144. löggjafarþing — 58. fundur
 28. janúar 2015.
lyfjalög, 1. umræða.
stjfrv., 408. mál (auglýsingar). — Þskj. 605.

[16:16]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Markmið frumvarpsins er að afnema þann greinarmun sem gerður er á fjölmiðlum þegar kemur að auglýsingum lausasölulyfja. Í 1. mgr. 16. gr. gildandi laga er heimilt að kynna og auglýsa lausasölulyf með þeirri undantekningu að óheimilt er að auglýsa í sjónvarpi. Af hálfu Samkeppniseftirlitsins og Samtaka verslunar og þjónustu, svo dæmi séu nefnd, hefur verið bent á að ákvæði sem bannar að auglýsa lausasölulyf í sjónvarpi sé ekki til þess fallið að auka samkeppni í lyfsölu, enn fremur sé bannið ekki í samræmi við það sem almennt gildi í nágrannalöndunum. Með frumvarpinu er fallist á þau sjónarmið og lagt til að banni við auglýsingum á lausasölulyfjum í sjónvarpi verði aflétt.

Jafnframt er í 1. gr. frumvarpsins lögð til sú breyting á 14. gr. laganna að ekki verði lengur skylt að birta upplýsingar um pakkningastærðir, verð, stærð skammta og helstu atriði önnur um notkun og aukaverkanir í lyfjaauglýsingum. Þessar upplýsingar geta verið allviðamiklar, sérstaklega þær sem fjalla um aukaverkanir lyfja. Það getur því verið erfiðleikum háð að koma þeim til skila í auglýsingum. Umræddar upplýsingar eru eigi að síður mikilvægar og er því lagt til að séu þær ekki tilgreindar í lyfjaauglýsingu beri þá að birta tilvísun á fylgiseðli með lyfinu, en slíkir fylgiseðlar eru aðgengilegir á vef Lyfjastofnunar.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. velferðarnefndar til 2. umr.



[16:18]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Margir telja auglýsingar vera einhvers konar áróður og eingöngu áróður en gleyma því að auglýsingar eru jafnframt upplýsingar, upplýsingar um vöru og þjónustu. Í öllu heilbrigðiskerfinu er meira og minna bannað að auglýsa. Sérfræðingar mega ekki auglýsa þjónustu sína og það hefur hingað til ekki mátt auglýsa lyf. Allt er þetta bannað, allt með þeirri hugsun að auglýsingar séu af hinu illa í einhverjum skilningi. Í mínum huga eru auglýsingar upplýsingar fyrst og fremst til þess að upplýsa fólk um hvað er í boði o.s.frv.

Af þessu tilefni langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra heilbrigðismála hvort hann hafi í hyggju að slaka á auglýsingabanni innan heilbrigðisþjónustunnar sem hindrar alla samkeppni. Hvernig á fólk að geta keppt um t.d. þjónustu, heilsuvernd eða hvað það nú er þegar ekki má upplýsa neitt um það? Þeir sem veita þjónustu, t.d. alls konar þjónustu í heilbrigðiskerfinu, mega ekki upplýsa um það. Hvers lags fordómar eru þetta gagnvart auglýsingum?



[16:20]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda hvatninguna.

Ég er þeirrar gerðar að ég hefði viljað fyrst af öllu láta á það reyna hvort þingið tæki ekki fagnandi þessari örlitlu breytingu í þá veru að jafna aðstöðu fjölmiðla til þess að koma þeim upplýsingum á framfæri sem þeir sem sýsla með lyfin vilja gera neytendum grein fyrir. Ég þykist vita án þess að ég geti farið út í það að fleiri þættir, m.a. þeir sem lúta sérstaklega að læknum og lækningastarfsemi, hljóti að koma til umræðu á milli fagfélagsins og stjórnvalda. Það kann vel að vera, og nú hef ég þann fyrirvara á því sem ég segi, að það séu einhverjar siðareglur eða annað því um líkt hjá tilteknum heilbrigðisstéttum sem kunna að koma í veg fyrir að þær auglýsi starfsemi sína með þeim hætti sem hér er rætt um. Ég bendi þó á að það eru ákveðnir þættir sem tengjast heilbrigðum lífsháttum sem eru komnir inn á síðustu árum og vakin hefur verið athygli á með auglýsingum, en bein lækningastarfsemi eins og t.d. tannlækningar eða sérgreinalæknisþjónusta, er ekki heimil í auglýsingum. Ég kann ekki á því nákvæmar skýringar hvers vegna svo er.

