144. löggjafarþing — 74. fundur
 27. feb. 2015.
jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla, 1. umræða.
stjfrv., 562. mál (vörukaup og þjónusta, EES-reglur). — Þskj. 976.

[14:57]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum.

Þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru efnislega samhljóða ákvæðum annarra frumvarpa sem áður hafa verið lögð fram á Alþingi. Annars vegar er um að ræða frumvarp sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi 2012–2013 en frumvarpið hlaut ekki efnislega umfjöllun á því þingi. Hins vegar er um að ræða frumvarp sem lagt var fram á 143. löggjafarþingi 2013–2014 og var það samþykkt hvað varðar önnur efnisatriði en þau er varða efni tilskipunar ráðsins 2004/113/EB um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum og þjónustu, samanber nefndarálit allsherjar- og menntamálanefndar á þskj. 1096, 176. mál. Eftirlitsstofnun EFTA stefndi íslenskum stjórnvöldum fyrir EFTA-dómstólinn fyrir ætlað brot á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þar sem fyrrnefnd tilskipun hafði ekki verið að fullu innleidd hér á landi. EFTA-dómstóllinn kvað svo upp dóm í málinu 28. janúar sl. þar sem dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hefðu brotið gegn skuldbindingum sínum á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið þar sem þau höfðu ekki innleitt umrædda tilskipun.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem ég hef rakið hér að framan tel ég afar mikilvægt að frumvarp þetta fái skjóta en jafnframt vandaða afgreiðslu á þingi. Í frumvarpinu er lagt til að innleitt verði hér á landi efni umræddrar tilskipunar um beitingu meginreglunnar um jafna meðferð kvenna og karla að því er varðar aðgang að og afhendingu á vöru og þjónustu, en tilskipunin hefur verið felld undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Í tilskipuninni er að finna ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns að því er varðar aðgang að og afhendingu á vörum sem og aðgang að og veitingu þjónustu með það að markmiði að koma meginreglunni um jafna meðferð kvenna og karla í framkvæmd.

Í frumvarpinu er lagt til að umrædd tilskipun verði innleidd með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í því sambandi vil ég geta þess sérstaklega að við gerð frumvarpsins var skoðað í samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hvort færi betur að innleiða tilskipunina með breytingu á lögum um vátryggingarsamninga eða lögum um vátryggingastarfsemi en niðurstaðan varð að innleiða bæri tilskipunina með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnframt ber að geta þess að þegar hafa ýmis önnur ákvæði tilskipunarinnar en þau sem hér um ræðir verið innleidd með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla bætist sérstakt ákvæði sem kveði á um bann við mismunun á grundvelli kyns að því er varðar aðgang að eða afhendingu á vörum sem og aðgang að eða veitingu þjónustu, en geta má þess að sérákvæði gilda á sambærilegan hátt um bann við mismunun á grundvelli kyns hvað varðar laun og önnur kjör sem og í starfi og við ráðningu, samanber 25. og 26. gr. laganna.

Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns að því er varðar aðgang að eða afhendingu á vöru annars vegar sem og aðgang að eða veitingu þjónustu hins vegar með það fyrir augum að framfylgja meginreglunni um jafna meðferð kvenna og karla. Samkvæmt meginreglunni er gert ráð fyrir að aðgangur að eða afhending vöru annars vegar og aðgangur að eða veiting þjónustu hins vegar sé ekki hagstæðara fyrir annað kynið.

Virðulegi forseti. Ég legg sérstaka áherslu á að frumvarpinu er ekki ætlað að takmarka samningsfrelsi manna almennt. Aðili sem býður vörur eða veitir þjónustu kann að hafa margar huglægar ástæður fyrir vali sínu á samningsaðila. Kemur frumvarpið þannig ekki í veg fyrir að aðilum verði frjálst að velja sér samningsaðila svo lengi sem valið byggist ekki eingöngu á kyni viðsemjandans.

Gert er ráð fyrir að bann við mismunun samkvæmt frumvarpinu skuli gilda um alla aðila sem útvega vörur og veita þjónustu sem býðst almenningi á almennum markaði sem og á opinberum markaði, þar með talið opinbera aðila. Fram kemur í frumvarpinu að með hugtakinu „vörur“ er átt við framleiðsluvörur í skilningi ákvæða stofnsáttmála Evrópusambandsins að því er varðar frjálsa vöruflutninga, samanber einnig 8. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Með hugtakinu „þjónusta“ er hins vegar átt við þjónustu sem að jafnaði er veitt gegn þóknun að því leyti sem hún lýtur ekki ákvæðum um frjálsa vöruflutninga, frjálsa fjármagnsflutninga og frjálsa fólksflutninga.

