144. löggjafarþing — 79. fundur
 16. mars 2015.
þingsályktunartillaga um slit aðildarviðræðna við ESB.

[15:17]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur rakið það oft á síðustu vikum og mánuðum að gera mætti ráð fyrir því að tillaga um að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu yrði lögð fyrir Alþingi Íslendinga á vormissiri. Hann sagði 17. janúar í fréttum Ríkisútvarpsins að hann gerði ráð fyrir að slík tillaga kæmi fram og næði fram að ganga á Alþingi. Hann sagði á Bylgjunni 2. mars að hann gerði ráð fyrir að slík tillaga kæmi fram enda væri hún nefnd í málaskrá ríkisstjórnarinnar og það væri líklegt að fram kæmi tillaga frá utanríkisráðherra enda mikilvægt að skýra afstöðu Íslands til þessarar aðildarumsóknar.

Nú liggur fyrir að hvorki hæstv. forsætisráðherra né ríkisstjórn hans treystir sér til að leggja slíka tillögu fyrir Alþingi Íslendinga, væntanlega vegna þess að hann var ekki viss um hverjar málalyktir yrðu á Alþingi. Til að komast hjá því og reyna jafnframt að ná þeim árangri að spilla aðildarumsóknarferlinu er farin sú leið að skrifa bréf og fara með það eins og mannsmorð. Hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hans stóðu hér fyrir sjónarspili sem fólst í fordæmalausum launráðum og undirhyggju í meðferð mála, lét sig hafa það að gera lítið úr eigin utanríkismálanefndarmönnum með því að leyfa þeim að sitja utanríkismálanefndarfund á fimmtudaginn án þess að vita að búið væri að taka grundvallarákvarðanir um meðferð utanríkismála og gekk með þeim hætti skýrt fram hjá þingi og þjóð sem margsinnis hefur verið lofuð aðkoma að málinu.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er hann sammála formanni utanríkismálanefndar Alþingis og forseta þings sem báðir hafa lýst því yfir að þingsályktunin frá 2009 sé enn í fullu gildi?

Í annan stað: Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn að sjá sóma sinn í að draga þetta bréf til baka og leggja málið fyrir með boðlegum hætti í samræmi við þingræðisreglur og þingræðisvenjur til efnislegrar umræðu á Alþingi Íslendinga?



[15:19]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er það rétt sem hv. þingmaður nefndi, það kom fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að hugsanlega kæmi fram tillaga um stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu. Það hefur líka margoft verið tekið fram að ástæðan fyrir því að orðalagið var með þeim hætti að hugsanlega kæmi fram tillaga var sú að menn sáu ástæðu til að meta stöðu þessa máls í ljósi alls þess sem gerst hefur frá því að tillaga var lögð fram síðast. Hluti af þeirri vinnu fólst í samskiptum við Evrópusambandið á síðustu vikum og út úr þeim samskiptum kom niðurstaða sem er auðvitað, þegar öllu er á botninn hvolft, hin augljósa besta niðurstaða í málinu, þ.e. að ljúka þessu á sem jákvæðastan hátt gagnvart Evrópusambandinu, ef svo má segja, gera þetta í góðu. Það eina sem vantaði var að ríkisstjórnin gerði grein fyrir afstöðu sinni til málsins, hvort hún vildi taka upp stefnu síðustu ríkisstjórnar og halda áfram þar sem frá var horfið í þessu umsóknarferli eða ekki. Það er ekki vilji þessarar ríkisstjórnar að ganga í Evrópusambandið og þar af leiðir að Ísland getur ekki á sama tíma verið umsóknarríki. Það að vera umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu felur í sér yfirlýsingu um vilja til að ganga þar inn.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns um afstöðu mína til þingsályktunartillagna og þingsályktana hef ég ekki heyrt marga, varla nokkurn utan flokks hv. þingmanns og stjórnarandstöðuflokka hér, halda því fram að þingsályktanir hafi eilífðargildi og bindi allar framtíðarríkisstjórnir. Þingsályktanir eru ályktanir þess Alþingis sem þá situr (Gripið fram í.) og menn geta með þeim beint (Gripið fram í: … ósammála.) ákveðnum skilaboðum til þeirrar ríkisstjórnar sem situr í umboði þess.

Hins vegar má rifja upp að jafnvel með þá þingsályktunartillögu á bakinu, ef svo má segja, lýsti síðasta ríkisstjórn því yfir að hún setti ýmis skilyrði fyrir því (Forseti hringir.) að leggja fram þessa umsókn, m.a. það að hún mætti draga hana til baka á hvaða stigi málsins sem er.



[15:22]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ályktanir Alþingis um utanríkismál skuldbinda ríkisstjórn og gera það þangað til þær eru numdar úr gildi með annarri ályktun. Fyrir því er löng og athugasemdalaus þingræðisvenja á Íslandi. Þetta er rakið ágætlega í ágætri grein í Kjarnanum í dag, hæstv. forsætisráðherra til upplýsingar.

Það er mjög athyglisvert að heyra að hæstv. forsætisráðherra hafi lagt svo mikið á sig til að synja þingi og þjóð um aðkomu að þessari ákvörðun að hann hefur farið fjallabaksleiðir í samningaþrefi við Evrópusambandið til að semja bréf, fullt af hálfsannleika, sem geri honum kleift að halda því fram að aðildarumsóknin hafi verið dregin til baka þegar hún hefur ekki verið dregin til baka.

Hæstv. forsætisráðherra er orðinn ber að því að misfara með vald sitt. Hann er orðinn ber að því að ganga á svig við það heit sem hann hefur undirritað, drengskaparheit að stjórnarskránni, sem (Forseti hringir.) felur í sér að hæstv. forsætisráðherra þarf að virða þingræðisregluna og á ekki (Forseti hringir.) í samskiptum við önnur ríki að búa til leiðir til að halda ákvörðunum frá Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:23]
forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Eitthvað virðist hv. þingmaður hafa misskilið þetta. Það voru engir samningar við Evrópusambandið um hvernig að málinu yrði staðið. Það er hins vegar eðlilegt að menn fái það nú á hreint, eins og hv. þingmaður ætti að vera búinn að átta sig á eftir öll þessi ár, hvað felst í því að vera umsóknarríki um aðild að Evrópusambandinu. Það er mjög einfalt og kemur fram í sérstökum bæklingum sem stækkunarstjóri sambandsins gefur út til umsóknarríkja. Umsóknarríki lýsir því yfir að það vilji ganga í sambandið. Ef ríkisstjórn þess ríkis vill ekki ganga í Evrópusambandið á það land ekki að vera umsóknarríki.

Hvað varðar kenningar hv. þingmanns um eilífðargildi þingsályktunartillagna verður býsna erfitt fyrir ríkisstjórnir framtíðar að ætla að fylgja þeirri stefnu ef til dæmis hv. þingmaður kæmist einhvern tíma í ríkisstjórn og ætlaði að framfylgja öllum ókláruðum þingsályktunartillögum liðinna ára og áratuga. (ÁPÁ: … þingræðisvenja.)