144. löggjafarþing — 46. fundur
 11. desember 2014.
mat á umhverfisáhrifum, 2. umræða.
stjfrv., 53. mál (fjölgun tilkynningarskyldra framkvæmda, EES-reglur). — Þskj. 53, nál. 636, nál. m. brtt. 651, brtt. 637.

[21:37]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum. Það fjallar um viðauka, tilkynningarskyldar framkvæmdir og flutning á stjórnsýslu.

Nefndin fékk á sinn fund töluvert marga umsagnaraðila og fjölmargar umsagnir um málið bárust. Ég ætla að leyfa mér að vísa í nefndarálitið hvað það varðar án þess að telja það hér upp.

Þetta frumvarp er endurflutt frá 143. löggjafarþingi nánast óbreytt, en gerðar hafa verið nokkrar orðalagsbreytingar. Forsaga málsins er rakin í inngangskafla athugasemda við frumvarpið en upphaflegt frumvarp var fyrst lagt fram á 140. löggjafarþingi og er það því nú lagt fram í fjórða sinn. Á þeim tíma hefur það tekið nokkrum breytingum sem raktar eru í athugasemdum við frumvarpið.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á viðaukum laga um mat á umhverfisáhrifum. Í lögunum eru nú þrír viðaukar. Í 1. viðauka eru tilgreindar framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum. Í 2. viðauka eru tilgreindar framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum og er það metið hverju sinni með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar framkvæmda og með hliðsjón af þeim atriðum sem koma fram í 3. viðauka. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að athugasemdir ESA hafi meðal annars snúið að því að í lögunum eru notuð þröskuldsgildi eða viðmiðunarmörk við skilgreiningu ákveðinna flokka framkvæmda í 2. viðauka, m.a. staðsetningu framkvæmda innan verndarsvæða eða á öðrum skilgreindum stöðum. Hefur þetta í för með sér að staðsetning ein og sér getur ráðið því hvort framkvæmd kunni að vera háð mati á umhverfisáhrifum með tilliti til atriða sem koma fram í 3. viðauka á meðan samsvarandi framkvæmdir annars staðar falli alfarið utan laganna og séu því ekki háðar ákvörðun um matsskyldu. Til að mæta þessum athugasemdum er lagt til í frumvarpinu að við lögin verði tveir viðaukar þar sem í 1. viðauka verði framkvæmdir flokkaðar í þrjá flokka, A-, B- og C-flokk, eftir því hvort þær skuli vera matsskyldar eða tilkynningarskyldar og núgildandi 3. viðauki verður 2. viðauki þar sem horfa þarf til þeirra atriða sem þar koma fram við mat á því hvort framkvæmdir í B- og C-flokki teljist matsskyldar. Er tilgangurinn með þessu sá að engar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér veruleg umhverfisáhrif verði undanskildar ákvörðun um matsskyldu. Þessi breyting leiðir hins vegar óhjákvæmilega til þess að mun fleiri framkvæmdir verða tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu en áður hefur verið, líkt og umsagnaraðilar hafa bent á. Gera má fastlega ráð fyrir því að fæstar þær framkvæmdir sem verða tilkynningarskyldar eftir samþykkt laganna, sem ekki hafa verið það hingað til, verði matsskyldar. Þá er lögð til einfaldari og ódýrari málsmeðferð vegna framkvæmda í C-flokki sem hingað til hafa ekki verið tilkynningarskyldar. Ég ætla að leyfa mér að reifa það í stuttu máli en nefndin var sammála um flest atriði frumvarpsins fyrir utan það sem ég ætla að nefna hér á eftir.

Í frumvarpinu er lagt til að stjórnsýsla varðandi ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda í C-flokki verði hjá sveitarfélögunum. Við meðferð málsins á fyrri stigum kom fram ósk þess efnis frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hefur umhverfis- og auðlindaráðherra tekið hana til greina í frumvarpi þessu. Til nokkurra atriða þarf að líta í því efni.

