144. löggjafarþing — 68. fundur
 18. feb. 2015.
plastpokanotkun, fyrri umræða.
þáltill. OH o.fl., 166. mál. — Þskj. 172.

[18:08]
Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að draga úr plastpokanotkun. Þingsályktunin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun hér á landi. Við val á leiðum til þess verði litið til annarra ríkja í Evrópu þar sem markvisst hefur verið dregið úr plastpokanotkun. Aðgerðaáætlun verði birt fyrir 1. mars 2015.

Flutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Guðbjartur Hannesson, Össur Skarphéðinsson, Bjarkey Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Elín Hirst. Eins og forseti tekur eftir er hér um þverpólitíska samstöðu að ræða.

Ég vil aðeins fara yfir greinargerð með tillögunni:

Undanfarna áratugi hefur mikil vakning orðið í samfélaginu um umhverfisvernd og endurnýtingu. Samfara auknu upplýsingaflæði og tæknivæðingu hefur endurvinnsla á notuðum umbúðum aukist til muna. Á 143. löggjafarþingi var Margrét Gauja Magnúsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um að kanna hagkvæmni þess að draga úr plastpokanotkun hér á landi. Í framhaldi af umræðum um þá tillögu telja flutningsmenn að grípa þurfi til aðgerða hvað þetta varðar.

Það er alkunna að plastpokar og aðrar plastumbúðir utan um matvæli og efnavörur hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Plast eykur eftirspurn eftir olíu og það brotnar treglega niður í náttúrunni. Áætlað er að hver íbúi Evrópusambandsins noti að meðaltali um 500 plastpoka á ári, flesta þeirra einungis einu sinni. Á árinu 2008 voru framleidd 3,4 milljón tonn af plastpokum í Evrópusambandinu. Fram kemur í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir árin 2013–2024 að ætla megi að um 70 milljónum plastpoka sé fleygt á hverju ári hér á landi en það eru um 1.120 tonn. Til að framleiða þennan fjölda poka þarf um 2.240 tonn af olíu.

Léttir plastpokar eru að jafnaði ekki notaðir oftar en einu sinni en geta verið hundruð ára að eyðast í náttúrunni, oft í formi örsmárra plastagna sem geta verið skaðlegar náttúru, til að mynda fyrir lífríki hafsins. Þannig hafa hafstraumar smalað plastögnum úr plastpokum og ýmsu öðru í gríðarstóra fláka í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi. Plastrusl í hafi getur einnig haft verulegan kostnað í för með sér fyrir útgerðir vegna plasts sem flækist í veiðarfærum, skrúfum o.s.frv. Talið er að árlega endi 8 milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið.

Einfaldar aðgerðir geta haft töluverð áhrif á lífríkið í langan tíma. Hver plastpoki sem fýkur út í veður og vind getur orðið upphafið að langri og afdrifaríkri atburðarás sem ekki hefði farið af stað ef meiri áhersla hefði verið lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir í upphafi.

Til að stemma stigu við þessari þróun hafa nokkur ríki í Evrópu gripið til úrræða eins og banns eða skattlagningar á notkun plastpoka til að draga úr magni þeirra í umferð og þar með neikvæðum áhrifum þeirra á umhverfið. Í þessu tilliti má sérstaklega benda á Írland, Þýskaland, Holland, Belgíu, Sviss og Ítalíu. Ef önnur ríki færu að ráðum þeirra væri hægt að draga umtalsvert úr plastpokanotkun á EES-svæðinu.

Vakin er athygli á því að nú þegar hefur verið ákveðið að hefja vinnu við breytingar á Evrópulöggjöf til að taka á þeim vanda sem skapast hefur vegna mikillar plastpokanotkunar. Því ber að fagna. Breytingarnar sem falla undir EES-samninginn og koma því til framkvæmda hér á landi miða að því að Evrópuþjóðir grípi til aðgerða til að draga úr plastpokanotkun í hverju landi fyrir sig. Hvert ríki getur svo valið mismunandi leiðir að þessu markmiði, svo sem að leggja á gjöld vegna notkunarinnar, setja sérstök landsmarkmið um samdrátt í plastpokanotkun eða leggja blátt bann við slíkri notkun.

