144. löggjafarþing — 72. fundur
 27. feb. 2015.
sérstök umræða.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:10]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa orðið fljótt og vel við beiðni um sérstakar umræður um þetta mikilvæga mál. Ég vil leggja áherslu á það hér í upphafi að staðan í þjónustu við aldraða er ekki á ábyrgð þess ráðherra eins sem nú situr heldur er samstarfsverkefni margra og staðan í málaflokknum þróast yfir lengri tíma. Það er mikilvægt að við ræðum um metnað ráðherrans til þess að auka gæði í þjónustu við aldraða á þeim tveimur árum sem eftir lifa af þessu kjörtímabili.

Á næstu 15 árum fjölgar Íslendingum 80 ára og eldri um helming. Hingað til hefur okkur gengið illa að tryggja nægilegt framboð af fyrsta flokks hjúkrunarrýmum. Sú spurning er áleitin hvort við verjum nægilegum fjármunum til að mæta hinni miklu aukningu sem verður á þörf fyrir hjúkrunarheimili á næstu 15 árum. Ég spyr ráðherrann þess vegna um áætlanir hans í þessu efni, um biðtíma og hvaða kröfur hann telur rétt að gera í því.

Ég spyr hann líka um áherslur eftir svæðum og mismunandi þarfir eftir svæðum. Hér í Reykjavík er talið að á höfuðborgarsvæðinu þurfi á næstu tveimur árum að minnsta kosti 200 ný hjúkrunarrými til að halda í horfinu. Nýframkvæmdir hafa aðeins verið ákveðnar á Seltjarnarnesi og í Kópavogi og það eru innan við 100 rými. Engin stór nýframkvæmd er komin á dagskrá hér í Reykjavík þar sem þörfin er þó mest og virðist fara hraðast vaxandi. Hér má líka nefna staði eins og Suðurnes þar sem biðlistinn er orðinn, held ég, 56 manns eftir slíkum úrræðum. Við þekkjum líka að við höfum verið að reyna að fjölga einbýlum og auka þannig gæði í húsnæði á hjúkrunarheimilum og ég spyr ráðherrann hvernig því verki miði.

Þjónusta við aldraða er ekki bara steinsteypa, hún er líka spurning um innihald þjónustu og gæði. Ég spyr ráðherrann hvernig gæðakröfur í þjónustu við aldraða séu tryggðar. Ýmsar frásagnir sem við höfum heyrt af þjónustu á öldrunarstofnunum vekja áleitnar spurningar í þeim efnum hvernig við tryggjum það og fylgjum því eftir að þjónusta þar sé fyrsta flokks. Eru gerðar samræmdar gæðakröfur til þessarar þjónustu? Hvernig er með kröfur um hluti eins og böðun, endurhæfingu o.s.frv.?

Nú búum við svo vel að hafa fengið til liðs við okkur fjölmarga til þess að starfa á þessum stöðum og sumir koma frá útlöndum. Ég spyr hvort þeir fái nægilega þjálfun til þess og skólun áður en þeir hefja störf við öldrunarstofnanir til að sinna þeim samskiptum og þeim mikilvægu þjónustuverkefnum sem þar eru annars vegar. Ég spyr sérstaklega vegna þess að það hefur verið að færast í aukana að þjónustuverkefni af því tagi séu boðin út og fengin lægstbjóðanda. Þá held ég að enn ríkari ástæða sé til þess að það séu skýrar gæðakröfur um hvaða þjálfun starfsmennirnir hafa fengið til að sinna þeirri mikilvægu þjónustu sem um ræðir.

Í nóvember á síðasta ári gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu og ég hvet menn til að kynna sér niðurstöður þeirrar skýrslu. Ríkisendurskoðun hvetur til þess að gerðir séu þjónustusamningar við öll hjúkrunarheimili í landinu og ég spyr hæstv. ráðherra hvað því líði; að þar verði skilgreint skýrt hvaða þjónustu ber að veita, hvaða gæði eigi að vera í þjónustunni. Ekki verður annað ráðið af skýrslunni en að á þetta skorti.

