144. löggjafarþing — 56. fundur
 26. janúar 2015.
aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins.
fsp. KaJúl, 381. mál. — Þskj. 510.

[16:14]
Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 10. apríl árið 2013 skilaði starfshópur sem vann innan fjármálaráðuneytisins niðurstöðum sínum og tillögum hvað varðar opin gögn sem ber yfirskriftina Opin gögn og birting fjárhagsupplýsinga ríkisins. Þetta var liður í verkefni sem sett var af stað til þess að auka aðgengi fólks og Íslendinga allra að fjárhagslegum málefnum hins opinbera, sem ég tel að skipti alveg gríðarlega miklu máli í því að auka gagnsæi stjórnsýslunnar, auka aðhald og getur líka sparað töluverða vinnu og kostnað innan stjórnsýslunnar við það að svara fyrirspurnum um hin fjárhagslegu málefni. Þetta er líka hluti af nýjum tímum og liður í að nýta þá tækni sem til er til þess að veita góðan aðgang að fjárhagslegum málefnum hins opinbera. Það er orðið gríðarlega lítið mál að gera þetta.

Það sem nefndin gerði á þessum tíma var að hún bjó til og kláraði að búa til ákveðið leyfi sem gildir fyrir þau gögn sem opnuð eru og þá gagnapakka sem opnaðir eru innan fjármálaráðuneytisins. Síðan voru lagðir til og tilnefndir ákveðnir gagnapakkar sem voru opnaðir sem svokölluð hrágögn, þannig að aðilar sem til þekkja geti tekið gögnin og unnið með þau og birt skýrar myndir af fjárhagsupplýsingum hins opinbera. Við töldum best að birta þetta sem hrágögn en ekki á vefsíðu ríkisins, þ.e. að ríkið væri ekki að matreiða þessar upplýsingar heldur væru hrágögnin aðgengileg svo að þriðji aðili gæti nýtt þau og birt þau, t.d. fjölmiðlar.

Síðan þetta var hafa fleiri gagnapakkar ekki verið birtir. Ég er dálítið undrandi á því vegna þess að búið var að skilgreina leyfið og það hafði sýnt sig að tilraunin sem farið var af stað með í apríl 2013 gekk vel og gekk upp. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað hafi verið gert síðan að þessi fyrstu skref voru stigin í apríl 2013 til þess að auka aðgengi að fjárhagsupplýsingum hins opinbera. Hvað ætlar hæstv. ráðherra sér að gera næst í þeim efnum?

Ég veit að það er í gangi vinna á vegum innanríkisráðuneytisins sem er þá að vinna fyrir Stjórnarráðið í heild sinni. Það er gott og vel. Sú vinna getur haldið áfram. En það sem ég átta mig ekki á er hvers vegna sú vinna virðist hafa stöðvað það að fjármálaráðuneytið héldi áfram að tilnefna gagnapakka og opna enn frekar fyrir aðgengi að fjárhagsupplýsingum hins opinbera, vegna þess að það á í raun ekkert að vera því til fyrirstöðu að halda verkefninu áfram og þarf aðeins að taka ákvörðun um gera það.



[16:17]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Vorið 2013 starfaði starfshópur á vegum forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis að því að gera upplýsingar úr bókhaldi ríkisins aðgengilegar almenningi samkvæmt viðmiðum um opinber gögn. Hópurinn vann með gögn frá Fjársýslu ríkisins og var ákveðið að gögnin sem fram til þess höfðu komið fyrir sjónir fárra yrðu hér eftir birt og uppfærð á nýju vefsvæði til framtíðar fyrir opin gögn á vefnum island.is undir vefslóðinni opingogn.is.