Framkvæmdir sem falla í C-flokk 1. viðauka frumvarpsins eru almennt ólíklegar til að vera matsskyldar þótt alls ekki sé hægt að útiloka það fyrir fram. Framkvæmdirnar hafa hingað til fallið utan 1. og 2. viðauka og því ekki verið tilkynningarskyldar til matsskylduákvörðunar. Framkvæmdirnar hafa fyrst og fremst áhrif á sitt nærumhverfi og því má telja eðlileg rök fyrir því að ákvarðanir um matsskyldu þeirra verði á höndum sveitarfélaganna sem veita framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir þeim.

Sveitarfélögin eru eðli málsins samkvæmt misfær um að takast á við verkefnið sem þeim er falið í frumvarpinu. Stærri sveitarfélög búa yfir meiri og betri sérþekkingu en þau sem minni eru. Er því gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun semji leiðbeiningar fyrir sveitarstjórnir þannig að þær geti sinnt þessu hlutverki sínu á samræmdan hátt. Þá hefur Skipulagsstofnun einnig eftirlit með málsmeðferð sveitarfélaganna og skal setja á fót rafrænt gagnasafn um framkvæmdir í C-flokki og leyfi fyrir þeim, samanber b-lið 2. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn bendir á mikilvægi þess að leiðbeiningar Skipulagsstofnunar verði tilbúnar þegar við gildistöku laganna, samanber 11. gr. frumvarpsins, enda um nýtt verkefni fyrir sveitarfélögin að ræða sem mikilvægt er að unnið verði á samræmdan hátt frá upphafi. Þá geta sveitarfélögin einnig þurft að taka ákvarðanir um innra skipulag sinnar stjórnsýslu en samkvæmt 1. og 2. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, er sveitarstjórn heimilt að fela fastanefnd eða einstökum starfsmönnum vald til fullnaðarafgreiðslu mála. Lagt er upp með að hægt verði að afgreiða matsskylduákvarðanir sveitarfélaganna í flestum tilvikum samfara veitingu byggingar- og framkvæmdaleyfa og því geta sveitarfélög talið sér til hagræðis að fela þeim aðilum sem taka þær ákvarðanir að taka einnig ákvarðanir um matsskyldu einstakra framkvæmda. Samkvæmt 11. gr. frumvarpsins munu framkvæmdir í C-flokki ekki vera háðar ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt 6. gr. laganna fyrr en 1. júní 2015. Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að undirbúningi verði hagað þannig að allri nauðsynlegri undirbúningsvinnu verði þá lokið.

Í frumvarpinu er lagt til að sveitarstjórnir hafi tvær vikur eftir að framkvæmdaraðili hefur skilað öllum nauðsynlegum gögnum til að taka ákvarðanir um hvort tilkynningarskyldar framkvæmdir verði matsskyldar og ef leita þarf umsagna verði fresturinn þrjár vikur. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir þess efnis að bæði gæti verið um of stuttan frest að ræða sem og of langan. Meiri hlutinn telur rétt að halda þeim tímamörkum sem kveðið er á um í frumvarpinu, m.a. þar sem athugasemdir vegna þeirra hafa ekki borist frá sveitarfélögunum. Skipulagsstofnun hefur eftirlit með framkvæmd sveitarfélaga og ber í því sambandi að hafa meðal annars eftirlit með því að sveitarfélögin virði þau tímamörk sem kveðið er á um.

Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir þess eðlis að hagsmunaárekstrar gætu orðið þegar sveitarfélög væru sjálf framkvæmdaraðilar framkvæmda sem falla í C-flokk 1. viðauka. Ljóst er að þessar aðstæður geta komið upp en meiri hlutinn bendir aftur á að Skipulagsstofnun ber að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og framkvæmd sveitarfélaga. Um ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda gilda stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og hæfisreglur þeirra laga, og ákvæði 20. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Þá bendir meiri hlutinn einnig á að þeir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda matsskylduákvörðun sem og umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geta kært matsskylduákvarðanir sveitarfélaga til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt a-lið 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, samanber einnig breytingartillögu meiri hlutans þar sem lögð er til breyting á framangreindum lögum sem vikið verður að hér á eftir.

