144. löggjafarþing — 79. fundur
 16. mars 2015.
ríkisstjórnarfundur um bréf utanríkisráðherra.

[15:39]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að því hvort hæstv. ráðherra hafi verið viðstaddur ríkisstjórnarfund þar sem fjallað var um bréfið sem ríkisstjórnin fól hæstv. utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, að færa Edgars Rinkevics og Johannes Hahn. Í því voru skilaboð um að Ísland væri ekki lengur í hópi umsóknarríkja að ESB. Voru allir hæstv. ráðherrar samhuga um það ferli? Leggur hæstv. ráðherra sama skilning í þennan gjörning og hæstv. ráðherrar utanríkis- og fjármála um að bréfið sé úrsögn úr aðildarferlinu eins og hefur ítrekað komið fram í viðtölum við þá?

Ef svarið er já langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort aðrar ályktanir þingsins séu sömu duttlungum háðar. Er það álit þingmannsins Sigrúnar Magnúsdóttur, núverandi hæstv. ráðherra og fyrrverandi hv. þingflokksformanns Framsóknarflokksins, að framkvæmdarvaldið geti hunsað þingræðið með því að taka ákvarðanir um meiri háttar mál án þess að bera þau undir löggjafarsamkunduna?

Að lokum langar mig að spyrja hv. fyrrverandi þingflokksformann og núverandi ráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur: Er það rétt sem fram kom í viðtali við Gunnar Braga Sveinsson, hæstv. ráðherra, að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi gert leynilegt samkomulag við Framsókn um leið og ríkisstjórnin var mynduð um að engin þjóðaratkvæðagreiðsla yrði nokkru sinni haldin? Þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Tekur hún undir orð hæstv. utanríkisráðherra um að það breyti í sjálfu sér ekki hvað menn sögðu fyrir kosningar varðandi þjóðaratkvæðagreiðslurnar eða við borðið þegar verið er að semja um mál eða eitthvað slíkt?



[15:41]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Já, ríkisstjórnin stendur einhuga á bak við bréf utanríkisráðherra. Ég var á þeim fundi og ég styð það sem þar stendur. (ÖS: Hvað stendur þar?) [Hlátur í þingsal.] Lásuð þið ekki bréfið? (SSv: Í … þýðingum.) (KLM: Þrjár síður …) (Gripið fram í: Forseti.) (Forseti hringir.)

Ef ég skildi það rétt var næsta spurning hv. þingmanns um hvort ég hefði sama skilning og hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef sama skilning.

Þriðja spurningin — hún les nokkuð hratt, ég náði nú ekki nákvæmlega hvaða spurningar … Hvort það leyndist eitthvað á bak við … Vill hún kannski endurtaka spurninguna eða gerum við það kannski á eftir?

En ég vil bara hafa það alveg skýrt að þetta bréf er staðfesting á því sem við höfum áður haldið hér fram, það hefur lengi verið til umræðu í þingsölum og kom ekkert nýtt þar fram. Að mínu áliti er þetta bara staðfesting á því sem hér hefur verið rætt og sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir.



[15:42]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Hæstv. forseti. Ég spurði hvort það væri skoðun hæstv. ráðherra að framkvæmdarvaldið gæti hunsað þingræðið með því að taka ákvarðanir um meiri háttar mál án þess að bera það undir löggjafarsamkunduna. Í öðru lagi spurði ég hæstv. fyrrverandi þingflokksformann og núverandi ráðherra hvort það væri rétt, eins og fram kom í viðtali við Gunnar Braga Sveinsson, hæstv. utanríkisráðherra, að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi gert leynilegt samkomulag við Framsóknarflokkinn um leið og ríkisstjórnin var mynduð um að engin þjóðaratkvæðagreiðsla yrði nokkru sinni haldin.



[15:43]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að endurtaka spurningarnar. Ég er alltaf á því að það sé ágætt að ræða mál, hvort sem það er hér eða annars staðar. Ég er alls ekki á því að framkvæmdarvaldið sé hér að ganga gegn vilja Alþingis.

Ég vil ítreka það sem forsætisráðherra sagði áðan og mér finnst vera mikilvægur punktur í þessu máli, það er að talað var við ráðamenn hjá Evrópusambandinu um (Gripið fram í.) að reyna að gera þessi slit í góðu og mér finnst vera á því góður svipur.

Ég var ekki ráðherra þegar þessi ríkisstjórn var sett á laggirnar. Og að fólk skuli koma hér upp í þingsal og fara með eitthvað sem það heyrir einhvers staðar í … (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Já, ég tek bara ekki þátt í að svara fyrir slíkt.

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsal.)