144. löggjafarþing — 78. fundur
 5. mars 2015.
sérstök umræða.

efling veikra byggða.

[11:07]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tel það vera mjög brýnt að við ræðum hér á Alþingi vanda veikra byggða, atvinnuöryggi fólks í minni sjávarbyggðum og möguleika á að festa varanlegar aflaheimildir við sjávarpláss sem skilgreind hafa verið sem brothættar byggðir. Í vikunni lagði ég fram þingsályktunartillögu um eflingu brothættra byggða ásamt þeim hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Steinunni Þóru Árnadóttur. Lagt er til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði falið að vinna að framtíðarstefnumörkun um eflingu brothættra byggða í samráði við Byggðastofnun og aðra hagsmunaaðila. Gagnvart minni sjávarbyggðum verði meðal annars lögð til grundvallar byggðafesta aflaheimilda og einnig skoðað hvaða stuðningsúrræðum best er að beita svo auka megi vöxt og stöðugleika í veikum byggðum þar sem landbúnaður, matvælaframleiðsla og ferðaþjónusta eru grunnur byggðanna. Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir því að ráðherra leggi fram sérstaka aðgerðaáætlun um eflingu brothættra byggða í fyrsta sinn næstkomandi haust og sé hún síðan samþætt áherslum stjórnvalda í byggðamálum.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum sá mikli vandi sem fjöldi minni sjávarbyggða hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár þegar þær hafa misst frá sér aflaheimildir og óvissa og atvinnuleysi blasir við íbúum. Við getum farið hringinn í kringum landið og horft til staða eins og Raufarhafnar, Breiðdalsvíkur, Djúpavogs, Bíldudals, Tálknafjarðar, Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar og nú síðast bárust þær fréttir frá Hólmavík að hugsanlega yrði helmingur aflaheimilda Strandabyggðar seldur burtu. Slíkt óöryggi er ólíðandi og hefur áhrif á allt samfélagið, verðfellir eignir og grefur undan tiltrú fólks á sitt samfélag þar sem það hefur fjárfest og byggt upp sitt heimili og vill geta haldið áfram að búa en við sjálfsagt og eðlilegt búsetuöryggi. Sveitirnar glíma víða við viðvarandi fólksfækkun og lágar tekjur og verður að leita annarra leiða þar til að efla byggðir.

En veikar byggðir bæði til sjávar og sveita eiga það sameiginlegt að bregðast verður strax við og senda skýr skilaboð til íbúanna um að stjórnvöld ætli að sýna vilja í verki svo treysta megi grundvöll þeirra. Það er hægt að gera með ýmsum hætti ásamt því að byggðafesta aflaheimildir. Þar má nefna aukin tækifæri til menntunar, fjarvinnslu og fjarnáms, fjárfestingu í innviðum, styrkja nýfjárfestingar, ívilnanir fyrir smærri rekstur og byggja upp innviðina í ferðaþjónustunni svo eitthvað sé nefnt.

Verkefnið Brothættar byggðir sem unnið var af Byggðastofnun og hófst árið 2012 á Raufarhöfn og árið eftir einnig í Skaftárhreppi, Breiðdalshreppi og á Bíldudal hefur sýnt og sannað að sú hugmyndafræði að vinna með heimamönnum að eflingu byggða með stuðningi frá stjórnvöldum er árangursrík leið og mikilvæg til að vinna áfram með og byggja ofan á.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftirfarandi spurninga:

Telur hæstv. ráðherra rétt að unnin sé framtíðarstefnumörkun um eflingu brothættra byggða?

Telur hæstv. ráðherra að byggðafesta eigi aflaheimildir með einhverjum hætti svo stuðla megi að tryggara atvinnuöryggi minni sjávarbyggða sem flokkast undir brothættar byggðir og misst hafa frá sér varanlegar aflaheimildir?

Telur hæstv. ráðherra að verkefnið Brothættar byggðir sem hófst árið 2012 hafi skilað árangri og þá hverjum helst? Og hvernig telur hann rétt að vinna með það áfram?

Með hvaða hætti telur hæstv. ráðherra að efla megi stuðning við aðrar brothættar byggðir þar sem sjávarútvegur er ekki til staðar og landbúnaður eða ferðaþjónusta eða önnur atvinnustarfsemi er meginstarfsemin?

Í lokin vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann telji að skjóta megi fleiri stoðum undir byggðir sem fyrst og fremst hafa byggst á sjávarútvegi og landbúnaði og standa nú veikt.

