144. löggjafarþing — 69. fundur
 24. feb. 2015.
örnefni, 2. umræða.
stjfrv., 403. mál (heildarlög). — Þskj. 586, nál. m. brtt. 966.

[14:04]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um örnefni. Nefndarálit ásamt breytingartillögu er að finna á þskj. 966. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Elísabetu Pétursdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Umsagnir bárust frá íslenskri málnefnd, Landmælingum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og örnefnanefnd. Frumvarpið er nú lagt fram í þriðja sinn með lítils háttar breytingum frá upphaflegu frumvarpi. Nefndin afgreiddi nefndarálit með breytingartillögu á 143. löggjafarþingi en það fékk ekki afgreiðslu.

Markmið frumvarpsins er að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða sem hluta af íslenskum menningararfi. Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi lög um bæjanöfn o.fl., nr. 35/1953, og aðlaga þau nútímabúsetuháttum og skipulagsmálum í landinu. Þá er mælt fyrir um að skýra skuli og samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna og ákvörðunarvaldið flutt nær almenningi með því að færa ábyrgð á nafngiftum og skráningu þeirra til sveitarfélaga í samræmi við nútímalegri stjórnunarhætti. Þeir aðilar sem skiluðu inn umsögn um málið voru allir jákvæðir um efni þess.

Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um skipun og hlutverk örnefnanefndar. Fram kom við umfjöllun um málið í nefndinni að víða um land eru dæmi um röng nöfn eða rangan rithátt á skiltum opinberra aðila. Nefndin tekur undir ábendingar um að mikilvægt sé að örnefnanefnd geti hlutast til um þessi mál í ljósi þess að eitt meginmarkmið frumvarpsins er að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða. Nefndin leggur til breytingartillögu sem lýtur að þessu atriði þannig að eitt af hlutverkum nefndarinnar verði að úrskurða um nöfn á skiltum opinberra aðila.

Fjallað er um nafngiftir nýrra náttúrufyrirbæra í 7. gr. frumvarpsins. Fram kom í umsögn Landmælinga Íslands að það ákvæði sem og úrlausnir örnefnanefndar hefðu áhrif á örnefnagrunn Landmælinga Íslands en ekki væri tekið á tilkynningarskyldu úrskurðaraðila til þeirra svo örnefnagrunnur geti verið sem réttastur á hverjum tíma. Nefndin telur rétt að skerpa á þessu og leggur til þær breytingar að ef örnefnanefnd samþykkir tillögu skuli afrit af samþykktinni sent Landmælingum Íslands og eins að þegar ráðherra hefur staðfest nýtt nafn skuli sveitarstjórn eða eftir atvikum ráðherra upplýsa Landmælingar Íslands um nýja nafngift.

11. gr. frumvarpsins snýst um breytingar á öðrum lögum. Við meðferð málsins í nefndinni komu fram athugasemdir um að við breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, væri mikilvægt að gæta þess að við gerð reglugerðar um skráningu staðfanga væri haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Líta bæri til þess að sveitarfélögin gegndu veigamiklu hlutverki í öllu verklagi og því væri nauðsynlegt að tryggja samráð milli stjórnsýslustiga við allar stærri ákvarðanir og útfærslu þeirra. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingartillögu þess efnis.

Nefndin áréttar að það er mjög mikilvægt út frá menningarlegu og sögulegu gildi að varðveita örnefni og einnig út frá lagalegum og réttarfarslegum sjónarmiðum. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem er að finna á þskj. 966 og skýrðar eru í nefndaráliti eins og ég hef rakið hér.

Undir nefndarálitið rita Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Páll Valur Björnsson, Willum Þór Þórsson, Guðbjartur Hannesson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Helgi Hrafn Gunnarsson ritar undir álitið með fyrirvara.



[14:09]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst nýta tækifærið til að fagna því að þetta mál sé komið á þann stað að við sjáum nú fyrir að það verði afgreitt. Eins og kemur fram í frumvarpinu má rekja forsögu þess til hvatningar örnefnanefndar frá árinu 2011 þar sem nefndin ályktaði um nauðsyn þess að endurskoða lög um bæjanöfn o.fl. eins og þessi lög heita núna. Í kjölfarið var ráðist í þessa vinnu. Í tíð minni sem mennta- og menningarmálaráðherra árið 2012 var starfshópurinn skipaður og hann hefur þurft að fást við alveg feikimörg skemmtileg viðfangsefni við samningu þessa frumvarps til laga um örnefni.

Tvisvar áður hefur það verið lagt fram og það var lagt fram í þriðja sinn með lítils háttar breytingum frá upphaflegu frumvarpi. Meginefnið er þó nokkuð skýrt, það að setja heildstæða löggjöf um þennan hluta menningararfsins sem er kannski ekki mikið til umræðu í daglegu tali okkar en þó man ég eftir því að þegar gos hófst á Fimmvörðuhálsi, og það var í minni tíð sem ráðherra, varð mikil umræða um það hvað hnúkarnir skyldu heita. Menn voru með ýmsar hugmyndir en af því að fjárhagsstaða ríkisins var bágborin á þeim tíma komu upp ýmsar hugmyndir um að við mundum selja örnefnin, bjóða þau upp á eBay og þeir gætu keypt örnefnin sem byðu best og annað slíkt. Ýmsar slíkar hugmyndir bárust á mitt borð og ég þurfti að taka nokkur ágætisviðtöl út af því. Þá fór ég líka að hugsa: Hvað eru þessi örnefni sem við erum með allt í kringum okkur, hvort sem það eru götunöfn eða önnur staðarnöfn? Hvað býr að baki? Þetta er mikilvæg heimild um það hvernig við höfum gefið kennileitum nöfn í kringum okkur hingað til, segir sitthvað um þjóðarsálina, segir sitthvað um breytta tíma þegar til að mynda götunöfn í Reykjavík tóku breytingum og ákveðið var að nefna sumar götur eftir konum sem var mikil nýlunda hér. Almennt nefnum við hins vegar ekki götur eftir fólki. Þó að fleiri karlar en konur hafi fengið götur nefndar í höfuðið á sér eru þær almennt ekki mikið nefndar eftir mönnum, ólíkt mörgum höfuðborgum á Norðurlöndum þar sem mjög margar götur heita í höfuðið á þekktum einstaklingum. Í okkar tilfelli er algengara að við sækjum nöfnin í náttúruna eða menningararfinn. Fræðimenn hafa tekist á um það og ég hætti mér ekki inn á þann vettvang. Við sjáum það oft þegar um er að ræða örnefni sem augljóst er hvaðan eru dregin. Gufudalur, Reykjadalur, Reykjavík, þarna er alveg augljóslega verið að vitna í jarðhitann í kringum okkur. Önnur örnefni hafa verið umdeildari og þar ber að nefna hina frægu náttúrunafnakenningu þar sem því var slegið fram að öll örnefni ættu á einhvern hátt rætur að rekja til náttúrunnar en síðar hefðu bókmenntirnar farið að hafa áhrif á það hvernig við túlkuðum örnefnin og við farið að telja að örnefnin ættu rætur að rekja til bókmenntanna og menningararfsins en ekki náttúrunnar. Eins og ég segi eru mörg örnefni sem hefðin segir okkur að komi frá menningararfinum. Af því að ég er Reykvíkingur og hef nefnt Reykjavík get ég nefnt Esju sem er auðvitað tröllkonan í Kjalnesingasögu.