Nefndinni bárust nokkrar athugasemdir um viðmið einstakra framkvæmda sem koma fram í 1. viðauka. Í athugasemdunum er annars vegar vísað til þess að ýmist sé gengið of langt miðað við efni tilskipunar 85/337/EBE eða að breyta eigi viðmiðunarmörkum þannig að nokkrar framkvæmdir sem falla í C-flokk í frumvarpinu mundu falla í B-flokk. Meiri hlutinn bendir á að tilgangur frumvarpsins er að bregðast við athugasemdum ESA en ekki að endurskoða viðmið einstakra framkvæmda. Þau halda sér einfaldlega frá gildandi lögum og engin breyting lögð til. Meiri hlutinn bendir á að íslenska ríkinu er heimilt að gera ríkari kröfur en leiðir beint af tilskipuninni og ákvarðanir þess efnis sem þegar hafa verið teknar og eru í núgildandi lögum verða óbreyttar.

Í 13. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 3. viðauka laganna sem verður 2. viðauki. Er þar meðal annars lagt til að við mat á því hvort framkvæmdir í B- og C-flokki verði háðar mati á umhverfisáhrifum skuli horfa til þess hvort áhrifasvæði framkvæmdar nái til friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, þar á meðal svæða á náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun, náttúrufyrirbæra sem falla undir ákvæði 37. gr. laga um náttúruvernd og landsvæða í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt lögum nr. 48/2011, um rammaáætlun. Meiri hlutinn bendir á að hér sé um einn af mörgum þáttum að ræða sem horfa beri til við mat á því hvort framkvæmd teljist matsskyld. Hér sé ekki um viðmið að ræða sem ráði því algerlega hvort framkvæmd skuli matsskyld. Horfa beri til þessara atriða sem annarra sem nú eru í 3. viðauka laganna. Þá bendir meiri hlutinn á að það sé í samræmi við stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun að bæta tilvísun til þessara þátta í ákvæðið og í samræmi við varúðarreglu umhverfisréttarins.

Meiri hlutinn leggur til þrjár breytingar á frumvarpinu. Með lögum nr. 49/2014, um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, var nýrri málsgrein, sem varð 3. mgr., bætt við 6. gr. laganna þannig að aðrar málsgreinar færðust til. Ákvæðið kom inn í lögin vegna breytinga á ýmsum ákvæðum laga tengdum fiskeldi. Ekki stendur til að fella ákvæðið brott úr lögunum eins og frumvarpið ber með sér og leggur meiri hlutinn því til breytingu á 4. gr. frumvarpsins þannig að ákvæðið haldi sér og verði í 7. mgr. 4. gr. laganna.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á 4. mgr. 27. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010, þar sem vísað er til 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Með frumvarpinu er lagt til að framkvæmdir sem nú eru í 1. viðauka laganna falli í A-flokk 1. viðauka og er því nauðsynlegt að gera þá breytingu á 4. mgr. 27. gr. laga um mannvirki að vísað verði þar til A-flokks 1. viðauka.

Meiri hlutinn leggur einnig til breytingu á a-lið 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, þar sem matsskylduákvörðunum sveitarfélaga verði bætt við þær ákvarðanir sem aðilar sem hafa lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun og umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 meðlimi geti kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Við samningu frumvarpsins fórst fyrir að bæta kæruheimildinni inn þar sem á fyrri stigum var gert ráð fyrir því að verkefnið væri hjá Skipulagsstofnun en eðlilegt er að matsskylduákvarðanir sveitarfélaga séu kæranlegar á sama hátt og matsskylduákvarðanir Skipulagsstofnunar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku skjali. Undir nefndarálitið rita Höskuldur Þórhallsson, formaður og framsögumaður, Haraldur Einarsson, Birgir Ármannsson, Elín Hirst og Vilhjálmur Árnason.