Ég tel að við þurfum að senda íbúum veikra byggða mjög skýr skilaboð frá Alþingi. Það er óviðunandi að íbúar þessara staða búi frá ári til árs við það óöryggi að vita ekki hvort það verði atvinna áfram, hvort þeir þurfi að flytja burt með fjölskylduna og rífa sig upp og fara frá eignum sínum eins og blasir við víða. Nýjustu dæmin eru Þingeyri og Flateyri þar sem mikið óvissuástand er enn þá. Þetta fólk hefur borgað sína skatta og staðið undir sínum skyldum gagnvart samfélaginu. Það verður að horfa til þess að þetta eru ekki annars flokks íbúar, þetta eru íbúar sem eiga það inni hjá okkar samfélagi að stjórnvöld ákveði: Eiga þessar byggðir að lifa? Ef svo er ekki (Forseti hringir.) þá er réttara að það komi skýrt fram.



[11:13]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að hv. fyrirspyrjandi deilir skoðunum með mér og fleirum. Eins og kemur fram í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017 sem samþykkt var hér sl. vor var sérstaklega fjallað um sérstakar aðgerðir á varnarsvæðum. Þar er sagt um brothætt byggðarlög, sem þá voru skilgreind sérstaklega, að það hefði verið yfirmarkmið að stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og sveitum landsins. Byggðastofnun hefur unnið á grundvelli þeirrar stefnumótunar að útfærslu á þessu verkefni, Brothættar byggðir. Það nær nú til fjögurra byggðarlaga en hugsanlega fjölgar í þeim hópi á þessu ári þó að ekki sé komin endanleg niðurstaða um fjölda þátttakenda. Verkefnið Brothættar byggðir hófst árið 2012 og innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hefur verið unnið að endurmati á verkefninu með hliðsjón af þeim árangri sem hefur náðst og þeirri reynslu sem hefur safnast. Meðal þeirra atriða sem þarf að skoða er hvaða hlutlægu mælikvarða eigi að leggja til grundvallar á skilgreiningu Brothættra byggða, til hvers konar verkefna sérstökum fjárveitingum skuli ráðstafað. Þannig má segja að þótt meginmarkmiðin liggi fyrir og séu ljós þurfi að skerpa á útfærslunni og útbúa skýrar verklagsreglur. Það er þó umhugsunarvert í þessu efni að þótt vandamálin séu oft lík frá einu byggðarlagi til annars getur þurft sértækar aðgerðir til að leysa mál. Of stífar almennar reglur geta komið í veg fyrir nauðsynlegan sveigjanleika.

Varðandi byggðafestu aflaheimilda er það þannig að innan fiskveiðistjórnarkerfisins eru um 5,3% af aflamarki í byggðatengdum verkefnum. Þetta eru almenni byggðakvótinn, aflamark Byggðastofnunar, strandveiðar, línuívilnun, skel- og rækjubætur og þorskeldi. Segja má að nokkur sátt hafi skapast um að þetta sé ásættanlegt hlutfall af heildarmarkinu. Hins vegar skiptir miklu máli að ráðstöfun þessa hlutar sé í stöðugri endurskoðun svo okkur takist sem best að ná þeim markmiðum sem stefnt er að. Nýlega lét ráðuneytið vinna úttekt á reynslu með aflamarki Byggðastofnunar og sýndi sú úttekt að þetta kerfi hefur skilað tilætluðum árangri. Næstu skref, sem eru einnig í undirbúningi, eru að láta framkvæma sams konar úttekt á hinum kerfunum fjórum og í framhaldi af því að taka ákvörðun um hvernig þau geti best þróast á næstunni.

Ég vil í þessu sambandi benda á að tvö sjónarmið vegast þar á þegar talað er um byggðatengingu kvóta, það fyrra með því að ákveðnum arðsemissjónarmiðum sé fórnað, þ.e. ekki er verið að veiða og vinna fisk með eins hagkvæmum hætti og gæti verið. Á móti því sjónarmiði er að sjálfsögðu það að oft getur tiltölulega lítill kvóti tryggt atvinnu og byggðafestu á ákveðnum svæðum. Þá vil ég einnig geta þess að hugsanlega væri hentugra að gera kröfu um að þessi afli verði unninn í heimabyggð en sú krafa er ekki fyrir hendi í dag.