Gögnin sem ákveðið var að birta snertu árshluta- og mánaðaruppgjör ríkissjóðs. Þau voru birt á hrágagnaformi og notast við CSV-skráarsnið. Það eru aðgengilegar skrár þar sem gildi eru aðskilin með kommum og hægt er að opna þær í öllum helstu gagnavinnsluforritum. Starfi hópsins lauk með því að ákveðið var að fara að tillögu um að birta gagnasöfnin á opingogn.is. Frá þeim tíma hefur verið unnið að því í samstarfi ráðuneytisins, Þjóðskrár og Fjársýslu ríkisins að uppfæra gögnin reglulega á vefnum. Þarna er verið að vinna að þessum málum í fyrsta sinn. Í ferlinu hafa komið upp hnökrar en unnið hefur verið að því að leysa þá. Nú er þetta á vefnum sem aðgengilegar upplýsingar upp úr árshluta- og mánaðaruppgjörum frá 2010 til og með september 2014. Gögnin verða svo uppfærð eftir því sem fram líður.

Auk þessa skoðaði hópurinn nokkur erlend leyfi vegna opinberra gagna og mótaði sérstakt leyfi fyrir gögn fjársýslunnar en sú vinna nýtist áfram við mótun almenns leyfis, eins og ég kem að á eftir. Frá því að starfi hópsins lauk hafa þessi mál áfram verið í skoðun í fjármálaráðuneytinu í takti við stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka aðgengi almennings að gögnum hins opinbera, einkum upplýsingum sem snerta ráðstöfun almannafjár.

Eins og fyrirspyrjandi kom inn á er það svo að með auknu aðgengi almennings að upplýsingum leggjum við grunn að betri nýtingu almannafjár og aukum enn frekar vitund allra og skilning á því í hvað skattpeningarnir fara.

Mikilvægt skref í þessa átt var stigið síðastliðið sumar hjá Fjársýslu ríkisins þegar stofnunin kynnti ríkisreikning fyrir árið 2013. Þá var jafnframt opnaður nýr vefur, rikisreikningur.is, sem ætlað er að veita gott aðgengi að ríkisreikningi hvers árs í anda opinna gagna. Á vefnum er að finna sundurliðun á tekjum og gjöldum ríkisins frá árinu 2004. Gögnin er hægt að skoða á margvíslegan hátt. Á vefnum er að finna almenn yfirlit, en einnig er hægt að kafa dýpra og fá upplýsingar niður á kostnaðartegundarlykil. Vefurinn gefur fólki tækifæri á að bera saman ýmis útgjöld á vegum ríkisins, t.d. eftir stofnunum og árum, með aðgengilegri hætti en verið hefur. Það hefur komið mér nokkuð á óvart hversu hljótt þetta hefur farið, þetta er nefnilega töluvert mikil bylting í auknu aðgengi almennings að kostnaðarlyklum ríkisins.

Það kom reyndar í ljós til að byrja með að sumir fjölmiðlar nýttu hann töluvert til að varpa ljósi á þróun ýmissa ríkisútgjalda, en síðan finnst mér hafa dregið nokkuð úr því eftir því sem frá hefur liðið, en eflaust verður þetta viðvarandi gagn fyrir fjölmiðla og almenning til að afla gagna um þessi mál. Að sjálfsögðu getur vefurinn nýst fleirum.

Þessi vefur, rikisreikningur.is, er skref í átt til greiðara aðgengis almennings að fjárhagsupplýsingum, eykur gegnsæi og traust. Þá má nefna að innan fjármálaráðuneytisins eru næstu skref í að auka aðgengi að fjárlagagögnum í vinnslu. Ráðuneytið hyggst taka þátt í tilraunaverkefni um nýjan alþjóðlegan fjárlagagagnastaðal sem nýtist til samanburðar á fjárlagagögnum ríkja. Samtökin Open Knowledge, sem vinna að því að opna og auka aðgengi að gögnum, hafa þróað staðalinn sem nokkur ríki eru þegar farin að prófa. Markmiðið með staðlinum er að til sé vel uppbyggt og vel læsilegt gagnasnið sem hægt er að nota til að bera saman fjárlagagögn innan og milli landa og standa vonir til að sem flest lönd muni á endanum nota kerfið.

Aukið gegnsæi um störf hins opinbera er til þess fallið að auka traust almennings á stjórnvöldum, dýpka þjóðmálaumræðuna og gera hana skilmerkilegri. Upplýsingar um hvernig stjórnvöld ráðstafa almannafé er veigamikill þáttur í þeim efnum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: Ríkisstjórnin leggur áherslu á aðgengi almennings að gögnum hins opinbera. Einkum er brýnt að auka og bæta aðgengi að upplýsingum um ráðstöfun almannafjár.

