144. löggjafarþing — 83. fundur
 23. mars 2015.
norrænt merki fyrir sjálfbæra ferðamannastaði.
fsp. RM, 567. mál. — Þskj. 982.

[17:30]
Fyrirspyrjandi (Róbert Marshall) (Bf):

Virðulegur forseti. Sú spurning sem ég beini hér til hæstv. umhverfisráðherra á vel við því að í dag er það meðal tíðinda að ferðamönnum á Íslandi þykir of mikið af ferðamönnum á Íslandi. Norðurlandaráð ákvað á þingi sínu í Stokkhólmi í október 2014 að beina þeim tilmælum til norrænu ráðherranefndarinnar að kanna sóknarfæri, gera grein fyrir skipulagi og markmiðum og varpa ljósi á leiðir til að setja á laggirnar samnorrænt kerfi til eflingar sjálfbærum ferðamannastöðum og eiga um það samstarf við aðila á Norðurlöndum sem þegar eru að þróa sambærileg kerfi í löndunum og einnig við Svaninn, norræna umhverfismerkið, og einnig að koma upp vettvangi fyrir fulltrúa norrænna yfirvalda á sviðum ferðaþjónustu, menningarmála og umhverfis- og náttúruverndarmála auk umhverfis- og ferðamálastofnana með það að markmiði að þróa tillögur að samnorrænum heitum yfir hugtök á borð við sjálfbæra ferðamennsku og sjálfbæran ferðamannastað og veita ráðgjöf við gerð tillögu um samnorrænt kerfi til eflingar sjálfbærum ferðamannastöðum.

Í rökstuðningi fyrir tillögunni segir að vöxtur í ferðaþjónustu á Norðurlöndum hafi verið meiri en í öðrum atvinnugreinum, u.þ.b. 4% á ári, og er þess vænst að svo verði áfram. Hann er reyndar töluvert meiri hérlendis. Ferðaþjónustan er meðal þeirra atvinnugreina sem búist er við að skapi flest störf í framtíðinni. Rannsóknir á þessu sviði benda til að ferðamenn sækist í auknum mæli eftir því að upplifa einstaka áfangastaði þar sem virk þátttaka þeirra og þekkingaröflun sé höfð í fyrirrúmi. Svæðisbundin framleiðsla og menning mun öðlast aukið vægi og sömuleiðis kröfur um að ferðamennskan setji ekki mark sitt á umhverfi og samfélag. Spurningin er hvort og hvernig megi þróa ört vaxandi ferðaþjónustu án þess að undirstöðurnar bíði skaða af. Reynslan af notkun umhverfismerkja á hótelum er jákvæð og gefur von um að slíkar merkingar megi einnig nota til að votta gæði ferðamannastaða. Síðustu 20 árin hefur oftsinnis verið reynt að festa merkingar eða vottanir fyrir ferðamannastaði í sessi en með takmörkuðum árangri.

Það er af þessu tilefni sem ég beini eftirfarandi spurningum til umhverfis- og auðlindaráðherra:

1. Hafa íslensk stjórnvöld tekið afstöðu til framangreindra tilmæla Norðurlandaráðs um þróun norræns merkis fyrir sjálfbæra ferðamannastaði?

2. Hafa íslensk stjórnvöld beitt sér fyrir því að norræna ráðherranefndin fari að tilmælum Norðurlandaráðs?



[17:33]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina og vil segja að íslensk stjórnvöld hafa verið því fylgjandi að skoðað verði hvort Norðurlönd geti sameiginlega innleitt merki eða önnur viðmið fyrir það sem geti talist sjálfbærir ferðamannastaðir á Norðurlöndum. Nokkur vinna hefur þegar verið lögð í slíka skoðun af hálfu norrænna vinnuhópa um umhverfismál. Við erum svo heppin að það er akkúrat Íslendingur sem hefur stýrt einu slíku verkefni, verkefni um sjálfbæra neyslu og framleiðslu sem íslenska fyrirtækið Environice stýrði og setti fram í skýrslu sem heitir Sustainability certification of the Nordic tourist destinations árið 2012. Í skýrslunni er jafnframt fjallað um tengslin við norræna umhverfismerkið Svaninn sem er hið opinbera umhverfismerki Norðurlanda sem þau hafa rekið sameiginlega með góðum árangri í 25 ár.

Niðurstaða þeirrar vinnu er sú að þetta sé áhugavert en þurfi að vinna frekar, m.a. hvað varðar viðmið um sjálfbærni í samhengi ferðamannastaða, skilgreiningar á ferðamannastöðum, fjármögnun o.fl. Þar gæti reynslan af Svaninum jafnframt nýst svo og önnur verkefni á þessu sviði sem unnið hefur verið að í hverju landi fyrir sig. Eins og þarna kemur fram má kannski segja að það sem helst vantar á sé stöðlun eða viðmið og það er nokkuð flókið að finna það út.