[21:48]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina um álit meiri hlutans.

Ég vil spyrja hv. þingmann vegna þess að hér er um að ræða viðbrögð við athugasemdum ESA sem bárust árið 2010. Þær athugasemdir tóku ekki með nokkru móti á stjórnsýslu þessara matsskyldu ákvarðana eða hvar þær ættu að vera staðsettar í kerfinu. Því er sérstök og afmörkuð ákvörðun þar á ferðinni, þ.e. að ákvörðun um matsskyldu sé staðsett hjá sveitarfélögunum eins og lagt er til af hendi ráðherra í því frumvarpi sem hér er til umræðu. Á fyrri stigum hafði verið lagt til að þessi verkefni væru hjá Skipulagsstofnun enda hefur þar mjög mikil þekking safnast saman um akkúrat þessi mál.

Ég vil biðja hv. þingmann að freista þess að rökstyðja ástæður þess að hann telji að þessum ákvörðunum um matsskyldu í C-flokki sé best sinnt hjá sveitarfélögunum. Við hittum allnokkra aðila á nefndarfundum og meðal annars ýmsa sem höfðu efasemdir um nákvæmlega þetta fyrirkomulag, enda eru sveitarfélögin sannarlega misvel í stakk búin til að sinna þessu verkefni. Auk þess kann að vera um hagsmunaárekstra að ræða þegar framkvæmdaraðilinn sjálfur er sveitarfélagið og er þá orðinn sá sem tekur ákvörðun um matsskyldu. Eftir sem áður þarf Skipulagsstofnun að hafa með höndum einhvers konar leiðbeiningar- og eftirlitshlutverk sem felur í raun í sér tvöfalt kerfi sem er ekki alveg í þeim anda sem ríkisstjórnin hefur talað fyrir, þ.e. að einfalda stjórnsýslu og auka skýrleika í kerfinu. Ég vil því freista þess að biðja hv. þingmann um að rökstyðja þá niðurstöðu að þessar ákvarðanir eigi heima hjá sveitarfélögunum eins og lagt er til af hálfu ráðherra og meiri hlutinn tekur undir.



[21:50]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að með þessari breytingu sé akkúrat verið að gera stjórnsýsluna skilvirkari og skýrari. Í nefndarálitinu segir að framkvæmdir sem falli í C-flokk 1. viðauka séu almennt ólíklegar til að vera matsskyldar þó að alls ekki sé hægt að útiloka það fyrir fram. Framkvæmdir hafa hingað til fallið utan 1. og 2. viðauka og hafa því ekki verið tilkynningarskyldar til matsskylduákvörðunar. Framkvæmdirnar hafa fyrst og fremst áhrif á sitt nærumhverfi og því má telja eðlileg rök fyrir því að ákvarðanir um matsskyldu þeirra verði á höndum sveitarfélaganna sem veita framkvæmda- og byggingarleyfi fyrir þeim.

Við gerum okkur þó grein fyrir því, eins og hv. þingmaður kom inn á, að sveitarfélögin eru eðli málsins samkvæmt misfær um að takast á við verkefnið sem þeim er falið í frumvarpinu. Stærri sveitarfélög búa yfir meiri og betri sérþekkingu en þau sem minni eru. Þess vegna gerum við sérstaklega ráð fyrir því að Skipulagsstofnun semji leiðbeiningar fyrir sveitarstjórnir þannig að þær geti sinnt þessu hlutverki á samræmdan hátt. Þá hefur stofnunin einnig eftirlit með málsmeðferð sveitarfélaganna og skal setja á fót rafrænt gagnasafn um framkvæmdir í C-flokki og leyfi fyrir þeim, samanber b-lið 2. gr. frumvarpsins.

Ég ítreka að framkvæmdir sem falla í þennan tiltekna flokk eru almennt taldar ólíklegar til þess að verða matsskyldar þótt að sjálfsögðu sé ekki hægt að útilokað það fyrir fram.



