144. löggjafarþing — 57. fundur
 27. janúar 2015.
störf þingsins.

[13:31]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á góðri samantekt um rammaáætlun sem upplýsingaþjónusta Alþingis hefur tekið saman og dreift hefur verið til allra alþingismanna. Umfjöllun sem er um tilurð rammaáætlunar og hvernig staðið er að mati á virkjunarkostum og stjórnun verkefnisins er gott innlegg í umræðuna um nýlega ákvörðun meiri hluta atvinnuveganefndar þar sem stjórnmálamenn handvelja virkjunarkosti sem bíða úrvinnslu faglegrar verkefnisstjórnar og leggja til að Alþingi samþykki að færa þær í nýtingarflokk. Þetta er gert þrátt fyrir að verkefnisstjórnin hafi sagt að bæði þyrfti fleiri gögn og lengri tíma til að hún treysti sér til að leggja til flokkun virkjunarkostanna. Þeir sem styðja þessa ákvörðun meiri hluta atvinnuveganefndar verjast gagnrýni með því að segja að með samþykkt þingsályktunartillögu um rammaáætlun á síðasta kjörtímabili hafi sáttin verið rofin. Enginn þeirra hefur hins vegar óskað eftir því að sú sem hér stendur fari yfir hvernig unnið var úr umsögnum um drögin að þingsályktunartillögu sem hafði verið 12 vikur í umsagnarferli. Við, þ.e. ég sem iðnaðarráðherra og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, fórum í gegnum á þriðja hundrað umsagnir og lögðum aðeins til, og eðlilega, að þau gögn sem komu þar fram og verkefnisstjórnin hafði ekki fjallað um áður færu í frekari skoðun hennar.

Margir vildu hafa áhrif á þá ákvörðun okkar en þó að ráðherra sé ekki bundinn af niðurstöðu verkefnisstjórnar kom ekkert annað til greina af okkar hálfu en að vinna málið á faglegan og gegnsæjan hátt. Þess vegna tókum við það ekki í mál þótt þrýst væri fast að færa virkjunarkosti á milli þeirra tveggja flokka sem rammaáætlun gerir ráð fyrir, nýtingarflokks og verndarflokks. Andi laganna um rammaáætlun var okkar leiðarljós en það skemmdarverk á rammaáætlun sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur nú til í óþökk hæstv. umhverfisráðherra er sannarlega ekki í anda þeirra laga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:34]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er komið að kjarabótum fyrir almennt launafólk í landinu. Við sjáum núna á þessu vori, síðast í gær hjá Starfsgreinasambandinu, settar fram kröfur vinnandi fólks um hlutdeild í lífskjarabatanum sem hér hefur orðið á síðustu árum. Það er full ástæða til því að það hafa sannarlega verið nægir peningar, bæði til þess að lækka skattana á efnaðasta fólkið í landinu, lækka skattana á útgerðina í landinu, til þess að hækka verulega laun, ekki aðeins á lækna í einhverjum undantekningarsamningi heldur í fleiri kjarasamningum og sömuleiðis á hinum almenna vinnumarkaði laun stjórnenda og millistjórnenda langt umfram það sem aðrir hafa fengið.

Það er þess vegna holur hljómur í því ef stjórnvöld eða forustumenn atvinnulífsins ætla að fara að kalla eftir því að hér eigi að vera þjóðarsátt í landinu sem borgist einungis af láglaunafólkinu, að það sé fólk á almennum launatöxtum sem eigi að axla byrðarnar og horfa upp á alla aðra skara eld að sinni köku, fá skattalækkanir og launahækkanir langt umfram þá sem eru á launatöxtunum.

Nei, virðulegur forseti. Ef einhver þjóðarsátt á að vera verða allir að taka þátt í henni. Þá verður fólkið sem hitann og þungan og ber af hinum daglegu störfum í þessu landi að fá ríkulegan hlut þess lífskjarabata sem orðið hefur á síðustu árum í sinn hlut. Það hefur það enn ekki fengið. Eftir því verður kallað á þessu vori.