Varðandi verkefnið Brothættar byggðir, hvernig það hafi gengið, þá fór það af stað 2012, eins og kom fram áðan, á Raufarhöfn, í Bíldudal, Breiðdalshreppi og Skaftárhreppi og búið er að gera úttekt á því verkefni í samstarfi við ráðgjafarstofuna Ernst & Young. Niðurstaðna er að vænta á næstu vikum en miðað við þær áfanganiðurstöður sem hafa verið kynntar innan ráðuneytisins er um ótvíræðan árangur að ræða af verkefninu. Hann er mismikill á milli svæða og í framhaldinu þarf að skoða hvaða þættir ráða þar úrslitum, af hverju gengur vel sums staðar en annars staðar verr. Í þessu samhengi er líka mikilvægt að hafa í huga að fjárveitingar til Brothættra byggða hafa einungis numið um 50 millj. kr. á undanförnum árum en eru þó 100 millj. kr. í ár. Jafnvel þó að það sé tekið með er þetta engu að síður enn lítið verkefni.

Varðandi það hvernig hægt sé að efla stuðning við aðrar brothættar byggðir þar sem ekki er einungis sjávarútvegur er fækkun íbúa í sveitum landsins ein af stóru áskorununum í byggðamálum hérlendis. Ljóst er að fækkunin er knúin af kröftum sem eru í sjálfu sér jákvæðir, þ.e. framleiðniaukning er í landbúnaði, það er einn þátturinn, en því miður er það svo í mörgum tilvikum að ekki koma ný tækifæri í stað þeirra sem hverfa. Það er því mjög miður að með þessu móti þynnast sveitir landsins og víða eru að skapast alvarleg vandamál við að halda úti grunnþjónustu á við grunn- og leikskóla.

Verkefnið á borð við Brothættar byggðir getur nýst við að greina vandann og gengið vel sem slíkt og náð fram sjónarmiðum íbúanna, en til að taka á vandanum er líklegra að við þurfum að beita stuðningskerfi landbúnaðarins með sama hætti og við beitum kvótakerfinu þegar um er að ræða sjávarbyggðir. Þannig þarf að stórauka framlög til nýsköpunar og atvinnuþróunar í sveitum í gegnum Framleiðnisjóð eða sambærilegan farveg. Ég vek athygli á að í fiskveiðistjórnarkerfinu eru svokallaðar félagslegar mótvægisaðgerðir, þessi 5,3% sem við vorum að nefna. Ef við tækjum sambærilegan hluta af heildarstuðningi í landbúnaði væru það um 750 milljónir á ári sem við nýttum til búháttabreytinga eða annarrar nýsköpunar í sveitunum.

Að sama skapi mun og getur Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitt stuðning til verkefna sem eflt geta ferðaþjónustu í dreifbýli og má meðal annars finna dæmi um slíkt innan verkefnisins Brothættra byggða.

Ég er sammála þingmanninum í því að mikilvægt er að styrkja innviði kerfanna, byggja upp vinnusóknarsvæði. Eitt stærsta verkefnið sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna að þessa dagana er ljósleiðaravæðingin sem (Forseti hringir.) mun gjörbreyta allri aðstöðu íbúa til fjarnáms, fjarkennslu og fjarvinnu svo dæmi séu tekin.



[11:18]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir að hefja umræðu um brothættar byggðir og þá stöðu sem er í byggðamálum almennt. Það var athyglisvert að sjá að þegar auglýst var eftir umsóknum um að taka þátt í þessu verkefni á síðastliðnu hausti bárust tíu umsóknir. Ég held að það sé rétt sem nú þegar hefur komið fram í umræðunni, bæði hjá málshefjanda og hæstv. ráðherra, að það skiptir gríðarlegu máli að við tökum sameiginlega á þessu verkefni. Það þarf að gefa skýr skilaboð, eins og hv. þingmaður orðaði það, og við þurfum að hafa það í huga að gefa jöfn tækifæri og skapa jafnræði á milli svæða. Ef við vöndum okkur vel er ekki ágreiningur um þessi mál, það er bara spurningin um að við einhendum okkur í þetta. Samfylkingin skilaði þingsályktunartillögu í byrjun þessa þings þar sem fjallað var um byggðamálin og að byggja ætti á sóknaráætlunum, en það er það sama og ráðherra leggur til nú. Talað er um samgöngurnar sem eru forsenda þess að jöfn aðstaða sé á svæðunum, vegaframkvæmdir og almenningssamgöngur. Talað er um að veiðileyfagjöldin renni að hluta til til sjávarbyggða og byggðakvóti í brothættar byggðir verði aukinn. Orðið getur ágreiningur um hinn félagslega hluta, hversu stór hann á að vera. Talað er um rammalöggjöf um ívilnandi samninga í fjárfestingum, m.a. í nýsköpun og þróun úti á landsbyggðinni. Talað er um jöfnun húshitunarkostnaðar og dreifingu á rafmagni. Talað er um hlutdeild í tekjum af ferðamönnum til þess að nota til uppbyggingar á öllum þessum svæðum. Talað er um rafmagnsöryggi, þ.e. dreifikerfi raforku. Talað er um húsnæðismálin, þar með leiguhúsnæði, fjarskipti og háhraðanettengingarnar, jöfnun á flutningskostnaði og aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu. Getum við ekki sameinast um það og farið í þá vinnu? Það þarf pening til þess og það þarf forgangsröðun til að breyta þessu.