Svo geta misskilin örnefni valdið almenningi gríðarlegu hugarangri. Ég man vel þegar ég var á ferð um Vestfirði með Vegahandbókina og beið spennt eftir að sjá bæinn Umsvalir. Ég var búin að búa til ýmsar kenningar af minni litlu orðsifjafræðilegu kunnáttu um hvað gæti búið að baki þessu bæjarnafni, Umsvölum. Ég sá í anda danskan bónda sem þarna hefði sest að en svo kemur fram á skiltinu að bærinn heitir Uppsalir en ekki Umsvalir og þar með féllu allar mínar kenningar dauðar til jarðar.

Sama á við um Feitsdal, ég var líka með á hreinu að þar hefði búið fremur óheppinn ábúandi. Það var næsti bær á eftir Umsvölum en þá hét hann Feigsdalur. Þetta var þyrnum stráð ferð en sýnir hvað örnefnin eru ríkur þáttur í menningarlandslaginu, hvað við ráðum venjulega í það og teljum okkur vita hvað búi að baki. Þegar eitthvað alveg óskiljanlegt birtist sem við skiljum ekkert í eru einfaldar skýringar eins og misritanir í Vegahandbókinni. Þetta sýnir hvað þetta litar allt umhverfi okkar þannig að ég fagna þessu sérstaklega og vona að þetta frumvarp verði samþykkt.

Að lokum vil ég nota tækifærið og segja að ég er samþykk þeirri breytingartillögu sem nefndin gerir að sinni og kom frá íslenskri málnefnd. Er það ekki rétt hjá mér? Hún gengur út á að örnefnanefnd komi einnig að því að úrskurða um nöfn og skilti um opinbera aðila. Það er nokkuð sem ég hef líka tekið eftir, alls ekki sem sérfræðingur heldur áhugamaður um íslenska örnefnahefð, að þar er oft ákveðið misræmi þannig að ég fagna því að nefndin geri þessa breytingu að sinni og vonast til þess að við náum að ljúka þessu frumvarpi á þessu þingi. Mér sýnist allt stefna í það. Ég held að lagaramminn og umhverfið um þennan málaflokk horfi til mikilla bóta ef við náum að horfa á þetta heildstætt, ekki bara í dreifbýli heldur líka þéttbýli.

Að öðru leyti hyggst ég ekki lengja þessa umræðu.



[14:15]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er á ferðinni gagnmerkt mál sem verðskuldar að því sé sýnd athygli. Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir ágæta vinnu, að því er virðist, og þær breytingartillögur sem hún leggur til, sem ég held að fljótt á litið séu allar vel ígrundaðar og til bóta.

Ég vil þó segja í sambandi við þetta mál að ég hefði fagnað því að fá um það meiri upplýsingar, annaðhvort af hálfu hv. nefndar eða í greinargerð með frumvarpinu, sem ég hef svo sem ekki þaullesið endanna á milli, hvernig þessi mál standa almennt talað hjá okkur varðandi varðveislu menningararfsins að þessu leyti og þau háleitu markmið, sem eru ágæt, að tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum. Þetta er meira rammi utan um það að takast á við nafngiftir á nýjum örnefnum og skera úr um ágreining ef upp kemur, og hafa samráð um það. Hér er í raun ekki fjallað um stöðuna eins og hún er að öðru leyti eða litið til baka hvað varðar skráningu örnefna og úrvinnslu á þó þeim gögnum sem til eru. Nú kann vel að vera að það eigi alls ekkert heima hér nema til fróðleiks. Ég held að það væri engu að síður áhugavert að fá betra yfirlit yfir það og yfirsýn hvar við erum á vegi stödd varðandi það að varðveita og viðhalda og bera til komandi kynslóða þennan menningararf af því ég óttast að það sé ansi brotakennt hvernig málum er háttað á einstökum svæðum á landinu.

Það er mín reynsla af því að vinna með þessi mál — hún er auðvitað orðin svolítið ryðguð og þó ekki. Ég hef af og til á undanförnum árum og áratugum unnið að verkefnum sem tengjast stöðu þessara mála. Ég gerði það sem námsmaður í jarðfræði og í jarðfræðirannsóknum á sínum tíma. Ég kom einu sinni að því að gera hringsjá eða útsýnisskífu á ónefndum stað á landinu. (Gripið fram í: Við viljum vita hvar.) Það er nánar tiltekið á Gunnarsstaðaási í um það bil 110 metra hæð yfir sjó og á þeirri skífu eru líklega um hundrað örnefni. Hún er allítarleg enda er þar víðsýnt mjög, ákaflega fallegur víður fjallahringur. Í björtu veðri má greina hundruð örnefna og sjá allt í 60 kílómetra fjarlægð til Krossavíkurfjalla austan Vopnafjarðar og inn í Hvammsstaðafjallgarð skammt norður af Hólsfjöllum.