[13:35]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil einnig ræða um kjarabaráttu láglaunafólks í landinu. Starfsgreinasambandið hefur lagt fram kröfugerð sína um 40% hækkun á næstu þremur árum til þeirra sem búa við lægstu laun. Þykir eflaust einhverjum það vera of mikið í lagt. En hvað þýðir þetta? Eftir þrjú ár væri þessi hópur hugsanlega að fá kannski um 240 þús. kr. útborgað eftir skatta. Gætum við hér inni lifað á því? Ég held varla. En þetta er það sem er verið að tala um. Það er auðvitað ekkert óvanalegt að Samtök atvinnulífsins hrópi „úlfur, úlfur“, að þetta geti ekki gengið, óðaverðbólga fari af stað og allt leggist á hliðina. Og Seðlabanki Íslands tekur undir það með því að segja að það sé eingöngu hægt að hækka laun um 3,5% á milli ára. En situr ekki einhver hópur eftir sem þarf að mynda samstöðu um að rífa upp úr þessu hjólfari sem er óásættanlegt og er ekki mannsæmandi að bjóða fólki upp á?

Það var fróðlegt erindi um daginn í sjónvarpinu þar sem prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum talaði um ójöfnuð í Evrópu, en hann sagði að ójöfnuður hefði aukist eftir 1980. Hverjar voru orsakirnar? Það var stefna stjórnvalda og að verkalýðshreyfingin veiktist. Það er nákvæmlega það sama sem hefur verið að gerast hér undanfarin ár. Þessi mikla misskipting er að aukast hér á landi og það er vegna stefnu stjórnvalda og að verkalýðshreyfingin hefur ekki verið nógu öflug til þess að standa vörð um velferðarkerfið sem hún sjálf barðist fyrir og kom á koppinn og forfeður okkar stóðu í baráttu fyrir.

Ég er því mjög ánægð með að verkalýðshreyfingin í landinu reisir þessar kröfur núna og ætlar að berjast fyrir bættum kjörum í landinu með því fólki sem þarf að standa við hliðina á og ætlar að berjast fyrir (Forseti hringir.) betri afkomu þess hóps sem við höfum (Forseti hringir.) skilið eftir allt of lengi.



[13:38]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þann 20. október 2012 var sex spurninga spurt. Sú þriðja þeirra varðaði kirkjuskipan ríkisins og var spurningin svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“

57,1% þeirra sem tóku afstöðu sögðu já, þ.e. meiri hluti.

Virðulegi forseti. Þótt ég telji persónulega óþarft að hafa sérstakt ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá þykir mér mikilvægt að þjóðarviljinn sé virtur. Ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi gæti jafnvel hjálpað til við að nútímavæða kirkjuskipan ríkisins. Því tel ég að heppilegt væri að ákvæði í stjórnarskrá um þjóðkirkju á Íslandi væri svohljóðandi: Þjóðkirkju skal aldrei í lög leiða heldur skal ríkisvaldið styðja og vernda trúfrelsi á Íslandi.

Ég hef þegar hafið undirbúning frumvarps þess efnis og þigg með þökkum meðbyr, stuðning og hjálp annarra þingmanna við að koma því á framfæri á vettvangi þingsins.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.



[13:39]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Seinni einkavæðing bankanna var gerð án nokkurrar umræðu á Alþingi og án þess að breytingar hefðu verið gerðar á starfsumhverfi banka og annarra fjármálafyrirtækja eða lögum um fjármálafyrirtæki í kjölfar hrunsins. Þess skal getið að Glitnir var einkarekinn banki allt fram að hruni eða þar til ríkið tók hann yfir og hann varð að ríkisbanka. Síðan tók síðasta ríkisstjórn ákvörðun um að færa lánadrottnum Kaupþings og Glitnis umsvifalaust hina nýju banka sem stofnaðir voru á grunni hinna gjaldþrota banka sem ég minntist á.

Stærstur hluti Landsbankans á þessum tíma var og er enn í eigu ríkisins og það alvarlegasta er að sú ákvörðun að taka vald af Fjármálaeftirlitinu og færa inn í fjármálaráðuneytið var tekin án nokkurs faglegs mats, verðmats eða útboðs. Mikilvægt er að á einhvern hátt verði farið yfir þessi gögn og það gert opinbert á sundurliðaðan hátt hvert matsverð þessara eigna var við flutning frá föllnu bönkunum og yfir í hina nýju banka og það skýrt dregið fram hverjir voru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar.