En til að svara lokaspurningu hv. þingmanns þá er ég ekki mjög íhaldssamur í þessum efnum. Ég viðurkenni að ég hef ekki farið út fyrir þann ramma sem frumvarpið tekur til í skoðun á þeim þáttum sem hann gerir að umtalsefni.



[16:22]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið svo langt sem það nær og vil lýsa því yfir að ég sem einn af 63 hv. þingmönnum mun styðja þessa breytingu þótt hún sé lítil og skrefið smátt. Málið er að heilbrigðisþjónustan er orðin svo margslungin og margflókin að ég er viss um að fjöldi borgara í landinu veit ekki um og þekkir ekki þá þjónustu sem honum gæti staðið til boða vegna þess að það má ekki auglýsa hana. Þroskaþjálfar mega ekki auglýsa. Það má enginn auglýsa. Kannski er einhver með barn sem á erfitt með að tala og hvert snýr maður sér? Hvar eru auglýsingarnar? Hvar eru upplýsingarnar? Þær vantar gjörsamlega.

Ég vil hvetja hv. nefnd sem fær málið til umsagnar að víkka frumvarpið allverulega og hætta þessum fordómum gagnvart auglýsingum. Auglýsingar eru ekki af hinu slæma. Þó að það geti náttúrlega verið oft í þeim mikill áróður, þá eru auglýsingar fyrst og fremst upplýsandi.



[16:23]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka stuðningsyfirlýsingu hv. þingmanns við þetta litla frumvarp og ber að þakka það.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að það er í raun bannað að auglýsa þá starfsemi sem hér um ræðir og ég ítreka það að ég kann ekki skil á því hvers vegna slíkt er. Það virðist vera sem svo í þessum geira þjónustunnar að þar gildi lögmálið leitið og þér munuð finna. Fólk ber sig eftir þeim upplýsingum sem það telur sig þurfa á að halda eftir ýmsum leiðum. Það kann vel að vera að fullt tilefni sé til þess að setjast yfir þennan þátt mála og gera aðgengilegri með einhverjum hætti en nú er þá þjónustu sem er í boði á sviði heilbrigðisþjónustunnar.

Það er rétt að auglýsingar eiga að vera til þess að miðla upplýsingum um vöru eða þjónustu, en það er líka tiltölulega létt verk að nýta þær til áróðurs og annarra þátta án þess að ég ætli heilbrigðisstarfsemi að vinna með slíkum hætti. En ég ítreka að það er full ástæða til að fara yfir þau sjónarmið og meta sem hv. þingmaður hefur sett hér fram.



[16:25]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu sína. Ég verð að segja að ég skil alveg ástæður þess að þetta mál er lagt fram. Það er náttúrlega einkennilegt ef leyfa má auglýsingar í einum miðli en ekki í öðrum. Það er eðlilegt að gætt sé jafnræðis og fyrst á annað borð er leyft að auglýsa þá sé það ekki sett í hendurnar eingöngu á prentmiðlum.

Ég er þeirrar gerðar að ég er almennt andsnúin auglýsingum í heilbrigðiskerfinu, ekki af því að ég vilji ekki að fólk fái upplýsingar enda má veita upplýsingar með ýmsum hætti. Heilbrigðisþjónusta er ekki á markaði með sama hætti og fyrirtæki sem keppa á markaði sín á milli til að hámarka arð sinn heldur er heilbrigðisþjónustan samfélagsleg þjónusta og um hana má veita upplýsingar með ýmsum hætti. Ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra er t.d. að vinna að því að koma á laggirnar sérstökum þjónustusíma til að auðvelda fólki að nálgast upplýsingar og ég þarf eiginlega ekki að fjölyrða um tækifærin til að veita fólki upplýsingar með netmiðlum af ýmsu tagi. Við búum einfaldlega í þannig samfélagi að það er mjög auðvelt, sé raunverulegur vilji til þess, að veita fólki allar þær upplýsingar sem þarf um heilbrigðiskerfið án þess að heimila auglýsingar einstakra aðila.