Spurningu númer 2, hvort íslensk stjórnvöld hafi beitt sér fyrir því að norræna ráðherranefndin fari að tilmælunum, má svara svona: Öll tilmæli sem berast frá Norðurlandaráði til norrænu ráðherranefndarinnar eru sett í ákveðinn feril á vettvangi þeirrar ráðherranefndar sem á við hverju sinni. Venjan er sú að það land sem gegnir formennsku á hverjum tíma ber í samráði við hin löndin og skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar meginábyrgð á tilmælum og að tilmælum sé svarað samkvæmt þeim reglum sem gilda um tímafresti og annað. Danmörk gegnir formennsku, eins og ég veit að hv. þingmaður veit, í ráðherranefndinni á árinu 2015 og er þegar hafin vinna við að svara þeim tilmælum sem hér er spurt um. Ekki er hefð fyrir því í samstarfi ríkisstjórnanna að eitt land beiti annað þrýstingi til að samþykkja tilmæli frá Norðurlandaráði en áhersla er lögð á að finna mögulega samstarfsfleti eftir því sem tilefni gefst til og þegar löndin telja augljóst að samvinna feli í sér norrænan virðisauka.

Þau tilmæli sem hér um ræðir komu til umræðu á fundi norrænu umhverfisráðherranna á þingi Norðurlandaráðs í október á síðasta ári. Þar kom fram að ferðaþjónusta og útivist er mikilvæg í öllum löndunum og mikil áhersla er lögð á að hlífa náttúrunni og vernda eftir megni. Einnig kom fram að flest landanna hafa þegar komið á einhvers konar vottunarkerfi, bæði hvað varðar gæða- og umhverfismál, og sums staðar er unnið að þróun nýrra vottunarkerfa sem meðal annars snúa að sjálfbærni.

Ég vona að þetta svari að einhverju leyti spurningum fyrirspyrjanda.



[17:37]
Fyrirspyrjandi (Róbert Marshall) (Bf):

Virðulegur forseti. Það er brýnt að íslensk stjórnvöld hugi að þessum efnisþáttum. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra bendir á, mörg hinna Norðurlandanna hafa komið sér upp vottunarkerfum. Þannig er til dæmis í Noregi Innovasjon Norge búið að innleiða kerfi til að þróa og merkja sjálfbæra áfangastaði. Fjórir staðir hafa hlotið fullnaðarvottun og enn fleiri eru komnir langt í vottunarferlinu. Í Svíþjóð er komið að lokum þriggja ára áætlunar um sjálfbæra þróun áfangastaða sem tekur til fimm staða og það er einnig búið að þróa þar merki sem heitir Swedish Welcome sem er ætlað til ráðgjafar og vottunar með áherslu á gæði og sjálfbæra þróun. Þá hefur danska staðlastofnunin Dansk Standard hafið þróun gæðastaðals á sviði ferðaþjónustu sem áætlað er að verði fullbúinn árið 2016 og á að koma í stað hinna mörgu vottunarkerfa sem fyrir eru. Hér á Íslandi eru sem kunnugt er samtök ferðaþjónustuaðila að þróa merkið Vakinn.

Við förum langt fram úr þeirri aukningu sem hefur verið að meðaltali á Norðurlöndunum, við höfum að jafnaði verið með aukningu á milli ára upp á 9% nema síðustu ár hefur aukningin í ferðaiðnaðinum verið 20%. Ef fram heldur sem horfir verða hér margar milljónir ferðamanna innan örfárra ára. Menn þurfa að huga vel að þessum efnum og það er um að gera að reyna að nýta þá vinnu sem þegar hefur farið í gang og þegar liggur fyrir annars staðar á Norðurlöndunum vegna þess að það er gríðarleg hætta sem fylgir því ef menn vanda sig ekki í þessum efnum. Auðvitað mundi það hjálpa okkur Íslendingum verulega að vera með eitt samhæft vottunarkerfi með hinum Norðurlöndunum sem væri þekkt og gæti staðið fyrir ákveðin gæði í þessum efnum.



[17:39]
umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall kærlega fyrir þetta og tek undir með honum, það er vissulega brýnt að huga að þessum málum öllum saman. Þessi mikla fjölgun ferðamanna kemur okkur nokkuð í opna skjöldu, við erum ekki algjörlega tilbúin. Þess vegna er mikilvægt að við getum nýtt okkur bæði vinnu og reynslu Norðurlandanna í þeim efnum.

Við höfum þetta sameiginlega eins og við vitum undangengin ár með Svaninn og það væri mjög mikils virði að við gætum mótað eitthvað slíkt með norrænu löndunum hér varðandi ferðamennsku. Það er gott að geta skilgreint þessa staði, en eins og ég gat um í fyrri ræðu minni tel ég þetta nokkuð flókið, og flóknara en þó þær reglur sem við höfum til að miða við varðandi Svaninn. Það er mikilvægt að standa að skipulagi, verndaraðgerðum og innviðauppbyggingu fyrir svæði sem mikið álag er á. Þess vegna þurfum við að geta skilgreint ferðamannasvæði, ferðamannastaði. Erum við að velta fyrir okkur svæðum eins og Vatnajökulsþjóðgarði eða erum við bara hreinlega að skipuleggja allt landið?

Það er gott ef við getum haft sameiginlegan norrænan virðisauka varðandi þessi mál og nýtt okkur reynslu þeirra landa sem eru þó lengra komin. Hins vegar vek ég athygli á því að það er líka gagnlegt að hver og einn hafi sitt merki og sína sérstöðu.