144. löggjafarþing — 60. fundur
 2. feb. 2015.
jöfnun húshitunarkostnaðar.
fsp. ÁsmD, 383. mál. — Þskj. 512.

[16:59]
Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Búsetujafnrétti og byggðamál eru mál sem kannski fá ekki nægilega mikla umfjöllun hér í þinginu og annars staðar en engu að síður eru þau gríðarlega mikilvæg.

Eitt af þeim málum sem þarna heyrir undir er húshitunarkostnaður og rafmagnskostnaður í dreifbýli. Það er réttlætismál að allir búi þar við sama borð og sama kostnað óháð búsetu. Þegar kemur að dreifingu raforku hefur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagt fram frumvarp sem miðar að því að jafna dreifikostnað á raforku í hinum dreifðu byggðum landsins. Það er vel og vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það. Frumvarpið er nú til meðferðar í þinginu og bíður 2. umr.

Annað mál sem er gríðarlega mikilvægt snýr að jöfnun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Það er nefnilega svo að vítt og breitt um landið í hinum dreifðu byggðum búa ekki allir við það að geta kynt hús sín með heitu vatni á jafn hagkvæman hátt og margir þekkja á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þetta hefur í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir þá einstaklinga, fyrir þau fyrirtæki og fjölskyldur sem búa á þeim svæðum.

Í landsfundarsamþykktum beggja stjórnarflokkanna, bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, er skýrt kveðið á um að það skuli jafna húshitun á köldum svæðum. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins sagði í ályktun um atvinnumál, með leyfi virðulegs forseta: „Gengið verði til tafarlausra aðgerða til þess að lækka húshitunarkostnað þar sem hann er mestur.“

Flokksþing Framsóknarflokksins sagði, með leyfi virðulegs forseta: „Lagt verði á sérstakt jöfnunargjald sem verði notað til að greiða niður húsnæðiskostnað og flutningskostnað á raforku með það að leiðarljósi að jafna kostnað við húshitun á landsvísu.“

Virðulegi forseti. Þetta rataði síðan inn í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar segir, með leyfi virðulegs forseta: „Unnið verður að jöfnun raforku- og húshitunarkostnaðar.“

Eins og ég sagði áðan þá hefur hæstv. ráðherra lagt fram frumvarp um jöfnun á dreifikostnaði raforku en við höfum ekki enn séð frumvarp koma hingað inn í þingið sem miðar að jöfnun á húshitunarkostnaði sem er líka mjög mikið hagsmunamál og mjög mikilvægt eins og ég vék að í ræðu minni. Um leið og ég þakka fyrir það frumvarp sem komið er fram varðandi dreifinguna langar mig að spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að því hvenær megi vænta ráðstafana sem miða að því að jafna húshitunarkostnað að fullu milli kaldra svæða og annarra líkt og kveður á um í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og samþykktri stefnu beggja stjórnarflokkanna.



[17:02]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir þessa fyrirspurn og tek undir hvert orð í ræðu hans, þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Fyrirspyrjandinn rakti ágætlega stöðuna á því frumvarpi sem bíður nú 2. umr., en í því felst það sanngirnismál að jafna dreifikostnað á raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis. Þetta eru þannig mál að þegar einni stærð er hnikað til þá fara gjarnan aðrar stærðir af stað þannig að það er tiltölulega snúið, en enginn skyldi efast um það að við í báðum stjórnarflokkunum og ég held reyndar á þinginu öllu höfum ríkan vilja til að klára þetta mál bæði hvað varðar dreifinguna og síðan niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar.

Á fjárlögum 2015 er núna samtals 1.479,5 millj. kr. ráðstafað til niðurgreiðslu og hitunar íbúðarhúsnæðis. Inni í þeirri tölu er sérstakt viðbótarframlag upp á 57 millj. kr. til að mæta viðbótarkostnaði við rafhitun í þéttbýli vegna virðisaukaskattsbreytinganna sem urðu um áramót og upptöku jöfnunargjalds á raforku.

Það hefur legið fyrir um nokkurra ára skeið að þeir fjármunir sem úthlutað er á fjárlögum á hverju ári til niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar ná ekki að dekka að fullu þann kostnaðarmun sem er á húshitun á hitaveitusvæðum og köldum svæðum. Brýnt er að bregðast við því og þess vegna hef ég sett þau mál í forgang innan ráðuneytisins.

