144. löggjafarþing — 71. fundur
 26. feb. 2015.
sérstök umræða.

innanlandsflug.

[11:07]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum um innanlandsflug sem er mjög mikilvægur samgöngumáti fyrir okkur Íslendinga. Innanlandsflugið er kannski einn aðalsamgöngumátinn á móti áætlunarbifreiðum og einkabílum. Við búum ekki við það hér á Íslandi að vera með lestarsamgöngur. Hins vegar háttar þannig til að innanlandsflugið er dýr ferðamáti og fargjöld hafa hækkað á undanförnum árum. Það veldur áhyggjum því að margir þurfa að nota innanlandsflugið, bæði í þeim tilgangi að komast fljótt á milli staða í viðskiptaerindum, vegna vinnu sinnar og líka vegna heilbrigðisþjónustu.

Innanlandsflugið er tenginet sem tengir saman bæi og þorp á landinu og það má alveg segja að netið mætti vera þéttara en það er. Við vitum hins vegar að þetta er dýr ferðamáti og hér ríkir líka fákeppni. Þess vegna var tekin ákvörðun, af fyrrverandi innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að láta fara ofan í það hvaða möguleikar væru á því að draga úr kostnaði við innanlandsflugið fyrir þá sem það nota. Til þess var skipaður starfshópur sem nú hefur lokið störfum en markmið hópsins var fyrst og fremst að greina þjónustugjöldin, opinberu gjöldin, sem eru lögð á innanlandsflug með það að markmiði að kanna hvort hægt væri að lækka fargjöld innan lands.

Þessi hópur, sem samanstóð af þingmönnum og mönnum úr atvinnulífinu, komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri um auðugan garð að gresja í því að lækka fargjöld. Í stuttu máli má segja að niðurstaðan hafi verið sú að með tiltölulega auðveldu móti væri hægt að lækka fargjald á hvern legg um 1.800 kr. að mestu. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að möguleiki væri á því að í stað þess að lögð væru á þjónustugjöld kæmi ríkið inn í þennan almenningssamgöngumáta og í staðinn fyrir að leggja á farþegagjöld og lendingargjöld kæmi til ríkisstyrkur.

Því fylgir að vísu ákveðinn annmarki vegna þess að á EES-svæðinu gilda ákveðnar ríkisstyrkjareglur og það þýðir að Reykjavíkurflugvöllur er varla tækur þar inn. Hins vegar eru aðrir flugvellir á landinu þannig að þeir ættu alveg að geta fallið undir þetta ákvæði. Ef felld yrðu niður farþega- og lendingargjöld mundi það kosta ríkissjóð um 400 milljónir og það mundi að meðaltali skila hverjum einstaklingi sem flygi aðra leiðina um 1.200 kr. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að það væri til bóta.

Síðan sá hópurinn fyrir sér að mögulegt væri að breyta virðisaukaskattskerfi á þann veg að farþegaflutningar í flugi yrðu virðisaukaskattsfrjálsir að því leyti til að hægt væri að endurgreiða virðisaukann. Með því að breyta virðisaukaskattslögum gætu náðst þar um 500 kr. til að lækka fargjöld og það þýðir að þá erum við komin í um 1.800 kr. sem ég nefndi hér áðan.



[11:13]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. upphafsmanni þessarar umræðu fyrir að taka þetta mál á dagskrá og fyrir að hafa leitt starfshóp innanríkisráðuneytisins sem falið var að skoða gjaldtöku í innanlandsflugi og mögulegar leiðir til lækkunar.

Skýrslan barst mér í hendur síðastliðinn mánudag og hún er nú til skoðunar í ráðuneytinu. Innanlandsflugið er einn hlekkurinn í samgöngukerfi landsins. Ég lít á það sem mikilvæga innviði þjóðfélagsins sem einnar heildar. Stefna stjórnvalda er að samþætta og samtvinna sem mest stefnu, aðgerðir og rekstur í samgöngukerfinu á öruggan og hagkvæman hátt. Við þurfum að horfa til þess hvernig þessi kerfi almannasamgangna á landi, lofti og legi geta best þjónað hinum ólíku þörfum og dreifðu byggðum landsins. Það er í raun ekki hægt að tala um einn þátt samgöngukerfisins án þess að minnast á aðra þætti.

