144. löggjafarþing — 65. fundur
 16. feb. 2015.
frumvarp um stjórn fiskveiða.

[15:04]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nýverið bárust fregnir af því frá einum þingmanna Sjálfstæðisflokksins að frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sæti fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins vegna þess að í því fælist ákvæðið um þjóðareign á fiskimiðunum, þeirri grundvallarauðlind sem við byggjum afkomu okkar á í ríkari mæli en öðrum. Þingmaðurinn lét þau orð falla að í þessu fælust sovéskar breytingar.

Ég spyr formann Sjálfstæðisflokksins: Er þetta rétt? Er það raunverulega þannig að frumvarp til laga um stjórn fiskveiða sitji fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins? Og er það raunverulega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi markað þá afstöðu að hann standi ekki með grundvallarhugmyndinni um þjóðareign á auðlindum og sameign þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni? Er það raunverulega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn telji sig ekki bundinn af því sammæli sem orðið hefur hér á undanförnum árum og áratugum í vaxandi mæli og hófst með starfi auðlindanefndar undir forustu Jóhannesar Nordals um að við ættum að líta svo á að sjávarauðlindin væri sameign þjóðarinnar?

Það er mjög mikilvægt að fá þetta á hreint. Það er svolítið skrýtið ef umræða um þetta á sér stað í einhverjum afkimum milli stjórnarflokkanna eða fulltrúa þeirra og hún kemur ekki inn á Alþingi. Ég tel eðlilegt að ef Sjálfstæðisflokkurinn er þeirrar skoðunar að í hugmyndinni um þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni felist sovésk stefnubreyting leyfi hann frumvarpi um það að koma inn í þingið, haldi þeirri skoðun sinni fram í þingsölum, vinni henni hér fylgi og fái að reyna hvort það sé þingmeirihluti fyrir þeirri afstöðu.



[15:06]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Um þetta ákvæði hefur verið góð sátt. Á undanförnum árum hefur talsvert verið rætt um að ítreka þennan lagaskilning í stjórnarskránni. Ég hef stutt það að slíkt ákvæði færi í stjórnarskrá. Það er þess vegna enginn fótur fyrir því að það sé ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um að nytjastofnarnir verði áfram í sameiginlegri eign þjóðarinnar. Þegar menn leggjast hins vegar í það verk að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið okkar og alla þá umgjörð er ekki nema eðlilegt að menn vandi til verka. Það hefur verið grunnhugsun í þeirri vinnu sem sjávarútvegsráðherra hefur stýrt að vinna verkið þannig að um kerfið gæti skapast sem mest sátt. Á síðasta kjörtímabili var málið unnið með öðrum hætti að mínu áliti. Sjávarútvegsgreinin var öll meira eða minna í uppnámi og mikil átök um málið. Grunnhugmyndafræði ríkisstjórnarinnar var að byggja á þeim kannski granna þræði sem myndaðist þegar sáttanefndinni var komið á fót og halda áfram að rekja sig eftir honum í þeim tilgangi að ná breiðri samstöðu. Það er bara misskilningur ef því er haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.



[15:08]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ef formaður Sjálfstæðisflokksins meinar eitthvað með því að hann vilji spinna áfram þann þráð sem var spunninn í sáttanefndinni á síðasta kjörtímabili verður hann að lesa tillögurnar sem þar varð þó samstaða um. Grunnforsenda þeirra var þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá landsins. Það er forsendan fyrir öllu tali um einhverja sátt. Hvar er frumkvæði ríkisstjórnarflokkanna í því efni? Hvar er frumkvæði Sjálfstæðisflokksins í því efni?

Við sjáum líka að á samráðsvettvangi um aukna hagsæld koma allir færustu efnahagssérfræðingar þjóðarinnar og flytja okkur boðskap um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi byggt á fyrningarleið eins og Samfylkingin hefur margsinnis kallað eftir.

Ég hlýt nú að spyrja: Um hvað á sáttin að snúast? Það er alveg ljóst af hálfu okkar í Samfylkingunni að við munum alltaf standa með lagaákvæðum sem styrkja þjóðareign á auðlindinni og við köllum eftir því að sjálfstæðismenn efni fyrirheitið um ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá. (Forseti hringir.)



[15:09]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka þátt í umræðu um frumvarp sem ekki er komið fram og er þess utan á forræði annars ráðherra. Þetta er gamalkunnug umræða sem á að snúast um það að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sem hann hefur alltaf stutt. Hér er reynt að draga upp þá mynd að Sjálfstæðisflokkurinn sé líka á móti því að sambærilegt ákvæði verði skrifað í stjórnarskrá. Það er líka rangt. Meira er ekki um málið að segja.