144. löggjafarþing — 49. fundur
 15. desember 2014.
læknadeilan og laun lækna.

[10:48]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða læknaverkfallið og gang mála þar við hæstv. fjármálaráðherra. Orð ráðherrans og staðhæfingar um laun almennra lækna sem féllu hér í síðustu viku hafa vægast sagt farið illa í fólk. Þau hafa hert læknadeiluna enn frekar. Ráðherrann staðhæfði, með leyfi forseta, að „almennur læknir á Landspítalanum [væri] með um 1,1 milljón á mánuði í heildarlaun og yfirlæknar með um 1.350 þúsund í heildarlaun“. Það mátti skilja á ráðherranum að þetta væru of há laun til að vera eitthvað að kvarta yfir.

Ég veit ekki hvar hæstv. ráðherra nær í sínar upplýsingar en á vef Læknafélags Íslands er þetta nokkuð skýrt en alls ekki eins og kom fram í máli ráðherra. Tölurnar sem hæstv. ráðherra nefndi gætu þó hugsanlega átt við lækna, þá helst sérfræðinga, sem eru að vinna um 100% vinnu á Landspítalanum. Af hverju gera þeir það? Það er vegna þess að það er undirmannað en sjúklingarnir halda áfram að streyma inn og það þarf einhver að sinna þeim og það gera þeir. Það gera læknar. Stjórnvöld bjóða ekki upp á fulla mönnun á sjúkrahúsinu en læknar standa sína plikt og sinna okkur, þeir eru fjarri fjölskyldum sínum á meðan og sinna oft og tíðum um 100% vinnu þar.

Ég vil biðja ráðherra að skýra aðeins frekar hvernig málið horfir við honum. Er það orðið læknum til trafala í þessari deilu að þeir taki á sig að manna heilbrigðiskerfið okkar, allt of fáliðuð og þiggi fyrir það laun samkvæmt taxta? Væri betra ef þeir mundu bara stimpla sig út eftir 100% vinnu þannig að við værum með annan hvern mánuð í fullri virkni á Landspítalanum? Þá væru kannski einhverjar launatölur hentugri fyrir hæstv. ráðherra að skilja. Er það sanngjarnt og skynsamleg aðferð hjá hæstv. ráðherra að tala niður til lækna á þennan hátt um leið og hann situr andspænis þeim við samningaborðið?



[10:50]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki talað niður til lækna. Ég ber mikla virðingu fyrir störfum þeirra og ég tel að í umræðu um þessa kjaradeilu sé mikilvægt að staðreyndum sé haldið vel til haga. Það er til dæmis staðreynd að sérfræðingar á Landspítalanum eru með um 1.100 þús. kr. á mánuði. Vilji menn fá þessar tölur frá fjármálaráðuneytinu er alveg sjálfsagt að útvega þær, þetta er allt saman til. Það er sama með yfirlækna, þeir eru með um 1.350 þúsund og við erum, já, að tala um heildarlaun. Er það vandamál að samsetning vinnunnar á Landspítalanum og víða annars staðar í kerfinu er með þeim hætti sem hefur birst okkur að undanförnu þannig til dæmis að dagvinnulaunin eru tiltölulega lágt hlutfall af heildarlaunum? Já, mér finnst það ekki gott. Ég skil sjónarmið ungra lækna sem vilja fá hærra hlutfall launa sinna á dagvinnutíma og vera laus við alla þá vinnuskyldu sem er í kerfinu í dag. Ég skil það sjónarmið mjög vel. En þetta er ástand sem báðir aðilar verða að bera ábyrgð á. Þeir sem hafa gert kjarasamninginn með þeim hætti sem hann hefur þróast yfir árin verða báðir að bera ábyrgð á því. Og læknar verða líka að bera ábyrgð á því að kjarasamningar hafi þróast með þeim hætti yfir árið að meiri og meiri áhersla hafi verið lögð á að fá óunna yfirvinnu greidda sem hluta af dagvinnulaunum, að fá álag vegna vakta o.s.frv. Þetta verða báðir aðilar að taka sína ábyrgð á.

Í umræðunni sem hér var verið að vísa til var ég ekki að skattyrðast neitt við lækna. Ég var einfaldlega að beina þeirri fyrirspurn til þingmanns sem kom hingað upp og gerði kröfu til þess að ég færi að leysa deiluna, þá velti ég bara upp tveimur spurningum, í fyrsta lagi: Er eðlilegt að menn leggi áherslu á mjög miklar launahækkanir til lækna á sama tíma og menn eru talsmenn hátekjuskatts? Mér finnst að það sé hluti af umræðunni. Og síðan líka: Er eðlilegt (Forseti hringir.) að mál séu í þessum hnút þegar krafan er í raun og veru um að heil meðalmánaðarlaun í landinu bætist við laun lækna? Er það eðlilegt?



[10:52]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Fyrst við erum að ræða hér staðreyndir skulum við gera það rétt. Sannleikurinn er sá að læknir sem vinnur samkvæmt kjarasamningi Læknafélags Íslands byrjar með rúmar 340 þús. kr. á mánuði eftir sex ára háskólanám. Það er staðreynd. Síðan geta tekjur hans aukist upp í rúmar 370 þúsund eftir kandídatsárið. Svo er aðeins hækkun þremur árum eftir það upp í 425 þúsund og næsta hækkun er þegar viðkomandi verður sérfræðingur og þá hækkar læknirinn upp í 550 þús. kr. Eftir það, þegar viðkomandi er orðinn um það bil 37–40 ára gamall, getur læknirinn hækkað laun sín upp í tæpar 600 þús. kr. Þetta eru staðreyndir málsins. Við skulum ræða þær. Við þurfum ekki að ræða hátekjuskatt í þessu samhengi, ég er til dæmis (Forseti hringir.) enginn talsmaður hans.



[10:54]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hverju það á að skila að tína hér eitthvað til upp úr launatöflunum. Staðan er þessi: Ef gengið verður að kröfum lækna eins og þær hafa birst á 30 samninganefndarfundum mun launakostnaður ríkisins hækka um 50%. Það er bara staðan. Launakostnaður ríkisins mun hækka um 50%. Það væri betra að tala um vinnufyrirkomulagið og þann vanda sem hv. þingmaður bendir á, að dagvinnuhluti launa lækna er lágur og það er ekki mikill hvati fyrir unglækna að koma heim. Við deilum áhyggjum af þessu en ekki er hægt að rísa hér upp í umræðunni og segja ríkið bera eitt ábyrgð á þessu öllu saman. Menn hafa samið svona yfir tíma, læknar verða að deila ábyrgð á kjarasamningunum eins og þeir eru núna með ríkinu. Við erum svo sannarlega tilbúin til að ræða breytingar á þessu en við getum ekki gengið að kröfum sem hækka launakostnað ríkisins um 50%. Við getum bara ekki gert það.