144. löggjafarþing — 56. fundur
 26. janúar 2015.
eftirlit með starfsháttum lögreglu.
fsp. HHG, 450. mál. — Þskj. 685.

[17:10]
Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Á undanförnum missirum hefur töluvert verið rætt um nauðsyn þess að komið verði á sjálfstæðu og óháðu eftirliti með starfsemi lögreglu. Tilefni þessarar umræðu eru margþætt og má þar nefna harðræði við handtökur, misnotkun á gagnagrunnum lögreglunnar, framkvæmd hlerana, lögmæti húsleita, lögmæti leitar á persónu fólks og svo mætti áfram telja.

Fyrir rúmu ári ritaði umboðsmaður Alþingis innanríkisráðherra bréf með ábendingum um úrbætur þegar kemur að eftirliti með störfum lögreglu. Umboðsmaður bendir á mikilvægi þess að aðili óháður lögreglu geti rannsakað tilvik þar sem borgarar hafa orðið fyrir alvarlegu tjóni á líkama eða eignum. Þá séu brotalamir á því að borgarar geti borið fram kvartanir vegna háttsemi lögreglu án þess að endilega sé um refsivert athæfi að ræða. Í svarbréfi innanríkisráðherra frá síðastliðnu sumri kemur fram að skipaður verði starfshópur til að fara yfir þessi mál. Ég vil því spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvenær niðurstöðu þess starfshóps sé að vænta.

Síðari spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra lýtur að sjálfstæði eftirlitsins. Það er mikið atriði að meðferð mála sem varða kvartanir undan störfum lögreglumanna og starfsháttum lögreglu séu rannsakaðir af óháðum aðila sem er ótengdur lögreglunni. Almenningi er nauðsynlegt að slík mál fái hlutlausa málsmeðferð sem skili réttlátri niðurstöðu. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi skal beina kærum vegna meintrar refsiverðrar háttsemi lögreglumanna til ríkissaksóknara sem fer með rannsókn þeirra. Embætti ríkissaksóknara hefur hins vegar þann háttinn á að leita til lögreglunnar og fela rannsóknina lögreglustjórum í öðru umdæmi en því sem sakborningur starfar við og þeim falið að annast rannsóknina eða hluta hennar. Af þessu leiðir að það verða alltaf starfandi lögreglumenn sem annast rannsókn á meintum brotum starfssystkina sinna. Slíkt fyrirkomulag vekur óhjákvæmilega efasemdir um að hlutlægni sé gætt við framkvæmd rannsóknanna. Kærur á hendur lögreglumönnum koma enn fremur oftar en ekki frá einstaklingum sem lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af og hluti þessa fólks hefur ítrekað komið við sögu lögreglu. Þetta kann að leiða til þess að kærandinn njóti ekki sannmælis við rannsóknina. Guðmundar- og Geirfinnsmálin svokölluðu eru eflaust þekktasta dæmið um þetta.

Ég vil því spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort ráðgert sé að um innra eftirlit verði að ræða eða hvort stefnt sé að því að eftirlitið verði alfarið sjálfstætt og óháð löggæsluyfirvöldum.



[17:13]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Hér er spurt um eftirlit með starfsháttum lögreglu. Spurningin er í meginatriðum í tveimur liðum.

„1. Hvenær er að vænta niðurstöðu starfshóps sem taka átti til skoðunar hvernig komið yrði á virkara eftirliti með starfsháttum lögreglu?“

Innanríkisráðuneytið hefur sett á laggirnar þann starfshóp sem hv. þingmaður spyr um. Er starfshópnum ætlað að fjalla um meðferð kvartana og kærumála á hendur lögreglu og gera tillögu að umbótum, nánar tiltekið að vinna að gerð tillagna að opnara, aðgengilegra og skilvirkara kerfi sem felst í móttöku og afgreiðslu kvartana frá borgurunum vegna starfa lögreglunnar, eftirfylgni vegna athugasemda ríkissaksóknara vegna starfa lögreglu og eftir atvikum frumkvæðiseftirlit með störfum lögreglu.

Í starfshópnum eiga sæti Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari, sem er jafnframt formaður starfshópsins, Sigurður Tómas Magnússon prófessor, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, Daði Kristjánsson saksóknari og Páll Heiðar Halldórsson lögfræðingur. Þess er að vænta að tillögur starfshópsins liggi fyrir um mitt ár 2015.