Fyrri áfanganum eins og hér hefur komið fram hefur verið ýtt úr vör. Frumvarpið sem hefur verið títt nefnt bíður nú 2. umr. og ég er vongóð um að það verði afgreitt sem lög á næstu dögum. Til samræmis við það frumvarp er á fjárlögum ársins 2015 gert ráð fyrir 848 millj. kr. dreifbýlisframlagi til jöfnunar kostnaðar við dreifingu raforku og er þar um að ræða 304 millj. kr. hækkun á dreifbýlisframlagi frá fyrra ári. Þegar jöfnunargjaldið verður komið að fullu til framkvæmda árið 2016 er ráðgert að búið verði að tryggja fjármuni til að ná fullri jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli. Vegna þess að hér hefur ein stærð áhrif á aðrar, eins og ég útskýrði áðan, hefur þessi aðgerð m.a. veruleg áhrif á þörf fyrir niðurgreiðslur vegna rafhitunar húsnæðis þar sem raforkukostnaður í dreifbýli mun lækka verulega vegna þessa aukna dreifbýlisframlags.

Síðari áfanginn í verkefninu snýr hins vegar að því að ná fram fullri jöfnun húshitunarkostnaðar og þá kem ég að spurningu hv. þingmanns: Hvenær má vænta ráðstafana sem miða að því að jafna húshitunarkostnað að fullu milli kaldra svæða og annarra? Svarið er að slíkra ráðstafana er að vænta núna á vorþingi.

Í minnisblaði sem ég lagði fyrir ríkisstjórnina í nóvember síðastliðnum vakti ég athygli á að brýnt væri að til lengri tíma væru tryggðir fjármunir á fjárlögum til að jafna að fullu kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis hjá þeim sem ekki hafa kost á hitun með jarðvarma. Orkustofnun hefur reiknað út að til að tryggja fulla jöfnun þurfi að auka niðurgreiðslu samkvæmt lögum um 240 millj. kr., að teknu tilliti til virðisaukaskattsbreytinganna og jöfnunargjaldsins. Ég get því upplýst hér að til að fylgja framansögðu eftir mun ég á næstu vikum leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar til að fá fram afstöðu þingsins til stefnumörkunar um að niðurgreiða að fullu kostnað við flutning og dreifingu á raforku til húshitunar frá og með árinu 2016. Sú tillaga er m.a. í samræmi við þau markmið sem sett voru fram í skýrslu starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar sem skilað var til þáverandi iðnaðarráðherra í desember 2011. Það má segja að það sé síðara skrefið í því verkefni sem ég hef hér farið yfir. Það er fyrst að tryggja fullan jöfnun á dreifikostnaði í dreifbýli og þéttbýli í gegnum jöfnunargjaldið og síðan í gegnum þingsályktunartillöguna að grípa til ráðstafana til að jafna húshitunarkostnað að fullu milli kaldra svæða og annarra.

Með afgreiðslu þessara tveggja þingmála er því stefnt að framtíðarlausn hvað varðar jöfnun á húshitunarkostnaði og raforkukostnaði, óháð búsetu í landinu. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þess út frá byggðasjónarmiðum og atvinnusjónarmiðum og hef fulla trú á því að um þessi mikilvægu mál náist góð sátt og samstaða í þinginu. Ég veit að mikill áhugi er á þessu en líka óþreyja þannig að við munum kappkosta að leggja fram þingsályktunartillöguna svo fljótt sem verða má.



[17:07]
Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Það er hverju orði sannara sem hæstv. ráðherra segir, að á þessu máli er mikill áhugi. Sex hv. þingmenn hafa óskað eftir að hafa gera stutta athugasemd.



