144. löggjafarþing — 73. fundur
 27. feb. 2015.
nauðungarsala, 2. umræða.
stjfrv., 573. mál (frestun nauðungarsölu). — Þskj. 995, nál. 1002.

[12:00]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá innanríkisráðuneyti til að fara yfir þetta mál. Hér er verið að leggja til að unnt verði að beiðni gerðarþola að fresta nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði í þeim tilvikum þar sem gerðarþoli hefur sótt um leiðréttingu fasteignaveðlána en bíður endanlegrar niðurstöðu umsóknarinnar annaðhvort hjá ríkisskattstjóra eða kærunefnd hafi ákvörðun ríkisskattstjóra verið kærð þangað.

Við meðferð frumvarpsins í nefndinni kom fram að mun lengri tíma hefði tekið að vinna úr umsóknum en upphaflega var gert ráð fyrir, en umsóknir 5 þús. einstaklinga eru enn óafgreiddar hjá ríkisskattstjóra. Þá hafa um 200 einstaklingar kært niðurstöðu sína til sérstakrar úrskurðarnefndar og endanleg niðurstaða í þeim málum liggur ekki fyrir.

Sú breyting er hér gerð á að skilyrði fyrir því að frestur verði veittur er að gerðarþoli sýni fram á að hann hafi sótt um leiðréttingu en bíði þeirrar niðurstöðu ríkisskattstjóra sem að framan var rædd. Frestunin á því ekki við ef gerðarþoli hefur fengið niðurstöðu ríkisskattstjóra en ekki samþykkt hana.

Tveir hv. þingmann í nefndinni gera fyrirvara, hv. þm. Guðbjartur Hannesson og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, en fyrirvarinn lýtur að því að það skorti á þau úrræði sem ríkisstjórnin var búin að boða, samanber lyklafrumvarpið o.fl. Einnig telja þessir hv. þingmenn nauðsynlegt að ná til þeirra hópa sem standa fyrir utan og gátu ekki sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir það skrifa sú sem hér stendur og hv. þingmenn Páll Valur Björnsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Guðbjartur Hannesson, með fyrirvara, og Birgitta Jónsdóttir, með fyrirvara.



[12:02]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég gerði fyrirvara við þessa afgreiðslu en ekki vegna þess að ég væri ósáttur við að þetta mál yrði afgreitt. Ég mun greiða fyrir framgangi þess og mun greiða því atkvæði að auki. Það er samt ástæða til að staldra aðeins við. Við erum ítrekað að framlengja þetta mál vegna þess að hægar hefur gengið en reiknað hafði verið með að vinna úr málum en líka vegna þess að mörg önnur mál sem hefur verið horft til við lausnir varðandi úrvinnslu á skuldavanda heimilanna hafa ekki litið dagsins ljós í þinginu.

Í morgun var í óundirbúnum fyrirspurnatíma rætt um lyklafrumvarpið, framkvæmdina á frumvarpi sem samþykkt var í sambandi við það að greiða fyrir því að fólk gæti óskað gjaldþrots, þ.e. fengið kostnaðinn greiddan við það. Framkvæmdin á því hefur þvælst fyrir og það má telja upp fleira, það eru í rauninni ekki komin nein leiguúrræði o.s.frv.

Fyrirvarinn lýtur fyrst og fremst að ábendingum hvað þetta varðar. Svo höfum við ekki fengið skýr svör um eitt sem var ekki tími til akkúrat í þessari úrvinnslu, það er einhver hópur sem ætlaði að sækja um en hefur einhverra hluta vegna orðið út undan og er ekki búið að úrskurða hvort hann fær tækifæri til að vera með. Þetta frumvarp er algjörlega skilyrt við það að viðkomandi séu með umsóknir um leiðréttinguna og hafi gengið frá því formlega.

Ég veit um einstakling sem sótti um í gegnum endurskoðunarskrifstofu eða fékk aðstoð við það en síðan kemur í ljós að frá því var ekki gengið. Ég hef ekki fengið staðfestingu á því að það verði þá leiðrétt. Auðvitað er þetta ekki auðvelt, þetta er vandmeðfarið, en það er dapurlegt ef þetta mun hindra einhverja aðila í að fá úrvinnslu eða réttara sagt forða þeim frá gjaldþroti ef leiðréttingin hefði dugað til þess.

Þetta kemur fram líka í ákvæði sem er á undan þessum fyrirvara okkar Birgittu, að í mati nefndarinnar almennt er mikilvægt að gæta samræmis og jafnræðis í þeim málum sem ekki hefur fengist niðurstaða í. Við erum að biðja um að reglurnar verði sem almennastar.