Við getum bætt við hér að þá mega menn heldur ekki fækka nemendum í framhaldsskólum og veikja byggðirnar enn frekar. Við getum líka náð þessum svæðistengingum á veiðiheimildum í gegnum kvótaþing. Ég styð þá hugmynd að menn skoði það vegna þess að það er óþolandi að hér sé hægt að grafa undan atvinnulífinu með einni ákvörðun varðandi kvóta.

Við í Samfylkingunni erum reiðubúin að styðja ríkisstjórnina til að verja byggðir og bæta skilyrði til búsetu, jafna stöðu (Forseti hringir.) byggðanna, en við viljum almennar leikreglur (Forseti hringir.) sem gefa tækifæri til að breyta vörn (Forseti hringir.) í sókn en ekki ölmusuaðgerðir (Forseti hringir.) fyrir landsbyggðina.



[11:21]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Á síðasta kjörtímabili efndi þáverandi ríkisstjórn til víðtæks samráðs undir forustu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar. Markmiðið með því samráði var að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og samþætta áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðaáætlunum, auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og ýmissa vaxtarsamninga.

Verkefnið studdi þjóðfund Mauraþúfunnar í Laugardalshöll þar sem 1231 þátttakandi af öllu landinu tók þátt í að draga fram gildi, þemu og framtíðarsýn þjóðarinnar. Þjóðfundurinn var fyrirmynd átta þjóðfunda sem haldnir voru á vegum 20/20 sóknaráætlunar um land allt. Hluti af mótun framtíðarsýnarinnar var að móta atvinnustefnu til framtíðar. Í því skyni var sérstakur verkefnishópur stofnaður, skipaður fulltrúum tilnefndum af aðilum stöðugleikasáttmálans, fulltrúum allra þingflokka og formönnum Vísinda- og tækniráðs. Eitt af meginmarkmiðum þessa samráðsverkefnis var að Ísland skipaði sér í hóp tíu samkeppnishæfustu þjóða heimsins árið 2020.

Eins og fram kemur á vef forsætisráðuneytisins voru vinnubrögð og verklag sóknaráætlunar 20/20 sótt til áðurnefnds þjóðfundar. Gildi hans, heiðarleiki, réttlæti og virðing, voru lögð til grundvallar öllu starfi á vegum verkefnisins þar sem lýðræðisleg nálgun á verkefnið skipti öllu máli. Hver landshluti, hver ríkisstofnun, hvert sveitarfélag, hver vinnustaður og hver fjölskylda og einstaklingur býr yfir sínum sóknarfærum og markmiðið með sóknaráætlun var að nálgast þessi sóknarfæri, orða þau og samþætta og loks nýta þau til að blása Íslandi vind í seglin til framtíðar. Á vegum verkefnisins var því ráðist í mjög víðtækt samráð og óhætt að segja að vel á annað þúsund manns hafi veitt verkefninu lið á einn eða annan hátt með því að gefa vinnu sína og tíma.

Þetta er hugsanlega metnaðarfyllsta sóknar- og byggðaáætlun sem ráðist hefur verið í á Íslandi, áætlun sem miðaði að því að styrkja og efla alla atvinnu- og innviðauppbyggingu í landinu. Eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar var að kasta þessari áætlun og öllu þessu mikla starfi fyrir róða.

Og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum?



[11:23]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir þessa afar þörfu og góðu umræðu. Það er ekki spurning að hér er mikill vilji til að koma til móts við veikar byggðir. Ég held að við þurfum líka að horfa svolítið út fyrir rammann og sjá þau tækifæri sem blasa við á hverjum stað fyrir sig. Víða er fiskurinn auðvitað undirstaðan í atvinnuuppbyggingunni en það eru fleiri tækifæri sem við eigum að horfa til. Ég hef verið sammála því að það verði skoðað þegar nýtt sjávarútvegsfrumvarp verður lagt fram að festa kvótann betur í byggðunum en það er auðvitað vandfundin leið til þess. Það er mikilvægt að reyna að ná sátt um hana engu að síður.