Varðandi auglýsingar á lausasölulyfjum sem frumvarpið fjallar jú um, er verið að leggja til ákveðnar breytingar. Hér erum við að tala um lausasölulyf en það eru lyf sem ríkið greiðir ekki niður og þau eru þar af leiðandi eins og vara á markaði og eru það. En þau eru engin venjuleg vara og því verðum við að gæta að þegar við sníðum löggjöf utan um auglýsingar á lyfjum. Ég man eftir mjög kraftmiklum auglýsingum sem fóru ekki fram hjá manni um verkjalyf sem síðan reyndust valda hjartaáföllum. Það er þannig með ýmis lyf sem við teljum saklaus og tökum að ef þeirra er neytt umfram leiðbeinandi skammtastærðir valda þau mjög fljótt alvarlegum lifrarskaða. Þessu þurfum við að hyggja að. Þess vegna finnst mér þær breytingar sem hér eru lagðar til, en ég ætla ekki að taka afstöðu til þeirra hér og nú, þess eðlis að mér finnst skipta máli að fá umsagnir um þær og umræðu um þær í nefndinni. Þegar við fjöllum um lyf þá erum við ekki að fjalla um venjulega vöru sem hægt er að auglýsa með hvaða hætti sem er. Svo hef ég efasemdir um það atriði að ekki þurfi að vera upplýsingar um verð eða aukaverkanir, ég veit ekki af hverju það þarf ekki. Ég geri mér grein fyrir því að það eru langir listar yfir aukaverkanir en ef það er t.d. þannig að lyf geti valdið lifrarskaða eða börn megi alls ekki neyta þeirra eða slíkt fyndist mér alveg eðlilegt að það þyrfti að koma fram í auglýsingum. En eins og ég segi, ég ætla að láta vera að taka afstöðu í upphafi máls og ætla að sjá til hvað gerist í nefndinni. Ég vil endurtaka að mér finnst eðlilegt, fyrst við heimilum á annað borð auglýsingar á þessari tilteknu vöru, að það sé jafnræði hvað það varðar, en set alla fyrirvara við það að samþykkja breytingar á framsetningu upplýsinga.



[16:29]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, með síðari breytingum, og það er um auglýsingar. Markmið frumvarpsins er að afnema þann greinarmun sem gerður er á fjölmiðlum þegar kemur að auglýsingum og er þá einungis átt við lausasölulyf. Mér finnst rétt að velta því upp hvort við séum kannski að fara í ranga átt. Á yfir höfuð að auglýsa lyf? Þá skiptir svo sem engu máli í hvaða miðli er verið að gera það.

Það sem ég hef svolitlar áhyggjur af er að með þessu sé verið að veita markaðnum aðgang að fólki, mögulega á kostnað neytenda og neytendaverndar. Nafn lyfs og notkun þess fær greiðan aðgang að fólki en dýpra verður á upplýsingum um mögulega fylgikvilla sem geta verið miklir og alvarlegir. Í athugasemdum við lagafrumvarpið er fjallað um að ekki þurfi ekki að birta fylgiseðla en þeir verði aðgengilegir eða megi finna á vef Lyfjastofnunar. Ég velti fyrir mér þessu aukaskrefi sem þarna verður til. Það er verið að halda að fólki vöru en ekki öllum upplýsingum um hana. Ég held að við vitum það öll að jafnvel þeim lyfjum sem við getum keypt í lausasölu og án tilvísunar frá lækni geta fylgt miklar og alvarlegar aukaverkanir. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt í meðferð nefndarinnar á þessu máli að við fáum fram sjónarmið Neytendasamtakanna og landlæknisembættisins, bara svo tveir aðilar séu nefndir, um hvaða áhrif það að auglýsa og með því að bæta við auglýsingum sem verða leyfðar í sjónvarpi hafi á neytendavernd og þar með í raun heilbrigði þeirra sem ætla að nota lyf. Eins frábær og lyf geta verið og eru þá þurfum við auðvitað að fara varlega í sakirnar því að röng notkun á þeim er gríðarlega alvarlegt mál. Þess vegna held ég að við þurfum að skoða þetta mál rosalega vel. Það er ýmislegt í þessu sem hringir viðvörunarbjöllum hjá mér vegna þess að eins og ég hef sagt áður, mér finnst hér verið að veita markaðnum mikinn aðgang á kostnað neytenda.