Það sem var athyglisvert og merkilegt við þá vinnu var auðvitað hversu erfitt reyndist að sannreyna ýmis örnefni og hversu mismunandi kortagrunnar eru meingallaðir og jafnvel hversu vandasamt getur verið að fá á hreint, eftir því sem hægt er með aðstoð hinna bestu og vísustu manna, hvað skuli teljast rétt. Ég get bara sagt af því dæmi að það kom í ljós að hnjúkar og hæðir og fjöll á utanverðu Langanesi, sem vel sést til af þessum stað — þar reyndust nafngiftir á reiki og við sannreyndum að kort voru röng í nokkrum tilvikum. Við kölluðum til okkar alla eldri og staðkunnugri einstaklinga á svæðinu sem við töldum að gagn væri af að fá til skrafs og ráðagerða um þetta í góðu veðri þarna uppi á ásnum. Það kom fljótlega í ljós að mönnum bar ekki alltaf saman. Heimamönnum bar ekki einu sinni alltaf saman, hvað þá að danskir kortagerðarmenn hefðu getað áttað sig á þessu á sínum tíma.

Þetta leiðir mann að því að huga að gömlu örnefnaskránum — gríðarlega merkilegt starf sem aðallega var unnið upp úr miðbiki síðustu aldar, ef ég man rétt, með ferðalögum um landið og viðtölum við heimamenn. Búnar voru til merkar skrár sem eru án efa dýrmætasti gagnagrunnurinn þrátt fyrir allt að örnefnum. En þær voru barn síns tíma og þær voru unnar af vanefnum, skulum við segja, og síðan var ekki unnið úr þeim með þeim hætti sem hefði verið ákaflega æskilegt, að fylgja þeirri söfnun eftir með úrvinnslu á skránum og fara í það verkefni að reyna að sannreyna, með samanburði og samtölum við fólk, hvað skyldi teljast réttast í þessum efnum.

Þetta er að mínu mati kannski stærstur hluti þess að varðveita þennan menningararf, og þó fyrr hefði verið, þ.e. að reyna að bjarga, á meðan þekkingin er til staðar, öllu sem bjargað verður um örnefni eins og þau hafa verið notuð gegnum tíðina. Af hverju er þetta sérstaklega brýnt núna? Jú, það er vegna þess að þessi þekking er að glatast mjög hratt. Það gerist meðal annars vegna þess að landnýtingin er orðin önnur en áður var. Við getum tekið sem dæmi sauðfjárbúskapinn og vetrarbeitina. Þegar miklu meira var farið um landið og arfurinn gekk frá kynslóð til kynslóðar skiptu örnefnin miklu máli, sauðamennirnir þurftu að vita nákvæmlega á hvaða hól þeir voru eða við hvaða rjúpnaþúfu. Allt hafði þetta nöfn til hægðarauka til að hægt væri að vísa til þess að þetta hefði fundist þarna eða væri á hinum staðnum. Nú er þetta mjög breytt. Menn fara miklu minna um landið fótgangandi, minna ríðandi og ferðalögin hafa kannski færst yfir á snjósleða þegar allt er á kafi í fönn og ekki alltaf auðvelt að átta sig á örnefnunum o.s.frv.

Það er þó helst þannig, að minnsta kosti af minni reynslu af þessu, að það er smalamennskan og slík ferðalög um landið, gangandi eða á hestbaki gjarnan, sem eru drýgst í að halda þessu við, alla vega þegar kemur eitthvað frá bæjum. Það sem væri langæskilegast að gera er að vinna þetta á heildstæðan hátt með skipulögðu starfi sem miðaði að því að vinna úr öllum þeim gögnum sem fyrir eru, safna í eyðurnar, því að þær eru enn til staðar. Skrárnar voru misítarlegar og unnar af mismunandi aðilum eða mismunandi aðferðir notaðar við að safna upplýsingunum á sínum tíma. Ég veit satt besta að segja ekki hve miklu hefur verið bætt í nema staðbundið á einstökum svæðum hafa menn gert þetta vel. Nægir að nefna þar hina glæstu bók um örnefni í Mjóafirði þar sem ómetanlegur menningararfur er færður í letur og þar með varðveittur. Ef lýsingarnar eru greinargóðar þá dugar það mönnum lengi þó að hitt sé að sjálfsögðu líka gott að nýta tæknina og færa örnefnin síðan inn á kort og/eða staðsetja þau með hnitum.

Á einstöku bújörðum hefur þetta verið gert. Þar hafa menn tekið sig til og búið út vandaða ítarlega örnefnaskrá fyrir býlin. Þar er það gjarnan þannig að í næsta nágrenni bæjanna skipta örnefnin hundruðum ef farið er ofan í smálandslagið hið næsta byggð, en svo verða þau strjálli þegar fjær dregur, en ég geri þó fastlega ráð fyrir því að nokkur þúsund hektara jörð búi yfirleitt yfir einhverjum hundruðum örnefna. Það er dálítill sjóður í hverju og einu tilviki, svo að maður tali nú ekki um stærri jarðir. Þegar þær eru orðnar einhverjir tugir eða jafnvel hundruð ferkílómetrar má reikna með því að örnefnin ættu að skipta þúsundum, hafi þau ekki glatast.

Ég vil bara koma þessum hugleiðingum að, herra forseti, vegna þess að mér er annt um þetta. Ég velti fyrir mér hvort hv. nefnd hefur eitthvað farið inn í þessar hliðar málsins. Ef ekki þá væri það alla vega verðugt verkefni að fara yfir stöðu okkar að þessu leyti. Ég held að það sé ekki ráð nema í tíma sé tekið. Auðvitað er þetta verkefni sem hefði haft mikið gildi ef menn hefðu getað unnið meira í þessu áður en þær miklu búháttabreytingar og búferlaflutningar og fækkun fólks í sveitum o.s.frv., sem hefur gengið yfir á umliðnum áratugum, gekk allt saman í gegn. En það er þó alltaf mikilvægt að halda til haga og bjarga því sem bjargað verður.