Kostnaður við flugið er hins vegar mikill, rekstur og uppbygging flugvalla, flugleiðsaga, flugrekstur og mannahald, í öllum þessum þáttum leggjum við ofuráherslu á öryggi. Þennan kostnað greiða notendur sem eru farþegar og flugrekendur og raunar ríkið líka að talsverðu leyti. Þar að auki greiðir ríkið niður hluta af rekstri ákveðinna flugleiða eins og kunnugt er. Þetta er óumdeilt. Það er líka óumdeilt að flugið er lífsnauðsynlegur þáttur í samgöngum landsins. Það sem er umdeilt er hvernig við ætlum að reka þetta kerfi og hvernig við ætlum að skipta kostnaðinum við það. Skýrslan um gjaldtökuna í innanlandsfluginu sýnir meðal annars að opinber gjöld eru lítill hluti af kostnaði hvers farmiða. Í niðurstöðunum er bent á að niðurfelling farþega- og lendingargjalda, svo og niðurfelling virðisaukaskatts af aðföngum í innanlandsflugi, mundi skila að meðaltali 1.700–1.800 kr. verðlækkun á fluglegg.

Þetta kom mér á óvart því að í umræðunni hefur oft verið gert mikið úr því að gjöld ríkisins af flugi væru há. Ég tel því að það ráði ekki úrslitum í þessu efni og sé engin heildarlausn að fella þessi gjöld niður ein og sér, enda segir í niðurstöðum skýrslunnar að þótt þessi niðurfelling skili lægra farmiðaverði sé óvíst að hún mundi þýða fleiri farþega. Um það bil 60% farþega í innanlandsfluginu greiða farmiða sína sjálfir en 40% eru þeir sem ferðast vinnu sinnar vegna og fá farmiðann greiddan. Farþegum með innanlandsflugi hefur fækkað nokkuð síðustu tvö árin, um 2,8% á síðasta ári miðað við 2013. Farþegum um flesta áætlunarflugvelli hefur fækkað en undantekningar eru Grímsey og Húsavík. Skýringarnar á fækkuninni geta verið nokkrar en án efa vegur verðlag í innanlandsfluginu þungt.

Ætlum við að horfa upp á þessa þróun án þess að grípa inn í? Viljum við snúa þessari þróun við eða viljum við hafa kerfið nokkurn veginn óbreytt með óbreyttri aðkomu ríkisins? Ef við viljum halda innanlandsflugi, sem mér sýnist algjörlega nauðsynlegt, þurfum við að huga að því hver aðkoma ríkisins á að vera. Hún er nauðsynleg til að tryggja búsetu í ákveðnum landshlutum og samgönguyfirvöld þurfa að tryggja nauðsynlegt fjármagn í því skyni og þess vegna eru tilteknar flugleiðir styrktar.

En það má spyrja hvort aðkoma ríkisins sé nauðsynleg til að styrkja flugrekstur að öðru leyti. Á innanlandsflugið að geta þrifist á markaðslegum forsendum fyrir utan þessar styrktu leiðir? Á það að vera hlutverk ríkisins að styrkja vöxt og uppbyggingu flugfélaga? Er hugsanlegt að tækifæri séu í innanlandsfluginu þegar litið er til ferðaþjónustunnar? Hlutfall erlendra ferðamanna fer vaxandi í innanlandsfluginu og ég bind vonir við þennan vaxtarbrodd. Ég tel mjög brýnt að litið sé á frekari markaðssetningu á innanlandsflugi sem hluta af heildarsamgöngukerfi þjóðarinnar þegar farið er yfir framtíð innanlandsflugsins.



[11:17]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Starfshópur skilaði skýrslu síðasta mánudag um innanlandsflugið. Þar kemur fram að með því að hætta öllum opinberum álögum megi lækka farmiðann um 4% að hámarki. Álögur ríkisins eru nú ekki meiri en það hvað þetta varðar.