Í athugasemdum með frumvarpinu er tekið fram að af dómafordæmum Evrópudómstólsins megi ráða að undir þjónustu geti fallið hvers konar atvinnustarfsemi sem feli í sér veitingu þjónustu gegn endurgjaldi. Ekki virðist skipta máli hvaða fyrirkomulag er á slíku endurgjaldi eða hver það er sem reiðir endurgjaldið af hendi. Þannig er ekki gert að skilyrði að sá sem njóti þjónustunnar greiði fyrir hana.

Ég legg líka sérstaka áherslu á að í samræmi við 3. gr. þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir er þó ekki gert ráð fyrir að frumvarp þetta eigi við um viðskiptasvið fjölskyldu- og/eða einkalífs eða um málefni í tengslum við störf á vinnumarkaði. Dæmi um viðskipti á sviði fjölskyldu- og/eða einkalífs gæti verið þegar einstaklingur leigir herbergi inni á heimili þar sem leigusali býr sjálfur, en ákvæðum frumvarpsins er ekki ætlað að ná yfir slík tilvik.

Til frekari skýringar vil ég jafnframt geta þess að ekki er gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins gildi um tryggingar sem tengjast störfum á vinnumarkaðnum, hvort sem þær eru lögbundnar eða ekki. Sem dæmi um slíkar tryggingar má nefna svokallaðar launþegatryggingar eða starfsábyrgðartryggingar tiltekinna starfsstétta, svo sem lækna og lögmanna.

Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið útiloki mismunandi meðferð á grundvelli kyns ef lögmæt markmið réttlæta að aðgangur að eða afhending á vöru annars vegar og aðgangur að eða veiting þjónustu hins vegar bjóðist eingöngu einstaklingum af öðru kyninu ef aðferðirnar til að ná fyrrnefndu markmiði eru viðeigandi og nauðsynlegar. Sem dæmi um þetta má nefna þau lögmætu markmið sem liggja að baki þegar athvarfi er komið á fót sem ætlað er öðru kyninu til verndar þolendum ofbeldis.

Tekið er fram í athugasemdum með frumvarpinu að það gæti réttlætt mismunandi meðferð á grundvelli kyns ef það stuðlar að kynjajafnrétti eða bættum hagsmunum annars kynsins, t.d. þegar um er að ræða sjálfboðaliðasamtök sem ætluð eru öðru kyninu eða þegar aðild að einkafélögum væri bundin við annað kynið. Þó er gert ráð fyrir að allar slíkar takmarkanir skuli vera viðeigandi, málefnalegar og nauðsynlegar.

Rétt er að geta þess að öll aðildarríki að Evrópska efnahagssvæðinu, að Íslandi undanskildu, hafa innleitt efni umræddrar tilskipunar, þar á meðal öll önnur Norðurlönd en Ísland. Nokkur reynsla er því komin á framkvæmd hennar í öðrum ríkjum, en í athugasemdum með frumvarpinu er bent á hvar nálgast megi sérstaka skýrslu sem gerð hefur verið um reynslu annarra þjóða í tengslum við innleiðingu umræddrar tilskipunar.

Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, með síðari breytingum, á 143. löggjafarþingi sem ég nefndi áðan, kom meðal annars fram að nefndinni þætti rétt að fresta innleiðingu á umræddri tilskipun þar til nefndin hefði fengið tækifæri til að kynna sér efni framangreindrar skýrslu í þeim tilgangi að átta sig á umfangi efnis tilskipunarinnar og þar með frumvarpsins. Í athugasemdum með frumvarpi því sem hér er lagt fram eru rakin nokkur dæmi úr skýrslunni í þeim tilgangi að skýra efni frumvarpsins nánar. Ég mun því ekki fara nánar út í þau en hvet þingmenn til að kynna sér þau dæmi sem þar eru rakin sem og efni skýrslunnar í því skyni að fá betri yfirsýn yfir efni frumvarpsins og þær breytingar sem frumvarpið mun hafa í för með sér hér á landi verði það óbreytt að lögum.