Í anda þess hófst í sumar vinna á vegum nýs starfshóps í innanríkisráðuneytinu sem fjármála- og efnahagsráðuneytið á aðild að. Hópurinn á að starfa til loka árs 2015 og meðal annars vinna tillögu að stefnu um opin gögn, tillögu að leyfisskilmálum, kortleggja og meta hverjir séu mikilvægustu gagnagrunnarnir sem opna þarf aðgang að og vinna að vel hannaðri miðlægri gátt fyrir opin gögn. Markmiðið með þessu er að almenningur, fyrirtæki og hagsmunaaðilar hafi greiðan aðgang að ópersónubundnum upplýsingum úr skrám í vörslu ríkis og sveitarfélaga, upplýsingarnar verði aðgengilegar í einni gátt og endurnýtanlegar fyrir hvern sem er. (Forseti hringir.) Hópurinn hefur sett sér það markmið að opna aðgang að 80% mikilvægustu gagnagrunna ríkisins fyrir árslok 2016.



[16:22]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi ýmsa þætti sem eru í bígerð og er verið að vinna að og er mjög ánægjulegt að heyra það. Raunveruleikinn í stöðunni, eins og ég þekki hann af því að reyna að vinna djúpar og víðar breytingartillögur við frumvarp til fjárlaga sem hæstv. fjármálaráðherra leggur fram, er að aðgengi að upplýsingum er mjög lélegt, meira að segja í fjárlaganefnd. Þurfa starfsmenn þar, nefndarritarar, að stimpla inn tölur frá fjármálaráðuneytinu handvirkt inn í excel-skjal til þess að geta unnið með það. Þannig er raunveruleikinn eins og ég þekki hann. Við skulum vona að eitthvað af þeim atriðum sem hæstv. fjármálaráðherra nefnir séu til bóta hvað þetta varðar.

Svo er eitt annað sem er gott að nefna: Á Íslandi er aðgengi að upplýsingum frá hinu opinbera afleitt. (Forseti hringir.) Það tekur okkur niður í öllum „indexum“ þegar kemur að upplýsingum og notkun á internetinu o.s.frv. Bara á síðasta ári féllum við niður um 14 sæti (Forseti hringir.) hvað þetta varðar í alþjóðlegu „indexi“. Raunveruleikinn er sá að staðan er slæm, hún fer versnandi. (Forseti hringir.) Ég vona að …



[16:24]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ýmsu að fagna þegar kemur að gegnsæi í fjármálum hins opinbera en þó verður að ítreka það sem hv. 10. þm. Reykv. s. nefndi að hvað varðar gegnsæi erum við á niðurleið þegar kemur að samanburði við önnur lönd. Við stöndum okkur ágætlega í viðleitni. Það er aðeins þar sem við virðumst standa vel. Það hefur hins vegar versnað, alla vega síðasta árið, samkvæmt skýrslu sem er stolið úr mér hvað heitir, ég sá hana fyrir örfáum dögum. Það er alveg þess virði að halda því til haga að við þurfum að gefa í þegar kemur að gegnsæi.

Mig langar að stinga upp á því við þessa umræðu, þótt það sé ekki endilega spurning hv. þingmanns til hæstv. ráðherra, því að á rikisreikningur.is, sem er afbragðstól ef út í það er farið og mjög gott að mörgu leyti, sjáum við ekki beinlínis til hvaða fyrirtækja og til hvaða aðila peningarnir renna, ég hef alla vega ekki fundið það — mér þætti það góð framtíðarmúsík (Forseti hringir.) ef við reyndum að opna algjörlega á fjármál ríkisins þannig að við sæjum hvert hver króna fer.



[16:25]
Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Athugasemd hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar á mjög vel við það sem ég spyr um sem er hvert hæstv. fjármálaráðherra vill stefna í þessum málum. Það sem hér var nefnt fellur þar undir. Ég er ein af þeim sem telja að við eigum að ganga eins langt og mögulegt er og reyna að hafa sem mest og best aðgengi að upplýsingum og gögnum hins opinbera á veraldarvefnum.

