144. löggjafarþing — 71. fundur
 26. feb. 2015.
störf þingsins.

[10:33]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ótrúlega lítil umræða hefur verið um það mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra að hér sé aukin hætta á hryðjuverkum. Ég vil hvetja alla til að lesa viðtal í Morgunblaðinu í dag við Helga Gunnlaugsson afbrotafræðing. Þar fer hann á mjög yfirvegaðan og málefnalegan hátt yfir þessi mál og bendir á það sem augljóst er að það er fullkominn barnaskapur að halda því fram að við getum ekki lent í því sama og þær þjóðir sem við berum okkur saman við og eru okkar næstu nágrannar.

Við vitum það til dæmis vegna hinna hörmulegu hryðjuverka í Útey og þess sem við sáum fyrir nokkrum vikum í Danmörku að því miður getur þetta gerst. Helgi Gunnlaugsson leggur áherslu á að við höfum yfirsýn og getum metið hættu með yfirveguðum hætti, og vísar þar sérstaklega til þess að nýverið höfnuðu dómstólar því að tveir hælisleitendur yrðu settir í gæsluvarðhald, en annar þeirra lýsti yfir stuðningi við Ríki íslams og hótaði að myrða fjölda fólks ef honum yrði vísað úr landi.

Virðulegi forseti. Við þurfum að líta til Norðurlandanna eins og Helgi Gunnlaugsson bendir á og skoða hvort við þurfum að breyta hér löggjöf og vinnureglum og vinna betur með nágrannalöndum okkar til þess að lágmarka hættuna á hryðjuverkum. Helgi bendir líka á að við megum alls ekki falla í þá gryfju að einblína á ákveðna hópa í þessu sambandi, enda sýnir sagan að hryðjuverkamenn hafa komið úr ýmsum röðum í gegnum tíðina. Markmið okkar hlýtur að vera, eða það er alla vega mín skoðun, að Ísland á að vera opið og við eigum alls ekki að mismuna fólki á grundvelli skoðana og trúarbragða. Málið snýst ekki um það, virðulegi forseti, það snýst um öryggi allra landsmanna. Það er forgangsmál að við sem erum á Alþingi Íslendinga tökum þessi mál fyrir með málefnalegum (Forseti hringir.) og yfirveguðum hætti.



[10:35]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég er svo heppinn að vera einn þeirra þingmanna sem fengu að taka að sér að verða talsmenn barna á Alþingi og undirritaði yfirlýsingu um það á 25 ára afmæli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í nóvember síðastliðnum. Heppinn, segi ég vegna þess að þetta er áhugaverðasta verkefni sem ég get hugsað mér. Sá áhugi hefur ekki minnkað við að kynna mér barnasáttmálann.

Óþarft er að taka fram að barnasáttmálinn er ekki bara mikilvægur mannréttindasamningur sem Íslendingar hafa undirgengist heldur hefur samningurinn verið tekinn í íslensk lög. Í barnasáttmálanum eru sérstök ákvæði um skyldur aðildarríkja til að tryggja að andlega eða líkamlega fötluð börn njóti „fulls og sómasamlegs lífs“ og að stuðlað skuli að „sjálfsbjörg þeirra og virkri þátttöku í samfélaginu“.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru einnig mörg ákvæði sem varða rétt barna sérstaklega. Íslendingar hafa ekki enn fullgilt þann samning. Við verðum að drífa í að reka af okkur það slyðruorð og það er í gangi. Það er því miður ekki að ástæðulausu sem sérstök ákvæði um fötluð börn eru í þessum tveimur mannréttindasamningum því að mjög víða í heiminum eru þau útilokuð, þola mikinn mismun og meiri skort en aðrir.

