144. löggjafarþing — 80. fundur
 17. mars 2015.
störf þingsins.

[13:57]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef áhuga á því að eiga orðastað við formann fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, vegna frétta sem fjölmiðlum hefur tekist að draga út úr ráðuneytinu undanfarna daga um alveg ótrúlegan fjáraustur ráðherranna í áróður fyrir sjálfa sig af opinberu skattfé. Þannig er það ljóst að innanríkisráðuneytið hefur greitt ráðgjafarfyrirtækinu Argus tæplega 2,4 millj. kr. fyrir fjölmiðlaráðgjöf vegna lekamálsins. Innanríkisráðherra hefur ábyrgst 2,4 millj. kr. útgjöld af skattfé til að verja sjálfan sig í lekamálinu í gegnum innanríkisráðuneytið. Í viðbót 1 millj. kr. í lögfræðiráðgjöf til lögmannsstofunnar Lex. Það vantaði þó ekki að vísað væri mikið í hina innri lögfræðiráðgjöf ráðuneytisins í því máli.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sem fer auðvitað með opinbert fé, hefur eytt tæpum 900 þús. kr. — í hvað? Í ráðgjöf vegna lekamálsins að uppistöðu til og að einhverju leyti vegna klúðurs lögreglunnar sjálfrar á því að leka persónugreinanlegum upplýsingum þegar búsáhaldabyltingarskýrslan var birt. Ekki tekur betra við því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur eytt tæplega 2 millj. kr. — þetta eru allt tölur án virðisaukaskatts — í hvað? Í hvað hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið keypt sér ráðgjöf utan úr bæ fyrir 2 millj. kr.? Jú, vegna kvótafrumvarpsins sem ráðherra hefur nú ákveðið að verði ekki flutt. Þeim peningum er vel varið. Og í ráðgjöf vegna náttúrupassans (Gripið fram í.) upp á hátt í 1.300 þús. kr. sem var andvana fæddur og öllum var ljóst að yrði aldrei afgreiddur. Samt er opinberu fé sóað með þessum hætti.

Ég vil spyrja formann fjárlaganefndar, sem stundum lætur hvína í sér varðandi ábyrga fjármálastjórnun: Telur hún þetta réttlætanlega meðferð á opinberu fé? Hvaða fjárheimildir nota ráðuneytin í einkaáróður fyrir ráðherrana? (Forseti hringir.) Er það sérstakur fjárlagaliður? Og hvað segir hv. þingmaður meðal annars sem fulltrúi í hagræðingarhópnum um þessi útgjöld?



[13:59]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir fyrirspurnina. Í upphafi skal þess getið að ég held að það hafi aldrei verið tekið saman hver ráðstöfunarkostnaðurinn vegna Icesave á sínum tíma var í raun mikill [Háreysti í þingsal] (Gripið fram í.) þegar hv. þingmaður var fjármálaráðherra, þannig að það sé sagt. En nú hefur verið skipt um stjórn eins og við vitum og þá er öll … [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)

Öll venjubundin vinna sem áður fór fram í ráðuneytinu er orðin mjög tortryggileg. En það er svo sem alveg í anda þeirra flokka sem nú sitja (Gripið fram í.) í stjórnarandstöðu og það verður bara að hafa það.

Ég vil aðeins benda á að umboðsmaður Alþingis var í ítarlegu viðtali í Ríkissjónvarpinu í gær þar sem hann fór yfir það að honum þættu þingmenn vera orðnir of ungir í starfi. Hérna áður fyrr (BirgJ: Svaraðu …) þurfti að losna við gamla, spillta þingmenn af því að þeir voru svo spilltir. Þingið varð við því kalli og stjórnmálaflokkarnir voru endurnýjaðir, (Gripið fram í.) eins og til dæmis Framsóknarflokkurinn (SII: Svaraðu þingmanninum.)sem endurnýjaði allt sitt þinglið. Þá erum við víst orðin svo reynslulaus að nú þarf að fara að ráða sérstaka … Kliður í þingsal. (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður um aftur um hljóð í þingsalnum.)