Ég spyr ráðherra hvort hann sé sammála því áliti Ríkisendurskoðunar að við gerum ekki nægilega skýrar gæðakröfur til þeirra fjölmörgu ólíku rekstraraðila sem starfa á þessum vettvangi. Þegar við ræðum um gæði í þjónustu við aldraða þurfum við líka að hugsa um það hvernig gæðaeftirlitinu er háttað. Ég spyr ráðherrann hvort hann telji að við þurfum að gera breytingar á því til að bæta þjónustuna og auka aðhaldið, horfa til hluta eins og trúnaðarmannakerfis, eins og verkalýðshreyfingin hefur notast við, eða réttindagæslukerfis, eins og menn nota í þjónustu við fatlaða. Er þörf fyrir embætti umboðsmanns aldraðra? Eða hvernig sér ráðherra fyrir sér að við getum aukið eftirlit og bætt aðhald með þeirri (Forseti hringir.) viðkvæmu og mikilvægu þjónustu sem þjónusta við aldraða er?



[11:15]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda þá umræðu sem hann kallar eftir. Þetta er afar brýn umræða, þarft mál sem hér er tekið til umræðu. Vissulega eru þetta margar spurningar sem hv. fyrirspyrjandi er með og innihaldsríkar og bera með sér öll meginatriði þeirra áherslna sem þingið þarf að ræða og síðan stjórnsýslan á komandi árum. Sömuleiðis er brýnt að taka á þessum þáttum í dag.

Hér er spurt með hvaða hætti ég vilji nálgast það viðfangsefni sem liggur fyrir. Það er ærið að vöxtum og þetta er vissulega eins og þingmenn þekkja mjög fjárkrefjandi málaflokkur. Stofnkostnaður við byggingu eins hjúkrunarrýmis er um 30 millj. kr. og rekstrarkostnaður þessa sama rýmis 10 millj. kr. Það liggur fyrir í grófu mati, svo ég nálgist spurningu hv. þingmanns, að metin þörf eftir nýjum hjúkrunarrýmum til ársins 2020 liggi á bilinu 480–510 ný rými. Ég hef ekki fengið í hendur mat á þörfinni til næstu 15 ára. Það sem fyrst og fremst er verið að vinna með er þessi brýnasta þörf og hún er þessi, og liggur fyrir sömuleiðis að þörfin er brýnust á höfuðborgarsvæðinu, Árborgarsvæðinu og í Norðurþingi. Þetta eru þessi þrjú meginsvæði þar sem mesta þörfin er næstu fimm árin á uppbyggingu nýrra stofnanarýma.

Varðandi biðtíma eftir hjúkrunarrými eru tvær leiðir til að meta hann. Annars vegar er biðtími þeirra sem eru skráðir í þörf eftir hjúkrunarrýmum, þeir einstaklingar geta verið með umsóknir á fleiri en einum stað, en biðtími þeirra sem hafa komist inn í hjúkrunarrými, hafa verið metnir þannig, er í árslok 2014 um 82 dagar. Það eru vissulega mjög mismunandi þarfir eftir svæðum. Höfuðborgarsvæðið er eitt og síðan getum við tekið heilbrigðisumdæmin sjö. Þar eru þarfir mjög breytilegar, þótt í einu heilbrigðisumdæmi geti þarfirnar verið þannig að hin metna þörf samsvari öllum þeim hjúkrunarrýmum sem rekin eru í landinu.