Undanfarna daga hef ég heimsótt hagsmunasamtök sem vinna fyrir fötluð börn og börn með ýmiss konar raskanir og hef meðal annars fundað með forsvarsfólki Þroskahjálpar, ADHD-samtakanna, Einhverfusamtakanna og Sjónarhóls. Það hafa verið ánægjulegir fundir með frábæru fólki sem vinnur af mikilli hugsjón við að bæta lífsgæði barna og aðstandenda þeirra. En það hefur ekki verið ánægjulegt að heyra þau öll segja frá skorti á viðeigandi stuðningi og greiningum, mjög löngum biðlistum og ófullnægjandi fræðslu fyrir fagstéttir um þarfir fatlaðra barna og barna með raskanir. Við ættum ekki að tala mikið um að íslenskt samfélag byggist á mannréttindum og jöfnum tækifærum þar til þetta hefur verið lagað. Það er ekki bara spurning um mannréttindi, heldur er þetta sóun á miklum mannauði og þar með á beinhörðum peningum.



[10:37]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil vekja athygli á ályktun sem afhent var Ólöfu Nordal innanríkisráðherra í gær, en þar segir, með leyfi forseta:

„Femínistafélag Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót og W.O.M.E.N. – Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi fordæma ofbeldi gegn öllum einstaklingum og sérstaklega þeim sem eru í viðkvæmri stöðu félagslega, og hvetja yfirvöld til að taka ofbeldi gegn konum alvarlega og styrkja lög um nálgunarbann.“

Í kjölfar hæstaréttardóms sem féll nýlega um að fella úr gildi nálgunarbann karlmanns sem grunaður er um ofbeldi á þáverandi sambýliskonu sinni ákváðu þessi félagasamtök að senda frá sér sameiginlega ályktun og vekja athygli á að tímabært væri að endurskoða lög um nálgunarbann og styrkja stöðu brotaþola, en á meðal brotaþola eru oft konur af erlendum uppruna og hafa þær ekki eins sterkt bakland og öryggisnet og margir. Málum um nálgunarbann hefur fjölgað mjög fyrir dómstólum undanfarið og er vakin athygli á því að þrjú af fimm málum hafa verið felld niður það sem af er þessu ári. Félögin telja að hagur og öryggi brotaþola eigi að vera í fyrirrúmi og að með þessum dómi sé verið að senda röng skilaboð til fórnarlamba heimilisofbeldis.

Ég tel þess vegna mikilvægt að Hæstiréttur og löggjafinn bregðist við því ákalli sem þarna er á ferðinni. Það er mjög mikilvægt og við þurfum að vinna betur með þessi mikilvægu (Forseti hringir.) lög og skoða þessi mál því að það verður að tryggja (Forseti hringir.) öryggi fórnarlamba heimilisofbeldis.



[10:39]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka undir orð hv. þm. Karls Garðarssonar, en hann ræddi m.a. um hagnað bankanna og vaxtakjör í störfum þingsins í gær. Það hefur verið áberandi í fréttum undanfarna daga að Arion banki og Íslandsbanki séu að hagnast verulega. Á sama tíma heyrum við fréttir af því að í of mörgum tilvikum séu útlánsvextir að hækka en innlánsvextir að lækka. Það er með ólíkindum að útlánsvextir hækki á meðan stýrivaxtalækkanir eiga sér stað í einhverjum tilvikum.

Þær ákvarðanir bankanna að bjóða upp á lakari lánakjör til einstaklinga og heimila eru ekki ásættanlegar, sérstaklega ef við sjáum miðað við hagnaðartölurnar, að svigrúmið sé svo sannarlega til staðar. Það hefði verið afar jákvætt og kannski jafnvel fyrir ímynd þessara stofnana að sýna sanngirni í viðskiptum við einstaklinga og heimili landsins, leyfa þeim að finna fyrir því svigrúmi sem virðist svo sannarlega vera til staðar. Einnig hafa bankarnir verið að bæta inn nýjum gjaldskrárliðum sem koma harðast niður á þeim sem koma og sækja þjónustu í bankana. Samkvæmt upplýsingum frá Neytendasamtökunum kemur sú gjaldtaka harðast niður á eldri borgurum og þeim sem greiða ekki reikninga í heimabanka sem og öðrum sem eru ekki með tölvu eða kunnáttu til að nýta sér möguleika hennar.

