnvart fjármálaráðuneytinu.

Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sjái einhverja leið til að búa svo um hnútana í þessum þáttum, vegna þess að ég held að það séu engar hindranir í veginum fyrir því að framlengja ákvæði sem varðar það að halda verkefnunum áfram sem við hófum með sérstökum lögum árið 2012. En þegar um er að ræða það að við erum farin að víkja frá góðum praxís í bæði fjárlagagerð og í samskiptum við fjármálaráðuneytið held ég að við þurfum að staldra við og finna góðar leiðir til þess að ljúka því svo einhver sómi sé að. Ég vil í fullri einlægni spyrja ráðherrann hvort hann eigi einhver ráð fyrir þingið til að ljúka þessu máli á stuttum tíma þannig að sómi sé að og fjármálaráðuneytið sé sátt við vinnubrögð okkar.



[23:39]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fjármálaráðuneytið hefur gert athugasemdir við það að við séum að nýta fjármuni ofanflóðasjóðs í hættumat og hefur auðvitað gert það líka á sl. þremur árum varðandi hættumat eldgosa sem við erum hér að framlengja. Ég tel að það sé kannski verkefni þingsins að skoða það í heildarsamhenginu hvort þetta sé engu að síður ekki skynsamleg leið. Um leið er ég sammála hv. þingmanni í því að við þurfum að fara að endurskoða umgjörðina um ofanflóðasjóð ef við ætlum okkur að taka alla þessa aðra þætti þarna inn, til að vinnuferlið sé eðlilegt.

Ég minnist þess reyndar að í umsögn fjármálaráðuneytisins varðandi útgjöld til ofanflóða varnargarða hafi einnig verið höfð nokkur orð um að það beri að fara varlega í því. Þetta verkefni er til þess að verja byggð og forða manntjóni og vera forvörn í sjálfu sér og sú hugsun sem við erum að setja hér inn með því að setja fleiri flóðahættur inn í verkefnið til að fá hættumatið fram, til að vita í raun og veru hvar við erum stödd, ég held að það sé einfaldlega skynsamlega farið með opinbert fé hvað þetta varðar og treysti þinginu til að fara vel yfir það og hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að fá svör við þessum spurningum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.