Við erum í dag með tæplega 12 þús. manns yfir 80 ára. Við rekum rúmlega 2.600 hjúkrunarrými og liggur fyrir að einstaklingum þar eftir bið fer fjölgandi og við því þurfum við að bregðast. Áætlanir mínar liggja til þess að við tökum til og vinnum okkur inn í það að mæta stofnanauppbyggingunni á þeim þremur svæðum sem ég nefndi áðan. Þá er að hluta til sá hængur á að fjármunir sem fyrir eru, m.a. í Framkvæmdasjóði aldraðra, til þeirrar uppbyggingar eru ekki nægir í augnablikinu. Við erum fyrst og fremst að byggja núna eftir svokallaðri leiguleið samkvæmt áætlunum sem lagður var grunnur að árið 2008, hafnar framkvæmdir árið 2009, þetta var bygging 11 hjúkrunarrýma eftir leiguleiðinni. Það hefur miðað mishratt svo það sé sagt. Við eigum eftir að fullnusta samninga við Hafnarfjarðarbæ. Seltjarnarnes er komið af stað en lítið hefur hreyfst í Hafnarfirði og Kópavogi. Það er ný fjölgun rýma í Kópavogi, sömuleiðis á Seltjarnarnesi en engin í Hafnarfirði. Það sem þarf síðan að taka við er uppbyggingaráætlun fyrir þessi þrjú svæði og hún er í smíðum.

Hér er spurt um endurnýjun stofnanarýma. Samkvæmt tölum sem ég hef voru 85% íbúa hjúkrunarrýma á landinu í árslok 2012 í einbýli. Síðan þá hafa bæst við 60 einbýli í Garðabæ, 30 í Mosfellsbæ og við munum sjá einbýli koma í notkun í Bolungarvík, á Ísafirði og Fljótsdalshéraði á þessu ári. Þetta er allt samkvæmt þeim áætlunum sem keyrt hefur verið eftir frá árunum 2008/2009.

Ég mun svo reyna að koma að öðrum þáttum fyrirspurnar hv. þingmanns (Forseti hringir.) í minni síðari ræðu.



[11:21]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Líkt og hann minntist á er aldurspíramídi þjóðarinnar að breytast og öldruðum á eftir að fjölga á komandi árum. Það er nú þegar vandi til staðar því að það er skortur á hjúkrunarrýmum og hann mun bara aukast. Ég tel einsýnt að við þurfum að verja auknu fjármagni til að fjölga hjúkrunarrýmum. Eins og staðan er núna, þar sem skortur er á rýmum, er það okkur þjóðhagslega mjög dýrt vegna þess að vöntunin á hjúkrunarrýmum veldur uppsöfnun og teppir pláss á legudeildum á spítölum þar sem kostnaður er margfaldur á sólarhring miðað við það sem væri á hjúkrunarheimili.

Ég hef áhyggjur, líkt og málshefjandi þessarar umræðu, af því að þegar þjónusta sé boðin út sé reynt að spara eins og kostur er og að það komi niður á gæðum þjónustu og þjálfun starfsfólks. Það er nokkuð sem ég held að við þurfum að taka fyrir eða sem sagt að tryggja að verði ekki.

Að lokum langar mig að benda á að einnig skortir hjúkrunarrými fyrir yngra fólk, fólk í kringum sextugt. Líkt og mátti lesa um í Fréttatímanum í morgun er því miður of mikið um það að yngra fólk þurfi að vera á deildum með fólki sem er kannski á tíræðisaldri og á mjög lítið sameiginlegt (Forseti hringir.) í aldri. Við þurfum líka að hugsa um hjúkrunarrými fyrir þennan hóp.



[11:23]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa brýnu umræðu. Mig langar að nýta tímann og vitna í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gaf út í byrjun nóvember á síðasta ári og heitir Rekstrarafkoma og fjárhagsstaða hjúkrunarheimila á árinu 2013. Þetta er viðamikil og góð skýrsla og hlýtur að vera að einhverju leyti grunnurinn að þeirri umræðu sem fer fram um rekstur hjúkrunarheimila og þessi mál í heild sinni. Það kemur meðal annars fram að á árinu 2013 kostaði rekstur hjúkrunarheimila 23 milljarða. Það hafa víða verið rekstrarvandræði og ríkið hefur oft hlaupið undir bagga. Það er nefnt í skýrslunni að það sé ekki endilega alltaf rétta leiðin að þegar hjúkrunarheimili séu komin með halla komi ríkið og bæti við. Staðan árið 2013 var þannig að heimili með jákvæða afkomu voru 13 en afkoma 32 heimila var neikvæð. Það er ekki nógu gott.