… sérstaka aðila inn í ráðuneytin til að hjálpa viðkomandi ráðherrum til að takast á við starfið og það er vel. (Gripið fram í.) Ég get tekið undir það með umboðsmanni Alþingis. Þetta er einmitt hluti af því, tel ég. Og varðandi það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr um, af hvaða fjárlagalið þessi ráðgjöf sé tekin, þá get ég ekki svarað því, en ég geri engar athugasemdir við að ráðherrar kaupi sér aðstoð úti í bæ, hvort sem það er hjá almannatenglum eða lögmönnum sérstaklega í ljósi þess ef ráðuneytin halda sig innan fjárheimilda.



[14:01]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við í þessum sal höfum á liðnum missirum ítrekað rætt stöðu Alþingis og erum að því enn þann dag í dag, viðhorf og traust til þingsins og hvernig unnið er að málum í þinginu. Eftir hrunið fór fram ítarleg umræða um eftirlitshlutverk Alþingis, í tengslum við rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem niðurstaðan var að styrkja þyrfti stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Mikið var rætt um að minnka ráðherraræðið. Nú eftir að ný ríkisstjórn tók við ber ítrekað á auknu ráðherraræði, jafnvel einokunartilburðum, sem meðal annars hafa birst í ótrúlega frumstæðum aðferðum ríkisstjórnarinnar á liðnum dögum. Þessu til viðbótar má nefna tillögur í þinginu sem hafa einmitt gengið í þessa átt.

Við höfum séð stjórnarráðsfrumvarp forsætisráðherra þar sem hann óskar eftir heimild til þess að hann fái að ráða því hvar stofnanir eru staðsettar. Við erum að tala um raforkulög sem sem betur fer tókst að breyta þar sem kerfisáætlun, gríðarlega stór áætlun, átti ekki að fara fyrir þingið. Við erum að tala um tillögu frá hæstv. utanríkisráðherra um að Þróunarsamvinnustofnun færist undir hans valdsvið beint, hann stjórni stofnuninni. Við erum að tala um almannatryggingar, sem ráðherra félags- og húsnæðismála á að ráða hvar ný stofnun er staðsett. Allt hefur þetta áður verið til meðhöndlunar hjá þinginu. Við erum að tala um starfsáætlun framhaldsskóla sem hefur verið rætt um og þar af leiðandi hægt að leita umsagna í þinginu, það á að fara út og er þegar búið að ákveða það.

Það er allt á sömu bókina lært, það er verið að reyna að losna við að Alþingi Íslendinga fjalli um málin. Það er ekki kallað lýðræði heldur einræði. Svo fáum við nýjasta málið, það er fróðlegt og mikilvægt fyrir upplýsingar hér í þessu þingi að við fáum til dæmis upplýsingar um hver aðkoma — við vitum hver aðkoma stjórnarandstöðunnar var — stjórnarþingmanna var að því máli sem þar er til umræðu. Vonandi fáum við svör við því hér á eftir. Fengu þeir að vita um þetta bréf á sama klukkutímanum og það var tilkynnt á erlendri grundu eða fyrr? Fáum við allar upplýsingar um það hvernig staðið var að því samráði sem stendur í bréfinu að hafi átt sér stað á milli ESB og ráðherra þar sem þingið er snuprað (Forseti hringir.) en fulltrúar ESB sitja við borðið? Fleiri slíkum spurningum verðum við að fá svör við ef við ætlum einhvern tímann að bera virðingu fyrir því (Forseti hringir.) að hér eru bæði meiri og minni hluti. Á bak við þennan stjórnarmeirihluta er 51% kjósenda …



[14:04]
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að eiga orðastað við hv. þm. Sjálfstæðisflokksins og varaforseta, Valgerði Gunnarsdóttur.

Utanríkisráðherra sendi bréf til Evrópusambandsins um stöðu aðildarumsóknar Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Við ræddum stöðu þingsins vegna þessa bréfs í gær og niðurstaðan er sú að þingsályktunin frá 2009 sé í fullu gildi. En óháð lagalegum og tæknilegum hliðum málsins langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að bréfaskriftir af þessu tagi séu í samræmi við góða stjórnarhætti. Finnst henni eðlilegt að þingmenn fái fréttir sem þessar í útvarpsfréttum? Hefði ekki verið eðlilegri farvegur fyrir málið að leita samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis?

