144. löggjafarþing — 56. fundur
 26. janúar 2015.
um fundarstjórn.

svar við fyrirspurn.

[15:34]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Þann 20. október 2014 lagði ég fram skriflega fyrirspurn til fjármálaráðherra um ráðstöfun 80 milljarða kr. í svokallaða leiðréttingu, stóru millifærsluna. Ég fékk svar við þeirri fyrirspurn tæpum tveimur mánuðum síðar. Í svarinu fólst ekkert svar, þ.e. að spurningunni yrði ekki svarað heldur yrði vísað til skýrslu sem á að koma fram einhvern tíma síðar á árinu.

Við það get ég ekki sætt mig og setti mig í samband við virðulegan forseta til að leita hjálpar við að kreista svar út úr fjármála- og efnahagsráðherra. Það svar er ekki enn þá komið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og hef ég því ákveðið að leita réttar míns til að krefja ráðherrann um að gegna skyldum sínum og svara fyrirspurnum sem fyrir hann eru lagðar. Það verður þá gert samkvæmt þeim leiðum sem mér eru færar utan þings.



[15:35]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Þetta mál var tekið hér upp í ræðustól Alþingis og sömuleiðis á fundi forsætisnefndar Alþingis á fundi þingflokksformanna. Forseti brást þannig við að hafa samband við ráðuneytið sem svaraði því til að farið yrði í það að svara þessum fyrirspurnum, sem eru þrjár talsins, með fyllri hætti en gert hafði verið. Ætlunin var sú og ég hafði vonast til þess að hægt yrði að dreifa því svari við upphaf þings eftir áramótin. Svo varð ekki. Forseti hefur sömuleiðis verið í sambandi við fjármálaráðuneytið í þessum mánuði og hefur fengið þau svör nýjust, sem greint var frá á fundi þingflokksformanna nú fyrr í dag, að þess væri að vænta að þessi svör sem hv. þingmaður hefur hér kallað eftir litu dagsins ljós nú um miðja vikuna.