Það eru ýmsir mjög góðir punktar í skýrslunni, t.d. er bent á að velferðarráðuneytið þurfi í samvinnu við embætti landlæknis að ráðast í frekari greiningu á hjúkrunarþörf þeirra sem fá inni á heimilunum og tryggja að samræmdu verklagi sé fylgt. Þannig á að koma í veg fyrir að einstaklingar sem geta notað einfaldari og ódýrari úrræði séu lagðir inn á hjúkrunarheimili. Það er heldur alls ekki gott ef við erum með mismunandi aðstæður á heimilum, það sé bara svona hipsumhaps hvernig þjónustan er eftir því í hvaða sveitarfélagi viðkomandi býr. Síðan þarf að bæta eftirfylgni með því að skilgreina lágmarksþjónustu á þessum heimilum. Stjórnvöldum er einnig bent á að þau hafi ekki kostnaðargreint þessa lágmarksþjónustu.

Við höfum aðeins skoðað þessa skýrslu í fjárlaganefnd. Ef hún hefur ekki þegar komið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á hún eftir að gera það en ég geri ráð fyrir að hún hafi líka verið rædd í velferðarnefnd. (Forseti hringir.) Ef svo er ekki mæli ég með því (Forseti hringir.) að velferðarnefnd taki þessa skýrslu til vandlegrar skoðunar.



[11:25]
Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda umræðuna. Hún er bæði þörf og góð.

Við stöndum á tímamótum. Ljóst er að hlutfall aldraðra mun hækka á komandi árum og öldruðu fólki þarf að sjálfsögðu að tryggja gott atlæti. Því verðum við að marka okkur skýrari stefnu en nú er í þessum málaflokki. Skortur er á hjúkrunarrýmum um land allt. Sérstaklega vil ég nefna Suðurkjördæmi allt, Reykjavík og Norðurþing. Talsverð umræða hefur verið um málið að undanförnu í fjölmiðlum um aðbúnað og umönnun aldraðra, en ég vil segja það hér í ræðustóli Alþingis, svo það sé sagt, að ég tel að stjórnendur og starfsmenn hjúkrunarheimila annist heimilisfólk af mestu alúð og eftir bestu getu, en ef til vill má skoða að bæta gæðastjórnun enn frekar á þessum stöðum. Við þurfum að bæta við hjúkrunarrýmum, það er alveg ljóst. Við þurfum einnig að bæta aðbúnað og tryggja að aldraðir fái sem besta umönnun. Allt kostar þetta peninga. Staðan er sú að Framkvæmdasjóður aldraðra er illa staddur þar sem fjármagnið hefur að undanförnu verið nýtt til reksturs og viðhalds í stað þess að byggja upp fleiri rými. Við stöndum því frammi fyrir fjárskorti og úr því verður að leysa. Það blasir einnig við að við þurfum að gera langtímaáætlanir um uppbyggingu hjúkrunarheimila til a.m.k. 20 ára.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur sýnt vilja í verki með því að bæta talsverðum fjármunum í þennan málaflokk á síðustu fjárlögum, en betur má ef duga skal. Unnið er að framkvæmdaáætlun um byggingarframkvæmdir öldrunarstofnana til næstu fimm ára í velferðarráðuneytinu og þeirri vinnu ætti að ljúka fljótlega.

Þó að menn greini á um ýmsa hluti þá erum við örugglega öll sammála um það að við verðum að bæta þjónustu og aðbúnað aldraðra (Forseti hringir.) enn frekar.