Þessi háttsemi fjármálastofnana er alls ekki í lagi. Ég hvet okkur öll sem hér erum að skoða þetta nánar. Við verðum að taka höndum saman til þess að tryggja betur hag neytenda. Ef okkur sem hér störfum er alvara að vinna fyrir heimili landsins þá verðum við að taka fjármálastofnanir harðari tökum, láta þær klára t.d. að endurgreiða einstaklingum sem voru með ólögmæt lán í kringum hrunið, klára að endurútreikna lán þeirra án þess að allir þurfi að fara í gegnum dómstólaleiðina og bankarnir leyfi almenningi að finna fyrir þeim jákvæðu skilyrðum (Forseti hringir.) sem eru í gangi á markaði.



[10:41]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til þess að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hlý orð í minn garð undir þessum lið í þinghaldi gærdagsins. Ég hélt reyndar fyrst að um kaldhæðni væri að ræða hjá hv. þingmanni en þannig hafa kaldir og naprir vindar stjórnmálanna leikið mitt saklausa sveinshjarta. [Hlátur í þingsal.] Svo reyndist ekki vera. Ég verð að segja að orð hans eru mér hvatning til þess að ítreka þá skoðun mína að þeir sem beita hinum svokölluðu fullveldisrökum gegn Evrópusambandsaðild en taka á sama tíma þátt í því að samþykkja hér tilskipanir og lagafrumvörp sem samin eru í Evrópusambandinu, lítið eða algerlega óbreytt, eru ekki samkvæmir sjálfum sér. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er þannig að á köflum eru menn algerlega á jaðri þess sem getur talist gerlegt í þinginu út frá fullveldishugtakinu eins og menn þekkja. Það hef ég sjálfur séð á þeim stutta tíma sem ég hef verið á þingi, ég hef verið á þingi í bráðum sex ár, að gerist ítrekað. Þess vegna er mikilvægt að Íslendingar leiði þessa spurningu til lykta og ákveði á hvaða stað þeir ætli að vera í Evrópusamstarfinu.

Ég er þeirrar skoðunar eins og fram kom hjá hv. þingmanni í gær að við eigum að ganga í Evrópusambandið, að við eigum að vera þátttakendur í því að móta löggjöf okkar heimshluta, að það sé með þeim hætti sem við virkjum og nýtum fullveldi okkar í samstarfi frjálsra þjóða.



[10:43]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera á svipuðum slóðum og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson í ræðu sinni áðan, en þó ekki. Í Kastljósi RÚV í gærkvöldi var sýnt viðtal við yfirmann greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem gerði mig mjög djúpt hugsi og vonandi fleiri þingmenn hér inni. Tilefnið var nýleg skýrsla þar sem fram kemur að greiningardeildin telji líkur á hryðjuverkum á Íslandi fara vaxandi og kallar eftir auknum rannsóknarheimildum til að bregðast við þeirri ógn. Sagði yfirmaðurinn í viðtalinu að hættumatinu yfir Íslandi hefði verið breytt þar sem ekki væri hægt að útiloka að hér yrðu framin hryðjuverk, bæði vegna heimsmálanna og ástandsins hér innan lands, eins og hann orðaði það án þess að það væri sérstaklega útskýrt hvað fælist í því.

Þessar fregnir eru nokkuð á skjön við til dæmis upplýsingar Europol sem sýna að hryðjuverkum í Evrópu hafi mikið farið fækkandi og nokkuð stöðugt frá árinu 2007 þó svo að auðvitað hafi verið framin þar hryðjuverk. Ekki komu nein haldföst dæmi um þróunina í máli fulltrúa lögreglunnar heldur var aðeins um almennar staðhæfingar að ræða, að lögreglan hefði upplýsingar um hina og þessa einstaklinga sem telja mætti hættulega. Sömuleiðis var mjög sérkennilegt að hlusta á embættismanninn spyrða saman einstaklinga sem vilja fremja voðaverk í krafti málstaðar, eiginlega hryðjuverkamenn, og hins vegar andlega veikt fólk sem ástæða væri til að óttast. Og til að krydda blönduna enn betur var svo bætt við vísun í hælisleitendur sem sérstakan áhættuhóp.