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur verið mjög til umræðu síðustu daga og eru mjög skiptar skoðanir um það. Hv. þm. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, tjáði sig með afgerandi hætti á Bylgjunni í gær þar sem hann taldi það fásinnu að skoða þetta frekar. Því spyr ég hv. þingmann: Er þetta sett fram sem pólitísk hagsmunagæsla eða er vísvitandi verið að halda upplýsingum frá fólki til að þurfa ekki að takast á við málið eða (Forseti hringir.) að viðurkenna að hér sé breytt niðurstaða í málinu sem gæti haft úrslitaáhrif fyrir framtíð íslenskrar þjóðar?



[13:42]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er lágmark ef menn vitna í orð annarra þingmanna að þeir fari rétt með. Ég tók skýrt fram í gær að ef menn vildu rannsaka þetta mál væri það sjálfsagt. Ef grunur leikur hins vegar á um lögbrot er það ekki Alþingis að gera það heldur höfum við réttarvörslukerfi í landinu, lögreglu og ríkissaksóknara, og eðlilegt að þeir rannsaki grun um lögbrot.

Ég held ekki upplýsingum frá nokkrum manni, enda fer ég ekki með neinar þær upplýsingar sem ég get haldið frá nokkrum manni. Flokkur hv. þingmanns er í ríkisstjórn og getur gert hvað hann vill við þær upplýsingar sem hann hefur aðgang að í gegnum setu sína í Stjórnarráðinu. Hæstv. fjármálaráðherra sagði skýrt í gær að hann sæi hvergi að ásakanir um lögbrot ættu við rök að styðjast þannig að mér þætti eðlilegt að hv. þingmaður beindi máli sínu að hæstv. fjármálaráðherra í þessu efni. Hann fer með allar upplýsingar um þessi mál, situr á þeim í fjármálaráðuneytinu.

Ég hef gert athugasemdir við það að menn noti ásakanir um lögbrot án nokkurs efnislegs rökstuðnings í pólitískum tilgangi og mér sýnist það vera að eiga sér stað í þessu máli. Það er grundvallaratriði að á Íslandi eru lög sem tryggja kröfuhöfum í öllum tilvikum rétt yfir eignum þrotabús sem þeir eiga kröfur á. Ríkið hefur ekki í nokkru tilviki frjálsan rétt til að taka eignir úr þrotabúum og svipta kröfuhafa rétti yfir eignum sínum og eignarrétti sínum í þrotabú. Þannig er það með öll þrotabú í landinu, alveg sama hvort það eru bankar eða önnur þrotabú. Kröfuhafarnir eiga búin og forsenda neyðarlaganna, forsendan sem lagt var upp með af hálfu ríkisstjórnarinnar haustið 2008, forsendan sem þáverandi seðlabankastjóri kynnti í efnahags- og skattanefnd þegar verið var að ræða neyðarlögin, var sú að sannvirði yrði greitt fyrir þær eignir sem teknar yrðu út úr þrotabúunum. (Forseti hringir.) Og það hefur verið loforð íslenskra stjórnvalda frá upphafi, frá því að Geir H. Haarde, Árni Mathiesen (Forseti hringir.) og Davíð Oddsson skrifuðu undir fyrstu viljayfirlýsinguna til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, (Forseti hringir.) að sannvirði yrði greitt fyrir eignina.



[13:44]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Líkt og fleiri hv. þingmönnum eru kjarasamningar mér ofarlega í huga í dag, en í gær kynnti Starfsgreinasambandið kröfugerð sína í tengslum við yfirvofandi kjarasamninga á vinnumarkaði. Í þeirri kröfugerð er gert ráð fyrir talsverðri hækkun lægstu launa. Kröfur Starfsgreinasambandsins eru rökréttar og sanngjarnar því þær byggja á þeirri forsendu að íslenskt launafólk geti lifað á dagvinnu en þurfi ekki að þræla sér út í endalausri aukavinnu eða meira en einu fullu starfi.

Óháð viðbrögðum atvinnurekenda hljóta launabreytingar á vinnumarkaði að verða í þessa átt. Slíkur er þunginn í kröfum launafólks. Það er því eðlilegt að gera ráð fyrir verulegri hækkun lægstu launa á næstu missirum og þótt fyrr hefði verið.

Þessi þróun varðar okkur þingmenn að sjálfsögðu þar sem við erum handhafar fjárveitingavalds. Ríkið er stærsti vinnuveitandi landsins og einnig stærsti kaupandi vinnu og þjónustu. Löngu tímabær leiðrétting á kjörum láglaunafólks ætti því að vera ein af forsendum fjárlagagerðar hér í þinginu.