[16:33]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn í þetta mál. Ég get tekið undir orð hv. þingmanns sem talaði á undan mér um það. Eins og kom fram hjá formanni velferðarnefndar er þetta engin venjuleg vara, lyf eru engin venjuleg vara. Þá datt mér í hug öll sú umræða sem hefur átt sér stað um ÁTVR og það sem við höfum gjarnan kallað brennivín í búðir, því að auglýsingabannið sem þar gildir er að miklu leyti virt að vettugi. Í báðum tilfellum erum við að tala um hluti sem ber að fara varlega með. Þetta tekur þó aðeins á þessum eina miðli, sjónvarpinu. Aðrir miðlar hafa fengið að auglýsa og við sjáum að þetta eru risavaxnar auglýsingar, þetta eru gjarnan heilsíðuauglýsingar sem lyfjaframleiðendur eða söluaðilar nýta sér í dagblöðum. Ég hefði frekar viljað hverfa frá því en að víkka þetta og mér finnst þetta virka sem meiri markaðsvæðing frekar en neytendavernd.

Ég er ekki hlynnt því sem kom fram áðan, að það eigi að keppa um heilbrigðisþjónustuna eða heilsuverndina, eins og einn hv. þingmaður kom inn á. Það sem vekur fyrst og fremst athygli mína í þessu er það sem ekki þarf að koma fram í auglýsingum. Á meðan til dæmis matvælaframleiðendur og aðrir þurfa orðið að vera með ítarlegar upplýsingar á vöru sinni fyrir neytendur er þarna verið að draga úr vægi upplýsinga til neytenda. Mér finnst það ekki í takt við það sem neytendaverndin hefur kallað eftir. Ég hvet nefndina til að huga að því og auðvitað verður áhugavert að sjá umsagnir. Í lyfjalögum er talað um auglýsingar og kynningar lyfja. Í 14. gr. segir, með leyfi forseta:

„Auglýsa má og kynna lyf, sem markaðsleyfi hafa hér á landi á íslensku í tímaritum eða blöðum þeirra heilbrigðisstétta sem ávísa og dreifa lyfjum. Í lyfjaauglýsingum skal tilgreina nafn framleiðanda, heiti lyfs, virkra efna, helstu ábendingar og frábendingar er varða notkun hlutaðeigandi lyfja, pakkningastærðir og verð. Enn fremur stærð skammta og helstu atriði önnur um notkun og aukaverkanir. Framangreindar upplýsingar skulu ætíð vera greinilegar og auðlæsar og í samræmi við það sem greinir í lyfjaskrám.“

Við vitum að vissulega fylgja lyfjum ítarlegar upplýsingar í pakkningum og öðru slíku og þeim lyfjum sem er ávísað af lækni eiga að fylgja leiðbeiningar frá þeim. Þarna er alla vega gert ráð fyrir því að allar upplýsingar séu uppi á borði.

Í 15. gr. segir að heimilt sé að kynna lyf fyrir heilbrigðisstéttum sem ávísa og dreifa þeim en þó á þann hátt að ekki sé líklegt að auglýsingin komi almenningi fyrir sjónir. Verið er að draga úr möguleikanum á því heilbrigðisstéttirnar geti markaðssett tiltekin lyf.

Að lokum langar mig til að vitna í 16. gr. þar sem fjallað er um lausasölulyf. Þar segir að heimilt sé að kynna og auglýsa þau fyrir almenningi en auglýsingarnar skuli vera í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins. Lyfjabúðum er heimilt að auglýsa og kynna þjónustu sína og verð lausasölulyfja og almenn afsláttarkjör. Upplýsingar í auglýsingum eiga ætíð að vera greinilegar og auðlæsar og í samræmi við það sem greinir í lyfjaskrám, reglugerð um gerð lyfseðla og ávísun lyfja, afgreiðslu þeirra og merkingu svo og önnur fyrirmæli sem að þessu lúta.

Sú heimild sem verið er að leggja til hér dregur úr þessu, þ.e. þeim upplýsingum sem þarf að birta. Hér var talað um samkeppni. Af hverju má ekki auglýsa verðið og af hverju er ekki skylt að auglýsa verðið ef þetta á að vera til að aðstoða menn við að komast á markað, þótt ég sé reyndar ekki sérstaklega hlynnt því að verið sé að markaðssetja lyf eða heilbrigðisþjónustu? Ég tek undir með hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, ég held það hafi verið hún, um aukaverkanir gagnvart börnum eða öðrum sem ekki mega taka lyfin o.s.frv. eða einhver tiltekinn undirliggjandi sjúkdómur, það sé ekki heimilt eða eitthvað slíkt. Ég held að við eigum ekki að gefa afslátt af upplýsingum og mér finnst það skrýtið í ljósi þess að annars staðar erum við að styrkja neytendaréttinn með því að krefjast meiri upplýsinga en minni.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að hafa langt mál um þetta. Mig langaði aðeins að koma inn á það sem mér finnst vert að nefndin velti fyrir sér og sé meðvituð um þegar málið kemur inn aftur og búið er að senda það til umsagnar.



