144. löggjafarþing — 54. fundur
 21. janúar 2015.
framhaldsskólar, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 214. mál (rafræn námsgögn, gjaldtökuheimild o.fl.). — Þskj. 734.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[15:43]

[15:38]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp hefur vafist mikið fyrir mér af ástæðum sem ég hef því miður ekki tíma til að rekja hér, en þar standa helst upp úr kostnaðarþátttaka ríkisins af samgöngum og spurningin um reglugerðarheimildina í 3. gr.

Það er þrennt sem ég vil halda til haga. Í fyrsta lagi: Talið er að námsgagnakostnaður nemenda lækki eða hækki í það minnsta ekki. Mikilvægt er að þetta gangi eftir. Í öðru lagi: 51. gr. laga um framhaldsskóla kveður á um kostnaðarþátttöku ríkisins við námsgagnakaup nemenda. Það ákvæði þarf að virkja og skora ég á hv. fjárlaganefnd að gera það. Í þriðja lagi: Samtöl nefndar við ýmsa aðila voru mjög gagnleg og sorglegt að almenningur hafi ekki haft aðgang að þeim.

Eftir verulega íhugun og samráð við fjölmarga aðila um allar hliðar þessa máls hef ég komist að þeirri niðurstöðu að kostir þessa frumvarps vegi þyngra en mögulegir ókostir. Framleiðsla á íslenskum rafrænum námsgögnum, sem höfundar hafa hag af því að framleiða, er ákallandi, enda erum við mjög aftarlega í upptöku þeirra á alþjóðlegum mælikvarða. Því greiða ég og aðrir þingmenn Pírata atkvæði með frumvarpinu.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir. (Gripið fram í: Heyr.)



[15:39]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Samfylkingin vill vekja athygli á því að hér er í fyrsta sinn verið að setja í lög heimild til innheimtu gjalda hjá nemendum fyrir námsgögn. Samfylkingin telur afar mikilvægt að stuðla að aukinni notkun rafrænna námsgagna í kennslu en er ósammála því að nemendur eigi einir að greiða fyrir þróun og innleiðingu slíks námsefnis. Það eru engar hugmyndir lagðar fram um upphæð gjaldtökunnar eða umfang og það vantaði skýrari línur um þetta. Samfylkingin telur að gjaldtökuheimild sem er verið að veita sé ekki í samræmi við grundvallarhugmyndina um jafnan rétt allra til náms óháð efnahag. Við munum sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins í heild þó að við gerum vissulega athugasemdir við þessa grein.



[15:40]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um þann þátt sem snýr að gjaldtöku fyrst og fremst í þessu frumvarpi. Það er rétt, sem komið hefur fram, að það er líka margt gott þarna, meðal annars að fá náms- og starfsráðgjafa inn í námsorlofssjóði. Það er vert að vekja athygli á því að vegna þeirrar umræðu sem hér fór fram í þingsal þá voru fjármunir settir í það sem annars var ekki búið að gera ráð fyrir, annars hefðu þeir bæst við þann sjóð.

Varðandi rafrænu námsgögnin þá erum við hlynnt því að sú útgáfa verði aukin, en við getum ekki fallist á þessa heimild til gjaldtöku. Við viljum frekar stefna í átt að jöfnuði í skólakerfinu og hefðum talið borð fyrir báru núna, miðað við fjárlög, að tilraunaskólar hefðu verið fengnir til verksins þar sem ríkið hefði greitt fyrir þann kostnað og fyrir fram ákveðnar greinar hefðu verið settar þar undir til að búa til þessa tilraunakennslu í staðinn fyrir að þetta sé opið upp á gátt og nemendur borga.



Frv.  samþ. með 42 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁsmD,  ÁsF,  BirgJ,  BjarnB,  BjÓ,  BP,  BN,  EKG,  ElH,  ELA,  EyH,  FSigurj,  GÞÞ,  GStein,  HE,  HHG,  HBH,  IllG,  JMS,  JónG,  JÞÓ,  KG,  KÞJ,  LínS,  ÓP,  PJP,  PHB,  REÁ,  RM,  SDG,  SÁA,  SigrM,  SÖÁ,  SIJ,  SilG,  UBK,  ValG,  VigH,  VilÁ,  VilB,  WÞÞ,  ÞórE.
14 þm. (ÁPÁ,  BjG,  BVG,  HHj,  KaJúl,  KLM,  LRM,  OH,  PVB,  SII,  SJS,  SÞÁ,  SSv,  VBj) greiddu ekki atkv.
7 þm. (BÁ,  GuðbH,  GBS,  RR,  ÞorS,  ÖJ,  ÖS) fjarstaddir.
2 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[15:41]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Með gleði greiði ég atkvæði með frumvarpinu. Ég tel að sú breyting sem hér er farið inn á, að heimila rafræn námsgögn og greiðslu fyrir þau, geti, ef vel er á spilunum haldið, valdið verulega mikilli breytingu til framtíðar og gert að verkum að kennslan verði nútímavædd og í samræmi við það sem ungt fólk upplifir, að vera á netinu og geta verið að læra. Það er leikur að læra.



[15:42]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er mjög hlynnt því að mótuð sé stefna og búinn til vettvangur til að hafa rafræn námsgögn. Mér finnst þó mjög mikilvægt að benda á að það er ekkert þak, mér finnst það dálítið alvarlegt, og jafnframt er ekki nægilega skýrt hvernig höfundar fá greitt fyrir þá vinnu sem þeir leggja í að búa til námsgögn. Ég hefði viljað sjá skýrari og skarpari greinar þar að lútandi. En mér finnst þetta framför og ég fagna henni og mun með gleði greiða atkvæði með þessu. Þetta mun gera námið einfaldara og sennilega munu nemendur verða betri í bakinu ef þetta verður að veruleika.