Því miður hefur sitjandi ríkisstjórn lagt meiri áherslu á að veikja tekjustofna ríkisins en að styrkja þá og staðið fyrir breytingum sem líklegri eru til að gagnast þeim ríkari en hinum efnaminni. Það er ljóst að frá þessu verður að hverfa við komandi fjárlagagerð og gera strax frá upphafi ráð fyrir að hraustleg hækkun lægstu launa muni eiga sér stað á næstunni.



[13:46]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að tala um kjarasamninga og hækkun launa hjá æðstu stjórnendum í fyrirtækjum í eigu lífeyrissjóðanna, en mig langar aðeins til að koma inn á það mál sem var til umræðu áðan milli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og hv. þm. Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar.

Ég var hvergi var við það í ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að hún talaði um lögbrot, en þær ásakanir sem hafa verið í umræðunni núna undanfarna daga eru auðvitað grafalvarlegar. Ef rétt reynist að pólitískar ákvarðanir hafi verið teknar sem hafa stuðlað að því að kröfuhöfum hafi verið færðir 300–400 milljarðar, að staða þeirra hafi verið styrkt sem því nemur, þá hlýtur það að vera kappsmál okkar allra að slíkt sé rannsakað, að slíkt sé skoðað. Ég veit að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er að skoða þetta mál. Þegar niðurstaða úr því liggur fyrir hlýtur það að vera eitthvað sem þingheimur allur ætti að geta sameinast um, að ef einhver vafi leikur á því að eitthvað í þessu hafi verið með þeim hætti að það þurfi að skoðast, þá hlýtur það að vera vilji allra sem hér eru til að skoða þau mál og rannsaka þau með þeim hætti sem eðlilegt er til að eyða allri óvissu um að þarna hafi rétt verið farið að.

Ég verð að segja að það hryggir mig að hlusta á formann Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Pál Árnason, koma hingað upp með útúrsnúningum og hálfpartinn eyða því að Samfylkingin verði tilbúin til að skoða þetta mál með (Gripið fram í.) tilhlýðilegum hætti. Það er fullkomlega eðlilegt að þetta mál verði rannsakað (Gripið fram í.) ekki hvað síst vegna — þá verður hv. þingmaður líka að fara rétt með það að hann vitnar í hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Það er ekki síst (Gripið fram í.) mikilvægt í ljósi þessara ásakana að þetta sé (Gripið fram í.) rannsakað. (Gripið fram í: Þetta er nú fín …) (Gripið fram í: Mikil ókyrrð …) (Gripið fram í: … hjá Samfylkingunni.) Mikil ókyrrð.



[13:49]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Kynbundinn launamunur er því miður staðreynd í samfélagi okkar og þrátt fyrir miklar breytingar síðustu ár og áratugi er íslenskur vinnumarkaður mjög kynskiptur. Þótt tölur sýni að hlutur karla í svokölluðum dæmigerðum kvennastörfum sé rýr alls staðar á Norðurlöndunum er hann áberandi minnstur hér á landi. Allar breytingar eru afar hægfara. Því vil ég vekja athygli á jákvæðu framtaki.

Hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir sem er bæði samstarfsráðherra Norðurlandanna og ráðherra jafnréttismála segir í grein í Fréttablaðinu, með leyfi forseta:

„Í norrænu jafnréttissamstarfi hefur meginstefið verið að jafna stöðu og réttindi kvenna og karla á vinnumarkaði. Sjónum hefur verið beint að jafnrétti til launa og því hvernig brjóta megi upp hefðbundna kynjaskiptingu á vinnumarkaði.“

Allir sem hafa fylgst með jafnréttisstarfi hér á landi vita hvað vinnumarkaðurinn hefur verið kynjaskiptur á Íslandi. Svo hefur einnig verið annars staðar á Norðurlöndunum. Þar hafa hins vegar verið settar upp alls kyns áætlanir, alls kyns prógrömm, sem ganga út á að ná körlum inn í hinar hefðbundnu kvennastéttir, svo sem í leikskólastörf og umönnunarstörf og öfugt. Það hefur tekist ágætlega af því að þar hefur verið unnið markvisst í því. Það höfum við hins vegar því miður ekki gert.

Ég vil því fagna því sérstaklega að eitt af stóru verkefnum um jafnréttismál sem ráðherrann nefndi og á að styrkja úr framkvæmdasjóði jafnréttismála er einmitt verkefni um gerð framkvæmdaáætlunar til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali. Verkefnið verður unnið í velferðarráðuneytinu í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Ég segi því: Loksins, loksins, virðulegur forseti. Nú á að vinna markvisst að því að brjóta upp hinn kynskipta vinnumarkað. Það er vel.