[16:40]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar kannski, eins og aðrir þingmenn sem tekið hafa til máls um þetta mál, að velta aðeins upp sýn okkar á þessi mál í það heila, þ.e. finnst okkur lyf, þau sem eru ólyfseðilsskyld, vera eins og hver önnur vara sem eigi að auglýsa á sömu forsendum og hverja aðra vöru. Ég er ekki viss um það. Mér finnst við þurfa að fara varlega í það og eiga um það alvörusamtal hvenær við erum að tala um vöru sem er þess eðlis að hana sé eðlilegt að auglýsa eins og hverja aðra markaðsvöru í samkeppni við aðra.

Einnig vildi ég spyrja — það er ástæðan fyrir því að ég kem hingað upp í örstutta tölu, ég sé það í athugasemdum við frumvarpið að Lyfjastofnun gerir þá athugasemd að tímabært sé orðið að gera heildarendurskoðun á reglum um þetta — hvers vegna menn séu að drífa sig í að gera þessa breytingu án þess að fara í þessa heildarendurskoðun fyrst, hvað hasti, hvort eitthvað sérstakt valdi því að menn þurfi að drífa þessa einu breytingu í gegn en geti ekki beðið eftir heildarendurskoðun á reglunum eins og Lyfjastofnun gerir greinilega athugasemdir við og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið. Ég hefði gjarnan viljað fá skýringu á því hér á eftir ef hæstv. ráðherra kemur hingað í lokaræðu.



[16:41]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við erum hér að skoða frumvarp til breytinga á lyfjalögum nr. 93/1994 og breytingin er fólgin í því að bæta miðli sem heitir sjónvarp við þær heimildir sem fyrir eru varðandi auglýsingar á lyfjum sem ekki krefjast lyfseðils.

Auglýsingar sem birtast í prentmiðlum eru oft stærri, eru ítarlegri, taka meira pláss, vara lengur, ef við getum orðað það svo, en sjónvarpsauglýsingar. Ekki hefur verið skylt í auglýsingum í prentmiðlum að greina frá aukaverkunum og öðru í þeim dúr sem greint er frá í leiðbeiningum sem fylgja slíkum lausasölulyfjum. Það er heldur ekkert í lyfjaverslunum sem segir manni, þegar maður kemur inn og ætlar að kaupa lyf í lausasölu, hvaða aukaverkanir þau lyf hugsanlega hafa, ekkert. Þar er engin auglýsing, ekkert sem segir til um slíkt.

Neytandinn, telji hann sig þurfa á lausasölulyfi að halda, verður einfaldlega að kaupa það, hann þarf að opna pakkningarnar og kynna sér hvort hann má taka lyfið með því að lesa leiðbeiningarnar. Er þá ekki skynsamlegra að aukaverkananna sé getið í auglýsingu, jafnt í prentmiðlum sem og í sjónvarpi, frekar en að líta svo á að við eigum ekki að auglýsa lyfið? Við erum þá í það minnsta að upplýsa neytandann, sem fer inn í lyfsöluverslun og kaupir lyfið, um þær hugsanlegu aukaverkanir sem geta fylgt því. Er það ekki meiri og betri neytendavernd en að gera ekki neitt og láta neytandann kaupa eitthvað sem hann síðar kemst að raun um að hann getur ekki nýtt sér? Kannski er ein setning á leiðbeiningarseðlinum sem fylgir sem segir: Ef þetta háir þér eða hitt þá máttu ekki nota þetta lyf. Samt er lyfið selt án þess að það sé lyfseðilsskylt.