Starfshópnum er ætlað að taka mið af fyrirliggjandi frumvarpi um framtíðarskipan ákæruvalds og stofnun embættis héraðssaksóknara sem nú liggur fyrir þingi og bíður raunar 1. umr. Ég hef ekki enn mælt fyrir því máli en vonast til að geta gert það hið allra fyrsta. Í frumvarpinu er lagt til að nýju embætti héraðssaksóknara verði meðal annars ætlað að annast rannsókn þessara mála, sem sagt kæru á hendur starfsmanni lögreglu og fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans, sem ríkissaksóknari hefur annast, samkvæmt 35. gr. lögreglulaga og hv. þingmaður nefndi. Samkvæmt frumvarpinu mun héraðssaksóknari hafa lögreglumenn í sinni þjónustu vegna þessara verkefna. Gert er ráð fyrir að ákvarðanir héraðssaksóknara um niðurfellingu mála verði kæranlegar til ríkissaksóknara en í því felst mjög mikilvæg réttarbót frá því verklagi sem nú er fyrir hendi.

Eins og ég sagði eru þessar tillögur ekki fyrirliggjandi og verða ekki fyrirliggjandi fyrr en um mitt árið og þá getum við nánar gert okkur grein fyrir þeim hugmyndum sem þar er að finna.

2. „Er ráðgert að um innra eftirlit verði að ræða eða er stefnt að því að eftirlitið verði alfarið sjálfstætt og óháð löggæsluyfirvöldum?“

Því er til að svara, og það liggur í þeim orðum sem ég hef þegar farið með hér að þær niðurstöður liggja ekki fyrir og ekki er hægt að greina frá því, ég veit ekki hverjar þær verða á þessu stigi málsins. En starfshópurinn hefur sett sér þau markmið að tryggja réttaröryggi í landinu og efla öryggiskennd borgaranna. Það er meginviðfangsefni starfshópsins að líta til þess í störfum sínum og að lögreglan njóti almenns trausts og að gagnsætt og skilvirkt eftirlit sé með störfum lögreglunnar.



[17:16]
Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra svarið, sem var í meginatriðum skýrt, en ég verð að vekja máls á því aftur að mikilvægt er að þetta eftirlit verði óháð og sjálfstætt. Innra eftirlit eitt og sér veltur alltaf á því í okkar litla landi að tengingar eru á milli manna og ég tala nú ekki um ef starfandi lögreglumenn standa að rannsóknunum sjálfum, þá auðvitað undir forsvari héraðssaksóknara. Þetta þykir mér vera mikið lykilatriði að um sjálfstæða og óháða stofnun sé að ræða, þ.e. að lögreglumenn séu ekki að rannsaka aðra lögreglumenn heldur einhver stofnun sem almennt vinnur ekki samhliða lögreglumönnum í því að halda uppi lögum og reglum í landinu, heldur tryggi hún að lögreglumenn fari eftir settum reglum og misbeiti ekki valdi sínu.

Það er einhvern veginn þannig á Íslandi, kannski vegna smæðar landsins, að stjórnsýslan, eða yfirvöld almennt, treystir sér heldur vel. Fólk treystir sjálfu sér almennt heldur vel. Það er auðvitað við því að búast í kerfi sem er samansett af fólki, vegna þess að fólk almennt treystir sjálfu sér vel, það lítur almennt ekki á sjálft sig sem á nokkurn hátt grunsamlegt. Sömuleiðis ef maður vinnur lengi með fólki þá verður alltaf erfiðara og erfiðara að taka ákvarðanir eða gagnrýna störf annarra sem maður er kannski farinn að líta á sem einhvers konar kunningja eða vini. Og þetta hefur sérstaklega sterk áhrif á Íslandi, fullyrði ég. Því þykir mér sérstaklega mikilvægt að við göngum lengra en aðrar þjóðir í því að tryggja sjálfstæði slíkrar stofnunar sem færi með rannsókn kvartana vegna lögreglu og að sú stofnun yrði eftir því sem mögulegt er óháð lögreglunni sjálfri.



[17:18]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að við erum á mörgum sviðum að glíma við það að við búum ekki mörg á þessu landi og samfélagið er lítið, og að sama skapi þurfum við að gæta að því að þær stofnanir sem hér eru starfandi séu sterkar og færar um að takast á við þau mikilvægu verkefni sem þeim eru falin.

Það er erfitt að ganga lengra í svari við fyrirspurnum þingmannsins en ég hef þegar lagt fram í mínu fyrra svari. Ég vil þó taka fram að í því frumvarpi sem nú liggur fyrir þinginu, um héraðssaksóknara, eru ákveðnar skipulagsbreytingar fyrirhugaðar á starfsemi ákæruvalds í landinu. Það hefur áhrif á þetta mál. Síðan vil ég ítreka það sem ég sagði áðan og er auðvitað gríðarlega mikilvægt að hornsteinn þeirrar vinnu sem áðurnefndur starfshópur er að fara í núna er að gæta að réttaröryggi í landinu og öryggi borgaranna um leið, og hinn hornsteinninn er, skulum við segja, að lögreglan njóti almenns trausts í landinu. Það er auðvitað lykilatriði í starfsemi hennar og að um starfsmenn gildi traust í þeim störfum sem þeir takast á við á hverjum tíma.