[13:51]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða áherslu á sérhæfðar læknisfræðilegar greiningar barna í þjóðfélaginu þegar á stundum væri hægt að fara einfaldari leiðir. Ég hef lengi velt þessum málum fyrir mér en umfjöllun um málið í Morgunblaðinu þann 15. janúar síðastliðinn þar sem rætt var við Evald Sæmundsen, sviðsstjóra rannsókna hjá á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, vakti mig til frekari umhugsunar. Á síðustu árum hefur þekkingu starfsfólks grunn- og leikskóla á ýmsum frávikum í þroska og námi barna fleygt fram. Jafnframt hefur þekking aukist á því hvernig mögulegt er að aðstoða nemendur við að sinna námi og starfi í skólunum. Samhliða hefur fagleg þekking og færni starfsfólks skólaþjónustunnar aukist og burðir til að greina frávik og veita starfsfólki ráðgjöf. Þetta ætti að tryggja að í minna mæli þyrfti að leita út fyrir kerfið eftir þjónustu en samhliða þessu lengjast biðlistar í sérhæfðustu læknisfræðilegu greiningarnar, svo sem hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og BUGL.

Ég leyfi mér að efast um að allir sem eru á þessum biðlistum séu þar af raunverulegri þörf, heldur byggist þörfin að einhverju leyti á því að fjármagni úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og jafnvel innan sveitarfélaga er að einhverju leyti úthlutað til skóla á grunni sérhæfðra læknisfræðilegra greininga. Sem betur fer er verklag í flestum grunn- og leikskólum samt þannig að brugðist er við þörfum barna óháð því hvort formleg greining sálfræðings eða læknis liggur fyrir. Ég vil því skora á heilbrigðisyfirvöld, menntamálayfirvöld og samtök sveitarfélaga að taka höndum saman og fara yfir verkferla á þessu sviði því að þarna tel ég mögulegt að einfalda málin samhliða því að efla þjónustu og draga úr kostnaði hjá foreldrum, skólum, sveitarfélögum og heilbrigðiskerfinu.



[13:53]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Fyrir ári og einum degi varð Kvenfélagið Hringurinn 110 ára. Á þeim degi ákváðu Hringskonur að færa Barnaspítala Hringsins 110 millj. kr. Í gær var þess minnst hvað gert hefði verið í tækjakaupum til starfsemi Barnaspítala Hringsins. Barnaspítali Hringsins hefur notið góðverka Kvenfélagsins Hringsins á undanförnum árum og áratugum og er þess vert að minnast hér. Kvenfélagið Hringurinn er farvegur fyrir ýmis góð verk. Velunnarar Hringsins gefa Hringnum fjármuni, íbúðir, peningagjafir til að ráðstafa til Barnaspítala Hringsins. Með þessum gjöfum er spítalinn vel tækjum væddur til að annast skjólstæðinga sína, íslensk börn. Ég vil nota þetta tækifæri í ræðustól til að þakka það sem vel er gert. Ég þakka fyrir hönd íslenskra barna, fæddra og ófæddra. Ég segi takk og ég segi líka: Mínar elskulegu frúr, Hringskonur, takk fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:54]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að ræða um Skólaþingið sem starfrækt er á Alþingi fyrir efstu bekki grunnskóla. Þar fara nemendur í hlutverkaleik og fá tækifæri til að setja sig í spor þingmanna og taka þátt í þingflokksfundum og nefndarfundum og hugmyndin er að gefa nemendum innsýn í það hvernig hlutirnir eru unnir á Alþingi og hvernig pólitískar ákvarðanir eru teknar. Mér finnst þetta mjög mikilvægt og var mjög áhugasöm þegar ég kynntist Skólaþinginu við upphaf þingsetu minnar. Ég hafði hins vegar aldrei heyrt um Skólaþingið og á ég þó tvö börn sem hafa gengið í gegnum grunnskólanám á Akureyri þannig að ég spurðist aðeins fyrir um það hvaða skólar það væru sem sæktu Skólaþingið. Frá 2007 hafa 70 grunnskólar heimsótt Skólaþingið, þar af eru 17 utan höfuðborgarsvæðisins og af þeim eru sex í næsta nágrenni, á Suðurnesjunum eða Vesturlandi. Enginn skóli frá Austfjörðum hefur nokkurn tíma heimsótt Skólaþingið, tveir frá Norðurlandi og tveir frá Vestfjörðum sem komu í einni ferð.