Fram kemur á vefsíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að gert er ráð fyrir að breytingarnar muni lúta að tilskipun Evrópusambandsins um umbúðir og umbúðaúrgang sem Ísland hefur innleitt vegna EES-samningsins. Þannig muni ríkjum til að byrja með verða skylt að grípa til aðgerða í því skyni að draga úr notkun á plastpokum sem eru þynnri en 50 míkron. Slíkir pokar eru sjaldnar endurnýttir en aðrir plastpokar og enda því iðulega fljótt sem úrgangur. Fram kom í kjölfar umfangsmikils samráðs við almenning að ríkur vilji er til að gripið verði til aðgerða til að stemma stigu við plastpokavandanum og flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja rétt að grípa strax til aðgerða hér á landi til að draga úr notkun plastpoka.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þingsályktunartillagan verði til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd.



[18:13]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fara nokkrum orðum um þingsályktunartillögu hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur um að draga úr plastpokanotkun. Þetta er málefni sem hefur víða verið til umfjöllunar. Ýmis sveitarfélög hafa sett sér markmið, svo dæmi sé tekið, um að draga úr plastpokanotkun, efnt til plastpokalausra daga og ég man ekki betur en að ég hafi séð slíkar fregnir frá Hafnarfirði og Garðabæ sem var með slagorðið Temdu þér taupoka, ef ég man rétt, og merkileg þótti mér frétt sem ég sá í fyrra um að Rúanda hefði ákveðið að gerast plastpokalaust land, plastpokalaust Rúanda. Það er ekki svæði sem maður tengir endilega við slík átök þannig að þetta er víða reifað og rætt.

Vissulega er það rétt sem hér kemur fram, það er mikið framleitt af plastpokum og flestir þeirra, eins og kom fram í máli hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, eru nýttir einu sinni. Það er ekki mikil notkun á þessum plastpokum. Hins vegar held ég að það sé rétt sem bent var á í umsögnum um tillögu svipaðs efnis frá hv. þáverandi þingmanni Margréti Gauju Magnúsdóttur, þar sem lagt var til að gera úttekt á plastpokanotkun með það að markmiði að draga úr henni, það er líka mikilvægt að við skoðum valkostina. Við vitum að plastpokarnir brotna illa niður í umhverfinu og það eru umhverfisáhrifin sem af þeim stafa. Það sem þyrfti að gera er að skoða þetta ferli heildstætt, þ.e. hvernig plastpokarnir eru framleiddir, hvaða umhverfisáhrif sú framleiðsla hefur og bera saman við aðra kosti.

Sjálf hef ég verið mikil talskona þess að skipta yfir í taupoka en bent hefur verið á að þá þurfi að nota mjög mikið til að maður nái tilætluðum árangri hvað varðar umhverfisáhrif. Að sjálfsögðu munu þau skila sér ef við hreinlega tökum plastpokana út og allir skipta yfir í taupoka. Þá væntanlega næst árangurinn en það sem hefur verið bent á er að meðan plastpokar eru í boði og taupokarnir gleymast heima þurfi að meta áhrifin af því hversu mikið þurfi að nota taupokana í staðinn fyrir plastpokana og annað slíkt. Þetta er nokkuð sem væri áhugavert að hv. umhverfis- og samgöngunefnd færi yfir í umfjöllun sinni um málið. Ég vona svo sannarlega í ljósi þess að þetta mál hefur verið talsvert til umræðu, bæði á vettvangi sveitarfélaganna og bara almennt í stjórnmálunum, að hv. nefnd nái að fjalla um málið og fara yfir þessa þætti þannig að við náum tilætluðum árangri.

