144. löggjafarþing — 60. fundur
 2. feb. 2015.
Náttúruminjasafn Íslands.

[15:30]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eitt þriggja höfuðsafna á Íslandi heitir Náttúruminjasafn Íslands. Þetta höfuðsafn fékk innan við 25 millj. kr. á fjárlögum yfirstandandi árs og er ekki ofmælt að þetta sé ófremdarástand án þess að hér standi til með nokkrum hætti að fara að draga einhvern til ábyrgðar fyrir það. Í því samhengi er vert að geta þess að af milljón ferðamönnum sem komu til landsins má ætla að um 800 þúsund hafi komið hingað sérstaklega til að njóta íslenskrar náttúru. Á meðan erum við í raun og veru að skila auðu í einhverri framtíðarsýn fyrir Náttúruminjasafn Íslands.

Ég spyr hæstv. ráðherra um framtíðarsýn hans varðandi náttúruminjasafn. Hvar eru málin stödd að því er varðar húsnæðismálin? Safnið er núna í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu sem getur ekki talist nein framtíðarlausn. Hvar er málið statt varðandi sýningu í Perlunni sem hefur lengi verið rædd? Svo er vert að spyrja hæstv. ráðherra um það sem var töluvert í umræðunni í haust sem leið, og hefur verið í umræðunni lengur, þ.e. hvert steypireyðurin á að fara og hvort hún eigi að vera krúnudjásn nýs náttúruminjasafns, eins og eðlilegast væri í eyríki.

Ég spyr sem sé hæstv. ráðherra: Hver er framtíðarsýnin og hver er staða húsnæðismála?



[15:31]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst um síðasta lið spurningar hv. þingmanns, fjórða lið, um steypireyðina. Það hefur komið fram áður í ræðum og einnig í fjölmiðlum að fyrirkomulagið er hugsað þannig að hún fari til Húsavíkur en þó þannig að það liggi fyrir að þegar kemur að því að hægt verður að koma hér upp sómasamlegu safni, höfuðsafni, komi hún aftur hingað en þá verði búin til afsteypa sem hægt verði að hafa áfram á Húsavík. Þetta hefur komið fram hér áður og ég ítreka það, en við viljum auðvitað líka styðja vel við bakið á þeim náttúrugripasöfnum og minjasöfnum sem eru nú þegar til staðar, m.a. á Húsavík, og gera þeim kleift að efla sína starfsemi. Þessi ákvörðun var liður í því.

Hvað varðar framtíðarsýn er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, staða náttúruminja og náttúrugripa hér, safnamál, hefur um langa tíð, áratugum saman, verið í ólestri. Í sjálfu sér er ekki komin endanleg mynd á hvernig á að leysa það. Það eru uppi áform sem hv. þingmaður nefndi í sinni fyrirspurn um sýningu í Perlunni, en ég vil taka fram að slík sýning getur aldrei orðið ígildi safns með þeim hætti sem við hv. þingmaður erum örugglega sammála um að þurfi að koma hér. Ég get bara sagt að það er í sjálfu sér ekki komin nein endanleg sýn á þetta mál önnur en sú að það stýrist mjög af því fjármagni sem við höfum til þessa málaflokks. Við erum í vandræðum með okkar söfn, það er ekki bara náttúruminja- eða -gripasafn sem við erum í vanda með, sem er þó alveg sérstakur og sláandi vandi vegna þess að okkur vantar það algjörlega. Ýmis önnur söfn, svo sem listasafnið, hafa um langa hríð verið undirfjármögnuð. Það vantar fjármuni til okkar safna þannig að þetta er hluti af býsna stóru máli sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) hefur hér máls á.



[15:34]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin eins langt og þau náðu. Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef það er misskilningur hjá mér en eins og ég heyri svar hans sé ég ekki betur en að núverandi mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson ætli að skila auðu á þessu kjörtímabili að því er varðar einhvers konar framtíðarsýn eða uppbyggingu fyrir náttúruminjasafn á Íslandi. Það liggur þá fyrir en á sama tíma sjáum við á þessu kjörtímabili ferðamenn fara upp fyrir milljónina á ársgrundvelli og ekki síður horfumst við í augu við það að við þurfum að taka verulega á að því er varðar náttúrumennt á öllum skólastigum á Íslandi ef við ætlum að standa undir nafni hvað það varðar. Þar mundi náttúruminjasafn auðvitað skipa lykilsess.

Ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef það er ekki rétt skilið hjá mér að hann ætli að skila auðu að því er varðar framtíðarsýn fyrir náttúruminjasafn.



[15:35]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Heldur þótti mér síðari ræða hv. þingmanns verri en sú fyrri, mér fannst sú fyrri málefnalegri. Það er auðvitað hægt að rekja nýorðna sögu um það sem var lagt upp með varðandi húsnæði í Perlunni sem ég held að hafi ekki verið alveg nægilega vel skipulagt. Ég held þó að það sé ágætt sem hv. þingmaður sagði í upphafi, það væri óþarfi að draga þetta inn í einhverja flokkspólitíska línu, en ég vil þó líka minna hv. þingmann á að kjörtímabilið er enn ekki hálfnað. Það er kannski fullsnemmt að gefa út slíkar yfirlýsingar en ég vil þó segja að núna stendur yfir vinna sem hv. þingmaður nefndi varðandi sýningu í Perlunni. Ég hef átt fundi með fulltrúum frá Reykjavíkurborg og fleirum þar sem verið er að skoða hvaða möguleika við getum þróað þar til að taka að minnsta kosti skref í rétta átt.

Hvað varðar síðan það að koma upp þessu höfuðsafni viðurkenni ég að það er ansi stórt og mikið verkefni sem við stöndum frammi fyrir á sama tíma og okkur vantar líka mjög fjármagn til þeirra höfuðsafna (Forseti hringir.) sem við höfum nú þegar komið á laggirnar. Verkefnið er ekki einfalt og hefur flækst fyrir mönnum um marga áratugi.