Mér finnst í rauninni ekki ásættanlegt að þessi mikilvæga fræðsla sé ekki aðgengileg nemendum nema rétt á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni. Getur Skólaþingið farið um landið? Ég veit það ekki. Norska þingið býður skólum upp á ferðastyrki ef þeir vilja koma og heimsækja þingið. Er leið að bjóða framhaldsskólanemendum, t.d. í 1. bekk, að heimsækja Skólaþingið? Í framhaldsskólum er oft farið í menningar- og fræðsluferðir til Reykjavíkur. Ég vil velta þessu upp hérna. Ég veit ekki alveg hvert ég beini þessum spurningum, kannski til hæstv. forseta, en ég vonast til að hugsuð verði upp leið til að kippa þessu í liðinn, hvernig við tryggjum að börn á öllu landinu geti þekkst þetta boð. Mér finnst þetta ekki ásættanlegt og það ætti að vera fleirum umhugsunarefni en mér.



[13:57]
Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill af þessu tilefni taka undir orð hv. þingmanns, telur að hv. þingmaður hafi hreyft hér mjög áhugaverðu máli. Það er sjálfsagt mál að þingið gæti að því með hvaða hætti hægt sé að auðvelda börnum utan höfuðborgarsvæðisins að njóta þeirrar þjónustu sem Skólaþingið sannarlega býður upp á. Forseti mun þess vegna taka þessi mál upp á fundi forsætisnefndar til að leita leiða til að bæta úr því sem hv. þingmaður benti svo réttilega á.



[13:57]
Sigurður Örn Ágústsson (S):

Hæstv. forseti. Það hefur verið lærdómsríkt og gaman að fá tækifæri til að starfa í þessu sögufræga húsi í þessum litla sal sem er samt svo stór fyrir okkur Íslendinga. Starf alþingismanns er mjög mikilvægt og hafandi fylgst með úr fjarska sem áhugamaður um stjórnmál um langa hríð hefur verið ánægjulegt að fá tækifæri til að máta sig við þetta starf. Þetta mikilvæga starf sem mörgum er mjög tamt að tala niður og lítilsvirða langar mig að gera að umfjöllunarefni hér.

Ímyndum okkur eftirfarandi atvinnuauglýsingu og veltum því fyrir okkur hvort okkar besta og hæfasta fólk sé líklegt til að sækja um:

Auglýst er eftir starfsmanni í mikilvægt starf sem felur í sér að setja lög, hafa áhrif á samfélagið í lengd og bráð, tækifæri til að hafa áhrif á kjör fólks, umhverfi viðskipta, menntunar og heilbrigðismála svo eitthvað sé nefnt. Taka þarf stórar og stefnumarkandi ákvarðanir sem ekki eru allar líklegar til stundarvinsælda. Vinnutími er óreglulegur, ekki er greitt sérstaklega fyrir kvöld-, nætur- eða helgarvinnu, líkur eru á að stór hluti fólks í landinu muni gagnrýna þig linnulítið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, oftast ómálefnalega, fyrir það eitt að vera á öndverðri pólitískri skoðun. Frammistaða verður ekki mæld né gagnsemi með hlutlægum mælikvörðum. Engin raunveruleg endurgjöf vegna starfsins fer fram innan vinnustaðarins. Að fjórum árum liðnum munu kjósendur þíns flokks stjórna því hvort þú verður endurráðinn, fyrst í prófkjöri og svo í kosningum, án þess að í raun hafi farið fram nokkurt hlutlægt mat á árangri í starfi. Starfsvettvangurinn nýtur trausts um 10% þjóðarinnar. Mötuneytið er mjög gott. (Gripið fram í.)