[11:28]
Halldóra Mogensen (P):

Virðulegi forseti. Ég er kannski með öðruvísi vangaveltur um þetta mál. Mér finnst þetta oft svo furðuleg umræða af því að maður hugsar til þess með eldri borgara og þær stofnanir sem við erum búin að búa til hvernig það væri út frá frelsi einstaklingsins til þess að velja. Með frelsi þá meina ég efnahagslegt frelsi af því að það er ekkert raunverulegt frelsi ef efnahagslegt frelsi er ekki til staðar. Hver væri þá staðan varðandi eldri borgara? Hvernig væri það ef fjölskyldur hefðu val og frelsi til þess að geta séð um foreldra sína, til þess að börnin gætu búið inn á heimili með foreldrum og ömmum og öfum eins og þegar við horfum til baka? Mér finnst við vera svo fljót að byggja upp stofnanir þar sem við flytjum eldri borgara hingað og svo eru börnin okkar í annarri stofnun af því að við erum svo ofboðslega „bissí“ í vinnunni. Þórbergur Þórðarson lýsti þessu vel. Hann kallaði okkur almenning „verslandi vinnuafl“. Ég spyr: Er það við? Er það það sem okkur langar til?

Mig langar dálítið til að við tökum þá umræðu og hugsum um hvernig samfélagi við viljum búa í, hvernig það væri ef við tækjum peningana sem fara í öll þessi kerfi og við mundum greiða þá út til einstaklinga, sköpuðum efnahagslegt frelsi á Íslandi þannig að fólk gæti valið og við sæjum hvað fólk vildi gera. Hefur einhver spurt eldri borgara hvernig þeir vilja lifa?



[11:30]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að hefja þessa umræðu. Hér hefur verið vitnað í skýrslu Ríkisendurskoðunar, mjög góða skýrslu um brotalamir í því kerfi sem hjúkrunarheimilin eru og þar er ekki síst komið inn á nauðsyn þjónustusamninga, gæðaviðmiða og eftirlits. Og það er ágætt að setja þetta í samhengi við umræðuna sem nú fer fram um rekstrarform í heilbrigðiskerfinu, því að það eru óvíða jafn fjölbreytt rekstrarform og hjá hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu. Ef við lítum á ástandið í þeim efnum er þar skortur á rýmum, þar er skortur á gæðaviðmiðum og þar er skortur á eftirliti. Það hefur að sjálfsögðu að gera með að fjármagn skortir í málaflokkinn. Ég held að það sé ágætt að nýta umræðuna til að minna á það að framboð á heilbrigðisþjónustu og gæði hennar snýst ekki fyrst og fremst um rekstrarformið heldur þá fjármuni sem við erum tilbúin til að setja í málaflokkana.

Það stórvantar rými á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg bíður eftir að fá tækifæri til að hefja uppbyggingu 88 rýma á Sléttuvegi. Við vöruðum við því í umræðunni um fjárlögin um fjármuni í Framkvæmdasjóð aldraðra sem nú verða nýttir til rekstrar en ekki fjárfestingar í nýjum heimilum. Ef við hugum að þeim heimilum sem voru byggð eftir leiguleiðinni þá valdi t.d. Garðabær, sveitarfélagið sjálft, að reka hjúkrunarheimilið, því að þeir töldu það hagkvæmara og betra fyrir sveitarfélagið að vera sjálft með reksturinn á sinni könnu.

Ég vil því nota tækifærið í þessari umræðu að kalla eftir meiri fjármunum í málaflokkinn og að menn fari að einbeita sér að þeirri (Forseti hringir.) forgangsröðun í stað þess að einblína á rekstrarformið.



[11:32]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Já, umræðan er þörf. Ég tek undir með hv. þm. Halldóru Mogensen, að menn velti fyrir sér valfrelsi einstaklingsins þegar kemur að þessu verkefni sem og mörgum öðrum, valfrelsi þess sem eldist og veikist, með hvaða hætti hann eða hún óskar eftir þjónustu og hvar hann óskar eftir henni. Sú tilhneiging að stofnanavæða alla hluti, alla þætti mannlegs lífs, hlýtur að mega fara í endurskoðun. Það hlýtur að mega skoða hvort það sé á þessum tímamótum, þegar við tölum um mikla vöntun rýma fyrir aðila sem fullorðnast og veikjast, spurning um að ræða meiri samþættingu félagsþjónustu sveitarfélaga og heimahjúkrun. Þá leyfi ég mér að orða það, hæstv. heilbrigðisráðherra, að heilusugæslan fari heim í hérað til að hægt sé að auðvelda þá samþættingu þar sem nærþjónustan er nær borgurunum. Heimamenn eru oft betur til þess fallnir að meta hvar þjónustan er brýnust og hvernig ber að veita hana eða inna af hendi.