Því miður verð ég að segja að mér fannst þessi málflutningur embættis (Forseti hringir.) ríkislögreglustjóra bera einkenni hræðsluáróðurs (Forseti hringir.) og það tel ég afar hættulegt þegar um er að ræða jafn mikilvægan (Forseti hringir.) og viðkvæman málaflokk og (Forseti hringir.) valdheimildir lögreglu. (BirgJ: Heyr, heyr.)



[10:46]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur boðað afnám verðtryggingar og það í skrefum þar sem stefnt verður að fullu afnámi verðtryggingar og sú áætlun sett fram árið 2016. Fyrsta skrefið er að óheimilt verði að bjóða lán til lengri tíma en 25 ára. Við höfum búið við verðtryggt húsnæðislánakerfi í hartnær fjóra áratugi og afleiðingarnar höfum við margsinnis rætt og ætlað að breyta þessu kerfi, kerfi sem skapar kringumstæður þar sem lánveitandinn býr við fullvissu um að hann ávaxti krónur sínar umfram verðlagsþróun og gott betur. Lántakinn býr hins vegar við fullkomna óvissu um annað en það að hann tryggir að lánveitandi fái allt sitt á fullu verði þannig að krónur hans halda verðgildi sínu og gott betur en það, 4–6% vexti er mjög algengt að sjá.

Það er auðvitað ekkert eðlilegt við kringumstæður þar sem lánveitandi býr við fullvissu og lántaki við fullkomna óvissu. Einhvers staðar þarna á milli ætti áætlun um að lána og taka lán að liggja. Það má jafnframt færa rök fyrir því að áhættan ætti fremur að vera hjá lánveitandanum sem hefur þekkingu, tæki og tól til þess að verja sig fyrir henni. Það er hins vegar ekki bara réttlætið og sanngirnisrökin sem ættu í mínum huga að ráða þessu. Efnahagsleg rök vega þungt og bendi ég á skýrslu sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar í því sambandi.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að nú um stundir í hálflokuðu hagkerfi ríki stöðugleiki þá er fram undan afnám hafta og kjarasamningar. Það yrði gríðarleg kjarabót og skynsamlegt innlegg í kjarasamninga að koma böndum á eldri verðtryggð lán (Forseti hringir.) og bíða ekki boðanna í að skipta yfir í óverðtryggt húsnæðislánakerfi.



[10:48]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Þegar hægri stjórnir eru við stjórnvölinn dregur úr jöfnuði í samfélögum. Þetta er gömul saga og ný og þessi fullyrðing er studd fjölmörgum rannsóknum og greiningum, og hægri stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er þar engin undantekning. Fjölmargar lagabreytingar og boðuð frumvörp ganga í þá átt og ætti því ekki að vera um það deilt.

Á það ber hins vegar að líta að umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið hafa í löndunum í kringum okkur átt vaxandi fylgi að fagna og sem betur fer eru sífellt fleiri að gera græn sjónarmið að sínum og líka í íslenskum stjórnmálum. Ríkisstjórnin hefur því miður ekki fylgt þeim meginstraumi og er að því leytinu til gamaldags og skortir framsýni, því að í hverju málinu á fætur öðru sem eru til umfjöllunar í þinginu eru umhverfissjónarmið sett til hliðar og önnur í forgang. Umhverfis- og samgöngunefnd hefur til að mynda ítrekað fengið hlutverk eins konar umsagnarnefndar í stórum umhverfismálum eins og rammaáætlun þótt þar sé fjallað um náttúruvernd, um náttúrupassa þótt þar sé byggt á skilningi um almannarétt, um raflínur og kerfisáætlun þótt þar séu umhverfismál og skipulagsmál í forgrunni. Umhverfismálin eru auka- og hliðarmál og fastanefnd þingsins sem um þau mál fjallar situr uppi með aukahlutverk.