Ég held að það væri nær, ef við ætlum að tala um neytendavernd, að gera ítarlegri kröfur um hvað á að koma fram í auglýsingum frekar en að ætla að falla frá því að leyfa auglýsingar í sjónvarpi sem yfirleitt birtast sem stutt blikk. En ef geta á aukaverkana tekur auglýsingin lengri tíma, hún verður kostnaðarsamari og við vitum ekki hve margir eru tilbúnir að fara út í það. Ég held að neytendaverndin sé fólgin í því að menn séu skikkaðir til að segja meira um lyfið en minna frekar en ætla að falla í þá gryfju að segja: Þetta lyf má bara auglýsa í prentmiðlum, ekki í sjónvarpi.

Virðulegur forseti. Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir gerði: Af hverju er ekki einfaldlega farið í heildarendurskoðun á reglum um lyfjaauglýsingar fyrst Lyfjastofnun telur það tímabært? Hefur eitthvað komið fram í samræðum við Lyfjastofnun eða starfsfólk þar um þá hugmynd að heimila einfaldlega auglýsingu á lyfjum og líka á lyfseðilsskyldum lyfjum? Það væri fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra um það.

Virðulegur forseti. Hér er verið að bæta sjónvarpinu inn af því að prentmiðlarnir einir fá auglýsingarnar. Ég sé ekki að neytendavernd sé fólgin í því að banna slíkar auglýsingar í sjónvarpi. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að neytendaverndin sé að krefja þann sem auglýsir um nánari upplýsingar frekar en hitt.



[16:46]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún er að mörgu leyti eins og við var að búast. Þetta eru spurningar sem maður hefur verið að velta fyrir sér varðandi þetta mál, eðlilega. Ástæða þess að þetta mál kemur fram nú, svo að ég svari því strax, er fyrst og fremst sú að kerfið hefur kastað þessu á milli sín í allnokkur ár. Í mínum huga er þetta tiltölulega einföld lítil breyting. Ég hef ekki séð neinar forsendur fyrir því að gera á þennan hátt upp á milli fjölmiðlanna og hef ekki fengið nein rök fyrir því hvers vegna taka á einn fjölmiðil út úr, eina leið til að koma upplýsingum á framfæri, umfram annan og banna ljósvakamiðlum eða sjónvarpi að auglýsa lausasölulyfin, ég hef ekki fengið neinar skýringar á því.

Það er eðlilegt að spurt sé hvers vegna ekki sé farið í heildarendurskoðun á lyfjalögum eða því um líku, það verk er í undirbúningi. Ég geri ráð fyrir því að á árinu 2016 munum við koma fram með frumvarp um ný lyfjalög. Ég taldi einfaldlega ekki rétt að bíða eftir þeirri vinnu með þá breytingu sem hér um ræðir.

Ég vil vekja athygli á því, í ljósi umræðunnar um það hvaða upplýsingar gætu komið fram í auglýsingum um lyf, að ef þetta gengur fram með þessum hætti verður áfram skylt að tilgreina í lyfjaauglýsingu bæði nafn framleiðanda og heiti lyfs ásamt virkum efnum, helstu ábendingum og frábendingum sem varða notkun á því lyfi sem um ræðir. Ég dreg þetta í raun saman þannig að ég tel að núverandi ákvæði í lögum um þessar auglýsingar brjóti einfaldlega á rétti neytenda til að fá upplýsingar ef ég tek stöðuna þeim megin.

Ég hef ekki fundið nein rök fyrir því að takmarka þetta þarna. Á meðan við leyfum auglýsingar á lausasölulyfjunum tel ég einboðið að við leyfum það í öllum fjölmiðlum. Það er ástæðan fyrir flutningi þessa máls, þetta er fyrst og fremst til að takmarka ekki það svigrúm sem þeir sem flytja þetta inn og vilja selja hafa til að auglýsa sína vöru, koma upplýsingum á framfæri, og ekki síður fyrir neytendur til þess að nálgast þær hinar sömu upplýsingar.

Ég ítreka þakkir fyrir þessa umræðu og vænti þess að málið gangi til nefndar og hún afli umsagna frá hinum ólíku hagsmunaaðilum þessu tengdu, neytendum sömuleiðis.

Ég vil þó nefna það hér rétt í lokin, til upplýsingar fyrir þá sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og vilja fylgjast með þessu máli, að Lyfjastofnun hefur eftirlit með auglýsingum lausasölulyfja og innihaldi þeirra. Þannig að fyrir hendi er virkt eftirlit með þeim auglýsingum sem þegar eru leyfðar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.