Hér hefur komið fram að við þurfum að stöðva fólksflóttann, við þurfum að jafna samkeppnisaðstöðu, við þurfum að tryggja að unga fólkið vilji áfram vera heima í dreifðum byggðum. Það er mjög mikilvægt og til þess þurfum við að hefja innviðauppbyggingu á landsbyggðinni. Við þurfum að ljósleiðaravæða byggðirnar, við þurfum að bæta samgöngurnar og víða þarf að tryggja þriggja fasa rafmagn, fjarkennslu og aðra slíka grundvallarþætti til að efla byggðirnar og halda unga fólkinu heima.

Það er líka mikilvægt að horfa til þess að nú hyggja mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu á frekari uppbyggingu á landsbyggðinni með alls lags þjónustukjarna. Trúlega mun fjölga bensínstöðvum og upplýsingamiðstöðvum og öðrum slíkum stöðvum enda er á þessu ári spáð 25% aukningu ferðamanna, að farþegar verði 1,3 milljónir. Það eru gríðarleg tækifæri landsbyggðarinnar sem felast í því og það eru tækifæri sem við eigum að grípa.



[11:25]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst fá að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli um eflingu veikra byggða. Það er mikið áhyggjuefni að fólksflótti eigi sér stað á landsbyggðinni þar sem vinna við hæfi fæst ekki. Það er grundvöllur byggðar að til sé atvinna fyrir fólkið sem vill þar búa. Þess vegna langar mig að vekja athygli á því að jafnt aðgengi að internetinu fyrir fólkið í landinu er algjör grundvöllur ýmiss konar atvinnu, t.d. mundi ferðamannaiðnaðurinn varla þrífast ef ekki væri fyrir internetið. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig árangurinn hafi verið mældur, t.d. varðandi brothættar byggðir, og hvort aðgengi að internetinu og internetið sjálft hafi verið litið á sem kost í þessu máli.



[11:26]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að hafa frumkvæði að þessari umræðu. Ég held að það sé hafið yfir vafa að sú aðferðafræði og nálgun sem Byggðastofnun hefur unnið samkvæmt og gengur undir nafninu Brothættar byggðir, hafi skilað árangri og sé framþróun á sviði þess að takast á við byggðavandann í landinu. Að vinna með íbúum byggðanna og vinna sértækt með vandamál þeirra byggða sem eru í veikastri stöðu er tvímælalaust rétt nálgun og hefur skilað árangri. Það sýnir sig líka í þeirri vinnu að það að auka byggðafestu veiðiheimilda, jafnvel þótt aðeins sé um tiltölulega lítið magn að ræða, skilar umtalsverðum árangri og það er verulegur munur á því að veiðiheimildirnar séu tryggðar byggðarlögunum og fiskverkendum og öðrum þeim sem koma við sögu til þriggja til fimm ára en að árleg óvissa ríki um úthlutun þeirra. Bara sá stöðugleiki sem fylgir því að hafa tryggingu til þriggja til fimm ára fyrir einhverju magni veiðiheimilda skapar möguleika til uppbyggingar sem annars væri ómöguleg.

Því miður höfum við orðið fyrir þungum áföllum í þessum efnum á undanförnum missirum og standa þar náttúrlega upp úr þeir staðir sem eru nánast sviðin jörð, að minnsta kosti hvað veiðiheimildir snertir, eftir ákvarðanir Vísis um að flytja allar veiðiheimildir og starfsemi frá Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík. Það er óvissa uppi víðar og má þá nefna Grímsey sem dæmi. Við skulum hafa það í huga er við ræðum þessi mál að fólkið í þessum sjávarbyggðum lítur réttilega ekki svo á að þó að til baka komi nokkur hundraða tonna aðgangur að hinni sameiginlega auðlind þjóðarinnar sé verið að gefa því eitt eða neitt eða rétta því einhverja ölmusu. Þetta snýst um það að skila til baka einhverju broti af þeim aðgangi að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar sem þessi byggðarlög höfðu og hafði byggst upp, í staðinn fyrir þær veiðiheimildir sem hafa (Forseti hringir.) í mörgum tilvikum flust burtu eftir áratugaumsvif í sjávarútvegi í viðkomandi byggðum.



[11:29]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli sem lýtur að búsetu í landinu og uppbyggingu þess til framtíðar. Ég held að þegar kemur að þessum málum séum við flestöll sammála í megindráttum um að við viljum hafa landið okkar í byggð og um mikilvægi þess að þar ríki ákveðin festa og að undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, landbúnaður og sjávarútvegur, séu grunnstoðirnar að byggð í landinu. Við vitum líka að störfum hefur fækkað og þau hafa flust frá minni stöðum. Það er stór áskorun að takast á við þá þróun og ljóst er að of lengi hefur ekki verið unnið nægilega markvisst að uppbyggingu og framkvæmd byggðastefnu. Því er mikilvægt að breið samstaða náist um að berjast gegn viðvarandi fólksfækkun í byggðum landsins og fjölga fjölbreyttum störfum um landið. Þess vegna fagna ég því sem hér hefur komið fram, að menn eru sammála um þetta.