[17:07]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þau mál sem við ræðum hér eru held ég ekki neitt ágreiningsefni. Allir flokkar hafa þetta á stefnuskrá sinni og það hafa verið stigin skref í þá átt, eins og t.d. í lok síðasta kjörtímabils. Ég vil geta þess varðandi það frumvarp sem ráðherra hefur fjallað um og er til vinnslu í nefndinni, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku með síðari breytingu, þ.e. jöfnunargjaldið, að það var hugmynd frá þeim sem hér stendur í nefndinni að við hefðum í raun og veru endaskipti á þessu á þessu ári, við mundum taka þær 240 milljónir sem hæstv. ráðherra segir að þurfi til að jafna húshitunarkostnaðinn og byrja á því strax á þessu ári og taka svo jöfnun dreifikostnaðar þar á eftir, sömu upphæð. Því miður var ekki samþykkt að klára þá vinnu svoleiðis en við munum í nefndaráliti okkar í minni hlutanum gera grein fyrir þessari tillögu sem hefði verið farsælla að fara í vegna þess að það er auðvitað miklu meira kallað eftir því að jafna húshitunarkostnaðinn, sem hér er gerður að umtalsefni. Það hefði verið hægt (Forseti hringir.) að ná samstöðu um málið og klára það fyrir jól ef sú leið (Forseti hringir.) hefði verið farin en það tókst ekki. En guð láti gott á vita, (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra hyggst koma með frumvarp (Forseti hringir.) um þetta núna í vor og vonandi (Forseti hringir.) getum við klárað það.



[17:09]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að við þingmenn komum hér hver á fætur öðrum til að lýsa yfir stuðningi við að húshitunarkostnaður verði jafnaður og bætt úr hjá þeim sem búa við það að borga hátt verð á svokölluðum köldum svæðum.

Mig langar að spyrja bæði málshefjanda og hæstv. ráðherra. Þegar menn voru að tala um þessi mál var skipuð nefnd sem skilaði tillögu um hvernig hægt væri að ná árangri varðandi bæði dreifingu og jöfnun húshitunarkostnaðar. Þar kom fram að tillaga var um að leggja þennan viðbótarkostnað á aðra notendur í landinu, þar með talda stóriðjuna. Nú var fallið frá því sem þýðir að þrefalt gjald er lagt á þá sem eiga að bera þetta, þ.e. almenning, vegna þess að stóriðjan er tekin út.

Mig langar að heyra af hverju menn reyndu ekki að hraða þessu með því að koma með þá gjaldtöku og hafa hana inni, til að tryggja árangur sem fyrst. Þetta skiptir mjög miklu máli. Það eru falleg orð í stefnuyfirlýsingu. Það er klár viljayfirlýsing um að fara í þetta. En af hverju (Forseti hringir.) er verið að hlífa stóriðjunni sem raforkunotanda við því að taka þátt í þessu með okkur? Við (Forseti hringir.) hefðum getað verið búin að ná árangri nú þegar.



[17:10]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þeim samhljómi sem hér er um mikilvægi þess að vinda bráðan bug að því að jafna húshitunarkostnað. Ég vil minna á að það var stigið mjög stórt skref í þá átt í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar við bættum á erfiðum tíma, þegar ríkisfjármál voru í mjög erfiðri stöðu, hraustlega í fjárframlög til jöfnunar húshitunarkostnaðar. Það var í fyrsta skipti frá 2003 sem því var hreyft. Það væri mjög mikilvægt að halda áfram á þeirri vegferð. Ég vil fræða málshefjanda á því að það eru ekki einungis stjórnarflokkarnir sem hafa stefnumörkun að þessu leyti, við þingmenn Samfylkingarinnar lögðum fram í haust þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir í byggðamálum þar sem þetta er einn af þeim ellefu lykilþáttum sem við teljum að þurfi að leggja áherslu á til að styrkja og styðja við byggð í landinu.

Ég vil að síðustu taka undir það sem hér hefur verið nefnt að auðvitað skiptir máli varðandi jöfnun dreifikostnaðarins að þar leggi allir af mörkum, líka stóriðjan, eins og gert var ráð fyrir í hinni (Forseti hringir.) þverpólitísku nefndarvinnu sem fór fram á síðasta kjörtímabili í því (Forseti hringir.) efni.



[17:12]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega er þetta snúið mál en ég styð hana fullkomlega í áformum hennar. Ég er þeirrar skoðunar að auðvitað kosti að halda landinu í byggð, en það er grundvallarafstaða hjá mér að ég er reiðubúinn til þess að axla þær byrðar sem skattborgari sem það felur í sér. Það er ákaflega mikilvægt að jafna lífskjör milli þeirra sem búa á þéttbýlissvæðunum og hinna sem búa í hinum strjálu byggðum. Það er alveg klárt og hefur margsinnis komið fram að húshitunarkostnaðurinn skiptir miklu máli. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að 240 milljónir séu ekki sú upphæð heldur að töluvert meira þurfi til þess. En guð láti gott á vita.

