144. löggjafarþing — 53. fundur
 20. janúar 2015.
háspennulögn yfir Sprengisand.

[14:10]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil beina orðum mínum til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra og byrja á því að óska henni velfarnaðar í starfi og fagna því í sjálfu sér að nú loksins sinnir einn ráðherra heill og óskiptur þessum mikilvæga málaflokki, umhverfis- og auðlindamálum.

Ég vil vísa til ummæla hæstv. ráðherra í Kastljóssþætti nýverið, sem ég vissulega fagna þar sem hæstv. ráðherra lýsti sig lítt hrifinn af framkvæmdum sem Vegagerðin og Landsnet fyrirhuga á miðhálendi Íslands, þ.e. háspennulínulögn og vegagerð yfir Sprengisand. Hæstv. ráðherra brást ítrekað við spurningum þáttarstjórnanda þannig að hún lýsti sig ekki hrifna af þeim framkvæmdum. Þar er ég hæstv. ráðherra sammála og fagna því. Ég vil fylgja því eftir með því að spyrja hæstv. ráðherra: Er þá ekki eðlilegt að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að Vegagerðin og Landsnet hverfi frá þessum áformum, kalli til baka drög að matsskýrslum, m.a. vegna þess að í ráðuneyti hæstv. ráðherra stendur yfir vinna að mótun nýs landsskipulags sem á að taka til miðhálendisins ekki síst?

Í öðru lagi með vísan til þess að á Alþingi eru til umfjöllunar frumvörp sem varða leikreglur á þessu sviði, þ.e. hvernig fara skuli með álitamál varðandi lagningu jarðstrengja eða háspennulína: Er ekki óeðlilegt að opinber og hálfopinber stofnun, eða fyrirtæki, standi í slíku, séu að reyna að knýja á um framkvæmdir eða undirbúning framkvæmda af þessu tagi akkúrat samtímis því að landsskipulagsstefna er í mótun sem á að leysa svæðisskipulag miðhálendisins af hólmi og Alþingi er að fjalla um lagaumgjörðina sem á að notast við í sambandi við ákvarðanatöku um mál af þessu tagi, t.d. hvar raflínur eru leiddar í jörð og hvar háspennulínur eru? Er ekki ráðlegt að á eftir A komi B og hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að þessi (Forseti hringir.) fyrirtæki hverfi frá áformum sínum?



[14:12]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Áður en forseti gefur hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra orðið vill forseti óska hæstv. ráðherra til hamingju með nýtt og virðingarmikið og mikilvægt starf, bjóða hæstv. ráðherra velkominn til starfa á Alþingi sem umhverfisráðherra og jafnframt þakka hæstv. ráðherra mjög gott og farsælt samstarf jafnt á vettvangi þingsins sem vettvangi þingflokksformanna.



[14:13]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka innilega fyrir frómar óskir og góðar kveðjur, en þakka jafnframt hv. fyrirspyrjanda Steingrími J. Sigfússyni fyrir fyrirspurnina sem og góðar óskir í minn garð. Mér þykir vænt um að fá þessa fyrirspurn frá þingmanninum. Það er alveg rétt sem hann getur um, í ráðuneytinu er í undirbúningi landsskipulagsstefna og mun koma fljótlega fyrir Alþingi. Hins vegar er ég ekki sammála fyrirspyrjandanum um að það sé eðlilegt að ég úttali mig mikið um þessi málefni, þau eru ekki á sviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, það eru aðrir ráðherrar sem fara bæði með vegagerð sem og raforkumálin og línulagnir í landinu þannig að ég ætla ekki að úttala mig um það á þessu stigi. Ég er búin að segja að mér finnst hvorki rétt að leggja malbikaðan veg né setja háspennulagnir yfir Sprengisand. Hins vegar finnst mér alveg geta komið til greina að við getum lagt þær í jörðu. Ég veit að það kostar mikið, en mér finnst eðlilegt að fyrirspyrjandi beini þessari fyrirspurn síðar til þeirra ráðherra sem eru með þetta á sínu verksviði.



[14:14]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mér er að sjálfsögðu ljóst að orkumál heyra annars staðar undir sem og vegamál. Innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra fara formlega með forsvar þeirra mála en umhverfismál og skipulagsmál heyra undir verksvið hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem og þjóðgarðar og friðlýst svæði. Þannig vill til að þessar fyrirhuguðu framkvæmdir eiga að þræða tiltölulega mjótt sund milli Vatnajökulsþjóðgarðs annars vegar í austri, stærsta þjóðgarðs Evrópu, og friðlands í Þjórsárverum í vestri hins vegar. Það er alveg ljóst að komi til þessara framkvæmda munu þær marka mjög næsta umhverfi þessara svæða sem hæstvirtum ráðherra ber auðvitað að standa vörð um.

Ég vil leyfa mér að hvetja hæstv. ráðherra til að íhuga hvort það sé ekki einmitt á verksviði hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að hafa frumkvæði að því að á meðan landsskipulagsstefnan er í mótun og þangað til Alþingi hefur fjallað um hana og þangað til Alþingi hefur lokið (Forseti hringir.) endurskoðun lagarammans um raflínur og jarðstrengi verði ekki teknar neinar frekari ákvarðanir í þessum efnum.



[14:16]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig tala nokkuð skýrt bæði hér áðan sem og í Kastljóssþættinum, að ég væri sammála fyrirspyrjanda um að ég vildi ekki háspennulagnir á þessu svæði ofan jarðar þannig að ég geri ekki annað en að endurtaka þá afstöðu mína og skoðun.

Ég þakka fyrir hvatninguna og mun reyna að standa undir henni og berjast fyrir þeim skoðunum sem ég hef. Ég held að þannig eigi maður að starfa. Ef maður hefur sannfæringu berst maður fyrir henni.