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var ráðherraræði harðlega gagnrýnt. Óttast þingmaðurinn og varaforsetinn ekki að stjórnarhættir ríkisstjórnarinnar í þessu máli sem einkennast af leynd, óljósum skilaboðum, túlkun eftir hentugleika og skætingi, ýti undir ráðherraræði á kostnað sjálfstæðis þingsins?



[14:06]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir spurningarnar. Ég vil segja í framhaldi af þeim spurningum sem þingmaðurinn beindi til mín að ég tel að utanríkisráðherra hafi nákvæmlega sama rétt til þess að skrifa bréf til ESB og formenn stjórnarandstöðuflokkanna sem skrifuðu bréf í kjölfarið. Ég tel ekki óeðlilegt að utanríkisráðherra taki afstöðu í þessu máli. Á síðasta ári var lögð fram þingsályktunartillaga sem fór í málþóf hér í þinginu og kom ekki út úr utanríkismálanefnd. Það er algjörlega ljóst að ríkisstjórnin hefur ekki í hyggju að halda áfram því starfi sem var unnið á síðasta kjörtímabili. Og ég ætla að fá að segja það sem kjósandi á síðasta kjörtímabili að ég harma það að ég var ekki spurð að því hvort við vildum ganga þá vegferð að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef alltaf verið á móti því að við gengjum í Evrópusambandið og mér þykir það afar leitt að hafa ekki fengið að segja til um það.

Ég ætla líka að svara spurningunni um ótta við stjórnarhætti. Ég hef ekki áhyggjur af því að hér séu óeðlilegir stjórnarhættir frekar en á fyrri kjörtímabilum. Sú ríkisstjórn sem er við völd hverju sinni hefur umboð frá kjósendum til þess að stjórna með þingstyrk sínum og ég býst við að það sé gert núna alveg nákvæmlega eins og á síðasta kjörtímabili.



[14:08]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til þess að eiga orðastað við hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur og þakka henni fyrir að þekkjast boðið.

Utanríkisráðherra sendi nýlega bréf til ESB þar sem hann lýsti því sem hann hefur í fjölmiðlum lýst mjög skýrt sem slitum á viðræðum við Evrópusambandið, þ.e. að núllstilla ferlið, eins og hann orðaði það, að klára þetta þannig að það lendi á núllpunkti.

Nú hefur þetta verið í mikilli umræðu, réttilega. Þingsályktunartillaga var lögð fram fyrir um ári sem fór inn í þingið og voru eðlilega miklar umræður um hana, við erum að tala um Evrópusambandið sem er gríðarlega stórt og umfangsmikið mál. Það fór til hv. utanríkismálanefndar til umræðu og kom aldrei þaðan þrátt fyrir að hv. þm. Birgir Ármannsson sé þar formaður nefndarinnar og úr Sjálfstæðisflokknum.

Því vekja vinnubrögð hæstv. utanríkisráðherra nú víðfræga furðu. Burtséð frá lagaspurningum sem ekki eru enn þá útkljáðar geri ég ráð fyrir því að hv. þingmaður, sem og vonandi við öll hér inni, geri kröfu um virðingu ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi og geri kröfu um virðingu fyrir þingræðinu. Því langar mig að spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um vinnubrögð utanríkisráðherra í þessu máli og ummæli hans og ummæli hæstv. forsætisráðherra og kröfuna um virðingu ríkisstjórnar fyrir Alþingi Íslendinga af hálfu hv. þingmanns.



[14:10]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við greiddum hér atkvæði 16. júlí 2009 um þingsályktunartillögu um að hefja aðildarferli við Evrópusambandið. Sú ríkisstjórn sem þá sat fékk það verkefni og hún framfylgdi því. Þess vegna vil ég taka það fram hér og nú að vegna þess að ríkisstjórn ákvað að fylgja eftir ályktun Alþingis tel ég enn að sú ályktun sé í fullu gildi og enginn geti dregið hana til baka nema Alþingi sjálft.

Ríkisstjórn Íslands, ekki eingöngu utanríkisráðherra heldur ríkisstjórn Íslands, ákvað að utanríkisráðherra færi með umrætt bréf á fund kollega síns í Slóvakíu. Það er ákvörðun ríkisstjórnar Íslands. Það ætti líka öllum að vera ljóst að þessi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur frá upphafi sagt að hún ætli ekki að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er öllum ljóst og hefur öllum verið ljóst frá upphafi.