Virðulegi forseti. Í því skyni að innleiða að fullu efni fyrrnefndrar tilskipunar hér á landi er í frumvarpinu lagt til bann við því að nota kyn viðskiptavina sem stuðul við útreikninga í tengslum við ákvörðun um iðgjald eða við ákvörðun um bótafjárhæðir vegna vátryggingarsamnings eða samkvæmt annarri skyldri fjármálaþjónustu sem leiði til mismunandi iðgjalda eða bótafjárhæða fyrir einstaklinga.

Hér á landi hefur verið horft til kyns sem áhrifaþáttar í áhættumati í vátryggingastarfsemi og annarri fjármálaþjónustu. Að mínu mati má því leiða að því líkur að þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir muni í einhverjum tilvikum hafa áhrif á ákvörðun tryggingafélaga um iðgjöld vegna vátrygginga, svo sem líf- og sjúkdómatrygginga.

Meðal annars í því skyni að veita vátryggingafélögum svigrúm til að bregðast við þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir á þá starfsemi sem þar fer fram sem og svigrúm til að kynna þær fyrir viðskiptavinum sínum er lagt til að frumvarpið taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 2015. Einhverjum kynni samt að þykja þetta skammur fyrirvari og tel ég eðlilegt að nefndin fari þá yfir það. Hins vegar má benda á að hér er verið að leggja þetta frumvarp fram í þriðja sinn og það er búið að innleiða þessar reglur á öllu Evrópska efnahagssvæðinu fyrir utan Ísland þannig að tryggingafélögum ætti að vera vel kunnugt um að þetta standi fyrir dyrum, þ.e. að ætlunin hafi verið að lögleiða þetta.

Til að komast hins vegar hjá skyndilegum breytingum á markaði er jafnframt lagt til að ákvæði frumvarpsins gildi einungis um nýja samninga í tengslum við aðgang að eða afhendingu á vöru annars vegar og aðgang að eða veitingu þjónustu hins vegar sem gerðar verða 1. júlí 2015 eða síðar. Að sjálfsögðu er því ekki gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins hafi afturvirk áhrif og því munu eldri samningar halda gildi sínu þrátt fyrir að frumvarpið verði að lögum.

Ég hef nú í stuttu máli rakið efni frumvarpsins sem hér er lagt fram og ætla má að verði það óbreytt að lögum muni það leiða til jafnari stöðu kynjanna á tilteknum sviðum ásamt því að auka réttarvernd beggja kynja á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Einnig er vert að geta þess að fram kemur í kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem fylgir með frumvarpinu að verði frumvarpið lögfest í núverandi mynd verði ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Hvað varðar samráð við ýmsa aðila við samningu frumvarpsins vísa ég til þess sem fram kemur í almennum athugasemdum við það.

Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar sem fer með jafnréttismálin.



[15:07]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig á því að hæstv. ráðherra hefur ekki verið að semja þetta að gamni sínu heldur er hér um að ræða tilskipun sem við þurfum væntanlega að framfylgja með einhverjum hætti út af samningnum við Evrópska efnahagssvæðið. Bara til að ég skilji nákvæmlega hvað hér er á ferðinni, ég hef aðeins fylgst með þessu máli og hlustaði á ræðu hæstv. ráðherra, langar mig að velta nokkru upp. Á líftryggingarsamningum og sjúkdómatryggingarsamningum er tekið mið af ákveðnum tryggingafræðilegum forsendum sem byggjast fyrst og fremst á kyni og aldri. Alla jafna hagnast konurnar á því vegna þess að þær lifa lengur. Ef ég skil þetta rétt verður að vera sama iðgjald, hvort sem það er karl eða kona, sem er auðvitað fullkomlega út í hött, en allt í góðu lagi. Ég vil bara fá það staðfest. Er það svo? Ég velti fyrir sér hvort þá sé eitthvað næst, hvort megi ekki lengur mismuna fólki eftir aldri. Eðli máls samkvæmt eru meiri líkur á því að ungt fólk lifi lengur en það eldra. Þess vegna greiðir ungt fólk mun lægra iðgjald en þeir sem eldri eru, alveg eins og konur greiða lægra iðgjald en karlar. Það væri gott að fá það á hreint af því að ég held að það skipti máli að fólk viti hvort þetta sé hugsunin.

Ég veit ekki hvort það er aðgangur að vöru, þjónustu eða öðru slíku en ég spyr: Getur til dæmis hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason gengið í kvenfélag ef þetta fer í gegn og það er ekki hægt að loka þeim félögum? Ég tek bara dæmi af handahófi af því að hv. þingmaður er beint fyrir framan mig og stendur við hliðina á (Forseti hringir.) ráðherranum.



