144. löggjafarþing — 65. fundur
 16. feb. 2015.
Hafrannsóknastofnun.

[15:31]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort fjársvelti Hafrannsóknastofnunar tefli ekki í tvísýnu verulegri verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið, hvort það sé ekki þannig að skortur á loðnurannsóknum tefli því í tvísýnu að við náum þeim verulega afla sem vonir stóðu til á loðnuvertíðinni. Ég spyr hvort aukið fjármagn til hafrannsókna hefði ekki getað skilað okkur upplýsingum um loðnuna fyrr, skilað okkur viðbótarkvóta fyrr og nýtt þau skip sem til reiðu voru í janúar mun fyrr til að afla loðnunnar, hvort bræla og aðrar slíkar aðstæður geri ekki að verkum að nú geti þessi verðmætaöflun verið í uppnámi. Ég spyr hvort þetta undirstriki það ekki að við þurfum að verja meira fé til fiskirannsókna, til Hafrannsóknastofnunar, til að tryggja að verðmæti eins og hér eru í húfi skili sér á land. Hvað kostar það okkur sem þjóðarbú, hæstv. ráðherra, ef ekki nást til að mynda 100 þús. tonn af loðnu hér á land á þessari vertíð?

Hefði ekki verið skynsamlegra að fara sér nokkuð hægar í því að lækka veiðigjöldin og reyna að búa þá skaplega um fiskirannsóknir í landinu og reyna að stuðla að því að við fáum sem mest af verðmætum á land fyrir útgerðina, fyrir sjómennina, fyrir byggðirnar, fyrir ríkissjóð og fyrir samfélagið allt?



[15:32]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Hún er áhugaverð, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að loðnan hagar sér með talsvert öðrum hætti en venjulega. Loðnan er reyndar ólíkindatól og hefur verið það í gegnum áratugina. Við tókum nokkuð djúpa umræðu á síðasta þingi um það að Hafrannsóknastofnun hefur verið fjársvelt um langa hríð, langt skeið. Það var því mikið gleðiefni að samstaða náðist um það hér í þinginu og í fjárlaganefnd, að frumkvæði ráðuneytisins og sjávarútvegsráðherra, að tryggja Hafrannsóknastofnun umtalsvert meiri fjármuni á þessu ári en á síðasta ári — ef ég man rétt um 338 milljónir, þar af að vísu 150 sem eru vegna hvalatalningar og sértekjur af þessu eru tæpar 30 milljónir.

Annars er mjög ítarleg frétt um þetta mál á vef ráðuneytisins og ég beini því til þingmanna að kynna sér það því að það getur verið að ráðherra muni ekki nákvæmlega allar tölur. En aukningin á milli ára í heildarfjármögnun var eitthvað um 12,6% þannig að við gerðum eins mikið og hægt var. Og ef við undanskiljum þær 150 milljónir sem fara einsskiptis í hvalatalninguna er það um 6,5% aukning á milli ára, þar af 100 milljónir í rannsóknir á uppsjávartegundum eins og makríl og loðnu, sem ég held að hafi skilað sér.

Á síðasta ári settum við einnig á fjárauka umtalsverða fjármuni, eða 50 milljónir, í loðnurannsóknir þannig að við höfum sannarlega gert eins mikið og við höfum getað við þessar aðstæður. Það er hins vegar alveg ljóst að því meiri upplýsingar sem við höfum, því betri upplýsingar sem við höfum, því ábyggilegri eru þær ákvarðanir sem við byggjum ákvarðanir okkar á. Við byggjum þær á hinum vísindalega grunni og erum býsna stolt af því. Eflaust væri líka hægt að minnast á að veðráttan hefur verið einstaklega sérkennileg og erfitt að fara út. Það hefði alveg mátt hugsa sér að fiskifræðingar hefðu hugsanlega farið með (Forseti hringir.) einhverjum af þeim fiskiskipum út til þess að fylgjast með. Það hefði verið ódýrari leið til að fylgjast með loðnunni en að senda eitt skip, því að það er erfitt að finna loðnu á öllum hafsvæðinu, hún er að haga sér með nýjum hætti.



[15:35]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. 6% aukning á þessum lið eru óverulegar fjárhæðir í þessu samhengi. Við erum tala um tugmilljarða hagsmuni, við erum að tala um hagsmuni sem lúta að því hvort vöxtur verði í efnahagsstarfseminni á Íslandi á þessu ári eins og vonir stóðu til. Það sem við heyrum er að ef menn hefðu haft betri upplýsingar hefðu þeir getað gefið loðnukvótann út fyrr og nýtt skip, sem því miður nýttust ekki, allt að tveimur vikum fyrr en raunin varð til að ná þeim afla á land.

Ég gagnrýni hæstv. fjármálaráðherra líka fyrir það hvernig hann hefur farið með fjárveitingar til rannsókna, t.d. með því að láta kvóta fyrir á annað hundrað milljónir í hendurnar á tveimur einkafyrirtækjum í rannsóknir og kostnaðurinn við þær var ekki nema um það bil 25 milljónir. Það finnst mér illa farið með þá fjármuni sem voru þó til ráðstöfunar til rannsókna á þessu sviði.

Ég hlýt að spyrja ráðherrann hvort það hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn, þegar ljóst var að vonir væru um að við fengjum vöxt í efnahagslífinu vegna aukinnar loðnu, (Forseti hringir.) að það skorti á rannsóknir, hvort menn hafi ekki rætt það að skjóta strax út fjárveitingu og setja menn til rannsókna eins fljótt og kostur væri.



[15:36]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka fyrra svar mitt, við brugðumst við á síðasta ári. Það er rétt, ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda, að því meir sem við vitum því betra og því ábyggilegri verður hin vísindalega ráðgjöf sem við byggjum ákvarðanir okkar á.

Hafrannsóknastofnun er með rúma 3 milljarða, 3,3 milljarða kr., á fjárlögum, ef ég man rétt, eftir breytingarnar, sem þeir hafa úr að spila. Þeir sem stjórna Hafrannsóknastofnun vega og meta og ákveða forgangsröðun um hvaða rannsóknir eru mikilvægastar. Margar rannsóknir eru mjög mikilvægar. Það væri auðvitað mjög gott ef við gætum rannsakað allt og gætum svarað öllu, en þannig er það bara ekki, hvorki í hafrannsóknum né á öðrum sviðum mannlífsins. Við getum ekki gert allt, við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti.

Við höfum verið að reyna að skjóta eins sterkum stoðum undir starfsemi Hafrannsóknastofnunar og hægt er á síðasta ári og það getur vel verið að við þurfum að gera það áfram. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að starfsemi Hafrannsóknastofnunar er grundvöllur þess að við (Forseti hringir.) getum tekið skynsamlegar ákvarðanir á grundvelli vísindalegrar ráðgjafar.