Það er mjög jákvætt að nokkur sátt ríki um að 5% aflamarks séu tengd byggðatengdum verkefnum og að sátt sé um það, en það þarf náttúrlega að endurskoða og endurmeta allt þetta og sjá hvernig það nýtist. Það er mjög ánægjulegt að vita að markmiði Byggðastofnunar hefur verið náð. En betur má ef duga skal og mikilvægt er að fleiri þættir séu teknir inn og ekki óeðlilegt að fleiri komi að uppbyggingu viðkvæmra svæða.

Það er því fagnaðarefni að geta sagt núna að vinnuhópur varðandi ljósleiðaravæðingu landsins var að skila af sér í dag. Það er ein af grunnstoðunum og ein leiðin inn í framtíðina til að halda landinu í byggð og ég fagna því að við séum komin á þann stað að við getum farið að tala um það í alvörunni.

Við þekkjum það öll sem búum úti á landi að börnin okkar vilja ekki koma heim. Þau koma ekki heim til að vinna að sínum verkefnum og það er afleitt því að þá sjá þau ekki framtíðina úti um landið. Ég fagna þessu því enn og aftur.



[11:31]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það þarf nýja sýn í byggðamálum, bæði gagnvart þeim sem eru skilgreindar brothættar byggðir í dag svo og ýmsum öðrum byggðarlögum sem gætu orðið brothættar byggðir eftir nokkur ár. Það er athyglisvert að á íbúafundum sem hafa verið haldnir í þeim fjóru byggðarlögum sem eru skilgreind á þennan hátt í dag hafa atvinnumál alltaf verið efst í huga fólks um hluti sem þarf að lagfæra. Þess vegna verða auknar byggðatengdar fiskveiðiheimildir að koma til og þá er það spurning hvort þessi 5,3%, sem tekin eru frá, eru nægjanleg. Ég held að það þurfi að auka það og eigi að skoða alvarlega að taka makríl þar inn líka.

Varðandi uppbyggingaráform þekki ég best til á Raufarhöfn. Þar er dæmið sett upp með byggðakvóta sem var svo margfaldaður með viðbót, það er dæmi um 11 mánaða vinnu fyrir 40 manns, það er í fyrsta skipti sem ég hef séð svona góða áætlun hvað það varðar. Það sýnir sig að auknar fiskveiðiheimildir þurfa alltaf að vera grunnurinn á þessum stöðum eins og það var þegar þeir byggðust upp.

Ég sagði í upphafi máls míns að það þurfi nýja sýn. Ég hika ekki við að halda því fram að við þurfum að fara að horfa meira til skattkerfisins og skattafslátta hvað varðar brothættar byggðir og litlar byggðir úti um landið og dreifbýlið, að það eigi að koma þar inn, eins og talað hefur verið með byggðaáætlun en kannski lítið gert af.

Hinar skandinavísku þjóðir hafa notað þessar leiðir lengi. Lægri skattar á landsbyggðinni koma til móts við litla eða enga opinbera þjónustu, það er dýrt að sækja sér opinbera þjónustu og fiskveiðistefna stjórnvalda undanfarin ár hefur verið í því formi að það hefur átt sér stað samþjöppun og breytingar í útgerðarmynstri sem þarf að koma á.

Ég held (Forseti hringir.) að ef við viljum sýna verulegan dug eigum við að fara inn í skattkerfið og skoða þar leiðir að hætti nágrannalanda okkar.



[11:33]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu, ég gleymdi því áðan. Við þurfum langtímaáætlun í byggðamálum eins og Sóknaráætlun 20/20 miðaði að. Í mínum huga er ekki vafi á að það er mikið réttlætismál að við styðjum við fólk sem býr í byggðum sem nú standa höllum fæti vegna fólksfækkunar og færri atvinnutækifæra. Hefur það gefist vel að færa byggðakvóta til veikburða byggða? Hefur það verið góð aðferð til að skjóta styrkum og varanlegum stoðum undir atvinnu þar? Ég held ekki. Mér sýnist ýmsir vera á sama máli um það og vísa í því sambandi til Stöðugreiningar 2013 sem Byggðastofnun lét gera. Þar kemur m.a. fram að þau verkfæri sem til staðar eru eins og byggðakvóti, lánveitingar af hálfu Byggðastofnunar ásamt fjölþættum stuðningi ýmissa aðila gegnum tíðina hafa ekki megnað að stöðva þessa þróun, hvað þá að snúa henni við.