Ég veitti því athygli að umsagnaraðilar um tillögu hv. þáverandi þingmanns Margrétar Gauju Magnúsdóttur komu fæstir úr umhverfisgeiranum, voru fyrst og fremst sveitarfélög sem hafa tekið upp eða verið með átök á þessu sviði en einnig komu umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Sorpu þar sem settar voru á blað ýmsar spurningar. Það hefði því verið mjög áhugavert að fá líka umsagnir frá Landvernd og öðrum aðilum á sviði umhverfismála sem hafa skoðað þessi mál. Ég vænti þess að umhverfis- og samgöngunefnd skoði það.

Þessi tillaga er angi af miklu stærri umræðu sem lýtur að neyslu og sóun í samfélaginu. Við erum núna að taka þátt í samnorrænu verkefni um matarsóun sem er alveg feikilega merkilegt verkefni þar sem bent hefur verið á að allt að þriðjungi matvæla sé hent í Evrópusambandinu. Ísland sver sig væntanlega í ætt við ríki Evrópusambandsins hvað það varðar. Annað fyrirbæri sem er nátengt matarsóuninni er tískusóun svokölluð, þ.e. fólk kaupir mikið magn af fötum sem eru kannski nýtt sjaldan, fellur fyrir því að kaupa fimm gallabuxur á verði þrennra eða eitthvað slíkt, hugsar ekki út í þann umhverfiskostnað sem hefur orðið við framleiðslu flíkurinnar, við hvaða aðstæður verkafólk býr sem framleiðir þessar flíkur sem oft eru gríðarlega bágbornar eins og við höfum séð í fréttum þegar fataverksmiðjur hrynja með þeim afleiðingum að fjöldi fólks deyr þar sem það vinnur við algjörlega óviðunandi aðstæður við að framleiða ódýran tískufatnað handa Vesturlandabúum. Þetta er allt angi af sömu umræðu og lýtur að neyslumynstri. Ég er nokkuð viss um að allir hv. þingmenn þekkja þá tilfinningu að opna eldhússkáp og út hrynur eitthvert plastpokafjall, svo kaupir maður eitthvað og fer með heim í plastpoka sem maður stingur inn í skáp og svo, eins og hér kemur fram, er sá plastpoki aldrei notaður aftur. Jafnvel er svo bara, og vonandi, farið með hann í endurvinnsluna en honum ekki hent í almenna sorpið þegar tekið er til í skápunum einu sinni á ári . Þetta er angi af þessu neyslumynstri þar sem stöðugt er keypt meira og meira án þess að það sé endilega þörf fyrir það og án þess að hugað sé að heildaráhrifunum á umhverfið, án þess að hugað sé að vistsporinu sem við skiljum eftir okkur með þessari neyslu.

Ég fagna þeirri tillögu sem hér er fram komin. Ég veiti því athygli að hér eru meðflutningsmenn úr öllum flokkum þannig að ég hefði vænst þess að þessi tillaga fengi framgang á þinginu í ljósi þess að bak við hana er þverpólitískur stuðningur en mér finnst mikilvægt, eins og ég segi, að þegar við ræðum þessi mál gerum við það í stóra samhenginu, að við séum meðvituð um að markmið okkar er að minnka vistsporið sem við skiljum eftir okkur. Þess vegna er mikilvægt að farið verði yfir þær athugasemdir sem komu fram í umsögnum um heildarumhverfisáhrif plastpokanna og síðan að við stígum markviss skref í framhaldinu til að ná tilætluðum árangri. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það verði gert í hv. nefnd og vona það svo sannarlega. Hér er að vísu lagt til að aðgerðaáætlun verði birt fyrir 1. mars 2015. Hann er eftir viku þannig að ég á ekki von á því að sú dagsetning standist en ég vona að þetta verði samþykkt á þessu þingi þannig að við fáum að sjá marktæk skref á þessu ári. Það væri ánægjulegt og óskandi að við gætum farið í fleiri málaflokka þessu tengdu með sama hugarfari.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til um.- og samgn.