Mig langar líka í þessari umræðu, virðulegur forseti, að ræða það að hér er um einstaklinga að ræðir, fólk með mismunandi þarfir og mismunandi þörf fyrir þjónustu. Við getum ekki horft upp á að það þurfi að setja upp stofnun þar sem ákveðið sé fyrir fram með hvaða hætti þjónustan eigi að vera vegna þess að það eru einstaklingarnir sem koma inn sem kalla á ólíka þjónustu eftir því hvernig þeir eru staddir heilsufarslega og félagslega. Þess vegna langar mig að við ræðum þetta út frá öðrum formerkjum en stofnanavæðingu og ég verð að segja að ég hef aldrei haft ofurtrú á að ríkið gæti gert hlutina betur en einstaklingarnir sjálfir.



[11:34]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er sannarlega þörf umræða og hvað sem segja má um valfrelsi einstaklingsins er þetta málaflokkur sem ríkið ber ábyrgð á. Það á hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir líka að vita. (Gripið fram í.) Það er ástæða til að minna á að það var gert verulegt átak í þessum málum á síðasta kjörtímabili, í tíð þeirrar ríkisstjórnar. Það voru byggð upp ný hjúkrunarheimili eða stækkuð á einum 8–10 stöðum, ef ég man rétt, (Gripið fram í: 11.) 11 stöðum. Það var fjárfesting upp á vel á annan tug milljarða króna. Þar var víða verið að bæta úr brýnni þörf, það stórbætti aðstæður í fjölmörgum byggðarlögum. Að vísu var víða verið að skipta út algjörlega ófullnægjandi gamalli aðstöðu í fjölbýli yfir í nútímalegt sérbýli þannig að það varð ekki samsvarandi fjölgun hjúkrunarrýma en engu að síður brýnt að gera það sem gert var.

Hvað með framhaldið? Eins og hér hefur verið upplýst er staðan sú að talið er að á höfuðborgarsvæðinu vanti hið bráðasta ein 200 ný hjúkrunarrými. Á Akureyri hefur hjúkrunarrýmum fækkað undanfarin ár og er það þó sá staður á landinu þar sem mest fólksfjölgun er utan suðvesturhornsins.

Svipað má segja um Þingeyjarsýslur. Þar er fjöldi hjúkrunarrýma langt undir metinni þörf og við getum nefnt byggðarlag eins og Djúpavog þar sem er ekkert hjúkrunarrými í 500 manna samfélagi sem liggur hundruð kílómetra frá næstu sambærilegri þjónustu. Það er óboðlegt í nútímanum að fólk sem þarf á svona þjónustu að halda verði að fara hreppaflutningum um langan veg og geti ekki eytt síðustu æviárunum í sinni heimabyggð. Það er óásættanlegt. Þess vegna er mjög brýnt að safna kröftunum saman um verulegt átak í þessum efnum. Þetta verður að vera eitt af forgangsverkefnum í þjónustu við aldraða og innan heilbrigðis- og félagskerfisins á næstu árum.

Að lokum verð ég að lýsa því yfir að ég er mjög ósáttur við og harma það að ekkert skuli vera að gerast í yfirfærslu málefna aldraðra til sveitarfélaganna. Það á að klára það verk (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að samþætta alla nærþjónustu við fólk (Forseti hringir.) í sinni heimabyggð á einni hendi, þ.e. hjá sveitarfélögunum.



[11:36]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa þörfu umræðu. Ég var líka spennt að heyra áherslur ráðherra, hvaða stefnu hann ætlar að taka í þessum málum. Þó að við séum að ræða hér sérstaklega framboð hjúkrunarrýma, sem sannarlega veitir ekki af að ræða af því að þjóðin eldist hratt og við þurfum að byggja upp, tek ég undir það hjá tveimur hv. þingmönnum sem hér hafa talað, Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Halldóru Mogensen, að einmitt af því að þjóðin er að eldast svo hratt held ég að við náum ekki að halda í við með uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir allt þetta fólk. Við verðum að hugsa aðeins út fyrir rammann og líka út frá vali einstaklinga.