Ef lagt er til að þær verði felldar niður og ríkið komi að þá má spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Er innanríkisráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að þetta fjármagn komi til, ef hægt væri að gera það út af öllum þeim reglum sem við erum skuldbundin af? Miðað við samgönguáætlun sem við höfum séð og það sem væntanlegt er þar, þegar engir peningar eru lagðir í samgönguframkvæmdir, nánast ekki neitt, efast ég um að þeir peningar komi frá ríkisvaldinu, alla vega ekki núna.

Mér finnst athyglisvert að starfshópur á vegum ráðuneytisins skuli hafa komist að þessari niðurstöðu. Þá höfum við það klárt. Eftir stendur samt sem áður að fljúga lengstu leiðir úti á landi — lækka miðann þá úr 45.000 kr. niður í 43.200 eða eitthvað svoleiðis. Það er nú öll lækkunin.

En þá kemur að öðru. Hve mikið mundi kostnaðurinn aukast ef Reykjavíkurflugvöllur yrði lagður niður? Það eru ekki neinar 1.800 kr. Það eru að lágmarki 10–15 þús. kr., jafnvel 20 þús. kr., sem mundu bætast við þar. Ég virði það og hef verið þeirrar skoðunar að við eigum að gefa Rögnu-nefndinni ráðrúm til að klára sína vinnu, en ég harma það hvað dregst að skila niðurstöðu, þá hef ég litið þannig á að allir ættu að sýna biðlund á meðan. Það var hins vegar ekki gert gagnvart Valsmönnum, sem sá sem hér stendur getur ekki haldið með að þessu sinni, hvað það varðar, þó að hann hafi oft haldið með Val.

Þetta er sagan. Það eru bara tveir kostir í stöðunni; Reykjavíkurflugvöllur þar sem hann er sem miðstöð innanlandsflugs, eitthvað breyttur að sjálfsögðu sem niðurstaða í samkomulagi við borgina ef það væri hægt; eða að flytja miðstöð (Forseti hringir.) innanlandsflugs til Keflavíkur með þeim óheyrilega kostnaði sem því fylgir, sem ég (Forseti hringir.) nefndi hér áðan, og óþægindum fyrir flugfarþega. Þá mun farþegum fækka um meira en 2% (Forseti hringir.) á ári, virðulegi forseti.



[11:19]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er vissast að taka fram að ég sat í þeim starfshópi sem hér hefur borið á góma, um gjaldtöku í innanlandsflugi og mögulegar leiðir til að lækka fargjöld. Það er í sjálfu sér ekki skrýtið að innanlandsflugið hafi átt í vök að verjast. Margir samverkandi þættir hafa þyngt þar róðurinn; efnahagsástandið almennt og minni kaupmáttur, hátt eldsneytisverð fram undir það síðasta, veiking krónunnar hefur neikvæð áhrif á flugrekstur því að hann er verulega tengdur og háður kostnaði sem til fellur í erlendri mynt, og svo auðvitað auknar álögur sem menn neyddust til að grípa til til að halda rekstri innviða flugkerfisins gangandi. Samtímis því hafa svo stórauknir fjármunir farið í að styrkja almenningssamgöngur á landi síðastliðin tvö, þrjú ár, sem er vel, en allt þetta verður að hafa í huga þegar staða innanlandsflugsins er skoðuð, enda sjáum við mjög neikvæða þróun mörg undanfarin ár; farþegum fækkar ár frá ári og fjölgun erlendra ferðamanna, sem nýta sér vissulega innanlandsflugið talsvert þannig að um 17% af farþegum Flugfélags Íslands eru erlendir ferðamenn, dugar ekki til að vega upp á móti fækkun Íslendinga í því efni. Það er því mikið í húfi að snúa þeirri þróun við. Það er gríðarlega mikið undir hér því að án innanlandsflugsins er búseta í fjölmörgum landshlutum stórkostlega skert og það væri einfaldlega ekki hægt að starfrækja menntakerfið eða heilbrigðiskerfið í landinu með þeim hætti sem gert er í dag ef ekki væru tiltölulega greiðar flugsamgöngur.