[15:10]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins er farið í gegnum forsendur dóms Evrópudómstólsins frá 1. mars 2011 í svokölluðu Test-Achats-máli sem fjallar um notkun á kynjabreytu í tryggingastærðfræðilegum útreikningi. Það er sem sagt gert ráð fyrir að slíkt verði áfram heimilt í útreikningi á iðgjöldum eða á bótafjárhæðum svo framarlega sem það komi ekki fram í mismunandi iðgjöldum eða bótafjárhæðum fyrir einstaklinga á grundvelli kyns. Þannig er áfram heimilt að safna, geyma og styðjast við kyn eða kyntengdar upplýsingar sem leiða ekki til mismununar á grundvelli kyns. Þannig verður vátryggingafélögum áfram heimilt að nota kynjabreytur við útreikning á innra áhættumati, einkum útreikning vátryggingarskuldar í samræmi við gjaldþolsreglur á sviði vátrygginga, svo sem að fylgjast með kynjasamsetningu viðskiptavina sinna í tryggingastærðfræðilegum útreikningum til grundvallar verðlagningu. Þessi setning er nánast jafn flókin og tryggingastærðfræðilegur útreikningur í sjálfu sér. Í leiðbeiningunum sem komu fram í framhaldi af þessum dómi kemur fram að stundum þarf að taka mið af kynferði í ljósi tiltekins lífeðlisfræðilegs munar á körlum og konum. Varðandi hins vegar líf- og heilsutryggingar geta iðgjöld og bætur tveggja einstaklinga vegna sams konar vátryggingarsamnings ekki verið mismunandi einungis vegna þess að þeir eru ekki af sama kyni. Hins vegar getur verið um að ræða aðra áhættuþætti sem geta leitt til mismununar, t.d. heilsufar eða fjölskyldusaga, og til að geta lagt mat á það kann að þurfa að taka mið af kynferði í ljósi tiltekins lífeðlisfræðilegs munar á körlum og konum. Ef það er til dæmis fjölskyldusaga um brjóstakrabbamein mundi það að sjálfsögðu ekki hafa sömu áhrif á heilbrigðisáhættu karls og konu og þar af leiðandi mat á áhættu. Það voru líka nefnd önnur dæmi um krabbamein í blöðruhálskirtli, brjóstum eða legi.

Síðan er líka alveg skýrt í ákvæðunum hérna að það er ekki heimilt að (Forseti hringir.) leggja kostnað vegna meðgöngu og fæðingar eingöngu á konur. Það er verið að banna mismunun á grundvelli þess.



[15:12]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. ráðherra fer yfir hljómar þetta frumvarp eins og fullkomin þvæla, engum til gagns. Það er ekki skrýtið að almenningur í Evrópusambandslöndunum sé orðinn ansi þreyttur á því tollabandalagi sem hefur vaxið hressilega. Það er alveg gersamlega út í hött að búa til sérstakar reglur til að koma í veg fyrir að konur greiði lægra iðgjald fyrir líf- og sjúkdómatryggingar vegna þess að þær eru konur. Það er fullkomlega út í hött. Engin málefnaleg rök mæla með því. Þegar það er flækt enn frekar með því að benda á hið augljósa, að heilsufarsupplýsingarnar megi enn leggja til grundvallar og þar megi taka tillit til þess að viðkomandi kona sé kona og viðkomandi karl sé karl, gæti einhver spurt hvort fólk hafi ekkert þarfara að gera. Hér er verið að taka á máli sem er ekkert vandamál og hefur ekki verið það. Það er verið að búa til vandamál. Það er ömurlegt að við þurfum að sitja uppi með þetta. Ef einhverjir ESB-naívistar halda að við hefðum getað breytt þessu með því að vera í ESB, með fimm þingmenn af 750, vil ég fullyrða að ef maður ætlar á annað borð að fara út í þetta hefðu fimm íslenskir þingmenn á Evrópuþinginu ekki getað stöðvað þennan óskapnað.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er ágætt að vita af þessu. Ég spurði af því að mér fannst þetta skrýtna frumvarp hljóma eins og það væri verið að banna hluti eins og að vera í kvenfélögum eða karlaklúbbum. Ég vildi bara fá svar við því. Svo er kannski líka spurningin með herraklippingu og konuklippingu, hvort það þurfi að vera með sama verð, hvort ekki megi taka (Forseti hringir.) tillit til þess. Það væri gott að fá svör við þeim tveimur spurningum.