Ég vil samt ítreka að þetta má ekki verða til þess að við, þingið eða framkvæmdarvaldið, sláum slöku við það að halda áfram að afla heits vatns. Það er hægt að finna heitt vatn svo að segja hvar sem er. Það kostar líka peninga. Það má ekki draga úr því. Sömuleiðis skulum við fylgjast með nágrannaþjóðunum og hvernig þróun varmadælna fleygir þar fram. Það er einnig (Forseti hringir.) hlutur sem við þurfum að skoða, hugsanlega með meiri ívilnunum en ríkið býður upp á (Forseti hringir.) núna.



[17:13]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún gaf um að mál um þetta væri væntanlegt vil ég spyrja: Hvar var hv. þingmaður og málshefjandi þegar við ræddum þetta, m.a. við í Vinstri grænum, og kölluðum eftir afstöðu hans til fjármuna er þetta varðaði á síðasta þingi og aftur núna við fjárlagagerðina?

Það er svolítið sérkennilegt að hér skuli koma inn mál frá stjórnarþingmönnum sem snýr fyrst og fremst að fjárframlögum og forgangsröðun núna í byrjun vorþings, en ekki þegar við erum að fjalla um fjárlögin, þar sem það á heima.

Ég segi eins og sagt var áðan: Guð láti gott á vita að þetta verði að veruleika. Við viljum hafa val um búsetu og þetta snýst um að geta gert það. Eins og hv. málshefjandi þekkir mætavel komandi úr (Forseti hringir.) sveit þá kostar mun meira að kynda þar og eiga heima þar. Mér finnst mjög sérkennilegt (Forseti hringir.) að koma með málið inn á þessum tímapunkti en þakka jafnframt fyrir það. (Forseti hringir.) Það ríkir samstaða um málið og það er gott að vita (Forseti hringir.) að ríkisstjórnarflokkarnir (Forseti hringir.) eru þeim megin. (Forseti hringir.)



[17:15]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er galli við niðurgreiðslur að þær hvetja til ákveðinnar notkunar. Menn geta ekki náð í styrkinn sinn nema nota rafmagn og það mikið af því. Þannig að þessi leið til styrktar vinnur gegn því að lækka kostnað við húshitun, eins og t.d. með varmadælum og öðru slíku. Ég mundi mikið frekar, og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að skoða það, veita hreinlega búsetustyrki á hvern íbúa á köldum svæðum og síðan geta menn ráðið því hvernig þeir nota þá, en þurfa ekki endilega að kaupa rafmagn til að ná í styrkinn.



[17:16]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem þetta mál snýst um er mjög einfalt í raun og veru. Í fyrsta lagi það sem nú er verið að gera með því frumvarpi sem fyrir liggur, og verður vonandi afgreitt bráðlega sem lög frá Alþingi, sem mun hafa það í för með sér að kostnaður milli þéttbýlissvæðanna og dreifbýlissvæðanna á þessum köldu svæðum verður jafnaður að fullu. Þá erum við búin að ná einum áfanganum, kannski þeim allra brýnasta vegna þess að kostnaðurinn er mestur í dreifbýli og jafnvel meiri en á þéttbýlisstöðunum á hinum svokölluðu köldu svæðum.

Þá er hitt eftir að ljúka því sem ætlunin var að gera með þeirri þverpólitísku nefnd sem vísað var til hér áðan og það felur í sér að jafna dreifingarkostnaðinn á orkunni, ekki að jafna að fullu orkukostnaðinn heldur eingöngu að segja sem svo að við ætlum öll, landsmenn, að bera þennan dreifingarkostnað og þannig að skila, má segja, orkunni með sama hætti til allra landsmanna. Það er áfangi sem þarf síðan að taka núna í framhaldinu og það er það sem hæstv. ráðherra var meðal annars að vísa til. Þess vegna fagna ég yfirlýsingu hennar og þeirra (Forseti hringir.) annarra sem hafa lýst stuðningi við þessi áform.



[17:17]
Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim sem tóku til máls og hæstv. ráðherra fyrir mikinn áhuga því að koma hratt og vel með lausnir á þessu máli.