Ég tel þess vegna einboðið að gera þá tilraun, ef við orðum það svo, sem starfshópurinn leggur til, leggur til, segjum í tvö, þrjú ár, að fella niður farþega- og lendingargjöld og endurgreiða flugrekendum virðisaukaskatt af eldsneyti megi það duga til að lækka fargjöld um 12–15%. Væri til mikils að vinna ef tækist að snúa þessari þróun við. Taki farþegum að fjölga á nýjan leik batnar afkoma flugsins og við komumst (Forseti hringir.) út úr þeim neikvæða spíral sem við höfum verið í að undanförnu og hefur skrúfað flugið niður.



[11:22]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að flugsamgöngur skipta miklu máli og mestu máli þar sem samgöngur á landi eru erfiðar milli viðkomandi landsvæðis og höfuðborgarinnar. Flugið þjónar hlutverki almenningssamgangna fyrir þessi landsvæði og þarf því að vera hluti af almenningssamgangnakerfinu.

Það er margt sem skiptir máli í aðgengi að flugi, en fyrst og fremst er það verðlag og aðgengi að flugvelli á báðum endum flugleiða. Eftir ferð um Norður- og Austurland í nýliðinni kjördæmaviku er mér ljóst að flugið er íbúum þar hugleikið enda skiptir það miklu máli og miklar væntingar eru til breytinga á verði í framhaldi af vinnu starfshóps innanríkisráðherra, enda ekki nema von þegar fullt verð á flugi fram og til baka milli Egilsstaða og Reykjavíkur er 47.300.

Einnig kom það skýrt fram að íbúar og forsvarsmenn atvinnulífs hafa miklar áhyggjur af þróun mála varðandi Reykjavíkurflugvöll og gera kröfur til stjórnvalda um að aðgengi að höfuðborginni sé tryggt. Umhleypingar í veðurfari í vetur eru kannski lán í óláni því að þar hafa kostir neyðarbrautarinnar komið skýrt í ljós, en jafnframt hefur komið í ljós hversu vanbúin flugstöðin í Reykjavík er þegar margir þurfa að bíða þar vegna röskunar á flugi.

Varðandi Reykjavíkurflugvöll velti ég fyrir mér hver sé ábyrgð Reykjavíkurborgar gagnvart mannvirkjum sem byggð hafa verið þegar skipulagi er breytt. Nú er það ljóst að þjóðin, þ.e. ríkið, á flugvöllinn. Ef hann er skipulagður burt úr Vatnsmýrinni ber þá Reykjavíkurborg ekki að greiða bætur samkvæmt skipulagslögum? Eða er það hreinlega borgarinnar að kosta byggingu nýs flugvallar?

Mig langar því að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort bótareglur skipulagslaga gildi ekki ef Reykjavíkurborg heldur áfram að gera atlögu að flugvellinum í krafti skipulagsvalds.



[11:24]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu sem er mjög mikilvæg og ég þakka líka vinnuhópnum fyrir sitt framlag og skýrsluna góðu sem ég vona að við getum nýtt okkur til þess að lækka innanlandsflugið. Mér fannst svolítið sérstakt í umræðunni um náttúrupassann að því var haldið fram að við yrðum að setja gjald á innanlandsflugið en á móti gætum við þá bara tekið eitthvert gjald af innanlandsfluginu. Það hjálpar í raun ekki mikið til ef við ætlum að lækka eitt gjald og setja á annað á móti. Þar af leiðandi fannst mér þetta ekki góð hugmynd.

Eins og hefur komið fram í umræðunum er í raun dýrara fyrir íbúa á til dæmis Egilsstöðum að koma til Reykjavíkur og komast heim til sín aftur en fyrir Reykvíkinga að skreppa til London. Nú er það þannig að við þurfum að sækja ýmsa þjónustu og vinnu jafnvel til höfuðborgarinnar og það hefur áhrif á búsetuskilyrði að þessar samgöngur séu góðar og séu ekki lúxus fyrir þá sem hafa efni á því. Ef maður skoðar samsetninguna á þeim sem nýta innanlandsflugið er hún líka mjög áhugaverð, þetta er mjög mikið fólk sem fer á milli vegna vinnu og hið opinbera borgar líka fargjöldin að miklum hluta.

Ég held að ég hafi persónulega örsjaldan flogið á eigin vegum en yfirleitt kem ég til Reykjavíkur vegna vinnu.