Fyrir þetta starf verða greidd föst laun 651.446 kr. Til samanburðar eru regluleg meðallaun á Íslandi 436 þús. kr. Í samanburði við þau lönd sem við berum okkur hvað oftast saman við eru grunnlaun alþingismanna á Íslandi lág og ekki í réttu hlutfalli við mikilvægi starfsins. Grunnlaun alþingismanna í samanburðarlöndum eru að meðaltali tvisvar til þrisvar sinnum hærri en meðallaun. Er tryggt að þessi kjör laði að hæfasta fólkið, metnaðarfyllsta og best til þess fallið að stýra þjóðarskútunni? Mitt mat er að hætta sé á því þetta starf verði, ef ekki verður brugðist við, eingöngu fyrir þá sem eru sterkefnaðir þegar, eldheita hugsjónamenn (Forseti hringir.) eða þá sem ekki hafa val um annað og betra starf. Því segi ég að til að starfið sé raunverulegur valkostur (Forseti hringir.) þarf að hugsa starfsumhverfi og kjör alþingismanna upp á nýtt.

Ég óska eftir málefnalegum umræðum um þetta mál.



[14:00]
Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Umræðan um vopnamál lögreglunnar hélt áfram hér í gær. Ég er svolítið hugsi eftir þá umræðu og spyr: Hvað er það sem þingmenn skilja ekki? Eða er verið að draga lögregluna inn í pólitíska umræðu? Hér hefur verið gríðarlega mikil umræða um málið frá því í október. Þingnefndir hafa fengið fullt af upplýsingum um málið, fullt af upplýsingum hafa komið fram á opinberum vettvangi en enn er því haldið fram að verið sé að breyta vopnastefnu eða vopnavæðingu lögreglunnar. Þetta hefur legið fyrir, allar reglurnar hafa legið fyrir í nokkra mánuði. Lögreglan hefur átt hundruð skotvopna í tugi ára sem hefur verið dreift víða um land. Hún er með fastar reglur um aðgengi að þeim og oft hefur verið sagt frá grunni þeirra reglna að undanförnu. Samt er því haldið fram að verið sé að breyta þessu og lögreglan sé farin að nota vopn daglega og annað slíkt.

Það sem er í gangi er að lögreglan er að sinna hlutverki sínu, öryggishlutverkinu sem snýst um að tryggja öryggi borgaranna með því að vera viðbúin við því óvænta. Allt þetta hefur snúist um það að eftir faglegt áhættumat og áhættugreiningar og annað er tekin ákvörðun um hvernig þjálfun og búnaður á að vera. Ég spyr marga þá sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hvort þetta hafi verið hugsunin, stefnubreyting, þegar hingað komu 50 skotvopn sem norski herinn gaf árið 2011. (Gripið fram í: Til Landhelgisgæslunnar.) Til Landhelgisgæslunnar sem sinnir löggæslu á hafi. Var þetta það sama?

Við skulum líka hafa það á hreinu að þetta snýst allt um að auka öryggi borgaranna og þeirra sem sinna örygginu og það á ekki að vera að tortryggja svona.



[14:02]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð að segja að yfirleitt er öryggið ekkert meira þótt byssur séu til staðar. En það er eitthvað sem ég ætla ekki að tala um núna.

Mig langaði að fara aðeins yfir umræðu sem hefur átt sér stað um þau gögn sem Víglundur Þorsteinsson hefur sent á okkur þingmenn og hafa verið í umræðunni í samfélaginu. Af einhverjum ástæðum hefur verið ákveðið að gera þetta að pólitísku máli, en það er rétt að halda því til haga að málið er til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar var hv. þm. Brynjar Níelsson fenginn til þess að halda utan um vinnuna og í raun er verið að rannsaka málið í fagnefnd Alþingis. Mér finnst því alveg furðulegt að fara með þetta í hinar hefðbundnu pólitísku skotgrafir, sem aðallega Framsóknarflokkurinn er að reyna að gera. Rétt skal vera rétt.

Ég verð líka að segja, kæru samþingmenn, að mér finnst afskaplega leiðinlegt þegar verið er að bera upp á fólk einhverjar annarlegar hvatir. Ég sat hérna rétt áðan og heyrði hv. þm. Árna Pál Árnason segja að hann væri hlynntur því að þetta yrði skoðað og svo kemur þingmaður úr Framsóknarflokknum og heldur því fram að þingmaðurinn hafi verið að segja eitthvað allt annað. Og ef það er gagnrýnt er það allt í einu vegna þess að okkur þykir óþægilegt að sitja undir því.

Ég skil ekki svona þvælu. Ég skil ekki af hverju við þurfum að haga okkur eins og við séum á leikskóla. Getum við ekki farið að haga okkur eins og fólk? Ég bið ykkur um það, í það minnsta. Ástandið er alveg nógu ömurlegt í sumum nefndum. Ég ætla ekki að segja meira. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)