Svo er efnislega sótt að náttúruvernd og umhverfi í öllum þessum málum þótt allir séu til í að standa með íslenskri náttúru á tyllidögum og í hátíðarræðum. En það er ekki fyrr en á reynir, virðulegur forseti, þegar vega þarf hagsmuni langs tíma á móti skammtímahagsmunum, þegar vega þarf almannahagsmuni á móti sérhagsmunum, þegar vega þarf hagsmuni náttúru annars vegar og hagsmuni atvinnulífsins hins vegar, þá reynir á hvort menn eru reiðubúnir til að vera náttúruverndarsinnar. Og enn sakna ég þess að slíkar raddir heyrist frá stjórnarmeirihlutanum, ein einasta rödd úr 19 manna þingflokki Framsóknarflokksins, ein einasta rödd úr 19 manna þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það er dapurlegt en brýnir okkur hin til að standa vörð um þessi (Forseti hringir.) dýrmætu verðmæti í þágu komandi kynslóða.



[10:51]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og nýlega hefur komið fram er meiri jöfnuður á Íslandi en víðast hvar annars staðar og komandi kjarasamningar eru tækifæri til þess að varðveita þann jöfnuð.

Margir hafa áhyggjur af kjarasamningunum sem fram undan eru. Það er nokkuð ljóst að þar verður meginverkefnið að bæta kjör þeirra sem lægst hafa launin, en ýmis tækifæri eru í þeim kjarasamningum vegna þess að svo virðist sem búið sé að semja við ýmsa stóra hópa í landinu á almennum vinnumarkaði. Þannig hafa til dæmis bankamenn greinilega fengið mjög ríflegar hækkanir undanfarið, bæði í formi beinna kauphækkana og bónusa, væntanlega vegna þess að þeir hafa staðið sig með afbrigðum vel undanfarin ár og sjálfsagt er verið að verðlauna þá fyrir það.

Síðan hefur aðilum vinnumarkaðarins gengið ágætlega að semja um kjör hæstráðenda í fyrirtækjum í eigu lífeyrissjóðanna, og millistjórnenda. Það kemur berlega í ljós, og kom í ljós í tekjublaði Frjálsrar verslunar í fyrra og hefur komið fram í ýmsum mælingum, að þeir stjórnendur virðast hafa það býsna gott og hafa fengið býsna góðar launabætur, þannig að það blasir við að þar er nóg að gert og þarf ekki að tryggja þeim, þessum hópum, frekari launabætur. Að því leytinu til held ég að komandi kjarasamningar verði auðveldari viðfangs vegna þess að það er hreinlega hægt að sleppa því að semja við þessa hópa, stóru hópa, sem þegar hafa fengið gríðarlegar launabætur.

Verkefnið hlýtur því að vera að hækka laun þeirra sem lægst laun hafa, og ég er alveg sannfærður um að aðilar vinnumarkaðarins geti komið sér jafn vel saman um það eins og að hækka laun æðstu stjórnenda í fyrirtækjum í eigu lífeyrissjóða.



[10:53]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er orðið verulega pínlegt að fylgjast með hverjum framsóknarþingmanninum á fætur öðrum koma í ræðustólinn og kvarta undan bönkunum. Það verður að vekja athygli þingmanna Framsóknarflokksins á því að þeir eru ekki í stjórnarandstöðu. Þeir eru í stjórnarmeirihluta og þeir hafa haft tvö ár til að setja þessum bönkum skorður um þjónustugjöld, um vexti, um hagnað. (Gripið fram í: Og skatta.) Þessir bankar starfa meðal annars með ríkisábyrgð frá þeirra eigin ríkisstjórn. Hagnaðurinn er byggður á ríkisábyrgð frá þeirra eigin ríkisstjórn en í stað þess að takmarka svigrúm bankanna er það eina sem þingmenn Framsóknarflokksins hafa gert að auka svigrúmið. Nú hafa þeir komið fram með frumvarp um að leyfa bönkunum á ný að veita gengistryggð lán til fólks og fyrirtækja í landinu.