Byggðakvóti og byggðatengingar aflaheimilda til að styðja við byggðir sem standa höllum fæti þarf að meta í ljósi þess hver reynslan og árangurinn af slíkum aðgerðum hefur verið. Ef við notum byggðatengingar og byggðakvóta til að leysa byggðamál þarf að vera alveg öruggt að þær aðferðir dugi til að breyta miklu um stöðu byggða og fólks sem þar býr til langs tíma. Hefur verið sýnt fram á það? Ég held ekki.

Er ekki skynsamlegra að hámarka arð fiskveiðanna og nýta svo hluta af honum til að byggja upp fleiri atvinnutækifæri í byggðum sem standa veikt til að þær geti orðið sjálfbærar í atvinnulegu tilliti til langs tíma litið þannig að þær þyki eftirsóknarverðar til búsetu fyrir unga jafnt sem aldna? Við verðum að finna nýjar leiðir en ekki hjakka í sama farinu sem hefur ekki skilað árangri hingað til og við verðum líka að horfa til þess að tækniþróun innan fiskveiða og fiskvinnslu hefur orðið gríðarleg þannig að það eru alltaf færri og færri hendur sem þurfa að vinna þessi störf. Ég held að við ættum að nýta arðinn til að láta þessar byggðir hafa peninga til að byggja upp til framtíðaratvinnu sem hentar nútímasamfélagi. Við erum með takmarkaða auðlind þar sem fiskurinn er.



[11:35]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir fyrir þessa umræðu, hún er mjög mikilvæg. Ekki þarf að fletta neinum blöðum um það að þau markmið sem þáverandi stjórnvöld settu sér, þ.e. þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, með því að heimila framsal í fiskveiðistjórnarkerfinu gengu eftir. Við höfum núna hagkvæmari sjávarútveg og erum fyrirmynd annarra þjóða í því hversu vel hefur tekist til í þeim efnum. Þetta var auðvitað markmiðið með framsalinu. Þannig voru þessi vandamál eða áhrif nokkuð fyrirsjáanleg, þ.e. það hlaut að leiða til ákveðinnar samþjöppunar og fækkunar í greininni. Hverjir brugðust þá? Ég held að stjórnvöld hafi brugðist í framhaldinu, þær ríkisstjórnir sem þar komu í framhaldinu brugðust í því að reyna að byggja upp önnur atvinnutækifæri fyrir landsbyggðina samhliða þessu. Ég held að mjög mikilvægt sé að við horfum mikið til þess í dag hvernig við getum brugðist við. Hvað getum við gert? Við horfum núna til dæmis á hvað fiskeldið er að gera fyrir vestan, kalkþörungaverksmiðja sem er fyrir vestan og er að koma í Stykkishólm. Við sjáum hvaða áhrif og væntingar eru bundnar við frumvarp Vinstri grænna um ívilnanir handa stóriðju á Bakka. Það er mikil bjartsýni í kringum það og hefur örugglega mjög jákvæð áhrif þar. Við þurfum ekki annað en að horfa á Fjarðabyggð sem dæmi um góð áhrif af breyttu atvinnumynstri.

Hvað hamlar uppbyggingu á landsbyggðinni í dag? Við höfum verið að hlusta undanfarið á sveitarstjóra sveitarfélaga á Norðurlandi og Austurlandi sem fá ekki rafmagn. Ný atvinnutækifæri sem eru í pípunum, fyrirtæki sem vilja koma á staðinn en það er ekki hægt að afhenda þeim rafmagn af því að við getum ekki flutt til þeirra rafmagn. Við erum líka stopp í virkjunum þannig að það takmarkar okkur mjög einmitt gagnvart landsbyggðinni til að byggja upp viðbótaratvinnutækifæri. Við þurfum að horfa á heildarmyndina í þessu, horfa til nýrra tækifæra fyrir landsbyggðina. Samgöngumál (Forseti hringir.) eru gríðarlega mikilvægur þáttur í þessu þar sem atvinnusvæði munu stækka og fjarskiptamál og þau skref sem er verið að stíga af hálfu núverandi ríkisstjórnar munu breyta gríðarlega miklu.