Hvað getum við gert öðruvísi og betur? Ég nefni heimaþjónustu. Hún þarf að vera mun sveigjanlegri og eftir þörfum hvers og eins. Það er hræðilegt til þess að hugsa að til dæmis hjónum sé stíað í sundur þegar annað þarf að fara inn á hjúkrunarheimili ef hægt er að gera betur í heimaþjónustu. Um þetta þarf líka að hugsa.

Svo tek ég undir orð hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur um þann kostnað sem við erum þegar með. Hæstv. ráðherra verður tíðrætt um kostnaðinn sem er auðvitað mikill, en hvað erum við þegar að borga í óhagræði af því að aldraðir leggjast því miður inn á spítala af því að þeir komast ekki inn á hjúkrunarheimili? Þau úrræði eru mun dýrari. Hefur ráðherra gert greiningu eða úttekt á því hvað við mættum spara þarna með því að setja þá meiri peninga á móti í uppbyggingu hjúkrunarrýma?



[11:38]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ljóst er að fjölga þarf hjúkrunarrýmum fyrir aldraða um allt að 1.700 á næstu 15 árum og nemur kostnaðurinn vegna þessa um 54 milljörðum kr. Af þessum fjölda eru um 1.100 á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru staðreyndirnar sem hafa ekki verið ýkja áberandi í umræðunni enda ekkert sérstaklega vinsælt að ræða um málefni aldraðra, hóps sem gerir litlar kröfur og er aldrei hávær. Slíkir hópar eru sjaldnast ofarlega þegar kemur að forgangsröðun eða úthlutun fjármagns.

Miklar breytingar eru að verða á aldurssamsetningu þjóðarinnar á næstu áratugum. Þannig er gert ráð fyrir að fjöldi þeirra sem eru 67 ára eða eldri aukist um rúmlega 26 þúsund á næstu 15 árum, þ.e. um 71% frá því sem er í dag. Talið er að fjöldi þeirra sem eru 80 ára og eldri aukist um tæplega 6.600, um 55%. Þessar miklu breytingar kalla á aðrar og ólíkar áherslur í heilbrigðismálum þar sem huga þarf að þörfum þessa vaxandi hóps.

Flestar fjölskyldur þekkja þann vanda sem skapast þegar koma þarf öldruðum ættingjum í hjúkrunarrými. Að meðaltali eru um 250 manns á biðlista eftir slíkum rýmum og er meðalbiðtími hátt í fjórir mánuðir. Að óbreyttu mun þessi tími lengjast til muna. Niðurskurður undanfarinna ára á framlögum til heilbrigðismála hefur komið illa niður á öldruðum, þjónusta hefur verið skert og lyfjakostnaður aukist. Þessu verður að breyta og þessu er núverandi ríkisstjórn að breyta. Nauðsynlegt er að styrkja heimaþjónustu og stoðþjónustu til muna.

Flestir eru sammála um nauðsyn þess að veita aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið sem stendur frammi fyrir auknu álagi á næstu árum þar sem þjónustan verður ekki síst að taka mið af því að þjóðin er að eldast. Þá hefur rekstur hjúkrunarheimila verið erfiður og daggjöld of lág. Minni heimili hafa átt sérstaklega erfitt. Það þarf að marka skýra stefnu til framtíðar í þessum málaflokki. Hvernig ætlum við að taka á þeirri staðreynd að á næstu (Forseti hringir.) 15 árum muni þeim sem eru eldri en 76 ára fjölga um 71%, um 26 þúsund? (Forseti hringir.) Ætlar ríkið að standa sjálft að allri uppbyggingu hjúkrunarheimila (Forseti hringir.) og annarrar nauðsynlegrar þjónustu eða munu einkaaðilar taka að sér stærri hluta uppbyggingar en nú er? Við þurfum (Forseti hringir.) skýr svör við þeirri spurningu.