Ég vil í öðru lagi velta fyrir mér skilgreiningum hér í frumvarpinu í 2. gr. þar sem talað er um örnefni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Örnefni er nafn, orð eða orðasamband, á landfræðilegum punkti, línu eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til eins ákveðins staðar innan ákveðins samfélags; lands, héraðs, sveitabæjar, þéttbýlisstaðar, húss, götu, torgs, vegar, fjalls, dals, stöðuvatns, fjarðar, hafsvæðis, skers, miðs o.s.frv.“

Þetta er að mínu mati aðeins of takmarkandi skilgreining. Það er ekki alltaf þannig að örnefni, eða heiti að minnsta kosti, sem er nú nokkurn veginn samheiti hér, vísi alltaf til tiltekins staðar. Við erum iðulega með örnefni sem vísa til svæða þar sem jafnvel skilgreiningin á því hversu stórt og umfangsmikið viðkomandi svæði er er ekki alveg hrein, enda skiptir það ekki öllu máli. Sumar slíkar nafngiftir hafa jafnvel bara orðið til eins og örnefni gjarnan verða og ekkert öll mjög gömul. Þannig er til dæmis örnefnið Tröllaskagi ekkert óskaplega gamalt. (Gripið fram í: … nýtt.) Það er tiltölulega nýtt, en mjög fast í málinu. Hvað er Tröllaskagi? Er það einhver einn ákveðinn staður? Nei, það er allur hálendisbálkurinn milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar, norður undir Siglunes og (Gripið fram í.) langt suður eftir skaganum inn að Laugarfelli eða eitthvað slíkt. Ég tel reyndar Tröllaskaganafngiftina glæsilega, hann er tröllslegur og flottur. Svona gæti ég haldið áfram.

Það eru mörg örnefni sem eru svæðaheiti. Að þessu leyti til er skilgreiningin hér aðeins of takmarkandi að mínu mati. Það kemur kannski ekkert að sök, enda mun lagabókstafurinn sennilega ekki breyta málvenjum eða því hvernig þessir hlutir þróast og gerast í reynd.

Ég er ekki andstæðingur þess að halda utan um þetta með skipulagi varðandi til dæmis nýjar nafngiftir því að einhver agi verður að vera í hernum eins og Sveik sagði. En ég er um leið dálítið hræddur við að fara að festa þetta í of mikil kerfisbönd vegna þess að fyrir mér er þetta lifandi og dýnamískt samhengi sem sprettur af því að menn gefa hlutunum nöfn. Kannski hefur nafngift gleymst og enginn er lengur til staðar sem man eftir því hvað viðkomandi dalverpi eða hvammur eða hvappur — vita nú auðvitað allir hér í salnum hvað hvappur merkir — heitir. Þá kannski koma aðrir og finnst ómögulegt að þessi staður beri ekki nafn og gefa honum nafn. Mér finnst að menn eigi að hafa vissan rétt til þess einhvern veginn. Það munu menn sjálfsagt gera í einhverjum mæli jafnvel án þess að fara hina formlegu leið og tilkynna það til skráningar o.s.frv.

Ég hef tekið þátt í því tiltölulega nýlega að nefna fjall. Hverjir gerðu það, herra forseti? Jú, það gerðum við nú bara gangnamenn í Dalsheiði. Við ákváðum bara að myndarlegt fjall innarlega í heiðinni skyldi heita í höfuðið á föllnum fjallkóngi okkar, Friðgeiri Guðjónssyni — blessuð sé minning hans — og gáfum því nafnið Geirafjall. Ég hef ekki hugmynd um hvort það er komið inn í bækurnar eða hefur verið tilkynnt til örnefnanefndar, en það heitir núna Geirafjall meðal okkar sem förum um þessar slóðir nokkrum sinnum á hausti. Því verður alla vega ekki breytt hvað okkur varðar. Bara svona til að nefna dæmi um hvernig hlutirnir geta gengið fyrir sig.

Að síðustu langar mig aðeins að fjalla um nafngiftirnar á nýjum fyrirbærum. Það er þörf á því að einhvern veginn sé hægt að útkljá mál. Við skulum segja að það gjósi og það fari að renna hraun. Hverjir eru líklegir til að gefa því fyrst nafn? Það eru heimamenn eða til dæmis vísindamenn, jarðfræðingar. (Gripið fram í: Sjónvarpið.) — Já, svo geta fjölmiðlar reynt að stela glæpnum. En ég held að dæmin séu býsna mörg um það að það eru annaðhvort heimamenn á svæðinu og/eða vísindamenn sem starfa sinna vegna eru á vettvangi sem nefna hlutina eitthvað bara svona sem vinnuheiti þó ekki sé meira til að byrja með. Oft hafa þau nöfn síðan fest sig í sessi. Nú veit ég það ekki fyrir víst en ég læt mér detta í hug að það hafi verið Sigurður heitinn Þórarinsson, eða einhver af hans kollegum, sem gaf Surtsey nafn. Það skyldi nú ekki vera. Alla vega hefur sá maður eitthvað kunnað fyrir sér. Það væri til dæmis fróðlegt að kanna það hvernig nafngiftin Surtsey varð til og hvernig hún festist í sessi.

Menn hafa talað um Holuhraun á flæðunum norðan Dyngjujökuls af því þar var hraunbleðill úr gosi fyrir nokkru sem hafði þessa nafngift. Menn hafa síðan velt því fyrir sér hvort þetta nýja og mikla hraun, stærsta hraun á Íslandi eftir Lakagígagosin, eigi ekki að fá virðulegt nafn. Á það að heita Flæðahraun eða Nornahraun eða eitthvað slíkt? Ef menn verða ekki á eitt sáttir, ef þetta gerist ekki þannig, sem oft gerist, að smátt og smátt sigrar ein nafngift, þarf sjálfsagt að fá botn í það því að það er bagalegt að sama fyrirbærið beri mörg nöfn þó að þess séu auðvitað ófá dæmin. Að því leyti til er ég ekkert andvígur því að eitthvert kerfi sé á þessu. En samt togast á í mér, ég verð bara að viðurkenna það, að þetta þurfi líka að einhverju leyti að fá að lúta sínum eigin lögmálum eins og það hefur alltaf gert. Það er jafnvel ekkert að því stundum að sömu fyrirbærin, séð úr mismunandi átt, heiti fleiri en einu nafni, samanber hið fræga fjall fyrir norðan sem ber þrjú nöfn, Ófærufjall, Bakrangi og Galti, eftir því hvaðan horft er á það, allt sama fjallið í sjálfu sér og frægt í bókmenntunum.