[21:51]
Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta svar er tæpast fullnægjandi. Það dugar ekki að segja að almennt sé ólíklegt að um matsskyldar framkvæmdir verði að ræða því að við þurfum einmitt að gæta að því að þessar framkvæmdir eru sannarlega ekki allar minni háttar, það liggur fyrir. Það kann að vera að einhverjar af þessum framkvæmdum, eins og fram kemur í frumvarpinu, verði þeirrar gerðar að þær geti falið í sér talsverð umhverfisáhrif. Það er nákvæmlega það sem frumvarpið snýst um, þ.e. að gæta að þeim framkvæmdum í C-flokki þar sem um töluverð umhverfisáhrif getur verið að ræða.

Ég vil líka árétta að í svari hv. þingmanns við spurningu minni staðfestir hann að um sé að ræða tvöfalt kerfi þegar sveitarfélögin sjái um þessa ákvörðun til að tryggja jafnræði með borgurum landsins en til þess að tryggja að sveitarfélögin séu jafn vel í stakk búin þurfi á eftirliti, utanumhaldi og leiðbeiningum Skipulagsstofnunar að halda. Hér er verið að búa til tvöfalt kerfi sem er mjög umhendis að gera.

Ég vil eiginlega fullyrða það að hæstv. ráðherra hefur ekki hugsað málið til enda þegar hann leggur til þessa nálgun og vil spyrja hann hreint út: Telur hann að þetta sé hafið yfir vafa? Telur hann að komi til greina að taka málið inn í nefnd milli 2. og 3. umr. til þess að tryggja að stjórnsýslan verði straumlínulagaðri? Telur hann hafið yfir vafa að þetta sé til góðs og hér sé ekki um tvöfalt kerfi að ræða?



[21:53]
Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þeim átta árum sem ég hef átt sæti á Alþingi hef ég áttað mig á að ekkert þeirra mála sem við afgreiðum er hafið yfir vafa. Mér finnst ósanngjarnt að taka það fram hér að ég hafi ekki svarað spurningunni nægjanlega. Ég svaraði henni algjörlega eftir bestu getu og rökstuddi mál mitt, ekki bara þannig að þessar framkvæmdir væru almennt ólíklegar til þess að vera matsskyldar. Við tökum það sérstaklega fram að við gerum okkur fulla grein fyrir því að sumar þessara ákvarðana þarfnast meiri og stærri umfjöllunar þó að það sé frekar í undantekningartilvikum en hitt.

Ég held að þingmaðurinn ætti ekki að óttast að málsmeðferðin verði síðri hjá sveitarfélögunum en hjá Skipulagsstofnun þegar við veitum Skipulagsstofnun svona mikla eftirlitsskyldu. Við erum í rauninni að gera þetta skilvirkara og skýrara en um leið að tryggja að allar þær ákvarðanir sem falla í þennan flokk og þurfa að vera matsskyldar fái nægilega umfjöllun. Ég er þeirra skoðunar að það sé rækilega útskýrt. Ég gerði það í ræðu minni áðan sem og í svari mínu og tel að þetta mál þarfnist ekki frekari umræðu.



[21:55]
Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Róbert Marshall) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, sem fjallar einmitt um efnisatriðið í orðaskiptum hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar. Minni hlutinn er efnislega samþykkur meginatriðum þessa máls en gerir athugasemd við einn þátt sem er þess eðlis að rétt þykir að gera grein fyrir honum í sérstöku áliti og leggja til breytingu á frumvarpinu.