[15:14]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég tiltók í upphafi máls míns varðar þetta frumvarp vöru og þjónustu sem er verið að selja og veita og á að tryggja að ekki sé mismunað á grundvelli kyns. Ég hef ekki vitað til þess að hin ýmsu félög selji sérstaklega einhverja þjónustu. Hins vegar vil ég benda á ákveðin dæmi, eins og ég sagði líka frá, í skýrslu Equinet um framkvæmd tilskipunar. Þar er bent á dæmi sem snerta bæði konur og karla. Í Rúmeníu eru dæmi um að ekki hafi verið hægt að leggja börn inn á sjúkrahús í fylgd feðra sinna þar sem ekki var gert ráð fyrir að karlar fylgdu börnunum sínum. Þarna voru 11 kvartanir og niðurstaðan varð að þetta væri bein mismunun gagnvart feðrunum í flestum málanna. Svo er dæmi um annað sem við höfum að vísu lagfært, en í íslenskri framkvæmd tíðkaðist lengi vel að skattframtöl hjóna væru eingöngu stíluð á karlinn. Við breyttum því 1998 þannig að skattframtöl eru ávallt stíluð á þann framteljanda sem er eldri þegar tveir einstaklingar eru samskattaðir.

Annað dæmi snýr að klippingunni eins og hv. þingmaður spurði út í sem mér sýnist vera finnskt dæmi. Þar er réttlætanlegt að bjóða upp á mismunandi verð á klippingum á þeim grundvelli að það þurfi til ákveðna sérþekkingu, efni eða tækjaval, og tíminn sem færi í klippinguna væri sem sagt með öðrum hætti, en ekki bara það að ráðherra sé kona eða þingmaðurinn karl. (Gripið fram í.)



[15:16]
Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í einni af skáldsögum Halldórs Laxness er fjallað um rakarafrumvarpið. Þetta frumvarp minnir mig að nokkru leyti á það, þar urðu deilur um rakstur og opnunartíma, en ég velti upp sömu spurningum. Hér er verið að ræða um verðlagningu á vöru og þjónustu og það er því miður staðreynd að ýmsar breytistærðir eru misjafnar milli karla og kvenna þannig að um eiginlega mismunun á grundvelli kyns er ekki að ræða. Hér er um að ræða vöru og þjónustu. Félagi minn, hv. þm. Guðlaugur Þór, hefur fjallað ítarlega um vátryggingar og rakara. Ég spyr því ráðherra: Af hverju er þetta frumvarp ekki sent til efnahags- og viðskiptanefndar? Þetta fjallar um verðlagningu á vöru og þjónustu. Er ekki eðlilegt að frumvarp sem fjallar um þessa þætti, vöru og þjónustu, fari þangað, frumvarp um verðlagningu?

Ég hef lokið máli mínu að sinni.



[15:18]
félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli mínu skoðaði velferðarrráðuneytið það ásamt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hvort rétt væri að setja þetta undir ákvæði laga sem falla undir viðkomandi ráðuneyti. Þá hefði mátt velta fyrir sér, ef það hefði orðið niðurstaðan, hvort það hefði getað farið til efnahags- og viðskiptanefndar eða hugsanlega til atvinnuveganefndar. Niðurstaðan varð hins vegar sú að setja þetta undir þessi lög og samkvæmt því hvernig verkum hefur verið skipt á milli nefnda í þinginu er allsherjar- og menntamálanefnd með jafnréttismálin.

Síðan vil ég líka benda hv. þingmanni, eins og ég gerði aðeins fyrr í máli mínu, á bls. 4, 5 og 6 þar sem farið er í gegnum mismunandi mál sem hafa komið upp. Fólk hefur leitað réttar síns á grundvelli þessarar tilskipunar vegna mála á sviði tryggingamála og fjármálaþjónustu, veitingar heilbrigðisþjónustu, aðgangs að hótelum, veitingastöðum og líkamsræktarstöðvum, álagningar skatta, húsnæðismála og aðgangs að almenningssamgöngum, menntun og fjölmiðlum. Hins vegar hafa ekki mörg mál komið til kasta Evrópudómstólsins eða EFTA-dómstólsins þar sem ágreiningur hefur grundvallast á túlkun á ákvæðum tilskipunarinnar.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.