Þegar sveitarfélög eiga í hlut er þetta kannski svolítið vandasamara. Þar hefur talsvert reynt á þetta á undanförnum árum vegna þess að menn hafa verið að sameina mikið sveitarfélög og oftar en ekki hefur ekki verið stemmning fyrir því að eitt af þeim héldi nafninu. Menn hafa þá valið þann kost sums staðar, þar sem stór þéttbýliskjarni hefur kannski verið í byggðarlaginu, sem hefur sameinast úr fleiri sveitarfélögum, en það getur verið viðkvæmt. Þá hafa menn farið í að finna upp nýjar nafngiftir og sumar ekki alveg nógu góðar finnst mér. Jafnvel svoleiðis að þær eru landfræðilega eða sögulega eiginlega hálfgerðar skekkjur. Ég ætla nú ekki að nefna dæmi í því samhengi vegna þess að það yrði viðkvæmt, en ég er þeirrar skoðunar að í nokkrum tilvikum hafi ekki tekist vel til, meðal annars vegna þess að aðrir höfðu einhvern veginn engan andmælarétt í því. Það liggur við að megi segja að nöfnum hafi hálfpartinn verið stolið sem tilheyrðu öðru svæði, öðrum stað á öðrum tíma, en einhvern veginn höfðu menn engan aðgang að því. Nýtt stórt sameiginlegt sveitarfélag jafnvel kaus um það í vinsældakosningu og nafngift sem marði sigur í þeirri kosningu varð ofan á, ekki endilega alltaf svona landfræðilega eða sögulega séð það sem manni fannst heppilegasta niðurstaðan.

Hér fær þá blessuð örnefnanefndin eitthvað að sýsla við. Ég út af fyrir sig held að það sé ágæt nálgun að færa sveitarfélögunum, eins og hér er lagt upp með, ríkara hlutverk og meiri ábyrgð í þessum efnum en að haft verði samráð við örnefnanefnd og allt það, þannig að vonandi tekst vel til í þessu öllu saman í framhaldinu.

Virðulegur forseti. Þetta voru nú þær athugasemdir sem ég vildi helstar gera hér. Ef málið skyldi fara aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. hefði ég gjarnan beðið hv. nefnd að líta aðeins á þetta með skilgreiningu hugtakanna og afmörkun á fyrirbærinu örnefni sem mér finnst aðeins of þröng eins og ég hef áður komið að. Síðan veit ég ekki hvernig menn vilja fara með þetta, hvort eitthvað er hægt að gera í lagatextanum sjálfum sem nær utan um þetta tvíeðli málsins, annars vegar að hafa eitthvert skipulag á því að koma þessu á hreint, að útkljá ágreining ef hann er til staðar um hvað einhver staður eða eitthvert fyrirbæri skuli heita, án þess þó að kæfa það að örnefnin verði til eins og þau hafa alltaf orðið til, af þeim sem búa á viðkomandi svæði, ferðast um viðkomandi svæði eða nýta viðkomandi svæði og hafa af praktískum ástæðum þörf fyrir örnefni. Þannig hafa þau að sjálfsögðu yfirleitt orðið til og þyrftu að verða til áfram. Það tengist því að áfram verði búið í þessu landi og stærri svæði en það sem þegar er orðið fari ekki í eyði. Vonandi verður það ekki, næg er byggðaröskunin orðin. Það er auðvitað langbesta og virkasta varðveisla þessa menningararfs að fólk búi á viðkomandi svæðum og nýti þau og þekki þau og viti hvað hlutirnir heita og passi upp á það, af praktískum ástæðum, að sá arfur fari ekki forgörðum.



[14:35]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðuna og tek undir með honum um mikilvægi varðveislu örnefna. Þetta mál er sérstaklega mikilvægt en um leið margslungnara en virðist í fyrstu. Ég vil vekja sérstaka athygli á 11. gr. sem snýst um breytingu á öðrum lögum til að tryggja að markmið laganna náist. Þar er meðal annars kveðið á um að Landmælingar Íslands geri almenningi kleift að skrá örnefni í sérstakan gagnagrunn á vegum stofnunarinnar vegna þess að mikilvægt sé að tryggja þátttöku almennings við skráningu örnefna þannig að staðkunnugu fólki sé gert kleift með auðveldum hætti að setja örnefni út frá örnefnalýsingum á réttan stað. Jafnframt sé ekkert því til fyrirstöðu að getið sé um fleiri en eitt örnefni í slíkum gagnagrunni, sem er afskaplega mikilvægt.

Það kom fram við fyrri umfjöllun nefndarinnar á 143. þingi, síðastliðið vor, að sú vinna sem þarna er kveðið á um er hafin. Meðal annars má geta þess að eldra fólk í Reykjadal í Þingeyjarsýslu hefur myndað með sér hóp og skráir örnefni beint inn í gagnagrunninn með góðum árangri.

Mig langar að beina þeirri spurningu til þingmannsins hvort hann telji að þessi aðferð geti náð utan um skráninguna sem er vissulega mjög mikilvæg og tryggt varðveisluna til framtíðar. Ég veit að það er margt fleira þarna sem skiptir máli, það þarf t.d. huga að því að ná utan um eldri skráningar sem eru til á pappír. Ég átta mig ekki alveg á þeim annmarka sem hv. þingmaður sér á skilgreiningu hugtaksins „örnefni“, en það er getið um svæði í skilgreiningunni. Ég þarf aðeins betri umfjöllun til að átta mig á því.



