144. löggjafarþing — 47. fundur
 12. desember 2014.
hækkun bóta lífeyrisþega.

[10:52]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum síðustu daga fjallað hér um fjárlögin og ýmsa þætti þar er lúta að þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu, m.a. öryrkjum. Komið hafa áskoranir til ríkisstjórnarinnar og okkar allra sem þingmanna um að draga til baka fyrirhugaða lækkun almannatrygginga þar sem í frumvarpi til fjárlaga var gert ráð fyrir 3,5% hækkun en ákveðið að vegna nýrrar þjóðhagsspár yrði hún lækkuð í 3%. Við vitum öll að það eru ekki háar fjárhæðir sem þetta fólk hefur úr að spila. Í neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins eru upphæðirnar allt aðrar en þær 187 þúsund sem margur hefur úr að spila, þær eru í kringum 400 þúsund, held ég.

Við höfum líka gagnrýnt ítrekað við fjárlagaumræðuna aukna greiðsluþátttöku fólks í heilbrigðisþjónustu, lyfjakostnaði og fleiru því um líku. Þetta fólk, sem hefur jafnvel ekkert val um að taka lyf, á ekki neitt eftir og hefur jafnvel þurft að neita sér um þjónustu á sjúkrahúsunum.

Á dögunum var frétt í Ríkisútvarpinu þar sem hæstv. félagsmálaráðherra var spurð hvort hlustað yrði á Öryrkjabandalagið. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Það er alltaf mikilvægt að hlusta á það sem einstaka hópar eru að segja og sérstaklega þeir sem hafa lítið á milli handanna.“

Hún vísaði svo til þess að verðlagsbreytingarnar yrðu teknar fyrir á milli 2. og 3.umr. fjárlaga.

Ég var á fundi fjárlaganefndar í morgun. Þar kom ekki fram að þessu yrði breytt (Forseti hringir.) og því spyr ég hæstv. ráðherra: Er einhver von um að þessu verði breytt?



[10:55]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og ítreka það sem ég hef sagt að ég tel að sjálfsögðu mikilvægt að við hlustum á þær athugasemdir sem koma frá einstökum hópum og ekki hvað síst þeim sem hafa minnst á milli handanna.

Það sem við höfum verið að gera frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum er að setja aukna fjármuni inn í almannatryggingakerfið. Miðað við þær áætlanir sem eru núna, um 3% hækkun bótanna á næsta ári og 3,6% á þessu ári, þá er verið að hækka bætur um 6,7% á sama tíma og verðbólga hefur hækkað um 5%. Ef horft er síðan á framlög í heild í almannatryggingakerfið þá erum við búin að hækka greiðslu félagslegra bóta um 13% og til lífeyristrygginga um 21% á þessum tveimur árum. Það hefur kannski ekki farið mikið fyrir þeirri umræðu í þinginu að það er verið að bæta töluverðum fjármunum núna við 2. umr., sem við vorum að samþykkja, inn í greiðsluþátttökukerfið. Það snýr að lyfjunum. Það er líka verið að gera breytingar á skattkerfinu, sem snúa að skattlagningu á lyfjum. Auk þess fara nokkrir tugir milljóna sérstaklega í hækkun á tekjuviðmiði sem snýr að fólki sem hefur þurft að leita eftir fjárhagslegri aðstoð vegna lyfjakaupa eða annarra hjálpartækja. Þarna er hugað að því.

Við höfum líka gert breytingar á barnabótunum. Núna kemur sú viðbót inn í húsaleigubótakerfið að tryggt verður að þeir fjármunir fari einmitt til þeirra fjölskyldna sem hafa minnst á milli handanna með því að breyta því hvar tekjuskerðingin kemur inn og upphæðirnar eru líka hækkaðar. Það sem við erum núna að undirbúa snýr að húsaleigubótunum á næsta ári og verður hugað sérstaklega að því að þær komi sem best til móts við þá sem hafa allra minnst á milli handanna.



[10:57]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það breytir því ekki að þrátt fyrir að mikið hafi verið lagt í þá er augljóst að fólk sem býr við lágar tekjur ber skarðan hlut frá borði. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar er að lækka prósentuna vegna viðmiða sem hér er vitnað til vegna nýrrar þjóðhagsspár. Mér er eiginlega alveg óskiljanlegt að það sé gert. Eins er með tekjuviðmið öryrkja og lífeyrissjóðsgreiðslur og aðrar tekjur. Það hefur verið mikið undan því kvartað.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hver stefnan sé í þrepahækkun, hvað hún sjái fyrir sér næstu þrjú árin. Verður tekjuviðmiðið hækkað? Hversu mikið sér hún fyrir sér að (Forseti hringir.) fólk geti haft á milli handanna umfram þessi 187 þúsund í dag til (Forseti hringir.) að komast af?



[10:58]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný þingmanninum fyrirspurnina. Ég veit að hún er öflugur bandamaður í því að tryggja að við getum haldið vel utan um þá sem hafa minnst á milli handanna í íslensku samfélagi.

Við erum núna með vinnu í gangi í ráðuneytinu undir stjórn hv. þm. Péturs Blöndals um heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Þar erum við komin ansi langt með tillögur sem snúa að einföldun á kerfinu, hugmyndir varðandi aukinn sveigjanleika við starfslok. Ég er að bíða eftir því að menn komi með tillögur sem snúa að þeim breytingum gagnvart öryrkjum að fara úr örorkumati yfir í starfsgetumat. Ég tel að þær ættu að skila sér fljótlega eftir áramót og á þeim munum við að sjálfsögðu byggja áætlanagerð okkar í framhaldinu.

Ég vil líka nefna að við erum að hefja mikið samráðsferli við sveitarfélögin um uppbyggingu á félagslegu húsnæði. Sá kostnaður hvílir (Forseti hringir.) hvað þyngst á þeim sem hafa minnst á milli handanna. Ég tel mjög mikilvægt að við náum saman um það hvernig við ætlum að byggja húsnæðiskerfið upp á næstu árum.