Ég er ekki sömu skoðunar og hef aldrei verið og hef aldrei legið á þeirri skoðun minni. Ég hef alltaf álitið það rétt minn sem einstaklings og þingmanns að hafa sjálfstæðar skoðanir. Ég er því persónulega ekki hlynnt þeirri leið sem farin er. Ég var heldur ekki hlynnt þeirri leið sem fara átti með þingsályktunartillögu sem lögð var fram í fyrra og átti að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið vegna þess að ég er þeirrar skoðunar, og var það áður en við hófum ferlið og ég er það enn, að það eigi að spyrja þjóðina og aðgangur hennar og aðkoma þings og þjóðar að jafn mikilvægu máli er mér jafn mikilvæg nú og hún var 16. júlí 2009.

Ég ætla ekki að blanda mér í það hvort ríkisstjórn eða einstaka ráðherrar eða þingmenn sýni Alþingi vanvirðu eða ekki. (Forseti hringir.) Fyrir mér ber að virða Alþingi og við erum þeir aðilar, þingmenn jafnt (Forseti hringir.) sem ráðherrar, sem getum hafið þá virðingu(Forseti hringir.) í hæstu hæðir ef við svo kjósum. Við getum líka gert hitt.



[14:12]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þennan dagskrárlið til að eiga orðastað við hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur og þakka henni fyrir að þekkjast það boð að eiga við mig orðastað með þó nokkuð skömmum fyrirvara. Ef marka má ummæli fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna um bréf nokkurt sem hæstv. utanríkisráðherra sendi, sem hefur bæði verið rætt hér í þinginu og í fjölmiðlum undanfarna daga, var megintilgangur þess að eyða óvissu og koma á hreint stöðunni í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það hafi tekist. Metur hún það svo að Ísland sé enn þá umsóknaraðili að ESB eða er hv. þingmaður sammála hæstv. forseta Alþingis sem telur að ályktun Alþingis frá árinu 2009 hafi ekki verið felld úr gildi?

Þá vil ég einnig spyrja hv. þingmann hvort hún telji að hæstv. utanríkisráðherra hafi verið stætt á að senda bréf af þessu tagi án þess að ráðfæra sig fyrst við hv. utanríkismálanefnd. Svo að lokum, vegna þess að auðvitað er alltaf hægt að skipta um skoðun varðandi viðræður við ESB og ólíkir þingmeirihlutar sem og ríkisstjórnarmeirihlutar geti haft ólíkar skoðanir á umsóknaraðild: Er hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir sammála þeirri túlkun hæstv. ríkisstjórnar að hún geti slitið viðræðunum (Forseti hringir.) án þess að leggja fram nýja þingsályktunartillögu en gera það bara svona bréfleiðis?



[14:14]
Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þessar spurningar. Ég held að ég hafi náð þeim flestum niður. Hún spurði hvort ég teldi að bréfið eyddi óvissu og skýrði stöðuna eða hvort það gæfi til kynna að Ísland væri enn þá umsóknarríki. Ég tel að meginskilaboð bréfsins hafi komist á hreint: Ríkisstjórnin hyggst ekki endurvekja aðildarferlið, skuldbindingar fyrri ríkisstjórnar í aðildarferlinu eru ekki lengur gildar í ljósi nýrrar stefnu og Ísland telst ekki lengur umsóknarríki. Í bréfinu er óskað eftir því að ESB geri ráðstafanir sem taki mið af því og þá í framkvæmd þess að styrkja EES-samninginn og eiga nánara samstarf á grunni hans í stað þess að ganga alla leið.

Þetta var mín túlkun þegar ég las bréfið. Hv. þingmaður spyr einnig hvort utanríkisráðherra hafi verið stætt á að senda bréfið en eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom inn á áðan var þetta ákvörðun ríkisstjórnar Íslands. Þetta var borið undir hana áður en ráðherrann sendi bréfið þannig að ég tel að heil ríkisstjórn hafi ekki ákveðið eitthvað sem einum ráðherra hafi ekki verið stætt á að standa að baki.

Hv. þingmaður spurði að auki hvort við höfum skipt um skoðun. Ég tel að stefna ríkisstjórnarinnar sé skýr og í umboði kjósenda munum við fylgja því sem stendur í stjórnarsáttmálanum.