Virðulegur forseti. Það bólar ekkert á móður allra kosningaloforða, afnámi verðtryggingar, (Gripið fram í.) enda er það rangt þegar þingmenn flokksins reyna að skýla sér á bak við það að hún eigi að hefjast í lok kjörtímabilsins árið 2016. Ástæðan fyrir því að Framsóknarflokkurinn segir að afnám verðtryggingar eigi að hefjast í lok kjörtímabilsins er einfaldlega sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei samþykkt afnám verðtryggingar. Framsóknarflokkurinn setti það aldrei sem skilyrði fyrir því að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að verðtrygging yrði afnumin af því að Framsóknarflokkurinn meinti ekkert með loforðinu um afnám verðtryggingar. Hann hefur bara skotið því á frest til loka kjörtímabilsins og mun þá grípa til einhverra málamyndaráðstafana til að geta sagst hafa byrjað á því sem hann hefur hvorki ætlað sér að klára né ljúka að mestu. Verðtrygging verður hér áfram við næstu alþingiskosningar eins og hún var við hinar síðustu þó að einhverjar smávægilegar takmarkanir kunni að hafa verið gerðar á henni, vegna þess að ætlunin var aldrei að efna það loforð.

Ég hvet Framsóknarflokkinn til að reyna að leysa úr fylgisskorti sínum (Forseti hringir.) í skoðanakönnunum með einhverjum öðrum hætti en að koma hér upp og kvarta undan bönkunum sem þeir sjálfir stjórna með lagasetningu.



[10:55]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég ætla svo sannarlega að líta á skýrslu ríkislögreglustjóra, sem greiningardeild ríkislögreglustjóra kom á framfæri 20. febrúar, Mat ríkislögreglustjóra á hættu á hryðjuverkum og öðrum stórfelldum árásum. Þar sem ég hef lesið skýrsluna verð ég að segja að mér er verulega brugðið, sér í lagi við tillögum og tilvísunum í hópa fólks sem eru skilgreindir í kaflanum Tillögur til úrbóta, að þeim verði skipuð félagsleg úrræði sem verða fyrir áhrifum róttækni, og síðan eru þessir róttæklingar skilgreindir. Það eru sem sagt anarkistar, íslamistar, róttækir hægri og vinstri menn sem eru mögulegir ógnvaldar ríkisins. Ég tek þetta mjög alvarlega, hv. þingmaður.

Ríkislögreglustjóri leggur sem sagt til að sköpuð verði sérstök félagsleg úrræði fyrir aðila eins og til dæmis mig, sem er anarkisti. Fyrir einstaklinga sem verða fyrir áhrifum róttækni í landinu verði myndaður sérstakur samráðsvettvangur lögreglu, félagsþjónustu og heilbrigðisyfirvalda til að miðla upplýsingum um þessa einstaklinga sem kunna að ógna öryggi almennings, sem eru þá sem sagt anarkistarnir og róttækir hægri og vinstri menn, auk þess sem lögreglan fái forvirkar rannsóknarheimildir til að njósna um okkur.

Þetta eru þær aðgerðir sem embættið leggur til að ráðist verði í til að fyrirbyggja hryðjuverk hér á landi. Þetta finnst mér mjög alvarlegt, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Hérna er lögreglan enn og aftur að reyna að skapa ótta rétt eins og í kringum Vítisengla. Hvar eru þeir núna og ógnin í kringum þá?