Mér finnst líka annað í þessu sem er það að dreifa ferðamönnum um landið, þá held ég að það skipti mjög miklu máli að innanlandsflugið sé raunhæfur kostur og ekki allt of dýrt og þar er mikilvægt að það sé að minnsta kosti möguleiki á yfirvofandi samkeppni. Ég efast um að það sé nema á örfáum leiðum einhver möguleiki á samkeppni, það hafa tvö flugfélög verið að fljúga til Akureyrar. Kannski er bara raunhæft að það sé eitt en það er samt mikilvægt að stjórnvöld búi þannig um hnútana að nýtt fyrirtæki sem sér þar eitthvert tækifæri geti stokkið inn. Ég held að hún geti verið jafn mikilvæg, þessi yfirvofandi samkeppni, og bara raunveruleg samkeppni, ef þið skiljið hvað ég á við. Annars bara þakka ég fyrir þessa góðu umræðu hér.



[11:26]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta eru mjög brýnar umræður. Ég gluggaði aðeins í skýrslu frá starfshópnum, sem var skipaður af innanríkisráðherra, um gjaldtöku í innanlandsflugi. Þetta er snúið mál og alls ekki einfalt. Það spilar inn mjög heit kartafla sem er staðsetning flugvallar en það er mjög brýnt að þetta loftæðakerfi sem landsmenn hafa aðgang að til að komast á milli staða verði ekki rofið. Ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um hvaða leiðir mætti reyna, prófa þetta til tveggja til þriggja ára og þá vega auðvitað þyngst gjöldin og eldsneytið. Það kom mér jafnframt á óvart hve litlu máli það mundi skipta ef hin opinberu gjöld yrðu felld niður.

Að sjálfsögðu þarf að fara í að kynna nánar fyrir erlendum ferðamönnum þennan möguleika á að ferðast um landið en þetta er fyrst og fremst mjög brýnt samgöngutæki fyrir þá sem hér búa, sér í lagi á veturna. Við vitum öll hvernig færðin er hér víða um land. Ég styð það að farið sé í tilraun með að reyna að auka farþegafjölda en ef sú tilraun mislukkast verðum við að grípa til róttækra aðgerða sem felast í einhverju meira en hér hefur verið boðað. Þá þarf að taka umræðuna um og fá nákvæmar upplýsingar um hvað mundi gerast ef til dæmis þessi þjónusta færi til Keflavíkur.



[11:29]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Gotland er sænsk eyja í Eystrasaltinu og hún minnir um margt á Ísland. Hún er hrjóstrug, þar er mikil sauðfjárrækt og hún er mjög vinsæll ferðamannastaður. (Gripið fram í.) Þangað fór ég síðastliðið sumar sem ferðamaður og tók eftir því að þegar ég keypti mér miða á netinu var lægra verð fyrir Gotlendinga. Nú er Gotland innan sænska ríkisins. Sænska ríkið er í Evrópusambandinu og um það gilda EES-reglur. Ég hef ekki kafað ofan í af hvaða ástæðu Gotlendingar geta notið þessara sérkjara miðað við aðra innan Evrópusambandsins, en mér þætti mjög athyglisvert að það yrði skoðað nánar af hálfu innanríkisráðuneytisins hvort ekki sé hægt að viðhafa slíka mismunun hér á landi líka, enda er það þannig að flugsamgöngur eru fyrir ýmsa leið til að komast á milli staða á ferðalögum, fyrir aðra vegna atvinnu en fyrir fjölmarga íbúa þessa lands eru þetta lífsnauðsynlegar samgöngur til að geta notið þjónustu og ýmissa þátta sem eru í raun eingöngu í boði hér á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og ég tel brýnt að kanna hvort það gæti ekki verið ein leið þannig að hægt væri að beina öllum styrkjum og niðurgreiðslum til þeirra sem reiða sig á flugsamgöngur sem grundvöll ákveðinnar velferðar.

Varðandi ræðu innanríkisráðherra tek ég heils hugar undir að það er mjög mikilvægt að auka markaðssetningu til erlendra ferðamanna og nýta þá uppsveiflu sem þar er til að fjölga í (Forseti hringir.) innanlandsflugi og þar með að efla það.