[14:16]
Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ástandið er slæmt á vinnumarkaði eftir hrun efnahagskerfisins þar sem heimilin og fólkið í landinu báru þungar byrðar. Nú hefur sú staða breyst og bjartsýni ríkir á vinnumarkaði og störfum fjölgar. Á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi var hvað harðast og mest er samfélagið enn í sárum, en þau sár munu gróa með samstilltu átaki fólks í atvinnulífinu og góðra starfsmanna. Við erum bjartsýn á Suðurnesjum.

Fjölmennasti vinnustaður á Suðurnesjum, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, er þá undanskilinn þeim góða anda sem ríkir í atvinnulífinu á Suðurnesjum þar sem flestir af 800 starfsmönnum Isavia starfa. Í stuttri sögu Isavia hefur mörgum starfsmönnum verið sagt upp störfum fyrirvaralaust með mjög hörðum aðgerðum, en á mörgum starfsstöðvum fyrirtækisins ríkir ótti og órói á meðal starfsmanna. Fyrirtækið hefur á fáum árum tapað nokkrum málum í Hæstarétti vegna ólöglegrar brottvikningar fólks úr starfi. Þá eru undir 50% starfsmanna ánægð í starfi í fyrirtækinu samkvæmt ánægjukönnun sem fyrirtækið hefur látið gera. Segir það þunga sögu og er mikið áhyggjuefni.

Nýlega var þremur starfsmönnum Isavia í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli sagt upp störfum án ástæðu eða annarrar en skipulagsbreytinga. Þeir sátu einir á móti tveimur yfirmönnum þegar þeim voru sögð ótíðindin og muna varla orð af því sem sagt var vegna áfalls yfir fréttunum. Trúnaðarmaður var ekki boðaður til stuðnings mönnunum. Það er sárt að horfa á fullfríska menn bogna vegna harkalegra aðgerða yfirmanna sem hvergi þurfa að standa skil á verkum sínum. Fjölskyldur þeirra, börn og foreldrar brotna, öryggi heimilisins hverfur og eftir sitja góðir menn í þoku vonleysis og kvíða. Á sama tíma líðst yfirmönnum fyrirtækisins að ganga hart fram í starfsmannamálum og brjóta eigin reglur um siðferði og meðferð fjármuna fyrirtækisins og misnota aðstöðu sína meðan vammlausum starfsmönnum er sagt upp störfum án þess að hafa nokkuð til saka unnið. Í þessu sorglega máli og fleirum (Forseti hringir.) þar sem yfirmenn opinberu fyrirtækjanna ganga hart fram og af offorsi við starfsmenn (Forseti hringir.) er úrbóta þörf.

Virðulegi forseti. Ég trúi því að réttlætið sigri ranglætið í þessu máli.



[14:19]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það er haft fyrir satt að Loðvík XIV., sólkonungurinn svonefndi, hafi sagt: Ríkið, það er ég. Þessi orð lýsa vel hugmyndum hans um opinbert vald. Hann taldi sig ekki þurfa að standa einum eða neinum skil á því hvernig hann færi með það og allra síst fólkinu, almenningi sem bjó í ríki hans, Frakklandi. Um það bil 140 árum seinna var annar stjórnmálamaður uppi, Jón okkar Sigurðsson. Hann leit öðruvísi á málin. Hvað sagði hann um opinbert vald? Jón sagði, með leyfi forseta:

„Þjóðin sjálf á höfuðvaldið og enginn á með að skera úr málefnum þeim, sem allri þjóðinni viðkoma, nema samkvæmt vilja flestra meðal þjóðarinnar.“

Samkvæmt vilja flestra meðal þjóðarinnar. Jón Sigurðsson var fyrir einni og hálfri öld farinn að skilja að innihaldsríkt lýðræði stendur og fellur með því að þeim sem treyst er fyrir því að fara með vald fyrir hönd og í þágu almennings fari með vald sitt af auðmýkt og tillitssemi við fólkið, allan almenning. Ég held þess vegna að Jón forseti hefði hrokkið ónotalega við ef hann hefði verið hér í gær og heyrt hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segja af miklum þótta, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn ræður.“

Skítt með alla þá sem í þessu landi búa og eru ekki sammála mér, hann hefði alveg eins getað sagt það. Loðvík XVI. hefði líklegast kinkað kolli til samþykkis ef hann hefði heyrt þetta.

