144. löggjafarþing — 82. fundur
 19. mars 2015.
ívilnanir vegna nýfjárfestinga.

[10:40]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggur rammalöggjöf um ívilnanir til nýfjárfestinga. Löggjöfin er í grófum dráttum þannig að hvaða fyrirtæki sem er af ákveðinni stærð, svo lengi sem það er ekki staðsett á höfuðborgarsvæðinu, getur sótt um ívilnanir sem gefa afslátt af sköttum og gjöldum upp á allt að 770 millj. kr. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að lítil fyrirtæki eins og sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem hafa ekki mikla fjárfestingu á bak við sig eru ekki tæk fyrir ívilnanir. Þessi litlu en oft ört vaxandi fyrirtæki hljóta ekki náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar til ívilnana, ekki samkvæmt þessum komandi lögum a.m.k.

Vegna þessa atriðis og fjölda annarra er það svo að ívilnanir verða alltaf þannig að þær skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Sum fyrirtæki en ekki önnur fá afslátt á sköttum, sum fyrirtæki fá svokallaðan þjálfunarstyrk í vasann frá ríkinu. Þetta fá fyrirtækin allt upp á þá von að þegar þau verða stöndug fari þau að borga almenna skatta og gjöld. Það hefur ekkert endilega alltaf verið raunin. Við þekkjum umræðuna um álfyrirtækin sem hafa aldeilis fengið hafnir byggðar og stærstu ívilnanirnar, en svo fer allur gróðinn til móðurfyrirtækisins í útlöndum og við fáum lítinn sem engan tekjuskatt.

Þá er það nýjasti samningurinn við Matorku. Ég vil spyrja ráðherrann út í hann, án þess að ég hafi nokkuð við það fyrirtæki að athuga per se. Þar er til staðar blómlegur iðnaður þar sem fyrirtækið er þegar búið að byggja sig upp á markaðslegum forsendum. Ég spyr: Af hverju er ráðherrann að skekkja samkeppnina með ríkisfé? Hvernig getur hún á grundvelli stefnu síns flokks sem talar mikið um frjálst markaðshagkerfi og mátt samkeppninnar staðið fyrir þessu inngripi á markaðinn og skekkt stöðuna á þennan hátt?



[10:42]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Með stefnu ríkisstjórnarinnar viljum við efla samkeppnisrekstur, við viljum efla fjárfestingu og nota til þess öll þau tæki og tól sem við getum. Við getum haft skoðanir á ívilnunum. Hv. þingmaður nefndi að sprotafyrirtæki ættu þess ekki kost með þessari löggjöf að sækja um ívilnanir, en þá get ég upplýst hv. þingmann um það að við erum með aðrar aðgerðir til þess sérstaklega að hvetja til nýsköpunar, veita skattfrádrátt vegna rannsóknar og þróunar. Við erum með samkeppnissjóði, tækniþróunarsjóði og leitum allra leiða til þess að auka nýsköpun.

En aftur að ívilnunum og ívilnunum almennt. Við getum horfið aftur til baka til ársins 1966 þegar fyrsti fjárfestingarsamningurinn var gerður við álverið í Straumsvík. Árið 2007 settist ég á þing og efni jómfrúrræðu minnar á þingi var að fagna því að álverið í Straumsvík óskaði eftir því að losna undan þeim 40 ára sérsamningi vegna þess að skattkerfið á Íslandi væri orðið samkeppnishæfara og betra á þeim tíma en sérsamningurinn. Þangað vil ég stefna. Þangað vill minn flokkur að ríkisstjórnin stefni. En við erum ekki komin þangað. Þá höfum við um tvennt að velja, að veita engar ívilnanir og keppa þá ekki á jafnréttisgrunni við önnur lönd og önnur ríki sem undir t.d. Evrópureglum um ríkisstyrki geta og hafa veitt ýmsar ívilnanir til ýmissa fyrirtækja, eða við getum verið með slíkt kerfi. Það er það sem við höfum ákveðið, að hafa reglurnar almennar og skýrar, nákvæmlega eins og gert var á síðasta kjörtímabili, frekar en að hafa reglurnar þannig að það sé í höndum einstaka ráðherra eða einstakra aðila að veita styrki til þeirra sem þeim eru þóknanlegir.

Ég mun koma að (Forseti hringir.) Matorkusamningnum í seinna andsvari.



[10:44]
Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin. Hæstv. ráðherra talar um að efla fjárfestingu. Ég hefði haldið að besta leiðin til þess og án þess að vera að stýra því með handafli og án þess að hafa einhverjar ívilnanir í því væri að opna landið á ný. Þar með þyrfti ráðherra ekki að sitja undir því að vera sökuð um eða ráðherrar ríkisstjórnar væru sakaðir um að hygla sínu fólki. Þar með væri vandinn leystur.

Sprotafyrirtækin, úr því hún kom inn á það, eru sérstaklega undanskilin í þessum rammasamningi sem ráðherra leggur fram. Þau voru ekki undanskilin í lögunum árið 2010. (Gripið fram í.) Þau voru það ekki. Nei, þau voru það ekki. (Gripið fram í.) Þau eru það út af því að þau hafa ekki þessa fjárfestingu á bak við sig. Það er eðli sprotafyrirtækja og nýsköpunar ef ég þarf að upplýsa ráðherrann um það.

En ég vil spyrja ráðherrann um (Forseti hringir.) samninginn við Matorku. Það liggur fyrir (Forseti hringir.) að í þeim áætlunum sem komu frá fyrirtækinu að þær (Forseti hringir.) eru þannig að þau gefa fyrirtækinu markaðsráðandi stöðu. (Forseti hringir.) Hvernig er hægt að réttlæta (Forseti hringir.) það (Forseti hringir.) í þessu samhengi?



[10:46]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Við getum opnað landið, segir hv. þingmaður. Það er akkúrat það sem verið er að gera, við erum að vinna að því að afnema höftin þannig að það sé sagt.

Það er rangt hjá hv. þingmanni að sprotafyrirtæki séu sérstaklega útilokuð í þessu ólíkt því sem var í fyrri löggjöf. Þessar reglur byggja á ríkisstyrkjakerfi Evrópusambandsins. Þær eru byggðar á nákvæmlega sömu forsendum og á síðasta kjörtímabili. Fyrirtækin þurfa að uppfylla ákveðnar kríteríur hvað varðar fjárfestingu og störf en að öðru leyti geta fyrirtæki í öllum atvinnugreinum sótt um á grundvelli þessarar almennu löggjafar, sem ég vil ítreka samt að er enn þá til meðferðar í þinginu en við höfum unnið þessa samninga og þar með talið Matorkusamninginn á grundvelli þessara almennu heimilda.

Nú er þingið með málið til meðferðar. Ef þingið telur nauðsyn á að takmarka skilyrðin og gera á þeim breytingar hefur (Forseti hringir.) þingið það í hendi sér, en það verður að hafa (Forseti hringir.) í huga að það hefur afleiðingar og getur (Forseti hringir.) orðið til þess að við getum ekki keppt um (Forseti hringir.) önnur verkefni sem (Forseti hringir.) við erum að sækjast eftir að draga hingað til landsins. Menn verða (Forseti hringir.) að hafa það í huga.