144. löggjafarþing — 65. fundur
 16. feb. 2015.
aðgerðaáætlun í málefnum fátækra.

[15:24]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég hef töluvert miklar áhyggjur af stöðu þeirra sem glíma við fátækt hérlendis. Samkvæmt skýrslu sem kom frá velferðarvaktinni í desember 2013 eru nokkur atriði sem mig langar til að fara yfir með hæstv. ráðherra. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Þá er ljóst að hópur barna býr við fátækt og erfiðar aðstæður sem bregðast þarf við með það í huga að glötuð tækifæri í æsku verða ekki bætt síðar á lífsleiðinni.

Alþjóðlegar rannsóknir sýna að afleiðingar fátæktar eru skaðlegar heilsu fólks, leiða til félagslegrar útskúfunar, draga úr lífsgæðum og eru samfélaginu dýrar, hvort heldur er litið til lengri eða skemmri tíma. Ísland stendur almennt vel í alþjóðlegum samanburði en þrátt fyrir það eru of mörg heimili undir lágtekjumörkum, til dæmis búa 9,3% íslenskra barna á heimilum sem eru undir lágtekjumörkum. Þar skera heimili einstæðra foreldra sig úr þar sem 28% þeirra eru undir lágtekjumörkum. Einkum er hópur einstæðra mæðra í mikilli áhættu að lenda í langvinnri fátækt. Börn sem alast upp í fátækt eru líklegri til að verða fátæk á fullorðinsárum og verða fátækir aldraðir.

Bent hefur verið á að innan hóps einstæðra mæðra sé staða mæðra af erlendum uppruna hvað verst, ekki síst vegna þess að þær hafi oftast lítið félagslegt stuðningsnet hér á landi. […]

Niðurstöður íslenskra rannsókna sýna að öryrkjar sem til langframa lifa eingöngu af bótum Tryggingastofnunar ríkisins eiga í erfiðleikum með að tryggja daglegt viðurværi, leysa út lyf eða leita læknisþjónustu vegna kostnaðar og búa þar með við fátækt. Það sama gildir um þá sem hafa viðurværi sitt af fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til lengri tíma og lágtekjufólk sem býr við háan húsnæðiskostnað.“

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort stjórnvöld, ríki og samtök sveitarfélaga hafi sett fram heildstæða tímasetta aðgerðaáætlun um hvernig vinna skuli bug á fátækt á Íslandi eins og lagt er til í skýrslu velferðarvaktarinnar.



[15:26]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir fyrirspurnina. Ég veit að við deilum áhyggjum af þessum hópi, þeim hópi sem býr við mesta fátækt hér á Íslandi. Þegar fyrri velferðarvaktin skilaði af sér var þetta ein af þeim tillögum sem hún kom með til ráðherra. Í framhaldi af ákvörðun um að skipa velferðarvaktina upp á nýtt ákvað ég að breyta aðeins áherslunni hjá nýrri velferðarvakt og óska eftir því að þau kæmu með tillögur sem sneru sérstaklega að fátækasta hópnum í samfélaginu.

Ný velferðarvakt hefur nýlega skilað af sér fyrstu tillögunum sem snúa að þessum hópi og þar eru tillögur sem snúa að barnabótum og barnatryggingum, viðmiðum til lágmarksframfærslu, húsnæðismálum; grunnþjónustu, samhæfingu, að það verði einn samhæfingaraðili fyrir mál sem snúa að sveitarfélögunum, og einnig er lögð áhersla á að vinna með frjálsum félagasamtökum að því að takast á við þetta verkefni.

Velferðarvaktin heldur áfram að vinna að þessu verkefni og ég var líka í tengslum við þetta að taka við tillögum í dag sem verkefnisstjórn um fjölskyldustefnu var að skila af sér en þar var sérstaklega hugað að barnafjölskyldunum. Ég vil nota tækifærið til að þakka velferðarvakt sérstaklega fyrir þá vinnu sem snýr að félagsvísunum sem hafa komið fram og verið birtir fjórum sinnum. Það er eiginlega fyrst þar sem við erum að taka saman með heildstæðum hætti hvernig staða fólks er út frá félagslegum þáttum og þar eru þær tölur sem hv. þingmaður var að vísa til. Þær koma þarna fram. Við höfum nú miklu betri upplýsingar og getum þar af leiðandi betur beint aðgerðum í átt að þeim sem virkilega þurfa á því að halda. Ég held að við höfum séð vott af því við síðustu fjárlagagerð þar sem verið er að breyta tekjuviðmiðum varðandi barnabætur og líka varðandi vaxtabætur.



[15:28]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka svörin en ég er að kalla eftir því hvort komin sé fram tímasett aðgerðaáætlun. Ég hef líka miklar áhyggjur af öryrkjum. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig þátttaka almennings í kostnaði við lyf hefur aukist og ég veit um svo marga sem hafa ekki efni á því að taka lyfin sín út. Ég veit um svo marga og ég fæ bréf á hverjum einasta degi frá fólki sem nær ekki að lifa af þeim bótum sem það á rétt á út mánuðinn. Um miðjan mánuð er fólk farið að hafa áhyggjur af því að geta ekki leyst út lyfin sín, að geta ekki boðið börnunum sínum upp á lífskjör sem við eigum að bjóða öllum upp á hér í þessu landi. Ég óska eftir því að fá betri svör. Ég fagna því að önnur velferðarvakt sé í gangi en það er þá heilt ár sem hefur glatast. Ég óska eftir því að fá skýrari svör við þessum tillögum og hvernig (Forseti hringir.) bregðast eigi við þeim í formi lagasetningar.



[15:29]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný hv. þingmanni. Ég get því miður ekki tekið undir að eitt ár hafi glatast vegna þess að þær tillögur eru komnar fram. Þær eru í samræmi við ýmislegt sem við vorum að gera nú við fjárlagagerðina fyrir árið 2015 þar sem við erum að reyna að tryggja að stuðningur hins opinbera fari til þeirra sem hafa minnst á milli handanna. Það er nefnt hér sérstaklega eins og varðandi lyfin að þar var bætt við, hvort það var við 2. eða 3. umr. fjárlaganna, um 150 milljónum í greiðsluþátttökukerfið. Það var líka í fyrsta skipti í langan tíma sem komu um 72 milljónir inn í það sem snýr að félagslegri aðstoð við fólk vegna lyfjakaupa hjá Tryggingastofnun. Við erum síðan að fara yfir þessar tillögur sem ég nefndi sem eru á borðinu. Ég hef lagt megináherslu á að horfa á húsnæðismálin því að ég held að hár húsnæðiskostnaður sé að sliga þennan hóp einna mest. Það liggur alveg fyrir og það er alveg tímasett hvenær þau frumvörp eiga að koma hér inn í þingið.