[11:31]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það væri ljótt ef við þyrftum að ganga í Evrópusambandið til að geta lækkað flugfargjöld innan lands en ég vona að svo verði ekki heldur að við getum gert þetta á eigin forsendum. Ég tel að flugið sé okkar almenningssamgöngur innan lands og við marga landshluta er það það. Í dag er það verðið sem fælir frá, það er allt of hátt, það hefur komið fram að það að fara þessa lengstu leggi frá höfuðborgarsvæðinu kostar fram og til baka hátt í 50 þús. kr. Það sér hver heilvita maður að venjuleg fjölskylda ræður illa við að nýta sér þetta eins og hún hefði kosið. Almenningur í landinu sem býr fjarri höfuðborgarsvæðinu þarf að sækja hingað á höfuðborgarsvæðið ýmsa þjónustu, menningu, heilbrigðisþjónustu, menntun og margt mætti telja upp, að ég tali ekki um öryggisþáttinn varðandi sjúkraflugið á Landspítalann, hátæknisjúkrahús allra landsmanna.

Það er mjög brýnt og mér finnst gott að þessi starfshópur hafi verið stofnaður til að kanna möguleika á því hvernig hægt væri að lækka verð á flugmiðum á einhvern hátt, að ríkið komi þar inn í. Ég vonast til þess að menn vinni með þetta, það er talað um að þetta kosti einar 400 milljónir og ég ber vissulega ákveðinn ugg í brjósti vegna þess að í síðustu fjárlögum var skorið niður til innanlandsflugsins og ríkisstyrktu leiðanna. Við þurfum að verja þessa þætti, ríkisstyrktu leggirnir eru mjög mikilvægir. Á sumum stöðum á landinu eru þetta kannski yfir háveturinn einu samgöngurnar sem viðkomandi byggðarlag hefur við höfuðborgarsvæðið, af sínu svæði inn á þjóðbrautina. Það skiptir alla landsmenn miklu máli hvernig þetta þróast og ég tel gott að unnið sé að þessum málum (Forseti hringir.) en það má ekki dragast allt of lengi.



[11:33]
Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur, fyrir að taka upp mál innanlandsflugs.

Mig langar að byrja á að ræða um tengingu innanlandsflugs við stækkandi atvinnugrein, ferðaþjónustuna. Ég tel að þar megi sjá nýtt tækifæri með því að opna fleiri fluggáttir inn í landið, því að langstærsti hluti ferðamanna kemur með flugi gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Reykjanesi og því er mikill ágangur á ferðamannastaði á suður- og suðvesturhorni landsins. Ef fleiri gáttir verða opnaðar og markvisst markaðssettar er ég sannfærður um að dreifing ferðamanna yrði betri og þessi þjónustugrein mundi dreifast betur um landið. Einnig með því að efla flugvelli vítt og breitt um landið styrkir það kerfið í heild, eins og með varaflugvellina. Flugmönnum er skylt að skrá varaflugvöll við þann flugvöll sem fyrirhugað er að lenda á og komið hefur upp í Ameríkuflugi að flugmenn hafa þurft að skrá varaflugvöll á Írlandi eða í Svíþjóð.

Í seinni hluta ræðunnar langar mig að tala aðeins um Reykjavíkurflugvöll og ítreka mikilvægi hans í samfélaginu. Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs og gegnir mikilvægu hlutverki í samgöngum höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar. Flugvöllurinn gegnir lykilhlutverki í tengingu landsbyggðarinnar við kjarnaþjónustu opinberrar þjónustu sem er að mestu á höfuðborgarsvæðinu, tengingu við heilbrigðiskerfið, Landspítalann, sem er spítali okkar allra og þarf að vera nálægt öflugum samgönguæðum, og til viðbótar get ég eins og fleiri þingmenn nefnt menntakerfið og almenna verslun og þjónustu.

Að því sögðu tel ég mikilvægt að fulltrúar allra landsmanna, ekki einungis þeir sem eru kosnir af einu sveitarfélagi, taki ákvörðun um framtíð flugvallarins. Það er mun (Forseti hringir.) lýðræðislegra og sanngjarnara.