[14:37]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kann að vera skýr skilgreining ef maður með jákvæðri túlkun les saman fyrstu línuna þar sem talað er um landfræðilegan punkt, línu eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til eins ákveðins staðar, en ég staldra við það hvort vísunin til eins ákveðins staðar sé svolítið þröng eða takmarkandi. Út af fyrir sig fer þetta svolítið eftir því hvernig menn kjósa að túlka eða lesa í orðalagið. Það sem ég var með í huga var að passað yrði upp á víðari hugtök, jafnvel svolítið fljótandi hugtök, nöfn sem taka til stærra svæðis. Við getum sagt að örnefni séu jafnvel landshluti. Vestfirðir eru bara Vestfirðir og Norðausturland er kannski fljótandi heiti eða örnefni á býsna stóru landsvæði og það er ekki endilega nákvæmlega skilgreint hvort það endar á Brekknaheiði eða austan við Vopnafjörð o.s.frv. Túlkunin má ekki vera of stíf til að hægt sé að afmarka örnefninu stað. Það er það sem ég var að hugsa um.

Varðandi 11. gr. þá er að sjálfsögðu til bóta að opnað sé betur fyrir möguleika fólks að skrá inn örnefni í sérstaka gagnagrunna og gert aðgengilegt og fólki er gert það auðvelt. Helst þarf það að vera gagnkvæmt, að menn geti fengið líka ráðgjöf og stuðning við það að færa slíkt inn, segjum að eitthvert sveitarfélag eða einhver bóndabær vilji búa til örnefnaskrá eða uppfæra örnefnaskrá þá er það allt að góðu.

(Forseti hringir.) Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefndi að lokum um áhugann á þessum málum. Víða hefur eldra fólk, eða ekkert endilega bara eldra fólk, bundist samtökum í þessum efnum og má ég þá bæta við Reykdælingana, vini mína, hinu merka örnefnafélagi á Siglufirði sem hefur unnið ómetanlegt starf við að skrá þar örnefni.



[14:40]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil nota seinna andsvarið til að taka undir mikilvægi þess að örnefni séu lifandi. Ég lít þannig á að sá rammi sem hér er markaður í frumvarpinu um örnefni sé að ýmsu leyti rýmri og sveigjanlegri en ramminn í lögunum sem þessi lög koma til með að leysa af hólmi, þ.e. lög um bæjanöfn. Sá möguleiki að í örnefnagrunn sé hægt að skrá fleira en eitt nafn á sama staðinn, sama svæðið, sama punktinn eða línuna, ef við notumst við skilgreininguna, er mjög mikilvægur til að örnefni haldi áfram að þróast. Það er samt auðvitað öryggisatriði að kort séu samræmd og þar birtist ein útgáfa af nöfnum. Það getur verið ákvörðunaratriði á hverjum tíma hvaða nafn það er.

Er einhvern tíma hægt að segja hvað sé rétt nafn? Við þekkjum væntanlega umræðuna um árnar á norðausturhorninu sem heita margar Hölknár, hvort þær heiti Hölknár eða Höltnár, það er sígilt umræðuefni. Svo er fjall á sveitamörkum sem ýmist heitir Röndólfur, Slöttur eða Þokustrákur eftir því hvaðan er horft á það. Það er lykilatriði að löggjöfin sé rammi utan um þessi menningarverðmæti en leyfi áfram lifandi umræðu um landið og heitin sem þar verða til.

Þá er kannski bara ein spurning að lokum: Vitið þið hvar Batmanfjall er?



[14:42]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa að frumvarpið er framför frá gömlu lögunum um bæjanöfn og þetta er hið ágætasta starf í sjálfu sér sem hefur verið unnið. Það sem ég saknaði kannski var tengingin við ástandið eins og það er og hefur verið og hvernig menn ætla að passa upp á þann arf sem til staðar er í skrám sem kannski hefur of lítið verið unnið úr eða unnið með.

Varðandi það hvernig við getum haldið þessari hefð við og haft þennan menningararf lifandi og tryggt að hann berist áfram þá hef ég nokkrar áhyggjur af því að dálítið sé að draga úr þeirri menningarlegu hefð okkar að láta hlutina heita eitthvað, því eins og skáldið sagði: Landslag yrði lítils virði ef það héti ekki neitt. Ég er kannski ekki endilega sammála því en það gefur því gildi líka og gott að geta vísað til nafngiftanna.

Það er svo alveg hárrétt að það er gott að geta skráð inn fleiri en eina nafngift vegna þess að menn nota í talsverðum mæli algerlega mismunandi nöfn yfir sama fyrirbærið eða þá að ekki er útkljáð nákvæmlega hver sé hin réttasta nafngift, sögulega séð. Það er nokkuð sem maður rekur sig rækilega á þegar á að gera eitthvað af þessu tagi, að færa nöfn inn á hringsjá, að nokkrar nafngiftir eru þekktar og erfitt að ákveða hvað er rétt. Oft er þá notuð sú aðferð að velja þann kostinn sem elstur finnst á prenti. Það er ein af þumalputtareglunum. Þegar þurfti til dæmis að ákveða það á þessari frægu útsýnisskífu sem ég hef gert hvort Læknisstaðir eða Læknesstaðir væri hin rétta nafngift þá réð það sem eldra fannst á prenti.



[14:44]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sagt það við fyrri umræðu þessa máls að þetta er sennilega merkasta málið sem rekur hefur á fjörur þingsins og þá undanskil ég ekki sjötta dagskrármál þingsins síðar í dag.

Mörg okkar, jafnvel þau sem tekst að vera fullu feti framar við tilvistarangistina endranær, veltum því samt oft fyrir okkur til hvers menn eru á þessu ferðalagi. Það er gjarnan svo að við lok þess horfa menn yfir farinn veg og gera upp. Ég minnist þess að þegar ég hafði verið sennilega tíu ár á þingi og tvö ár sem ráðherra þá leit ég til baka og velti fyrir mér hvað lægi eftir mig og komst að þeirri niðurstöðu að það væri hugsanlega eitt klósett á Hornströndum. En það verður ekki sagt um hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að hann hafi lifað til einskis. Maður sem búið hefur til hringsjá á Gunnarsstaðaásnum, hann hefur lifað, ég tala nú ekki um ef það hefur orðið til þess að bjarga eða festa til langrar framtíðar 100 örnefni.