[10:57]
Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á máli sem hefur ekki fengið mikla umfjöllun, en er hluti af stóru og mjög mikilvægu máli fyrir Ísland. Miklar vonir eru bundnar við Hafið, sem er öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins og er ætlað að vinna að útfærslum hugmynda um verndun hafsins. Samningur um stofnun Hafsins var undirritaður á alþjóðlegu Norðurlandaráðstefnunni Arctic Circle, sem fór fram í Hörpu á síðasta ári. Marorka heldur utan um verkið. Verkefnið er stutt af fjölmörgum aðilum, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, borginni, háskólum borgarinnar og ýmsum öðrum stofnunum. Síðast en ekki síst er ástæða til að telja upp Clean Tech Iceland sem eru samtök fyrirtækja í grænni tækni og fjölda annarra tæknifyrirtækja.

Fáar þjóðir eru eins háðar hreinu hafi og sjálfbærri nýtingu auðlinda og Íslendingar enda hefur sjávarútvegur verið undirstaða velferðar og framfara hér á landi. Íslendingar ættu því að vera í fararbroddi þegar kemur að rannsóknum á ástandi hafsins, setningu reglna til verndar því og þróun tækni sem verndar umhverfi og auðlindir þess, m.a. með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og með víðtæku samstarfi fyrirtækja og stofnana og nýta þekkingu sem þegar er til staðar til að auka vitund á breytingum sem gert er ráð fyrir vegna loftslagsbreytinga og vegna vaxandi skipaumferðar í íslenskri landhelgi. Stefnt er að því að starf Hafsins geti meðal annars orðið til þess að Ísland verði leiðandi afl á norðurslóðum, stuðlað að verndun lífríkisins í kringum landið og sjálfbærri nýtingu vistkerfa hafsins. Hægt verði að fjölga verðmætum störfum í tækni- og hugverkageiranum og auka almennt skilning og þekkingu á hafinu (Forseti hringir.) og mikilvægi þess.



[11:00]
Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef áður í þessum ræðustól minnst á lög sem við settum fyrir rúmu ári um úrræði til að hjálpa þeim einstaklingum sem ekki hafa átt aðra leið út úr skuldavanda sínum en að æskja þess að fara í gjaldþrot og var ætlunin að þau ættu að styrkja það fólk til þess. Lögin átti að endurskoða fyrir lok síðasta árs en enn bólar ekkert á frumvarpi frá hæstv. félagsmála- og húsnæðismálaráðherra um það mál. Ekki virðist vera vanþörf á að endurskoða lögin vegna þess að þau gagnast fæstum þeim sem æskja þess að fara þessa leið. Ég lýsi því eftir því að félagsmálaráðherra komi með endurskoðun á þessum lögum hingað í þingið þannig að við getum rætt þau.

Reyndar hefur félagsmálaráðherra ekki heldur sett reglugerð um þetta efni sem átti þó að gerast og er meira en ár síðan lögin voru sett. Það má kannski fagna því að sú reglugerð hefur ekki verið sett vegna þess að í drögum sem send voru út í byrjun janúar virtist sem enn ætti að þrengja að fólki sem æskir þess að fara þessa leið. Ég kalla eftir því að hinn ágæti félagsmálaráðherra, sem var mjög öflugur talsmaður þeirra sem áttu í skuldavandræðum á síðasta kjörtímabili, þingkonan Eygló Harðardóttir — nú þegar hún situr yfir þessum málum öllum saman bólar ekki á neinu. Það bólar ekkert á húsnæðisfrumvörpum sem þó voru tilbúin þegar hún kom í embættið, það bólar ekkert á frumvarpi um afnám verðtryggingar, það bólar ekkert á lyklafrumvarpi. Hæstv. félagsmálaráðherra öflugur talsmaður fyrir (Forseti hringir.) öll þessi mál hér á síðasta kjörtímabili.