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að hvetja hæstv. forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra og ríkisstjórn þeirra til að sýna svolitla auðmýkt í störfum sínum, vera í liði með Jóni forseta og læra af honum um auðmýkt og ábyrgð við meðferð valds en varast valdhroka í anda sólkonungsins. Óvirðing gagnvart fólki, yfirgangur og valdhroki, er örugg leið til þess að grafa undan lýðræði. Ég vil trúa því að margir sem þessa ríkisstjórn hafa stutt vilji ekki að valdi sé beitt þannig í þeirra nafni.



[14:21]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera þannig þegar við sjáum vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnar eins og við höfum orðið vitni að að undanförnu að maður velti fyrir sér ástæðunum fyrir því hvers vegna menn þora ekki að leggja fram tillögu um slit á aðildarviðræðum fyrir þingið. Menn hafa haldið því fram hér fullum fetum og í fjölmiðlum að það sé vegna þess að minni hlutinn þvælist fyrir málunum. Ja, heyr á endemi, virðulegi forseti. Það var einfaldlega þannig á síðasta þingi að málið komst í gegnum þingið, það fór til nefndar þar sem það var svæft. Ekki eru menn að velta fyrir sér ótta við minni hlutann þegar kemur að því að rífa út úr nefndum áfengisfrumvarpið, rammaáætlun og fleiri og fleiri mál sem algjörlega er ljóst að ekki ríkir friður um í þinginu. En þegar kemur að þessu máli þá beita menn þeim rökum fyrir sig. Þá gerist það, virðulegi forseti, að hin raunverulega ástæða er að afhjúpast hægt og rólega. Við sjáum þingmann eftir þingmann í stjórnarliðinu stíga fram og lýsa því yfir að þeir séu andsnúnir þessu vinnulagi, þeir séu líka andsnúnir því að umsókn að aðildarferli verði slitið. Ég nefni hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, ég nefni líka hv. þm. Vilhjálm Bjarnason sem beinlínis gengur svo langt að haft er eftir honum á hinum ágæta vefmiðli Hringbraut að þessu megi líkja við siðrof, hvorki meira né minna.

Kann að vera að ástæðan fyrir því að menn eru það huglausir að þeir leggi ekki í að koma með þessa tillögu inn í þingið sé sú að þeir hafi ekki meiri hluta fyrir henni? Er það það sem er að afhjúpast hér, virðulegi forseti? Maður hlýtur að spyrja sig að þessu og þá ekki síst í ljósi þess að þegar tillagan um aðildarumsókn var samþykkt á sínum tíma þá var hún samþykkt af fulltrúum fimm þingflokka, Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Borgarahreyfingarinnar, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það var bara einfaldlega þannig. Um hana ríkti (Forseti hringir.) þverpólitísk sátt.



[14:23]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fara inn á aðeins aðrar brautir, en kannski ekki. Mig langar að ræða skýrslu Samkeppniseftirlitsins, Leiðbeining um samkeppni á dagvörumarkaði. Staða samkeppninnar 2015. Í kafla sem fjallar um að verðhækkanir verði ekki eingöngu raktar til ytri aðstæðna er samantekt með ályktunum og aðgerðum. Mig langar að gera að umræðuefni það sem segir þar m.a. um aðgerðir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að neytendur njóti styrkingar á gengi og bættrar afkomu smásala í gegnum lægra vöruverð.“

Ég held að við getum flest verið sammála um þetta, sem og þá aðgerð að birgjar og dagvöruverslun verði að endurskoða viðskiptasamninga sína með samkeppni í huga. En það stendur líka, virðulegur forseti:

„Stjórnvöld verða að beita sér fyrir aukinni samkeppni, m.a. með opnun markaða og endurskoðun á samkeppnishindrandi ákvæðum búvöru- og tollalaga …“

Það er kannski þetta, virðulegur forseti, sem mig langar að beina orðum mínum að, hvort ekki sé orðið tímabært fyrir okkur að endurskoða jafnt magntolla sem verndartolla, þó ekki sé nema í krónutölu magntollana og í prósentuvís verndartollana og lækka þá hluta báða til hagsmuna fyrir neytendur. Ég sakna þess, virðulegur forseti, í almennri umræðu í samfélaginu, þegar við ræðum kaup og kjör, að ekki skuli komið inn á að með þessum hætti geta stjórnvöld svo sannarlega létt undir með neytendum og fólkinu í landinu með því að lækka í (Forseti hringir.) krónutölu magntolla og í prósentuvís verndartollana.