[11:38]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu umræðu. Það hefur komið í ljós að þingmenn almennt eru fylgjandi því að horft sé til veikra byggða og reynt að efla þær og styrkja. En ég vil líka taka það fram að þær eru ekki að kalla eftir neinni ölmusu. Þær kalla eftir því að fá að lifa með sjálfbærum hætti af þeim landsins gæðum sem urðu til þess að þessar byggðir byggðust upp á sínum tíma. Það er bara réttlætismál, hvort sem við tölum um byggðakvóta eða annars konar stuðning, og sjálfsagður réttur þessa fólks, afkomenda þeirra kynslóða sem hafa byggt þessi þorp og sveitir upp að við, sú kynslóð sem stödd er hér í dag og stjórnar þessu landi, sýnum því þá virðingu að skila aftur til baka því sem hefur verið tekið frá þessum svæðum með stjórnvaldsákvörðunum, hvort sem það er í kvótakerfinu, í landbúnaði eða í sjávarútvegi eða með öðrum hætti. Við getum gert þetta ef viljinn er fyrir hendi.

Það er talað um að sátt sé um 5,3% í byggðalegum aðgerðum í núverandi kvótakerfi. Það er engin sátt um það og það er heldur ekki sama hvernig þeim hluta er ráðstafað. Í dag er engin byggðafesta aflaheimilda, svo það sé skýrt sagt. Það er ekki. Byggðakvótinn kemur og fer og er ekki bundinn neinum byggðum í dag. Það er alger óvissa hvernig hann er. Það sem ég er að tala um er að byggðafesta aflaheimilda verði þannig að aflaheimildir séu til staðar til framtíðar með einum eða öðrum hætti fyrir veikar byggðir og skapi þannig grundvöll og öryggi fyrir það fólk sem býr þar. Eins og fyrirkomulagið er í dag þýðir það að eignir eru verðlausar og fólk hefur enga framtíðarsýn fyrir sig og sína fjölskyldu. Ég held að við sem búum á höfuðborgarsvæðinu eða aðrir landsmenn sem búa í þéttbýli ættu að setja sig í spor þessa fólks og reyna að vinna út frá því. (Forseti hringir.)

En ég tel að þessi umræða hafi verið góð og heyri að hæstv. ráðherra er jákvæður og ég vona að sú þingsályktunartillaga sem ég og fleiri í Vinstri grænum höfum lagt fram sé innlegg í þessa umræðu, og hún sýnir viljann í verki.



[11:40]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að umræðan hér hefur verið góð og málefnaleg. Það hefur komið í ljós að allir eru meira og minna sammála um að það er mikilvægt að taka með festu á þessum byggðamálum. Ég held líka að allir geti verið sammála um að þrátt fyrir stór orð fortíðar hafi allt of lítið verið gert. Núna erum við að reyna að taka skýrt á þessu. Ég er ánægður með að það skuli vera mikill samhljómur þingmanna í ólíkum flokkum um það.

Fólksflótti, já það er rétt, en þrátt fyrir það hafa aldrei búið fleiri á landsbyggðinni en í dag. Íbúaþróunin innan ólíkra landsbyggða hefur aftur á móti verið umtalsverð. Ég býst ekki við því að nokkur þingmaður sé að tala um að festa í sessi byggðaþróun eins og hún leit út 1950 eða 1980 eða 2010. Einu sinni var Eyrarbakki höfuðstaður Íslands og löggjafarsamkoman á Þingvöllum. Margt breytist og mun halda áfram að breytast.

Ég held að fjórar höfuðatvinnugreinar komi til með að nýtast best í þeirri viðleitni okkar að snúa þessu við, í sjávarbyggðunum augljóslega sjávarútvegurinn. Í landbúnaðarhéruðunum er augljóslega landbúnaðurinn og við þurfum að nýta þessar atvinnugreinar að hluta. Þær geta ekki borið þetta einar, það þarf að gera fleira. Ferðaþjónustan kemur inn á öllum þessum stöðum og svo er opinber þjónusta sem er stór liður í öllum byggðarlögum landsins. Þessi fjögur atriði þurfa að gera það. Við þurfum að tryggja grunnþjónustuna eins og núverandi ríkisstjórn er að gera með stórfelldu átaki í ljósleiðaravæðingunni. Það kom auðvitað fram á íbúafundunum, af því að hv. þm. Pírata, Ásta Helgadóttir, spurði um það, að ein krafan er að fólk hafi almennilegar nettengingar. Þær eru lykillinn að framtíðinni. Við vitum það og þess vegna er ríkisstjórnin að tryggja það. Ef við getum hins vegar ekki tryggt grunnþjónustuna er eðlilegt eins og kom fram í byggðaáætlun (Forseti hringir.) sem samþykkt var í fyrra að við skoðum skattkerfið. Það er líka augljóst ef við ætlum að gera eitthvað meira en að tala reglulega um þetta með fögrum orðum á Alþingi.