Ég er sammála hv. þingmanni og þeim sem hér hafa talað um að örnefni eru gríðarleg verðmæti og þau fortapast mjög hratt. Af því ætla ég að segja litla reynslusögu. Það vildi svo til að mér var komið til uppeldis mjög ungum hjá góðu framsóknarfólki á Mýrum. Þar var ég lengi. Og hafi einhvern tíma ræst úr mér þá var það undir handarjaðri Framsóknarflokksins. Þar hét hver þúfa nafni og ég festi þau mér mjög í minni og get jafnvel enn þann dag í dag lesið mig eftir landslagi þar út frá þessum örnefnum.

Löngu síðar komst ég yfir örnefnakort sennilega frá 3. áratugnum af þessari sömu jörð og bar þá svo við að ég þekkti fæst örnefni. Og meira að segja mjög skýr kenninefni í landslagi, sem notuð voru til dæmis til að setja niður laxalagnir, hétu allt öðrum nöfnum. Svona fortapast allt og þess vegna segi ég: Það þarf að gera gangskör að því með skipulegum hætti að safna örnefnum á vorum tímum.



[14:47]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að gerast dómari í þeirri sök hvort sé gagnmerkara mál, frumvarp til laga um örnefni eða tillagan um ísaldarurriðann. Ísaldarurriðinn er vissulega ekki örnefni en það er nafngift. Það væri auðvitað fróðlegt út af fyrir sig að vita hvernig sú nafngift varð til. Er það tillögumaður sem kom þessu heiti á, að nefna skyldi fisktegundina ísaldarurriða?

En það er alveg rétt að nafngiftir eru líka nátengdar þessum arfi þó að þær séu ekki örnefni eða nöfn á náttúrulegum fyrirbærum í þeim skilningi að vera hóll eða hæð, fjall eða lækur eða á eða hvað það nú er, heldur lifandi fyrirbæri eða önnur fyrirbæri í náttúrunni. Í ræðu minni lagði ég einmitt áherslu á það sem hv. þingmaður kom aðeins inn á, að auðvitað væri mjög mikilvægt að skrá þetta og varðveita. Nú höfum við tæknina, heldur betur. Nú er ekkert vandamál með stafræna kortagrunna og GPS-hnit og staðsetningar að gera þetta mjög nákvæmt, þess þá heldur megum við ekki skorast undan því að takast á við að bjarga öllu því sem bjargað verður. Örugglega er mikið glatað, það er náttúrlega engin spurning. Þannig hefur það sjálfsagt alltaf verið upp að vissu marki að örnefnin hafa þróast, tekið breytingum, sum týnst, önnur komið í staðinn. Það gæti að sjálfsögðu haldið áfram þó að við geymdum þann grunn, þá vitneskju sem við höfum besta í dag. Svona var þetta, þetta hétu hlutirnir á tímum feðra okkar og forfeðra og formæðra. Síðan þróast þetta allt saman.

Þannig að ég tek það svo að hv. þingmaður sé sammála mér um að það sem þyrfti að gera í tengslum við þetta mál, ágæt sem þessi lagasmíð kann að vera, væri að gera verulega gangskör að vinna úr örnefnaskránum og skrá þær betur.



[14:49]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þó það nú væri. Ég tel að það sé mjög mikilvægt viðfangsefni að gera rek að því að safna örnefnum með skipulögðum hætti. Þær umræður sem hér hafa orðið millum tveggja hv. þingmanna, Steingríms J. Sigfússonar og Líneikar Önnu Sævarsdóttur, um Siglfirðinga og Reykdælinga og hvernig menn vinna að því að safna örnefnum þar hjá öldruðum Íslendingum, er til fyrirmyndar. Hvernig höfum við reynt að setja í bagga og geyma arfleifð úr fortíðinni? Nákvæmlega með þeim hætti að gera út fólk sem gengur bókstaflega fyrir dyr aldraðra Íslendinga og kroppar úr huga þess hvers konar vitneskju, bæði um munnmæli, um gamlar sagnir og því ekki um örnefni líka? Ég held að það væri ákaflega mikilvægt.

Það sem ég var að reyna að koma til skila í minni örstuttu existensíalísku ræðu hérna áðan er að það er ekki bara að örnefni fortapist heldur er sennilega ekkert sem hefur breyst jafn mikið frá landnámi og örnefni og orpist sandi tímans þannig að ekki verður séð.

Í reynd var kjarninn sem fólst í þessari örstuttu sögu minni áðan eftirfarandi:

Hér á tímum fyrr þegar ekki voru til góð kort sem menn gátu fært inn á örnefni og átt, hvað þá að geyma þau með öðrum hætti, þá hugsa ég að það hafi gerst ákaflega oft að orðið hafi gagnger skipti á jörðum og þá hafi flust burt fólk, ég tala nú ekki um undir lok 19. aldar þegar menn fóru úr heilum héruðum og skildu ekkert eftir, ekki einu sinni örnefnin. Þeir sem fluttu síðan á þessar jarðir þurftu stundum að byrja á því að nefna mörg kennileitanna upp á nýtt fyrir utan kannski hin allra helstu. Það er til marks um það, að ég hygg, að svona haldi þetta áfram að týnast nema menn vinni með skipulegum hætti að söfnun og skráningu.

Af því menn gleymdu að svara spurningunni hérna áðan hvað gæti verið Batmanfjall þá hlýtur það auðvitað að vera Brunnhorn í Lóni.