Í upphafi vil ég segja að mér finnst þetta snúast um að við höfum horft upp á það hérna í gegnum tíðina, hver svo sem er við völd, að menn koma og segja: Við bættum í, við bættum í húshitunarkostnaðinn, við bættum í niðurgreiðslu til dreifingar. Þetta á að gerast sjálfkrafa. Þetta á að gerast, eins og þetta frumvarp um dreifikostnaðinn núna, þannig að þetta sé eitthvað sem uppfærist sjálfkrafa. Það á að vera fullkomlega eðlilegt að rafmagn kosti það sama hvar sem er á landinu, það á vera fullkomlega eðlilegt að menn borgi sambærilegt verð fyrir að kynda hús sín og það á ekki að vera háð geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna hverju sinni hvort það er svoleiðis eða ekki. Það er þess vegna sem er svo mikilvægt að hraða þeim málum sem ráðherra er að vinna að. Ég fagna mjög þeim yfirlýsingum. Það er vegna þess að þetta á ekki að vera spurning um það hvort menn eru tilbúnir til þess að setja 100 milljónum meira eða minna hverju sinni í þessa niðurgreiðsluliði. Þetta eru sjálfsagðir hlutir, sjálfsögð réttindi og það er ekki þannig að verið sé að niðurgreiða kostnaðinn við að búa á landsbyggðinni.

Það hefur verið tekin mikil umræða um það meðal annars í Noregi að setja verði ákveðna fjármuni til landsbyggðarinnar en þeir komi margfalt til baka vegna þess að í mörgum hinna dreifðu byggða er verið að skapa gjaldeyrisverðmæti, það er verið að skapa ýmis verðmæti, ferðaþjónustu, þar er iðnaður og ýmis atvinnuuppbygging sem skilar því margfalt til þjóðfélagsins sem sett var þangað inn. Það er því ekki rétt að tala um að hér sé á einhvern hátt verið að kosta það að halda byggð í landinu. Síður en svo.

Ég vil þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessari umræðu. Ég fagna því að hæstv. ráðherra er að vinna í málinu. Ég hvet hann til þess að gera það hratt og vel vegna þess að hver mánuður sem líður er dýr fyrir landsbyggðina og dýr fyrir þau svæði sem þurfa að kynda með rafmagni og bera hærri húshitunarkostað af þeim sökum.



[17:19]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingheimi og þeim sem tóku til máls fyrir góðar viðtökur við þessu máli. Það er, eins og hefur komið fram, ánægjulegt að heyra þann samhljóm sem heyrist í þessum sal varðandi málið. Ég tek þá hvatningu og brýningu til mín sem ég hef fundið hér og get upplýst að sú þingsályktunartillaga sem ég nefndi er á síðustu metrunum í ráðuneytinu, þannig að ég vonast til að geta komið með hana fljótlega til þings.

Ég vil aðeins bregðast við nokkrum af þeim athugasemdum sem hafa komið fram. Fyrst er það athugasemd frá hv. þm. Kristjáni L. Möller sem talaði um að hafa endaskipti á málinu. Það er alveg rétt lýsing á því. Það var nefnilega verið að hafa endaskipti á máli á síðustu metrum þess sem var lagalega hæpið, að taka upp nýjan skatt, jöfnunargjald, innan laga um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, þ.e. skatt sem leggst á dreifiveiturnar, en nota síðan tekjurnar til að fjármagna allt annan fjárlagalið sem fellur undir önnur lög. Af þeim sökum og einnig vegna þess að við vorum komin með málið í ákveðið ferli var ekki fallist á þá tillögu þingmannsins. Hún hefði þurft að koma miklu fyrr og er annað mál. Við getum unnið með þetta áfram og sameiginlega náð í mark með bæði málin eins og til stendur.

Varðandi umræðuna um stóriðjuna er þetta ekki í fyrsta sinn sem hún kemur upp. Ástæða þess að stóriðjan er ekki í jöfnunargjaldsfrumvarpinu sem bíður afgreiðslu er sú að stóriðjan er utan dreifiveitnanna. Það hefur komið skýrt fram í máli mínu að þess vegna hef ég ekki tekið hana þar inn. Þetta er mál sem þarf einfaldlega að klára. Ég get fullvissað hv. þm. Össur Skarphéðinsson um að við ætlum svo sannarlega ekki að hætta að leita að vatni og við ætlum ekki að hætta að leita annarra lausna. Síðast í dag var tekin ákvörðun um að skipa nefnd um stórt varmadæluverkefni sem (Forseti hringir.) mun taka þessi mál til heildarskoðunar með það að markmiði að geta (Forseti hringir.) gert verulegar úrbætur í þeim málum til allrar framtíðar.