[11:41]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Einstaklingar í brýnni þörf fyrir hjúkrun hafa valið að óska eftir hjúkrunarheimili en við höfum ekki mætt þeirri þörf. Það væri frábært að geta boðið þessu fólki valfrelsi en eins og staðan er núna bjóðum við bara biðlista og þeir munu halda áfram að lengjast næstu 15 árin.

Eins og hv. þm. Karl Garðarsson bendir á er fjárfestingarþörfin í nýjum hjúkrunarrýmum næstu 15 árin nærri því sama upphæð og rannsóknar- og meðferðarkjarni á nýjum Landspítala sem við höfum ekki komið í verk á síðustu 15 árum að ráðast í. Það er þess vegna algerlega ljóst að þingið þarf að láta heilbrigðisráðherra í té fjármuni til mun meiri uppbyggingar en nú er. Það þarf líka að leggja áherslu á önnur úrræði og mér þykir miður að hlutir eins og heimahjúkrunarsamvinnan fyrir norðan, samvinna við sveitarfélög um að samþætta ólíka þjónustu, skuli ekki hafa haldið áfram eins og áður var og að við séum ekki að gera meira í þeim þætti. Ég vona að ráðherra komi betur inn á það hvernig við getum aukið gæði í þjónustunni vegna þess að gæði í sjálfri þjónustunni eru líka brýnt úrlausnarefni.

Ég skil hæstv. ráðherra þannig að áhersla hans sé á það að auka framboð fyrst og fremst í Reykjavík, á Árborgarsvæðinu og í Norðurþingi þar sem skórinn kreppir mest.

Ég spyr hæstv. ráðherra um hið stóra nýframkvæmdarverkefni á Sléttuvegi, hvort hann hyggist koma því verkefni af stað áður en kjörtímabilinu lýkur og hvort ekki sé nauðsynlegt að við sjáum innan ekki allt of langs tíma raunverulegar framkvæmdir fylgja þeim góðu orðum sem koma frá okkur stjórnmálamönnum úr öllum flokkum í þinginu.



[11:43]
heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún er á margan hátt mjög góð. Ég þakka sömuleiðis þann skilning sem þingmenn sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hafa sýnt málaflokknum. Það eru margvíslegar áskoranir í þessum efnum. Eitt af því sem ég vil hafa orð á í seinni ræðu minni er það sem snýr að þjónustu og réttindum fólks. Við erum með þá stöðu uppi núna að Sjúkratryggingar Íslands hafa það verkefni með höndum frá 1. janúar sl. samkvæmt lögum að vinna að þjónustusamningum við öldrunarstofnanir. Það verk er í undirbúningi. Það á að ganga út á að semja um réttindi fólks inni á heimilum. Hingað til er það alveg rétt sem komið hefur fram í umræðunni hjá nokkrum þingmönnum að þetta hefur verið of stofnanamiðað, að stofnanir líti svo á að þær eigi þær fjárveitingar í hendi sem Alþingi ákvarðar á fjárlögum hvers árs, þær eigi á þessu ári 27 milljarða en það séu ekki réttindi einstaklinga sem verið er að setja niður. Við þurfum að skýra þennan þátt.

Varðandi heimahjúkrun er afar áríðandi að við getum eflt samþættingu hennar og félagslegrar heimaþjónustu. Ég segi fullum fetum að þar eigum við að geta náð miklu meiri samlegð og ég er með þá umræðu í undirbúningi í ráðuneytinu að efna til samráðs við sveitarfélög um þátt heilsugæslunnar og félagslegrar heimaþjónustu.

Þegar spurt er um einstök verkefni hér, hvort þau komist til verka fyrir lok þessa kjörtímabils, ætla ég að á þessu ári munum við hefja undirbúning að framkvæmdaáætlun næstu að minnsta kosti fimm ára og það verði kynnt þegar þar að kemur. Ég vil ekki taka afstöðu til einstakra verkþátta eða verkefna eins og hér var kallað eftir heldur kemur það í ljós von bráðar hvaða verkefni verða sett af stað.