[11:36]
Halldóra Mogensen (P):

Virðulegi forseti. Ég kem inn í þessa umræðu einungis til að varpa fram hugmynd eða spurningu um hvort það hafi einhvern tímann verið rætt hérna eða hugmyndir komið upp um að líta hreinlega í átt að hraðlestum frekar en flugumferð. Mikil óvissa ríkir núna í heiminum um eldsneyti og framtíð þess. Mér finnst kannski vera skortur á langtímahugsun, hvað við ætlum að gera í framtíðinni þegar olía er ekki lengur til. Þá þurfum við að líta til nýrrar tækni. Nú eru mjög spennandi hlutir að gerast í heiminum varðandi hraðlestir sem nýta sér segul- eða rafsegulsvið til að ferðast og geta farið mjög hratt. Ég vildi bara varpa fram þeirri hugmynd.



[11:37]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka öllum þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í þessari umræðu. Það er sérstaklega ánægjulegt að heyra þann einhug sem ríkir um mikilvægi innanlandsflugsins og að menn deila þeim áhyggjum að flugið sé okkur dýrara en það ætti að vera og hamli því þar af leiðandi að menn geti nýtt það, almennir farþegar, eins og æskilegt væri.

Ég vil líka beina því til hæstv. innanríkisráðherra að það sem kemur fram í skýrslu þess starfshóps sem hér hefur verið nefndur verði tekið fyrir og menn leiti leiða til að hægt verði að lækka fargjöld þannig að flugið verði almennari samgöngumáti.

Það er alveg rétt að Íslendingar eru farnir að beina sjónum að því hvort lestarsamgöngur væru mögulegur ferðamáti hér. Auðvitað vitum við ekki hvað gerist í framtíðinni, en ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að koma með þessa tillögu.

Síðan vil ég hér í lokin nota tímann til þess að brýna menn í því að Reykjavíkurflugvöllur er lífæð allra landsmanna. Ef hróflað verður við honum erum við komin í mun erfiðari stöðu. Það mun verða okkur dýrt að byggja upp flugvöll annars staðar. Eins og hann er núna þá þjónar hann hlutverki sínu afskaplega vel og ég vona að svo verði áfram.



[11:39]
innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þær ábendingar sem þingmenn hafa varpað til mín vegna þessarar skýrslu.

Ég held að mjög mikilvægt hafi verið að fá þessa niðurstöðu fram og ekki síst það hversu lítill hluti þessar opinberu álögur eru, það sé þá bara komið á hreint hvernig hlutirnir eru og við getum talað um þetta út frá staðreyndum.

Mér finnst gott að heyra að hv. þingmenn benda á ferðaþjónustuna. Hún er gríðarlega mikilvægur þáttur í atvinnustarfsemi í landinu. 17% þeirra flugfarþega sem fara með fluginu á sumrin eru erlendir ferðamenn. Nú sjáum við að vetrarlagi að landið hefur fyllst af erlendum ferðamönnum líka. Ég held að veruleg tækifæri séu í því að beina markaðssetningu í þá átt að reyna að nýta flugið, þetta mikilvæga tól sem það er í heildarsamgöngukerfi landsins, og markaðssetja flugið fyrir erlenda ferðamenn.

Ég vil líka ítreka það sem ég sagði áðan vegna þeirra íslensku flugfarþega sem nýta sér flugið að það eru þó 60% af þeim sem nýta sér innanlandsflugið sem borga fyrir það sjálfir. 60%, það er líka töluvert hátt hlutfall. Fólk kemur til höfuðborgarinnar til að sækja þjónustu af ýmsu tagi.

Að lokum þetta. Vöxtur og viðgangur í innanlandsflugi felst líka í því að losa flugvöllinn í Reykjavík úr þeim fjötrum og bráðabirgðaástandi sem hann hefur verið í allt of lengi. Ég vonast til að í þeirri nefndarvinnu sem fram fer á vegum svokallaðrar Rögnu-nefndar sjáist eitthvað til lands í því, en menn verða auðvitað einhvern tímann að taka þá umræðu til enda hvernig menn sjá fyrir sér innanlandsflugið. Það er alveg ljóst að Reykjavíkurflugvöllur er dyrnar að innanlandsfluginu í landinu.