Í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að sveitarfélög taki ákvarðanir um matsskyldu framkvæmda sem falla í C-flokk 1. viðauka nema um þær framkvæmdir sem þarfnast leyfi Mannvirkjastofnunar. Í fyrri drögum frumvarpsins var verkefnið hjá Skipulagsstofnun en stofnunin tekur samkvæmt gildandi lögum allar matsskylduákvarðanir og er auk þess með frumvarpinu falið að taka aðrar matsskylduákvarðanir en þær sem sveitarfélögin taka. Minni hlutinn bendir á að sveitarfélögin séu misvel í stakk búin til að sinna þessu hlutverki. Enginn vafi er á því að stærstu sveitarfélögin, eins og Reykjavík, geta vel sinnt þessu hlutverki á faglegan hátt en það kann að vera mun erfiðara fyrir minni sveitarfélög þar sem stjórnsýsla þeirra er fámennari og sérhæfing minni. Vakna þá upp spurningar um jafnræði og með hversu samræmdum hætti sveitarfélögin muni sinna þessu hlutverki. Einnig getur hæglega komið upp sú staða að sveitarfélögin séu framkvæmdaraðilar og taki því matsskylduákvarðanir varðandi eigin framkvæmdir. Eru sveitarfélögin þá með á sömu hendi ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum, framkvæmdaleyfi og skipulagsvald.

Þá er rétt að benda á að þær framkvæmdir sem taldar eru upp í C-flokki 1. viðauka eru ekki allar minni háttar og vel kann að vera að einhverjar þeirra teljist fela í sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því er mikilvægt að vanda vinnu við matsskylduákvarðanir. Hjá Skipulagsstofnun hefur orðið til mikil sérþekking á málaflokknum sem rétt er að nýta áfram. Þá hefur minni hlutinn einnig efasemdir um að fyrirkomulagið sé til einföldunar þar sem Skipulagsstofnun þarf að hafa eftirlit með ákvörðunum sveitarfélaganna og að verkefninu verði sinnt á samræmdan hátt. Má vel vera að þetta kalli á aukna vinnu og aukinn kostnað bæði hjá sveitarfélögunum og Skipulagsstofnun, en það á eftir að koma í ljós.

Þá bendir minni hlutinn einnig á að tilgangur frumvarpsins sé að bregðast við athugasemdum ESA sem bárust árið 2010. Þær athugasemdir lutu ekki að stjórnsýslu matsskylduákvarðana og því er ekki ástæða til að breyta því fyrirkomulagi í ljósi athugasemdanna líkt og lagt er til í frumvarpinu.

Í ljósi alls framangreinds telur minni hlutinn ekki rétt að sinni að fela sveitarfélögunum að taka matsskylduákvarðanir vegna framkvæmda í C-flokki 1. viðauka og leggur til breytingu þess efnis að hlutverkið verði enn sem komið er hjá Skipulagsstofnun.

Við í minni hlutanum leggjum því til breytingartillögu sem fjallar um þetta tiltekna atriði sem hefur að okkar mati ekki fengist nægilega haldgóður rökstuðningur fyrir hvers vegna er verið að breyta. Ég nefni þá sérstaklega þau atriði sem fram komu í andsvari hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, þ.e. mismunandi stærðir sveitarfélaga. Sum þeirra munu auðveldlega geta ráðið við að taka þessar ákvarðanir og hafa til þess mannafla og þekkingu, önnur ekki. Eftir sem áður er það fyrirhöfn hjá Skipulagsstofnun að hafa eftirlit með slíku þannig að það er ekkert verið að minnka stjórnsýsluna að því leytinu til heldur fer hún fram á tveimur stöðum í stað þess að fara fram á einum stað. Stundum getur það komið fyrir að sveitarfélögin eru sjálf framkvæmdaraðilar og verða þau þess vegna komin hringinn í kringum borðið í þessum efnum.

Í fjórða lagi er hér verið að bregðast við áríðandi athugasemdum ESA og allir í nefndinni eru sammála um að bregðast skuli við þeim en ekkert í þeim athugasemdum laut að því að fela sveitarfélögunum þetta verkefni. Það er pólitísk ákvörðun, tekin í ráðuneytinu og hefur að því er virðist stuðning meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar án þess að því fylgi, að okkar mati, nægilega haldgóður rökstuðningur.

Við leggjum til að þetta frumvarp verði samþykkt með breytingu sem fylgir í nefndarálitinu sem ég hef hér gert grein fyrir. Undir það skrifa sá sem hér stendur, hv. þingmenn Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Svandís Svavarsdóttir.