144. löggjafarþing — 56. fundur
 26. janúar 2015.
úrbætur í húsnæðismálum.

[15:21]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að hafa um það mörg orð hversu alvarlegt ástandið er á húsnæðismarkaði, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu og svo sem víðar á landinu; skortur á íbúðum, fjármögnun kaupa á íbúðarhúsnæði erfið og lítill aðgangur að leiguhúsnæði, leiga dýr. Það má til sanns vegar færa að heil kynslóð sé eiginlega að verða innlyksa og komist ekki til þess að eignast eða fá umráð yfir sinni fyrstu íbúð. Það eru löngu komnar fram tillögur um ýmsar úrbætur í húsnæðismálum en ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um framkvæmd þeirra tillagna.

Fyrir löngu, fyrir meira en tveimur árum, komu fram tillögur um stofnstyrki frá ríki og sveitarfélögum vegna félagslegs húsnæðis. Það er ljóst að sveitarfélögin hafa áhuga á að koma verkefnum af stað en það stendur á því að ríkið komi að málum og leggi slíkan stuðning fram. Hvenær er að vænta ákvörðunar um það og lagaheimildar til þess að veita slíka styrki?

Í annan stað eru fyrir löngu komnar fram tillögur um eitt kerfi húsnæðisbóta þar sem myndarlega er bætt í núverandi kerfi húsaleigubóta. Nokkuð var gert að því leyti í fjárlögum í haust en meira þarf til. Það er mjög mikilvægt að marka strax stefnu um þetta sameiginlega kerfi með nýrri löggjöf. Hvenær er að vænta frumvarps um það?

Að síðustu: Þegar sveitarfélögin hafa áhuga á því að grípa til aðgerða á þessu sviði þá er mjög bagalegt þegar jafnlítið gerist hjá ríkisstjórninni og raun ber vitni. Þess vegna vildi ég hvetja ráðherra eindregið til að hraða framlagningu frumvarpa sem geta gert okkur mögulegt að vinda bráðan bug að úrlausn á þessu erfiða ástandi.



[15:23]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir þessa fyrirspurn. Við deilum svo sannarlega áhuga á húsnæðismálunum og ég tek undir áhyggjur hans af því hvernig staðan er. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu daga þá var frost, má segja, ekki hvað síst hér á suðausturhorninu, í byggingu á nýju húsnæði og við sjáum að mjög stórir hópar af ungu fólki eru að koma inn á húsnæðismarkaðinn. Við sjáum líka, ekki hvað síst í hverfunum hér í kringum okkur, í miðbæ Reykjavíkur, að húsnæði hefur verði keypt undir ferðaþjónustu, undir hótel og gistiheimili sem hefur gert það að verkum að ungt fólk sem er til dæmis í námi hefur ekki haft möguleika á því að afla sér húsnæðis hérna.

Ég hef lagt megináherslu á einmitt þetta frá því að ég kom hingað inn í ráðuneytið. Ég geri ráð fyrir því, eins og hv. þingmaður var að spyrja hér, varðandi þau frumvörp sem eru fram undan, að lagaheimild til að veita stofnstyrki og/eða vaxtaniðurgreiðslur, því að ekki var fyllilega sátt um þá tillögu í verkefnisstjórninni um framtíðarskipan húsnæðismála, komi hér fram í þinginu fljótlega.

Við höfum unnið hörðum höndum að því að búa til heildarlöggjöf varðandi húsnæðisbæturnar þannig að húsaleigubætur munu flytjast frá sveitarfélögunum til ríkisins og að jafna stuðninginn við þá sem eru á leigumarkaði við þann stuðning sem fólk hefur verið að fá sem á eigin húsnæði.

Það er hins vegar líka mikilvægt að benda á að hluti af þeim tillögum sem sneru að ungu fólki, sem er að huga að húsnæðiskaupum, er ekki á borði félags- og húsnæðismálaráðherra. Það eru skattkerfisbreytingar sem voru líka hluti af tillögunum sem liggja fyrir og það er á borði fjármálaráðherra. Síðan höfum við verið að skipa óformlega starfshópa til að ná utan um það hver þörfin er fyrir félagslegt húsnæði hjá sveitarfélögunum þannig að við getum byrjað á því að afla okkur upplýsinga um það hver hin raunverulega þörf er.



[15:25]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Frumvörp um úrlausn geta ekki komið of fljótt fram. Þetta er orðið stóralvarlegt ástand. Ég vil nefna tvennt sérstaklega.

Annars vegar það sem varðar vaxtaniðurgreiðslu. Það er mjög brýnt að breyta lögum á þann veg að sveitarfélög geti fengið vaxtaniðurgreiðslu vegna byggingar félagslegs húsnæðis óháð því hvar þau taka lán. Í dag er það bundið við Íbúðalánasjóð og Íbúðalánasjóður getur einfaldlega ekki boðið sambærileg kjör við það sem stærstu sveitarfélögin geta aflað á frjálsum markaði. Það er alveg fráleitt að skuldbinda sveitarfélögin við það að skipta bara við Íbúðalánasjóð að þessu leyti.

Hitt sem skiptir miklu máli að gera er að breyta reglum um skuldaþak sveitarfélaga þannig að áhugasöm sveitarfélög sem eru skuldsett hér í nágrenni höfuðborgarinnar, ég nefni bæði Kópavog og Hafnarfjörð vegna samtala við forustufólk þar, geti ráðist í frekari uppbyggingu félagslegs húsnæðis og reki sig ekki upp undir skuldaþakið sem sett hefur verið. Það eru engin efnisleg rök fyrir því að félagslegar íbúðir telji upp í skuldaþakið. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að breyta reglum að þessu leyti og þetta eru hvort tveggja atriði sem er einfalt fyrir ráðherrann að koma strax með breytingartillögur um og geta skipt mjög miklu máli.



[15:26]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir hvatninguna. Ég held að þetta sé eitt af því sem ég get tekið undir að sé mikilvægt fyrir innanríkisráðuneytið að skoða sem snýr að sveitarstjórnarlögunum og þeim reglum sem snúa að skuldsetningu sveitarfélaga. Það sem hefur hins vegar verið bagalegt að vinna með er að það liggja ekki fyrir neinar áætlanir sveitarfélaganna um það hver þörfin eftir félagslegu húsnæði er.

Reykjavíkurborg steig kannski fyrst sveitarfélaga það skref að samþykkja uppbyggingu á 100 félagslegum íbúðum á ári næstu fimm árin. Það snýr að fólki sem er í félagslegum eða fjárhagslegum vanda. Við eigum enn þá eftir að fá upplýsingar um húsnæði fyrir fatlað fólk. Við eigum líka eftir að fá upplýsingar um þjónustuíbúðir fyrir aldraða og síðan er mikilvægt að skoða hver uppbyggingarþörfin er varðandi námsmenn. Þetta er nákvæmlega það sem við erum að reyna að ná utan um með sveitarfélögunum.

Það sama gildir varðandi breytingarnar á húsaleigubótunum. (Forseti hringir.) Ég tek undir að það er mjög mikilvægt. Ég fagna því líka að aðilar vinnumarkaðarins hafa verið að tjá sig (Forseti hringir.) mjög skýrt um mikilvægi húsnæðismála nú í aðdraganda kjarasamninga.