[14:26]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eiga frumvörp er varða afnám verðtryggingar af neytendalánum að koma inn í þingið núna á vorþingi. Þessi frumvörp eru núna samkvæmt þingmálaskránni í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ríkisstjórnin hefur boðað afnám verðtryggingar af neytendalánum. Fyrstu skrefin í þeim málum eiga samkvæmt frumvörpunum að eiga sér stað snemma árið 2016. Þá verði með öllu óheimilt að bjóða verðtryggð neytendalán til lengri tíma en 25 ára.

Við vinnslu frumvarpanna er varða afnám verðtryggingar hefur verið stuðst við vinnu sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum, bæði meirihlutaálit og sérálit. Tillaga meiri hlutans er meðal annars að bannað verði að veita verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára. Lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur úr fimm í tíu ár og takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðarlána. Einnig verði hvatar auknir til töku og veitingar á óverðtryggðum lánum. Fram kemur að reynsla þessara skrefa verði metin og upp úr því verði mótuð áætlun um fullt afnám.

Tillaga Vilhjálms Birgissonar, sem skilaði séráliti, er meðal annars sú að verðtryggð neytendalán verði með öllu óheimil. Vegna óverðtryggðra lána verði gripið til mótvægisaðgerða eins og til dæmis niðurgreiðslu höfuðstóls fyrstu ár lánstímans. Jafnframt megi nýta séreignarsparnað til að lækka höfuðstól lána en sú aðgerð hefur þegar komið fram í skuldaaðgerð ríkisstjórnarinnar vegna verðtryggðra húsnæðislána.

Í sérálitinu kemur fram að þak verði sett á verðtryggingu eldri lána og er það einstaklega mikilvægt. Langar mig í því samhengi að vitna í ræðu samflokksmanns míns, hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, en hann sagði, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að nú um stundir í hálflokuðu hagkerfi ríki stöðugleiki þá er fram undan afnám hafta og kjarasamningar. Það yrði gríðarleg kjarabót og skynsamlegt innlegg í kjarasamninga að koma böndum á eldri verðtryggð lán og bíða ekki boðanna í að skipta yfir í óverðtryggt húsnæðislánakerfi.“

Þarna erum við hv. þingmaður hjartanlega sammála.



[14:28]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs til að vekja athygli á þeim mikla mun sem er á skilningi formanns Sjálfstæðisflokksins á bréfi utanríkisráðherra, sem frægt er orðið að endemum, og skoðun forseta Alþingis sem gaf hér sérstaka yfirlýsingu um málið í gær.

Í Morgunblaðinu á föstudaginn segir formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við blaðamann sem spyr hvort þetta feli í sér að umsókn Íslands að Evrópusambandinu hafi verið dregin til baka: Ég lít þannig á að málið sé komið algerlega á byrjunarreit. Þá spyr blaðamaður: Þannig að umsóknin hafi verið afturkölluð? Þetta jafngildir því, segir hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Í yfirlýsingu sem forseti gaf hér í þinginu í gær kemur fram að reginmunur sé á þeirri tillögu sem flutt var í þinginu í fyrra, um afturköllun aðildarumsóknarinnar, og því bréfi sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sent forsvarsmönnum Evrópusambandsins. Það er því augljóst að þegar þessi tvö svör eru borin saman er mjög ólíkur skilningur á því innan stjórnarmeirihlutans hvað var á ferðinni með bréfi hæstv. utanríkisráðherra. Auðvitað dregur það fram með afar skýrum hætti að með málatilbúnaði þessum öllum hefur orðið til stjórnskipunarkrísa á milli ríkisstjórnarinnar og þingsins sem fer í raun ekki eftir flokkslínum heldur er skoðanamunurinn mjög áþreifanlegur og djúpur og nauðsynlegt að því sé haldið til haga og vakin athygli á því hér.