[11:02]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera að umtalsefni Fæðingarorlofssjóð, Atvinnuleysistryggingasjóð og Vinnumálastofnun. Margt hefur verið skrafað og ritað um vinnumarkaðsúrræði. Fram undan eru kjarasamningar á almennum markaði og vitað er að markaðurinn sjálfur, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin, vill gjarnan fá þessi verkefni í sínar hendur. Í ljósi þess geri ég þetta að umtalsefni, virðulegur forseti: Af hverju er það ekki rætt af hálfu ríkisins af fullri alvöru að Vinnumálastofnun, Atvinnuleysistryggingasjóður og Fæðingarorlofssjóður verði sett í hendurnar á samtökum atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna til þess að samtökin sjái sjálf um þau virkniúrræði sem þar þarf að halda utan um, í stað þess að ríkið sé að vasast í verkefnunum?

Ég er hugsi yfir því að við hér skulum almennt ekki ræða þau mál samhliða því að standa í ræðustól og velta fyrir okkur hvort kjarasamningar á almennum markaði eigi að vera í prósentuvís eða krónutöluvís eða hvort þessi hópur hafi fengið nóg eða hinn hópurinn hafi fengið nóg, eða hvernig hlutirnir gerast á eyrinni, eitthvað sem okkur sem þingmönnum kemur ekkert við, akkúrat ekki neitt, og er ekki í okkar verkahring. Við getum haft skoðanir á því en þær skipta engu þegar komið er að samningaborðinu. Þarna eru hins vegar ákveðin vinnumarkaðsúrræði sem gætu gagnast þeim sem þurfa á þeim að halda, þau væru nær í rauntíma, nær í verklagi hjá þeim sem eiga um þetta að fjalla og ríkið ætti ekki að vera með puttana í því.



[11:04]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir góða ræðu og get upplýst hv. þingmann að við getum rætt þetta mál við 2. umr. um frumvarpið um opinber fjármál og ég held að við ættum að gera það.

Ég vil að gefnu tilefni segja það alveg hreint út — vegna þess að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir ræddi það sem ég ræddi áðan um hættu á hryðjuverkum — að það er enginn hræðsluáróður að benda á hættuna á glæpagengi. Það er bara enginn hræðsluáróður. Ég vona, virðulegi forseti, og ég veit að lögreglan er að fylgjast með því og mun gera það. Því miður hefur maður séð slæma hluti hér en vonandi aldrei jafn slæma og við sjáum í nágrannalöndum okkar. Ég tek undir hvert einasta orð sem Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir líka á hið augljósa, að við þurfum eðli máls samkvæmt að fara varlega því að það er fín lína á milli þess að tryggja nauðsynlegt öryggi borgaranna og ganga ekki gegn borgaralegum réttindum þeirra. Það verður að fara mjög varlega. En við skulum ekki tala eins og þetta sé ekki neitt mál.

Svo vil ég aftur hrósa hv. þm. Róberti Marshall og vek athygli á því að ég hef fundið einn hv. þingmann sem þorir að gangast við að vilja ganga í Evrópusambandið. Hinir eru í leiknum, virðulegi forseti, að kanna hvað er í boði.

Ég vona og vonandi getum við gert það á eftir undir umræðunni um alþjóðlegar þingnefndir að ræða nákvæmlega þennan þátt sem hv. þm. Róbert Marshall nefndi. Ég held að full ástæða sé til að ræða það undir EFTA- og ESA-þingskýrslunni og fara nákvæmlega yfir það hvaða áhrif þingmenn og einstök ríki hafa innan tollabandalagsins, Evrópusambandsins. Það skulum við fara yfir.

En ég er búinn að finna einn hv. þingmann sem vill ganga í Evrópusambandið, hinir eru enn þá í samkvæmisleiknum sem er hannaður af Samfylkingunni að kanna hvað er í boði. Ég hlakka til að (Forseti hringir.) eiga málefnalega og góða umræðu við hv. þm. (Forseti hringir.) Róbert Marshall og hvet aðra hv. þingmenn sem vilja ganga í Evrópusambandið að (Forseti hringir.) koma og gangast við því.