Að mörgu leyti er þetta líka til mikils hagræðis fyrir stjórnsýsluna. Ég sé fyrir mér að menn geti gengið að upplýsingum eins og um hvernig verið er að ráðstafa svokölluðu skúffufé ráðherra, hverjir verktakar á vegum hins opinbera eru o.s.frv. Þannig er stjórnsýslan ekki alltaf í þeirri vinnu að taka upplýsingarnar saman fyrir fjölmiðla heldur getur hver og einn gengið að þeim vísum í gegnum netið. Til þess eigum við að nota netið og ég tel að þangað eigum við að stefna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvar hann sjái fyrir sér að við endum þessa vegferð, vegna þess að ég tel að það skipti máli að við vitum ekki aðeins hvaða skref við ætlum að taka næst heldur hvar við viljum enda. Svo vil ég hvetja hæstv. ráðherra til dáða. Þetta með ríkisreikninginn var vel gert. Það er líka vel gert sem verið er að gera í innanríkisráðuneytinu í þeirri vinnu sem þar fer fram en það á samt ekki að stoppa fjármálaráðuneytið í því að halda áfram að tilnefna ný gagnasöfn, sem geta þá farið í birtingu undir leyfinu sem þegar er til varðandi fjársýsluna og hæstv. ráðherra nefndi. Ég vil hvetja hann til dáða í því. Hann getur kannski dustað rykið af þeirri skýrslu sem ég nefndi áðan. Þar eru beinlínis lögð til nokkur gagnasöfn sem hægt væri að opna og vinna sem á sér stað í innanríkisráðuneytinu þarf ekki að tefja það. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ráðherra til að stíga næstu skref í þeim efnum snaggaralega.



[16:28]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi ekki verið stigið stærra skref í að greiða fyrir aðgengi almennings að upplýsingum um ríkisfjármálin en þegar við opnuðum þennan vef á síðasta ári, rikisreikningur.is. Með því að skoða þann vef og alla möguleikana sem hann býður upp á er hægt að sjá þróun frá árinu 2004 aftur í tímann niður á einstaka bókhaldslykla hjá ríkinu og þannig, eftir að menn hafa grafið sig niður á einhverja útgjaldaþróun eða einstaka útgjaldaliði á einstökum árum, fá menn eftir atvikum tækifæri til þess að spyrja enn frekar.

Væri ekki æskilegt að það væri einfaldlega hægt að skoða allar nóturnar? Jú, það væri eflaust best að við gætum haft þetta alveg galopið, en þar hefur tæknin aðeins verið að þvælast fyrir okkur. Við erum þó búin að stíga mjög stór skref í að opna þetta aðgengi. Við munum áfram í fjármálaráðuneytinu skoða möguleikana á því að taka frekari gagnapakka til skoðunar í þeim tilgangi að opna aðgengi að þeim, en í mínum huga er alveg skýrt að þeir sem borga reikninginn, almenningur í þessu landi, eiga skilyrðislausan rétt á því að fá upplýsingar um það í hvað fjármunirnir fara, á hvaða forsendum ákvarðanir eru teknar um einstaka útgjöld og að það sé alveg skýrt hvert fjármunirnir renna.

Sumir eru komnir miklu lengra en við í þessu í einstökum ríkjum. Til dæmis í Bandaríkjunum hafa menn líklega gengið lengst í öllum heiminum þar sem er ákveðið viðmið að allir greiddir reikningar umfram tiltekna fjárhæð eru aðgengilegir á netinu. Í Bretlandi er mikil hvatning til sveitarfélaganna að fylgja því fordæmi og hefur gengið frekar hægt miðað við vilja ríkisstjórnarinnar þar í landi. Mér finnst að við mættum gera meira á sveitarstjórnarstiginu og mér sýnist að með vefnum (Forseti hringir.) rikisreikningur.is hafi ríkið tekið ákveðið frumkvæði í þessu, en við eigum að halda þróuninni áfram og veita fólki mjög ítarlegar (Forseti hringir.) upplýsingar um ráðstöfun á skattfé.