[14:51]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru nú hin ágætustu og skemmtilegustu skoðanaskipti. Það er ánægjulegt að ræða þetta sérstaklega vegna þess að hér er engum ágreiningi fyrir að fara heldur er frekar eldmóður í mönnum að gera betur í þessum efnum. Ég held að næsta vers sé að í framhaldi af afgreiðslu þessa máls taki menn það fyrir undir forustu hv. þingnefndar eða einhvers staðar hvort ekki þurfi að setja einhverja áætlun í gang um að hraða og efla þessa skipulögðu skráningu og söfnun. Það er gríðarlega jákvætt og gaman að fylgjast með sjálfsprottnu framtaki þar sem það er í gangi. Ég held að reynslan af því sé í öllum tilvikum sú sama, að menn fá þá tilfinningu að það megi ekki seinna vera og sé kannski í raun og veru of seint af stað farið, en þó betra en ekki. Það er að minnsta kosti það sem ég hef heyrt frá þeim mönnum sem hafa verið að vinna að þessu á ýmsum stöðum á landinu og það er reynsla mín sömuleiðis að í sjálfu sér geti bara tíu ár skipt heilmiklu gagnvart því að ná í það fólk sem enn býr yfir vitneskjunni og þekkingunni.

Það er nú svo þegar við hugsum um menningararf Íslands að við eigum ekki miklar miðaldabyggingar, kastala og hallir úr steini eða rammgerðum efnum sem stóðust tímans tönn, en við eigum alveg gríðarlegan munnlegan menningararf af fjölþættum toga. Margt hefur auðvitað verið vel gert við að reyna að bjarga honum, svo sem eins og söfnun Þjóðminjasafnsins á sögnum og kveðskap og söngvum og dönsum, og hljóðupptökur Þjóðminjasafnsins eru auðvitað ómetanlegur fjársjóður, en það var gert af litlum efnum. Okkur er miklu síður vorkunn í dag að standa sómasamlega að málum. Örnefnin eru mjög mikill hluti af þessu. Þau eru í raun og veru ein af undirstöðum þess að njóta sagnaarfsins. Það væri lítið gaman að lesa Sturlungu ef enginn þekkti lengur örnefnin sem þar koma við sögu.



[14:53]Útbýting:

[14:54]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég spurði einu sinni að því af hverju Barðaströnd héti Barðaströnd og var sagt að það væri líklega vegna þess að Látrabjarg hafi einu sinni heitið Látrabarð og að Barðastrandarsýsla dragi nafn sitt af Látrabarði. Einhvern tímann gekk Grænland undir nafninu Grænlandssker og Ísland var kallað Garðarshólmi. Af þessu má draga að minnsta kosti tvær ályktanir; hin fyrri er að landnámsmenn hafi verið frekar stórvaxnir og hin síðari er að í hinum svokölluðu örnefnum á sér stað mjög lifandi þróun. Þau taka breytingum í aldanna rás og þróast eftir því sem tíminn líður, ýmist í tengslum við breytingar á atvinnuháttum eða þá þegar ný náttúrufyrirbæri verða til.

Ég ætla ekki að gerast einhver andmælandi þess frumvarps sem hér er á ferðinni. Það er ágætishugsun sem býr þar að baki, en ég er meiri talsmaður þess að menn stígi varlega til jarðar í lagasetningu og velti alltaf fyrir sér hvort hún sé beinlínis nauðsynleg, hvort eitthvert tilefni sé til hennar. Mér finnst alveg full ástæða til að velta því fyrir sér í þessum efnum vegna þess að fegurðin við hina íslensku örnefnahefð felst fyrst og fremst í því hversu lifandi hún er og hversu miklum breytingum hún tekur í gegnum aldirnar. Það er hins vegar alveg rétt að fyrir þau okkar sem lásum fornsögurnar á námsárum okkar af því að okkur var sagt að gera það, þá vakna þær fyrst til lífsins þegar maður áttar sig á sögustöðunum og söguslóðunum sem fjallað er um í þeim, þegar maður fær meiri þekkingu á landinu og getur tengt söguatburði við örnefni og landsvæði. Það skiptir mjög miklu máli.

Ég vildi rétt hnykkja á því sem ég talaði um við 1. umr. þessa máls, að mér finnst mikilvægt að varðveita það hversu lifandi þessi hefð er og hversu sjálfsprottið þetta hefur verið. Ég vil líka leggja áherslu á að frumkvæði heimamanna sé virt í þessum efnum og það sé möguleiki á sama hátt og verið hefur til þess að ný örnefni geti orðið til og tíminn leiðir í ljós að passa betur þannig að þau fái einfaldlega að festast eins og gerst hefur af sjálfu sér í gegnum Íslandssöguna. Ekki hefur vantað upp á að örnefni hafi orðið til og þau hafi fest og í sumum tilfellum eru þau fleiri en eitt og fleiri en tvö um sama fyrirbærið og það er bara hið besta mál, í sumum tilfellum er tekist á um það og það er líka í fínu lagi að mínu mati. Stundum er sagt að við séum einum of þrasgjarnir, Íslendingar, en ég held að í þessum efnum sé það bara sárasaklaust og geti flokkast undir mjög þjóðlega íþrótt. Það er hollt fyrir okkur að velta fyrir okkur hvað hlutirnir eiga að heita.

Ég sagði frá því þegar ég talaði um þetta mál við 1. umr. að nýir atvinnuhættir væru líka farnir að móta örnefnahefðina. Þannig hefur til dæmis orðið til hugtakið Línusteinn á Öræfajökli á Sandfellsleið sem allir fjallaleiðsögumenn vita hvaða þýðingu hefur. Það er einfaldlega steinn þar sem gestir fara í línu áður en lagt er á jökulinn. Það er auðvitað bein tenging við þá ferðamennsku sem stunduð er mjög mikið nú um mundir og ekkert nema gott um það að segja að örnefni verði til með þeim hætti.

Ég mæli í sjálfu sér ekki beinlínis gegn þessu frumvarpi. Ég vil bara að þau sjónarmið komi fram í umræðunni að í mörgum tilfellum er mjög mikilvægt og nauðsynlegt að ákveðið frjálsræði ríki í þessum efnum og að nafnahefð sé sjálfsprottin eftir því sem mest er hægt og komi bæði frá heimamönnum og þeim sem ferðast um landið og að ekki sé verið að reyna að binda hana þannig niður um aldur og ævi að henni verði ekki breytt. Það hefur einfaldlega verið þannig að örnefni hafa tekið breytingum í aldanna rás og það er í mjög mörgum tilfellum hið besta mál.